Eftir Úlfhildi Dagsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014
„Hann er bróðir minn,“ segir Thor, ásakandi, þegar Loki er sagður geðveikur. Og bætir við í hasti, eftir að hafa verið tjáð að Loki hafi drepið fjölda manns; „Hann er ættleiddur“. [1] Einhverjir eru kannski byrjaðir að rifja upp goðafræðina sína og rámar í að fjölskyldutengslin hafi verið aðeins öðruvísi hjá Snorra Sturlusyni – þeim sömu finnst kannski líka nokkuð framandlegt yfirbragð yfir Ásgarði og íbúum hans eins og þeir birtast í kvikmyndunum um Thor og The Avengers, en þær eru byggðar á samnefndum myndasögum. Þar er Thor ofurhetja og hasarinn eftir því; hann berst við goð, menn og aðra meinvætti, en aðalóvinurinn er fósturbróðirinn, Loki Laufeyjarson.
„Ef það er í lagi ykkar vegna, þá þigg ég þennan drykk núna,“ segir Loki undir lok kvikmyndarinnar The Avengers (Joss Whedon 2012), en þar hefur hann verið gersigraður, aftur. Loki hefur leitt her illvígra geimvera gegn New York borg, en eftir að hafa mistekist að sigra Thor og verða konungur Ásgarðs hefur hann ákveðið að láta jörðina duga sem yfirráðasvæði. (Og eins og allir vita er upphaf og endi mannkyns að finna í bandarískum stórborgum.) En með sameinuðu átaki ýmissa bandarískra ofurhetja – þar á meðal er Thor – misheppnast honum ætlunarverk sitt og verður að láta í minni pokann; bókstaflega, en hann er barinn í klessu af Hulk, risavöxnu reiðiskrýmsli sem er afkvæmi tilrauna með geislavirkni. Eftir að hafa lamið Loka ofan í gólfið gengur Hulk burtu og muldrar: „Lítill guð“.
Já, það gengur mikið á og kannski ástæða til að staldra aðeins við og útskýra hvað er hér eiginlega á seyði.
Hetja verður til
Árið er 1962 og í heimi myndasögunnar eru amerískar ofurhetjur í uppsveiflu, eftir nokkur mögur ár. Ein þeirra er þrumuguðinn Thor. Seinna fær þetta tímabil heitið ‚Silfuröldin‘ og er aðallega talið tilheyra útgáfurisanum Marvel. ‚Gullöldin‘ var tími þeirra Súpermans, Batmans og Wonder Woman, og hófst með útkomu fyrstu sögunnar um Súperman árið 1938. Lok hennar eru óljósari, en þó er víst að eftir síðari heimsstyrjöld nutu þessar hressu hetjur ekki eins mikilla vinsælda og fáum árum áður. Í staðinn komu fram myrkari myndasögur, hrollvekjur, glæpasögur – og ástarsögur.
Þær nutu gífurlegra vinsælda lesenda, en yfirvöld, foreldrar, kennarar og kvenfélög voru ekki jafn hrifin. Eftir nokkur átök um ritskoðun áttu þessar sögur mjög undir högg að sækja og þá braust ofurhetjan fram á sjónarsviðið á ný. Höfundar þeirra sagna hafa sjálfir orðið að goðsögnum, en það voru (aðallega) þeir Stan Lee og Jack Kirby sem fundu upp glás af glænýjum ofurhetjum. Þessar hetjur voru yngri en gullaldarliðið, og að mörgu leyti hversdagslegri, allavega þegar þær voru ekki í grímubúningunum sínum. Sem dæmi má nefna Spiderman, sem berst við að vinna fyrir sér sem fréttaljósmyndari, og X-mennina, sem eiga við unglingavandamál og fordóma að stríða. [2]
Thor er þó kannski ekki alveg hversdagslegur á þennan hátt; hann er, eftir alltsaman, guð. En hann hefur samt ákaflega mennsk einkenni (eins og goð til forna höfðu) því hann er heltekinn af hinum klassíska pabbakomlex. (Enn á ný sannar ödípusarkenning Freuds sig sem efniviður í sögufléttu.) Höfundar Thors, Stan Lee og Jack Kirby [3] fóru ákaflega frjálslega með norræna sagnaarfinn. Þannig er Loki Laufeyjarson, sem er aðalillmenni sagnanna, ekki bara fósturbróðir Thors heldur hefur kyn foreldra hans eitthvað farið á flakk, í heimi Marvel er Laufey faðir Loka og konungur, Fárbauti er drottning og móðir Loka. [4]
Á hinn bóginn er ýmsu í persónu Loka haldið, meðal annars því að hann getur skipt um ham og er alltaf til vandræða. Hamar Þórs leikur svo lykilhlutverk, en í krafti hans er Thor fleygur, sem gæti komið einhverjum trúarbragðafræðingum á óvart. Almennt séð hefur þótt heppilegt að hafa ofurhetjur ekki of jarðbundnar, þó vissulega noti þær mismunandi aðferðir við að takast á loft.
Óðinn er að sjálfsögðu til staðar – annars væri pabbakomplexinn ekki mögulegur – og kona hans Frigg, en í kvikmyndunum er það hún sem kennir Loka galdur og hamskipti. Sif er persóna í sögunum, en þó ekki (framanaf) sem kona Thors heldur ein úr vinahóp hans. Í kvikmyndunum birtist hún sem svaka svöl og dáldið grimmúðleg bardagamær – en greinilega veik fyrir ljóshærða vöðvabúntinu. [5]
Hér ætla ég ekki að fara nákvæmlega í myndasögurnar, en þær eru enn að koma út og þótt Thor hafi ekki orðið að viðlíka stórstjörnu og Súperman og Spiderman hafa sögurnar um hann notið nokkuð stöðugra vinsælda. Þessar vinsældir birtast meðal annars í því að nú hafa verið gerðar um hann tvær bíómyndir, auk þess sem hann leikur stórt hlutverk í The Avengers, en hún fjallar um samnefndan hóp ofurhetja sem Thor hefur tilheyrt allt frá árinu 1963.
Þór og Ödipus
Árið 2002 heimsótti skoski myndasöguhöfundurinn Grant Morrison Ísland og fór meðal annars í viðtal í Kastljósi. Þar benti hann á ef fólk vildi fylgjast með því sem væri að gerast í (amerískum) kvikmyndum væri besta ráðið að lesa myndasögur, en á þessum tíma höfðu aðrar hetjur Silfuraldarinnar, X-mennirnir nýlega slegið í gegn í kvikmynd (árið 2000). Morrison reyndist sannspár, því það sem af er 21. öldinni hafa komið út fjölmargar myndir byggðar á myndasögum. Af þeim hafa ofurhetjumyndirnar verið verið mest áberandi og notið mestra vinsælda. [6]
Spiderman og Hulk sigldu í kjölfar vinsælda X-mannanna, og gullaldarhetjurnar risu upp á ný í myndum um Batman, Súperman og Captain America (sem reyndar endurnýjaðist á Silfuröldinni og gekk til liðs við The Avengers). Og svo kom röðin að Thor. Fyrsta myndin, Thor, var frumsýnd árið 2011 og er í hreinskilni sagt ekki merkileg. Breski leikstjórinn Kenneth Brannagh virðist ekki alveg vita hvað hann ætlar sér að gera með þetta vissulega frekar furðulega efni og niðurstaðan verður einhverskonar fjölskyldudrama með bardagaívafi. Það átti þó eftir að sýna sig að sá grunnur sem Branagh lagði, meðal annars með leikaravali, átti eftir að skila sér.
Söguþráðurinn sækir aðallega til fyrstu Thor sagnanna, það er að segja ‚upprunasögu‘ Thor sem ofurhetju og hefst á því að til stendur að krýna Thor formlega sem arftaka krúnunnar. Ásgarður er sumsé konungsríki og Óðinn er að búa sig undir að setjast í helgan stein. Loki, sem veit ekki betur en að hann sé blóðbróðir Thors, er sár og öfundsjúkur. Krýningarathöfnin er trufluð af innbroti, þursar komast inn í höllina og reyna að stela þaðan fornu herfangi. Seinna kemur í ljós að Loki hefur opnað þeim leið með það að markmiði að skemma fyrir Thor. Reiði hans verður þó enn meiri þegar upp kemst að hann er alls ekki sonur þeirra Óðins og Friggjar af holdi og blóði heldur ættleiddur konungssonur þursa eftir að Óðinn hafði gersigrað þá í bardaga.
Thor tekur það upp hjá sjálfum sér að elta þjófana uppi og brýtur þannig gegn fyrirmælum föður síns sem verður til þess að Óðinn gerir son sinn útlægan og sendir hann til jarðar. Hamarinn, sem Thor átti að fá til marks um konungsdæmið, er sömuleiðis sendur af stað til jarðar, með þeim fyrirmælum að enginn muni geta valdið honum nema hafa sannað gildi sitt – sem Thor, eða jafnoki hans. Thor er pikkaður upp, fremur ringlaður, af hópi vísindamanna sem eru að rannsaka truflanir í himinhnöttunum, meðal þeirra er Jane Foster, sem verður strax skotin í Thor og hann í henni. Allt voða krúttlegt. Á meðan á þessu gengur leggst Óðinn í dvala og upplausn ríkir í Ásgarði. Loki sendir einskonar vélskrýmsli á eftir Thor sem þarf bæði að verja sig og hina nýju vini sína, vinir hans frá Ásgarði koma askvaðandi til að aðstoða hann og Jane Foster reynir að hjálpa honum til að ná aftur hamrinum, sem lenti á svipuðum slóðum.
Allt bjargast þetta náttúrulega að lokum, en Loki fellur ofan í ginnungagap, bara til að snúa aftur með her óvígra geimvera í The Avengers.
Ástralski leikarinn Chris Hemsworth var valinn til að leika Thor, en hann er allt í senn hávaxinn og vörpulegur, litfríður og ljóshærður. Í þessari fyrstu mynd var hann þó ekki sérlega tilþrifamikill og virtist helst fær um að vera sár, ringlaður og ofurlítið reiður. Breski leikarinn Tom Hiddleston sótti upphaflega um hlutverk Thors en endaði sem Loki. Hann þekkja kannski einhverjir úr þáttum Branaghs um Wallander, en þar leikur hann Martinson. Það er gömul og góð hefð fyrir því að Bretar leiki illmenni í bandarískum bíómyndum og þrátt fyrir að vera bundinn ofurdramatísku handriti sýndi Hiddleston mun meiri tilþrif en Hemsworth, enda um öllu bitastæðara hlutverk að ræða.
Anthony Hopkins sem Óðinn var afskaplega valdsmannslegur og Rene Russo í hlutverki Friggjar skilaði samviskusamlega af sér ímynd hinnar þolinmóðu og dálítið þjökuðu móður. Jane Foster er leikin af Natalie Portman og fékk nú ekki mikið að gera í þessari mynd annað en að horfa dálítið heilluð á Thor. Af öðrum leikurum má nefna Stellan Skarsgård í hlutverk læriföður Fosters og Ray Stevenson sem Volstagg, vin Thors, en hann gæti fólk þekkt úr bresku sjónvarpsþáttaröðinni Rome (2005–2007) eða í hlutverki The Punisher (2008). Síðast en ekki síst ber að nefna hinn kolsvarta Idris Elba (Luther) sem Heimdall.
Eins og áður segir er leikaravalið flott, en það var þó ekki fyrr en í næstu mynd sem það fékk verulega að láta til sín taka.
Þór og myrkraverkin
Næsta kvikmynd um Thor var að hluta til tekin upp á Íslandi og vakti það mikla athygli. Thor: The Dark World var frumsýnd árið 2013 í leikstjórn Alan Taylor sem tók við af Branagh. Þessi mynd sækir efnivið sinn að nokkru leyti til myndasagna eftir Walter Simonson sem hófu göngu sína árið 1983 og öfluðu Thor á sínum tíma endurnýjaðra vinsælda og þykja enn með því betra sem komið hefur út um þrumuguðinn. [7]
Simonson sækir meira í goðafræðina en fyrri höfundar enda fer baráttan að miklu leyti fram í goðaheimum (sem í myndasögunum og kvikmyndunum er einhversstaðar úti í geimi), þó vissulega endi þetta allt með árás á jörðina. Loki er fangi í dýflissu konungshallarinnar eftir atburðina í The Avengers, og Thor saknar Jane Foster. Hann er orðinn efins um konungdóminn og almennt óglaður. Á jörðu niðri uppgötvar Jane dularfulla atburði tengda þyngdarsviði, rambar óvart á aldagamalt ‚vopn‘, einhverskonar orkustraum, sem tekur sér bólfestu í líkama hennar. Thor uppgötvar (með hjálp frá Heimdalli) að eitthvað er að og drífur sig til hennar (e.k. ‚beam me down, Heimdallur‘-aðferð), sér að hún er í vanda stödd og tekur hana með heim í Ásgarð, föður sínum til lítillar ánægju.
Á sama tíma rakna úr rotinu upphaflegir eigendur ‚vopnsins‘, svartálfar, sem hafa legið í dvala og beðið eftir tækifæri til að hefna sín eftir ævafornan ósigur. Þeir ráðast á Ásgarð og drepa Frigg. Thor fær Loka í lið með sér að hefna og ná jafnframt að losa ‚vopnið‘ úr líkama Jane. Loki lætur tilleiðast því hann syrgir Frigg ákaft, en ferðin endar með ósigri, svartálfarnir ná vopninu á vald sitt og Loki er rekinn í gegn þar sem hann reynir að vernda Jane. Svo virðist sem Thor og Jane séu strandaglópar í svartálfaheimi (þ.e. á Íslandi) en Jane finnur leið til baka til jarðar og þau taka að verjast. Bæði árásin og vörnin snúast um sérstakt ástand sem myndast þegar hinir níu heimar norrænnar goðafræði raðast upp í beinni línu og lokabardaginn gengur út á allskonar ævintýri milli þyngdarsviða og milliheimaflakk.
Í The Avengers fengu þeir fósturbræður, Thor og Loki, mun betra handrit í hendurnar (eftir leikstjórann Joss Whedon) og gátu því farið að sýna hvað í þeim bjó. Thor hætti að vera svona mikill vælukjói og sjálfumgleðin dalaði aðeins, og Loki beinlínis ljómaði í illsku sinni. Hér mátti sjá kunnugleg stef úr goðsögnunum, Loki er fyndinn og andstyggilegur og á auðvelt með að snúa á Thor sem treystir meira á vöðvastyrk en heilastarfsemi. Þetta heldur svo áfram í hinum myrka heimi en þar er Thor orðinn afhuga konungsveldinu og jafnframt enn meira efins um eigið ágæti. Loki er hinsvegar samur við sig og á dásamlegan lokaleik. Frigg og Jane fá aðeins öflugri hlutverk og almennt býr myndin yfir meiri húmor, í anda Avengers-myndarinnar, þrátt fyrir að myrkraöflin séu afar ógnvænleg.
Menningararfi
Það er voðalega auðvelt að flissa að tilraunum myndasöguhöfunda með norræna goðatrú. Fyrir utan skrýtnar ættfærslur stingur í augun að Óðinn er tvíeygur lengi framanaf, Hel er sýnd sem megabeib og svo mætti lengi telja. Vinsældir Thor-myndasagnanna hafa haldist stöðugar og það er óhætt að ætla að tilbrigðið hafi valdið heilmiklum misskilningi um heim norrænnar trúar meðal hins almenna bandaríska lesanda. [8] Á hinn bóginn er ljóst að myndasögurnar hafa vakið áhuga margra á þessum menningararfi.
Kvikmyndirnar, sem almennt hafa hlotið afar góðar viðtökur (líka sú fyrsta, sem var afleit), hafa síðan gert sitt til að auka á útbreiðslu ruglingsins, og auka áhugann á viðfangsefninu. Þó er ljóst að í kvikmyndunum er sitthvað reynt til að draga fram víkinga-ímynd, þetta birtist í mynstrum á útbúnaði hetjanna og hönnun umhverfis. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að norrænum mönnum fornaldar hefði sjálfsagt komið ýmislegt einkennilega fyrir sjónir, en í kvikmyndunum er farin sú leið að gera Ásgarð afskaplega tæknivæddan og geimverskan, eins og birtist meðal annars í Bifröst og umbúnaði Heimdallar. Almennt birta kvikmyndirnar nokkuð vel heppnaða blöndu af þessu tvennu, enda eru þau atriði sem gerast í Ásgarði og öðrum goðaheimum afar áhrifarík. [9] Thor er hinsvegar obbolítið eins og fiskur á þurru landi þegar hann er jarðbundinn, en það er reyndar ágætlega nýtt í kómískum tilgangi.
Því má þó ekki gleyma að hér er um skáldskap að ræða, norrænar goðsagnir eru nýttar sem uppistaða í nýjum skáldverkum, myndasögum og kvikmyndum. Þessi ‚nýting‘ vekur síðan upp spurningar um þjóðmenningu og menningararf. [10] Í greininni „Sagnfræðin í heimi menningararfs og minninga“ (2007), bendir Helgi Þorláksson á hvernig hugtakið ‚menningararfur‘ má skilja sem útþynning á menningu, og er notað í ýmsum tilgangi (pólitískum, markaðslegum) sem hefur kannski ekki svo mikið með eiginlegt gildi (eða sanngildi) viðkomandi menningarfyrirbæris að gera. [11]
En hvert er þetta sanngildi menningarinnar og hvaða máli skiptir það? Í ritinu Cultural Tourism (2002) fjalla þau Bob McKercher og Hilary du Cros um menningarfyrirbæri og ferðamennsku – en ferðamennska er einmitt gott dæmi um nýtingu á menningu og menningararfi. Þar leggja þau nokkra áherslu á það sem á ensku kallast ‚intrinsic value‘, eða „eiginleg gildi“, það er að segja, gildi sem hið menningarlega fyrirbæri hefur í sjálfu sér, en ekki einvörðungu sem söluvara fyrir ferðamennsku. [12] Þau nefna hættuna á að fletja út merkingu (og þarmeð gildi) staðarins/fyrirbærisins og drepa henni á dreif, með því að reyna að höfða til allra. [13]
Umræðu McKerchers og du Cros um menningu sem söluvöru til ferðamanna má auðveldlega skipta út fyrir menningu sem áróðurstæki fyrir þjóðernishyggju – sem á að höfða til allra í tilteknu mengi og vera tæki til sameiningar og samstöðu – í báðum tilvikum er hætt við að menningararfurinn breytist í menningararfa, eitthvað sem vex hinu menningarlega ræktarlandi yfir höfuð og kæfir það í ákafri útbreiðslu sinni.
Þegar kemur að norrænni goðafræði er spurningin um sanngildið hinsvegar ekki einfalt mál. Sú útgáfa sem við höfum af þessum goðsögum er aðallega komin úr Snorra-Eddu, en þar tekur Snorri Sturluson saman ýmsar goðsagnir og fellir í eina samfellda sögu, sem hann í ofanálag staðsetur sem jarðbundna – Snorra-Edda er skrifuð á kristnum tímum og er meðal annars líklega ætlað að laga goðsagnaheiminn að kristinni heimsmynd – og skriflegri menningu. Að auki má ætla að markmiðið hafi e.t.v. snúist um verndun, það að búa til einskonar kennslubók í goðafræði, ekki síst í þeim tilgangi að skýra skáldsskap fornsagnaheimsins, en tilvísanaheimur hans byggir mjög á norrænni goðafræði. Faðir minn, trúarbragðafræðingurinn, þreytist aldrei á að segja mér að út af fyrir sig sé ekkert ‚rétt‘ við Snorra-Eddu, hún sé einfaldlega útgáfa Snorra af norrænum goðsögnum. Víða má sjá glitta í saumana og ummerki um aðrar útgáfur finnast í fornritunum sjálfum, ekki síst Eddukvæðunum. [14] Gunnlaðar saga (1987) Svövu Jakobsdóttur er ákaflega gott dæmi um allt aðra sýn á þennan menningararf, skáldsagan byggir á umfangsmiklum rannsóknum Svövu á þessum sagnaarfi.
Þannig má, út af fyrir sig, sjá Snorra-Eddu sem dæmi um menningarf í þeim skilningi sem Helgi leggur í hugtakið, þá þegar útþynnta og snyrta útgáfu, sem á að gera höfðað til allra – og hefur gert það, samviskusamlega.
Endursögð saga
Út af fyrir sig er Snorra-Edda einmitt gott dæmi um það hvernig sagnir af þessu tagi þrífast einmitt sem endursagnir, útgáfur, tilbrigði. Í fræðaskrifum um þjóðsögur og ævintýri er lögð mikil áhersla á að þessar frásagnir séu ekki stöðugur menningararfur, því þetta efni byggist beinlínis á því að vera endursagt og fært í ný form sem hæfa hverjum tíma. Þetta má auðveldlega yfirfæra á goðsagnir (þó vissulega séu trúarbrögð misviðkvæm fyrir endursögnum). [15]
Saga Þórs sýnir þetta vel, en myndasögurnar og svo kvikmyndirnar eru gott dæmi um endursagnir sem má vel sjá sem framhald af margháttuðum tilfærslum; frá sundurlausum munnlegum sögnum yfir í samfellda frásögn Snorra-Eddu, sem síðan er brotin niður aftur í einskonar epíska endaleysu ótal dreifðra en lauslega samtengdra sagna í myndasögunum. Kvikmyndirnar hnýta þessi fræði saman í þéttari og styttri útgáfur. Goðsagnirnar hafa því ferðast frá munnlegri geymd með sjónrænu ívafi (goðalíkönin sjálf sem á sínum tíma bjuggu yfir miklu kynngimagni) yfir í ritaðar heimildir og þaðan aftur yfir á svið hins sjónræna með myndasögum og kvikmyndum – og hér er ekki úr vegi að nefna að kvikmyndinni hefur verið líkt við trúarupplifun okkar tíma.
Á undanförnum árum hefur áhugi á endurvinnslu þjóðsagna og goðsagna í bókmenntum aukist mjög og bæði bókmenntafræðingar og þjóðfræðingar fjallað um hvernig þjóðsagan mætir bókmenntum. [16] Þessi áhugi kemur ekki til af engu, en á sjöunda og áttunda áratugnum byrja að koma fram verk sem vinna á virkan hátt með sagnaarf, þjóðsögur og goðsögur. [17] Það er einmitt á sama tíma sem Thor verður að ofurhetju í bandarískum myndasögum.
Kevin Paul Smith setur fram kenningu um átta mismunandi tegundir af bókmenntalegri úrvinnslu á ævintýrum (og ég yfirfæri á goðsögur):
- Yfirlýst: Greinileg tilvísun í titli
- Undirtexti: Að gefa í skyn tilvísun í titli
- Innlimun: Greinileg tilvísun til í texta
- Óbein tilvísun: Að gefa í skyn tilvísun í texta
- Endursköpun: Gömul saga færð í nýtt form
- Tilbúningur: Ný saga búin til
- Sjálfssöguleg: Umræða um þjóðsögur
- Byggingarleg: Þjóðsögulegt svið eða umgjörð [18]
Kvikmyndirnar um Thor falla greinilega í flokk 1, 3, 5 og 8, en einnig má færa rök fyrir því að liður 6 eigi við, því auk þess að færa gamla sögu í nýtt form er í raun búin til ný saga á gömlum grunni – ofurhetju- og hasarsaga. Liður 7 er einnig til staðar, en það er heilmikið fjallað um þennan goðsagnaheim, aðallega þó í Thor-myndunum, minna í Avengers-myndinni. [19]
Það er því ljóst að kvikmyndaútgáfurnar falla afar vel að líkani Smiths um ævintýri og eins og önnur svona módel birtir upptalningin greinilega hvernig úrvinnslan fer fram, allt frá beinum tilvísunum til sviðsmyndar, en með nokkurri áherslu á endurvinnslu. Jafnframt sýnir líkanið að Thor-myndirnar falla í flokka yfirlýstrar endursköpunar, hér er ekki talað undir rós; myndirnar fjalla um Thor og fjölskyldu hans í Ásgarði og eru nýjar sögur um það lið allt.
Líkanið segir okkur þó lítið um gæði þessarar úrvinnslu á goðsögunum. Hvað á okkur eiginlega að finnast um þetta? Ég verð að játa að þegar ég skoðaði fyrst einhver tilfallandi myndasögublöð um Thor fannst mér ekki mikið til koma. Óðinn tvíeygur og fleygur Thor, mér fannst þetta aðallega dálítið pínlegt. Ekki hjálpaði til að þá var ég í áraraðir búin að gleypa í mig dásamlegar útgáfur hins danska Peters Madsen í myndasöguseríunni Goðheimar (Valhalla), en þær komu fyrst út á íslensku árið 1979 (á dönsku 1977). Þó Thor hafi þá verið orðinn nokkuð vel þekktur sem ofurhetja hafði ég ekki kynnst honum – ég er þessum fimm árum yngri og amerísk myndasögublöð voru einfaldlega ekki hluti af minni heimsmynd. Það var ekki fyrr en ég eltist og þroskaðist sem ég lærði að meta þetta eðla efni (og fékk óheftan aðgang að því í myndasögudeildinni minni á Borgarbókasafninu).
Madsenútgáfurnar hrifu mig ekki síst fyrir að þar var nokkur áhersla lögð á að hrista upp í hefðbundnum kynjahlutverkum, auk þess sem hæfilega mikið grín var gert að hetjum og goðum, Þór, Baldri og Tý. Madsen, Lee og Kirby og kvikmyndagerðarmennirnir eiga það hinsvegar sameiginlegt að fatta að aðalmaðurinn er Loki, persóna hans er einfaldlega langáhugaverðust (fyrir utan kannski Óðin, en sem alfaðir þá er hann einfaldlega ekki nógu spennandi, sorrí). Og Loki, bragðarefurinn sem ómögulegt er að festa hendur á, er einmitt ágætis táknmynd fyrir þær flækjur sem fylgja umræðu um menningararf, nýtingu hans eða verndun. [20]
Heima og heiman
Snorra-Edda tilheyrir heimi íslenskra fornrita og hugmyndir okkar Íslendinga um þjóð og þjóðerni eru að miklu leyti bundnar menningararfi í formi bókmennta, fornritanna sem færð voru til bókar á miðöldum. [21] En hvernig munum við þessa fortíð, eða réttara sagt, hvernig varðveitum við minningar okkar um hana? [22] Fyrir allmarga er Íslandssagan fremur einföld saga af sigrum og dáðum, landafundum og einstakri sagnamennsku – og niðurlægingu undir erlendu valdi. Nýjasta og skýrasta birtingarmynd þessa er sú upphafða orðræða sem núverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, viðhefur en markmið hennar er greinilega að skapa þjóðerniskennd og samstöðu.
Samkvæmt þessari sýn ber að verja og vernda þjóðmenningu: í krafti hennar erum við þjóð. Það er hinsvegar hægt að vera gagnrýnin á þessa glæstu sýn án þess þó að hafna því að fornritin séu mikilvæg. Þó er ljóst að hér er verið að láta menningararfinn þjóna pólitísku hlutverki, „sem styrkir ákveðna sýn á fortíðina sem er afar íhaldssöm og jafnframt að bægja athyglinni frá mögulegum breytingum í framtíðinni“. [23] Enn á ný vekur þetta upp spurningar um sanngildi: eins og áður segir er óþarfi að draga gildi handritanna í efa, en sanngildi þeirrar þjóðernisímyndar sem forsætisráðherra er svo hugleikin er hinsvegar vafasamt.
Fornritin eru merkasti menningararfur Íslendinga og eins og áður segir er þjóðarímyndin mjög mótuð í kringum þau. Í grein sinni „Sagnfræðin í heimi menningararfs og minninga“ bendir Helgi Þorláksson á að menningararfurinn er oft í andstöðu við sagnfræði, að því leyti að „það einkenni menningarfs m.a. að verið sé að hampa einhverju úr fortíðinni, vekja athygli á að eitthvað frá fyrri tíð sé sérstakt eða einstakt, fagna því og frægja það“. [24] Menningararfur hefur markmið, meðal annars þann að „efla samstöðu“ og „gefa samtímanum merkingu og tilgang. Menningararfur sé nátengdur föðurlandsást og notaður sem aðdráttarafl í ferðamennsku“. [25]
Hér kemur nýtingin aftur inn, en ein hlið hennar birtist í því að það er á grundvelli fornritanna sem hugmyndin um Íslendinga sem bókmenntaþjóð, eða bókaþjóð hefur mótast. Það er athyglisvert að sjá hvernig þessi hugmynd sker sig þvert á pólitík, en henni er haldið á lofti jafnt af vinstri- sem hægrimönnum, þó vissulega séu áherslurnar ekki alltaf þær sömu (samt ber ekki mikið í milli). Og það er á grundvelli þessarar ímyndar um bók(mennt)aþjóðina sem Reykjavíkurborg var útnefnd Bókmenntaborg UNESCO. Hér má því sjá áhugavert dæmi um hvernig ímynd þjóðar, sem að miklum hluta til er mótuð í þágu sjálfstæðisbaráttu með það að markmiði að aðskilja þjóðina frá nýlenduherrunum og skapa henni tilverugrundvöll og sérstöðu – jafnvel yfirburðastöðu, nær ekki aðeins takmarki sínu, sjálfstæði, heldur á sér framhaldslíf ríflega öld síðar.
Þannig má segja að ímynd sem sköpuð var í ákveðnum tilgangi, einhverskonar markaðssetningu sjálfstæðis, hafi haft grundvallaráhrif á sjálfsmynd þjóðarinnar. Catherine Palmer ræðir þetta ferli einmitt í tengslum við ferðamennsku. Hún bendir á að þjóðir skapi sér ímynd út á við útfrá menningararfi (sem oft er bundinn tilteknum stað). Þessi ímyndasköpun endurvarpast aftur til baka, og mótar enn frekar ímynd þjóðarinnar. Í þessu samhengi verður menningararfurinn afar mikilvægur og ekki síður hugmyndin um hann, það hvernig hann býr til samkennd og tilfinningu fyrir einhverju sem er einstakt og skapar (lokaða) einingu þjóðarinnar. [26] Þessi samkennd byggist ekki endilega á sögulegum staðreyndum (hverjar sem þær nú eru) heldur frekar á tilfinningu fyrir sögunni, það er að segja, menningarlega mótuðum hugmyndum um hver sagan sé eða eigi að vera. Eða með orðum Valdimars Tr. Hafsteins: „Því að menningararfur er ekki síst ákveðið sjónarhorn á tilveruna.“ [27] Mitt í þessum heimi ímynda og ímyndasköpunar er svo krafan á sanngildi.
Innblásinn af Íslandi
Eins og áður segir var önnur Thor-myndin að hluta til tekin upp á Íslandi sem hafa má til marks um einhverskonar tilraun til að hverfa aftur til upprunans og styrkja sanngildið. [28] Myndin er bara eitt dæmi af mörgum sem hafa nýtt sér íslenska náttúrufegurð og gert er ráð fyrir að þetta muni auka ferðamennsku til muna, enda er kvikmyndatúrismi þekkt fyrirbæri. Það er áhugavert að máta Thor við kenningar Palmers um ímynd menningararfsins, hvernig passar Thor inn í íslenska (tál)sýn á fornritin? Thor er í sjálfu sér ákaflega gott dæmi um ímyndasköpun, en almennt er talið að bandarísku ofurhetjurnar séu dæmi um hvernig ný þjóð reyndi að búa sér til sínar eigin goðsagnir. Það að bæta þrumuguðinum Þór í hópinn er einfaldlega rökrétt framhald af því. Á margan hátt passar Thor ágætlega við upphafnar íslenskar ímyndir um víkingarfinn, hann er þéttur á velli og vöðvastæltur, ljós yfirlitum og afskaplega bardagaglaður, sigurviss – og frekar einfaldur.
Ekkert af þessu kemur í veg fyrir að menningarlegt sanngildi kvikmyndanna er nákvæmlega ekkert. Eða hvað? Í hverju felst þetta sanngildi nákvæmlega? Samkvæmt Bob McKercher og Hilary du Cros virðist áherslan vera á verndun. Að halda menningunni eins hreinni og óspilltri og hægt er – upprunaleikinn skiptir máli. Eitthvað svipað má lesa út úr gagnrýni Helga á hugtakið menningararf, sem er einhverskonar hol ímynd menningarinnar, útþynnt sagnfræði (hér stendur sagnfræðin greinilega fyrir sanngildið), sem hefur að auki nýtingargildi, „aðdráttarafl í ferðamennsku“. Þessi tvö sjónarmið sanngildis falla svo saman í innblásinni orðræðu föðurlandsástar, en þegar skapa á samkennd þjóðar er iðulega vísað til þjóðmenningar eða menningararfs með tilheyrandi áherslu á verndun.
En eins og Valdimar Tr. Hafstein ræðir í grein sinni „Menningararfur: Sagan í neytendaumbúðum“ (2006) felur þessi ofuráhersla á verndun menningararfs ekki aðeins í sér hættu á stöðnun, heldur fylgir henni næsta furðuleg tenging við dauða. Það er að segja: í allri áherslunni á að vernda menningararfinn felst það að honum sé ógnað, að hann sé að deyja út og Valdimar kallar þetta ‚fagurfræði dauðans‘. [29] Það sem gerist er að óttinn við að menningararfurinn spillist gerist það að verkum að útrýmingarhættan eykst, einfaldlega vegna þess að það er búið að „negla [hann] niður og varðveita í formalíni: og með því tengja menningararfinn og dauðann órjúfanlegum böndum.“
Boðskapur Valdimars til þeirra sem starfa við efni sem tengist menningu og menningararfi er eftirfarandi: „Setjið það […] í skapandi samspil við aðra strauma í samtímamenningu. Leikið ykkur að þessu, breytið því og bræðið saman við eitthvað allt annað.“ [30] Einmitt þetta er það sem þeir félagar Stan Lee og Jack Kirby gerðu á sínum tíma, seinna Walter Simonson og fjölmargir aðrir – þar á meðal Snorri Sturluson. Þetta er það sem kvikmyndagerðarmennirnir á bakvið Thor-myndirnar gera og skemmta sér svikalaust. Og einmitt með því hafa þeir sannað gildi menningararfsins, með því að sýna fram á að hann sé ekki niðurnegldur eða fljótandi í formalíni, heldur nýtanlegur í þágu skemmtunar og afþreyingar, sjónræns sjónarspils og áhugavekjandi tilbrigða. Erkitýpan um bragðarefinn öðlast nýtt líf í meðförum höfunda sem setja hann í nýtt samhengi og gefa þessum fjölskrúðuga karakter enn spánnýja möguleika til að leika sér að eldi og illsku.
Tilvisanir
- The Avengers 2012. Handritshöfundur Joss Whedon.
- Þessi tímabilaskipting er ekki mín, heldur er hún almennt samþykkt ofskynjun í heimi myndasagna. Sem dæmi um áhugaverðar heimildir um ofurhetjur og myndasögur má nefna RichardReynolds, Superheroes: A Modern Mythology, University of Mississippi, Jackson 1992 og Geoff Klock, How to Read Superhero Comics and Why, New York og London, Continuum 2002.
- Þetta með höfunda og myndasögur er flókið mál. Lengi vel var hefð fyrir því að kenna Thor (og fleiri silfuraldarhetjur) bara við Stan Lee, sem var hugmyndasmiður og söguhöfundur, en seinna var þáttur teiknarans Jack Kirby metinn að verðleikum og nú er hann iðulega nefndur sem meðhöfundur. Samkvæmt Wikipediu hefur þriðji höfundurinn bæst við Thor, Larry Lieber, sá sem skrifaði handritin að fyrstu sögunum. http://en.wikipedia.org/wiki/Thor_%28Marvel_Comics%29, síðast skoðað 02.02.14.
- Segja má að þessi kynusli sé í fullkomnu samræmi við persónu Loka í norrænum goðsögum, en hann fer einmitt frjálslega með eigið kyn, eins og til dæmis þegar hann bregður sér í líki hryssu, táldregur fola nokkurn og eignast með honum áttfætt folald, sem seinna verður Sleipnir, uppáhaldsútreiðahross Óðins. Á hinn bóginn má líka sjá þarna ummerki þess að bandarískt samfélag sjöunda áratugarins er mun karlrembulegra en norræn fornöld; hinum amerísku höfundum hefur einfaldlega þótt sjálfgefið að sonur væri nefndur eftir föður sínum.
- Þess má geta að í Thor: The Dark World (2013) er að finna eina alfegurstu kynusla senu sem ég hef lengi séð í hasarmyndum. Thor syrgir móður sína og í örstuttri senu sést hann standa brjóstaber við vatnsskál, dapurt andlitið er í mjúkum fókus og örlítið er hægt á myndatökunni þar sem hann baðar sig upp úr köldu vatni.
- Af öðrum myndasögumyndum má nefna Ghost World (2001), American Splendor (2003), Hellboy (2004 og 2008), History of Violence (2005), Sin City (2005), Kick Ass (2010) og 2 Guns (2013).
- Mig langar að þakka Þórhalli Björgvinssyni í Nexus fyrir að gefa mér skyndikúrs í Thor-myndasögumog benda mér meðal annars á bækur Simonsons.
- Það þarf svosem ekki Thor né Bandaríkin til. Þegar ég kenndi yfirlitsnámskeið um íslenskar bókmenntir og menningu í HÍ árin 1996–2002 reiddust nemendur (allra þjóða kvikindi) mér iðulega þegar ég benti á að ég liti á Íslendingasögurnar sem skáldskap. Þau sem á annað borð höfðu einhverja hugmynd um tilvist Íslendingasagna, það er.
- Ég fór með frænku minni, 85 ára gamalli, á Thor: The Dark World, en hún er mikil bókmenntamanneskja og hefur mikinn áhuga á fornbókmenntum. Hún skemmti sér konunglega og var sérstaklega ánægð með hvað öll hönnun og sjálft sjónarspilið var glæsilegt.
- Þessi grein er að hluta til innblásin af námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta sem kennt var í Háskóla Íslands haustið 2013. Ég vil þakka þeim Katrínu Önnu Lund og Guðbrandi Benediktssyni fyrir að sjá mér fyrir ákaflega hugvekjandi lesefni.
- Helgi Þorláksson, „Sagnfræðin í heimi menningararfs og minninga“ í Þriðja íslenska söguþingið 18.–21. maí 2006, ráðstefnurit, ritstj. Benedikt Eyþórsson og Hrafnkell Lárusson, Reykjavík, Sagnfræðingafélag Íslands 2007.
- McKercher, Bob og Hilary du Cros. 2002. Cultural Tourism: The Partnership Between Tourism and Cultural Heritage Management, London og New York, The Haworth Hospitality Press 2002, bls. 46.
- Sama, bls. 109.
- Sem dæmi um að ekki gengur allt upp í Snorra-Eddu eru heimarnir níu, sem nefndir eru í Völuspá og mikið er vísað til í báðum Thor-myndunum. Það er þó með öllu ómögulegt að telja til níu heima í norrænni goðatrú, þeir eru í mesta lagi átta: Ásgarður, Vanaheimur, Miðgarður, Múspellsheimur, Svartálfaheimur og Niflheimur, við þetta má mögulega bæta heimi dverganna, Niðavöllum og heimi álfa. Eina leiðin til að ná þessu upp í níu er að telja Gimli með og það er hæpið, þarsem hann verður ekki til fyrr en eftir að hinir hafa fallið.
- Sjá um þjóðsögur, sagnamennsku og endursagnir: Marina Warner, From the Beast to the Blonde: On Fairy Tales and their Tellers, London, Wintage 1995.
- Sjá t.d. Marina Warner, From the Beast to the Blonde: On Fairy Tales and their Tellers, London, Vintage 1995, Christina Bacchilega, Postmodern Fairy Tales: Gender and Narrative Strategies, Philadelphia, University of Pennsylvania Press 1997, A Companion to the Fairy Tale, ritstj. Hilda Ellis Davidson og Anna Chaudhri, Cambridge, D. S. Brewer 2003, Stephen Benson, Cycles of Influence: Fiction, Folktale and Theory, Detroit, Wayne State UP 2003, Kevin Paul Smith, The Postmodern Fairytale: Folkloric Intertexts in Contemporary Fiction, Basingstoke, Palgrave Macmillan, 2007, Contemporary Fiction and the Fairy Tale, ritstj. Stephen Benson, Detroit, Wayne State University Press 2008.
- Marina Warner, From the Beast to the Blonde 1995.
- Kevin Paul Smith, The Postmodern Fairytale: Folkloric Intertexts in Contemporary Fiction, bls. (Frjálsleg) þýð. úd.
- Þar er þó Captain America bent á að halda sig utan bardaga milli Thors og Loka, því þetta séu jú guðir. Hann svarar því til að það sé aðeins til einn guð og hann sé nokkuð viss um að hann klæði sig ekki svona.
- Það væri afar áhugavert að víkka svið þessa greinarstúfs og gera samanburð á öðrum útgáfum norrænnar goðafræði, þar á meðal bókum Madsens og bókum Friðriks Erlingssonar um Þór og hreyfimyndinni sem gerð var eftir þeim. Einnig væri gaman að fjalla um tilbrigði Skálmaldar við goðsagnaheiminn og þá ekki síst hetjuímyndina. En, til þess þarf ég fleiri hendur og stærra tímarit. Sú úttekt bíður því betri tíma.
- að er þó að sjálfsögðu aðeins takmörkuð þjóðarímynd sem mótuð er í kringum fornritin, það er að segja þjóðarímynd sem nær ekki endilega yfir alla þjóðina, til dæmis ekki aðflutta íslendinga.
- Sbr. titillinn á grein Johns Urry, „How Societies Remember the Past“, í Theorizing Museums, ritstj. S. Macdonald og G. Fyfe, Oxford, Blackwell 1998.
- Sama, bls. 53.
- Helgi Þorláksson, „Sagnfræðin í heimi menningararfs og minninga“ 2007, bls. 317.
- Sama.
- Catherine Palmer, „An Ethnography of Englishness: Experiencing Identity through Tourism“, í Annals of tourism Research 32(1): 7–27, 2005.
- Valdimar Tr. Hafstein, „Menningararfur: Sagan í neytendaumbúðum“, í Fra endurskodun til upplausnar, ritstj. Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon, Reykjavík, Miðstöð einsögurannsókna og ReykjavíkurAkademían 2006, bls. 314.
- Þess má geta að ýmsir höfundar myndasagnanna um Thor hafa gert atlögur að því að auka sanngildi sagnanna með tilraunum til að leiðrétta upphaflegar rangfærslur sem oft fela þá í sér skýrari tilvísanir í goðsögurnar, iðulega þá á einhvern hátt tengt Íslandi.
- Valdimar Tr. Hafstein, „Menningararfur: Sagan í neytendaumbúðum“ 2006, bls. 317.
- Sama, bls. 328.