Hugleiðingar í lok afmælisárs Árna Magnússonar

Eftir Svanhildi Óskarsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014

Í Þjóðleikhúsið að kvöldi 13. nóvember síðastliðinn safnaðist skari – með Margréti Þórhildi Danadrottningu í broddi fylkingar – til þess að halda upp á Árna Magnússon handritasafnara. Samkoman var síðasti liðurinn í allviðamiklu afmælishaldi; tilefnið að þennan dag voru liðin 350 ár frá því að Árni fæddist vestur í Dölum. Að baki afmælishátíðinni, sem náði yfir lungann úr árinu, stóð fámennt lið stofnunarinnar sem ber nafn Árna og hafði ekki stuðning af auglýsingastofum, ímyndarsmiðum og áróðursmeisturum. Einhverjum kann að finnast fréttnæmt á vorum dögum að það starfar ekki einu sinni kynningarstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún er fjársvelt eins og ýmsar aðrar stofnanir, og hefur verið það lengi. Á stjórnsýslusviði hennar – semsé í skrifstofuhaldinu og allri umsýslu – eru tæplega tvö stöðugildi. Minna en tveir starfsmenn.

Afmælisár Árna Magnússonar varð okkur starfsmönnum „hans“ tækifæri til þess að láta í okkur heyra, að freista þess að minna landsmenn á það hlutverk sem stofnunin á að gegna – en getur ekki rækt sómasamlega. Mest bar e.t.v. á handritasviðinu á árinu vegna safns Árna en innan stofnunarinnar eru önnur merk söfn og þar eru stundaðar nútímalegar rannsóknir, til dæmis í orðfræði, máltækni og þjóðfræði svo einungis fátt sé talið. Kannski kemur þetta einhverjum á óvart; það getur verið að myndin sem landsmenn gera sér af Árnastofnun sé af fáeinum grúskurum sem rýni í gulnuð blöð en hafi ekki mikil tengsl við umheiminn. Í reyndinni er hún kjarnastofnun í rannsóknum á breiðu sviði íslenskra fræða og til hennar sækja ekki bara Íslendingar heldur fræðimenn víða að úr heiminum. Sjálf starfa ég á handritasviðinu og flest það sem ég segi hér á eftir er tengt handritunum – en þau má skoða sem hluta fyrir heild: margt af því sem á við um handritasvið má yfirfæra á önnur svið og á stofnunina í heild. Afmælishaldið á liðnu ári gekk vel og í árslok gátum við litið ánægð um öxl, okkur hafði tekist að vekja athygli á arfi Árna og við þóttumst nokkuð viss um að landsmenn væru almennt fróðari en áður um inntak hans og gildi.

En sé skyggnst víðar yfir sviðið er útlitið samt ekki bjart. Á afmælisári Árna var handritasýningunni sem verið hefur í Þjóðmenningarhúsinu lokað. Þá var jafnframt tekin ákvörðun um að stöðva allar framkvæmdir við nýja byggingu sem á að hýsa stofnunina ásamt hluta íslensku- og menningadeildar Háskóla Íslands, en þar er meðal annars gert ráð fyrir góðri sýningaraðstöðu. Engin teikn eru á lofti um að fjárveitingar til reglubundinnar starfsemi stofnunarinnar sjálfrar rýmkist og því borin von að hún geti rétt úr kútnum og tekist almennilega á við brýn verkefni eins og stafræna miðlun safnkostsins, svo dæmi sé tekið. Þá er verulegt áhyggjuefni að nýliðun í hópi starfsfólks er nær engin: stöðugur niðurskurður hefur valdið því að árum saman hefur ekki verið hægt að ráða í störf sem losna. Vel menntað og öflugt rannsóknarfólk kemst ekki að, með þeim afleiðingum að það hverfur til útlanda og/eða til annarra starfa til verulegs tjóns fyrir fræðin og þjóðina.

Þessi staða vekur áleitnar spurningar um raunveruleg viðhorf íslensks samfélags til menningararfsins.

Dagana örlagaríku í október 2008 þegar meint auðævi okkar stigu upp í „peningahimininn“ hitti ég stundum fólk sem sagði við mig í djúpri einlægni að það huggaði sig við að handritin okkar væru þó á öruggum stað – að þau ættum við enn. Í þeirri hugsun held ég að hafi falist að minnsta kosti tvennt: Annars vegar snýst hún um að gott sé að muna að til séu hlutir sem hafnir eru yfir skammsýnt verðmætamat, einhvers konar eilíf, eða stöðug, verðmæti. Hins vegar finnst mér að þau sem orðuðu við mig feginleikann yfir handritunum hafi einnig hugsað um þýðingu þeirra fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar. „Guði sé lof að við eigum þó handritin“ var þannig líka tjáning þess að við gætum aftur fundið okkur sjálf, orðið eins og við eigum að okkur, fundið stoð okkar í eigin menningararfi í stað þess að þykjast hafa fundið upp nýjar aðferðir til þess að reka banka með áður óþekktri gróðavon. Sömu hugsun orðaði Arnaldur Indriðason í erindi sínu á ráðstefnunni Heimur handritanna nú í október:

Handritin kenna okkur að reyna að vera ekki eitthvað annað en við erum. Þau kenna okkur að gleyma ekki uppruna okkar. Við erum ekki bankaþjóð. Við erum hin fullkomna andstæða við bankaþjóð. Við erum bókaþjóð. Við ættum ekki að gleyma því eða gera lítið úr því eða þykja það síðra hlutskipti en viðskiptavafstur hverskonar. […] Við erum of fámenn til þess að einblína í sífellu á hagvöxt í peningum. Miklu fremur eigum við að mæla hagsæld í menningu og þekkingu og menntun. Það er sú eina vísitala sem máli skiptir. Hagvöxtur menningar. [2]

Í Hruninu gekk táknið ,Handritin‘ semsé á ný í samband við rómantík sjálfstæðisbaráttunnar, þegar fornbókmenntirnar mynduðu eins konar grunn undir ákall þjóðarinnar um að hún fengi að ráða sér sjálf, fengi að vera hún sjálf. Handritamálið, deilur Íslendinga og Dana um varðveislustað handritanna – eða ættum við að segja yfirráð handritanna? – má sjá sem lokahnykkinn á sjálfstæðisbaráttunni og á myndum frá afhendingu Konungsbókar eddukvæða og Flateyjarbókar á hafnarbakkanum í Reykjavík 21. apríl 1971 gefur að líta þjóð í sigurvímu – annað eins átti ekki eftir að sjást fyrr en silfurdrengjum handboltans var fagnað sumarið 2008.

Á þeim árum sem mesti styrinn stóð um handritin háðu Íslendingar einnig aðra utanríkispólitíska baráttu: um fiskveiðilögsöguna. [3] Stærstu skrefin í útfærslu landhelginnar voru stigin upp úr því að fyrstu handritin komu heim. Lögsagan var færð einhliða í 50 mílur 1972 og í 200 mílur árið 1976 og Íslendingar vörðu þessar ákvarðanir í kjölfarið bæði á láði – í réttarsölum og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna – og á legi, í þorskastríðum. Og hrósuðu enn sigri. Segja má að fiskurinn í sjónum hafi naumast vikið úr hugum Íslendinga síðan. Kvótakerfið hefur séð til þess að deilum um ráðstöfunarrétt yfir auðlindinni linnir ekki. Um handritin hefur hins vegar ekki gustað. Þvert á móti er gengið að þeim sem gefnum hlut, nema kannski þegar þjóðfélagið riðar til falls. Handritin komu heim og voru sett í trausta geymslu – málið var dautt. Og eftir því sem lengra líður frá sigurdeginum mikla á hafnarbakkanum fjarar æ meir undan vitund þjóðarinnar um þýðingu handritanna.

Árni MagnússonHandritin sem bling

Það vantar svo sem ekki að fólk sé stolt af menningararfinum á góðri stund. Í gróðærinu þótti fínt að vísa í fornritin: Umfjöllun um starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar var tengd sagnaritun og fornum ættfræðiáhuga og ákjósanlegt fyrir Kára Stefánsson forstjóra að láta taka sjónvarpsviðtöl við sig með bókakost Árnastofnunar í baksýn. Annað líftæknifyrirtæki kallaði sig Urður Verðandi Skuld og Íslandsbanki skipti um nafn og vildi heita Glitnir eins og bústaður Forseta er sagður heita í Snorra-Eddu. Tilvitnanir í Hávamál skreyttu risastóra borða utan á hóteli í Pósthússtræti og í höfuðstöðvum FL-group í Lundúnum mættu viðskiptavinir einnig spakmælum úr hinu forna kvæði (og nei, „Margur verður af aurum api“ var ekki þar á meðal).

Það er ekki laust við að manni finnist að fornritin hafi þarna verið orðin einn allsherjar fylgihlutur – dýrindis accessoire, það sem kallað er „bling“. Kannski hefur einhver búist við því að þegar sjálfsánægja bóluáranna strykist af okkur myndi okkur auðnast að sjá menningararfinn í hófstilltara ljósi og jafnframt fara að huga að því að hlú að undirstöðum hans. Því miður bendir hins vegar margt til þess að á þeim áratugum sem liðnir eru frá því fyrstu handritin komu heim hafi okkur gersamlega mistekist að rækta með okkur ábyrgðartilfinningu gagnvart þessum menningarverðmætum og skilning á því vísindastarfi sem þeim tengist. Almenningur spyr í grandaleysi hvort við á Árnastofnun séum ekki að verða búin að „taka við handritunum“ – af hverju þurfið þið að hafa sérfræðinga í vinnu? Auðmönnum landsins hefur aldrei dottið í hug að leggja fé í sjóð til þess að styrkja rannsóknir í íslenskum fræðum. Og meira að segja höfðingi íslenskra vísindamanna, fyrrnefndur Kári Stefánsson, sagði í blaðagrein á síðastliðnu ári að „handritin [gætu] beðið“ og átti þá við að ekki þyrfti að leggja fé í nýja byggingu undir stofnunina sem hýsir þau. [4] Kannski gleymdi hann því að byggingin á einnig að hýsa kröftugt vísindastarf á sviði þar sem Íslendingar vilja vera fremstir meðal jafningja. Þar sem stundaðar eru rannsóknir á eigindum tungumálsins, sem til dæmis eru nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að kenna nútímatækjum og tólum að skilja og tala íslensku; rannsóknir á miðaldatextum sem glæða skilning lesenda á íslenskum fornbókmenntum – en þá lesendur er að finna um allan heim; rannsóknir á rímnakveðskap sem hjálpa okkur að skilja skemmtanalíf forfeðra og formæðra okkar um leið og þær kveikja nýja tónsköpun, og svo mætti lengi telja. „Handritin geta beðið“ þýðir að handritin séu bling. Að við lítum á menningararf okkar eins og klenódíur sem við geymum á kistubotni og drögum fram við og við til að stæra okkur af við útlendinga, en ekki sem lifandi þátt í þekkingarleit og verðmætasköpun í landinu.

Það er ekki laust við að afstaða ríkisstjórnarinnar litist af sams konar bling-viðhorfi. Samkvæmt stjórnarsáttmála hennar skal „[í]slensk þjóðmenning […] í hávegum höfð“ og í forsetaúrskurði var kveðið á um að ýmis mál er varða þjóðmenningu skyldu færð undan menntamálaráðuneyti og yfir til forsætisráðuneytis, þar með talin „vernd þjóðargersema“, örnefni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. [5] En við þennan áformaða flutning var eins og gleymst hefði að Árnastofnun er ekki bara safn, staðurinn þar sem við geymum fína dótið okkar. Hún er rannsóknarstofnun í nánum tengslum við Háskóla Íslands og fleiri stofnanir innanlands og utan og óheppilegt að slíta hana úr því akademíska samhengi í stjórnsýslunni. Þá situr merkimiðinn „þjóðmenning“ ekki vel á þeim menningararfi sem henni er ætlað að rækta og rannsaka. Vissulega er obbinn af þeim gögnum sem hún varðveitir orðinn til á Íslandi og/eða fyrir tilstilli Íslendinga. En þau verða ekki skilin frá umheiminum, hvorki heiminum eins og hann var þegar þau urðu til né hinu alþjóðlega vísindasamfélagi sem góðu heilli er forsendan fyrir viðgangi íslenskra fræða í nútímanum.

Lok, lok og læs og allt í stáli

Nú sprettir kannski fólk fingrum að okkur sem vinnum á Árnastofnun og segir sem svo: „Þetta er ykkur sjálfum að kenna. Þið hafið lokað ykkur af og vanrækt að upplýsa almenning um það sem þið eruð að gera, eða vilduð gera. Stofnunin er allt of lokuð, enginn getur séð hvað þar fer fram og fólk kemst ekki í söfnin sem þið geymið.“ Það er dálítið til í því að erfitt er að líta inn til okkar. Ef lagst væri á glugga myndi fólk sjá fyrir innan líflegt samfélag stúdenta og fræðimanna frá ýmsum löndum. Þarna er skipst á skoðunum og leitað nýrrar þekkingar og skilnings. En það er þrengt að þessu samfélagi og það er ekki heldur hlaupið að því að veita almenningi víðari hlutdeild í því þótt það væri afar æskilegt. Mig langar að útskýra þetta betur svo lesendur átti sig á við hvað er að etja.

Í fyrsta lagi setur húsnæðið okkur alvarlegar skorður. Núverandi Árnastofnun (Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eins og hún heitir fullu nafni) varð til við sameiningu fimm stofnana árið 2006 og hún er til húsa á þremur stöðum í bænum. Í Árnagarði, þar sem handritasvið og þjóðfræðasvið eru hýst, er engum hleypt inn nema hann geri grein fyrir sér í dyrasíma. Þetta er gert af öryggisástæðum enda ómetanleg gögn innandyra. Í nútímalegu húsnæði væri hægt að greiða leið fólks að fræðunum, án þess að slá af öryggiskröfum, með því að afmarka öryggissvæði handrita og annarra slíkra gagna sérstaklega en opna aðgang að vistarverum þar fyrir utan. Þannig myndi til dæmis bókasafn stofnunarinnar nýtast mun betur en nú er. Það er bæði mikið og gott og telur nú um 42 þúsund bindi. Meðal annars er það helsta sérfræðibókasafn á landinu á sviði miðaldafræða en mikilvægi þeirra í íslensku samhengi má sjá af því að Háskóli Íslands hefur gert þau að sérstöku áherslusviði í sinni stefnumótun. Ástæða þess hve safnkosturinn í miðaldafræðum er orðinn góður er einföld. Fyrir um áratug barst stofnuninni myndarleg peningagjöf, sú eina í seinni tíð. Gefendur voru ekki íslenskir auðmenn, stoltir af þjóðararfinum, heldur ein hjón, háskólakennarar í Bandaríkjunum sem skilja mikilvægi íslenskra fornrita fyrir evrópsk miðaldafræði og vilja stuðla að því að fræðimenn sem stunda rannsóknir á Árnastofnun hafi aðgang að flestu því samanburðarefni erlendu sem þörf er á til skilnings á norrænum miðaldatextum. Eðli sérfræðibókasafna er að bækurnar þarf að nota á staðnum; lesrými á Árnastofnun er lítið. Á almenna lestrarsalnum eru 11 borð og um þau er slegist af gestafræðimönnum og nemendum í framhaldsnámi í miðaldafræðum. Við bókasafnið starfar einn bókavörður; starfsaðstaða hans er eitt skrifborð milli bókarekka.

Í nútímanum felst fleira í því að opna söfn en að slá upp dyrum þeirra. Stafræna byltingin færði söfnum og fræðastofnunum risavaxin verkefni í fangið. Á Árnastofnun og fyrirrennurum hennar höfðu byggst upp mikilvæg gagnasöfn á seðlum, spjöldum, ljósmyndum, segulböndum. Öllu þessu þurfti – og þarf – að koma á stafrænt form svo hægt sé að opna aðgang að söfnunum gegnum netið og hagnýta þau. Margt hefur áunnist í þessu eins og þau vita sem eru handgengin þeim gagnasöfnum og tólum sem komast má í gegnum vefsíður stofnunarinnar (ég nefni af handahófi tvö ólík dæmi: Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og Ísmús gagnagrunninn). En skráning og yfirfærsla gagna á stafrænt form er ákaflega tímafrek og þarna bagar okkur mannekla; við erum hreinlega of fáliðuð til þess að geta staðið almennilega að stafrænni miðlun alls þess ómetanlega efnis sem við geymum. [6] Og við höfum enga tölvudeild. Nú, þegar þrettán ár eru liðin af 21. öldinni starfar hjá okkur einn starfsmaður með tölvunarfræðimenntun.

Í þriðja lagi eru svo sýningarmálin í uppnámi. Sýningar fyrir almenning eru úrvalsleið til þess að miðla gögnum stofnunarinnar og rannsóknum á þeim. Áður fyrr var handritasýning í Árnagarði en sýningaraðstaðan þar var léleg. Ný handritasýning var sett upp í Þjóðmenningarhúsinu fyrir rúmum áratug en henni hefur nú verið lokað vegna breyttra áforma um nýtingu hússins. Með því að handritasýningin færðist úr Árnagarði á sínum tíma, rýmkaðist ögn um aðra starfsemi þar. Til lengdar er það þó óheppilegt fyrir Árnastofnun að missa sýninguna úr sínum húsakynnum að því leyti að þar með rofna hin eðlilegu tengsl milli sýningar- og fræðastarfs. Almenningur tengir sýninguna ekki við vettvang rannsóknastarfsins og fræðimennirnir slitna úr tengslum við miðlunina. Handritasafn Árna Magnússonar öðlaðist alþjóðlega viðurkenningu árið 2009 þegar það var tekið upp á varðveisluskrá UNESCO „Minni heimsins“ (Memory of the World Register). Ætti það ekki að vera sjálfsagður metnaður Íslendinga að búa þannig að sínu merkasta safni að það geti tekið á móti áhugasömum gestum víða að og á öllum aldri? Veruleikinn núna er að safnkennari Árnastofnunar stundar farkennslu að 19. aldar hætti til þess að íslensk börn fari ekki á mis við fræðslu um handritin. Skólafólk erlendis frá og allur almenningur verður að sætta sig við að sýning er ekki í boði. Er það boðlegt? Í borg sem auk þess hefur verið útnefnd bókmenntaborg UNESCO, ekki síst með tilvísun til okkar merku fornbókmennta? Ferðamönnum er mokað inn í landið, og um fjórðungur þeirra kemur vegna áhuga á sögu þess, en í stað þess að bjóða þeim að skoða krúnudjásnin og taka af þeim sanngjarnan aðgangseyri eru dýrgripirnir læstir niðri – handritin geta beðið, við sýnum þau seinna.

Með viðurkenningunni frá UNESCO var lögð áhersla á að handritin eru menningarverðmæti á heimsvísu. Íslendingar og Danir varðveita þau fyrir heiminn. Því fylgir einnig sú skylda að gera þennan arf aðgengilegan heimsbyggðinni og í því felst bæði stafræn miðlun og sýningarhald. Þeirri skyldu geta Íslendingar ekki einfaldlega ýtt yfir á okkur á Árnastofnun með því að segja: Finniði útúressu. Við hlökkum svo sannarlega til að einhenda okkur í nútímalega miðlun en við þurfum aðstæður til þess. Og við þurfum fé.

Dýrmætt fræðasamfélag

Sýningar- og miðlunarmál eru semsé sérkapítuli og í ólestri. Samskiptin við almenning eru þó ekki og verða aldrei nema einn þáttur í starfsemi Árnastofnunar – aðrir þættir snúa að vísinda- og varðveislustarfinu og þar er horft út í heim. Sú hlið starfseminnar blasir ekki við í íslenskum hversdagsleika en það er óhemju mikilvægt að fólk skilji að stofnunin hefur ekki bara skyldur gagnvart íslenskum almenningi, hún rækir líka skyldur sem Íslendingar hafa gagnvart fræðunum og heiminum.

Árnastofnun er rannsóknarstofnun og fræðasvið hennar er alþjóðlegt – íslensk fræði eru stunduð víða um heim og starfsmenn stofnunarinnar eru margir í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, auk þess sem alþjóðasvið hennar heldur utan um samskipti við erlendar stofnanir og fræðimenn. Þá er stofnunin miðlæg í norrænum handritafræðum og rannsóknum á fornbókmenntum vegna þess að hún varðveitir svo stóran hluta þeirra íslensku miðaldahandrita sem enn eru til. Fræðimenn koma hingað úr öllum áttum til þess að vinna hér að verkefnum sínum um lengri eða skemmri tíma, nýta sér safnkostinn, leita til sérfræðinga stofnunarinnar og taka þátt í því mikilvæga fræðasamfélagi sem þrífst innan veggja hennar. Ungt vísindafólk sem er að stíga sín fyrstu skref í rannsóknum sækir í þetta samfélag og auðgar það um leið með nýjum hugmyndum og viðhorfum. Þetta fólk þarf sjálft að afla sér styrkja því stofnunin getur ekki boðið annað en aðgang að gögnum – og fólki. Ef maður spyr unga fólkið hverju það sækist eftir hér, nefnir það einmitt hversu mikilvægt það sé þegar verið er að þróa nýjar hugmyndir, að fá að skiptast á skoðunum við aðra fræðimenn og læra af þeim sem eldri eru í hettunni. Ein úr hópi ungliðanna hafði þetta að segja um dvöl sína á Árnastofnun:

Þegar sérþekkingu mína þraut á einhverju sviði var alltaf einhver sem tók sér tíma til að leiðbeina mér af óeigingirni og fróðleiksást og því hef ég lært margt sem ekki er endilega hægt að finna í bókum. Þessi áhersla á miðlun þekkingar og mikilvægi þess að koma henni áfram, bæði til næstu kynslóða og út fyrir veggi stofnunarinnar, hlýtur að móta hugarfar allra, sem starfa í þannig umhverfi.

Þessi orð undirstrika það sem stundum gleymist í umræðu um fjármögnun rannsókna og viðgang fræðanna: Að samfélag fræðimanna er dýrmætt. Það er ekki nóg að úthluta rannsóknarstyrkjum úr samkeppnissjóðum (sem auk þess er hart sótt að nú um stundir). Vísindamenn þurfa aðbúnað og þekking berst milli fólks í samtölum ekki síður en á neti og af bókum. Og samgangur kynslóðanna er lykilatriði. Á Árnastofnun ríkir sú dýrmæta hefð að starfsmenn sem fara á eftirlaun halda áfram að tilheyra samfélaginu þar. Þeir sinna áfram sínum fræðistörfum og eru gjarnan til taks að svara spurningum og leiðbeina þeim sem yngri eru. Þetta er ómetanlegt.

Samfélagið á Árnastofnun hvílir þannig á fleiri en einni stoð: þar eru gestafræðimenn innlendir og erlendir, stúdentar frá ýmsum löndum, nýdoktorar sem hafa hlotið rannsóknarstyrki og fyrrum starfsmenn sem sinna fræðum sínum áfram þótt formleg starfslok hafi orðið. Árið 2013 urðu þetta alls 60 manns frá 12 löndum og á ýmsum aldri. Kjarninn í samfélaginu eru þó þeir fastráðnu starfsmenn sem halda starfseminni gangandi frá degi til dags, frá kynslóð til kynslóðar. Og því miður erum við nú orðin of fá til að halda utan um allt svo vel sé. Á handritasviði starfa á skrifandi stundu ekki nema sjö manns: fjórir akademískt ráðnir sérfræðingar (svokallaðir rannsóknardósentar eða rannsóknarprófessorar), forvörslufræðingur, ljósmyndari og safnkennari. Þetta fólk ber ábyrgð á varðveislu, rannsóknum, útgáfu og miðlun meira en tvö þúsund handrita og fleiri þúsund fornbréfa. Þessi gögn spanna tímann frá tólftu öld til þeirrar tuttugustu og á meðal þeirra eru höfuðdýrgripir þjóðarinnar. Þarna eru bækurnar og brotin sem Íslendingar þráðu svo ákaft að fá aftur í sínar hendur. Handritin sem komu heim frá Danmörku á árunum 1971–1997. Sem betur fer nær fúkkalyktin sem fyllir vitin á klósettinu í Árnagarði ekki inn í geymsluna þar sem þau þjappa sér saman í röðum.

Hvernig annast skal handrit

Ég býst við að ef gerð væri skoðanakönnun mundu flestir Íslendingar lýsa sig sammála þeirri fullyrðingu að það ætti að hugsa vel um handritin. En hvað felst í því? Jú, það þarf að geyma þau við rétt skilyrði og vernda þau fyrir hnjaski og öðru því sem flýtt getur hrörnun þeirra. En slíkt er einungis frumforsendan, byrjunin. Því eins og Brynjólfur biskup Sveinsson benti á fyrir hálfri fjórðu öld, er sinnuleysið versti óvinur fornra bóka: að loka þær inni og varna fólki að kynnast því sem þær hafa að geyma er fremur að eyða þeim en varðveita. [7]Þess vegna er svarið við spurningum eins og: „Farið þið ekki að verða búin að taka við handritunum?“ að við verðum aldrei búin. Ef umhyggja fyrir hinum fornu bókum er tekin alvarlega þá vinnum við stöðugt að því að rannsaka og birta textana sem þær geyma, bæði þá sem aldrei hafa verið gefnir út og líka hina sem einhvern tíma hafa verið prentaðir vegna þess að nýir tímar leiða af sér breyttan skilning á gömlum sögum og kvæðum og þess þarf að sjá stað í útgáfum. Við þurfum líka að finna leiðir til þess að opinbera myndlistina sem býr í handritunum og tónlistina, ekki síður en bókmenntirnar. Og við þurfum að spyrja spurninga um tilurð, merkingu og tilgang þessara listaverka. Okkar mikli arfur – ógrynni texta, heilt haf af handritum, vitnisburður um íslenska hugsun, sköpun, tungutak í átta hundruð ár – kallar á mikla vinnu ef réttilega á að vernda handritin en ekki eyða þeim. Stefnuleysi Íslendinga í málefnum Árnastofnunar, sinnuleysi þeirra gagnvart handritunum, er í reynd eyðingarstefna.

Það kom fram hér fyrr í greininni að um handritin véluðu sjö manns, þar af fjórir rannsóknardósentar/prófessorar. Um aldamótin voru þeir níu. Þeim hefur semsé fækkað um meira en helming á rúmum áratug – sú þróun hófst fyrir hrun. Þá var núverandi handritasvið hryggjarstykkið í „gömlu“ Árnastofnun en hún var síðan sameinuð fjórum öðrum stofnunum árið 2006 eins og fyrr segir. Sameiningin var vilji ráðuneytis og stjórnvalda og röksemdirnar voru hefðbundnar: litlar einingar eru óhagkvæmar, mikilvægt er að ná fram samlegðaráhrifum, spara það fé sem þarf til skrifstofuhalds og rekstrar og nýta fjármunina þá betur til hagsbóta fyrir fræðin – og þjóðina alla. Til þess að sýna nú að þeim væri alvara áformuðu stjórnvöld að reisa byggingu yfir hina sameinuðu stofnun, svo hún gæti sameinast í veruleikanum en ekki bara á pappír, og sömuleiðis fékk nýja stofnunin í tannfé tvær rannsóknarstöður og var önnur kennd við Árna Magnússon, hin við Sigurð Nordal. Þær voru hugsaðar til þess að ráða mætti ungt fræðafólk að stofnuninni í vissan tíma, eins konar nýdoktorastöður til eflingar bæði stofnuninni, fræðunum og ungu vísindafólki. Eitt af því sem ætti nefnilega að vera þjóðhollum stjórnmálamönnum umhugsunarefni er hvernig tryggja megi að gott námsfólk leggi fyrir sig íslensk fræði. Eins og málum er háttað eru engir hvatar til þess – engir styrkir eru í boði til þess að ýta undir slíkt námsval og líkur á starfi að loknu doktorsprófi sáralitlar; launakjörin lítt aðlaðandi. Það er skemmst frá því að segja að nýju rannsóknarstöðurnar hurfu í Hruninu, ekki hefur verið hægt að ráða í aðrar stöður sem hafa losnað og örlög húsbyggingarinnar má sjá í Grunni íslenskra fræða við Suðurgötu.

Bruðl, vitleysa og þvæla. Skilum handritunum!

Tölum um Húsið. Þegar Landssíminn var seldur árið 2005 var tilkynnt að einum milljarði af andvirði hans yrði varið til þess að reisa Hús íslenskra fræða. Símapeningarnir reyndust aldrei hafa eignast jarðneska tilveru, þeir voru og eru enn í húfu guðs (Mammons, væntanlega). Og Húsið er órisið og hefur ekki einu sinni fengið brúklegt nafn en það hefur þó öðlast tilvist í umræðunni: Það er sumum orðið tákn um Gæluverkefni. Þetta má glöggt sjá í umræðum um framkvæmdina á Alþingi í fyrravetur þar sem byggingunni var markvisst stillt upp andspænis fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Hér talar Birgir Ármannsson:

Þetta er ekki góð fjárfesting að mínu mati. Þetta er ekki verðmætaskapandi fjárfesting í þeim skilningi sem ég legg í þau orð. Ég held að allir séu sammála um það að æskilegt væri og gleðilegt ef við hefðum efni á því á þessari stundu að hefja stóra og kostnaðarsama byggingu undir starfsemi sem tengist íslenskum fræðum. Það væri voðalega gaman, en á þeim tíma þegar við Íslendingar erum í mesta basli með að borga lögreglumönnum laun, hafa nægilega marga hjúkrunarfræðinga í vinnu og svo má lengi telja þá er ég þeirrar skoðunar að við höfum ekki efni á því að fara í lúxusverkefni af þessu tagi. Því miður. Þetta er að mínu mati dæmi um ranga forgangsröðun.[8]

Ásbjörn Óttarsson tók enn dýpra í árinni:

Hvað skyldi vera gert þegar búið er að loka heilsugæslustöðvunum og deildum á Landspítalanum? Á þá að fara með sjúklingana í hús íslenskra fræða? Er það tilfellið? Það sést í raun og veru og endurspeglast hér hversu veruleikafirringin er oft og tíðum mikil þegar menn eru að fara yfir þá hluti. Það er auðvitað ekkert gagn að því að byggja hús íslenskra fræða. Það er engin skynsemi og alger vitleysa og bruðl. Á sama tíma er verið að vega að grunnþjónustu og grunnstoðum landsins. Forsvarsmenn Landspítalans og starfsfólk hans á heiður skilið fyrir að hafa staðið af sér niðurskurðinn sem hefur orðið á stofnuninni og allar aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu hafa líka staðið sig einstaklega vel. En svo þegar rofar til að mati hv. stjórnarliða fara menn í svona gæluverkefni sem er auðvitað ekkert annað bruðl og vitleysa og þvæla. [9]

Það er vitaskuld fáránleg einföldun að stilla fjárlagagerð upp með þessum hætti en það merkilega er að þessi málflutningur virðist eiga talsverðan hljómgrunn í þjóðfélaginu. [10] Að minnsta kosti hafa ekki margir orðið til að andæfa. [11] Fólkið, sem í Hruninu þakkaði Guði fyrir að við ættum þó ennþá handritin, heldur sig til hlés í umræðunni. Hvar eru rithöfundarnir og skáldin sem sækja sér innblástur í sögurnar – kvikmyndagerðarfólkið, myndlistarmennirnir? Vísindasamfélagið sem ætti að bera vönduð íslensk fræði fyrir brjósti? Heyrðist nokkuð í forseta lýðveldisins? (Ekki fyrr en Danadrottning kom til skjalanna – enn eigum við Dönum talsvert að þakka.) Æ, það er svo vandræðalegt að tala fyrir steinsteypu. Hver ætlar að taka að sér að segja að það sé skynsemi í því að reisa enn eitt húsið? (– hver man nú ekki Hörpu?) En bíðum við: Hvers vegna öll þessi læti út af einu húsi? Við Íslendingar stöndum í stöðugum framkvæmdum án þess að það verði tilefni upphrópana; hér eru sundlaugar og íþróttahallir í nánast hverju byggðarlagi, vöruhús, kirkjur og skólar. Lagðir eru vegir, byggðar brýr og boruð jarðgöng samkvæmt áætlun (eða umfram). Í landinu býr meira að segja fólk sem hefur efni á að kaupa fínustu hús gagngert til þess að rífa þau og reisa ný. En þegar koma á þaki yfir þjóðargersemarnar margrómuðu, þá er eins og það sé ekki á við hvert annað verkefni á listanum, heldur einhvers konar átaksverkefni sem ekki verði ráðist í nema sérstakur búhnykkur falli til. Þegar harðnar í ári fellur dómurinn: Gæluverkefni. Handritin geta beðið. Og skiptir þá engu þótt þriðjungs byggingarfjárins hafi þegar verið aflað gegnum Happdrætti Háskólans. Er ekki einkennilegt að þeir sem auðveldlega sjá hagkvæmnina í vegagerð, skuli ekki koma auga á hagræn rök fyrir því að opna aðgengi að fortíðinni? Sem gerir okkur kleift að hagnýta menningararfinn með nútímaaðferðum, ekki eingöngu í þágu ferðaþjónustu, eins og þegar var nefnt, heldur og til hagsbóta fyrir hvers kyns sköpun og framleiðslu sem gjarnan vill nota þennan efnivið en kemst illa að honum. (Og þá erum við ekki farin að tala um sjálfan hagvöxt menningarinnar sem Arnaldur Indriðason gerði að umtalsefni í erindinu sem vísað var til hér að framan.) Þeir sem telja að heppilegast sé að Árnastofnun leggist í dvala þangað til hægt verður að endurnýja flatskjáina í landinu hafa einhvern veginn misst af lykilatriðum í sambandi við hagsæld og mannlíf.

Stundum hittir maður góðviljað fólk sem horfir á mann alvörugefið og segir: Er ekki vitleysa að vera að byggja þetta hús – væri ekki miklu betra fyrir ykkur að fá peninga í reksturinn? Geta ráðið fleira fólk, eflt starfsemina? Hverju skal svara? Jú, það væri dásamlegt að eignast sjóð uppá þrjá milljarða sem mætti ávaxta og verja svo arðinum í vísindastarf. En eitt er, að slíkt hefur aldrei staðið til boða – þótt þingmenn breyti sementinu í Húsinu frjálslega í stöður hjúkrunarfræðinga og lögreglumanna í hugarleikfimleikfimi sinni, virðist aldrei vera inni í myndinni að reikna það yfir í stöður sérfræðinga og nýdoktora. Og svo er það staðreynd, eins og ég hef reynt að útskýra hér að framan, að núverandi húsnæði stofnunarinnar hamlar öllum vexti hennar – við getum ekki eflt hana án þess að flytja hana og sameina á einum stað, enda var sameiginlegt húsnæði forsenda þeirrar ákvörðunar að sameina fimm stofnanir í eina árið 2006. Í þriðja lagi er þetta ekki spurning um annaðhvort-eða heldur bæði-og. Það verður bæði að koma stofnuninni í betra húsnæði og efla starfsemina. Nema Íslendingar láti kné fylgja kviði og ákveði að leggja hana niður. Það væri að mörgu leyti rökrétt niðurstaða af margra ára niðurskurði og þeirri umræðu sem iðkuð hefur verið á undanförnum misserum, umræðunni sem stillir heilbrigði upp öndvert við menningu. Ályktunin yrði þá eitthvað í þessa veru: Við viljum kaupa lyf og lækningatæki og greiða heilbrigðisstarfsfólki laun. Það þýðir að við höfum ekki efni á að eiga handrit og annast þau. Þess vegna hefjum við á ný viðræður við Dani og förum fram á að þeir taki aftur við handritunum.

Að vísu er hætt við að við færum bónleið til búðar danskra. Senn verður hálf öld frá því að danska þingið réði handritamálinu til lykta. Danir sýndu stórhug þegar þeir féllust á að afhenda okkur meira en helming handritanna úr Árnasafni og allmörg handrit úr Konungsbókhlöðu að auki og þeir þykja hafa sýnt öðrum þjóðum mikilvægt fordæmi. Þótt þeir megi vera stoltir af þessum gjörningi mun stoltið þó ævinlega blandið þeirri tilfinningu að þeir hafi orðið að láta í minni pokann. Af handritamálinu höfðu Danir því sæmd – en líka sársauka og þess er ekki að vænta að þeir yrðu áfjáðir í að taka það upp aftur. Það er einfaldlega ekki hægt að snúa til baka. Við Íslendingar sitjum uppi með fenginn og fátt sem getur bjargað okkur nema ef vera skyldi myndarlegur eldur.

Elds er þörf

Það kostar klof að ríða rafti. Það er fyrirhöfn að eiga og annast dýrmæta hluti og tímabært að Íslendingar horfist í augu við þá ábyrgð sem þeir öxluðu með lausn handritamálsins. Fólk sem tekur að sér að forvalta menningarauð heimsins verður að gera um það áætlanir hvernig að því skuli staðið og það fjármagnað. Og horfast í augu við að það kostar talsvert fé. Þar dugir ekki að standa eins og glópar og snúa út tómum vösum. Rifjum upp að við öðluðumst yfirráð yfir fiskimiðunum á sama tíma og handritin komu í okkar vörslu frá Danmörku. Fiskur og handrit. Þetta ætti að vera órjúfanlega samtengt í vitund okkar: meðan við veiðum fisk höfum við efni á að eiga handrit. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er ein af grunnstoðum samfélagsins og löngu kominn tími til að málefni hennar verði sett í forgang. Innviðir hennar eru að molna og umgjörðin að springa. Starfsfólkið býr (enn) yfir eldmóði en það dugar ekki til. Við verðum að finna stuðning ykkar hinna, finna hann í orði og á borði, frá hverjum bæ og hverju býli. Átt þú eld?

 

Tilvísanir

1 Ég þakka Aðalsteini Eyþórssyni fyrir að legg ja mér til titil þessarar greinar og kollegum mínum Gísla Sigurðssyni, Ólöfu Benediktsdóttur og Jóhönnu Katrínu Friðriksdóttur þeirra tillegg. Ritstjóri TMM og f jórir ónefndir vinir mínir eiga þakkir skildar fyrir yfirlestur og gagnrýni.
2 Arnaldur Indriðason, „Margra heima sýn“, TMM 4.13, bls. 5.
3 Á þetta benti Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar í viðtali við Einar Fal Ingólfsson í Morgunblaðinu 28. aprí l 2013.
4 Kári Stefánsson, „Íslenska.“ Morgunblaðið 19. september 2013.Áður hafði Kári ritað greinina „Hvenær drepur maður (ríkisstjórn) mann?“ Morgunblaðið 10. september 2013. Guðrún Nordal svaraði báðum greinunum, sjá „Íslenskan er ekki lúxusmál“, Morgunblaðið 17. september, og „Draumur og veruleiki“, Morgunblaðið 20. september.
5 Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins 22. maí 2013. http://www.forsaetisraduneyti.is/verkefni/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/ Sótt 26. janúar 2014. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefni milli ráðuneyta, nr. 71/2013. Stjórnartíðindi A-deild 24. maí 2013. Ákvörðuninni var síðan snúið við hvað Árnastofnun varðar með breytingu á fyrrnefndum úrskurði 31. desember 2013 (nr. 148/2013).
6 Það vantar heildstæða stefnu og aðgerðaáætlun á þessu sviði í landinu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur í þrígang mælt fyrir þingsályktunartillögu þess efnis, síðast í október er leið, en án árangurs. Sjá http://www.althingi.is/altext/raeda/141/rad20121011T174848.html. Sótt 26. janúar 2014 .
7 Brynjólfur orðar þetta í bréfi til Villum Lange prófessors og bókava rða r konungs 1656, sjá Úr bréfabókum Br ynjólfs biskups Sveinssonar, útg. Jón Helgason (Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga 12). Kaupma nnahöf n 1942 , bls. 72 .
8 http://www.althingi.is/altext/raeda/141/rad20121203T233024.html. Sótt 5. október 2013.
9 http://www.althingi.is/altext/raeda/141/rad20121205T020528.html. Sótt 5. október 2013.
10 Þetta ræddi Guðrún Nordal í greininni „Draumur og veruleiki “ í Morgunblaðinu 20. september 2013.
11 Markverð undantekning var bloggfærsla Ragnars Þórs Péturssonar, http://blog.pressan.is/ragnarthor/2013/07/26/ogn-um-hus-islenskra-fraeda/. Sótt 5. október 2013.