Kristof Magnussoneftir Kristof Magnusson

Bjarni Jónsson þýddi

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2016

Rithöfundum er ansi oft boðið út að borða. Hefðbundinn upplestur í dæmigerðri þýskri borg hefst klukkan 20 og lýkur klukkan 21, þá hefur maður um það bil hálftíma til þess að árita bækur, spjalla við fólkið, en verður svo að hraða sér yfir á ítalska veitingastaðinn handan við torgið því eldhúsið lokar á slaginu hálftíu. Kvöldverðir eru þannig fremur eðlilegur hluti af starfi rithöfundarins. Engu að síður er ein af óvenjulegustu minningunum úr lífi mínu sem rithöfundur tengd kvöldverði – hjá kanslara Þýskalands, Angelu Merkel.

Það eru hartnær fjögur ár síðan. Það eina sem ég vissi var að Angelu Merkel langaði að kynnast nokkrum rithöfundum af „yngri“ kynslóðinni og ég var því nokkuð taugaóstyrkur þegar ég gekk upp að kanslarabústaðnum í Berlín. Við innganginn gaf ég mig fram við lögreglumann vopnaðan vélbyssu, hann hleypti mér inn – án þess að framkvæma vopnaleit, merkilegt nokk. Ég var sendur með lyftunni upp á efstu hæð og gekk inn í stóran matsal með útsýni yfir borgina, en þar voru mættir nokkrir starfsfélagar mínir af báðum kynjum. Við röbbuðum saman, en mér fannst eins og ég væri ekki sá eini sem ætti erfitt með að einbeita sér að samræðunum. Að við værum í raun og veru ekki að tala saman heldur drepa tímann með orðum, til þess að slá á mesta stressið. Ég efast um að nokkurt okkar hafi kosið Angelu Merkel, samt leið okkur dálítið eins og við stæðum í röð eftir að komast á tónleika með poppstjörnu. Það eina sem við áttum sameiginlegt á þessu augnabliki var að við biðum eftir aðalatriði kvöldsins.

Innkoma Angelu Merkel var dæmigerð fyrir látbragð hennar og jafnvel pólitískan stíl; fullkomlega tilgerðarlaus og látlaus, næstum eins og ekkert hefði gerst. Hún gekk hljóðlaust í salinn, við vorum ekkert látin vita og enginn í slagtogi með henni nema Steffen Seibert, blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Þetta látlausa sviðsetningarleysi hafði samt sem áður gríðarleg áhrif. Það tóku allir eftir henni, undireins.

Við drukkum sætt freyðivín, settumst síðan til borðs. Þegar ég kom að borðinu var bara eitt sæti laust, enda hafði enginn árætt að tylla sér við hlið Angelu Merkel. Ég settist því í sætið og löppin á mér var alltaf að rekast í handtöskuna hennar sem hún hafði sett undir borð, og eitt sinn beygði hún sig niður til þess að ná í eitthvað í töskuna og hallaði sér að mér um leið svo ég varð að færa rauðvínsglasið mitt, annars hefði hún fellt það um koll.

Það var lambakjöt í matinn. Ég hafði reyndar furðað mig á því, þar sem lambakjöt er ekki oft á boðstólum í Þýskalandi og sérstaklega ekki sem eini aðalrétturinn, enda kunna fæstir að meta lambið.

Meðan á málsverðinum stóð, gáfust hverjum og einum nokkrar mínútur til þess að kynna sig. Angela Merkel sagðist vera ánægð með að við værum mörg ekki fædd í Þýskalandi, heldur af „erlendu bergi brotin“. Þá rann það upp fyrir mér að þarna var skáldkona af tyrkneskum uppruna, höfundur sem hafði komið til landsins fimm árum áður og var flóttamaður frá Írak, skáldkona af gyðingaættum sem hafði varið fyrstu tólf árum ævinnar í Aserbadsjan og enn önnur sem rakti ættir sínar til Póllands. Svo var það ég. Það var ekki fyrr en kanslarinn hafði orð á því að ég skildi að þetta var ekki hefðbundið kvöld með þýskum rithöfundum, heldur reyndist þessi samkoma sem betur fer vera aðeins fjölbreytilegri en venjan er í Þýskalandi. Var okkur boðið sem fulltrúum hins nýja Þýskalands; lands þar sem jafnvel bókmenntirnar – listgrein sem var njörvuð niður í orð – voru loks ekki lengur taldar aðeins vera á færi hreinræktaðra Þjóðverja?

Tilhugsunin féll mér vel í geð, en hún varð líka uppspretta áhugaverðra hugrenninga. Við höfðum verið rithöfundar í matarboði, nú vorum við allt í einu fulltrúar einhvers konar samfélagsþróunar. Var það kannski ástæðan fyrir því að hér var lambakjöt á borðum; af því að öll trúarbrögð heimsins leyfðu neyslu þess? Hvað sem öllu leið, þá vörðu flestir höfundanna mínútunum fimm, sem þeim hafði verið úthlutað, til þess að skýra valdamestu konu heims frá uppruna sínum og hvenær og hvers vegna viðkomandi hefði flutt til Þýskalands, hvort hann eða hún hefði mætt hlýju viðmóti og ef svo var ekki, hvers vegna. Þýsku rithöfundarnir töluðu hins vegar um verk sín, bækur, sín störf. Það er aldrei að vita hvað hefði gerst ef Angela Merkel hefði ekki minnst á innflytjendur, en þetta kvöld opnaðist skyndilega gjá á milli innmúraðra Þjóðverja og aðkomumanna. Það má svo sem enda segja að innflytjendur séu ekki alltaf teknir alvarlega sem persónur eða rithöfundar, heldur er litið á þá sem talsmenn útlendinga. Þegar ræða á um aðlögun og fólksflutninga, eru fjölmiðlar iðnir við að spyrja aðflutta þýska rithöfunda álits, en það er enginn sérstakur áhugi fyrir því að ræða við þá um almenn pólitísk viðfangsefni eins og velferðarmál, fjármálakerfið, eða persónuvernd; þá er leitað til „venjulegra“ Þjóðverja. En auðvitað ætti hver einasti maður að geta sagt sína meiningu um hvaða málefni sem er. Kannski að einhverjir séu orðnir svo miklir talsmenn innflytjenda að þeir sinni því hlutverki nánast eins og ósjálfrátt?

Loks vildi Angela Merkel fá að vita hvaða málefni hvíldu þyngst á okkur um þær mundir og upphófust nú ákafar umræður um velferðarmál, útflutningsbannið á Íran, hjónabönd samkynhneigðra og auðvitað innflytjendamál. Á einhverjum tímapunkti leiddi Angela Merkel talið að málefnum fjölskyldna og sagði að Þjóðverjar væru að deyja út (í samanburði við Ísland er fæðingartíðnin í Þýskalandi afar lág), og þá lét einhver okkar í ljós þá skoðun sína að það væri ef til vill ekki svo slæmt þó að Þjóðverjum fækkaði um fáeinar milljónir, því innflytjendur myndu fylla í skörðin! Angela Merkel hætti að tyggja matinn sinn, leit á þennan kollega minn og spurði: „Hvað áttu við?“

Það varð dauðaþögn. Meira að segja blaðafulltrúinn, sem hafði setið hjá til þessa, leit í fyrsta sinn af spjaldtölvunni sinni. Hér voru að fara af stað alvöru umræður! Af hverju ekki að veita meiri fjármunum í að styðja við innflytjendabörn sem væru þegar flutt til landsins eða væru á leiðinni, í stað þess að veita háum fjárupphæðum í barnabætur, til þess eins að hvetja Þjóðverja til frekari barneigna?

Þegar kvöldverðinum var lokið og við stóðum upp frá borðum, ákvað ég að ganga út að stóru gluggaröðinni og líta yfir Berlínarborg í síðasta sinn. Það fór ekki fram hjá Angelu Merkel, sem hafði einnig sýnt á sér fararsnið, og hún spurði: „Má bjóða yður að líta út á svalir?“ Skömmu síðar var Merkel umkringd tólf rithöfundum sem töluðu hver í kapp við annan og hvöttu hana til að hleypa nú fleiri innflytjendum inn í landið. Og til að setja lög um hjónaband samkynhneigðra! Einhver spurði hvort hann mætti reykja. Angela Merkel gaf merki og svartklæddir þjónar komu sinn úr hvorri áttinni, héldu á öskubökkum. Aðrir tóku einnig fram sígarettur og þá sagði kanslarinn: „Vinsamlegast notið öskubakkana. Við viljum ekki að það falli aska á nýju stefnuna okkar í orkumálum.“ Hún benti okkur á sólarrafhlöðurnar sem voru beint undir svölunum. Við yfirgáfum ráðuneytið litlu síðar.

Svo liðu tvö ár og þá hleypti Angela Merkel rúmlega einni milljón flóttamanna inn í landið. Okkur rithöfundana, sem sátum við hringborð kanslarans umrætt kvöld, dreymir stundum um að heimsókn okkar hafi haft afgerandi áhrif á afstöðu Merkel. Vegna þess að við vorum alveg ótrúlega skemmtileg í þessu matarboði. Og við gerðum það sem rithöfundar kunna svo ágætlega: við töluðum um það sem snerti okkur persónulega. Ef einhverjir forleggjarar hefðu setið með Angelu Merkel heila kvöldstund, hefðu þeir örugglega bara talað um fast verð á bókum, rafbækur, stuðning ríkisins við menningarstarfsemi og kvöldið hefði farið í sögubækurnar sem hefðbundinn og ómerkilegur viðburður í stjórnmálalífi Berlínar; einfalt hagsmunapot. En rithöfundar eru enginn sérstakur hópur. Þeir eru og verða einfarar. Þeir tala fyrir sjálfa sig og engan annan. Og þar með tekst þeim að varpa ljósi á það sem hvílir á hinum almenna borgara.