eftir Guðrúnu Steinþórsdóttur

Um vinsældir Eddubóka Jónínu Leósdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4 hefti 2021

 

„… stórskemmtileg glæpasaga, sérviskuleg og séríslensk, leikandi létt og fyndin.“[i]

„Edda er frábær karakter og allt galleríið í kringum hana er skemmtilegt.“[ii]

„Ég verð bara að segja frá einni léttri og skemmtilegri bók sem ég er nýbúin að lesa. Það er bókin Stúlkan sem enginn saknaði eftir Jónínu Leósdóttur. Það er einhver yndislegur tónn í þessari bók; hlýja og húmor. Auk þess sem hún er spennandi líka! […] Fyrri bókin Konan í blokkinni var líka æði!“[iii]

 

Jónína Leósdóttir

Jónína Leósdóttir / Mynd: Elsa B. Magnúsdóttir

Ummælin hér að ofan eru brotabrot af jákvæðum umsögnum um Eddubækur Jónínu Leósdóttur sem komu út á árunum 2016-2020.[iv] Sögurnar segja frá eftirlaunaþeganum Eddu sem flækist inn í hvert sakamálið á fætur öðru og leysir þau með glæsibrag. Þótt glæpasögur séu fjölbreytilegar er nokkuð óvenjulegt að lesendur leggi megináherslu á að þær séu skemmtilegar og fyndnar eins og skoðanirnar hér að framan vitna um. En þá er vert að hafa í huga að um þessar mundir eru sögurnar um Eddu svo til einstakar í íslensku samhengi því ólíkt öðrum íslenskum glæpasögum eru þær „krimma[r] í mýkri kantinum“[v] þar sem hlýja og húmor marka alla frásögnina. Sögurnar eru eins konar glæpablendingar því Jónína nýtir sér aðferðir og einkenni ólíkra undirgreina glæpasögunnar til að fjalla um mannlegt eðli.[vi]

Bækurnar um Eddu eru nú orðnar fimm talsins en óhætt er að segja að þær hafi slegið í gegn hjá lesendum. Gagnrýnendur hafa iðulega hælt sögunum í dómum sínum; til að mynda talið þær spennandi, uppfullar af húmor, skemmtilegar, vel skrifaðar, léttar og þægilegar aflestrar.[vii] Lesendur sem deila skoðunum sínum um verkin í fésbókarhópnum Bókagull – Umræða um góðar bækur og á Goodreads.com eru líka almennt ánægðir með bækurnar en algengt er að þeir segi þær spennandi og skemmtilegar. Einkum er það þó aðalpersónan sem heillar þá upp úr skónum. Til marks um vinsældirnar má einnig nefna að árlega frá útgáfu fyrstu Eddubókarinnar hefur saga um persónuna ratað inn á lista yfir tíu mest útlánuðu fullorðinsbækurnar hjá bókasöfnum landsins.[viii] En hvað er það við bókaflokkinn sem hrífur lesendur? Hér verður gerð tilraun til að skýra það með því að fjalla almennt um hvað stuðlar jafnan að ánægjulegri lestrarreynslu og hvaða máli það skiptir, með tilliti til vinsælda Eddubókanna, að Jónína nýtir sér form glæpasögunnar til að fjalla um mannleg samskipti og ýmis samfélagsmálefni.

 

 

Að lesa glæpasögur er eins og að lyfta lóðum

„Geggjuð eins og allar bækurnar um hana Eddu. Vonandi hættir þessi sería aldrei.“[ix]

Lestur bókmennta og áhorf á sjónvarpsþætti og kvikmyndir eru algeng dægrastytting. Ástæður þess að fólk velur að horfa á tiltekið efni eða lesa ákveðna bók geta verið margvíslegar en oftast vill það skemmta sér. Í því skyni kýs það að segja skilið við veruleikann um stund, halda af stað inn í annan heim og gleyma sér þar.[x] Ánægjan sem hlýst af lestrinum eða áhorfinu hefur verið talin meginástæða þess að fólk horfir á næsta þátt af sjónvarpseríu, sofnar ekki yfir kvikmynd eða lokar bók og setur upp í hillu ókláraða. Ánægjan hefur jafnframt áhrif á smekk lesenda og áhorfenda því við lestur skáldskapar eða áhorf á sjónvarpsefni vilja þeir gjarnan upplifa ákveðnar tilfinningar og sækja þess vegna í tilteknar greinar bókmennta og kvikmynda; þeir vilja til dæmis hræðast við lestur hrollvekja, finna fyrir spennu þegar þeir horfa á glæpamyndir eða hlæja að gamanþáttum.[xi]

Margt getur stuðlað að ánægjulegri lestrarreynslu en hún helst meðal annars í hendur við hversu auðveldlega lesandi flyst úr veruleikanum inn í heim skáldskaparins.[xii] Þegar ferðalagið er velheppnað horfir lesandi ekki á söguheiminn úr fjarlægð heldur fær á tilfinninguna að hann sé sjálfur staddur þar og upplifi allt sem þar gerist.[xiii] Áhrifin eru því oft þau að lesandinn týnir sér í sögunni sem hann les þannig að hann gleymir stað og stund og verður ónæmur fyrir því sem gerist í kringum hann í lengri eða skemmri tíma; tekur til dæmis ekki eftir því hvort einhver kemur inn í herbergið sem hann les í. Þá kann tilflutningurinn (e. transportation) einnig að hafa þau áhrif að einstaklingurinn tekur síður eftir að staðreyndir í raunveruleikanum eru í andstöðu við staðhæfingar sem settar eru fram í frásögninni sem hann er niðursokkinn í.[xiv] Þegar ætlunin er að skemmta sér les fólk heldur ekki endilega skáldskapinn með gagnrýnum huga.[xv]

Tilflutningur er ákveðið hugarstarf sem á sér stað við lestur en þrennt er talið skipta máli til þess að hann sé mögulegur: lesandinn þarf að nota ímyndunaraflið til að sjá fyrir sér myndir, athygli hans þarf að haldast órofin og textinn þarf að orka á tilfinningar hans á einn eða annan hátt. Meðal þess sem hefur áhrif á hvort tilflutningur heppnast eða ekki er textinn sjálfur, lesandinn og aðstæðurnar hverju sinni. Hægt er að beita vissri tækni í texta til að liðka fyrir tilflutningi en einnig skiptir máli hversu hentugt lesefnið er; nauðsynlegt er í það minnsta að það höfði til lesanda eigi hann að flytjast inn í söguheiminn. Þótt það sé vitaskuld einstaklingsbundið hvaða textar falla í kramið hjá hverjum og einum virðast formúlubækur, til dæmis glæpasögur, henta sérlega vel í þessu skyni.[xvi]

Konan í blokkinni

Konan í blokkinni (2016)

Bókmenntafræðingurinn Lisa Zunshine hefur líkt glæpasagnalestri við að lyfta lóðum en samkvæmt henni felur hvort tveggja í sér skemmtun og er ávanabindandi. Því meir sem einstaklingur þjálfar ákveðna vöðva því betur finnur hann fyrir þeim og hefur þörf fyrir að þjálfa þá betur. Það er síðan vel þekkt að þegar fólk er komið í gott form finnst því bæði gaman og nauðsynlegt að hreyfa sig og vill þess vegna helst ekki missa úr æfingu. Svipaða sögu má segja um glæpasagnalestur. Eftir því sem fólk les fleiri glæpasögur því betur lærir það inn á ákveðin mynstur, er fljótara að lesa í vísbendingar og hegðun persóna, forðast frekar mýrarljós og það sem mestu máli skiptir: er sneggra að leysa gátuna.[xvii] Þekkingin á bókmenntagreininni – til dæmis formgerð hennar, persónum og fléttu – hjálpar lesendum einnig að flytjast inn í söguheiminn og í ljósi þess að tilflutningur stuðlar að lestraránægju er líklegt að lesendur sæki í svipað lesefni í framtíðinni. Þeir verða sem sagt sólgnir í að „leysa glæpi“ og upplifa þá spennu sem glæpasögum fylgir. Lesendur sem þekkja vel til glæpasagna þurfa ekki að reyna eins mikið á hugann við lesturinn og aðrir. Í stað þess að eyða orku í að velta gaumgæfilega fyrir sér öllum vísbendingum, túlka þær og skilja, geta þeir beint sjónum að persónum, atburðum og tilfinningum sögunnar en slík eftirtekt getur jafnframt liðkað fyrir tilflutningi.[xviii]

Samsömun með persónum er gjarnan nefnd í sömu mund og tilflutningur enda getur hún einnig hjálpað lesendum að hverfa inn í heim frásagnarinnar. Samsömun er þegar lesandi setur sig í spor persónu, tekur sér sjónarhorn hennar og finnur til samlíðunar með henni.[xix] Vel heppnuð samsömun er talin hafa þau áhrif að fólk veiti textanum frekari athygli, hafi meiri áhuga á framgangi frásagnarinnar og sé líklegra til að verða fyrir áhrifum af textanum en ella.[xx] Lesendur sem samsama sig persónum gegna oft tveimur hlutverkum samtímis; þeir dragast inn í frásögnina og upplifa það sama og sögupersónan um leið og þeir standa fyrir utan frásögnina og hafa því oft meiri þekkingu á aðstæðum og söguheimi en persónan sjálf. Þar af leiðandi geta þeir nýtt sér vitneskju sína og reynslu til að meta aðstæður á annan hátt en hún.[xxi] Hið tvíþætta hlutverk lesandans kemur glögglega í ljós þegar rætt er um glæpasögur því algengt er að lesendur samsami sig spæjaranum og reyni að leysa glæpamálið sem hann fæst við á sama tíma og þeir kunna að draga aðrar ályktanir af vísbendingum en hann því þekking þeirra á söguheiminum er önnur eða meiri.

Lesandi þarf ekki að samsama sig persónu til að tengjast henni tilfinningaböndum því hann getur líka myndað einhliða samband (e. parasocial relationship) við hana. Slík tengsl geta auðveldað ferðalagið inn í heim skáldskaparins. Skilyrðin fyrir sambandinu eru órofin athygli einstaklings við lestur og ánægja af frásögninni. Einhliða samband minnir í mörgu á raunveruleg tengsl manna á milli vegna þess að lesandi hefur áhuga á persónunni og vill þess vegna kynnast henni nánar og skilja hana betur. Til að viðhalda áhuganum er því mikilvægt að persónan sé áhugaverð, ekki síst þegar um langan bókaflokk er að ræða.[xxii]

Það er ljóst að Jónína Leósdóttir beitir ýmsum aðferðum til að hjálpa lesendum að ferðast inn í heim Eddubókanna, samsama sig aðalpersónunni eða mynda við hana einhliða samband; annars væru sögurnar ekki eins vinsælar og raun ber vitni eða „skuggalega ávanabindandi“[xxiii] eins og Friðrika Benónýsdóttir komst svo skemmtilega að orði í ritdómi um fjórðu Eddubókina, Barnið sem hrópaði í hljóði. En hvað er það sem vekur ánægju lesenda og hjálpar þeim að tilflytjast inn í söguheim bókanna, samsama sig persónum og leysa gáturnar? Til að varpa ljósi á það er vert að skoða hvernig Jónína vinnur með ýmis einkenni glæpasögunnar í bókaflokknum og í því skyni beina sjónum sérstaklega að persónum, söguheiminum, byggingu verkanna og efnistökum.

 

Edda Frímannsdóttir sjarmatröll og spæjari

„Edda er skemmtilegur karakter sem gaman er að kynnast betur og betur. Hún stendur svo sannarlega á sínu og það er vit í kerlu.“[xxiv]

Glæpasögur greinast í ýmsar undirgreinar svo sem norrænar glæpasögur, harðsoðnar glæpasögur, spennusögur og lögreglusögur. Uppruna þeirra flestra má þó rekja til morðgátunnar (e. Whodunit story) og því fylgja margar þeirra svipuðu mynstri og hún; í upphafi er framinn glæpur en leysa þarf gátuna um hver framdi hann og hvers vegna. Bókaflokkurinn um Eddu er sem fyrr segir blendingur ýmissa glæpasagnategunda. Sögurnar fylgja formgerð morðgátunnar en sækja einnig í norrænu og félagslegu glæpasöguna því eins og í þeim er í bókum Jónínu lögð ríkuleg áhersla á að fjalla um rótgróin samfélagsmein. Þá minna bækurnar einnig á spennusögur því ýmsum aðferðum er beitt til að viðhalda eftirvæntingu lesenda.[xxv] Vegna þess að Edda Frímannsdóttir, aðalpersóna Eddubókanna, er aðalspæjarinn liggur þó beinast við að flokka sögurnar um hana sem kvenspæjarasögur. Þótt þær greinist í ótal undirflokka og fjalli um spæjara á öllum aldri – allt frá börnum til eldri kvenna – eiga þær það sameiginlegt að hafa kvenpersónu í aðalhlutverki sem leysir gátuna.

Edda er gott dæmi um áhugaspæjara sem dregst af tilviljun inn í hin ýmsu glæpamál. Það skyldi raunar engan undra því ekkert er Eddu óviðkomandi, hún er forvitin að eðlisfari, sækir í mannleg samskipti, er sérlega greiðvikin og leiðist auk þess nokkuð eftir að hafa hætt störfum sem verslunarstjóri bókabúðar vegna aldurs. Innan glæpasagnahefðarinnar er ekki óalgengt að eldri konur rannsaki glæpamál en þess háttar kvenspæjarasögur má rekja allt aftur til nítjándu aldar. Það var þó ekki fyrr en um miðbik gullaldar glæpasögunnar, um 1930, sem sögur af eldri kvenspæjurum slógu í gegn hjá lesendum. Aðalsöguhetjur slíkra sagna byggðust gjarna á staðalímyndum um gamalmenni en konurnar voru iðulega einhleypar og barnlausar, höfðu gaman af hannyrðum, garðrækt og fuglaskoðun en stunduðu síðan spæjarastörf í hjáverkum. Frægasta persónan af þessu tagi er vafalaust piparmærin Jane Marple sem Agatha Christie gerði ódauðlega með skrifum sínum.[xxvi]

Að sumu leyti minnir Edda á fröken Marple. Þær eru á svipuðum aldri og eiga það sameiginlegt að vera afskiptasamar, úrræðagóðar, hafa sterka siðferðiskennd, einstaka þekkingu á mannlegu eðli og vera næmar á smáatriði, en allt hjálpar það þeim að leysa hinar ýmsu gátur. Það er þó fleira ólíkt með þeim stöllum en líkt því þótt Jónína sæki í heldri kvenspæjara-hefðina snýr hún jafnframt upp á hana.[xxvii] Edda er til dæmis hvorki piparmey né ekkja heldur er hún fráskilin og móðir tveggja uppkominna barna. Hún hefur alla tíð verið útivinnandi og séð fyrir sér sjálf. Aldrei kemur fram að hún hafi sérstaka unun af því að prjóna eða stunda garðyrkju, frekar kýs hún lestur bóka, gott rauðvín og samverustundir með fjölskyldu og vinum. Edda er óhrædd við að skera sig úr fjöldanum en art-deco stíll er hennar uppáhald jafnt í fatnaði sem innanstokksmunum. Þótt nafn Eddu merki langamma og síða hárið á henni sé tekið að grána er lítið annað en kennitalan sem minnir á að hún er eldri borgari. Edda er „bein í baki, eins og ballerína, kvik í hreyfingum“ og getur „hjólað bæinn á enda án þess að blása úr nös“.[xxviii] Hún fylgist vel með þjóðfélagsumræðunni og er „einstaklega áhugasöm um lífið og tilveruna“.[xxix] Þá hefur hún miklar skoðanir á mönnum og málefnum, er kjaftfor, fjörug og skemmtileg. Með öðrum orðum er Edda áhugaverð, flókin og trúverðug persóna og í ljósi þess að hún er aðalspæjari sagnanna er líklegt að margir lesendur samsami sig henni eða eigi auðvelt með að mynda við hana einhliða samband.

Stúlkan sem enginn saknaði

Stúlkan sem enginn saknaði (2017)

Spæjarar glæpasagna tilheyra ýmsum þjóðfélagshópum og beita mismunandi aðferðum í rannsóknum sínum en til hægðarauka hafa þeir verið flokkaðir í þrjár megingerðir: lögreglumanninn, atvinnuáhugamanninn og hinn eiginlega áhugamann. Edda tilheyrir þriðja hópnum enda áhugaspæjari sem dregst inn í margvísleg glæpamál. Hún rannsakar málin ánægjunnar vegna og fær því ekki greitt fyrir störf sín eins og einkaspæjarar eða lögreglumenn. Áhugaspæjurum eru ákveðin takmörk sett því þeir eiga sjaldnast sama tækjakost og lögreglan, auk þess sem þeir hafa ekki opinbert leyfi til að yfirheyra þá sem eru grunaðir. Til að slíkur spæjari fái aðgang að nauðsynlegum upplýsingum skapa höfundar því gjarnan náin tengsl á milli hans og lögreglunnar.[xxx] Leifur tengdasonur Eddu er rannsóknarlögreglumaður svo hún veit jafnan meira um rannsóknir glæpamála en almenningur. Reyndar þarf hún iðulega að draga upplýsingar upp úr Leifi eða múta honum með kjötsúpu svo hann leysi frá skjóðunni. Það er því oft fljótlegra fyrir hana að spyrja Iðunni, dóttur sína, um stöðu mála því tengdasonurinn lekur frekar upplýsingum í eiginkonuna en aðra.

Það svalar ekki forvitni Eddu að fá takmarkaðar upplýsingar hjá lögreglunni svo hún fer sjálf á stúfana, yfirheyrir hina grunuðu og vingast við ættingja og vini fórnarlambanna. Þótt Edda sé sjarmerandi og spurul tekst henni ekki alltaf að fá fólk til að opna sig svo stundum neyðist hún til að kríta liðugt og láta sem hún viti meira en hún gerir. Í því skyni á hún það til að tala um sjálfa sig í fleirtölu í þeirri von um að „við-ið“ fái viðmælendur til að halda að hún starfi með lögreglunni. Þá kemur það eitt sinn fyrir að réttlætiskennd hennar er svo misboðið að hún villir bókstaflega á sér heimildir. Í þeim tilgangi klæðir hún sig í gamla þrönga dragt, svarta lakkskó með pinnahælum og húðlitar sokkabuxur og lætur sem hún sé lögfræðingur í vinnu fyrir skjólstæðing sem ætlar að kæra eltihrelli fyrir ofbeldi.[xxxi] Þótt Edda gangi býsna langt í gagnaöflun lætur hún lögregluna um að fanga hina seku og ljúka málunum; rétt eins og fröken Marple og Hercule Poirot, spæjarar Agöthu Christie.

Eins og spæjara er háttur hefur Edda ýmsa aðstoðarmenn. Barnabarnið Loftur Geir er henni innan handar með tæknilega aðstoð og Finnur, nágranni hennar, veitir henni styrk við rannsóknarvinnuna. Það er þó einkum Viktor, tengdasonur Eddu, sem hjálpar henni að greiða úr hugsunum hennar og draga ályktanir af orðum og gjörðum grunaðra. Það er þó ekki alltaf hjálplegt því eins og Edda hefur Viktor ákaflega fjörugt ímyndunarafl. Þau espa því iðulega hvort annað upp og setja fram kenningar sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Raunar dregur Edda stundum rangar ályktanir eða heldur uppi ótrúverðugum getgátum en í slíkum tilvikum má vera að lesendur meti vísbendingar og aðstæður á annan hátt en hún; kannski ekki síst þegar Edda telur sig hafa leyst gátuna þegar enn eru 200 síður eftir af bókinni.

Katrín Jakobsdóttir hefur bent á að það geti reynst flókið að búa til bókaflokk um spæjara sem starfar ekki við glæparannsóknir þótt lesendur glæpasagna séu tilbúnir að kynnast persónum sem lenda í hringiðu glæpamála fyrir tilviljun og leysa þau. Tengsl áhugaspæjara við glæpi liggja auðvitað ekki beint við en því er mikilvægt að höfundur vandi aðkomu spæjarans að rannsókninni og geri hana trúverðuga.[xxxii] Þótt Edda flækist inn í ýmis glæpamál er aðkoma hennar að þeim rökrétt því oft tengist hún þeim sem eiga hlut að máli – jafnt gerendum og þolendum – persónulegum böndum eða er á vettvangi þegar glæpur er framinn. Það eykur einnig trúverðugleika sagnanna að glæpirnir sem hún rannsakar snúast ekki allir um morð og að persónur leita stundum til hennar til að fá ráðleggingar eða aðstoð við óupplýstar gátur. Þá skiptir líka máli að glæpirnir eru flestir framdir í heimabyggð Eddu; Vesturbæ Reykjavíkur, meira að segja tveir í blokkinni við Birkimel þar sem hún býr.

Spæjarastörf Eddu gegna lykilhlutverki í bókaflokknum og liðka eflaust fyrir samsömun þeirra sem finnst gaman að setja sig í spor spæjara og leysa gátur. Ummæli lesenda á netinu vitna þó um að það er ekki eingöngu glæpasagnaformgerðin sem þeir sækja í við lestur Eddubókanna heldur hafa margir þeirra einlægan áhuga á Eddu og lífi hennar. Í umræðuþráðum um bækurnar telja lesendur gjarnan upp kosti Eddu og nefna að þeir hlakki til að lesa næstu bók um hana eða að þeir sakni hennar sárlega, sumir biðja Jónínu jafnvel að skila kærri kveðju til persónunnar.[xxxiii] Athugasemdir af þessu tagi benda til þess að lesendur hafi myndað einhliða samband við Eddu og séu því forvitnir um afdrif hennar.

Séu sögurnar um Eddu skoðaðar sem heild má greina ákveðna þróun á persónunni því með hverri bók skerpist myndin af henni, sem og fjölskyldu hennar og grönnum. Einkalíf þeirra og viðfangsefni eru raunar eins og framhaldsefni sem viðheldur áhuga lesenda og lokkar þá að nýrri og nýrri bók. Til dæmis má nefna að í fyrstu sögunni, Konan í blokkinni, kemur fram að kalt stríð hafi ríkt á milli Eddu og Snorra, sonar hennar, um árabil en ekki er ljóst fyrr en í þriðju bókinni, Óvelkomni maðurinn, hvað olli því. Viktor, kærasti Snorra, er ein skemmtilegasta persóna bókaflokksins. Lesendur kynnast honum mun betur en Snorra því þau Edda eru nánir vinir. Reglulega kemur Viktor á Birkimelinn til að fá sér rauðvín með tengdamömmu sinni og oft heimsækir hún hann í vinnuna á Hótel Sögu, þar sem hann starfar sem þjónn. Persóna Viktors dýpkar til muna í Óvelkomna manninum. Þar kemst Edda að því að hann er ávöxtur hrottalegrar nauðgunar en hún tekur þá ákvörðun að vernda hann gegn þeim upplýsingum. Aftur á móti telur hún rétt að Viktor fái að vita af framhjáhaldi Snorra – sem sagt er frá í sömu bók – og hvetur því son sinn óspart til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Viktor ákveður að fyrirgefa svikin því þeir Snorri eiga von á barni með lesbísku pari. Það er síðan spennuþáttur í næstu tveimur sögum hvernig strákunum muni farnast foreldrahlutverkið.

Nágrannar Eddu, hjónin Finnur og Ingibjörg, fá einnig meira vægi eftir því sem líður á bókaflokkinn. Ingibjörg er fyrrverandi óperusöngkona sem gerði garðinn frægan á yngri árum. Hún er fimmtán árum eldri en Finnur og komin með heilabilun og þarf því stöðuga umönnun. Finnur er á svipuðum aldri og Edda en eftir að hann hætti störfum eyðir hann tíma sínum í að annast eiginkonuna. Vinskapur Eddu og Finns verður innilegri eftir því sem sögunum fjölgar en lesendum er haldið spenntum um hvort ástin á milli þeirra fái að blómstra eður ei. Edda rennir í það minnsta hýru auga til Finns en eftir fimm bækur er hún þó ekki (enn!) búin að láta almennilega til skarar skríða og Finnur situr á sér, enda tryggur eiginkonunni.

Persónusköpun Eddu er í takt við þróunina sem hefur átt sér stað á eldri og einhleypum kvenspæjurum frá tímum gullaldarinnar. Í seinni tíð er nefnilega jafnan dregin upp jákvæðari og raunsærri mynd af þeim en fyrr auk þess sem tilfinningum þeirra, skoðunum, fjölskyldu og ástarlífi er gefinn meiri gaumur.[xxxiv] Eitt af því sem hefur þó allt frá upphafi einkennt eldri kvenspæjara – og gerir enn – er að aldur þeirra hefur þau áhrif að aðrar persónur veita þeim litla eftirtekt eða vanmeta getu þeirra.[xxxv] Það á vel við í tilviki Eddu en aldur hennar hefur þau áhrif að fólk virðist taka minna eftir henni en áður, hún fær verri þjónustu í verslunum og á kaffihúsum og karlarnir í heita pottinum hafa ekki áhuga á skoðunum hennar, auk þess sem fjölskyldumeðlimir halda reglulega yfir henni fyrirlestra um að hún hegði sér ekki „með viðeigandi hætti miðað við konu á hennar aldri.“[xxxvi] Þótt það sé góður eiginleiki fyrir spæjara að vera hálfpartinn ósýnilegur felur persónusköpunin jafnframt í sér ádeilu á aldursfordóma samfélagsins. Jónína fetar þar í spor Agöthu Christie, og fleiri glæpasagnahöfunda, því með því að hafa klóka og klára konu á besta aldri í aðalhlutverki vinnur hún gegn ákveðinni staðalímynd af eldri konum, leggur sitt af mörkum til að gera þær sýnilegar og benda þannig á að þær hafi enn margt fram að færa samfélaginu í hag.[xxxvii] Og það er ekki síst sá þáttur Eddubókanna sem vekur lukku hjá lesendum og vinum Eddu.

 

Vesturbærinn í Reykjavík eða nafli söguheimsins

„Bý á Hagamel og væri til að geta bankað upp á hjá [Eddu]. Hún er svo ráðagóð.“[xxxviii]

 

„Það er svo notalegt að lesa um morð og aðra glæpi í heimabyggð,“ hafði Vesturbæingur einn á orði þegar hann ræddi við greinarhöfund um Stúlkuna sem enginn saknaði; og bætti um betur þegar hann sagðist geta séð út um stofugluggann sinn bekkinn þar sem morðið á ungu stúlkunni í sögunni hefði verið framið. Það er ekki óalgengt að lesendur blandi saman veruleika og skáldskap, láti sem skáldsagnapersónur séu til í raun og veru og að frásagnir um þær gerist í þeim heimi sem við köllum raunverulegan. Það á kannski ekki síst við þegar sögurnar gerast á stöðum sem eru lesendum kunnugir en því líkari sem söguheimurinn er raunheiminum því auðveldara er að gera sér hann í hugarlund.[xxxix]

Óvelkomni maðurinn

Óvelkomni maðurinn (2018)

Sögurnar um Eddu gerast að stærstum hluta í söguheimi sem minnir á Vesturbæ Reykjavíkur. Edda býr í blokk á Birkimel, syndir reglulega í Vestubæjarlauginni, kaupir inn í Melabúðinni, heimsækir Viktor í vinnuna á Hótel Sögu, fær sér rauðvín á Mímisbar og kaffi á Þjóðminjasafninu. Börnin hennar búa einnig í hverfinu; Iðunn, Leifur og börnin þeirra á Tómasarhaga en Viktor og Snorri á Melhaga. Sem fyrr segir eru nánast allir glæpir sagnanna framdir í nærumhverfi Eddu. Í blokkinni hennar er ung kona tekin í gíslingu og karl á miðjum aldri myrtur. Þá gengur Edda fram á morð á Ægisíðunni og í brúðkaupi á Þingvöllum, sem hún er viðstödd, verður brúðurin fyrir sýruárás. Í fjórðu Eddu-bókinni, Barnið sem hrópaði á hjálp, hefur Edda gefist upp á eftirlaunalífinu og ráðið sig sem húshjálp hjá fjölskyldu í Skerjafirði. Í næsta húsi á sér stað ömurlegt heimilisofbeldi sem endar með saknæmum dauða gerandans. Rannsóknirnar á þessum glæpum – og öðrum gátum – leiða Eddu síðan um borg og bý og jafnvel norður í land. Engu að síður er lögð megináhersla á byggingar, götur, verslanir og sundlaug sem eru þekkt kennileiti í Vesturbænum og því vafalaust mörgum lesendum kunn. Kunnugleikinn getur skapað þægindi, auðveldað lesturinn og þar með aukið lestraránægjuna.

Í ljósi þess að söguheimurinn er afar líkur raunheiminum reynir líklega minna á hugarstarf lesenda en ella við að sjá fyrir sér staðarhætti. Líkast til gefst þeim því betri kostur á að einbeita sér að öðrum þáttum sögunnar, til dæmis gátunum sem þarf að leysa. Skrif lesenda um bækurnar benda til þess að spenna sagnanna eigi stóran þátt í áhuga þeirra á bókaflokknum en þeir eru jafnan ákaflega spenntir við lesturinn eins og eftirfarandi dæmi sýna:

  • „Besta bók sem ég hef lesið í langan tíma. Mér fannst hún svo spennandi á köflum að ég var næstum farin að hoppa yfir línur til að komast hraðar yfir og sjá hvernig þetta færi allt saman!“ [Um Konuna í blokkinni á Goodreads]
  • „Ég tætti þessa í mig og setti aðrar bækur á hilluna á meðan!“ [Um Stúlkuna sem enginn saknaði á Goodreads]
  • „Tvær frábærar, sem fólk ætti ekki að láta framhjá sér fara. PS. Varúð ekki ráðlegt að byrja lesturinn ef þú ert tímabundinn eða þarft að mæta til vinnu daginn eftir, nema að það sé í lagi að mæta ósofinn.“ [Um Óvelkomna manninn og Barnið sem hrópaði í hljóði á Bókagull]
  • „Bókin er bæði spennandi og skemmtileg, vekur mann til umhugsunar og heldur manni föstum fram á síðustu blaðsíðu.“ [Um Andlitslausu konuna á Goodreads]

Ummælin sýna vel hvernig eftirvænting lesenda og áhugi þeirra á sögufléttunni hjálpar þeim að ferðast inn í söguheiminn. Til að viðhalda áhuga lesenda beitir Jónína ákveðinni tækni í byggingu sagnanna. Hver bók gerist á nokkrum dögum, flestar á innan við viku, og því er atburðarásin hröð. Sögunum er skipt í hluta eftir dögum sem aftur skiptast í frekar stutta undirkafla. Spennan er byggð upp með því að halda ákveðnum upplýsingum frá lesendum; eins og venja er í glæpasögum (til dæmis hver framdi glæpinn); og oft enda kaflar á krækju (e. cliffhanger) þannig að nauðsynlegt er að halda lestrinum áfram til að svala forvitninni. Í mörgum tilvikum dugir þó ekki að lesa eingöngu einn kafla til viðbótar því í öllum bókunum er sagt frá fleiri en einni gátu og iðulega fléttast saman tvær frásagnir þannig að lesandi fær sitt á hvað frásögn sem segir frá Eddu annars vegar og annarri persónu – einatt þolanda – hins vegar.[xl] Þegar lesturinn er hafinn getur því verið erfitt að hætta; næsti kafli er líka svo stuttur …!

Í bókinni Why We Read Fiction bendir Lisa Zunshine á að hugsanlega felist helsta spenna leynilögreglusagna í því að væntingar lesenda eru markvisst gerðar að engu. Í marga klukkutíma, jafnvel daga (eftir því hvað fólk les hratt), eru lesendur hvað eftir annað hafðir að fíflum því við lesturinn láta þeir dæla í sig úthugsuðum lygum og villandi vísbendingum í stað þess að fá afdráttarlaust svar við einu spurningunni sem skiptir þá máli: hver framdi glæpinn? Þá nefnir Zunshine að lesendur séu jafnan þversagnakenndir; þeir vilja vera góðir rannsakendur og eru því allt frá upphafi bókar að reyna að leysa gátuna, um leið og þeir vilja njóta sögunnar sem lengst og því ekki leysa glæpamálið fyrr en í blálokin. Afstaðan til glæpamála í raunveruleikanum og í skáldskapnum er þar með ólík því lesendur myndu eflaust ekki vilja teygja lopann í raunverulegum glæparannsóknum. Zunshine á erfitt með að útskýra þennan mun á ólíkri afstöðu lesenda til skáldskapar og veruleika en nefnir þó tvær tilgátur um hvers vegna fólk sækir í að lesa leynilögreglusögur. Fyrir það fyrsta vita lesendur af reynslunni að í lok sögu er gátan upplýst en fyrir því er engin trygging í veruleikanum. Í annan stað býður frásögnin upp á öruggt svæði fyrir upplifun sem kann að vera hættuleg í raun og veru, eins og að eltast við harðsvíraða glæpamenn, um leið og lesendum gefst kostur á að upplifa tilfinningar á borð við ótta, ógn og spennu í gegnum lesturinn, (vonandi) langt frá öllum morðingjum og öðrum hrottum.[xli]

Þótt það sé auðvitað einstaklingsbundið hvers vegna fólk hefur ánægju af Eddubókunum er ekki ólíklegt að tilgátur Zunshine eigi vel við þá sem geta ekki slitið sig frá lestrinum vegna spennu. Sögur Jónínu fylgja frásagnarmynstri leynilögreglusagna og þar með morðgátna svo í öllum tilvikum leysast gáturnar í lokin þótt lausnirnar séu ekki fyrirsjáanlegar. Lesendur sem þekkja til Eddubókanna vita því að allt fer vel en að nauðsynlegt er að lesa sögurnar til enda til að skilja fléttuna til fulls. Lestraránægjan kann einnig að ráðast af því að fólki gefst kostur á að vera stikkfrí í vernduðu umhverfi skáldskaparins og komast í tæri við persónur sem það myndi annars ekki kynnast, án þess þó að sjá sig knúna til að vera til staðar fyrir þær, til dæmis hjálpa þeim í neyð. Þá er eins líklegt að aðdáendur bóka Jónínu séu þversagnakenndir því þótt kunnugleikinn úr raunheiminum geti verið notalegur í heimi skáldskaparins færi eflaust hrollur um marga þeirra ef þrjú morð yrðu framin í Vesturbænum á einu ári.

 

Samfélagsmál

„Mér líkar vel hvernig Jónína laumar inn í bækurnar, allskonar málefnum. Hún talar um transfólk og innflytjendur, heimilisofbeldi og fleira. Þannig að lesandinn fær aðra sýn á þessa málaflokka.“[xlii]

 

Barnið sem hrópaði í hljóði

Barnið sem hrópaði í hljóði (2019)

Skáldskapur getur verið gagnlegur á ýmsan hátt. Til dæmis getur hann vakið fólk til umhugsunar um samfélagið, kynnt það fyrir framandi hlutum og hjálpað því að skilja aðra betur. Það er algengt að höfundar glæpasagna blandi saman glæpum og samfélagsrýni til að afhjúpa falin samfélagsmein sem mikilvægt er að uppræta. Þann þátt hefur Jónína sannarlega ræktað í sögunum um Eddu því sjónum lesenda er þar markvisst beint að ýmsum samfélagsmálefnum sem brýnt er að sinna. Það er misjafnt eftir bókum hvaða málefni Jónína fjallar um og hvernig. Eins og tíðkast jafnan í norrænum glæpasögum beitir hún gjarnan tvöfaldri fléttu en það er þegar „einn glæpur er notaður til að leiða annan í ljós“ sem er oft mun alvarlegri en aðalglæpurinn og „á sér iðulega rætur í spilltu borgarsamfélagi. Samfélagið er því ekki aðeins sögusvið heldur einnig frumorsök verstu illvirkjanna.“[xliii] Seinni glæpurinn í sögum Jónínu afhjúpar þannig oft alvarlega bresti í samfélaginu, til að mynda ofbeldi, stéttaskiptingu, spillingu, ábyrgðarleysi, fordóma, vinnumansal og neikvæð áhrif fíkniefna.

Jónína sækir einnig til kvenspæjarasagna þegar hún fjallar um samfélagið. Í kvenspæjarasögum hafa málefni sem varða konur verið snar þáttur allt frá upphafi en þó er misjafnt eftir tímabilum hvaða mál hafa verið í brennidepli. Um þessar mundir er ofbeldi gegn konum miðlægt viðfangsefni og því er kastljósinu gjarnan beint að konum sem teknar eru til fanga, þær limlestar, þeim nauðgað og/eða myrtar.[xliv] Í Eddubókunum er fjallað ítarlega um ofbeldi gegn konum, jafnt líkamlegt, kynferðislegt og sálrænt. Í mörgum tilvikum eru konur fórnarlömb aðal-glæpanna; ein er til dæmis tekin í gíslingu og pyntuð, önnur verður fyrir sýruárás og hin þriðja finnst myrt á götu úti. Iðulega er ofbeldið þó falið og tilheyrir því seinni fléttunni sem aðal-glæpur bókarinnar afhjúpar. Jónína leggur enda oft minni áherslu á verknaðinn sjálfan en þeim mun meiri á áhrif ofbeldisins og afleiðingar þess. Hér skal stiklað á nokkrum dæmum.

Í Barnið sem hrópaði í hljóði er fjallað gaumgæfilega um hvernig heimilisofbeldi markar þolendur og aðstandendur þeirra. Fjölskyldufaðir beitir eiginkonu sína bæði sálrænu og líkamlegu ofbeldi. Til viðbótar við að ganga í skrokk á henni, öskra á hana og niðurlægja einangrar hann hana markvisst frá vinum og fjölskyldu, veitir henni stöðuga eftirtekt, skiptir sér af klæðaburði hennar, takmarkar símanotkun hennar og skammtar henni peninga. Samskiptin einkennast því af stjórnunar- og kúgunarferli þar sem eiginmaðurinn gerir sitt til að fá eiginkonuna til að lúta vilja sínum.[xlv] Eiginkonan er með vefjagigt og góð grein er gerð fyrir því hvernig langvarandi ofbeldi, streita og ótti magna upp verkina sem fylgja sjúkdómnum. Athygli er einnig vakin á vanlíðan barna sem alast upp við ofbeldi og þeirra þversagnakenndu tilfinninga sem þau kunna að hafa í garð gerandans sem þau bæði óttast og elska.

Í norrænum glæpasögum leiðir rannsókn glæpamála oft í ljós að fórnarlambið er ekki barnanna best heldur er glæpurinn að einhverju leyti því sjálfu að kenna, í sumum tilvikum hefur það jafnvel gert eitthvað grimmilegt á hlut hins seka.[xlvi] Þannig er því farið í Barnið sem hrópaði í hljóði þar sem ofbeldismaður er myrtur og í ljós kemur að elsta barnið á heimilinu, stjúpsonur fórnarlambsins, á þar hugsanlega hlut að máli. Glæpurinn er ekki þaulskipulagður heldur framinn í örvæntingu augnabliksins, reiðin yfir heimilisofbeldinu ber drenginn ofurliði. Líklegt er að lesendur setji sig í spor Eddu og hafi frekar samúð með stráknum en hinum látna og skilji vel hvers vegna hún kýs að þegja yfir glæpnum.

Kynferðislegt ofbeldi ber einnig á góma í Eddubókunum en markvisst er fjallað um ýmsa þætti þess sem hafa verið ofarlega á baugi í þjóðfélagsumræðunni síðustu ár. Til dæmis er sagt frá aðlöðun (e. sexual grooming) í Andlitslausu konunni. Þar er greint frá kennara sem tælir kvenkyns nemendur undir lögaldri, öðlast trúnað þeirra og ást. Fjallað er ítarlega um eitt sambandið en þar kemur glögglega fram hvernig kennarinn hefur nýtt sér vald sitt og reynslu til að stjórna stúlkunni. Hún heldur að hann elski aðeins sig og er því tilbúin að fremja glæp í hans þágu. Þannig tekst kennaranum – glæpamanninum – að gera stúlkuna að geranda þótt hún sé augljóslega þolandi kynferðislegs ofbeldis. Í Óvelkomna manninum er aftur á móti gerð grein fyrir langvarandi áhrifum kynferðisafbrots. Þar er sagt frá konu sem fær alvarlegt áfall, missir málið og er greind með síðbúna áfallastreituröskun eftir að nauðgari hennar og eltihrellir reynir að hafa samband við hana en hann hefur hún getað forðast í rúmlega 30 ár. Ódæðið var framið á þeim tíma þegar kynferðislegt ofbeldi var þaggað niður og því er þolandinn einn þeirra sem aldrei hefur unnið úr áfallinu.

Lýsingarnar á ofbeldinu gegn konunum eru raunsannar. Þær minna á að afleiðingarnar eru langvarandi, ofbeldi er iðulega vandlega falið í samfélaginu og að enginn er óhultur; þolendurnir eru enda konur á öllum aldri og af öllum stéttum. Umfjöllunin er liður í að opna umræðuna um rótgróin samfélagsmein enn frekar og auka um leið skilning og þekkingu lesenda á ofbeldi og áhrifum þess. Jónína fjallar um fleiri mikilvæg málefni í sögunum þótt þau tengist ekki endilega glæpum; til dæmis fordóma og fáfræði í garð hinsegin fólks og samskiptaörðugleika og sorg í kjölfar ástvinamissis. En þrátt fyrir að viðfangsefni hennar séu alvarleg koma reglulega lýsingar á skrautlegum persónum, farsakenndum uppákomum og sprellfyndnum samræðum sem létta andrúmsloftið og koma í veg fyrir að frásagnirnar verði eingöngu sorgarsögur.

Bókakápur sagnanna endurspegla léttleika frásagnanna. Þær eiga það sameiginlegt að vera að stærstum hluta í einum, mildum og hlýjum lit; ljósbláum, gulum, grænum, rauðum og fjólubláum. Þær eru því mjög ólíkar kápum íslenskra glæpasagna sem gera út á auðnina og kuldann í íslenskri náttúru og eru skrifaðar undir formerkjum Nordic Noir eða norrænna glæpasagna.[xlvii] Sé kápum Eddubókanna stillt hlið við hlið minna þær á regnboga eða fána hinsegin fólks. Það er vel við hæfi því sögurnar einkennast af hinsegin sýnileika. Margar persónur eru hinsegin án þess að það sé rætt eitthvað sérstaklega en með því móti er birt fjölbreytt mynd af samfélagi sem stuðlar að fordómalausu umhverfi. Bókakápurnar hafa þó víðari skírskotun því margir hafa gert regnbogafánann að tákni sínu frá því að hann varð að tákni í baráttu hinsegin fólks. Gilbert Baker, hönnuður fánans, hefur enda sagt að „[r]egnbogafáninn sé eign allra sem berjist fyrir mannréttindum hvar sem er í heiminum.“[xlviii] Þann boðskap má heimfæra á sögur Jónínu en með því að fjalla um rótgróin samfélagsmein og neikvæð áhrif þeirra leggur hún sitt af mörkum til að opna umræðuna um ofbeldi og áhrif þess enn frekar í samfélaginu. Um leið vekur hún hugsanlega samkennd lesenda og eflir skilning þeirra á öðru fólki. Sögurnar kunna auk þess að hvetja lesendur til að berjast fyrir réttlæti og rísa gegn ofbeldi hvar sem þeir geta. Með öðrum orðum gegna bækur Jónínu margþættu hlutverki: þær skemmta, fræða og brýna lesendur til góðra verka.

 

Að lokum

Andlitslausa konan

Andlitslausa konan (2020)

„Ég vona að Jónína skrifi fleiri bækur um Eddu og fjölskyldu hennar, mig langar virkilega að vita hvernig þeim Viktori (sem er uppáhalds persónan mín utan Eddu) og hinum þumbaralega syni Eddu, Snorra, gengur í foreldrahlutverkinu og hvort blessunin hún Ingibjörg fer hugsanlega að hrökkva upp af svo hann Finnur geti oftar brugðið sér af bæ.“[xlix]

Áður en Jónína sendi frá sér Eddubækurnar hafði hún skrifað sögur þar sem hún tók fyrir ýmis mikilvæg málefni, kynnti skemmtilegar persónur til sögunnar – meðal annars hressar og galvaskar konur á besta aldri – og lýsti lífi þeirra og tilveru af hlýju og húmor. Með öðrum orðum skrifaði hún svipaðar bækur og sögurnar um Eddu ef frá eru taldir glæpirnir.[l] Þótt bókunum hafi verið vel tekið urðu þær ekki jafn vinsælar og sögurnar um Eddu. Á þetta hefur Jónína sjálf bent en í viðtali í tilefni af útkomu fjórðu Eddubókarinnar segir hún: „En ég held, svei mér þá, að ég hafi fengið meiri viðbrögð við fyrstu þremur Eddubókunum en öllum þrettán bókunum þar á undan. Þetta hefur verið ævintýralega jákvæð reynsla.“[li]

Vinsældir bókaflokksins um Eddu bera með sér að Jónína virðist hafa dottið niður á fullkomna blöndu spennu og skemmtunar. Spennan sem tengist glæpunum á stóran þátt í að toga lesendur inn í söguheiminn og vekja áhuga þeirra á framgangi frásagnarinnar á meðan velheppnuð persónusköpun, áhugaverð efnistök og húmorískar lýsingar viðhalda lestraránægjunni. Jónína hefur viðurkennt að hún hafi „engan sérstakan áhuga á glæpum en þeim mun meiri áhuga á mannlegu eðli“.[lii] Þótt glæpir séu vissulega fyrirferðamiklir í Eddubókunum eru þeir fyrst fremst stökkpallur til þess að skoða tilfinningalíf fólks og kanna hvernig það hegðar sér í ákveðnum aðstæðum og í samskiptum við aðra. Það undirstrika einnig titlar bókanna sem allir hafa persónur í brennidepli: Konan í blokkinni; Stúlkan sem enginn saknaði; Óvelkomni maðurinn; Barnið sem hrópaði í hljóði og Andlitslausa konan.

Jónína hefur sagt að bækurnar um Eddu verði ekki fleiri að sinni.[liii] Ef marka má ótal ummæli á netinu – eins og þau sem birtast hér að framan – vonast lesendur engu að síður eftir því að hún sjái að sér og haldi áfram að veita þeim innsýn í daglegt líf Eddu og ævintýri hennar. Það ætlaði því allt um koll að keyra þegar Jónína skrifaði upp „símtöl“ á Facebook sem hún átti við Eddu í upphafi annarrar bylgju kórónuveirunnar 2020. Ákveðinni forvitni var svalað og aðdáendur glöddust yfir því að vinkona þeirra væri enn spræk og í fullu fjöri.[liv] Áhuginn á persónunni, lífi hennar, ættingjum og vinum sýnir að það eru einkum sögur af fólki – hinu mannlega eðli – sem lesendur fá ekki nóg af. Vegna þess að „fólk er [þó] eins og það er þá leiðist það stundum út í glæpi“[lv] eða flækist alveg óvart inn í glæpamál en vinsældir Eddubókanna vitna um að lesendum finnist ekki síst spennandi að fylgjast með því; allavega í öruggu skjóli skáldskaparins.[lvi]

 

 

 

Tilvísanir

[i] Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, „Hin íslenska Miss Marple“, RÚV, 28. júlí 2018, sótt 11. júní 2021 af https://www.ruv.is/frett/hin-islenska-miss-marple.

[ii] Þorgeir Tryggvason/Kiljan, ummæli á bókakápu sögunnar Óvelkomni maðurinn (2018) eftir Jónínu Leósdóttur.

[iii] Svava Gunnarsdóttir, færsla á síðunni Bókagull – Umræða um góðar bækur, Faebook, 2. júlí 2017.

[iv] Tilvitnun í titli eru ummæli notandans Kollster á Goodreads.com um Óvelkomna manninn eftir Jónínu Leósdóttur, 26. janúar 2018, sótt 18. ágúst 2021 af https://www.goodreads.com/book/show/37832239-velkomni-ma-urinn.

[v] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Krimmi í mýkri kantinum“, DV, 22.–25. janúar 2016, bls. 54.

[vi] Sbr. Árni Matthíasson, „Ég nýt þess að skrifa“, Morgunblaðið, 10. janúar 2016, bls. 50.

[vii] Sbr. t.d. ritdóma eftir Brynhildi Björnsdóttur, Friðriku Benónýsdóttur, Katrínu Lilju Jónsdóttur, Steinþór Guðbjartsson og Þorgerði Önnu Gunnarsdóttur.

[viii] Sbr. „Vinsælustu titlarnir“, Landskerfi bókasafna, sótt 2. ágúst 2021 af https://landskerfi.is/um-okkur/vinsaelustu-titlarnir/vinsaelustu-titlarnir.

[ix] Kollster, ummæli um Barnið sem hrópaði í hljóði, Goodreads.com, 26. febrúar 2019.

[x] Keith Oatley, Such Stuff as Dreams. The Psychology of Fiction, Oxford: John Wiley & Sons, 2011, bls. 26.

[xi] Sama heimild, bls. 16–17 og Helena Bilandzic og Rick W. Busselle, „Enjoyment of Films as a Funciton of Narrative Experience, Perceived Realism and Transportability“, Communications 36/2011, bls. 29–50, hér bls. 29.

[xii] Melanie C. Green og Timothy C. Brock, „The Role of Transportation in the Persuasiveness of Public Narratives“, Journal of Personality and Social Psychology 5/2000, bls. 701–721, hér bls. 702.

[xiii] Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, „Vítt um heima – merking, veruleiki og skáldskapur“, Ritið 3/2017, bls. 143–163, hér bls. 144–145.

[xiv] Melanie C. Green og Timothy C. Brock, „The Role of Transportation in the Persuasiveness of Public Narratives“, bls. 702.

[xv] Helena Bilandzic og Rick W. Busselle, „Transportation and Transportability in the Cultivation of Genre-Consistent Attitudes and Estimates“, Journal of Communication 3/2008, bls. 508–529, hér bls. 510.

[xvi] Melanie C. Green og Timothy C. Brock, „The Role of Transportation in the Persuasiveness of Public Narratives“, bls. 701–703. Nánar um tilflutning sjá Guðrún Steinþórsdóttir, Raunveruleiki hugans er ævintýri. Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2021, bls. 313–345.

[xvii] Lisa Zunshine, Why We Read Fiction. Theory of Mind and the Novel, Columbus: The Ohio State University Press, 2006, bls. 123–124.

[xviii] Helena Bilandzic og Rick W. Busselle, „Transportation and Transportability in the Cultivation of Genre-Consistent Attitudes and Estimates“, bls. 511.

[xix] Rick Busselle og Helena Bilandzic, „Fictionality and Perceived Realism in Experiencing Stories“, Communication Theory 2/2008, bls. 255–280, hér bls. 256 og 272.

[xx] Nurit Tal-Or og Jonathan Cohen, „Understanding Audience Involvement. Conceptualizing and Manipulating Identification and Transportation“, Poetics 4/2010, bls. 402–418, hér bls. 403–404.

[xxi] Vera Nünning, Reading Fictions, Changing Minds. The Cognitive Value of Fiction, 2014, bls. 127.

[xxii] Marta M. Maslej, Keith Oatley og Raymond A. Mar, „Creating Fictional Characters.The Role of Experience, Personality, and a Social Processes“, Psychology of Aesthetics, Creativity, and the Arts, 2017, bls. 487–499, hér bls. 487.

[xxiii] Friðrika Benónýsdóttir, „Hin íslenska Miss Marple tekur frummyndinni fram“, Vikan, 20. apríl 2019, sótt 16. ágúst 2021 af https://www.mannlif.is/vikan/hin-islenska-miss-marple-tekur-frummyndinni-fram/.

[xxiv] Kristín Ásta, ummæli um Andlitslausu konuna, Goodreads.com, 3. mars 2020.

[xxv] Hér verður ekki gerð tilraun til að skýra meginkenni þessara undirgreina glæpasögunnar en um þau má til dæmis fræðast í greinasafninu Noir in the North. Genre, Politics and Place í ritstjórn Stacy Gillis og Gunnþórunnar Guðmundsdóttur og bókinni Crime Fiction eftir John Scaggs.

[xxvi] Adrienne E. Gavin, „Feminist Crime Fiction and Female Sleuths“, A Companion to Crime Fiction, ritstjórar Charles J. Repka og Lee Horsley, 2010, bls. 258–269, hér bls. 263.

[xxvii] Friðrika Benónýsdóttir fjallar sérstaklega um líkindi og ólíkindi persónanna í fyrrnefndum ritdómi; „Hin íslenska Miss Marple tekur frummyndinni fram“.

[xxviii] Jónína Leósdóttir, Konan í blokkinni, Reykjavík: Mál og menning, 2015, bls. 17.

[xxix] Sama heimild, bls. 17.

[xxx] Katrín Jakobsdóttir, Glæpurinn sem ekki fannst. Saga og þróun íslenskra glæpasagna. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, 2001, bls. 44, 49–50.

[xxxi] Sbr. Jónína Leósdóttir, Óvelkomni maðurinn, Reykjavík: Mál og menning, 2018, bls. 240.

[xxxii] Katrín Jakobsdóttir, Glæpurinn sem ekki fannst, bls. 49–50.

[xxxiii] Slík ummæli má bæði sjá á „Bókagull“ og á höfundarsíðu Jónínu Leósdóttur á Facebook.

[xxxiv] Í þessu samhengi má til dæmis minnast Jessicu Fletcher úr sjónvarpsþáttunum Murder, She Wrote og Veru Stanhope sem er aðalpersóna í bókaflokki eftir Ann Cleeves og aðalpersónan í sjónvarpsþáttunum Vera.

[xxxv] Sandra Anne Wilder, Spinsters, Sleuths and Snoops. Depictions of Culturally Invisible Older Women as Amateur Sleuths, meistaraprófsritgerð í heimspeki, Wollongong: University of Wollongong, 2020, bls. 24–25.

[xxxvi] Jónína Leósdóttir, Stúlkan sem enginn saknaði, Reykjavík: Mál og menning, 2016, bls. 235.

[xxxvii] Sbr. Adrienne E. Gavin, „Feminist Crime Fiction and Female Sleuths“, bls. 262–263.

[xxxviii] Friðrika Kr. Stefánsdóttir, ummæli á „Bókagull – Umræða um góðar bækur“, Facebook, 9. apríl 2019.

[xxxix] Rick Busselle og Helena Bilandzic, „Fictionality and Perceived Realism in Experiencing Stories“, bls. 257–259.

[xl] Þessari aðferð svipar til þeirrar sem Dan Brown beitti í spennubókinni Da Vincy lyklinum, sem sló í gegn hjá lesendum um allan heim, en þar voru nokkrar frásagnir sagðar til skiptis í enn styttri köflum en í Eddubókum Jónínu.

[xli] Lisa Zunshine, Why We Read Fiction, bls. 121–122.

[xlii] Ásta Sigfúsdóttir, ummæli á „Bókagull – Umræða um góðar bækur“, Facebook, 21. maí 2000.

[xliii] Katrín Jakobsdóttir, Glæpurinn sem ekki fannst, bls. 87.

[xliv] Adrienne E. Gavin, „Feminist Crime Fiction and Female Sleuths“, bls. 268.

[xlv] Sbr. Ingólfur V. Gíslason, Ofbeldi í nánum samböndum. Orsakir, afleiðingar, úrræði, Reykjavík: Félags- og tryggingamálaráðuneytið, 2008, bls. 17–22.

[xlvi] Katrín Jakobsdóttir, Glæpurinn sem ekki fannst, bls. 79–83.

[xlvii] Úlfhildur Dagsdóttir hefur fjallað um þetta með hliðsjón af sögum Arnaldar Indriðasonar um lögreglumanninn Erlend. Úlfhildur Dagsdóttir, „Codus criminalus. Mannshvörf og glæpir“, Tímarit Máls og menningar 3/2011, bls. 51–66, hér bls. 61–63. Til viðbótar má einnig nefna bókakápur Ragnars Jónassonar sem oft eru í dimmum og drungalegum tónum. Þá má einnig benda á að algengt er að kómískar glæpasögur séu í björtum bókakápum en í því samhengi má til dæmis minnast vinsæls bókaflokks Alexander McCall Smith um Kvenspæjarastofuna en bækur hans eiga það sameiginlegt með Eddubókunum að vera blanda af húmor, spennu og mannúð.

[xlviii] „Hvaðan kemur regnbogafáninn“, Skessuhorn, 8. júlí 2021, sótt 20. júlí 2021 af https://skessuhorn.is/2021/07/08/hvadan-kemur-regnbogafaninn/.

[xlix] Kristín Ásta, ummæli um Andlitslausu konuna, Goodreads.com, 3. mars 2020.

[l] Tekið skal fram að unglingabókin Upp á líf og dauða (2011) er undantekning því hún er í spennuformi.

[li] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Ævintýralega jákvæð reynsla“, Fréttablaðið, 13. febrúar 2019, bls. 16.

[lii] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Krimmi í mýkri kantinum“, bls. 54.

[liii] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Hræðilegur glæpur framinn á Þingvöllum“, Fréttablaðið, 29. febrúar 2020, bls. 48.

[liv] Jónína Leósdóttir, „stöðuuppfærslur á höfundarsíðu Jónínu Leósdóttur“, Facebook, 9. og 12. ágúst 2020.

[lv] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Krimmi í mýkri kantinum“, bls. 54.

[lvi] Greinin er hluti af verkefninu Ímyndunaraflið (201196-0011) sem stutt er af Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna.