Eftir Úlfhildi Dagsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2019
„Þarna voru stærðfræðileg form sem jafnvel Eviklíð ætti í vandræðum með að nefna – keilur mismunandi óreglulegar og strýtulaga, hjallar í ögrandi hlutföllum, stokkar með undarlegum þrútnum stækkunum, brotnar súlur í furðulegum mynstrum, og fimm arma eða fimm ása byggingar sinnissjúks hryllileika.“[1]
Þessi lýsing úr nóvellu bandaríska rithöfundarins H.P. Lovecraft, At the Mountains of Madness, eða Við hugarfársins fjöll (skrifuð 1931, birtist 1936), er aðeins ein af mörgum afar skrautlegum lýsingum á afmyndunum sem eru svo ógnvænlegar að það að líta þær augum veldur geðrofi og varanlegum andlegum skaða. Samt eru þetta fyrirbæri sem fjöldi fólks hefur séð nýlega í vinsælum sjónvarpsþáttum, nánar tiltekið seríunni Stranger Things (2016–), sem útleggja má sem Undarlegri hlutir. Þar eru sögur Lovecrafts þó hvergi nefndar á nafn, ekki frekar en í þeim fjölmörgu kvikmyndum, bókum, myndasögum og tölvuleikjum þar sem áhrif hans eru alltumvefjandi. Áhrifin eru þó augljós og margskonar, en það er eins og skáldskapur Lovecrafts hafi náð að verða að því sem sálgreinandinn Carl Jung kallaði ‚hina sameiginlegu dulvitund‘, svo víða má sjá ummerki hans. Á sínum tíma (sem var samtími Lovecrafts) hafði Jung í huga goðsagnamynstur og erkitýpur sem birtast í mýtum um allan heim.
En Lovecraft skrifaði ekki um erkitýpur eða mynstur, þvert á móti lagði hann áherslu á óreiðu hverskyns, truflanir sem vekja ótta, óþægindi og óhugnað, og, ef ekki er farið varlega, dauða eða geðsýki. Allt þetta á sér þó upptök í goðsagnaheimi sem hann skapaði sjálfur og snýst um hin Fornu, geimveruguði sem settust að á jörðu löngu áður en mannkynið varð til. Auk hinna Fornu komu aðrar tegundir geimvera til jarðar og áttu í stríði við hin Fornu. Með tímanum breyttust aðstæður og þessar óvættir hörfuðu og földu sig, til dæmis í fjöllum Antartíku sem lýst er í Við hugarfársins fjöll. Aðrar komu sér fyrir neðansjávar og hafa síðan verið duglegar við að komast upp á yfirborðið á ný með því að blandast mönnum. Afkvæmi þessa samruna er fólk sem er ekki aðeins undarlegt í háttum og útliti heldur leggur það sig fram um að breyða út fagnaðarerindi tegundar sinnar – og raunar tegundina yfirleitt. Óhugnaður sagna Lovecrafts felst því að hluta til í því að þessir geimguðir bíða færis að ná völdum á ný, meðal annars með mannfórnum og tegundablöndun.
Howard Phillips
H.P. Lovecraft hét fullu nafni Howard Phillips og fæddist árið 1890. Hann lést aðeins 47 ára að aldri árið 1937. Það eina sem er ljóst um ævi hans er að hann var allsérstæður. Algengt er að álíta að hann hafi verið hommi, þó giftist hann konu en hjónabandið varð endasleppt. Ótti við konur er nokkuð áberandi þema í skrifum hans, þegar þær á annað borð birtast, en kvenkynið er almennt ekki áberandi þáttur sagnanna. Lovecraft var einfari og ekta nörd sem kemur einna best fram í tungutaki skrifa hans sem er fornfálegt og ofhlaðið. Hann gróf upp allskonar gömul orð og stafsetningu sem gerir það að verkum að sjálfur stíllinn er gróteskur, líkt og viðfangsefnið. Í þessu birtist hvað best aðdáun hans á verkum bandaríska skáldsins Edgars Allans Poe, en hann skrifaði ritgerð um list smásögunnar og lagði þar áherslu á að hvert orð í smásögu yrði að þjóna þeirri tilfinningu sem sagan ætti að lýsa og framkalla. Auk Poes hafði Lovecraft mikið dálæti á evrópskum drauga- og fantasíuhöfundum, sérstaklega enskum.
Ennfremur er talið ljóst að Lovecraft hafi verið haldinn miklum kynþáttafordómum, sem kemur greinilega fram í því hvernig hann lýsir blöndun tegunda sem afar ógeðfelldu fyrirbæri. Mögulega er þetta ástæða þess hversu lítið er gert í því að nefna nafn Lovecrafts í þeim mikla fjölda skáldverka sem sækja svo augljóslega innblástur í skrif hans.
Á þeim tíma sem Lovecraft var sem virkastur var ekki gerður mikill greinarmunur á hrollvekju, vísindaskáldskap og fantasíu, þetta var allt gefið út í ‚pölp‘-tímaritum sem kenndu sig við það sem á ensku var nefnt ‚weird‘ og þýða má sem hið furðulega. Þegar leið á tuttugustu öldina var svo farið að aðgreina verkin og þannig urðu til þrjár greinar furðusagna. Ætla má að forsendurnar fyrir þessu hafi verið hugmyndin um formúlu: afþreyingarbókmenntir fylgja formúlum og þær eru síðan aðskiljanlegar niður í tilteknar greinar: hetjusagan fylgir fantasíunni, hryllingurinn hrollvekjunni, vísindin vísindaskáldsögunni og svo framvegis. Allt er þetta mjög þægilegt og aðgengilegt, ekki síst þegar fella á dóma yfir verkunum, því í stað þess að eyða miklum tíma í að fjalla af viti um bók, þá er einfaldlega hægt að segja: ‚þetta er dæmigerð hrollvekja‘ og ekki þörf á að ræða það frekar. Þetta er auðvitað bara bull. Þrátt fyrir að greinarnar séu vissulega til og hafi jafnvel verið það lengi, þá hafa þær aldrei verið sérlega greinargóðar. Ekki bætti úr skák að í kringum aldamótin 2000 fór þessi handhæga aðgreining að raskast og höfundar, meðal annars Joss Weedon, Charlaine Harris og China Miéville, fóru að skrifa sögur sem sóttu jafnt í hrylling, ævintýri og vísindi og þá var furðusagnahugtakið endurnýjað og hefur síðan fitnað eins og púkinn á fjósbitanum með ýmiskonar greinablöndun í hinum ólíkustu og ólíklegustu verkum. Eins og til dæmis Stranger Things.
Vinsæll einfari
Þótt Lovecraft hafi verið einfari átti hann fjölda pennavina, en hann skrifaðist á við aðra rithöfunda og lesendur sína. Hann eignaðist fljótt öflugan aðdáendahóp, ekki síst meðal rithöfunda sem skrifuðu verk innblásin af hans og varð úr því heill skóli sem enn má sjá merki um í nýjum furðusagnaskrifum. Sem dæmi má nefna Stephen King sem var undir miklum áhrifum frá Lovecraft, einnig Robert Block sem þekktastur er fyrir að skrifa skáldsöguna Psycho sem kvikmynd Hitchcocks byggir á. Annað þekkt dæmi eru Batman-myndasögurnar – og kvikmyndirnar – en Arkham-hælið, þar sem helstu óvinir Blökunnar dvelja (allavega stundum), er ættað frá Lovecraft. Lovecraft lét sér nefnilega ekki nægja að skapa heimsmynd fulla af geimverskum forverum manna á jörðu heldur bjó hann til borg, Arkham, þar sem allskyns undarlegir atburðir gerast. Einnig má nefna myndasögurnar – og kvikmyndirnar – um Hellboy, en höfundar þeirra sækja mjög í sjóði Lovecrafts. Í fyrstu bókum Terry Pratchett eru Lovecraftísk skrýmsl og ekki má gleyma zombíunum, en ein þekktasta saga Lovecrafts fjallar um einbeittar tilraunir ungs læknanema til að endurlífga dauða, með fyrirsjáanlega skelfilega (vel) heppnuðum afleiðingum. Og svona mætti lengi telja.
Í fyrrnefndu verki, Við hugarfársins fjöll, er að finna einna nákvæmustu lýsingu á geimgoðafræðinni sem liggur á bakvið mikið af sögum Lovecrafts. En hann fjallaði ekki aðeins um hrylling í skáldskap sínum, heldur skrifaði hann einnig ítarlega ritgerð um uppsprettu óttans. Ritgerðin nefnist „Supernatural Horror in Literature“ eða Yfirnáttúrulegur hryllingur í bókmenntum og er skrifuð árið 1927. Þar setti hann fram kenningar sínar um hrylling, en þær ganga út á það sem hann kallar „cosmic fear“, eða óttann við hið ókunna í hinum stóra heimi. Þetta birtist vel í sögunni „Kall Cthulhu“ sem hefst á svofelldri lýsingu:
Ég held að mesta miskunn sem mannkyninu hafi verið sýnd er vangeta þess að setja alla vitneskju sína í samhengi. Við erum stödd á friðsælli eyju þekkingarleysis, í miðju svartahafi eilífðarinnar og okkur var ekki ætlað að ferðast langt þaðan. Vísindagreinar halda kappsamar hver í sína átt og hafa hingað til ekki verið okkur til mikils ama, en dag einn munum við púsla saman brotakenndri þekkingu okkar og uppgötva hversu veruleikinn er hræðilegur. Þá fyrst munum við sjá hve staða okkar er ógnvekjandi og við það missum við annaðhvort vitið eða flýjum ljós opinberunarinnar aftur í öryggi og frið nýrrar myrkrar aldar. (27)
Fyrir Lovecraft byggir þessi kosmíski ótti á þeirri einföldu jöfnu að óvissa þýði hættu sem geri það að verkum að hinn óþekkti heimur er mögulega fullur af allskonar illsku. Við þetta bætist svo óhjákvæmileg forvitni um hið óþekkta. Það má sjá trúarlega þræði í því hvernig Lovecraft lýsir því að ótti við hið óþekkta sé innbyggður í manninn, en hann er jafnframt á mörkum lotningar. Þannig er yfirnáttúrulegur hryllingur aðlaðandi að því leyti sem hann vekur upp tilfinningu lotningar sem staðfestir djúpstæða sannfæringu mannskepnunnar um heiminn, sumsé að hann innihaldi víðtæk ókunn öfl. Lovecraft telur ennfremur að þessi hæfileiki til lotningar hafi verið eyðilagður í nútímasamfélagi sem sé gegnsýrt af efnishyggju, en fólk sem er sérlega næmt getur upplifað þessa kosmísku lotningu og ótta gagnvart uppgjöf náttúrulögmálanna við árás kaótískra og demónskra afla utan úr geimi.[2] Þetta fólk eru listamenn og rithöfundar, og ritgerðin felst svo í yfirliti Lovecrafts yfir sögu gotnesku skáldsögunnar þar sem hann telur til þá höfunda sem hann segir búa yfir réttri næmni. Edgar Allan Poe er úthlutað sérstökum kafla.
Hugmyndir Lovecrafts um hrylling og ótta birtast í öllum sögum hans í meira eða minna mæli og áherslan er fyrst og fremst á tilfinningu, að skapa andrúmsloft sem vekur upp tilfinningar tengdar þessari kosmísku ógn, illsku og lotningu. Eitt af því sem er áhugaverðast við kenningu Lovecrafts er að hann reynir að gera grein fyrir heillunaráhrifum hryllings og þannig galdrar hann fram lýsingu á tilfinningu sem furðusagnaaðdáendur kannast við, þar sem takast á ótti, jafnvel ógeð, og knýjandi þörf fyrir að fara lengra og lengra inn í það sem vekur þennan ótta. Til er fjöldi kenninga um að hrollvekjandi skáldskapur sé leið til að upplifa ógnir og illsku í öruggri fjarlægð en fyrir Lovecraft er þetta raunveruleg tilfinning sem finnur sér farveg í skáldskap.[3]
Undarlegri hlutir
Þeir sem hafa séð sjónvarpsseríuna Stranger Things kannast væntanlega strax við ýmislegt úr þessum lýsingum. Fyrir það fyrsta sver óvætturin sig klárlega í ætt við geimguði Lovecrafts, sem eru alltaf með of marga arma, höfuð og munna og minna almennt séð á „byggingar sinnissjúks hryllileika“. Í stuttu máli er söguþráður þáttanna sá að drengur hverfur sporlaust kvöld eitt á leið heim til sín. Jafnframt er kynnt til sögunnar stúlka sem hefur yfirnáttúrulega krafta og getur fært hluti úr stað með hugaraflinu. En það er ekki bara hinn kunnuglegi efnisheimur sem kraftar hennar hafa áhrif á, því hún rýfur himnuna sem skilur að heim raunveruleikans og myrkraheim handan hins röklega. Myrkraheimurinn er afskræming á heimi raunveruleikans, þeir eru spegilmynd hans sem heimsendalegrar auðnar og þar leika lausum hala óvættir sem þrá það eitt að taka raunheiminn yfir og gera hann að sínum. Þessi heimur er önnur vídd, ekki ólík hinum ógnvænlega geimi sem Lovecraft ræðir í sögum sínum, en algengt þema er hugmyndin um himnur eða hlið sem skilja heimana að. Þessi hlið eru ýmist leituð uppi eða þá að persónur rekast óvænt á þau, líkt og gerist í Stranger Things. Ógeðið ræður ríkjum handan hliðsins, verurnar og umhverfi þeirra er gert úr ókennilegu efni sem virðist hálflífrænt, lifandi myrkur sem skríður út um allt og dreifir sér.
Stúlkan, sem vel má sjá sem dæmi um ‚næman‘ einstakling, veldur þessu rofi milli heimanna ekki viljandi, hún hefur verið ‚ræktuð‘ af geðsjúkum vísindamanni (sem eru einmitt víða í verkum Lovecrafts). Markmiðið er auðvitað hernaðarlegt, en þættirnir gerast á tímum kalda stríðsins á níunda áratugnum. Hún sleppur frá kvalara sínum og slæst í hóp með nokkrum smástrákum (seinna bætist stelpa í hópinn) til að berjast gegn óvættunum og ná til baka vini þeirra sem hefur verið rænt yfir í handanheiminn. Við sögu koma einnig afar taugaveikluð móðir drengsins og drykkfelldur sorgmæddur lögreglustjóri í bænum, auk nokkurra unglinga.
Þættirnir ganga út á þetta, svo og það hvernig hið upphaflega rof milli heimanna veldur ýmiskonar óreiðu í raunheimum, fleira fólk hverfur, auk þess sem óvættirnar ná að smygla sér á milli, ýmist með smiti, neðanjarðarstarfssemi eða í krafti samviskulausra yfirvalda sem halda áfram að reyna að virkja hernaðarlega möguleika myrkraheimsins. Það er þó alltaf ljóst að fulltrúar myrkraheimsins þjóna aðeins eigin hagsmunum, sem eru, eins og fyrr segir, að taka yfir heiminn allan og endurskapa hann í sinni mynd. Að því leyti eru þeir greinilega skyldir hinum Fornu, geimguðum Lovecrafts, sem bíða stöðugt færis að taka jörðina yfir á ný. Það er líka athyglisvert að þekkingin og vísindin leika lykilhlutverk í því að gefa óreiðunni aðgang, líkt og lýst er í upphafi sögunnar „Kall Cthulhu“ hér að ofan.
Húm, rökkur og vættir – og Hugleikur
Þeir sem ekki þekkja til Stranger Things gætu hafa séð ummerki heimsmyndar Lovecrafts í vinsælum myndasögum Hugleiks Dagssonar, en hann nýtir sér ýmislegt þaðan, iðulega þó með þeirri blöndu af íróníu og (krútt)hryllingi sem einkennir meginhluta verka hans. Húmor einkennir líka Stranger Things og mörg önnur verk sem sækja til Lovecrafts. Reyndar er mikill húmor í skrifum Lovecrafts, þó að það sé ekki með öllu ljóst hvort hann sé meðvitaður. Hrollvekjan hefur iðulega átt samleið með húmor sem birtist í grótesku af ýmsu tagi. Þetta þýðir þó ekki að húmor fylgi alltaf Lovecraftískum áhrifum, þvert á móti hafa helstu fylgjendur hans lagt áherslu á makt hins myrka og veldi illskunnar.
Fyrir utan myndir Hugleiks hafa áhrif Lovecrafts ekki verið áberandi í Íslenskum bókmenntum, enda er þar, því miður, fátt um fína drætti þegar kemur að hrollvekjum og furðusögum. Þó eru nokkur sláandi dæmi frá þessari öld sem sýna að hin Fornu ganga ljósum logum um sameiginlega dulvitund íslenskra hrollvekjuhöfunda – og -lesenda. Árið 2004 sendi Jökull Valsson frá sér hrollvekjuna Börnin í Húmdölum. Jökull sækir sér greinilega innblástur í verk Stephens King, meðal annars með því að hafa börn sem aðalsöguhetjur og undirstrika þannig óhugnaðinn. Börn standa líka á mörkum heima, (ævintýralegrar) bernsku og hins röklega heims fullorðinna, og eru því kjörið verkfæri hryllingsins. Sögusviðið er risastór blokk á útjaðri borgar þar sem býr sundurleitur hópur fólks sem á það helst sameiginlegt að vera fremur blankur og mega sín lítils í samfélaginu. Og svo auðvitað börnin þeirra. Allt upphefst þetta með því að börnin dreymir illa. Í kjölfar draumanna fara þau svo að verða vör við að eitthvað ókennilegt er á seyði í skápum og undir rúmum. Að sjálfsögðu taka foreldrarnir ekki mark á slíku og því verða börnin að taka til sinna ráða. Hægt og hægt kemur í ljós að hér er eitthvað ekki eins og það á að vera, fólk hverfur eða byrjar að hegða sér undarlega. Í ljós kemur að þessir dularfullu atburðir virðast tengjast dreng sem á heima á efstu hæðinni með blindri ömmu sinni, en hann býr yfir einkennilegum kröftum sem gera honum kleift að hreyfa hluti með hugaraflinu.[4]
Það er ekki erfitt að sjá líkindi með sögu Jökuls og Stranger Things og sömuleiðis er margt í sögunni sem ættað er frá Lovecraft. Hér er lýsing á skrýmsli sem hefur náð að vefja köldum og slímugum griparmi um ökkla eins drengsins:
Í tunglsljósinu greindi hann tvær stórar, hvassar og kolsvartar klær smeygja sér yfir efstu brún rúmsins. Svo horfði hann með hryllingi á skjannahvítt, hrjúft og afmyndað höfuð rísa upp á milli klónna. Rauðu augun þrjú sátu hátt á höfðinu, djúpt sokkin inn í hvítt holdið, og fyrir neðan þau var kringlótt op […] [Ó]freskjan […] líktist engu sem Nonni hafði séð áður […] Hún var bústin og afmynduð […]. Höfuðið mjókkaði að aftan og skipti um lit, varð að þykkum, eldrauðum hala sem teygði sig yfir rúmið og áfram inn í myrkrið. Og fyrir ofan augun stóð hvítur fálmari út úr höfðinu og bærðist til og frá.[5]
Svo halda lýsingarnar áfram með tilheyrandi ógeði, tungur skjótast út úr sístækkandi kjaftinum og tennurnar eru eins og rakvélarblöð. Þetta er greinilega óvættur sem enginn vill komast í návígi við en samt berjast börnin hetjulega. Það sem vekur sérstaka eftirtekt er áherslan á að veran líkist engu sem sést hefur áður, en sögur Lovecrafts eru uppfullar af yfirlýsingum um það hvað allt sé ólýsanlegt af því að það líkist engu. Hann segir iðulega að geimskrýmslin séu svo skelfileg að mannlegur hugur eða tungumál geti ekki náð utan um þau. Samt er heilmikið af lýsingum á þeim sem á stundum verða einskonar and-lýsingar, og þar kemur aftur til beiting tungumálsins, áhersla á óvenjuleg orð og svo hreinlega hið geimverska tungumál sem Lovecraft smíðar sjálfur.
Rökkurhæða-sería þeirra Birgittu Elínar Hassell og Mörtu Hlínar Magnadóttur telur níu bækur, sem komu út á árunum 2011–2017. Þetta eru hrollvekjur, ætlaðar unglingum. Hryllingurinn er hæfilega blandaður fantasíu en höfundarnir hafa búið til heilan heim, sem þó er ekki hreinræktaður ævintýraheimur, heldur einskonar hliðarveruleiki, staðsettur innan hins íslenska. Þetta eru Rökkurhæðir, sem var einu sinni þorp en er nú úthverfi í borginni Sunnuvík. Í hverfinu er dálítið undarleg stemning, því á hæðum yfir því eru rústir háhýsa sem eiga sér einhverja dularfulla sögu – hér má sjá tengsl við Húmdalina. Og það er sannarlega margur óþverrinn í Rökkurhæðum, bæði óhreinir andar og aðrar óvættir. Sögurnar sækja allmikið til íslenskra þjóðsagna en einnig er gefið til kynna að þeir óhugnanlegu kraftar sem sköpuðu rústirnar á hæðinni nýti sér þjóðsagnaverur og ævintýri til að finna sér birtingarmyndir.
Aðalsöguhetjurnar eru unglingar og börn, eins og í Stranger Things og Börnunum í Húmdölum. Þau eru þó orðin nokkuð eldri, 13–15 ára. Sögurnar eru allar sjálfstæðar en tengjast innbyrðis og þannig byggist upp hinn skáldaði heimur Rökkurhæðanna. Í sjöundu bókinni, Atburðinum, er sagt frá því sem átti sér stað á hæðinni áratugum áður en hinar sögurnar gerast. Líkt og í sögu Jökuls eru það börnin sem byrja að finna að eitthvað er ekki í lagi, þau dreymir illa og uppgötva að draumarnir smitast inn í daglega lífið. Fullorðna fólkið er líka farið að haga sér undarlega og ekkert er eins og það á að vera. Börnin taka sig til og ráðast til atlögu við óvættirnar, en þær búa í klettum nálægt blokkahverfinu: „[V]eggurinn varð gegnsær og það byrjaði að móta fyrir iðandi skuggum, rétt hinum megin við örþunn skilin. Skilin milli þeirra og skrímslanna.“[6] Börnin horfa inn í vegginn og sjá þar allskonar skemmtileg fyrirbæri, prinsessu, álfadrottningu, kærleiksbirni og látna ástvini. Þau laðast að veggnum og þegar fótur eins drengsins kemur við hann „tóku óvættirnar viðbragð. Veggurinn gekk í bylgjum eins og þegar eitthvað risavaxið syndir rétt undir yfirborðinu á vatni“ (159–160). Veggurinn rifnar upp og sogar börnin inn, og um leið „skókst jörðin eins og hún hefði fengið kröftugt spark“ (161). Eitt stúlkubarn reynir að halda sér í eitthvað, en hreyfingin bakvið vegginn eykst og „breyttist í iðandi skrímslakös sem minnti hana á martraðirnar undanfarnar vikur, lifandi martröð með fálmara sem gripu utan um mittið á litlu stelpunni, kipptu henni að opinu og tróðu henni svo fyrirhafnarlaust ofan í risastórt gin fullt af oddhvössum tönnum“ (161).
Jarðskjálftarnir halda áfram og háhýsin hrynja. Ófreskjunum tekst þó ekki alveg að sleppa út, þó að ummerki þeirra sjáist víða í Rökkurhæðum eins og fyrr segir. Síðustu tvær bækurnar í seríunni lýsa svo uppgjöri og átökum við fortíð og forynjur.[7]
Lovecraftísk einkenni eru enn á ferð í skáldsögu Alexandar Dan, Vættir (2018). Þar er þó brugðið upp nokkuð annarri sýn en í fyrrnefndum verkum. Sagan er sögð í fyrstu persónu af ungum manni sem býr í miðbæ Reykjavíkur. Hann er einrænn og finnur ekki mikinn tilgang í tilverunni. Borgin er full af ferðamönnum sem láta teyma sig um í hópum til að hlusta á sögur um álfa og yfirnáttúrulegar verur en sagan gengur út á að borgin er full af vættum, allskonar yfirnáttúrulegum fyrirbærum sem minna minnst á álfa: „Það hringlar í trénu. Það er sem örfínar bjöllur klingi í vindinum. […] Líkami [vættarinnar] er eins og köngull með laufskrúðugan hárlubba, útlimirnir eru undnar greinar og þykkar rætur. Hún hangir á trjábolnum með klónum. Hún er með mosagróna steingrímu yfir andlitinu og hreyfir sig í snöggum kippum, eins og fugl eða skordýr“.[8]
Almennt séð gera borgarbúar allt sem þeir geta til að þykjast ekki sjá vættirnar en sögumaður ræður þó ekki alltaf við sig:
Ég beygi niður Bankastrætið. Neðar í götunni stendur vættur, jafn há og ljósastaurarnir. Hún er leggjalöng, fæturnir eru eins og á langfætlu, tveir mjóir stífir útlimir með hvössum hnjám. Vætturin situr á hækjum sér, með hvorn fót sínu megin við götuna og hleypir bílaumferðinni í gegnum klofið á sér. Búkurinn er lítill og þakinn einhverju. Fyrst finnst mér hún vera loðin, en svo sýnast mér þetta vera lítil augu á stiklum sem bifast í andvaranum. (40)
Hann flýr inn á bar og það á eftir að verða örlagaríkt, hann hittir stúlku sem fer með honum heim. Morguninn eftir áttar hann sig á að stúlkan er vættur, hún er með selsham í töskunni. Svo rekur hann augun í að kviður hennar er þaninn, en hafði áður verið rennisléttur, og spyr hvort hún sé barnshafandi eftir sig:
Hún kinkar snöggt kolli.
„En það er ómögulegt,“ segi ég.
Hún brosir til mín með vott af vorkunn, eins og ég hafi sagt eitthvað heimskulegt. Hún snýr sér við og svo er hún farin. (52)
Vísað er til þjóðsagna á margvíslegan hátt, líkt og í Rökkurhæðum, sem kemur meðal annars fram í notkun orðsins vættur, en samkvæmt orðabók er það til í kvenkyni og karlkyni. Kvenmyndin er algengari, oft sem neikvæð; óvættur eða illvættur. Það er athyglisvert að þótt vættirnar í Vættum séu iðulega bæði óhugnanlegar og ógeðfelldar þá er þessi algenga neikvæða mynd fjarri og í staðinn er orðið notað á hlutlausan hátt sem lýsing á yfirnáttúrulegri veru. Með því að nota þetta orð opnar Alexander fyrir aðra sýn á hina Lovecraftísku heimsmynd.
Furður og sögur
Þessi þrjú dæmi eru lýsandi fyrir margvísleg áhrif verka Lovecrafts sem virðast virka á sama hátt og sameiginleg dulvitund Jungs.[9] Nú skal ekki sagt hversu vel þessir höfundar eru lesnir í verkum Lovecrafts, en það skiptir ekki máli í þessu samhengi. Eitt einkenni bókmenntagreina er samtal milli sagna, segja má að furðusagnahefðin þrífist á sjálfsáti, að því leyti að tilvísanir og textatengsl eru mikilvægur þáttur í byggingu og upplifun verkanna. Höfundar spara sér heilmikið með því að vísa í þekkt verk og tilvísanirnar þjóna einnig því hlutverki að lokka lesendur inn í furðuheiminn – og bjóða þeim svo upp á bland af nýjum og kunnuglegum undrum og ógnum.
Og það er einmitt þessi kunnugleiki sem opnar fyrir mestu ógnirnar, ekki þó í hinum Freudíska skilningi (sem Lovecraft var ekki hrifinn af), heldur að því leyti að allar þessar furðusögur vinna með hugmyndina um undarlegri hluti. Til þess að hlutir geti verið óþekktir, ógnvænlegir og undarlegri þarf að byrja á ofurvenjulegum grunni. Þetta er það sem gerir Stranger Things svo áhrifamikla – og skemmtilega – seríu, nýtingin á því sem áhorfandinn þekkir. Þessi þekking er tvöföld, annarsvegar felst hún í smábæjarsamfélaginu með öllum sínum kunnuglegu karakterum og hinsvegar í hinum fjölmörgu kvikmyndum (og tónlist) frá þessu tímabili, meðal annars myndum byggðum á sögum Stephens King. Inn í þetta auðþekkjanlega mynstur er svo smyglað Lovecraftískri upplausn. Við skynjum smæð okkar gagnvart ógnum hins óþekkta og allt fer á ská og skjön, en eins og áður segir er lykilatriði í verkum Lovecrafts að þar er brotið algerlega á öllu því sem einkennir okkar ferköntuðu sýn á veruleikann. Allar línur skekkjast, bæði bókstaflega í hinum fjölmörgu innsýnum í handanheiminn og líka samfélagslega þegar hefðbundin samskiptamynstur ruglast. Lykilatriði í þessu er hinn óáreiðanlegi sögumaður sem Lovecraft erfði eftir Poe. Í verkum þeirra eru sögumennirnir annaðhvort dópaðir eða ekki við góða geðheilsu en í Stranger Things eru það börn. Og reyndar líka móðir sem virðist ekki sérlega stabíl og einmana lögga sem drekkur of mikið. Það er þetta fólk sem kemur auga á undarlega hluti sem síðan verða undarlegri og undarlegri svo fyrr en varði er öll heimsmyndin komin á hvolf og veruleikinn verður aldrei samur. Öfugt við persónur Lovecrafts hefur þetta valdeflandi áhrif á óáreiðanlegu sögumennina í Stranger Things, ekki síst mömmuna sem styrkist með hverri seríunni. Líkt og í Vættum er því verið að bjóða upp á nýja sýn á heimsmynd Lovecrafts, þar sem hinir taugatrekktu munu trompa þá sem aldrei efast. Þetta birtist enn betur í stúlkunni með alla hæfileikana sem er upphaf og endir allra atburðanna. Hún er uppalin sem fangi og einangruð frá umheiminum og því er það hún sem hefur möguleikana til að skilja og skynja tilveruna í Lovecraftískum víddum. Og að sjálfsögðu er hún hinn fullkomni fulltrúi óáreiðanleikans, stúlkubarn sem veit ekkert um hversdagslegt líf smábæjarins og er að auki nafnlaus. Það er áhugavert að sjá hvernig þessar tvær konur, móðurlausa stúlkan og galna móðirin, eru notaðar til að stokka upp í veruleikanum og ná taki á hinum linnulausu óþekktu og yfirgnæfandi ógnum.
Húsið í skáldsögu Shirley Jackson, The Haunting of Hill House (1959), er allt skakkt. Öll hlutföll eru úr lagi og hver einasta lína er skekkt, svo þeir sem horfa á það fyllast ógeði. Húsið virðist sýkt og gestir þess upplifa jafnvægisleysi og djúpa óþægindatilfinningu. Þessi tilfinning velgju og vanlíðunar er það sem persónur sagna Lovecrafts fyllast þegar þeir horfa á hin Fornu og fyrrum bústaði þeirra. Ekkert samræmi er neins staðar, stærðarhlutföll eru í rugli og sjónlínur á ská og skjön, og þetta veldur sjóntruflunum og viðbjóði. Allt það sem er kunnuglegt er gert ókennilegt og óviðurkvæmilegt á einhvern hátt, truflandi og stuðandi; hryllilegt. Þessi hryllingur á sér rætur í viðhorfum til raunveruleikans og þess sem telst eðlilegt, viðkunnanlegt og rétt.
Myrkraheimurinn í Stranger Things hefur sömu einkenni, hann er skekkt útgáfa af heimi hversdagsleikans. Þessi brenglun er svo lykilatriði í því að ná sambandi milli heima. Móðirin hafnar loks öllum hefðbundnum leiðum í leit sinni að syninum og gefur sig á vald óreiðunni og nær þannig tengslum. Það sama gerist þegar völundarhús óvættanna er kortlagt, eina leiðin er að brjótast út úr viðjum ferstrendingsins og leyfa ruglinu að ríkja. Eins og í skáldsögu Jackson er það konan sem er (hinn óáreiðanlegi) fulltrúi þess að opna fyrir truflunina, á sama hátt og konur eru iðulega fulltrúi hins ógeðslega í sögum Lovecrafts, þar sem þær eru táknmynd samræðis við hinar geimversku ófreskjur.
Öll umræða um áhrif, textatengsl og samtal milli höfunda og verka hlýtur að snúast að miklu leyti um úrvinnslu; hvernig er unnið með efnið. Það er auðvelt að sjá óttann við hið ókunna í verkum Lovecrafts í samfélagslegu samhengi en það breytir ekki því að hann virðist ná að fanga tilfinningu fyrir skelfingu sem kallar á eitthvað í mannssálinni. Þessi hryllingur snýst um skynjun, sérstaklega sjónina, og því er það sérlega athyglisvert að færa hugmyndir hans í sjónrænt form kvikra mynda. Kvikmyndir byggðar á verkum hans eru þó iðulega illa heppnaðar, en í sjónvarpsþáttaseríunni Stranger Things er þáttur skynfæranna nýttur vel og vandlega til að varpa upp Lovecraftískri heimsmynd. Jafnframt því að virkja þá þætti sem áhrifamestir eru í verkum Lovecrafts er fordómum hans hafnað og allir eru (ó)glaðir.
Tilvísanir
[1] H.P. Lovecraft, Við hugarfársins fjöll, í Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, þýð. Þorsteinn Mar, Reykjavík, Rúnatýr 2011, bls. 125.
[2] H.P. Lovecraft, Supernatural Horror in Literature, New York, Dover 1973. Þetta er samantekt úr fyrsta kafla ritgerðarinnar, bls. 12–16.
[3] Noël Carroll, The Philosophy of Horror: or Paradoxes of the Heart, New York og London, Routledge 1990.
[4] Ég fjallaði um bókina á sínum tíma á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins: https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/bornin-i-humdolum.
[5] Jökull Valsson, Börnin í Húmdölum, Reykjavík, Bjartur 2004, bls. 159–160.
[6] Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir, Rökkurhæðir: Atburðurinn, Reykjavík, Bókabeitan 2015, bls. 158.
[7] Um þær má lesa í ritdómi mínum „Forneskja, myrkraverk og ungmenni“, í Tímariti Máls og menningar, 3:2018.
[8] Alexander Dan, Vættir, Reykjavík, Benedikt 2018, bls. 9–10. Ég skrifaði um Vættir fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins: https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/vaettir.
[9] Tekið skal fram að þetta eru ekki einu íslensku verkin þar sem greina má áhrif Lovecrafts. Það má sjá móta fyrir þeim í skáldsögum Stefáns Mána, sérstaklega Túrista (2005), Skipinu (2007), Hyldýpi (2009) og Húsinu (2012). Einnig má nefna skáldsögu Steinars Braga, Hálendið (2011). Finna má umfjallanir mínar um sumar þessar bækur og verk Stefáns Mána almennt á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins, bokmenntir.is, og í Tímariti Máls og menningar.