eftir Guðmund D. Haraldsson
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021
Á undanförnum árum hafa vissar breytingar verið að gerjast í hinum enskumælandi heimi. Í mörgum þessara landa er nú stóraukið óþol gagnvart ójöfnuði en verið hefur og aukinn skilningur á því að hann hefur ýmsar alvarlegar afleiðingar í för með sér.[1] Það eru einmitt hin enskumælandi samfélög sem hafa sætt sig við hvað mesta aukningu á ójöfnuði á undanförnum áratugum, mun meiri en flest Norðurlöndin.[2] Þá hefur verið mjög opinská umræða í mörgum þessara landa um áhrif sérhagsmunaafla á stjórnmálalífið – ekki síst áhrif fjármagnaðra sérhagsmunaafla á aðgerðir ríkisvaldsins sem letja það til aðgerða og breytinga.[3]
Allt er þetta þó enn bara umræða – en opinská umræða er til alls fyrst: Fátt breytist fyrr en viðhorfin hafa breyst. Eitt mál sem hefur náð fótfestu að undanförnu í samfélagsumræðu nokkurra þessara landa er hugmyndin um fjögurra daga vinnuviku,[4] og óhætt er að segja að umræðan um hana hafi stóraukist á undanförnum mánuðum eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á, með hrikalegum afleiðingum fyrir hagkerfi og samfélög. Opinber umræða, sérstaklega í Bretlandi, hefur verið á þessa leið: Við eigum ekki að endurreisa hagkerfið eins og það var fyrir faraldurinn, við eigum ekki að snúa samfélaginu aftur til þess sem var, heldur eigum við að endurhugsa samfélagið okkar, endurhugsa hagkerfið, allt í því augnamiði að snúa ekki aftur til vinnumarkaðar sem einkennist af streitu, kulnun og kvíða, hagkerfis sem einkennist af lélegu jafnvægi vinnu og einkalífs.[5] Með fjögurra daga vinnuviku yrði auðveldara að ná jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Vinnunni sem þarf að vinna mætti dreifa á fleiri hendur og þannig takast á við atvinnuleysi, en fólk fengi þannig meira frí sem nýttist til hvíldar, sem svo aftur yki framleiðni.[6] Þá sé það tímaskekkja að vinna jafn mikið og fólk hefur verið að gera, á tímum þar sem tæknin ætti að geta dregið mikið úr vinnu.
Það er rétt að taka fram að þótt margir tali um fjögurra daga vinnuviku, þá eru þeir sömu oft tilbúnir til að halda í fimm daga vinnuviku en stytta þá einhvern eða alla vinnudagana. Frasinn „fjögurra daga vinnuvika“ er þannig að verða samheiti fyrir styttingu vinnuvikunnar í hinum enskumælandi heimi. Þetta er samt ekki algilt.
En skoðum aðeins hvað hefur verið að gerast. Hvaða hópar eru það sem hafa verið að tala um styttingu vinnuvikunnar og af hverju? Hvað má læra af umræðunni?
Bretland
Mestur hluti fréttaflutnings af fjögurra daga vinnuviku á undanförnum árum, í hinum enskumælandi samfélögum, hefur komið frá Bretlandi. Þar í landi var það beinlínis stefna Verkamannaflokksins fyrir síðustu þingkosningar að stytta vinnuvikuna í 32 stundir á næsta áratugnum.[7] Þetta vakti auðvitað mikla athygli, enda nánast aldrei minnst á grundvallaratriði eins og lengd vinnuvikunnar í breskum stjórnmálum.
Ástæðan fyrir þessari áherslubreytingu flokksins var sú að með nýrri forystu, með Jeremy Corbyn í fararbroddi – forystu sem nú er að vísu búið að fleygja úr brúnni – tókst að endurnýja tengslin við verkalýðsfélög landsins og ýmis almannaheillafélög. Og forystan var tilbúin til að hlusta. Áður höfðu ýmis stéttarfélög fært rök fyrir styttingu vinnuvikunnar, t.d. Trades Union Congress[8] og Communication Workers Union[9] – auk þess sem hugveitur á vinstri vængnum fjölluðu um hugmyndina á greinargóðan hátt, einkum Autonomy[10] og New Economics Foundation.[11] Allt þetta gerði að verkum að flokkurinn var reiðubúinn til að taka upp þessa stefnu, stjórnmálamennirnir höfðu sannfærst um gildi minni vinnu.
Verkamannaflokkurinn tapaði þingkosningunum, aðallega vegna afstöðu sinnar til útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.[12] Íhaldsflokkurinn hélt völdum, um sinn í það minnsta. En svo skall heimsfaraldurinn á. Á örfáum vikum misstu milljónir manna vinnuna og því er nú spáð að hagkerfi landsins skreppi saman,[13] eins og víða annars staðar.[14] Kreppa er í aðsigi. Með faraldrinum kynntust jafnframt milljónir vinnandi fólks því skyndilega að vinna heima hjá sér [15] – í Bretlandi var mjög lítil menning fyrir fjarvinnu áður en faraldurinn skall á, enn minni en á Íslandi – og þurfa því ekki að skrölta á skrifstofuna á hverjum virkum degi, til þess eins að sitja þar við tölvu í yfirfullum sal af fólki. Margir urðu að draga úr vinnustundum – og kynntust þannig kostum þess að vinna minna, þótt aðstæður væru ekkert til að hrópa húrra fyrir og enginn hefði viljað að nokkuð af þessu tagi hefði gerst.
Líkt og nauðsynlegt er á tímum mikillar krísu tóku margir við sér – stjórnmálamenn, fræðimenn, félagasamtök – og hófu að hugsa um næstu skref í efnahagslífinu, hvað ætti að taka við af öllum þeim bráðaviðbrögðum sem höfðu verið sett í framkvæmd, hvaða stefnu ætti að ýta undir í hagkerfinu. Margir hafa eflaust haft vandlega á bak við eyrað að hvað svo sem yrði gert, þá yrði að hafa í huga loftslagsbreytingar – sem nær allir taka alvarlega í Bretlandi, líka stjórnmálamenn; og að ekki væri verra ef hægt yrði að auka framleiðni aðeins – nokkuð sem fær reglulega athygli í breskum stjórnmálum; og jafnvel taka á jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Þannig lifði hugmyndin um styttingu vinnuvikunnar þrátt fyrir breytta forystu í Verkamannaflokknum og ósigur hans í kosningunum.
Í Skotlandi var ákveðið fyrir nokkru að koma upp framtíðarnefnd, sem er rekin á vegum Hins konunglega fræðasamfélags í Edinborg (The Royal Society of Edinburgh), en markmið hennar er að móta stefnu um það hvernig Skotland ætlar að taka á afleiðingum faraldursins, og eitt af því sem á að skoða af fullri alvöru, að sögn formanns nefndarinnar, er fjögurra daga vinnuvika.[16] Nefndin er sjálfstæð og ekki skipuð stjórnmálamönnum en fyrsti ráðherra landsins, Nicola Sturgeon, hefur einnig talað um það sjálf af alvöru að fjögurra daga vinnuvika sé eitthvað sem verði að skoða.[17] Það gangi ekki upp að endurreisa hagkerfið eins og það var – breytingar séu nauðsynlegar. Var jafnvægi vinnu og einkalífs nefnt sérstaklega í því samhengi. Þá samþykkti flokksþing Skoska þjóðarflokksins – flokks fyrsta ráðherrans – í nóvember síðastliðnum ályktun um fjögurra daga vinnuviku og að ríkisstjórn Skotlands skoði möguleikann á styttingu vinnuvikunnar.[18]
Frá Wales berast einnig fréttir af eins konar framtíðastofnun sem meðal annars muni skoða möguleikann á fjögurra daga vinnuviku[19] – og þar heyrast aftur þau rök að ekki gangi að endurreisa hagkerfið í sömu mynd og fyrir faraldurinn. Hlutirnir verði að breytast.
Í Englandi gerðist það svo fyrir nokkrum mánuðum að lögð var fyrir þingið í Westminster – sameiginlegt þing Bretlands og jafnframt þing Englands – þingsályktunartillaga um fjögurra daga vinnuviku.[20] Tillagan er einföld: Skorað er á þingið að viðurkenna að fjögurra daga vinnuvika sé ein leið til að kljást við þá krísu sem kórónuveirufaraldurinn skapaði, m.a. atvinnuleysið, að breytingar hafi þegar orðið á vinnu fólks vegna faraldursins, að stytting vinnuvikunnar hafi áður verið nýtt til að takast á við atvinnuleysi, og að lokum er ríkisstjórnin hvött til að setja á stofn svipaða nefnd og í Skotlandi.
Litlar líkur eru til þess að þingsályktunartillagan verði rædd, rétt eins og eru raunar örlög flestra þingsályktunartillagna í Bretlandi (og á Íslandi). Að tillagan hafi verið sett fram er þó til marks um að einhverjir þingmenn í það minnsta séu farnir að taka hugmyndina alvarlega, að þeir telji að stytting vinnuvikunnar sé hugmynd sem vert sé að skoða og geti hjálpað við að takast á við eftirköst faraldursins.
Vísir að breyttu hugarfari sést meira að segja meðal hægrimanna þar í landi. Fyrir stuttu birtist áhugaverður pistill í tímaritinu The Spectator, einu elsta vikublaði heims, sem eitt sinn var ritstýrt af Boris Johnson, sem nú er forsætisráðherra Bretlands, og þykir heldur íhaldssamt. Titill pistilsins er einfaldur: „Af hverju íhaldsmenn ættu að styðja fjögurra daga vinnuviku“.[21] Höfundurinn færir nokkur einföld rök fyrir afstöðu sinni: 1) Það þarf að dreifa vinnunni á fleiri hendur og draga þannig úr atvinnuleysi, nokkuð sem þingsályktunartillagan gengur einnig út á; 2) styttri vinnuvika geti bætt geðheilsu vinnandi fólks, fólk sé hreinlega á þönum alla daga með tilheyrandi streitu; 3) fleiri myndu ferðast innan Bretlands ef af yrði; 4) þetta sé vinsælt mál; og 5) það sé ekki í þágu nokkurs að snúa aftur til streitu- og kvíðasamfélagsins sem var fyrir faraldurinn, slíkt gagnist ekki einu sinni hagkerfinu. Stytting vinnuvikunnar geti gagnast öllum til að lifa betra lífi, líka atvinnurekendum, að sögn höfundar pistilsins.
Það hlýtur að teljast áhugavert að grein birtist í íhaldssömu riti sem hvetji íhaldsmenn til að styðja mál sem sögulega hefur mest verið tengt við vinstristefnu. Kannski er það til marks um að hægrið geti fellt sig við hugmyndina um að vinna minna? Kannski þurfi bara réttu rökin og formerkin til?
Loks ber að nefna að nú nýverið var gerð skoðanakönnun í Bretlandi þar sem stuðningur almennings við fjögurra daga vinnuviku var kannaður.[22] Þar kom í ljós að mikill meirihluti landsmanna, 63%, styður að ríkisstjórnin skoði innleiðingu fjögurra daga vinnuviku, en lítill minnihluti, 12%, er á móti. Meira að segja meirihluti kjósenda Íhaldsflokksins styður
hugmyndina og auðvitað meirihluti kjósenda Verkamannaflokksins.
Það er því útlit fyrir að þetta sé mál sem bæði íhaldið og Verkamannaflokkurinn geti stutt. Það eru tíðindi. Eftir stendur spurningin um hvað atvinnurekendur segja um þessa hugmynd, sem og fulltrúar sérhagsmunasamtaka, sem hafa sterk ítök í breskum stjórnmálum. Í það minnsta er útlit fyrir að viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað um þessar mundir. Það líklega þrennu að þakka: 1) Fólk sér að það gengur ekki að halda áfram á sömu braut og fyrir faraldurinn; 2) tilraunir fyrirtækja til styttingar vinnuvikunnar hafa vakið athygli; og 3) stéttarfélög og hugveitur hafa vakið athygli á málefninu.
Í nóvember síðastliðnum kom svo út í Bretlandi bók eftir nokkra starfsmenn New Economics Foundation sem ber einfaldlega heitið The Case for a Four-Day Week og færir hún rök fyrir styttingu vinnuvikunnar, eins og titillinn ber með sér.[23]
Kanada
Víkur nú sögunni vestur um haf, til Kanada, en þaðan hafa nýlega borist tvenn tíðindi sem eru áhugaverð í þessu sambandi. Nýleg skoðanakönnun sýndi að 53% landsmanna vilja 30 stunda vinnuviku en aðeins 22% eru andvíg henni.[24] Þarna er viss samhljómur við skoðanakönnunina sem var gerð í Bretlandi. Í sambærilegri könnun frá 2018 var stuðningurinn minni (47%), en þá sögðust jafnframt 68% landsmanna vilja fjögurra daga vinnuviku, þar sem hver vinnudagur væri 10 stundir, ef ekki væri hægt að stytta vinnuvikuna í 30 stundir.[25]
Það kemur kannski ekki á óvart að almenningur hafi mikinn áhuga á að fækka vinnustundum – oft hefur almenningur áhuga á málum sem stjórnmálamenn, hagsmunasamtök og hagfræðingar telja „ómöguleg“ af ýmsum misgáfulegum ástæðum – en nú ber svo við að hægrimenn stökkva inn í umræðuna og styðja hugmyndina: Um er að ræða hagfræðinga frá Fraser-hugveitunni,[26] sem er íhaldssöm og talin heldur höll undir frjálshyggju – engin vinstrimennska þar á ferðinni. Hagfræðingarnir töldu styttingu vinnuvikunnar í fjóra daga vel mögulega í Kanada. Svo einfalt var það nú.
Vanalega eru það einmitt hugveitur af þessu taginu sem reyna að stoppa alls konar umbótamál en nú bregður svo við að stuðningur er fyrir mjög mikilvægu umbótamáli frá slíkri hugveitu. Kannski hefur hugarfarsbreytingin líka náð til Kanada? Kannski hafa hagfræðingar tekið eftir umræðunni og velt hugmyndinni fyrir sér?
Nýja-Sjáland
Ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur undanfarin ár einsett sér að taka á mörgum vandamálum sem hafa plagað landsmenn, svo sem húsnæðiskrísu, félagslegri mismunun af ýmsu tagi og ójöfnuði, svo fátt eitt sé nefnt. Í kjölfar heimsfaraldursins stakk forsætisráðherrann, Jacinda Ardern, upp á fjögurra daga vinnuviku til að takast á við efnahagslegar afleiðingar faraldursins.[27] Hugmyndin var að stjórnendur fyrirtækja og starfsmenn tækju upp hjá sjálfum sér að stytta vinnuvikuna, en ekki virðist liggja að baki þessu vilji til að nota ríkisvaldið til að knýja fram breytingar – hugmyndinni var þó tekið fagnandi af samfélaginu.
Forsætisráðherrann þurfti ekki að leita langt til að finna ágæta fyrirmynd að því hvernig fara ætti að, því ötull atvinnurekandi, Andrew Barnes að nafni, hefur að undanförnu fært rök fyrir styttingu vinnuvikunnar eftir að hafa gert tilraun með hana í sínu eigin fyrirtæki, Perpetual Guardian.[28] Þessi tilraun lukkaðist svo vel að fjögurra daga vinnuvika – 30 stundir á viku, 7,5 stundir á dag – var tekin upp í öllu fyrirtækinu og tilraunin því ekki lengur tilraun. Styttingin var gerð án breytinga á launum. Sannfæring Andrews er einföld: Átta tíma vinnudagur, fimm daga vikunnar, er 19. aldar fyrirbæri, arfleifð þess tíma er velflestir störfuðu í verksmiðjum í efnuðum ríkjum, en alger tímaskekkja á 21. öldinni þegar verksmiðjustarfsemi er fyrirferðarlítil en þjónusta er allsráðandi.
Og fyrirtækin prófa sig áfram
Það er áberandi í þessari umræðu að enginn stjórnmálamaður sem hefur völdin, allt frá Nýja-Sjálandi til Bretlands og þaðan til Kanada, vill nota ríkisvaldið til að fækka vinnustundum, heldur eiga fyrirtækin að þeirra mati, að finna hjá sér sjálfum viljann að stytta vinnuvikuna. Ekki einu sinni stjórnmálamenn á vinstri vængnum vilja notfæra sér vald ríkisins í þessum efnum. Þetta er til marks um hve rótföst frjálshyggjan er enn í stjórnmálalífi margra landa, sérstaklega þeim enskumælandi.
Einhver fyrirtæki hafa þó tekið við sér og prófað sig áfram með að stytta vinnuvikuna, allt frá Nýja-Sjálandi til Íslands. Fyrst ber að nefna Perpetual Guardian, sem áður var fjallað um, en það dæmi er raunar þekkt um allan heim.[29] Téður Andrew, eigandi fyrirtækisins, hefur sjálfur gert allnokkuð til að hreyfa við hugmyndinni og meðal annars sett á laggirnar átak sem er einfaldlega kallað 4 Day Week Global.[30] Það er ekki síst athyglisvert fyrir þær sakir að maðurinn er milljarðamæringur – almennt ekki sá flokkur fólks sem heldur á lofti kröfunni um styttingu vinnuvikunnar.
Í Danmörku hefur tæknifyrirtækið IHH Nordic prófað sig áfram með fjögurra daga vinnuviku.[31] Þar, eins og hjá Perpetual Guardian, hefur reksturinn gengið vel eftir að styttingin var innleidd. Rétt er að taka fram að bæði fyrirtækin styttu vinnuvikuna án launaskerðingar, og án þess að vinnudagarnir fjórir væru lengdir. Vinnuvikan fór í 30 stundir (7,5 stundir hver dagur).
Á Íslandi hefur að minnsta kosti eitt fyrirtæki prófað sig áfram með styttingu vinnuvikunnar, Hugsmiðjan, en þar var hver virkur vinnudagur styttur í 6 klukkustundir og vinnuvikan varð því 30 stundir (5 daga vinnuvika). Það gafst mjög vel, því jafnvægi milli vinnu og einkalífs batnaði, veikindadögum fækkaði og ánægja og framleiðni jukust.[32] Fleiri fyrirtæki hafa prófað sig áfram með styttingu.[33]
Sömu sögu er að segja af ýmsum fyrirtækjum í Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Noregi,[34] og þá hafa rannsóknir á vegum viðskiptaskóla í Bretlandi, Henley Business School, leitt í ljós að fyrirtæki sem stytta vinnuvikuna fyrir starfsmenn sína hafa af því ábata, svo sem í formi færri veikindadaga, meiri starfsánægju, minni streitu og lengri starfsaldurs starfsfólks.[35] Rannsóknirnar leiða einnig í ljós viðhorfsbreytingar sem hafa þegar átt sér stað innan fyrirtækja: Fleiri stjórnendur og atvinnurekendur álíta nú en áður að sveigjanlegur vinnutími og skemmri vinnuvika séu mikilvæg til að fyrirtæki geti þrifist í viðskiptaumhverfi samtímans.
Ljóst er af fyrrgreindu að stjórnendur allmargra fyrirtækja hafa áttað sig á kostum styttri vinnuviku, en vandséð er hvernig til komi víðtæk stytting vinnuvikunnar, nema með hvötum og/ eða löggjöf, sem hvetja (eða neyða) einkafyrirtækin og opinberar stofnanir til breytinga og góðra verka. Höfum í huga að dæmin um fyrirtæki sem taka upp á því sjálf að stytta vinnuvikuna fyrir sína starfsmenn eru nefnilega enn sem komið er tiltölulega fá.
Um stöðuna á Íslandi
Hér hefur aðallega verið fjallað um nýlega[36] umræðu um styttingu vinnuvikunnar í nokkrum enskumælandi löndum. En vissulega er líf að færast í umræðuna um skemmri vinnuviku annars staðar, meðal annars á Íslandi, en sá sem hér heldur á penna hefur meðal annars tekið þátt í þeirri umræðu.[37]
Segja má að þunginn í umræðunni á Íslandi hafi byrjað fyrr en í hinum enskumælandi löndum og hafi verið á eilítið öðrum forsendum: Á Íslandi hefur umræðan ekki snúist um fjögurra daga vinnuviku heldur styttingu vinnuvikunnar – en í þessu liggur viss áherslumunur: Umræða um fjögurra daga vinnuviku vekur væntingar um mikið breytt mynstur vinnu og einkalífs, því þriggja daga helgi og fjögurra daga vinnuvika er auðvitað mikil breyting frá tveggja daga helgi og fimm daga vinnuviku. Stytting án þess að tilgreint sé hvernig hún verður útfærð vekur aftur á móti væntingar um að hver vinnudagur styttist eða sumir dagar, einnig að hægt sé að taka styttinguna sjaldnar, til dæmis mánaðarlega. Þá hófst umræðan á Íslandi löngu fyrir kórónuveirufaraldurinn og hefur enn sem komið er ekki verið sett í samhengi við afleiðingar hans, eins og gert hefur verið í Bretlandi. Þá hefur umræðan á Íslandi að mjög miklu leyti snúist um að auka framleiðni, til að geta unnið minna sem og að framleiðni aukist við að vinna minna, en í samfélagsumræðu enskumælandi heimsins hefur áherslan ekki snúist að eins miklu leyti um þetta atriði.
Á Íslandi hefur umræðan um styttingu vinnuvikunnar nokkrum sinnum komið til kasta þjóðþingsins, líklega oftar en í hinum enskumælandi löndum. Alls hafa fjögur lagafrumvörp verið lögð fram um málefnið á Alþingi, fyrst árið 2014, aftur 2015 og tvisvar á árinu 2018 (á sitthvoru þinginu).[38] Öll hafa þau fjallað um breytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku,[39] sem ákvarða eins konar grunnramma um lengd vinnuvikunnar hér á landi, og lagt til að þar verði í staðinn miðað við 35 stundir. Ekkert frumvarpanna náði fram að ganga og hafa jafnvel sum sambönd stéttarfélaga veitt neikvæðar umsagnir um þau, þótt það reyndar hafi breyst og síðari umsagnir orðið jákvæðari, væntanlega með nýju fólki við stjórnvölinn og breyttum hugmyndastraumum í samfélaginu almennt.[40] Umræðurnar á Alþingi leiddu aldrei til niðurstöðu og var mikið álitamál meðal þingmanna um hvort þingið og þar með löggjafinn ætti yfir höfuð að skipta sér af vinnustundum, og mat margra þingmanna að slíkt ætti að vera samningsatriði milli launþega og viðsemjenda þeirra.[41] Það er raunar nú orðið sígilt umræðuefni hvort málefni eins og þessi séu viðfangsefni laganna, allt frá þeim tíma þegar vökulögin svonefndu voru sett á fyrri hluta 20. aldar[42] og síðar þegar heildarlöggjöf um 40 stunda vinnuviku voru sett[43] – ávallt hefur verið tekist á um þetta atriði, en niðurstaðan hefur iðulega verið – eftir mikið jaml, japl og fuður – að Alþingi setur lög sem setja fólki og fyrirtækjum skorður, eins og það gerir raunar í ýmsum öðrum málaflokkum (t.d. um aðbúnað á vinnustöðum, fjármál, úrgang og matvælavinnslu).
En jafnvel þótt ekki hafi náðst samstaða innan Alþingis og frumvörpin ekki verið samþykkt, þá hafa vissir hlutir gerst: Í fyrsta lagi hafa verið gerðar víðtækar tilraunir um styttingu vinnuvikunnar. Í öðru lagi hafa stéttarfélögin og sambönd þeirra samið um styttri vinnuviku fyrir sína umbjóðendur við atvinnurekendur í gegnum kjarasamninga.
Tilraunaverkefnin voru tvö og hvatti BSRB, heildarsamtök stéttarfélaga í almannaþjónustu, til þeirra beggja: Annars vegar var um að ræða verkefni hjá Reykjavíkurborg, sem samþykkt var árið 2014 í borgarstjórn Reykjavíkur, og stóð frá 2015 til 2019.[44] Í fyrstu tóku 66 starfsmenn á tveimur starfsstöðvum þátt en að lokum voru það um 2500 manns á um hundrað starfsstöðvum. Starfsstaðirnir voru fjölbreyttir, allt frá þjónustumiðstöðvum, skrifstofum og leikskólum til viðhaldsmiðstöðva, sorphirðu og dagþjónustu. Hins vegar um að ræða tilraunaverkefni á starfsstöðvum hjá ríkinu sem samþykkt var árið 2015 og stóð frá 2017 til 2019.[45] Í upphafi tóku um 440 manns þátt og fjölgaði þegar á leið. Starfsstöðvarnar voru meðal annars skrifstofur, lögreglustöð og deild á sjúkrahúsi. Tilraunaverkefnin gengu vel og mældist meðal annars aukin starfsánægja meðal starfsfólks sem tók þátt, aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs, en einnig jókst framleiðni og öllum verkefnum var sinnt þrátt fyrir skemmri vinnutíma. Var áberandi ánægja með tilraunaverkefnin sem bæði stjórnendur og almennir starfsmenn tóku þátt í.[46] Rannsókn meðal stjórnenda hjá Reykjavíkurborg gaf til kynna ánægju með tilraunaverkefnið sem þar var rekið.[47]
Rétt er að geta þess að stytting vinnuvikunnar var mál sem BSRB beitti sér fyrir í samfélagsumræðunni og voru tilraunaverkefnin liður í baráttu samtakanna. Ástæða kröfunnar var að BSRB vildi tryggja félagsmönnum sínum meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs, betri lífsgæði, sem og að tryggja fólki sem vinnur vaktavinnu meiri hvíld.[48] Þá er einnig rétt að geta þess að fleiri lögðu sitt lóð á vogarskálarnar: Á vegum Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, voru skrifaðir margir pistlar og færð rök fyrir styttingu vinnuvikunnar. Alda stóð einnig fyrir málþingi í janúar 2019 sem ASÍ, BSRB, VR og BHM styrktu og tóku þátt í ásamt fleirum.[49] Ýmsir aðrir tóku líka þátt, félög og einstaklingar. Allt þetta hjálpaði til og ýtti við umræðunni.
Líklega má þakka tilraunaverkefnunum að kjarasamningar gengu í gegn árin 2019 og 2020 sem tryggðu meginþorra vinnandi fólks á Íslandi styttri vinnuviku, í meiri eða minni mæli. Þá höfðu tilraunaverkefnin sannað gildi sitt og sýnt fram á að stytting vinnuvikunnar er gerleg, enda náðu þau til fjölmargra starfsmanna á fjölbreyttum vinnustöðum. Var styttingin mismunandi mikil milli félaga og samninga, allt frá 45 mínútum á viku upp í fjórar til átta stundir á viku.[50] Lykilatriði í mörgum þessum samningum er að styttinguna má nýta á þann hátt sem hentar hverjum starfsstað fyrir sig, og er stafsmönnum uppálagt að útbúa áætlanir um hvernig útfæra eigi styttinguna, sem þeir og stjórnendur þurfa að samþykkja. Þó tryggja margir samningar styttingu þótt svo ekkert slíkt samkomulag hafi verið gert.
Líklega má segja að stytting vinnuvikunnar hafi orðið að veruleika á Íslandi vegna þess að margt kom saman: Umræða á vegum frjálsra félagasamtaka og stjórnmálamanna, þrýstingur stéttarfélaga, áhugi einkafyrirtækja sem reyndu sjálf styttingu, vel skipulögð tilraunaverkefni sem vöktu athygli og almennur samhljómur í samfélaginu sem af þessu skapaðist. Helsta spurningin nú er hvort Alþingi fylgi þessum samningum eftir á næstu árum með lögum um 35 stunda vinnuviku.
Lærdómur dreginn
Að lokum er kannski rétt að spyrja sig að tvennu: Af hverju kemur þrýstingurinn á þetta tiltekna mál fram núna? Og hvað er það sem sameinar fólk um málefnið?
Þrýstingurinn kemur fram núna vegna þess að víða um heim er fólk búið að átta sig á því að undirrót streitu, undirrót skorts á jafnvægi milli vinnu og einkalífs og orsök kvíða felst að einhverju leyti í vinnunni og þeim kröfum sem hún gerir til okkar: Ekki er einungis ætlast til þess að helmingi vökustunda okkar (eða meira) sé varið til vinnu alla virka daga, heldur bætast þar ofan á ferðalög til og frá vinnustaðnum, sem og truflanir vegna vinnunnar þegar heim er komið. Stundum getur þetta mynstur orsakað kulnun með tímanum, auk þess að kalla fram ýmsar geðraskanir og líkamlega sjúkdóma og kvilla af ýmsu tagi.[51] Mannskepnan höndlar illa streitu til langs tíma, það er vel þekkt.
En fleira kemur til, því margir sem láta sig samfélagsmál varða hafa áttað sig á því að við verðum að breyta hegðun okkar, sem samfélag – og ekki bara vestræn samfélög, heldur öll ríku samfélögin á jörðinni – ef við ætlum að takast á við aðkallandi loftslagsbreytingar,[52] ofnotkun auðlinda[53] og hrun vistkerfa.[54]
Ein af aðalorsökum hvors tveggja eru mannlegar athafnir á jörðinni, ekki síst atvinnustarfsemi af öllu tagi. Lykillinn að baki hugsun þessa fólks er ekki að við verðum að hætta allri atvinnustarfsemi, alls ekki – heldur að við þurfum að breyta því lífsmynstri sem við erum í, og meðal annars endurskoða hugmyndir okkar um tilgang atvinnu
og sífellt umsvifameiri atvinnustarfsemi (sem kallað er hagvöxtur).[55] Við eigum að nýta tæknina til að auðvelda okkur lífið, við eigum að notast við markaðshagkerfið en við verðum að láta af því að auka sífellt umfang atvinnustarfsemi í ríkum löndum í blindni.[56] Við eigum að stefna í átt að minni neyslu og meiri frítíma, en nýta til þess þekkinguna sem við höfum, tæknina og stjórnmálin.
Það sem ýtir enn frekar við fólki einmitt um þessar mundir eru efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins: Núna stöndum við frammi fyrir því að hagkerfi alls heimsins hafa orðið fyrir áfalli og margir vilja forðast að endurtaka sömu mistök og frá síðustu efnahagsþrengingum, 2008–2010, þegar efnahagskerfið var endurreist án breytinga. Stytting vinnuvikunnar er bara eitt atriði af mörgum sem vinna þarf í. Þá hefur áhrif að stjórnendur fyrirtækja og launþegar hafa áttað sig á kostum skemmri vinnuviku, ekki eingöngu fyrir launþega heldur einnig fyrirtækin, eins og kemur fram í rannsóknum Henley Business School sem reifaðar voru að framan.
Margt af framangreindu á einnig við um íslenskt samfélag, en hér á landi hefur átt sér stað umræða um loftslagsbreytingar, auðlindamál og hvort öll sú neysla sem við stundum sé nauðsynleg.[57]
Og þá snúum við okkur að seinni spurningunni. Eitt það áhugaverðasta við þróunina í hinum enskumælandi heimi er að leitast hefur verið við að sameina marga ólíka hópa í kringum þetta mál, styttingu vinnuvikunnar. Það eru ekki eingöngu stjórnmálamenn á vinstri vængnum sem halda málefninu á lofti, og ekki bara stéttarfélög – einmitt þeir hópar sem maður myndi búast við að hvettu til styttri vinnuviku – heldur einnig hægrisinnaðar hugveitur, fyrirtækjaeigendur og álitsgjafar á hægri væng stjórnmálanna. Þá er mikill áhugi meðal almennings. Enn hefur ekki myndast breiðfylking um málið en með þessu áframhaldi mun það takast, enda er hér um að ræða málefni sem nær allir ættu að geta fellt sig við: Að gera fólki kleift að njóta meira frelsis um hvernig það ver vökustundum sínum í þessu lífi, og nýta í því skyni þá miklu tækniþróun sem hefur átt sér stað frá fyrstu iðnbyltingunni. Það er til mikils að vinna.
Af þessu öllu má draga svolítinn lærdóm: Þeir ólíku hópar sem hafa nú sameinast um kröfuna um styttingu vinnuvikunnar, hvort sem er í Bretlandi eða Nýja-Sjálandi, nota ekki alltaf sömu rökin fyrir afstöðu sinni, þótt vissar meginlínur megi finna í málflutningi þeirra. Flestir láta sig varða jafnvægi milli vinnu og einkalífs og vilja styttri vinnuviku þess vegna, sumir gera það af umhverfisástæðum, aðrir vegna þess að þeir telja styttinguna skipta máli vegna aukins frelsis, enn aðrir vegna þess að þeir telja að skemmri vinnuvika geti ýtt undir framleiðni. Margir telja að stytting vinnuvikunnar geti verið góð fyrir fyrirtækin. Rökin eru mismunandi og misjafnt hvað býr að baki, en þannig eru stjórnmál og þannig er einfaldlega mannskepnan: Við erum oft sammála um eitthvað en af ólíkum ástæðum. Lærdómurinn, einkum fyrir vinstrisinnaðar hreyfingar, er að átta sig á því að hlutirnir taka að breytast þegar margir ólíkir hópar sameinast um þá.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga núna þegar miklir umbrotatímar eru fram undan og ljóst að mjög margt verður að breytast í heiminum. Við verðum, í stjórnmálunum, að reyna að ná samstöðu um mörg mál og það gerum við með því að færa fyrir þeim ólík rök og vekja athygli á þeim meðal ólíkra hópa. Þannig næst árangur.
Tilvísanir
[1] Mótmælin í Bandaríkjunum sumarið 2020 áttu sér stað meðal annars vegna þess að fólk er ósátt við hinn mikla efnahagslega ójöfnuð sem er í Bandaríkjunum. Occupy–hreyfingin svonefnda spratt fram af sömu orsökum að miklu leyti. Sjá til dæmis Belam, M. (20. júlí 2020). „Thousands of American workers strike in protest over racial inequality“. The Guardian. https://www.theguardian.com/us-news/2020/jul/20/strike-for-black-lives-thousands-racial-inequality. – Almennt um áhrif ójöfnuðar má lesa t.d. í skrifum Wilkinson og Pickett: Wilkinson, R. og Pickett, K. (2009/2010). The Spirit Level. Why Greater Equality Makes Societies Stronger. New York: Bloomsbury Press; Wilkinson, R. og Pickett, K. (2018). The Inner Level: How More Equal Societies Reduce Stress, Restore Sanity and Improve Everyone’s Well-Being. London: Penguin.
[2] Sjá Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson (2017). Ójöfnuður á Íslandi. Reykjavík: Háskólaútgáfan – einkum bls. 63–65.
[3] Sjá t.d. Pegg, D. og Evans, R. (10. október 2019). „Revealed: top UK thinktank spent decades undermining climate science“. The Guardian. https://www.theguardian.com/environment/2019/oct/10/thinktank-climate-science-institute-economic-affairs. – Sjá einnig greinaröð í hinu breska The Guardian sem ber heitið „The Polluters“. https://www.theguardian.com/environment/series/the-polluters.
[4] Sjá t.d. Barnes, A. og Jones, S. (2020). The 4 Day Week: How the Flexible Work Revolution Can Increase Productivity, Profitability and Well-being, and Create a Sustainable Future. London: Piatkus. – Sjá einnig Autonomy (janúar 2019). The Shorter Working Week: A Radical and Pragmatic Proposal. Stronge, W. og Harper, A. (ritstj.). http://autonomy.work/wp-content/uploads/2019/03/Shorter-working-week-docV6.pdf. – Sjá svo og vefsíður 4 Day Week Global-samtakanna (https://4dayweek.com/) og samtakanna 4 Day Week UK (https://www.4dayweek.co.uk/). – Sjá loks: Coote, A., Harper, A. og Stirling, A. (2020). The Case for a Four-Day Week. London: Polity Press.
[5] Sjá til dæmis: McLaughlin, C. (9. ágúst 2020). „Four-day working week could help to prevent family breakdowns, campaigners say“. Mirror. https://www.mirror.co.uk/news/politics/four-day-working-week-could-22492378; Pearson, V. (13. júlí 2020). „The four-day working week is back on the agenda. I’ve done it for years: here’s what I learned“. The Guardian. https://www.theguardian.com/commentisfree/2020/jul/13/the-four-day-working-week-is-back-on-the-agenda-ive-done-it-for-years-heres-what-i-learned; Hayward, M. (5. ágúst 2020). „Why Bertrand Russell’s argument for idleness is more relevant than ever“. New Statesman. https://www.newstatesman.com/2020/08/why-bertrand-russells-argument-idleness-more-relevant-ever; og Bernal, N. (7. september 2020). „Coronavirus has shown why we need a four-day working week“. Wired. https://www.wired.co.uk/article/four-day-week-coronavirus. – Sjá einnig vefsíðu 4 Day Week í Bretlandi (https://www.4dayweek.co.uk/).
[6] Sjá til dæmis nýlega skýrslu: Autonomy (ágúst 2020). Public Sector as Pioneer: Shorter Working Weeks as the New Gold Standard. https://autonomy.work/wp-content/uploads/2020/08/Public-Sector-as-Pioneer-2.pdf.
[7] Verkamannaflokkurinn (23. september 2019). „McDonnell commits Labour to shorter working week and expanded free public services as part of Labour’s vision for a new society“. https://labour.org.uk/press/mcdonnell-commits-labour-shorter-working-week-expanded-free-public-services-part-labours-vision-new-society/. – Sjá einnig: Elliott, L. (23. september 2019). „John McDonnell pledges shorter working week and no loss of pay“. The Guardian. https://www.theguardian.com/politics/2019/sep/23/john-mcdonnell-pledges-shorter-working-week-and-no-loss-of-pay.
[8] Sjá sem dæmi Trades Union Congress (2018). A Future That Works for Working People. London: Trades Union Congress. https://www.tuc.org.uk/sites/default/files/FutureofWorkReport1.pdf.
[9] CWU – The Communications Union (e.d.). Four Pillars of Security and Pay – National Agreement. https://www.cwu.org/wp-content/uploads/2018/03/0555118-royal-mail-national-consultative-ballot-low-res.pdf.
[10] Sjá Autonomy (janúar 2019) (amgr. 5).
[11] New Economics Foundation (febrúar 2010). 21 Hours: Why a Shorter Working Week Can Help Us All to Flourish in the 21st Century. Coote, A., Franklin, J. og Simms, A. (ritstj.). London: New Economics Foundation. https://neweconomics.org/uploads/files/f49406d81b9ed9c977_p1m6ibgje.pdf.
[12] Þessi fullyrðing er ekki óumdeild en líklega sú sem oftast er haldið á lofti. Sjá t.d. Stewart, H. (21. janúar 2020). „’Crushed by Brexit’: how Labour lost the election“. The Guardian. https://www.theguardian.com/politics/2020/jan/21/crushed-by-brexit-how-labour-lost-the-election.
[13] Partington, R. (12. ágúst 2020). „Covid-19: UK economy plunges into deepest recession since records began“. The Guardian. https://www.theguardian.com/business/2020/aug/12/uk-economy-covid-19-plunges-into-deepest-slump-in-history.
[14] The World Bank (8. júní 2020). COVID-19 to Plunge Global Economy into Worst Recession since World War II. https://www.worldbank.org/en/news/press-release/2020/06/08/covid-19-to-plunge-global-economy-into-worst-recession-since-world-war-ii.
[15] Í ágúst 2020 unnu um 36% allra starfandi í Bretlandi í fjarvinnu. Sjá Office for National Statistics (10. september 2020). Coronavirus and the Latest Indicators for the UK Economy and Society: 10 September 2020. https://www.ons.gov.uk/peoplepopulationandcommunity/healthandsocialcare/conditionsanddiseases/bulletins/coronavirustheukeconomyandsocietyfasterindicators/10september2020.
[16] The Royal Society of Edinburgh (maí 2020). RSE Post-Covid-19 Futures Commission. https://www.rse.org.uk/inquiries/rse-post-covid-19-futures-commission.
[17] Bol, D. (21. maí 2020). „Coronavirus: Nicola Sturgeon: Businesses should ’embrace’ four-day week as lockdown eased“. The Herald. https://www.heraldscotland.com/news/18466855.coronavirus-nicola-sturgeon-businesses-embrace-four-day-week-lockdown-eased.
[18] Marlborough, C. (1. desember 2020). „SNP Conference overwhelmingly backs motion to explore four-day working week“. The Scotsman. https://www.scotsman.com/news/politics/snp-conference-overwhelmingly-backs-motion-explore-four-day-working-week-3053164.
[19] Future Generations Commissioner for Wales (13. maí 2020). Urgent Universal Basic Income, a Four-Day Week and a Well-Being Economy – Future Generations Commissioner’s Plan to Reshape Wales after Coronavirus. https://www.futuregenerations.wales/news/urgent-universal-basic-income-a-four-day-week-and-a-wellbeing-economy-future-generations-commissioners-plan-to-reshape-wales-after-coronavirus.
[20] Clive, L. og fl. (18. júní 2020). „Four-day week in the UK. Early Day Motion #636“. UK Parliament: Early Day Motions. https://edm.parliament.uk/early-day-motion/57154/fourday-week-in-the-uk. – 45 þingmenn flytja tillöguna.
[21] Ryle, J. (24. júní 2020). „Why Conservatives should support a four-day week“. The Spectator. https://www.spectator.co.uk/article/why-conservatives-should-support-a-four-day-week.
[22] Autonomy (7. júlí 2020). UK polling: 63% support government exploring the idea of a four-day week. https://autonomy.work/portfolio/4dayweekpolling.
[23] Coote, A., Harper, A. og Stirling, A. (2020). The Case for a Four-Day Week. London: Polity Press.
[24] Angus Reid Institute (26. júní 2020). Half of Canadians support concept of a shorter standard work week; one-in-five say it’s a bad idea. http://angusreid.org/wp-content/uploads/2020/06/2020.06.26_work-week.pdf.
[25] Angus Reid Institute (22. júní 2018). Prolong the daily grind & shorten the week? Most pick a longer four day work week over five shorter days. http://angusreid.org/canadian-work-week.
[26] Fraser Institute (júní 2020). Reducing the work week through improved productivity. S. Globerman og J. Emes (ritstj.). https://www.fraserinstitute.org/sites/default/files/reducing-the-work-week-through-improved-productivity_0.pdf.
[27] Whiting, K. (20. maí 2020). „New Zealand Prime Minister opens door to 4-day working week“. World Economic Forum. https://www.weforum.org/agenda/2020/05/new-zealand-jacinda-ardern-4-day-week-pandemic-productivity.
[28] Sjá Barnes og Jones (2020) (amgr. 5), sem og Whiting (20. maí 2020) (amgr. 28).
[29] Sjá Roy, E. A. (9. febrúar 2018). „Work four days, get paid for five: New Zealand company’s new shorter week“. The Guardian. https://www.theguardian.com/world/2018/feb/09/work-four-days-get-paid-for-five-new-zealand-companys-new-shorter-week.
[30] Sjá https://4dayweek.com.
[31] Sindberg, M. (15. júní 2019). It-virksomhed sænker arbejdstiden til 30 timer – og øger overskuddet med 233 procent. Information. https://www.information.dk/moti/2019/06/it-virksomhed-saenker-arbejdstiden-30-timer-oeger-overskuddet-233-procent.
[32] Hugsmiðan (e.d.). Minni vinna og allir vinna. https://www.hugsmidjan.is/6klst.
[33] Maríanna Björk Ásmundsdóttir (2019). Tími verðmætari en peningar: Ákvarðanatökuferli, áskoranir og ávinningur af styttingu vinnuvikunnar. Óútgefin BS-ritgerð við Háskola Íslands.
[34] Í safni fréttabréfa sem The European Network for the Fair Sharing of Working Time gefur út, en New Economics Foundation hýsir og vinnur, má finna mun fleiri dæmi. Sjá https://neweconomics.org/campaigns/shorter-working-week.
[35] Fontinha, R. og Walker, J. (e.d.). Four Better or Four Worse? Henley Business School. University of Reading. https://assets.henley.ac.uk/defaultUploads/Journalists-Regatta-2019-White-Paper-FINAL.pdf.
[36] Með nýlegri umræðu er átt við á undanförnum árum. Stytting vinnuvikunnar er auðvitað klassískt umræðuefni sem margoft hefur verið rætt í gegnum söguna.
[37] Sjá t.d. Guðmundur D. Haraldsson (2013). „Vinnum minna: Styttum vinnudaginn“. Tímarit máls og menningar, 74 (1), 75–89.
[38] Sbr. Alþingi (16. október 2014). Mál nr. 259/144. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=144&mnr=259; Alþingi (19. október 2015). Mál nr. 259/145. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=145&mnr=259; Alþingi (5. febrúar 2018). Mál nr. 165/148. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=148&mnr=165. Alþingi (9. október 2018). Mál nr. 181/149. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=181.
[39] Sjá lög nr. 88/1971; Alþingi (e.d.) Lög um 40 stunda vinnuviku. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1971088.html.
[40] Sbr. umsögn Alþýðusambands Íslands [ASÍ] (15. febrúar 2016). Mál nr. 259 – Frumvarp til laga um 40 stunda vinnuviku (stytting vinnutíma). https://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-856.pdf. Sjá einnig ASÍ (5. mars 2018). Efni: Mál nr. 165 Frumvarp til laga um 40 stunda vinnuviku (stytting vinnutíma). https://www.althingi.is/altext/erindi/148/148-503.pdf. Afstaða ASÍ var breytt í síðari umsögn; ASÍ (25. nóvember 2018). Frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma). https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-709.pdf – Svipaða sögu má segja um Bandalag háskólamanna (BHM), en fyrsta umsögn félagsins var heldur neikvæð gagnvart frumvarpinu. Sjá: Bandalag háskólamanna (19. febrúar 2016). Efni: Umsögn BHM um frumvarp til laga um 40 stunda vinnuviku (stytting vinnutíma), 145. löggjafarþing 2015–2016. Þingskjal 284–259. mál. https://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-897.pdf. Síðari umsagnir félagsins voru heldur jákvæðari og virðast styðja frumvörpin. Sjá: Bandalag háskólamanna (12. mars 2018). Efni: Umsögn BHM um frumvarp til laga um 40 stunda vinnuviku (stytting vinnutíma). Þingskjal 239, 165. mál. https://www.althingi.is/altext/erindi/148/148-901.pdf. Sjá einnig: Bandalag háskólamanna (23. nóvember 2018). Efni: Stytting vinnutíma, 181. mál. https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-715.pdf. – Rétt er að geta þess að eitt samband stéttarfélaga, BSRB, studdi ávallt frumvörpin í sínum umsögnum, sbr. BSRB (12. febrúar 2016). Efni: Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88 /1971, með síðari breytingum, þskj. 284 – 259. mál. https://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-839.pdf; BSRB (23. nóvember 2018). Efni: Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku,nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma). https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-728.pdf.
[41] Sbr. umræður í sölum Alþingis þann 25. október 2018, þar sem tekist á var um einmitt þetta atriði. Einn þingmaður sagði: „… það er líka hlutverk Alþingis að skapa samfélaginu umgjörð og þar með réttindum borgaranna“ og bætti við að þingmaðurinn teldi þetta vera framfaramál (kl. 18:23). Annar þingmaður var á öndverðum meiði og sagði: „Ég held hins vegar að ef við tökum að okkur [Alþingi] það hlutverk almennt að ákvarða vinnutíma á almennum vinnumarkaði séum við í raun að taka yfir hlutverk aðila vinnumarkaðarins, hlutverk samtaka atvinnurekenda og launafólks …“ (kl. 18:36). Sjá: Alþingi (25. október 2018). 40 stunda vinnuvika, frh. 1. umr. https://www.althingi.is/altext/149/10/l25171545.sgml.
[42] Vökulögin voru sett til að reyna að koma skikki á vinnutíma sjómanna, sem þá gat verið mjög langur. Sbr. Halldór Grönvold (2001). „Hvíldar er þörf: Vökulög í 80 ár“. Ný saga, 13(1), bls. 41–58.
[43] Sbr. Guðmundur D. Haraldsson (6. febrúar 2018). „Lítilræði af lögum um 40 stunda vinnuviku“. Vísir.is. https://www.visir.is/g/2018180209314
[44] Reykjavíkurborg (10. maí 2016). Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar: Skýrsla. Reykjavík: Reyjavíkurborg. – Reykjavíkurborg (júní 2019). Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar: 2. áfangi. Reykjavík: Reykjavíkurborg.
[45] Stjórnarráð Íslands (apríl 2019). Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá ríkinu: Skýrsla um niðurstöður viðhorfskannana og hagrænna mælinga eftir tólf mánaða tilraun af styttingu vinnutíma. Reykjavík: Félagsmálaráðuneytið. – Stjórnarráð Íslands: Félagsmálaráðuneytið (júní 2019). Tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma hjá ríkinu: „Merkilegt hvað munar mikið um þennan hálftíma“. Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Félagsmálaráðuneytið.
[46] Rannsóknirnar eru of margar til að nefna þær allar hér. Sjá sem dæmi rannsóknir á vegum Reykjavíkurborgar og ríkisins: Reykjavíkurborg (10. maí 2016) (amgr. 45), Reykjavíkurborg (júní 2019) (amgr. 45), Stjórnarráð Íslands (apríl 2019, júní 2019) (amgr. 46). – Einnig voru gerðar rannsóknir á vegum fræðimanna, sjá t.d.: Tinna Ólafsdóttir (2017). Stytting vinnutímans hjá Reykjavíkurborg: Viðhorf og reynsla þátttakenda. Reykjavík: MaRk. https://reykjavik.is/sites/default/files/170925_tinnaolafsdottirstyttingvinnutimansreykjavikurborg.pdf. Sjá einnig: Arnar Þór Jóhannesson og Anna Soffía Víkingsdóttir (2018). Stytting vinnuvikunnar: Áhrif tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg og völdum ríkisstofnunum á fjölskyldulíf og jafnrétti kynjanna. Akureyri: Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/Skyrslur_stytting_vinnuviku/stytting-vinnuvikunnar-ahrif-tilraunaverkefnis-um-styttingu-vinnuvikunnar-hja-reykjavikurborg-og-voldum-rikisstofnunum-a-fjolskyldulif-og-jafnretti-kynjanna.pdf. Og Helga Þóra Helgadóttir, Kolbrún Dögg Sigmundsdóttir og Ómar Hjalti Sölvason (2018). „Minna í vinnunni og meira heima“: áhrif tilraunaverkefnisins um styttingu vinnuvikunnar á fjölskyldulíf. Óbirt BA-ritgerð við Háskólann á Akureyri. https://skemman.is/handle/1946/31067.
[47] Eygló Rós Gísladóttir (2018). Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar: Viðhorf og upplifun stjórnenda. Óútgefin MS-ritgerð við Háskóla Íslands. https://skemman.is/handle/1946/29279.
[48] BSRB (e.d.). Stytting vinnuvikunnar. https://www.bsrb.is/is/skodun/malefnin/stytting-vinnuvikunnar.
[49] Alda – Association for Sustainable Democracy (júlí 2019). Conference on shortening working hours: Background and summary of talks. Guðmundur D. Haraldsson (ritstj.). https://en.alda.is/wp-content/uploads/2019/07/alda-summary-conference.pdf.
[50] Sjá vefi stéttarfélaganna: www.styttri.is (BSRB) – https://www.bhm.is/rettindi-og-skyldur/vinnutimi/ – https://www.vr.is/nyir-kjarasamningar-2019/stytting-vinnuvikunnar/ – https://rafis.is/frettir-fra-2020/2297 – https://efling.is/wp-content/uploads/2020/08/kjarasamningur-Eflingar-og-SA-2019.pdf.
[51] Áhrif langs vinnudags hafa verið rannsökuð og liggur fyrir að áhrifin eru almennt slæm. Sjá sem dæmi Harringon, J. M. (2001). „Health effects of shift work and extended hours of work“. Occupational and Environmental Medicine, 58, 68–72; Kodz, J. og fl. (2003). „Working long hours: a review of the evidence“. Volume 1 – Main report. Employment Relations Research Series, 16. London: Department of Trande and Industry; og Kajitani, S. McKenzie, C. og Sakata, K. (2016). „Use it too much and lose it? The effect of working hours on cognitive ability“. Melbourne Institute Working Paper, 7/16.
[52] IPCC [The Intergovernmental Panel on Climate Change] (2018). Summary for Policymakers. Birtist í: Global Warming of 1.5°C. Masson-Delmotte, V., P. Zhai, H.-O. Pörtner, D. Roberts, J. Skea, P.R. Shukla, A. Pirani, W. Moufouma-Okia, C. Péan, R. Pidcock, S. Connors, J.B.R. Matthews, Y. Chen, X. Zhou, M.I. Gomis, E. Lonnoy, T. Maycock, M. Tignor, and T. Waterfield (ritstj.). Í prentun.
[53] IPBES [Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services] (6. maí 2019). Summary for policymakers of the global assessment report on biodiversity and ecosystem services of the Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services. United Nations Sustainable Development. https://www.un.org/sustainabledevelopment/blog/2019/05/nature-decline-unprecedented-report.
[54] Sjá t.d. Jackson, T. (2009/2011). Prosperity Without Growth: Economics for a Finate Planet. London: Earthscan; og Jackson, T. (2017). Prosperity Without Growth: Foundations for the Economy of Tomorrow. London: Routledge.
[55] Ítarlega umfjöllun um þetta tiltekna atriði, um gagnsemi hagvaxtar og sífellt umfangsmeiri atvinnustarfsemi, má finna í Tim Jackson (2009/2011, 2017) (amgr. 55).
[56] Hér segir í blindni af því að innan vissra svæða í efnuðum löndum er hægt að réttlæta hagvöxt, jafnvel þótt það sé óréttlætanlegt annars staðar, t.d. vegna þess að innviðir eru lakir. Má þó segja að í blindni sé rekin sú stefna heilt yfir sem er áberandi um þessar mundir, þar sem hagvöxtur er markmiðið, sama hvað annað bjátar á.
[57] Sjá til dæmis þáttaröðina Hvað höfum við gert sem sýnd var á RÚV vorið 2019.