Eftir Árna Finnsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2012

Árni FinnssonDagana 20.–22. júní verður haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, Ríó +20, en þá verða liðin 20 ár frá Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun. Enn er óljóst hvort þjóðarleiðtogar sæki ráðstefnuna, enda forðast þeir alþjóðlegar ráðstefnur er gætu leitt til niðurstöðu sem væri langt undir væntingum, sbr. Kaupmannahafnarráðstefnuna í desember 2009. Ekki bætir úr skák að þemu Ríó +20 hafa þótt heldur óspennandi fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta til sín taka í sviðsljósi alþjóðlegra fjölmiðla.

Til þess að auka aðsókn þjóðarleiðtoga – og þar með pólitískt vægi Ríó +20 – hafa augu manna beinst að lífríki hafsins – hinu bláa hagkerfi – sem er ógnað vegna rányrkju, eyðingu kórala og annarra mikilvægra uppeldisstöðva fyrir fisk, að viðbættri eyðileggingu strandsvæða og súrnun sjávar í kjölfar hnattrænnar hlýnunar. [1]

Sú hugmynd að verndun hafsins verði eitt af helstu þemum Ríó +20 nýtur vaxandi stuðnings. Hvort hún dugir til að laða að þjóðarleiðtoga er óvíst á þessu stigi máls, en fyrir 20 árum sóttu 120 þjóðarleiðtogar ráðstefnuna í Ríó. Hvað Ísland varðar er ljóst að enginn forsætisráðherra í sögu lýðveldisins hefur fjallað jafn vandlega um umhverfismál í áramótaávarpi sínu og Jóhanna Sigurðardóttir gerði sl. gamlárskvöld. Borið saman við árið 1992 hefur málflutningur íslenskra stjórnvalda gjörbreyst. [2]

Afstaða og stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart umhverfisverndarsamtökum hefur tekið afgerandi breytingum frá því fyrir 20 árum. Þær breytingar voru staðfestar í fyrra þegar Alþingi fullgilti Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. [3]

Í tillögum Íslands um hverjar skuli vera helstu áherslur lokaplaggs Ríó +20 – fyrsta uppkast að niðurstöðu Ríó +20 – er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld eigi gott samstarf við frjáls félagasamtök (civil society) og að samstarf stjórnvalda við samtök almennings verði eflt, í samræmi við áherslur Dagskrár 21 og þá Framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í Jóhannesarborg árið 2002 og kvað á um, í lauslegri þýðingu:

… að ríki skuldbindi sig til að koma í framkvæmd alþjóðlegum skuldbindingum um sjálfbæra þróun, bæði staðbundið og á landsvísu. Áhrifaríkasta leiðin til þess að það geti orðið er að stjórnvöld eigi virkt samstarf við frjáls félagasamtök um að auka vitund almennings, sem og að alþjóðleg stefnumótun verði tekin upp heima fyrir, á landsvísu, svæðisbundið og á öllum stjórnsýslustigum … [4]

Þessi tillaga Íslands ber vott um vilja stjórnvalda til að gera félagasamtökum kleift að sinna borgaralegu hlutverki sínu heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Á hinn bóginn verður að segjast eins og er, að tortryggni og fjandskapur ráðherra, alþingismanna og embættismanna í stjórnarráðinu í garð umhverfisverndarsamtaka og/eða stefnumiða þeirra hefur í nær aldarfjórðung verið dragbítur á alla umræðu og stefnumótun í umhverfismálum hér á landi.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (1991–1995), Velferð á varanlegum grunni, segir:

Síðastliðna tvo áratugi [5] hefur andstaða á alþjóðavettvangi gegn eðlilegri nýtingu sjávarspendýra stöðugt vaxið. Ýmsum erlendum þrýstihópum hefur með skipulögðum vinnubrögðum og áróðri, sem oft eiga ekki við nein vísindaleg rök að styðjast, tekist að stöðva nær allar hval- og selveiðar. Langvarandi friðun sjávarspendýra mun raska jafnvægi í lífríki hafsins og valda samdrætti í fiskveiðum. [6] Íslensk stjórnvöld telja að fiskveiðiþjóðir þurfi að snúa vörn í sókn og vinna sameiginlega gegn stefnu sem leiðir til ofverndunar einstakra tegunda … [7]

Athygli vekur að þessi stefnuyfirlýsing er samþykkt í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar, en um langt árabil þar á undan höfðu íslensk stjórnvöld háð áróðursstríð gegn umhverfisverndarsamtökum (undir þeim formerkjum að þar væru „erlendir þrýstihópar“ á ferð). Stjórnvöld voru dæmd til að tapa þessu stríði enda beindist það gegn inntaki og markmiði Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992 (10. gr.) [8] um nauðsyn þess að hinn almenni borgari beiti sér fyrir verndun umhverfisins, sem og að stjórnvöld í hverju ríki auðveldi þátttöku almennings í þessu efni. Íslensk stjórnvöld hafa nú lagt til að þetta verði hluti af niðurstöðum Ríó +20, tuttugu árum eftir að það var fyrst samþykkt í Ríó-yfirlýsingunni og var forsenda Árósasamningsins sem gerður var 1998.

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun [9] var að miklu leyti árangur umhverfisverndarbaráttu sjöunda, áttunda, og níunda áratugar síðustu aldar. Hugtakið sjálfbær þróun – sú hugsun að skila jörðinni til næstu kynslóða án þess að takmarka möguleika þeirra til að njóta auðlegðar náttúrunnar – var til marks um að ríki heims viðurkenndu að ef ekki næðist jafnvægi í sambúð manns við móður jörð stæði mannkynið frammi fyrir hruni vistkerfis jarðar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú, 20 árum síðar, á sjálfbær þróun í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru í Ríó de Janeiro árið 1992, enn langt í land. Þess vegna er boðað til Ríó +20.

Í bók sinni Framtíð jarðar, segir dr. Gunnar G. Schram um Ríó-yfirlýsinguna að:

Gildi Ríó-yfirlýsingarinnar felst í því að líta má á hana sem eins konar stjórnarskrá ríkja heims í umhverfismálum á komandi árum. Þar er stefnan mörkuð, markmið sett og nýmæli mótuð sem án efa munu setja mark sitt á löggjöf og framkvæmd ríkja í umhverfismálum á næstu árum og áratugum. Yfirlýsingin er ekki lagalega skuldbindandi fyrir ríki en með því að ljá henni atkvæði sitt hafa ríki veraldar staðfest að þau vilja framkvæma þá stefnu sem í henni felst. [10]

Þótt Ríó-yfirlýsingin hafi ekki verið lagaleg skuldbindandi fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa þær grundvallarreglur sem þar er að finna smám saman verið lögfestar, bæði í einstökum ríkjum og í alþjóðasamningum (varúðarreglan var tekin upp í Úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna). [11]

Leiðarstef Árósasamningsins – sem er skilgetið afkvæmi 10. greinar Ríó-yfirlýsingarinnar – er áherslan á tengsl mannréttinda og umhverfismála. Sú staðreynd að fullgildingarferlið hér á landi skyldi taka rúman áratug er til marks um þann hausverk sem umhverfisverndarsamtök ollu lengi vel í kolli íslenskra ráðamanna. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, lýsti Árósasamningnum svo, að hann væri metnaðarfyllsta tilraun til lýðræðislegrar umhverfisverndar sem ráðist hefði verið í á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna. [12]

Í ljósi alls þessa – að ógleymdri vestrænni lýðræðishefð – er erfitt að skýra á hvaða ferðalagi íslensk stjórnvöld voru þegar þau skilgreindu alþjóðleg umhverfisverndarsamtök sem ógn við hagsmuni þjóðarinnar. Sennilega var tilgangurinn – öðrum þræði – að sannfæra landsmenn um að hvalamálið væri langt því frá tapaður málstaður. Þótt í móti blési um sinn myndi málið vinnast með markvissri kynningu á málstað Íslands erlendis. Á hinn bóginn voru ítrekaðar yfirlýsingar forsætis- og utanríkisráðherra um umhverfisverndarsamtök þess eðlis að þær verður að skoða sem stefnumótandi í utanríkismálum. Í þessari grein verða færð rök fyrir því að þessi stefna hafi beinlínis skaðað hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi.

Rétt er að taka fram að innan stjórnarráðsins var fólk sem vann að umhverfismálum á öðrum forsendum en forustumenn ríkisstjórnar Íslands gerðu í lok síðustu aldar. Á sama tíma og hvalveiðideilan stóð sem hæst hér á Fróni fór fram undirbúningsvinna fyrir Ríó-ráðstefnuna. Á undirbúningsfundum í Genf, Nairobi og New York var tekist á um orðalag Dagskrár 21, Ríó-yfirlýsinguna, Loftslagssamninginn og Samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika sem þjóðarleiðtogar skyldu taka endanlega afstöðu til í Ríó. Af gögnum Greenpeace International má sjá að samstarf samtakanna við fulltrúa Íslands, dr. Gunnar G. Schram lagaprófessor, var mjög gott. Kom þar tvennt til: Í fyrsta lagi hafði dr. Gunnar mjög mikla reynslu af alþjóðlegum samningum vegna undirbúnings Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1982. Í öðru lagi fóru markmið Íslands og Greenpeace að mörgu leyti saman. Að auki var íslenska sendinefndin á fyrstu þremur fundunum fámenn og líkt og fulltrúar margra smárra eyríkja var dr. Gunnar ekki feiminn við að eiga samstarf við umhverfisverndarsamtök. [13]

Davíð Egilson hjá Hollustuvernd ríkisins – þá aðalsamningamaður Íslands við gerð alþjóðlegs samnings um bann við notkun þrávirkra, lífrænna efna – benti á árið 1996 „að Greenpeace-samtökin hafi sömu stefnu og sömu markmið og íslensk stjórnvöld varðandi mengunarmál í hafinu“.14 Á fjórða og síðasta undirbúningsfundi fyrir ráðstefnuna í Ríó gáfu Greenpeace-samtökin út sérstaka yfirlýsingu til stuðnings tillögu Íslands þar að lútandi. [15]

Umræða á þingi

Á meðan fram fór á alþjóðavettvangi umræða um tillögu Íslands um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, líkt og kveðið var á um í Dagskrá 21 – þar sem umhverfisverndarsamtök beittu sér mjög – fóru fram annars konar umræður á Alþingi Íslendinga. Þann 18. mars 1993 sagði til að mynda Árni Mathiesen, síðar sjávarútvegsráðherra:

Það hefur orðið hér umræða um hvernig við eigum að standa að samskiptum við Greenpeace. Þetta eru samtök sem hafa mistúlkað hvalveiðimálin og sjálfsagt önnur mál á allillilegan hátt og þess vegna er það mjög varhugavert að bendla okkur við eitthvert samstarf við þessa aðila. En við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að sumt af því sem þessi samtök segja, er stuðningur við okkar málstað í öðrum málum og því megum við ekki vísa röksemdum þeirra í þeim málaflokkum á bug heldur taka undir þær án þess þó að eiga í nokkru formlegu eða óformlegu samstarfi við þessa aðila (undirstrikun höf.). [16]

Í sömu umræðu sagði eftirmaður Árna í ráðherrastóli, Einar K. Guðfinnsson:

Ég vara mjög við því að við séum yfir höfuð að leggja lag okkar við samtök af þessu taginu sem hafa orðið ber að því í svo stóru máli eins og hvalveiðimálinu að rugla vísvitandi saman staðreyndum, ljúga að fólki, fara frjálslega með upplýsingar og fleira af því taginu. Því miður bendir ýmislegt til þess að í sumu af því sem þeir eru að fjalla um á öðrum vettvangi fari þeir nákvæmlega þannig með staðreyndir sem fyrir þá eru lagðar. Þeir hafa orðið berir að því og uppvísir að því að leika sér að því að nota upplýsingar sem þeir fá, slíta þær úr öllu vísindalegu samhengi en klæða þær hins vegar í gervivísindabúning og segja: Þetta eru staðreyndir málsins. Menn sem þannig vinna eru auðvitað mjög hættulegir í samstarfi og ég held að þrátt fyrir að hægt sé að finna, ef vel er leitað, eitthvað jákvætt í fari þessara samtaka, þá sé það þannig með þessi samtök að eftir að þau hafa unnið með þessum hætti sé það okkar málstað hættulegt að vera nokkuð að leggja okkar lag við þau og þess vegna eigum við einfaldlega að slást fyrir okkar góða málstað í umhverfismálum án þess að hnýta okkur aftan í þessi vafasömu samtök sem Greenpeace eru. [17]

Síðar við sömu umræðu sagði Einar K. Guðfinnsson, að það væri „hreint tilræði við okkar efnahagslega sjálfstæði með hvaða hætti þeir [þ.e. Greenpeace] ráðast t.d. að fiskveiðum og fiskneyslu …“ [18] Spyrja má hvort Einari K. Guðfinnssyni eða Árna M. Mathiesen hefði hlotnast að verða skipaðir sjávarútvegsráðherrar hefðu þeir mælst til samráðs eða samstarfs við „þessa aðila“.

Vorið 1994 átti höfundur þessarar greinar, þá starfsmaður Green­peace ­International, fund með Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi umhverfis­ráðherra, í Gautaborg þar sem Össur var þá staddur í öðrum erindagjörðum. Metnaður umhverfisráðherra var að fylgja eftir tillögum Íslands um alþjóðlegan samning um bann við notkun þrávirkra lífrænna efna en heima á Íslandi snerust umræður á Alþingi helst um hina „svokölluðu alþjóðlegu öfgahópa í umhverfismálum“ [19]er ráðamenn og/eða þingmenn töldu ógna landshag. Umræða um hinar eiginlegu umhverfisógnir var sjaldgæfari á Alþingi Íslendinga. Þó var það svo að einstakir þingmenn og starfsmenn Alþingis leituðu til Greenpeace eftir þeim upplýsingum sem þá vanhagaði um. [20]

Í ágúst sama ár sendu hagsmunasamtök í sjávarútvegi frá sér tilkynningu þar sem þau höfnuðu með ótvíræðum hætti fundarboði Greenpeace-samtakanna um verndun lífríkis sjávar. Í yfirlýsingunni sagði m.a.: „Einnig skora hagsmunaaðilarnir á íslensk stjórnvöld, sé það rétt að þau hafi átt óformlegt samstarf við Greenpeace á bak við tjöldin undanfarin ár, að þau láti af öllu samráði og samstarfi nú þegar.“ [21]

Þann 16. desember 1996 samþykkti allsherjarþing SÞ að halda sérstakt aukaþing til þess að meta þann árangur sem náðst hafði síðan Sameinuðu þjóðirnar héldu Ráðstefnuna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro árið 1992. Mikilvægt er að í samþykkt sinni undirstrikaði allsherjarþingið jafnframt nauðsyn þess að efla þátttöku frjálsra félagasamtaka við undirbúning og framkvæmd aukaþingsins. Þetta var vitaskuld mikilsverð viðurkenning Sameinuðu þjóðanna á framlagi umhverfisverndarsamtaka á borð við Greenpeace, World Wide Fund for Nature (WWF), auk hundraða annarra samtaka sem láta sig varða starf Sameinuðu þjóðanna að umhverfismálum. Þá er ekki eingöngu átt við þau samtök sem hafa ráð á að sækja ráðstefnu SÞ heldur einnig þau sem nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til að hafa áhrif á afstöðu eigin stjórnvalda á alþjóðavettvangi.

Þessi áhersla allsherjarþingsins fór greinilega ekki vel í hérlenda ráða­menn. [22] Ef marka má Morgunblaðið var megináhersla forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, á þessum fundi þjóðarleiðtoga í New York borg eftirfarandi:

… Samstarf við stofnanir, sem ekki tengjast stjórnvöldum, er ákaflega mikilvægt, en einnig er mikilvægt að standast þrýsting óábyrgra umhverfisverndunarhópa sem vilja slíta hin nauðsynlegu tengsl milli umhverfis og efnahags og líta síður á umhverfið sem auðlind fyrir afkomu fólks en verndaða náttúru. [23]

Í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 26. september hið sama ár tók utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, í sama streng og sagði:

Um leið og nauðsynlegt er að ríkisstjórnir heims starfi með sjálfstæðum félagasamtökum er full þörf á að láta ekki undan óvönduðum þrýstingi frá óábyrgum verndunarsamtökum sem vilja rjúfa hin mikilvægu tengsl milli umhverfisverndar og auðlindanýtingar (þýðing Morgunblaðsins 27. sept. 1997).

Í ræðu sinni um utanríkismál á Alþingi þann 7. nóvember þetta ár lýsti utanríkisráðherrann áhyggjum sínum af þeirri vá sem stafaði frá umhverfisverndarsamtökum og varaði við því

… að látið verði undan þrýstingi óábyrgra verndunarsamtaka sem ekki viðurkenna tengslin á milli verndunar umhverfisins og nýtingar auðlinda. [24]

Utanríkisráðherrann nefndi sérstaklega að það veki

… ugg hversu umhverfisverndarsinnum hefur tekist að fá almenning í hinum iðnvæddu ríkjum til að fylkja sér gegn hvers konar nýtingu sjávarspendýra og ýmissa annarra dýrategunda sem ekki eru í útrýmingarhættu …

Stefnan var mörkuð. Ísland – nánast röksemdalaust – lagðist gegn megináherslu sérstaks aukaþings Sameinuðu þjóðanna um eftirfylgni við niðurstöður Ríó-ráðstefnunnar.

Hvaða óvinur?

Deilur um hvalveiðar voru ekki nema að hluta til við alþjóðleg umhverfisverndarsamtök. Í Morgunblaðinu 22. júní 1994 skrifar Björn Bjarnason þingmaður gagnrýni á bók Jóhanns Viðars Ívarssonar, Science, Sanctions and Cetaceans, og bendir á að

Sagan ber þess merki, að Íslendingar hafi verið reikulir í rásinni við gæslu hvalveiðihagsmuna sinna á alþjóðavettvangi. Þeir létu fljótt undan þrýstingi og oftar en einu sinni fór Halldór Ásgrímsson til Bandaríkjanna og samdi þar við ráðamenn um það, hve marga hvali skyldi veiða í vísindaskyni. Báru þær viðræður meira pólitískt yfirbragð en vísindalegt. [25]

Staðreyna má þessi orð Björns Bjarnasonar með lestri dagblaða frá þeim tíma sem vísindaveiðar fóru fram 1986–1989. Það kann að hafa hentað stjórn­málamönnum vel að saka umhverfisverndarsamtök um ofstæki. Ríkis­stjórnin fór hins vegar samningaleiðina við bandarísk stjórnvöld sem voru ávallt mjög staðföst gegn hvalveiðum í vísindaskyni. [26] Spyrja má hvort andúð íslenskra ráðamanna á Greenpeace hafi ef til vill helgast af nauðsyn þess að geta kennt einhverjum um að stríðið um hvalveiðar skyldi tapast. Það hentaði tæpast að kenna Reagan og/eða George H.W. Bush um að sýna vísindunum ótilhlýðilega vanvirðingu.

Á sama tíma og íslensk stjórnvöld vöruðu ákaft við framgangi umhverfis­verndarsamtaka settu menn í gír og stefndu á að Ísland yrði forystuþjóð um nýtingu endurnýjanlegrar orku. En til þess að slæva aðeins stóriðjubroddinn var kúrsinn settur á forystusæti í heiminum við nýtingu vetnis til að knýja bifreiðar. [27] Íslensk stjórnvöld hafa nú viðurkennt að vera eftirbátur nágrannaríkjanna hvað varðar nýtingu á endurnýjanlegu og/eða minna mengandi eldsneyti fyrir bifreiðar. Vetnisútrásin mistókst. [28]

Í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins, Jón Guðna Kristjánsson, þann 10. maí 1997 lýstu Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson, f.v. utanríkisráðherra, skelfingu sinni yfir framgöngu umhverfis­verndarsamtaka sem með aðgerðum sínum vildu knýja alþjóðastofnanir til að hlutast til um nýtingu fiskstofna og notkun veiðarfæra. Í blaðagrein ári síðar skýrði Halldór Ásgrímsson afstöðu sína með eftirfarandi hætti:

Á undanförnum árum hafa Íslendingar orðið þess áþreifanlega varir í hvalamálum og loftslagsmálum, að ekki er hægt að ganga að því vísu að umræður um sjálfbæra þróun í alþjóðlegu samhengi taki ýtrasta tillit til sjálfbærrar þróunar í hinu íslenska samfélagi. [29]

Hér er tengingin við hvalveiðideiluna orðin mun víðtækari en nýting auðlinda sjávar. Umhverfisverndarsamtök – bæði heima og erlendis – höfðu gagnrýnt að ótæpileg losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum stæðist ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Íslensk stjórnvöld unnu að því hörðum höndum að afla undanþágu frá Kyoto-bókuninni sem gerð var í desember árið áður.

Í ræðu á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtökum atvinnu­lífsins) þann 7. maí 1998 skýrði Halldór Ásgrímsson afstöðu Íslands nánar og sagði:

Við getum í reynd staðið frammi fyrir því að geta ekki nýtt fallvötn okkar og jafnvel ekki fiskimið vegna þrýstings á alþjóðavettvangi í nafni umhverfisverndar. Er það umhverfisvernd í augum þjóðar sem á allt sitt undir endurnýjanlegum auðlindum og hefur í ellefu hundruð ár lifað í betri sátt við umhverfi sitt en flestar aðrar þjóðir? [30]

Ekki er unnt að finna skynsamlega skýringu á því hvernig utanríkisráðherra gat komist að þessari niðurstöðu. Kristjáni Loftssyni, eiganda Hvals hf., má e.t.v. vera nokkur vorkunn að halda því fram að næst á eftir hvalveiðum hyggist umhverfisverndarsamtök stöðva fiskveiðar. Hann rekur áróður fyrir sérhagsmunum. En utanríkisráðherra á að tala fyrir þjóðarhagsmunum og hefur að baki sér her diplómata og sérfræðinga til þess að vinna að langtímastefnu. Hitt er mýta að Íslendingar hafi í „… ellefu hundruð ár lifað í betri sátt við umhverfi sitt en flestar aðrar þjóðir.“

Í stefnuræðu sinni á Alþingi þann 4. október 1999 veittist Davíð Oddsson harkalega að umhverfisverndarsamtökum fyrir gagnrýni þeirra á loftslagsstefnu stjórnvalda, Kyoto-málið eins og hann kallaði það. Hann líkti hugmyndafræði slíkra samtaka við hina „… blindu trú í hvalveiðimálinu þar sem við höfum orðið fyrir þrýstingi sem á ekkert skylt við sanna umhverfisverndarstefnu.“

Íslendingar hafa ekki gengið á hönd slíkum skoðunum því þeir eiga allt sitt undir náttúrunni og sannri verndun hennar, þar sem þess er gætt að hún geti nýst manninum með sjálfbærum hætti. Stefna sem birtist með því offorsi sem ég áður lýsti er fyrir aðra en þá sem þiggja lífskjör sín af náttúrunni í þeim mæli sem Íslendingar gera. [31]

Forsætisráðherrann minntist ekki einu orði á efasemdir um niðurstöður Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem hann kynnti í ræðu sinni á gamlárskvöld 1997, tveimur vikum eftir að loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í Kyoto lauk. Gagnrýni forsætisráðherrans var ekki eingöngu sprottin af pirringi vegna viðvarana um yfirvofandi loftslagsbreytingar heldur einnig gremju hans vegna hrakfara eigin ríkisstjórnar við að berja í gegn veitulón á Eyjabökkum án þess að fram hefði farið lögbundið mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Fljótsdalsvirkjunar:

Það gengur þvert á hagsmuni Íslands að falla fyrir þess háttar öfgum. Enda værum við þá að útiloka að njóta ávaxtanna af kostum landsins, hvort sem um er að ræða endurnýjanlega orkugjafa eða önnur gæði sem við verðum að nýta eigi áfram að vera lífvænlegt í landinu. Það duldist engum sem sat í þessum sal að ákvæði sem umhvn. þingsins beitti sér fyrir að sett yrði til að koma í veg fyrir afturvirkni laga um umhverfismat, tók ekki síst tillit til Fljótsdalsvirkjunar. Menn sem að því stóðu eiga ekki að hlaupa frá gerðum sínum í þeim tilgangi einum að slá pólitískar keilur. [32]

Rúmum fjórum mánuðum síðar dró Norsk Hydro sig úr Noral-verkefninu sem fól í sér byggingu 120 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun. Fyrirtækið upplýsti að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneytið hefði farið fram á að það hefði engin samskipti við íslensk náttúruverndarsamtök.

Nýtt hvalveiðistríð eða gamalt?

Í viðtali við Morgunblaðið þann 24. júlí 1998 skýrði Jón Baldvin Hannibalsson, þá sendiherra Íslands í Washington, ótta íslenskra stjórnvalda við auknar áherslur Bandaríkjastjórnar á verndun lífríkis sjávar og að „ástand lífríkis hafsins sé alvarlegra en talið var og að þetta sé jafnalvarlegt eða jafnvel alvarlegra umhverfisvandamál en hlýnun andrúmsloftsins af völdum gróðurhúsaáhrifa.“ Sagði sendiherrann „… mjög margar vísbendingar, sem berast um að umhugsun og umfjöllun bandarískra stjórnvalda sé undir mjög sterkum áhrifum frá þeim öflum, sem þarna vilja ganga lengst.“ Hann telur að hætta sé á að hvalamálið endurtaki sig og bendir á að róttækasta tillagan sé sú að

„… virkja markaðsöflin, í bandalagi við sjónarmið verndunarsinna, nefnilega að setja upp svæðisstofnanir, sem fengju umboð í alþjóðasamningum til að koma á fót vottunarkerfi. Allur fiskur, sem færi á markað, yrði að bera vottorð um að stofninn væri ekki í hættu, fiskurinn væri afurð ábyrgra fiskveiða, úr ómenguðu umhverfi o.s.frv.,“ segir Jón Baldvin og nefnir sérstaklega samstarf náttúruverndarsamtakanna World Wide Fund for Nature og stórfyrirtækisins Unilever um að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. [33]

Sendiherrann talaði hér máli íslenskra stjórnvalda sem virtust ekki taka neitt alvarlega í þessari greiningu nema að bandarísk stjórnvöldu séu „… undir mjög sterkum áhrifum frá þeim öflum, sem þarna vilja ganga lengst“. – Væntanlega er hér átt við öfl sem vilja ganga lengst í verndun.

Í frumdrögum lokaniðurstöðu Ríó +20 segir:

83. We note that despite agreement to restore global fish stocks to sustainable levels by 2015, many stocks continue to be depleted unsustainably. We call upon States to re-commit to maintaining or restoring depleted fish stocks to sustainable levels and to further commit to implementing science-based management plans to rebuild stocks by 2015. [34]

Þetta orðalag er mun skýrara en fram kemur í tillögu Íslands um niðurstöðu Ríó +20. En hvernig má það vera að ríkisstjórn Íslands óttist framgöngu umhverfisverndarsamtaka til að vernda lífríki sjávar?

Ísland leggst gegn eigin tillögu

Árið 2004 var gefin út samræmd stefnumótun íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins. Stefnumótunin var gefin út sameiginlega í nafni sjávarútvegs-, umhverfis- og utanríkisráðherra og var markmið hennar að skýra stefnu Íslands í málefnum hafsins, sem segja má að hafi skarast milli þessara þriggja ráðuneyta og niðurstaðan endurspeglar að nokkru mismunandi áherslur þeirra. Á bls. 9 segir:

Að margra mati hafa frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála átt það til að ganga of langt í málflutningi sínum. Þau hafa í sumum tilfellum afflutt vísindalegar niðurstöður málstað sínum til framdráttar. Getur þetta valdið togstreitu og torveldað annars mikilvægt og gagnlegt samstarf milli aðila. Meðal sumra félagasamtaka gætir einnig verulegrar tilhneigingar til að fella verndun, í auknum mæli, undir hnattræna stjórnun. [35]

Síðan segir að Ísland hafi:

… oft þurft að veita viðnám tilhneigingum til hnattrænnar stjórnunar auð- lindanýtingar, svo sem á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem bornar eru fram ályktanir ár hvert um hafið og hafréttarmál, og í starfi innan alþjóðasamninga sem fjalla um málefni er tengjast hafinu. [36]

Engin nöfn eru nefnd en er ekki líklegt að efst á lista grunaðra séu þau samtök sem ávallt hafa stutt málstað Íslands um aðgerðir til að sporna við mengun hafsins; Greenpeace og önnur slík samtök? Þegar þarna var komið sögu veittu starfsmenn umhverfis- og utanríkisráðuneytisins nokkurt viðnám því á sömu bls. segir einnig:

Félagasamtök eru nú til að mynda virkir þátttakendur á flestum stærri ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna og mörg þeirra hafa ráðið til starfa sérfræðinga á starfssviði sínu. Félagasamtök hafa þannig með samstarfi og þátttöku, í mörgum tilfellum, veruleg áhrif á málflutning ríkja. Mörg félagasamtök hafa hlotið viðurkenningu stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og eru formlegir þátttakendur í mótun stefnu þeirra. Þessi samtök hafa lagt áherslu á að þrýsta á stjórnvöld og stofnanir þeirra að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. [37]

Áherslur umhverfis- og utanríkisráðuneytisins voru til marks um að starfsmenn þessara tveggja ráðuneyta höfðu aðra sýn á alþjóðamál en fulltrúar sjávarútvegsráðherra sem skoðuðu heiminn af kögunarhóli Alþjóðahvalveiðiráðsins. Hinir fyrrnefndu höfðu einfaldlega kynnst starfi Sameinuðu þjóðanna í New York, á ársfundum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, fundum OSPAR-samningsins um verndun lífríkis Norðuraustur-Atlantshafs eða annars staðar þar sem mengun, líffræðilegur fjölbreytileiki eða sjálfbær þróun eru til umræðu þjóða á milli. Þeir skildu mikilvægi og færni frjálsra félagasamtaka til að hafa þau áhrif sem þarf til að halda ríkisstjórnum við efnið og iðulega fór málflutningur slíkra samtaka saman við hagsmuni Íslands.

En þrátt fyrir þessa leiðréttingu á kúrsi stjórnvalda gagnvart frjálsum félagasamtökum var stefnan enn sú að leggjast gegn hvers kyns tillögum umhverfisverndarsamtaka um bætta umgengni við lífríki sjávar. Því fór það svo að árið 2004 lagðist Ísland gegn eigin tillögu um að fram færi hnattrænt mat á ástandi sjávar, ekki ólíkt því sem Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar [38] hefur framkvæmt fjórum sinnum. Tillaga Íslands var lögð fram á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg tveimur árum fyrr og í ræðu sinni á leiðtogafundinum sagði forsætisráðherra, Davíð Oddsson:

Íslendingar fagna einnig þeim árangri sem náðst hefur á þessum leiðtogafundi í þá átt að koma á kerfi á vegum Sameinuðu þjóðanna til alþjóðlegrar upplýsingamiðlunar um ástand sjávarvistkerfisins. Þetta á að gera fyrir árið 2004. Þetta er mikilvægt skref í baráttunni gegn mengun sjávar um heim allan. [39]

Tillaga Íslands var samþykkt [40] en þegar til kastanna kom lagðist Ísland eindregið gegn eigin tillögu á þeirri forsendu að slíkt mat gæti ekki náð til fiskstofna heldur hlyti að takmarkast við mengun sjávar. [41] Ísland varð því utanveltu fyrstu árin í umræðu um eigin tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Viðsnúningur íslenskra stjórnvalda vakti undrun meðal þeirra ríkja sem heitið höfðu stuðningi við tillögu og málflutning Íslands, enda höfðu íslenskir embættismenn leitað stuðnings víða við þessa tillögu. [42] Fimm árum síðar breytti Ísland afstöðu sinni, enda áhrifalaust og einangrað í umræðu um mat á ástandi lífríkis sjávar. [43]

Verstu útreiðina fékk Ísland í kjölfar 61. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna haustið 2006. Ísland kom þá í veg fyrir samþykki tillögu um tímabundið bann (moratorium) við botnvörpuveiðum á alþjóðlegu hafsvæði sem valda eyðileggingu á viðkvæmum vistkerfum eins og kóröllum á hafsbotni og í úthlíðum sjávartinda. Var afstaða Íslanda harðlega gagnrýnd í leiðara Washington Post. [44]

Í fyrsta uppkasti að lokayfirlýsingu Ríó +20 er málsgrein sem mjög svipar til þeirrar tillögu sem Ísland lagði fram 2002 og hafnaði 2004.

79. We endorse the Regular Process for the Global Marine Assessment as a credible, robust process, and support the completion of its first global integrated assessment of the state of the marine environment by 2014. We call for consideration of assessment findings in formulation of national, regional and global oceans policy. [45]

Upphafleg tillaga Íslands var betri en ráðamenn gerðu sér grein fyrir.

Niðurlag

Erfitt er að skýra það hagsmunamat sem lá að baki málflutningi íslenskra stjórnvalda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Staðreyndin er hins vegar sú að verndun líffræðilegs fjölbreytileika, samstarf gegn mengun, alþjóðlegt samstarf um verndun og nýtingu auðlinda sjávar vék iðulega fyrir hugmyndafræðilegri baráttu stjórnvalda gegn málflutningi – jafnvel ímynduðum málflutningi – umhverfisverndarsamtaka.

Hér hefur verið dregið fram að um alllangt skeið stóðu íslensk stjórnvöld fyrir eins konar herferð gegn umhverfisverndarsamtökum á alþjóðavettvangi. Nú ber hins vegar að fagna skýrri og afgerandi stefnubreytingu Íslands gagnvart frjálsum félagasamtökum/umhverfisverndarsamtökum. Þessi stefnubreyting mun vafalaust auðvelda nauðsynlega viðhorfsbreytingu í málefnum hafsins, til að mynda hvað varðar verndun viðkvæmra svæða í djúpum úthafanna fyrir veiðum með botnvörpu, svo eitthvað sé nefnt.

 

 

Tilvísanir

  1. High Seas Alliance Briefing: http://highseasalliance.org/pdfs/HSA-Briefing-may11.pdf. Vef­síða sótt 20. janúar 2012.
  2. Fréttaskýrendur myndu væntanlega gera því skóna að um sé að ræða áherslur ríkisstjórnarinnar fremur en persónulegt framtak forsætisráðherrans.
  3. Aarhus Convention Membership reaches 45: Iceland ratifies far-reaching environmental rights treaty. Sjá: http://www.unece.org/env/pp/news.html. Vef­síða sótt 19. janúar 2012. Sjá einnig Human Rights and the Environment, Philosophical, Theoretical and Legal Perspectives, Linda Hajjar Leib, Leiden, Boston, 2011.
  4. Í framlagi Íslands til undirbúnings Ríó +20 segir: „An important outcome of Rio +20 will be a commitment to implement international policy on sustainable development at the country and local level. This is best done through active engagement of governments with non-state actors and civil society, by increasing public awareness and allowing international policy to feed into national policy making and implementation at all levels. Partnerships for sustainable development need to be strengthened as stressed in Agenda 21 and the Johannesburg Plan of Implementation. Partnering with civil society organizations and businesses can be a productive tool for knowledge and capacity building, financing and innovation. The private sector should also be encouraged to work further towards greening their production and services.“ Sjá: http://www.uncsd2012.org/rio20/content/documents/625ICELAND%20-%20contribution%20Rio20.pdf. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.
  5. Hér er líklega vísað til fyrstu umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972, þar sem samþykkt var að skora á ríki heims að stöðva hvalveiðar.
  6. Þrátt fyrir fjölda dauðra hvala í nafni vísindarannsókna hafa enn ekki verið kynntar neinar niðurstöður til stuðnings þessari fullyrðingu.
  7. Velferð á varanlegum grunni, stefna og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, október 1991.
  8. Grein 10: „Best verður tekist á við umhverfismál með þátttöku allra þegna sem hlut eiga að máli á viðkomandi sviðum. Í hverju ríki skal sérhver einstaklingur hafa aðgang, eftir því sem við á, að upplýsingum um umhverfið sem eru í vörslu opinberra aðila, þ. á. m. upplýsingum um hættuleg efni og hættulega starfsemi í samfélagi þeirra, svo og tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku. Ríki skulu auðvelda og örva skilning og þátttöku almennings með því að veita honum greiðan aðgang að upplýsingum. Raunverulegur aðgangur skal veittur að réttar- og stjórnsýslukerfum, þ.á m. að réttarúrræðum.“ Þýðing Gunnars G. Schram í bók hans Framtíð jarðar, leiðin frá Ríó, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 1993.
  9. United Nations Conference on the Environment and Development (UNCED).
  10. Ibid.
  11. The Rio Declaration, Philippe Sands í The Way Forward, Beyond Agenda 21, ritstjóri Felix Dodds, London 1997.
  12. Sjá: http://www.unece.org/es/press/pr2004/04env_p12e.html. Vef­síða sótt 19. janúar 2012.
  13. Sjá Umhverfisréttur, Gunnar G. Schram, Reykjavík 1993.
  14. „Pólitísk og efnahagsleg áhrif umhverfissamtaka á alþjóðastjórnmál – Greining á áhrifum Greenpeace á Íslandi.“ Kristín Ólafsdóttir, BA-verkefni í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Október 1996.
  15. Greenpeace calls for support for Iceland’s Oceans Protection Proposal, Statement by Greenpeace International, PrepComm IV, New York, March 11, 1992.
  16. Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/116/O3/r18170647.sgml&leito=Greenpeace#word1. Vef­síða sótt 24. janúar 2012.
  17. Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/116/O3/r18163048.sgml&leito=hvalvei%F0ar#word1. Vef­síða sótt 24. janúar 2012.
  18. Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/116/O3/r18163456.sgml&leito=hvalvei%F0ar#word1. Vef­síða sótt 24. janúar 2012.
  19. „Ég fæ alls ekki séð hvaða erindi hvalamálið á í skýrslu um öryggis- og varnarmál. Nema það sé til þess að kasta einhvers konar rýrð á þessa svokölluðu alþjóðlegu öfgahópa í umhverfismálum sem hafa hins vegar margir hverjir unnið mjög þarft starf einmitt í tengslum við höfin, að koma í veg fyrir mengun hafsins og vinna gegn mengunarslysum á hafi úti. Þessir hópar hafa í rauninni stutt við bakið á sjónarmiðum sem Íslendingar ættu að hafa í heiðri. Ég vil benda á nýlega – þó það sé kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að tala um samtökin Greenpeace á alþingi þá ætla ég samt að leyfa mér það og vona að það fyrirgefist og ekki sé svo illa komið fyrir þingmönnum að þau séu bara útlæg gerð úr þingsölum nema í neikvæðri merkingu …“ Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/116/O4/r06180700.sgml&leito=hengds%5C0manns%5C0h%FAsi#word1. Vef­síða sótt 22. janúar 2012.
  20. Greenpeace-samtökin höfðu t.d. þá sérstöðu að hafa á að skipa góðum sérfræðingum um afvopnunarmál.
  21. Sjá Morgunblaðið 6. ágúst 1994. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/149150/?searchid=dadbf2bc6bb034d99fba6b6acb872b7032e3d51d&item_num=13. Vef­síða sótt 25. janúar 2012.
  22. „Við erum nú að undirbúa upplýsingaherferð og höfum leitað eftir samstarfi fjölmargra hagsmunasamtaka í landinu til þess að senda út upplýsingar um stefnu okkar í þessu efni og grundvallarviðhorf og höfum hvarvetna fengið góðar undirtektir. Ég vænti þess að innan skamms geti útsending á þessu upplýsingaefni hafist. Við eigum við ramman reip að draga. Ljóst er að það er mikil andstaða gegn hvalveiðum meðal margra áhrifaríkra þjóða.“ Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra á Alþingi þann 18. mars 1993.
  23. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/339123/?item_num=30&searchid=1ef082d7f99e3db278c80dc04b2be20ac2c3f757. Vef­síða sótt 23. janúar 2012.
  24. http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/raedurHA/nr/920. Vef­síða sótt 23. janúar 2012.
  25. Hrakfallasaga hvalveiða Bækur Alþjóðasamskipti, Björn Bjarnason, Morgunblaðið 22. júlí 1994. Sjá http://www.mbl.is/greinasafn/grein/147396/?item_num=14&searchid=dadbf2bc6bb034d99fba6b6acb872b7032e3d51d. Vef­síða sótt 26. janúar 2012.
  26. Andstaða Bandaríkjanna við hvalveiðar byggir m.a. á því að stjórnvöld í Washington vilja mikið á sig leggja til að Alþjóðahvalveiðiráðið liðist ekki í sundur og að ákvarðanir þess séu virtar.
  27. Sjá Ísland: Forysturíki í umhverfismálum, Morgunblaðið 25. febrúar 1999, http://www.mbl.is/greinasafn/grein/451618/?item_num=19&searchid=f7ead1e13ab327e69fa4ea67e37a1bb3b9e75c2e. Vef­síða sótt 2. febrúar 2012.
  28. Orkustefna fyrir Ísland. Stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu. Iðnaðarráðuneytið, Reykjavík 2011.
  29. Íslensk öld í uppsiglingu, Halldór Ásgrímsson, Dagur 21. apríl 1998.
  30. Sjá: http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/raedurHA/nr/952. Vef­síða sótt 26. janúar 2012.
  31. http://www.forsaetisraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/317 Vef­síða sótt 27. janúar 2012.
  32. Ibid.
  33. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/410407/?item_num=0&searchid=57c75693ea3ae87d44b898a82cd757040261be7b. Vef­síða sótt 27. janúar 2012.
  34. Sjá http://www.uncsd2012.org/rio20/content/documents/370The%20Future%20We%20Want%2010Jan%20clean.pdf. Vef­síða sótt 26. janúar 2012.
  35. Hafið – samræmd stefnumótun um málefni hafsins Sjá: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/utgefid-efni/sjreldra/nr/803. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.
  36. Ibid
  37. Ibid.
  38. International Panel for Climate Change (IPCC), stundum nefnt Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. IPCC stendur ekki sjálf fyrir rannsóknum heldur fer yfir nýjustu rannsóknarniðurstöður um hlýnun andrúmsloftsins og gefur út skýrslur um mat sitt á þeim. Sama hugsun var að baki tillögu Íslands í Jóhannesarborg árið 2002, en þegar til kastanna kom lagðist sjávarútvegsráðherra harkalega gegn því að skýrslur vísindamanna um ástand fiskstofna yrðu teknar með.
  39. Ræða forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, birt í íslenskri þýðingu í skýrslu umhverfisráðherra um niðurstöðu leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg. (Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)
  40. The World Summit on Sustainable Development agreed (paragraph 36 (b) of the Johannesburg Plan of Implementation), to establish a Regular Process under the United Nations for global reporting and assessment of the state of the marine environment, including socio-economic aspects, both current and foreseeable, building on existing regional assessments. The United Nations General Assembly (UNGA) later endorsed that paragraph in paragraph 45 of its resolution 57/141. Sjá: http://www.unga-regular-process.org/index.php?option=com_content&task=view&id=10&Itemid=10. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.
  41. „Íslensk stjórnvöld hafa sem kunnugt er haft alvarlegar athugasemdir við það hvernig umræðan um stofnun GMA [Global Marine Assessment] hefur þróast. Það hafi ekki verið vilji íslenskra stjórnvalda í upphafi að upplýsingar um lifandi auðlindir sjávar [fiskstofna] yrðu hluti af matinu. Þessi afstaða Íslands er tilraun til að koma í veg fyrir að unnt verði að nota GMA sem tæki til að stjórna fiskveiðum á alþjóðlegum vettvangi. Sendinefnd Íslands á fundinum fyrir ári gerði ítarlega grein fyrir þessum sjónarmiðum, en talaði fyrir daufum eyrum. Fyrir fundinn í ár var ljóst að afstaða ríkja til þessa hafði ekki breyst. Var því ákveðið af hálfu íslenskra stjórnvalda að Ísland myndi ekki taka þátt í fundinum að þessu sinni. Þess í stað var skjali þar sem lýst er afstöðu Íslands til málsins dreift í byrjun fundarins sem opinberu skjali S.þ.“ Skýrsla fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um starfsemi 59. allsherjarþingsins 2004 / 2005 http://www.utanrikisraduneyti.is/media/Skyrslur/UN2004-5.pdf. Vef­síða sótt 1. febrúar 2012.
  42. Á vettvangi Sameinuðu þjóðannar er talað um Global Marine Assessment, eða Assessment of Assessment gefur ekki til kynna að matið takmarkist við mengun. Sjá: http://www.unga-regular-process.org/index.php?option=com_content&task=view&id=11&Itemid=11. Vef­síða sótt 1. febrúar 2012.
  43. Sjá http://www.utanrikisraduneyti.is/media/Raedurogerindi/Opnunarrada_GRAME.PDF.   Vef­síða sótt 1. febrúar 2012. Fram kemur að „The main recipients or end-users of the products of the regular process are national governments and intergovernmental organizations at the global and regional levels. M.ö.o. ekki frjáls félagasamtök. Ennfremur, segir að „… the aim of the process is to support existing governance mechanisms by providing information which is relevant to policymaking, but not prescriptive of what policies should be adopted. In other words, our objective in setting up the regular process is neither to supplant nor to complement existing governance mechanisms, but rather to reinforce them. For that reason, care should be taken not to encumber the institutional framework unnecessarily through the setting up of costly, complex and duplicative procedures.“ Í stuttu máli er átt við að hnattrænt mat á ástandi lífríkis sjávar skuldbindi ríki á engan hátt til að gera eitt eða annað.
  44. Forystugrein Washington Post 3. desember 2006:
    Blame Iceland
    A tiny country that still hunts whales scuttles an effort to save the ocean bottom.
    Sunday, December 3, 2006: IN A FORM of fishing known as bottom trawling, huge, weighted nets are dragged across the ocean floor, destroying corals and just about everything else in their path. In U.S. waters, the practice is tightly regulated — and forbidden in certain environmentally sensitive areas. On much of the high seas, however, it‘s open season. Delicate ecosystems get ravaged with nobody paying attention. The Bush administration, along with several other governments, has been pushing for a moratorium on unregulated trawling on the high seas. Last month, thanks in large part to Iceland, it failed to get that measure.
    Iceland did not act alone in preventing a ban: Russia, Japan, China and South Korea joined in. Iceland‘s embassy, in a statement, said it „strongly objects to claims, made by some environmental organizations, that it was in the forefront of blocking consensus“ to ban deep-sea bottom trawling. The denial is disingenuous. In closed-door negotiations, Iceland, along with Russia, took a particularly vocal and aggressive stand against strong action.
    Because the arcane rules of high-seas fishing are largely defined by consensus, even small countries that are genuine moral outliers in world attitudes toward oceans can prevent agreement. The result in this case was a mushy resolution that fell far short of what the administration and environmental groups wanted, which in turn is ominous for efforts to protect marine life in international waters. The world‘s oceans are heading toward environmental collapse, which only bold action will avert. It‘s hard to imagine that happening if a country that hunts whales and has a population smaller than Washington‘s can help block a common-sense proposal to safeguard the ecological health of the ocean floor.
  45. The Future We Want – Zero draft of the outcome document, Sjá: http://www.uncsd2012.org/rio20/index.php?page=view&type=12&nr=324&menu=23. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.