Nokkur orð um spegla

Eftir Berg Ebba Benediktsson

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

Bergur Ebbi BenediktssonÍ hryllingsmyndum er algengt að nota spegla til að búa til óþægilegar aðstæður. Kona stendur við baðherbergisvask og lokar skáp fyrir framan sig. Á skáphurðinni er spegill og skyndilega sjáum við hrottalegan hnífamann í speglinum. Mér finnst óþægilegt þegar speglar eru sýndir í kvikmyndum því þá getur verið stutt í skyndilega bregðu. Óhugnanlegast af öllu er þegar spegilmynd svíkur. Karl stendur fyrir framan spegil og horfir á sjálfan sig. Svo bregður hann sér frá en mynd hans er enn í speglinum starandi tómum augum fram á við. Þá hefur spegilmyndin öðlast sjálfstætt líf sem frummyndin ræður ekki við.

Hvernig tilfinning ætli það sé? Að ganga um göturnar en vita að heima, inni á baðherbergi, stari spegilmynd þín tómum augum út í loftið? Ég held að það sé óþægileg tilfinning en hún venjist – eins og flest.

Spegilmynd heillar þjóðar er ekki hægt að koma fyrir í eiginlegum spegli. Slíka spegilmynd er fremur að finna í verkum listamanna, spjalli fólks sem þekkist lítið, til dæmis í fermingarveislum eða fjölmiðlum. Fjölmiðlar, eða öllu heldur það sem í þeim kemur fram, eru spegilmynd okkar. Gagnrýni á störf fjölmiðla er á endanum alltaf gagnrýni á okkur sjálf.

Atburðarás sunnudagsins 30. september 2012

Sunnudagurinn 30. september 2012 var ósköp venjulegur dagur á Íslandi. Hvað veður snerti var hann reyndar með miklum ágætum. Sólin skein víðsvegar um landið, hitinn náði allt að 10 stigum og rauðgul haustlaufin bærðust ekki í logninu. Ég veit ekki hvað fólk gerði þennan dag. Sumir þvoðu þvott eða tóku til, aðrir fóru í golf, sumir lágu veikir í rúminu. Þetta var ósköp venjulegur dagur í lífi þjóðarinnar. Það var í sjálfu sér ekkert að frétta.

En fréttamenn stóðu samt vaktina þennan dag, eins og alla aðra daga, þó það stæði lítið upp úr í fréttum. Þegar komið var fram á kvöld kom þó eitthvað nógu merkilegt fram til þess að þrír af helstu fréttamiðlum landsins birtu allir sömu fréttina. [1]

Mbl.is reið á vaðið kl. 19.03 með þessa stílfærðu fyrirsögn:

„Íslendingar „stærstir“ í Evrópu“

– Ef fólk las aðeins fyrirsögnina var ekki ljóst um hvað fréttin snérist en 48 mínútum síðar birtist þessi fyrirsögn á visir.is:

„Íslenskir karlmenn með stærsta liminn í Evrópu“

Klukkan 20.21 birti dv.is svo fyrirsögnina:

„Íslenski karlmaðurinn með lengsta liminn í Evrópu“

Fréttirnar þrjár voru af svipuðum toga: „Íslenskir karlmenn eru með stærsta getnaðarlim í Evrópu, samkvæmt nýrri könnun Ulster-háskólans á Bretlandi. Getnaðarlimur meðal karlmanns á Íslandi er 16,51 cm í fullri reisn,“ sagði í fréttinni á visir.is. Morgunblaðið og DV greindu á líkan hátt frá málinu en sögðu þó að niðurstaðan væri byggð nýlegri „rannsókn“ en ekki „könnun“ eins og í fréttinni á visir.is. Greinarnar voru allar ritaðar í hefðbundnum fréttastíl.

Loksins mælanlegir yfirburðir

Þetta fannst mér forvitnilegt. Íslendingar hafa um árabil gortað sig af því að eiga fallegustu konur í heimi. Það er ekki amalegt, en því miður er fegurð ekki mælanleg og fullyrðingin því orðin tóm. Stærð typpa er aftur á móti mælanlegt fyrirbæri. Að vísu verður að taka tillit til þess að typpið sé „í fullri reisn“ eins og sagði í fréttinni á visir. is, en það hljóta að vera til nokkuð vísindalegar viðmiðanir um hvenær því ástandi er náð. Typpalengd er vel mælanleg.

Þessi frétt var fullkomin. Íslendingar hafa undanfarið verið með óbeit á upphrópunum um að land þeirra sé best í heimi. Það er of þanin fullyrðing. En að eitthvað sé best í Evrópu er meira patent.

Áður en lengra er haldið vil ég stemma af einlægni mína. Það gladdi mig, raunverulega, að vita til þess að hvað sem líður eigin typpastærð þá væru landar mínir að minnsta kosti með nógu löng typpi til þess að draga meðaltalið upp í það hæsta í álfunni. Það gladdi mig vegna þess að þó við Íslendingar séum smáþjóð sem getur aldrei staðið uppi í hárinu á stærri þjóðum ef litið er heildstætt á afrekalistann þá er frábært að eiga allavega eina mælanlega röksemd til að stinga ofan í kokið á hinum stóru. Þetta typpatromp er nóg til þess að eiga síðasta orðið í öllum samræðum um samanburð þjóða. Hér eru dæmi:

Við Ítala
Hvað segið þið? Funduð þið upp borgarmenningu, funduð Ameríku,2 stóðuð fyrir endureisninni og hafið fjórum sinnum verið heimsmeistarar í fótbolta?

Það er ágætt. En við erum reyndar með stærri typpi.

Við Breta
Jæja. Á svo að hjakka á því núna að þið hafið átt heimsveldi sem var svo stórt að sólin settist aldrei, að þið hafið fundið upp tímabeltin og sett fram þróunarkenninguna?

Það er ágætt. En við erum reyndar með stærri typpi.

Við Bandaríkjamenn
Hvað var ég að heyra? Eyðið þið 651 milljarði dollara árlega [3] í her sem getur kramið sérhvern andstæðing þessarar veraldar og hafið fóstrað fleiri nóbelsverðlaunahafa og hlotið fleiri gullverðlaun á ólympíuleikum en nokkurt annað ríki?

Það er ágætur árangur miðað við hversu lítil typpi þið eruð með. Okkar eru töluvert stærri.

Ég vil samt taka fram að kannski er nóg að eiga aldrei þetta síðasta orð heldur láta hugsunina nægja. Ég hef oft ímyndað mér að þeir karlmenn sem eru með óvenju stór typpi séu þöglar manngerðir. Þeir þurfa ekki að belgja sig upp með orðum því þeir vita, og það er nóg fyrir þá, að þegar allt kemur til alls þá myndi vitneskjan um typpastærð þeirra þagga niður í hverskonar röksemdum. Ég mat því málið svo að best væri að stilla sig um að monta sig af meðaltyppinu stóra, en láta þess í stað vitneskjuna eina magna upp sjálfstraust til að stara stórþjóðirnar niður með augunum.

Atburðarás mánudagsins 1. október 2012

Dagurinn eftir að fréttirnar birtust var venjulegur vinnudagur. Margir vinna við tölvu og skoða netmiðlana til að fylgjast með fréttum. Það kom kannski ekki á óvart að fréttin um meðaltyppið langa sló í gegn. Fréttin varð sú mest lesna á visir.is og næstmest lesna á bæði dv.is og mbl.is. [4] Þúsundir deildu fréttinni á samfélagsmiðlum. Til að gæta allrar sanngirni þá held ég að flestir hafi tekið fregninni af léttúð, þó ekki hafi farið fyrir eiginlegri gagnrýni á sannleiksgildi hennar eða uppruna. Sjálfur var ég ekki haldinn neinum sérstökum efasemdum. Íslendingar eru með stærri typpi en gengur og gerist, það skiptir engu máli en það er ekkert verra að hafa fengið það staðfest, hugsaði ég. Fréttin þótti saklaus, skemmtileg og var líkleg til að gleymast fljótt. Eða hvað?

Þegar leið á daginn fór eitthvað að trufla mig. Það var eitthvað sem ekki stemmdi. Ég ákvað því að gera eitthvað sem ég geri vanalega aldrei, að kanna fréttina nánar. Hvernig gerir maður það?
Ég starfaði eitt sinn sem blaðamaður og með því fyrsta sem mér var kennt voru „háin fimm“, safn spurninga sem fréttum er ætlað að svara um viðfangsefnið.

Spurningarnar eru:

Hvern/hvað/hverja er verið að fjalla um?
Hvað gerðist?
Hvers vegna gerðist það?
Hvenær gerðist það?
Hvar gerðist það?

Fyrstu tveimur spurningunum var svarað í fréttunum.

Hvað var fjallað um? Svar: Meðaltyppastærð íslenskra karlmanna í samanburði við aðrar þjóðir.

Hvað gerðist? Svar: Typpi íslenskra og erlendra karlmanna voru mæld í „rannsókn“ eða „könnun“ og niðurstöður bornar saman.

Spurningunum 3–5 um hvers vegna, hvenær og hvar var ekki svarað. Gat það skipt máli? Það er allavega hægt að fullyrða að svör við þessum spurningum gætu verið forvitnileg. Hvenær voru typpin mæld, hvar voru þau mæld og hvers vegna voru þau mæld? Ferðaðist einhver stimamjúkur maður á milli 113 landa með málband og stílabók?

Þar sem íslensku fréttirnar svöruðu ekki þessum spurningum leitaði ég upprunans. DV og Vísir vísuðu í breska götublaðið the Daily Mail sem heimild en Mbl-greinin var með tilvísun í breska dagblaðið Telegraph. Þá tóku allir fréttamiðlarnir fram að rannsóknin hefði verið á vegum Ulster-háskólans í Norður-Írlandi og DV bætti við að rannsóknin hefði verið gerð af sálfræðiprófessornum Richard Lynn og niðurstöðurnar birtar í tímaritinu Personality and Individual Differences; visir.is minntist líka á tímaritið í sinni grein. Í frétt DV sagði að rannsóknin hefði verið gagnrýnd þar sem Richard Lynn greindi frá því að hann hefði fengið upplýsingarnar um lengd typpanna af vefsíðum.

Við lestur frétta Daily Mail og Telegraph, sem birtust einnig 30. september, vöknuðu enn fleiri grunsemdir. Þar kom fram að Richard Lynn væri fyrrverandi prófessor sem hefði hlotið mikla gagnrýni fyrir störf sín vegna þeirra skoðana sinna að þróunarlegur aðstöðumunur hafi leitt til mismunar á vitsmunum kynþátta og þjóðerna.

Á þessum tímapunkti varð ég að vita allan sannleikann.

Kynþáttalegir yfirburðir lítilla typpa

Ég var ekki enn búinn að fá svör við því hvenær rannsóknin fór fram eða hvar. En ákveðnar vísbendingar voru komnar fram um að rannsóknin hefði verið liður í því að kanna hvort sumar þjóðir væru gáfaðari en aðrar. Gat þetta verið rétt?

Það tók ekki langan tíma að finna grein Richards Lynn. Hana fann ég á vefsíðu tímaritsins Personality and Individual Differences, sem er fræðirit um sálfræðirannsóknir, en prófessorinn fyrrverandi situr í ritstjórn blaðsins. [5] Greinin nefnist „Rushton’s r-K life history theory of race differences in penis length and circumference examined in 113 populations“ og birtist 12. mars 2012 eða tæpu hálfu ári áður en „fréttirnar“ um málið birtust almenningi á Bretlandi og Íslandi. Greinin fjallar um samanburð á typpastærð karla af ólíkum kynþáttum og þjóðerni til að styðja þá kenningu að skipta megi mannkyni upp í kynþætti á grundvelli svokallaðrar r-K flokkunar. R-K flokkun lífvera er fengin úr líffræðinni. R-flokkur lífvera eignast mörg afkvæmi en sinnir þeim lítið og skeytir engu um þótt stór hluti þeirra farist ef nokkrir lífvænlegir einstaklingar skila sér út í samfélagið. K-flokkur lífvera eignast færri afkvæmi en leggur meiri rækt við að koma þeim áfram í lífsbaráttunni. Til K-flokks teljast spendýr og þar á meðal maðurinn. Í lífssögukenningu kanadíska sálfræðingsins Philippes Rushton eru færð rök fyrir því að flokka megi homo sapiens niður eftir því hve mikil K-lífvera hann sé. Þannig séu kynþættir sem eignist færri börn en sinni þeim betur meiri K-lífverur en þeir sem stóla á að fáeinir einstaklingar úr stórum barnahópi komist til manns. Samkvæmt því sem Lynn rekur í grein sinni, og er meðal annars byggt á kenningum Rushtons, er það þannig að því minni typpi sem kynþættir hafa því meiri K-lífverur eru þeir. Rushton þessi hafði áður sett fram upplýsingar um typpastærðir kynþátta en það sem Lynn færir inn í jöfnuna eru nýjar upplýsingar um typpastærðir, þar á meðal tafla með samanburði á meðaltyppalengd karlmanna í 113 löndum. [6]

Grein Richards Lynn gaf mér svör við fjórðu spurningunni. „Rannsókninni“ var meðal annars ætlað að færa rök fyrir því að meðaltyppalengd hins svokallaða „mongoloid“-kynstofns, sem er samkvæmt greininni hlutfallslega minni en annarra kynstofna, gæti verið vitnisburður um hærra þróunarstig. [7]

Ég skil hvers vegna íslenskir blaðamenn létu þetta ekki fylgja með í fréttaflutningi sínum af typpalengd íslenskra karlmanna. Í fyrsta lagi þá höfðu þeir ekki hugmynd um þetta og í öðru lagi hefðu þeir aldrei birt fréttina ef þeir hefðu vitað það.

En leit mín var ekki á enda. Hvenær voru typpin mæld og hvar voru þau mæld?

Upplýsingarnar um að meðaltyppalengd íslenskra karlmanna sé 16,51 cm kemur einmitt fram í „nýju“ töflunni sem Lynn vísar til. Um töfluna segir Lynn:

Hin nýju gögnin sem lögð eru fram fela í sér alþjóðlega samantekt frá 2010 á fjölda rannsókna á lengd reistra typpa hjá fullorðnum karlmönnum, þau taka til 113 landa og eru fengin frá http://www.everyoneweb.com/worldpenissize/, þann 20. júní 2011. Upplýsingum á vefsvæðinu hefur verið safnað saman úr gögnum frá rannsóknarsetrum og skýrslum hvaðanæva að úr heiminum. Heimildir fyrir þeim upplýsingum sem koma fram má finna á vefsvæðinu sjálfu en framsetning upplýsinganna eins og hún birtist á vefsvæðinu er óútgefin og því ekki yfirfarin af öðrum fræðimönnum […] í sumum rannsóknanna er lengd á reistum typpum byggð á upplýsingum sem fengnar eru frá mönnunum sjálfum (stjörnumerktar) en í öðrum tilfellum var lengdin mæld af öðrum. [8]

Á eftir lengdinni 16,51 cm á íslensku meðaltyppi er stjarna. 16,51 cm*. Samkvæmt þessu höfðu Íslendingar mælt typpin sín sjálfir. Það svarar að vissu marki spurningunni „hvar voru typpin mæld“. Typpin voru mæld á Íslandi, ekki á rannsóknarstofum með nákvæmum mælitækjum heldur að öllum líkindum inni á íslenskum heimilum með reglustikum. Þá er ekki útilokað að mælingarnar hafi farið fram í huga takmarkaðs hóps íslenskra karlmanna. En svörin við því er væntanlega að finna í frumheimild Lynns.

Sjálfstraust fer dvínandi – typpið styttist um 1,95 cm

www.everyoneweb.comFrumheimildin er vefsvæðið www.everyoneweb.com/worldpenissize/, en á síðunni sjálfri er svæðinu gefið heitið: World Penis Avarage Size Studies Database. Forsíðu síðunnar má sjá hér [til hliðar]. [9]

Það fyrsta sem vakti athygli mína á vefsvæði Heimsgagnabanka meðaltyppalengdar var að meðallengd íslenskra typpa var sögð 14,56 cm eða 1,95 cm styttri en finna mátti í töflu Lynns. Engin dagsetning er á töflu vefsvæðisins og því er ómögulegt að átta sig á ástæðum ósamræmisins. Það eina sem ég vissi nú var að íslensk typpi höfðu skyndilega styst um tæpa 2 cm og var öllu lægri reisn á þeim en þegar fréttirnar birtust fyrst á íslenskum vefmiðlum.

Enn gat ég ekki séð hvenær mælingar á íslenskum typpum fóru fram né hver safnaði þeim saman eða hver orsök þess var að íslenskir karlmenn fóru sjálfir að mæla typpi sín. Undir töflu vefsvæðisins var ekki getið neinna heimilda.

Á forsíðu Heimsgagnabanka meðaltyppalengdar mátti þó finna valmöguleikann „uppruni gagna“. Þar var vísað á 84 mismunandi heimildir fyrir uppruna gagna á vefsíðunni. Meðal heimilda má nefna:

Studies on self-esteem of penile size in young Korean military men. Asian Journal of Andrology, 5, 185–189.
The Elle/MSNBC.com sex and body image survey. Elle, pp. 111–113. Magna-RX. (2005, March). Does size really matter to your lover? More than you can possibly imagine! For Him Magazine, p. 117. [10]

Ég held ég geti fullyrt að engin þessara heimilda gaf til kynna að þar væri að finna upplýsingar um meðaltyppalengd íslenskra karla. Uppruni þeirra upplýsinga var mér enn ókunnur. Á heimasíðunni var einnig hægt að velja „hafa samband“ og fékk maður þá uppgefið tölvupóstfangið averagesizedatabase@hotmail.com. Undir póstfanginu stóð svo:

Niðurstöður rannsókna eru teknar saman á þessu vefsetri; það skal þó tekið fram að ekki er unnt að greina frá sumum heimildum vegna diplómatískra deilna eða orðspors vísindastofnana. [11]

Ég ákvað samt, þó að það gæti þvælt persónu mína inn í diplómatíska milliríkjadeilu, að senda Heimsgagnabankanum tölvuskeyti sem hljóðar svo í íslenskri þýðingu:

Kæri fulltrúi Heimsgagnabanka meðaltyppalengdar

Í nýlegri grein eftir Richard Lynn, fyrrverandi prófessor við Ulsterháskóla, sem nefnist Rushton’s r-K life history theory of race differences in penis length and circumference examined in 113 populations og birtist í tímaritinu Personality and Individual Differences, er að finna lista yfir meðaltyppastærðir í 113 löndum.

Herra Lynn tekur fram að upplýsingar sem hann styðst við sé að finna á vefsvæði ykkar, everyone.com/worldpenissize. Í þessum upplýsingum kemur fram að meðaltyppastærð Íslendinga sé 16,51 cm.

Þar sem ég er Íslendingur hef ég áhuga á að vita eftirfarandi:
Á hvaða rannsókn eru upplýsingar um meðaltyppalengd Íslendinga byggðar?
Virðingarfyllst,
Bergur Ebbi Benediktsson

Bréfið sendi ég 2. október 2012 en hef enn ekki fengið svar.

Við erum það sem við lesum og heyrum

Þegar upp er staðið finnst mér eins og ég hafi tekist á hendur ferðalag dagana 30. september til 2. október 2012 og að ég þurfi að gera þetta ferðalag upp. En hvaða ályktun er hægt að draga? Það merkilegasta við þetta allt saman er kannski sú kaldhæðnislega staðreynd að þrátt fyrir allt þá er typpalengd, sama hvaða merkingu við leggjum í hana, fullkomlega mælanlegt fyrirbæri. Fyrst áhugi okkar á eigin typpastærð í samanburði við aðrar þjóðir er jafn mikill og raun ber vitni er okkur algjörlega í sjálfsvald sett að gyrða niðrum okkur frammi fyrir hinu alþjóðlega samfélagi og láta á það reyna hvar við stöndum. Kannski veit ég ekki einu sinni hvað mér á að finnast um þetta? Skiptir þetta kannski engu máli?

Ég ætla að leyfa mér að enda þetta á dramatískum nótum.

Ég held að allt sem við heyrum, sjáum og finnum hafi áhrif á okkur. Stundum er hægt að mæla áhrifin, oftar ekki. Ég veit ekki nákvæmlega hversu margir lásu typpafréttirnar sem birtust 30. september 2012. Ég veit hins vegar að þann 1. október á Íslandi þá voru þessar fréttir lesnar af fleira fólki en fréttir um borgarastyrjöldina í Sýrlandi sem þá geisaði, forsetaframboðið í Bandaríkjunum og opinbera ákæru á hendur fyrrverandi forstjóra íslenska fjármálaeftirlitsins. Þær voru jafnvel lesnar meira en fréttir um spár vísindamanna um að lofsteinn væri í þann mund að rekast á tunglið og granda því. Þær voru lesnar meira en sérhver frétt af umhverfismálum, stríðsátökum eða viðskiptum. Þúsundir lásu greinarnar, tugþúsundir töluðu um þær, nánast öll þjóðin dreypti á þeirri fregn á einhvern hátt að reist typpi Íslendinga trónuðu hæst á reðurhvolfi hinnar evrópsku álfu, þó að flestir hafi kannski gleymt því nú.

En hvað varð um upplýsingarnar? Fóru þær inn um annað eyrað og út um hitt og svo ekki söguna meir? Í huga sérhvers einstaklings getur verið að það sé tilfellið. En ef það er til eitthvað sem heitir þjóðarsál, sameiginlegur tilfinningabelgur íslenskrar sjálfsmyndar, þá gúlpaðist þessi fregn þar ofan í og er þar um kjurrt. Þó að meðvitund sérhvers einstaklings hafi tekið fréttinni af léttúð þá hringdu engar almennar viðvörunarbjöllur um að fregnin væri í fyrsta lagi lygi, í öðru lagi lygi komin frá þeim sem hún á endanum gabbaði (þ.e. einhverskonar sjálfblekkjandi sjálfsblekking) og í þriðja lagi lygi sem notuð var til að rökstyðja ógeðfelld og rasísk sjónarmið.

Þvert á móti þá fékk fregnin að fljóta óáreitt í gegnum ritstjórnarborð þriggja stærstu netfréttamiðla landsins, í gegnum vitund tugþúsunda Íslendinga og að lokum ofan í tilfinningabelginn víða og útblásna þar sem hún liggur enn og kitlar.

Sjálfsmynd þjóðar

Það er góð regla að spá sem minnst um framtíðina. Því meiri metnað sem maður leggur í spádóma því ólíklegra er að þeir rætist. Eitt getum við samt vitað. Í framtíðinni munu sagnfræðingar reyna að draga upp mynd af þjóðfélagi dagsins í dag. Þeir munu lesa bækur, tölvupósta, rýna í listaverk og margt fleira. En þeir munu einkum skoða fjölmiðla, og mögulega einnig samfélagsmiðla, og sjá þar spegilmynd – nánast áþreifanlegt afrit – af þeirri þjóð sem við erum nú. En það sem þeir munu ef til vill sjá er tómeyg spegilmynd af þjóð – spegilmynd sem lifði sjálfstæðu lífi á meðan frummyndin var einhversstaðar úti í göngutúr.

Heimildir

  • British men have bigger penises than the French according to survey of manhood sizes. Dailymail.co.uk. 30. september 2012.
  • British men more well-endowed than French…but smaller than Germans. Telegraph.co.uk. 30.september 2012.
  • Department of Defence. The President’s 2009 Budget. Sjá: http://www.gpo.gov/fdsys/pkg/BUDGET-2009-BUD/pdf/BUDGET-2009-BUD-11.pdf. Tekið af netinu 3. október 2012.
  • Íslendingar „stærstir“ í Evrópu. Mbl.is 30. september 2012.
  • Íslenskir karlmenn með stærsta liminn í Evrópu. Visir.is 30. september 2012.
  • Íslenski karlmaðurinn með lengsta liminn í Evrópu. Dv.is 30. september 2012.
  • Richard Lynn. Rushton’s r-K life history theory of race differences in penis lenght and circumference examined in 113 populations. Personality and Individual Differences. 2012.
  • World Penis Avarage Size Studies Database. www.everyoneweb.com/worldpenissize/ Upplýsingum safnað 2. október 2012.

Tilvísanir

  1. Samkvæmt samræmdri vefmælingu Modernus voru vinsælustu vefsíður landsins vikuna 24.9.–30.9. 2012 í þessari röð mbl.is, visir.is og dv.is. Heimild: modernus.is.
  2. Í rökræðum við Ítali má svo einnig bæta við, til að pirra þá enn frekar, að Leifur heppni hafi fundið Ameríku tæpum fimm hundruð árum á undan Kólumbusi.
  3. Talan er byggð á áætlun bandaríska varnarmálaráðuneytisins fyrir árið 2009. Sjá http://www.gpo.gov/fdsys/pkg/BUDGET-2009-BUD/pdf/BUDGET-2009-BUD-11.pdf.
  4. Athugun gerð á mbl.is, visir.is og dv.is síðdegis 1. október 2012.
  5. Sjá http://www.journals.elsevier.com/personality-and-individual-differences/editorial-board/ – tekið af netinu 4. október 2012.
  6. Rushton’s r-K life history theory of race differences in penis lenght and circumference examined in 113 populations. Richard Lynn. Personality and Individual Differences. 2012.
  7. Lynn, bls. 2.
  8. Lynn, bls. 2–3. Frumtextinn hljóðar svo: „The second new data consists of a worldwide summary of a number of studies of erect penis length in adult men reported for 113 countries
    in 2010 in www.everyoneweb.com/worldpenissize/ Retrieved 20 June, 2011. The information in this website has been collated from data obtained by research centres and reports worldwide.
    The references for the studies from which the composite data have been compiled are given in the website, although the composite data themselves, as presented on the site, are
    unpublished and therefore not peer-reviewed. […] In some of these studies erect penis length was self-reported (denoted by asterisk) and in others it was measured by others.“
  9. www.everyoneweb.com/worldpenissize/ forsíða 3. október 2012.
  10. www.everyoneweb.com/worldpenissize 4. október 2012. Undir „Sources“.
  11. Á ensku: „Studies results are summarized in this website; however some sources can not be mentioned, due to diplomatic dispute and reputation of scientific institutes.“ www.everyoneweb.
    com/worldpenissize/ 3. október 2012. Undir „Contact“.