eftir Greg Burris
Úr Tímariti Máls og menningar, 4 hefti 2021
Björn Þór Vilhjálmsson þýddi
Við] þörfnumst kraftmesta sjónaukans […] til að sjá sem skýrast inn í myrkrið sem er okkur næst.“
Ernst Bloch
Þann 4. ágúst 2020 sprakk heimaborg mín í loft upp. Líbanon mátti alls ekki við þessu. Þjóðin stóð þegar andspænis gríðarlegum erfiðleikum; fjármálahruni, gengishruni, stórauknu fátæktarstigi meðal almennings, orkuverkföllum, umfangsmikilli mótmælahreyfingu og heimsfaraldri. Þetta bættist allt ofan á dagfarslega mengunina, spillinguna, ófriðarundirölduna í þessum heimshluta, valdamikla kreddutrúarstefnuhópa, og viðvarandi myrkvanir vegna rafmagnsbilana, sem urðu æ tíðari og lengdust sífellt. Líkt og ókyrrðin væri ekki enn nægilega ógnvænleg þá kviknaði í höfninni laust upp úr klukkan sex síðdegis. Eldsupptökin voru tilfallandi en skömmu síðar hvellsprengdi óviljaverkið 2.750 tonn af ammóníumnítrati. Flestar mælingar gefa til kynna að þetta hafi verið ein af stærstu sprengingum orðið hafa í heiminum, ef kjarnorkuvopn eru undanskilin.
Þegar sprengingin átti sér stað var ég staddur á þakkaffihúsi í innan við kílómetrafjarlægð frá miðpunkti hennar. Höggbylgjan frá sprengingunni fleygði mér á gólfið og ég faldi mig undir tréstól um leið og risavaxið sveppaský breiddi úr sér yfir himininn. Heimurinn myrkvaðist á einu andartaki og Beirút fékk ásýnd stríðssvæðis. Veggir hrundu, bifreiðar mörðust á götum og gluggar yfir borginni endilangri umbreyttust í vopn. Beirút var þegar borg mölvaðra drauma en nú var hún borg mélaðs glers. Á þriðja hundrað manns létust, tugir þúsunda slösuðust og kvartmilljón missti heimili sín.
Það vantar heldur ekki að áföllin hafi riðið yfir Beirút á umliðinni hálfri öld. Á sjötta áratugnum var borgin auglýst sem dýrðlegur orlofsáfangastaður. Land sem líkt hafði verið við „Sviss Mið-Austurlanda“ varð hins vegar blóðugri borgarastyrjöld að bráð á næstu áratugum. Borgarhverfi urðu einangraðar fátæktarholur, skýjakljúfar sem áður höfðu verið hótel umbreyttust í leyniskyttugreni og helstu umferðaræðar tóku á sig ásýnd löngu yfirgefinna eyðilanda. Árin eftir stríðslok virtust samt lofa nokkuð góðu, það var eins og Beirút ætlaði að endurheimta eitthvað af sínum forna frægðarljóma og það þrátt fyrir auðsjáanleg örin og bakslög eins og mánaðarlanga sprengjuárás Ísraels sumarið 2006. En þrátt fyrir þessa róstusömu fortíð hefði ekkert getað búið okkur undir hörmungardaginn í ágúst 2020.
Líkama mínum var þyrmt þrátt fyrir nálægðina við sprenginguna. Ég var einn af þeim heppnu, en streitan og tilfinningalega uppnámið sem ég upplifði voru samt yfirþyrmandi. Ég stóð sjálfan mig að því næstu vikurnar að bresta skyndilega í grát og í hvert sinn sem ég heyrði einhvern hávaða, eins og kannski í flugvél eða öskubíl, brá mér og byrjaði ósjálfrátt næstum að leita mér skjóls. Umvafinn þessu brjálæði þurfti ég útgönguleið, útrás – glugga inn í annan heim. Ég þurfti einhvers konar fjarlægð, áminningu um að veruleiki minn væri ekki sá eini. Eins undarlega og það hljómar þá stóð ég sjálfan mig að því að leita þessarar frelsisgáttar á óvæntasta stað sem hugsast getur: Íslenska þjóðarbíóinu.
Ég veit ekki nákvæmlega af hverju Íslandi laust niður í huga mér. Ég hafði heimsótt landið stuttlega einu sinni og séð eina eða tvær íslenskar kvikmyndir, en síðan voru liðin mörg ár. Á þessari álagsstundu hlýtur einhver notaleg minning frá Íslandi að hafa flogið inn í vitundina án þess að mikið bæri á. Ég þurfti að fjarlægja sjálfan mig frá hörmungunum umhverfis mig og ef ég var líkamlega fastur í Beirút gæti hugurinn kannski öðlast ákveðið frelsi með því að ferðast til Íslands.
Fyrsta myndin sem ég ákvað að horfa á var Fúsi, sérvitur og uppátektarsöm mynd Dags Kára frá 2015 um samnefndan karl sem Gunnar Jónsson leikur. Fúsi er stór, feiminn og miðaldra og býr í lítilli íbúð með móður sinni, Fjólu (Margrét Helga Jóhannsdóttir) og virðist ekki hafa mikið fyrir stafni utan þess að fylgjast með eintóna lífi sínu renna hægt og rólega út í sandinn. Enda þótt ég hefði komið höndum yfir allnokkrar nýlegar íslenskar myndir sem gengið höfðu vel og fengið góða dóma – þar á meðal Héraðið (Grímur Hákonarson, 2019), Málmhaus (Ragnar Bragason, 2013), Hross í oss (Benedikt Erlingsson, 2013), Hvítur, hvítur dagur (Hlynur Pálmason, 2019), og Kona fer í stríð (Benedikt Erlingsson, 2018) – ákvað ég að hefjast handa á Fúsa. Þar hafði reyndar nokkur áhrif að ég þekkti eldri mynd leikstjórans, Nói albínói (2003) og sömuleiðis hafði plaggatið áhrif: Nærmynd af alvörugefnu og skeggjuðu andliti Fúsa, hvergi örlar á brosi en mjólkurskeggið er greinilegt. Ég setti myndina í gang umkringdur heitu sumarloftinu sem streymdi enn inn inn um brotna gluggana á íbúðinni minni.
Fúsi birtist áhorfendum sem tilbrigði við blíða risann. Hann er utanveltu í samfélaginu, stór og klunnalegur, maður sem enginn sækist eftir. Hann er ljúfur en vanmetinn af samfélaginu. Þegar fólk tekur eftir honum yfirleitt þá annaðhvort misskilur það hann eða gerir grimmilega grín að honum. Nær undantekningalaust eru félagslegar athafnir hans og samskipti sársaukafull og dapurleg. Nágrannarnir treysta honum ekki og hann er lagður í einelti af vinnufélögum sínum. Fyrir vikið er greinilegra að aðeins einn hópur kemur fram við Fúsa af einhverri háttprýði en það er hópur innfluttra verkamanna. Vinsemd þeirra er dæmi um bróðerni meðal utangarðsmanna. Viðbrögð Fúsa sjálfs við fjandsamlegu félagsumhverfi er að verða sífellt hlédrægari og óframfærnari. Afskipt tilvist Fúsa endurspeglast í kvikmyndatökunni. Á meðan tökustíllinn í öðrum íslenskum myndum er gjarnan þannig að áhersla er lögð á náttúrufegurð landsins (Kona fer í stríð mætti nefna í þessu samengi) þá umbreytir Fúsi íslensku landslagi í kalt, afskekkt fangelsi. Innilokuðum félagslegum veruleika Fúsa er þannig varpað á landið sjálft.
Þá birtist aðþrengt rými Fúsa á táknrænan hátt í starfinu sem hann gegnir í myndinni. Hann vinnur á flugvellinum í Keflavík við farangursflutninga, fyllir eina vél og tæmir aðra, en ávallt eru það pinklar og eigur annarra sem hann meðhöndlar. Kaldhæðnin liggur svo í því að Fúsi hefur aldrei ferðast til útlanda. Hann umgengst alþjóðlega ferðamenn á hverjum degi en hefur aldrei verið í þeirra sporum. Fúsi situr fastur í sinni samanreknu tilveru, fangi í eintóna veruleika, og eyrnaskjólin sem hann ber ávallt í vinnunni undirstrika einangrunina og samskiptaleysið. Milli hans og heimsins er gjá, og gjáin er meira að segja á sínum stað í hljóðheimi hans.
Þegar korter var liðið af myndinni leið mér allt í einu eins og hún væri að ávarpa mig persónulega. Fúsi á afmæli og kærasti móður hans, Rolf (Arnar Jónsson), gefur honum gjöf í kassa. Inni í honum er kúrekahattur. Með skyndilegri innkomu þessa leikmunar fangaði Fúsi athygli mína að fullu. Eins og við mátti búast í tilfelli einstaklings sem er borinn og barnfæddur í Texas, og varði þar fyrstu tveimur áratugum ævinnar, þá fannst mér hatturinn og óvænt tilkoma hans merkingarþrungin. Þetta var í senn áminning um bakgrunn minn og bernskurætur – rætur sem höfðu aldrei virst jafn fjarlægar og einmitt þegar ég horfði á myndina. Áfallið sem fylgdi hafnarsprengingunni mætti streituvaldandi tilvistarafleiðingum Covid-faraldursins og meðfylgjandi einangrunartímabilum. Heimaland mitt var ógjörla kallað fram í huga mér og fordæmalaust myrkur hafði lagst yfir minningarnar. Þess vegna fannst mér eðlilegt að ljá þessum vestraklæðnaði merkingarvirkni sannra jarteikna – eins vandræðalega og það kannski hljómar.
Móðir Fúsa, Fjóla, hvetur hann til að prófa hattinn og hikandi gerir Fúsi það og setur á sig kúrekahatt sem er ekki alveg í réttri stærð. Fúsi er órólegur út af óvenjulegri gjöfinni og feiminn andspænis óæskilegri athyglinni sem nú beinist að honum og leyfir því hattinum aðeins að dvelja á hvirflinum í augnablik áður en hann tekur hann niður. Með hattinum fylgdi jafnframt gjafakort á línudansnámskeið. Forsendurnar fyrir gjöfinni voru kannski ekki alveg óeigingjarnar af Rolfs hálfu, kemur í ljós. Hann er að reyna að koma Fúsa út af heimilinu svo hann hafi meira næði með Fjólu. Örlagaríkt skref hefur þó verið stigið því framvindan sýnir að þessi skrítni kúrekahattur – örlítil uppátroðsla úr öðrum menningarheimi – reynist fyrsti dómínókubburinn sem fellur í röð atburða sem breyta lífi Fúsa með dramatískum hætti.
Fúsi heldur af stað í fyrsta danstímann, klæddur af móður sinni í jakkaföt og bindi. Danstíminn fer ekki vel. Fúsi er heltekinn efasemdum um þetta framtak sitt um leið og hann stígur fæti inn í salinn. Hann hörfar óttasleginn og feiminn út í bílinn sinn og ver kvöldinu einsamall á bílastæðinu, hlustar á þungarokk og horfir á snjóinn falla. Áður en hann ekur á brott hittir hann fyrir tilviljun annan dansnemanda, Sjöfn (Ilmur Kristjánsdóttir). Hún þarf far heim og Fúsi skutlar henni. Skammvinn samskiptin við hana reynast hins vegar hvatningin sem hann þarf til að gera aðra atlögu að námskeiðinu og áður en Fúsi veit af er hann ekki aðeins byrjaður að læra að dansa heldur að upplifa eitthvað sem hann hefur aldrei kynnst áður: Vísi að ástarævintýri.
Þar sem þessum atburðum vatt fram á skjánum byrjaði ég að túlka myndina á dálítið lausbeislaðan hátt. Samsömuninni sem ég fann með myndinni – og Fúsa – lauk ekki með kúrekahattinum. Feimni hans á dansgólfinu átti sér hliðstæðu í efasemdum mínum um danslæti, óþægindatilfinningu sem ég hef fundið fyrir síðan á barnsaldri. Dálæti Fúsa á reiðiblöndnu þungarokki speglaði mína eigin ást á þessari tónlistartegund og í sviptivindasömu og slitróttu samband hans við Sjöfn fannst mér ég heyra enduróminn af eigin nándarvandamálum. Áhrifamesta hliðstæðan átti þó enn eftir að birtast.
Undir lokin á Fúsa sjáum við titilpersónuna í Leifsstöð þar sem hann gengur um borð í flugvél. Enda þótt sambandið við Sjöfn hafi endað á brimskeri hefur Fúsi unnið í sjálfum sér og er orðinn gerandi í eigin lífi – kannski í fyrsta sinn. Hann staldrar við í augnablik í landganginum á flugvélinni og horfir á malbikið fyrir neðan. Þar eru flugvallarstarfsmennirnir – samstarfsmenn hans – að burðast með farangur ferðafólksins og sjálfur hefur hann ótal oft verið í þessari sömu stöðu, en aldrei sem ferðamaður. Fúsi er núna að upplifa heiminn á algjörlega nýjan hátt og kvikmyndinni lýkur þar sem hann situr um borð í flugvélinni og horfir út um gluggann. Í örstutta stund má sjá örla fyrir brosi. Þegar flugvélin tekur á loft leyfir hann sér að skælbrosa. Þetta er síðasti ramminn í myndinni, áður en aðstandendalistanum er brugðið upp, undursamlegt andartak táknræns frelsis. Innra með sér er Fúsi laus úr sinni kæfandi tilvistarprísund og andlegt frelsið birtist með áþreifanlegum hætti í nýfundnum líkamlegum hreyfanleika. Fúsi er að hefja sitt eigið ferðalag og með því umfaðmar hann sjálft lífið. Áfangastaðurinn: Mið-Austurlönd.
Svo að það sé alveg skýrt þá er Fúsi á leið til Egyptalands, ekki Líbanons. Áhugi hans á landinu er skýrður með tilvísun til eins af áhugamálum hans. Fúsi ver frítíma sínum í borðleiki sem endurskapa með tindátum orrustur seinni heimsstyrjaldarinnar sem áttu sér stað í fjarlægri Norður-Afríku. Enda þótt Egyptaland sé vissulega ekki Líbanon þá skiptu smáatriðin einfaldlega ekki öllu máli meðan ég horfði á myndina þessa kvöldstund í íbúðinni minni í Beirút. Fúsi var að ferðast til Arabaheimsins og frá mínum bæjardyrum séð voru þetta skilaboð ætluð mér. Frá kúrekahattinum til tengingarinnar við Mið-Austurlönd – mér fannst eins og sjónvarpsskjárinn minn hefði umbreyst í einhvern furðuglugga inn í aðra vídd. Fúsi var fastur á Íslandi og horfði til Arabaheimsins sem flóttaleiðar, ég var fastur í Líbanon og horfði til Íslands í leit að minni flóttaleið. Það var eins og við værum andhverfur hvor annars og ef Fúsi fann leið út úr sinni klemmu – það er að segja, ef hann gat losað sig úr sínu kvalafulla tilfinninga- og efnisumhverfi – þá var kannski líka von fyrir okkur hin.
Við höfum öll upplifað stundir þar sem okkur finnst kvikmyndir ávarpa okkur persónulega. Hér gæti jafnvel verið á ferðinni ein af ástæðunum fyrir kynngimætti kvikmyndamiðilsins. Það rekur slóð okkar ævina út og kennir okkur að elska, þroskast, hvernig bera skal þjáningu og hvernig á að syrgja. Kvikmyndin sér fyrir lykilatvik lífs okkar – brúðkaupin og skilnaðina, afmælisveislurnar og jarðarfarirnar, velgengni okkar og hrakfarir – og réttir fram hegðunarskapalón fyrir þessar stundir áður en þær eiga sér stað. En þótt máttur kvikmynda sé mér vel kunnugur átti ég ekki von á því að íslensk kvikmynd myndi snerta mig svona djúpt í kjölfar hafnarsprengingarinnar í Beirút.
Eftir Fúsa tók ég til við að horfa á fleiri íslenskar kvikmyndir, nýja á næstum hverju kvöldi. Ég sá sömu leikarana aftur og aftur. Þarna er Fúsi að leika öryggisvörð í Andið eðlilega (Ísold Uggadóttir, 2018)! Þarna er hann aftur sem fyrrum fórnarlamb barnaníðings í Brot (Þórður Pálsson, 2019–2020)! Enn á ný sé ég hann sem varasaman afgreiðslumann í búð í Hjartasteini (Guðmundur Arnar Guðmundsson, 2016)! Í fjórða sinn sé ég hann sem fjárbónda í Hrútum (Grímur Hákonarson, 2015)! Sama á við um alla hina leikarana í Fúsa. Leikkonan sem leikur kærustuvon(brigði) Fúsa er lögreglukona í Ófærð (Baltasar Kormákur, 2015–) og sú sem leikur móður hans er rúmföst húsmóðir í Eldfjalli (Rúnar Rúnarsson, 2011). Röðin af íslenskum andlitum sem ítrekað birtust í sjónvarpinu mínu var næstum eins og ný fjölskylda, og á einhvern undarlegan hátt var uppörvandi að sjá þau birtast aftur og aftur í nýjum hlutverkum.
Smám saman rann upp fyrir mér að þessar myndir voru að gefa mér meira en yfirborðskennda hughreystinguna sem fólst í kunnuglegum andlitum. Eftir því sem lengra leið á íslenska hámhorfið tóku vangaveltur um þetta litla land að sækja á mig og ég spurði sjálfan mig hvaða þýðingu Ísland gæti mögulega haft fyrir mig á þessum erfiðu tímum í miðjum hamförunum. Hægt og sígandi byrjaði ég að ímynda mér hliðstæður. Líkt og í Líbanon reið efnahagshrun yfir Ísland fyrir fáeinum árum, hrun, sem eins og í Líbanon, gat af sér stórfellda og langvarandi mótmælahreyfingu, búsáhaldabyltinguna. Efnahagshrunið myndaði jafnvel bakgrunninn í sumum myndunum sem ég horfði á – nokkuð sem var kannski mest áberandi í stuttmyndinni Útrás Reykjavík (Ísold Uggadóttir, 2011). Ein af sögufléttunum í Vonarstræti (Baldvin Z., 2014) fjallar sömuleiðis um hættuheim alþjóðlegra fjármála og í öðrum myndum á borð við Rokland (Marteinn Þórsson, 2011), Kona fer í stríð og sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð er mynd brugðið upp af rángjarnri kapítalískri framtakssemi.
Það voru líka aðrar hliðstæður – sumar augljósari en aðrar. Eins og Líbanon er Ísland lítið land á jaðri Evrópu. Bæði löndin eiga sér langa og flókna sambandssögu við nýlenduherra og Ísland var enn dönsk nýlenda þegar Líbanon lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi árið 1943. Nýlendubakgrunnurinn hefur jafnframt leitt til flókinnar þjóðarsjálfsmyndar sem reynir enn meira á í andstreymi. Eins og Kristín Loftsdóttir bendir á í bókinni Crisis and Coloniality at Europe’s Margins fylgdi sjálfsmyndarkreppa efnahagshruninu 2008 og margir Íslendingar tóku að efast um hversu djúpstæð tengsl þjóðarinnar við Evrópu væru í raun.
Eftir hafnarsprenginguna fylgdist ég í rauntíma með áþekkri sjálfsmyndarkreppu grípa um sig í Líbanon. Meðan Íslendingar brugðust við með því að fjarlægja sig frá Evrópu átti hið andstæða sér stað í Líbanon, tilverutengslin við Evrópu urðu mörgum íbúum haldreipi. Við völd í löndunum í kring voru gjarnan konungbornir leiðtogar, klerkar eða einræðisherrar, en Líbanon var öðruvísi. Þrátt fyrir átakahrjáða sögu og deilur trúarhópa var Líbanon gjarnan hrósað fyrir að vera útvarðarstöð umburðarlyndis og fjölmenningar – ímyndað skjól evrópsks heimsborgaraháttar við strendur Levant-svæðisins. Þannig að þegar Emmanuel Macron Frakklandsforseti sótti landið heim tveimur dögum eftir hafnarsprenginguna var honum fagnað á strætum borgarinnar af þúsundum og áskorun um að Líbanon gæfi frá sér sjálfstæðið og yrði á ný franskt verndarsvæði fékk nær 60.000 undirskriftir. Með hruninu hafði fótunum verið kippt undan þjóðinni og almenningur neyddist til að horfast í augu við að Líbanon væri kannski ekki svæðisundantekningin sem haldið hafði verið fram.
Ég viðurkenni að sumar hliðstæðurnar sem ég fann voru ef til vill dálítið langsóttar. Sífellt öfgakenndari nágrannaerjurnar í Undir trénu (Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, 2017) minntu mig til dæmis á trúarhópaátökin í Líbanon. Í heimi farandverkamanna og flóttamanna sem af erlendu bergi eru brotnir sem birtist í Andið eðlilega og Tryggð (Ásthildur Kjartansdóttir, 2019), sem og í mansalsglæpamönnunum í Ófærð, fannst mér ég geta greint spegilmynd bágra aðstæðna aðflutta heimaþjónustuvinnuaflsins í Líbanon, kafala-verkafólksins svokallaða. Enn lengra hélt ég meira að segja, ef sprenging var nýafstaðin í Líbanon þá mátti Ísland með reglulegu millibili þola eldgos – eldfjallaeyjueinkennið sem vakti heimsathygli árið 2010 þegar gosið í Eyjafjallajökli stöðvaði flugumferð í Evrópu.
Samhliða því að hugurinn væri sífellt að finna nýjar leiðir til að tengja þessar myndir hamförunum sem ég var að upplifa gerði ég mér grein fyrir því að flóttatilraun mín hefði mistekist og ekki falið í sér neinn raunverulegan flótta. Líkt og ferðalag Fúsa til Egyptalands hafði íslenska þjóðarbíóið á einhvern undarlegan hátt fært mig aftur heim til Beirút. Ég var að horfa á íslenskar kvikmyndir en ég var að hugsa um Líbanon. Þetta þýðir auðvitað ekki að enginn munur sé á löndunum tveimur. Mismunurinn er sannarlega mikill. Búsáhaldabyltingin hafði hrakið stjórnvöld frá völdum á nokkrum mánuðum en ástandið í Líbanon gat ekki verið ólíkara. Hvorki sú staðreynd að milljónir mótmæltu á götum úti né heldur heimsins stærsta ókjarnorkuknúna sprenging voru nóg til að flæma langsetna pólitíska valdamenn þjóðarinnar, sem kenndir eru við sulta, frá kjötkötlunum. Það var afar erfið vegferð í vændum fyrir Líbanon.
En að finna sameiginleg einkenni andspænis mismun er ekki endilega tímasóun. Þar sem ég hugleiddi Ísland fannst mér eins og ég væri að byrja að sjá vandamálin sem steðjuðu að Líbanon með skýrari hætti. Eins átakanleg og hafnarsprengingin var þá var hún líka bara nýjasta hræðilega dæmið um miklu umfangsmeiri samfélagslega og pólitíska bresti. Til að orða það með sem einföldustum hætti þá hefur Líbanon misst fótfestuna. Harmleikjahrinan sem hefur dunið á þjóðinni hefur varpað eins konar lömunartilfinningu yfir þjóðlífið – andrúmsloftið sem hefur skapast gerir fólki sífellt erfiðara fyrir með að sjá handan við martraðarkenndan sjóndeildarhring líðandi stundar. Minn flótti inn í íslenska þjóðarbíóið var ekki aðeins fálmkennt viðbragð við bryggjusvæðissprengingunni heldur var það miklu frekar tilraun til vitsmunalegs flótta frá tilfinningunni um að hafa misst fótfestuna.
Í bókinni Alter-Politics frá 2015 ræðir mannfræðiteóristinn Ghassan Hage einmitt þennan tilvistarsjúkdóm: „Fótfestumissinn“ – yfirgnæfandi tilfinninguna um stöðnun þar sem krísur eru normalíseraðar og fólk upplifir þær sem varanlegt ástand. Í þess háttar nöprum kringumstæðum umbreytist biðin í einu athöfnina sem er möguleg og það að komast í gegnum daginn verður að hetjudáð. Enda þótt Líbanon sé auðvitað ekki eina landið sem orðið hefur þessum sjúkleika að bráð færir Hage rök fyrir því að þar sé að finna skýrasta dæmið um hann. Einkennin sem fylgdu fótfestumissi Líbanons voru meðal annars „samandregið pólitískt ímyndunarafl“ og „vangetan til að upphugsa nýja valkosti“. Þótt nýjar verslunarmiðstöðvar og Starbucks-kaffihús líti reglulega dagsins ljós og séu fagnaðarefni fyrir ferðamennina bera slíkir minnisvarðar um kapítalíska auðsöfnun ekki smyrsl á sárin fyrir meirihluta líbönsku þjóðarinnar og almenningi tekst heldur ekki að dreifa huganum frá hinni fullkomnu stöðnun sem hrjáir öll svið þjóðlífsins – hvort sem litið er til daglegs útsláttar rafmagnskerfisins, vatnsskortsins eða þess að stríðsglæpamenn gærdagsins eru nú á þingi og í forsetahöllinni. „Líbönsk stjórnmál,“ segir Hage, „eru stjórnmál þar sem fólk starir viðstöðulaust ofan í hyldýpið.“ Ef líbanskur almenningur hafði þegar eygt hyldýpið þegar Hage ritaði bók sína fyrir nokkrum árum var um raunverulegt hyldýpi að ræða eftir fjórða ágúst, gíginn við höfnina í Beirút. Ég óttaðist að samandregið pólitískt ímyndunarafl Líbanons hefði skroppið enn frekar saman eftir eyðileggingu sprengingarinnar.
Könnunarleiðangur minn um íslenska þjóðarbíóið á ógnþrungnum tímum færði mér engin vöflulaus svör eða auðveldar lausnir á þeim fjölmörgu alvarlegu vandmálum sem við Líbanon blasa. Í fullri hreinskilni veit ég ekki hvernig Líbanon á að endurheimta fótfestuna – enda þótt vinsælt slagorð mótmælahreyfingarinnar, „kilun yani kilun“ („allir þýðir allir“), sem í fólst krafa um að öllum stelsjúku leiðtogunum í kreddufullu pólitísku kerfi landsins væri sparkað, væri vafalaust góð byrjun.
Að horfa á þessar myndir úr öðrum heimi en finna samt minn eigin heim í þeim minnti mig á að yfirstandandi kreppuástandið, sem við upplifum sem varanlegan hluta af veruleikanum, er í raun bara einn kosturinn af óendanlega mörgum í hafsjó möguleikanna, tilfallandi en ekki óhjákvæmilegur.
Auðvitað geta ekki allir í Líbanon pakkað ofan í tösku og farið. Raunar eiga flestir afar erfitt um vik þegar að slíku kemur vegna vegabréfanna sem fólk á og innanlandsbundinna bankareikninganna. En jafnvel þó að útilokað sé að yfirgefa landið í bókstaflegum skilningi þá þarf takið sem hinn félagslegi og pólitíski veruleiki hefur á okkur ekki endilega að eiga síðasta orðið. Maður þarf ekki að sætta sig við að hafa glatað fótfestunni. Neyðarútgangar eru faldir víðsvegar í heiminum í kringum okkur – hvort sem einstaklingar eða stærri hópar eiga í hlut. Það er ekki endilega auðvelt að uppgötva þessar duldu flóttaleiðir en þær eru til og stundum birtast þær í afskaplega hversdagslegum myndum, jafnvel í einhverju eins einföldu og kúrekahatti. Fúsi fann útgönguleiðina og kannski getum við það líka.
Greinin birtist fyrst í Current Affairs 7. maí 2021.