Af gömlum miðum um Elías Mar
eftir Guðmund Andra Thorsson
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020
Hafi Vögguvísa verið Catcher in the Rye Íslands, full af rokkaðri borgarangist æskumanns nýrra tíma – þá var Elías Mar nokkurs konar Salinger Íslands og lék um hann leyndardómsfullur ljómi aðgerðaleysisins: frábær rithöfundur sem hefur allt til að bera sem skáldsagnahöfund getur prýtt – stíl, tón, innsæi í mannleg hjörtu, þekkingu og yfirsýn – en snýr baki við köllun sinni til skáldsagnagerðar akkúrat á þeim árum þegar hann á að vera að vinna sín helstu afrek á því sviði. Ég veit ekki hvers vegna Elías gerði það en ég veit hvert hann flúði og ég veit að þar hafði hann það prýðilegt; hann gerðist prófarkalesari sem er draumastarf hins lata vinnusama manns.
Hann var prófarkalesara skáldlegastur, langur og mjór og þótt hárið væri orðið hvítt þegar ég kynntist honum var það einhvern veginn „írautt“ eins og hár Ólafs Kárasonar – eiginlega var hann líkastur Ólafi Kárasyni, hefði sá fengið að eldast í friði við orðasýsl. En svo skáldlegur sem hann var þá var Elías líka ákaflega formfastur í öllu sínu látæði, allt frá því að hann kom á vettvang á sína vakt með sérkennilega fjaðrandi göngulagi og hengdi upp frakkann sinn og trefilinn, ævinlega eins, og strauk síðan yfir bringuna sem nú var berskjölduð án trefilsins. Hann sat teinréttur, mjór og ljós á stól sínum, með svarta pennann vísandi beint fram yfir löngum og mjóum og hvítum prófarkarrenningnum á meðan sígarettan brann sínum hljóða bruna í munnstykkinu góða í öskubakkanum.
Það var eitthvað sem ég kom ekki alveg heim og saman hjá þessum höfundi Vögguvísu sem búið hafði til fyrsta slangurorðasafnið til að notast við í bókinni og hafði auðnast að lýsa menningu ungra Reykvíkinga þar og í Sóleyjar sögu að innan. Hann hafði verið hringjari nýrra tíma en þarna sat hann samt og vegsamaði bókstafinn zetu og tuðaði yfir dönskuslettum. Viðmið hans í máli og stíl virtust komin frá Jóni Helgasyni prófessor í Kaupmannahöfn, manni sem af frásögnum að dæma gerði alla stjarfa í kringum sig af málótta. Og þrátt fyrir borgarsláttinn í Vögguvísu – chi baba, chi baba – virtist Elías ekki þola rokkmúsíkina sem setjarastelpurnar voru stundum að hlusta á, og það var einungis út af buldrinu í útvarpinu sem maður sá hann skipta skapi, vegna þess að í þessari vinnu leið honum vel.
Elías var elítisti. Hann þoldi ekki nútímann. Hann þoldi ekki fjöldamenningu nútímans; og flúði í hámenningu og prófarkir. Það var vegna þess að hann var skáldsagnahöfundur og hafði sem slíkur þróað með sér ofurnæma heyrn á hjartslátt mannanna og tímans. Hann vildi ekki hlusta á það sem hann heyrði.
***
Prófarkalesarinn gleymist stundum þegar skimað er yfir bókmenntasamfélagið og í fljótu bragði kann svo að virðast að sú stétt fólks sé lítils metin innan þess stigveldis sem þar er, þar sem hún stritar við að þýða alls kyns texta yfir á skiljanlegt og vandað mál. Prófarkalestur er ekki aðeins draumastaða fyrir hinn vinnusama letingja heldur líka – og kannski alveg sérstaklega – fyrir rithöfund sem ekki er að skrifa: prófarkalesarinn tekur sér stöðu í textanum miðjum og fer að stjórna þar umferðinni, laga, breyta, bæta – skapa – en ævinlega staddur í öðru höfundarverki. Prófarkalesarinn er meðvirkur og óvirkur í senn – en aldrei vanvirkur.
Prófarkalesarinn sér hinar skrifandi stéttir berstrípaðar og frægustu höfunda á sínum niðurlægingarstundum þar sem þeir reynast jafnvel fársjúkir af þágufallssýki; og fyrir kemur að prófarkalesaranum finnst (eins og ég hef víst áður skrifað einhvers staðar) sem blaðamenn séu óskrifandi hálfvitar en rithöfundar séu hálfskrifandi óvitar. En prófarkalesarinn temur sér um leið vissa auðmýkt í umgengni sinni við allt þetta vald sitt á málinu – þetta úrskurðarvald um rétt og rangt – visst umburðarlyndi gagnvart breyskleika höfundanna; því að prófarkalesarinn er ekki bara hinn meðvirki hjálparkokkur höfundarverksins heldur líka hinn alvitri lesandi; sá sem veit hvenær skrifa skal „geisa“ og hvenær „geysa“ og man að Sigríður hét Sigrún á blaðsíðu 21. Prófarkalesarinn þarf að vita hvernig viðkomandi „vildi eitthvað sagt hafa“ en ganga um leið þannig frá textanum að viðkomandi haldi að hann hafi sjálfur sagt það; prófarkalesarinn þarf að afsala sér eigin sjálfi. Hann þarf að una því að vera „staddur í annarra manna örlögum“ eins og segir í Guðsgjafarþulu Halldórs Laxness af öðru tilefni. Og hann þarf að vera veiðimaður sem sér villuna út undan sér á löngu færi og hremmir hana svo leiftursnöggt.
Elíasi leið vel í texta annarra manna, og hann var ákaflega örlátur á þekkingu sína. Hann var nauðsynlegur yfirlesari allra þeirra sem skrifuðu minningar um gamla tíð því hann mundi allt sem hann hafði lifað og lesið. Af minningagreinum sem hann skrifaði stundum um samferðafólk, til dæmis um Málfríði Einars, mátti ráða að hann hafði náð að koma sér upp heiðríkum og mjúkum stíl með angurværð og íroníu í réttum hlutföllum – stíl sem myndi sóma sér vel á endurminningum og ég hvatti hann til að rita þær, eða að minnsta kosti mannlýsingar og minningarþætti. Hann tók því vel en sagðist þurfa að skrifa að minnsta kosti tvær bækur fyrst; spurði mig svo hvort ég gæti ekki útvegað sér einhverja kellingu til að reka sig áfram. Þannig talaði hann í sínum lágmælta hálfkæringi um þá kvöl sem það hlýtur að vera höfundi þegar á honum er nokkurs konar herfjötur.
***
Elías skrifaði sem sé fyrstu nútímalegu eftirstríðssögurnar um miðja síðustu öld. Hann opnaði sögusvið borgarinnar í íslenskum skáldsagnaheimi þar sem baslað var í bröggum, drukkið og hórast, talað með slettum og slangri og erlendir hermenn vermdu bari og ból: sjálft litríkt lífið sem sagt í allri sinni dýrð. Hann skóp eigin sagnaheim úr því sem fyrir augu hans og eyru bar og kunni að lýsa öllu af fumleysi sagnameistarans sem fundið hefur sinn tón og öðlast eigin sýn á mennina. Hann náði að lýsa því hvernig mestu umbrot Íslandssögunnar orkuðu á líf alþýðustúlku sem hét Sóley og lenti í ástandinu og alþýðupilts sem kallaður var Bambínó og langaði að verða „svalgæi“ og „svíngpjatti“ – en lenti í ástandi.
Svona skrifaði Elías:
Hvergi nálgast andstæður lífsins í senn hið sorglega og hlálega, hið óskiljanlega og bitra eins og í þeirri snertingu sem er ófullkomin. Hvergi reynist vilji mannsins, ást hans, að ekki sé talað um fegurð hans, jafn tilgangslaus sem frammi fyrir þeirri staðreynd, að athöfn hans er dauð. Veikleiki á þeirri stund, þegar maðurinn vill vera sterkur í ást sinni, er skyldari hinni þyngstu sorg en svo, að nokkur reyni að skýra slíkt með orðum. Öll orð eru máttlaus, gagnslaus. Einstakt andvarp verður tjáning á sturluðu vonleysi heillar nætur, jafnvel margra nátta. Og við slíku andvarpi er sjaldnast nokkurt svar, annað en ennþá tómlegri þögn, ennþá svartara myrkur. Kannski andar svefninn líknandi óminni á þau augu, sem bíða hans. Seint og um síðir. Kannski ekki. En sú stuna, sem myrkrinu var trúað fyrir og þögnin svalg – var hún ekki fremur upphaf en endir? Endir einhvers, að vísu, en að sönnu upphaf annars. Því dyrahögg örlaganna getur verið eitt stutt andvarp í myrkri, um nótt (Sóleyjar saga I, 70–71).
Þetta er lýsing á því andartaki þegar ástarsamband deyr. Þetta er sá punktur í sögunni af Sóleyju þar sem verða hvörf: hún skynjar að ást hennar á alþýðupiltinum Alla er ekki endurgoldin, hún á sér ekki skjól og hrekst út á berangur.
Þarna liggur Sóley Jónsdóttir sem sé við hliðina á unnustanum sínum honum Alla sem er illa fyrirkallaður á þessari stundu, en það sem hún veit ekki er að hann er dópisti. Þetta er vel skrifað. Á þessu er falleg áferð og mild sýn, þetta er slétt og fágað; þarna er innileiki og innlifun, samlíðan en líka einurð: þetta er skrifað af mannúð. Það er ekki algengt að sjá í verkum karlhöfunda lýsingu á getuleysi, þar sem karlmanninum mistekst „að vera sterkur í ást sinni“ eins og það er kallað hér, en hefur líka verið kallað „að gagnast ekki konunni“. Í lýsingunni er líka eitthvert klínískt miskunnarleysi, viðleitni til að fanga algjörlega í orð reynslu einstaklings í borginni.
Á þessum orðum hefst Sóleyjar saga: „Þorpið er borg, stórborg. Og sú stórborg er þorp.“ Ætli þetta sé ekki með betri upphafssetningum íslenskrar skáldsagnagerðar? Þarna þjappar höfundurinn í eina hnitmiðaða málsgrein þeirri stóru þversögn sem verkið fæst við og Reykvíkingar hafa í rauninni mátt búa við æ síðan.
Sóleyjar saga var fjórða skáldsaga Elíasar og kom út árin 1954 og 1959. Persónur verksins, andrúmsloft þess, er kunnuglegt þeim sem lesið hafa þríleik Ólafs Jóhanns eldri um Pál Jónsson – eða bara Atómstöðina: þarna er gjörspillt yfirstétt sem aðalpersónan Sóley þjónar, sérlega ógeðfelld fín frú (merkilegt hversu konur úr borgarastétt koma alltaf illa út úr þessum bókum) og eiginmaður hennar að sama skapi viðfelldinn – en viðsjáll og fjölþreifinn – og endar uppi í rúmi hjá Sóleyju; þarna er ráðvillt alþýða: drykkjusjúkur faðir í bragganum og trúarringluð móðir og bróðirinn Jón sem tekið hefur upp nafnið Eiður Sær og er hálfgerður einfeldningur og auðnuleysingi, viss tegund af atómskáldi; þarna er líka gáfað skáld sem er málpípa höfundar með sama fangamark og hann, Erlendur Mikjáll, og vex sífellt ásmegin í verkinu. Og þarna eru aðrir litríkir listamenn; þarna er menningarpáfi og bókaútgefandi sem virkar annaðhvort litríkur eða hálfgalinn á mann – og þarna er meira að segja Jósefína spákona sem heitir ekki Karólína. Þarna er kynferðisleg misnotkun og dópneysla. Og þarna er ástand: Kanar. Og allt þrungið táknrænu þar sem þjóðerni, kynlíf og vald blandast saman.
Í bókinni er dregin upp heildstæð og býsna glögg mynd af Reykjavík í upphafi sjötta áratugarins. Þar er ungt fólk sem notar enskuskotið slangur, og sækir menningartilvísanir til Ameríku en ekki íslenskrar sveitar og hvað þá til Íslandssögunnar.
Sóley er augljós táknmynd Íslands og íslensku þjóðarinnar, rétt eins og nafna hennar Sólufegri hjá Jóhannesi úr Kötlum, enda var Sóleyjarnafnið vinsælt um Ísland hjá rómantískum skáldum 19. aldarinnar, allt frá Benedikt Gröndal og til Einars Ben.
Sóleyjar saga hefur verið dæmd nokkuð hart og meira að segja Dagný Kristjánsdóttir sem skrifar af mikilli yfirsýn og innsæi um Elías kemst að þeirri niðurstöðu í fjórða bindi Bókmenntasögunnar að hér sé um að ræða misheppnað verk, á henni er að skilja að höfundur færist of mikið í fang. Það er eflaust rétt hjá henni en breytir því þó ekki að sagan hefur að geyma mikið ferðalag gegnum reykvískt samfélag þessa tíma og skrautlegt persónugallerí. Á nútímalesendur kunna að orka einkennilega senur á borð við þá þar sem þeir sitja Eiður Sær og Erlendur Mikjáll heima hjá þeim síðarnefnda og Eiður hugsar sitt um Erlend á meðan þeir hlusta á rapsódíu Brahms fyrir alt-rödd og karlakór; okkur kann að þykja þetta uppskafningslegt og ekki síður kunna ræður Erlends Mikjáls að orka þreytandi á okkur. En þetta er í raun og veru hluti af hinni ungu reykvísku borgarvitund sem var að fæðast: ung skáld sátu á þessum árum og hlustuðu baki brotnu á klassíska tónlist til að þroska sig áleiðis í átt að evrópskum menningarháttum og gera að sínum útlensk þúsund ár …
Meðal þess sem Dagný bendir á sem kann að lýta Sóleyjar sögu eru stíltilþrif sem hún kallar „laxnesk“ og tilgreinir setningar á borð við: „Hörund hennar var bjart, hreyfingar hennar lipurlegar en hún var klúr niðrum sig.“
Þetta er hárrétt athugað held ég og mætti tína til fleiri dæmi. Ekki fer hjá því að manni finnist stundum sem Halldór Laxness íþyngi ögn Sóleyjar sögu. Inni í miðri bók, löngu eftir að við höfum kynnst vel öllum persónum, byrjar kafli svona:
Stúlkan Sóley Jónsdóttir, sem ekki bar gæfu til að halda vinnukonustarfi í húsi Guðmundar Þorsteinssonar og Jarþrúðar frúar hans, og hafði því síður hæfileika til að láta frelsast til kristilegs heimatrúboðssafnaðar, nú lifir hún og hrærist í veikri von … (Sóleyjar saga I, bls. 194)
Er þetta ekki Atómstöðin eins og hún verður verst? Að minnsta kosti finnst manni þessi yfirlætislegi íróníutónn vera kominn frá Halldóri. Í bókinni er fullt af svona hálfírónískum ólíkindalátum þar sem rödd sögumanns þykist allt í einu vera farin að tala eins og formfastur kontóristi en er samt að styrkja sambandið við lesandann. Í Sóleyjar sögu gætir áhrifa Halldórs Laxness nokkuð, formúleringar að hætti hans íþyngja verkinu, einfaldlega vegna þess að Elías var ólíkur Halldóri; írónía Elíasar var ekki jafn stórkarlaleg og hjá Halldóri, húmor hans ekki jafn karnívalískur, hann var lágmæltari. Hann fann ekki leiðina burt frá áhrifum Halldórs eins og til dæmis Guðbergur gerði, með markvissum skopstælingum sínum á klökkva-erótík Halldórs í Tómasi Jónssyni Metsölubók þegar segir frá þeim Unni Ey og skáldinu Tjaffsa Í Vaffs.
Elías var ekki einn um slík vandræði gagnvart yfirþyrmandi nærveru Halldórs: meira að segja sjálfur Halldór þagnaði. Ólafur Jóhann þagði að mestu uns hann gaf út Hreiðrið árið 1972, þar sem módernistar og þeim fylgispakir gagnrýnendur fá það óþvegið. Þar með náði hann vopnum sínum. Elías hafði sennilega ekki skapferli til að standa í slíku.
En sambandið milli Elíasar og Halldórs er nokkuð flókið. Elías er beinlínis eins og úr sagnaheimi Halldórs: langur og mjór með þetta írauða hár og óhæfur til grjótburðar eins og Ólafur Kárason, lærði á orgel hjá Þórði Sigtryggssyni rétt eins og Ugla lærði hjá Organistanum, og munaðarlaus og alinn upp af gamalli konu, eins og Álfgrímur í Brekkukotsannál. Reyndar skrifaði Elías neikvæða gagnrýni um þá bók á meðan hann var að skrifa Sóleyjar sögu, því Halldór væri ekki að takast á við nútímann.
Þannig verður Sóleyjar saga á köflum eins og bók sem Elíasi finnst að Halldór eigi að vera að skrifa. Svo runnu upp nýir tímar í íslenskum bókmenntum. Guðbergur notaði persónu Þórðar Sigtryggssonar meðal annars til að smíða sinn Tómas Jónsson; Elías lét duga að skrásetja eftir Þórði og setti í skúffuna. Samband þeirra Þórðar og Elíasar hófst sem samband meistara og lærisveins, varð svo ástarsamband en þegar Elías vildi síðan losna notaði Þórður ýmis meðul til að halda tangarhaldi sínu á honum. Um þetta allt má lesa í bók Þorsteins Antonssonar frá 2011, Þórðargleði.
Elías lenti sem höfundur á milli þeirra Halldórs og Guðbergs. Og samt er ég ekki viss um að sú klemma hafi orðið til þess að hann lagði skáldsagnagerð á hilluna: mér er nær að halda að dagarnir hafi bara liðið. Og ég held að hann hafi unað sér vel við prófarkirnar. En samt segir það ekki alla söguna. Svo vill til að undir lok Sóleyjar sögu býr Elías Mar lesendur sína undir þögn sína.
Sóleyjar saga gerist á þeim árum þegar fólk rakst ennþá í heimsókn hvert til annars. Og meðal þess sem kann að virka ankannalega á nútímafólk í þessari líflegu og iðandi sögu er að þar situr fólk saman í margar blaðsíður og skiptist á skoðunum. Til dæmis kafli 63: þarna er samankomið alls konar fólk, sú gáfaða alþýða sem íslenskir rithöfundar hafa alla tíð skrifað um og séð fyrir sér sem lesendur; þarna er ungur verkamaður, þarna er rukkari og esperantisti, og þarna er skrifstofukona sem virkar roskin. Með öðrum orðum, nokkurs konar þverskurður af væntanlegum lesendahópi – húsráðandinn heitir meira að segja Jón Jónsson. Það upphefst mikil kaffidrykkja og svo dregur húsráðandi tappa úr flösku og hellir í glös drykknum, sem verður eins og skáldamjöður fyrir Erlend Mikjál, sem fer að tala eins og persóna hjá Dostojevskí, og talar svo mikið að kaflinn ber heitið Orðræða Erlendar Mikjáls. Og þarna dregur þessi útlenski erkiengill – þessi sendiboði Guðs/höfundar/EM í verkinu – saman ýmsar ályktanir um atburði sögunnar sem lesandi getur velt fyrir sér og ræðir landsins ógagn og ónauðsynjar en einkum þó örlög Sóleyjar og hennar fjölskyldu fram og aftur uns húsráðandi segir:
Jón, áfram: Hvernig væri til dæmis að þú tækir fyrir sem efni í skáldsögu… þetta sem við vorum að ræða um fyrr í kvöld?
Sóley? spurði Erlendur Míkjáll og leit á manninn.
Já. Og ekki bara hana eina… það væri einmitt efni fyrir þig.
Erlendur Míkjáll varð aftur hljóður, en hafði ekki augun af manninum. Þó var líkast því sem hann horfði ekki á manninn, heldur gegnum hann, og augun urðu annarlega stór. Unz hann lokaði þeim og hristi höfuðið í þögulli neitun.
Því ekki? spurði rukkarinn.
Já, því ekki? spurði jafnvel sú roskinleita.
Ég er orðinn þreyttur á því að skrifa um ljóta hluti, var svar mannsins. Ég get varla sagt að mig langi til að skrifa… nokkurn hlut; ekki lengur… Hvers virði eru bækur?… Hvaða gagn gera þessi skrif manns?…
Síðustu orðin voru sögð lágt, eins og hann talaði við sjálfan sig, en Jón bóndi tók hann á orðinu: Þetta er uppgjöf, sagði hann, – ef þú þá meinar þetta sem þú segir. Hvað ég efast um.
Við þessum orðum Jóns Jónssonar brosti Erlendur Mikjáll. Það var úrslitatilraun hans til að snúa inn á léttara hjal, áður en hann kveddi og færi. Hann reis úr sæti, teygði úr sér, slakaði svo á spennunni og gekk um gólfið með hendur í vösum. Kankvíslegur á svip spurði hann svo húsráðanda: Má ég ekki alveg eins skrifa bók um þig, Jón minn? Ég held það yrði miklu uppbyggilegri saga.
Þar með var alvörunni enn á ný þokað burt. En nú var tíminn til að þakka fyrir sig og kveðja, og Erlendur Mikjáll rétti hjónunum höndina.
Ætlarðu ekki að klára úr glasinu þínu drengur? spurði húsbóndinn og let á hálffullt glas skáldsins á borðinu.
En Erlendur Mikjáll afþakkaði það.
Þú lætur vonandi sjá þig hér aftur, áður en langt um líður, sagði húsbóndi.
Ég læt áreiðanlega sjá mig aftur, svaraði Erlendur Mikjáll.
Svo var hann farinn. Aðrir gestir þeirra hjóna urðu honum samferða út í svala nóttina. (Sóleyjar saga II, 305–306)
Þannig lýkur kaflanum. Glasið var hálffullt af skáldamiðinum en hann skildi það eftir á borðinu og lét aldrei sjá sig aftur.