eftir Mehmed Uzun
Einar Steinn Valgarðsson þýddi
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021
Ein af táknmyndum æsku minnar sem fylgir mér eins og skuggi er amma mín. Hún var áberandi hávaxin, með sterka andlitsdrætti eins og maður sér á sögulegum málverkum, kjólarnir hennar voru vitnisburður um gleymda sögu, augu hennar uppspretta hlýju og eldmóðs, rödd hennar flauelsmjúk og hún var ein af örfáum manneskjum sem settu mark á líf mitt. Móðir mín var eina dóttir hennar í sjö barna hópi. Sú ólýsanlega hlýja og væntumþykja sem einkennir samband mæðra og barna í heimalandi mínu átti einnig við um þær. Milli þeirra ríkti sterk ást og blíða, stöðug vernd og aðgát, endalaust hamingjuflæði … amma mín bjó í sama bæ og við en í öðru hverfi. Engu að síður nýtti hún hvert tækifæri til að heimsækja okkur, við vorum með stóran garð með ferskju- og granateplatrjám og hjá okkur dvaldi hún dögum saman. Hún kom alltaf með ótal gjafir handa dóttur sinni og mér, elsta barnabarninu sínu. Þessir dagar settu svip á fábreytta tilveru okkar og voru jafn litríkir og blómin á granateplatrjánum. Þá voru eldaðar bestu máltíðirnar, fallegir og litríkir kjólar mátaðir, fólk fór í heimsókn og tók á móti gestum. Móðir mín geislaði líflegum litum eins og nýþroskuð ferskja.
Sjálfum líkaði mér best við ógleymanlegar skammdegisnæturnar … nætur litríkra hetjuljóða og ævintýra. Litli olíulampinn okkar náði aldrei að lýsa upp litla herbergið mitt með víða glugganum en hetjuljóðin og sögurnar fylltu það skærri birtu. Ég óskaði þess þá að næturnar mættu vara að eilífu og sagði ömmu minni í sífellu að ég vildi ekki fara að sofa. En ég sofnaði alltaf, nóttunum lauk alltaf og nýr dagur rann upp. Þá þurfti ég að bíða óþolinmóður eftir næstu nótt. Og með visku barnsins skildi ég að sumar reglur voru sterkari en ég sjálfur og óháðar óskum mínum og löngunum.
Þegar amma mín var hjá okkur var hún vön að koma nánast á hverju kvöldi áður en ég fór í háttinn og strjúka mér um hárið með löngum æðaberum höndum. Ég skildi strax hvað klukkan sló: nú átti að segja spennandi og litríka sögu. Þá ýtti ég koddanum mínum til hliðar og lagði höfuð mitt í kjöltu hennar með hljóðu brosi. Eftir þennan fínlega og hljóðlega undirbúning fylgdu goðsagnakennd orðin sem tilheyrðu sögunum, úr djúpi mannkynssögunnar. Og á meðan hún þræddi orðin eins og perlur – hún talaði hina fornkúrdísku Zaza-mállýsku, sem er náskyld avestísku, þeirri tungu sem helgirit Zaraþústratrúar voru rituð á – þá leiddi hún mig inn í aðra, geislandi veröld. Litrík og dularfull orðin vöktu fljótin Efrat og Tígris til lífsins og ég gaf mig vatni þeirra á vald, sem var eilítið kalt en endurnærandi. Og vaggandi á blíðum og léttum öldunum leið ég inn í djúp svefnsins.
Walter Benjamin skrifaði eitt sinn: „Hvar má nú til dags finna fólk sem getur sagt sögur sem hafa eitthvert gildi? Geta hinir deyjandi skapað sterk varanleg orð sem hægt er að láta ganga áfram eins og hring kynslóð eftir kynslóð? Hverjum gagnast nú spakmæli?“ Þar sem við gátum ekki haldið nægilega í við sögulegar og félagslegar hræringar, þá vorum við ekki meðvituð um vægi slíkra fullyrðinga. En ég hafði manneskju á heimilinu sem hreyfði við barnsanda mínum og barnshjarta með hrífandi sögum.
Þessar stuttu og litríku nætur leita sífellt á mig. Það var óhjákvæmilegt að flest þessara orða, sem glitruðu eins og perlur í myrkri, yrðu voldugum öldum tímans að bráð … þau hurfu. Eitt hugtak lifði þó áfram sem hluti af örlögum mínum: „welate xeribiye.“ Amma mín, sem umbreyttist í álfkonu sem lifði í söguljóðunum, sögunum og ævintýrunum sem hún fór með, endurtók sífellt þessi dularfullu orð: welate xeribye … welate xeribiye … welate xeribye …
Þessi orð voru sannarlega dularfull; þau vísuðu til landa sem enginn hafði séð eða heimsótt – Kákasusfjallanna, eyðimarka Jemen, grísku eyjanna, Mehgreb … Allir þessir staðir voru welate xeribye, dularfullir staðir sem Kúrdar leituðu til en enginn sneri aftur frá – lönd sem viðhéldu dulúð sinni og óbrúanlegri fjarlægð. Heiti þeirra urðu fastur liður í bókmenntum Kúrda.
Auðvitað vissi ég ekki þá að þessi lönd, þessir staðir og þessi nöfn tilheyrðu sorglegum veruleika Kúrda. Í mínum huga voru þau einfaldlega ævintýralönd með risum, goðsagnakenndum hetjum og stórbrotnum stríðum. Hvernig hefði mig getað grunað að þessi hlýju og fallegu orð lýstu sársauka, harmleik, óbærilegri þrá? Ég þurfti tíma til að meðtaka það og skilja, ég þurfti að segja skilið við saklausa bernskuveröld mína og tileinka mér félagslegar og menningarlegar staðreyndir, verða meðvitaður um þjóðerni mitt og sjálf, og kynna mér sögu mína, sem hafði verið undirokuð og lá nú við útrýmingu. Ég þurfti tíma … lærdóm hans og leiðsögn.
Mörgum árum seinna, þegar ég varði æsku minni í fangelsum, komst ég að því að Kákasusfjöllin, grísku eyjarnar og Maghreb-löndin voru staðir þar sem Kúrdar dvöldu í útlegð. Ýmist höfðu einstaklingar verið sendir þangað eða fjölskyldur en oftast hópar. Þegar Kúrdar höfðu verið rifnir upp með rótum frá heimalandi sínu hröktu Ottómanar þá til fjarlægra landa sem þeir hvorki þekktu né höfðu heyrt neitt getið um. Og frá 1923 greip hið nýstofnaða tyrkneska lýðveldi sífellt til þess bragðs að senda Kúrda í útlegð til að brjóta baráttu þeirra fyrir sjálfstæði á bak aftur og til að sundra þeim og varpa þeim í ánauð. Hver aldan á eftir annarri, án afláts. Með því að skilja að fjölskyldur, ættingja, ættbálka. Með því að rústa þorpum og byggðum. Í vetrarsnjó eða sumarhita. Linnulaust.
Þessar endalausu fangelsisnætur komst ég að því að leiðin til welate xeribiye var vörðuð kúrdískum hræjum; að hellarnir og gljúfrin voru uppfull af þeim; að tár urðu að uppsprettum; og að ópin sem nístu hjartað blönduðust kalli arnanna. Þessar fangelsisnætur hlustaði ég, við tóna kúrdísks dengbejs, á harma, sársauka, þrár og þjáningar þeirra sem sendir voru til welate xeribiye. Ég heyrði sögur um óhamingjusamar sálir og hjörtu, eins og þeim var lýst í grípandi þjóðlögum og ballöðum.
Þá skildist mér hvað welate xeribiye þýddi í raun og veru … útlegð: að vera slitinn frá rótum sínum og heimalandi; að vera dæmdur til óþekkts og framandi lífs; gleymska; endalaus söknuður og þrá eftir hinu liðna. Bak við þessi orð, sem amma mín þuldi silkimjúkri röddu með augun blikandi, leyndist hræðileg sorg. „Welate xeribiye“, sem merkir nokkurn veginn „hið framandi land“ fól þá í sér slíkan mannlegan harmleik.
Vegirnir sem leiddu til welate xeribiye opnuðust mér líka. Sumarið 1977 bættist ég í tvö hundruð ára langa vagnalest flóttamanna. Eina heita sumarnótt, þegar niðamyrkur ríkti, fór ég yfir landamærin og tók fyrsta skrefið inn í drunga welate xeribiye. Höfuð mitt var fullt af draumórum. Ég var óviss um framtíðina. Eins og Rilke komst að orði opnaðist sviðið; flóttinn var verkið sem sýnt var … Ég varði sumrinu 1977 í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, sem er deigla margs konar austrænnar og arabískrar menningar. Fyrir utan að vera staður þar sem austrið og vestrið mætast og gróðrarstöð ólíkrar menningar er Damaskus staður þar sem Kúrdar hafa haldið til í útlegð sinni. Öll saga welate xeribiye er grafin í þessari borg. Grafhýsi Saladíns Ayyubis, múslimaleiðtogans sem var af kúrdískum uppruna og barðist gegn krossförunum og var fjandvinur Ríkharðs ljónshjarta, er að finna í Damaskus. Margir gengnir kúrdískir leiðtogar, menntamenn, rithöfundar og framámenn í stjórnmálum eru líka grafnir hér. Harmasöngvarnir um sorg og einmanaleik, gleymsku og framandleika, sem ekki er hægt að syngja lengur eru grafnir undir rústum fátækrahverfanna í Damaskus. Eftirfarandi orð pólska rithöfundarins Witolds Gombrovicz, sem varði stórum hluta ævi sinnar í útlegð, eiga vel við kúrdísku útlagana í Damaskus: „Útlegð er kirkjugarður.“ Grafreiturinn í kúrdíska fátækrahverfinu, þar sem grafirnar liggja hver um aðra þvera en kofahreysunum er hrúgað hverju ofan á annað á hæðunum utan við Damaskus, það er grafreitur útlaganna.
Síðasti kúrdíski emírinn, Bedirkhan Beg, sem var fyrst sendur í útlegð til Istanbúl, síðan til Krítar og að lokum, eftir uppreisnina 1844, til Damaskus, hann hvílir þar í stórbrotnu grafhýsi sínu. Barnabarn hans, rithöfundurinn og málfræðingurinn Celadet Bedirkhan, sem varði allri ævi sinni í útlegð og var upphafsmaður og útgefandi margra menningarrita sem hafa mikla þýðingu fyrir Kúrda, hvílir skammt frá honum. Ljóðskáldið Kadri Can, sem orti mörg eftirminnileg saknaðarljóð um fæðingarborg sína, um bernsku sína og móðurmál … sem rann honum allt úr greipum … hvílir í látlausri gröf nærri Bedirkhan. Rithöfundurinn og hugsuðurinn Memduh Selîm, söguhetjan í þriðju skáldsögunni minni, maður upplýsingarinnar og ófrávíkjanlegra siðferðisgilda, bjartsýnismaður, vonlaus rómantíker, sem var sendur í útlegð 1923 og sneri aldrei aftur, uns hann lést 1976, hvílir þar í friði eins og hinir … þar hvíla svo ótal, ótal margir …
Þetta sumar í Damaskus, þegar sólin var rétt að rísa og enginn á ferli, var ég vanur að klífa upp í hlíðarnar til að heimsækja grafreitinn, leita þar að legsteinunum hljóðu og biðja þess að þeir mættu finna tungumál sitt.
Í grennd við grafreitinn er moska sem er nefnd í höfuðið á öðrum frægum kúrdískum útlaga, Mevlana Halid. Hann var ljóðskáld og hugsuður, upphafsmaður Nakibedi-trúarhópsins og hlaut sömu örlög og Bedirkhan. Rétt eins og grafhýsi þeirra deila nú sama stað, þá áttu þeir sömu þrá og sársauka í lífinu. Þegar Halid hafði verið hrakinn í útlegð varðveitti hann í ljóðum sínum minningar frá heimalandinu, Kúrdistan, og fallega bænum sínum, Sumeynaiye. Og hann sendi verkin sín aftur til heimalandsins með tunglinu, sólinni og vindinum. Í þessari dauðlegu veröld, þessari veröld óréttlætisins, þar sem, svo notuð séu orð Óvíds, „mennirnir eru hver öðrum sem úlfar“, þá hafði Mevlana Halid vingast við sólina, tunglið, stjörnurnar og vindinn. Er annað hægt en að finna fyrir söknuðinum og sársaukanum í þessum línum?
Hjartað grætur blóðtárum, ó, morgunvindur,
komdu skjótt
og berðu Shahrezor kveðju mína.
Hjartað er hulið þoku kvíðans
eins og fjallið Gudrun.
Ó, augu, megi saknaðartár ykkar vísa leiðina til Sercinar.
Shahrezor, fjallið Gudrun, Sercinar – landsvæðin þar sem Mevlana Halid varði bernskudögum sínum – eru núna minningar í ljóðum hans sem eru hafin yfir tíma og rúm. Þar sem útlendingar meinuðu honum að snúa aftur til landsins síns og dæmdu hann til framandi lífs, þá varð hann að finna leiðir til að lifa af og því varðveitti hann litina, lífið, bragðið, loftið og ilminn af landinu sínu, hann gerði minningarnar um bernsku sína ódauðlegar og víkkaði mörk vitsmunalegrar og bókmenntalegrar sköpunar. Þrúgandi byrði útlegðarinnar og sársauki heimþrárinnar gerðu hann að ódauðlegu skáldi og persónuleika meðal Kúrda. Gjaldið sem hann greiddi fyrir þennan ódauðleika var að líf hans umbreyttist í martröð djúps harms og fortíðarþrár, hann skynjaði sífellt dauðann og einmanaleikann.
Var það einungis þetta ódauðlega kúrdíska nítjándu aldar skáld sem greiddi þetta gjald?
Þar sem ég rita þessar línur, sem geta engan veginn lýst söknuði og sköpunarafli Mevlana Halids, þá verður mér hugsað til annars skálds – Óvíds. Þetta ljóðskáld Rómarveldis fyllir vinnustofuna mína með mikilfengleika sínum. Ég las fyrir nokkru „Síðasta orðið“, afbragðs skáldsögu eftir austurríska rithöfundinn Christoph Ransmayr, sem er hluti af miðevrópskri bókmenntahefð og fetar í fótspor Brochs og Musils. Þetta verk, sem hefði allt eins getað heitið „Á hjara veraldar“ segir sögu Óvíds, lastafulls rithöfundar og meistara ástar og lista. Það lýsir óhamingju hans og söknuði, og glímunni við sköpunargáfuna. Þar er útlegðin hörmuð sem hið blæðandi hjarta mannkyns. Óvíd, sem var sendur í útlegð á ströndum Svartahafs – „Á hjara veraldar“ – af Ágústusi Rómarkeisara, var dæmdur til algjörrar einangrunar. Þögnin og hægur dauðdagi áttu að tryggja að skáldið myndi gleymast og sú rödd yrði kæfð sem hafði hæðst að hvers konar valdi og alræði. Náði Ágústus markmiði sínu?
Nú, tvö þúsund árum eftir að þessi spurning var fyrst borin fram, er svarið ennþá nei. Óvíd, læriföður Mevlana Halids og allra útlægra listamanna, var hvorki hægt að þagga niður í né má út. Þvert á móti varð hann ódauðlegur í útlegðinni. Rödd hans og sköpunargáfa vöktu ólgandi strauma Svartahafsins, sem fluttu þær alla leið til nútímans. Hann lauk hinu fræga verki sínu, Ummyndunum, með þessum línum: „Ég skapaði verk sem staðist getur eld, járn, reiði guðs og eyðileggingu tímans … Vegna þess mun ég svífa hátt yfir stjörnunum og lifa að eilífu … og eins lengi og Rómarveldi varir mun fólk hvarvetna tala um mig.“
Útlegð er aðskilnaður, harmur. Hún er ómannúðleg og þung refsing. Hún neyðir mann til að segja skilið við ógleymanlegan hluta lífsins. Ófrjálst, með valdbeitingu … bæði Óvíd og Mevlana Halid lifðu í skugga minninga sinna. Þeir lifðu ekki í nútíðinni heldur fortíðinni, tímanum sem þeir höfðu sagt skilið við. Þeir bergmáluðu heitið á hinu fræga verki Marcels Prousts og héldu í leit að glötuðum tíma. Þeir höfðu ekki áhuga á því sem var að gerast, heldur því sem gerst hafði. Þetta er ástæða þess að Óvíd, Dante, Mevlana Halid og James Joyce endursköpuðu svona margar skærar minningar um Róm, Flórens, Sarezor og Dublin, fæðingarstaði sína, í verkum sínum. Með því að endurskapa fortíðina tryggðu þeir að nöfn þeirra yrðu ódauðleg.
Ég tel að þetta hugarástand sé sameiginleg örlög: framtíð manns sem hefur verið hrakinn frá landi sínu og fólkinu sem hann elskar vísar alltaf til fortíðarinnar. Hugur hans og hjarta raula söngva fortíðarinnar. Augun leita að andlitum þeirra sem hann yfirgaf. Þegar áköf einsemdin umlykur mann fyllast næturnar af sýnum úr fortíðinni. Þessi fyrirbrigði má draga saman í eftirfarandi málshátt; „fortíðin er alheimsins virði! …“
Fyrir nokkru, þegar ég stóð fyrir viðburði sem snerist um útlegð og útlæga rithöfunda undir heitinu „Bókmenntir án landamæra“ í Menningarmiðstöðinni í Stokkhólmi, spurði ég um það bil fjörutíu rithöfunda frá ólíkum löndum og menningarhópum þessarar spurningar: „Dreymdi þig einhvern tímann gistilandið þitt fyrstu fimm árin í útlegðinni?“ Svo var ekki um neinn þeirra. Allir draumar þeirra snerust um löndin sem þeir höfðu yfirgefið og upplifanir þeirra þar.
Ég hef sömu sögu að segja. Eftir að ég fór frá Sýrlandi kom ég til Evrópu, aðaláfangastaðar útlaga á okkar tímum. Þar sem ég beið eftir að sækja um hæli hjá Innflytjendastofnuninni í Stokkhólmi flaug hugur minn eins og tvær hvítar dúfur aftur til landsins míns, til ástvina minna sem ég hafði lagt að baki, til grafar afa míns sem ég gæti aldrei heimsótt aftur: til míns gamla vinar Apes Xelils, sem varð vitni að nýjustu hræringunum í sögu Kúrda og ég hitti í fangelsi á áttunda áratugnum … í nýja landinu mínu hélt ég fullur öfundar í litríkar minningar og sárar upplifanir úr fyrra lífi mínu, andlitin sem mótuðu persónuleika minn – allt úr fortíð sem hafði runnið mér úr greipum. Þar sem ég vissi að ég lifði hinu nýja lífi mínu í skugga minninga, þá reyndi ég að gera skuggana sýnilega. Og fyrstu fimm árin dreymdi mig ekkert um gistilandið mitt eða nýja lífið. Draumar mínir voru mestmegnis bernskuminningar; um ömmu mína sem sagði mér sögur um welate xeribiye; um afa minn sem gaf mér litríkt sælgæti. Annars voru það martraðir um lögregluna, fangelsi, pyntingar, valdbeitingu … Seinna yfirfærði ég allt þetta á söguhetju þriðju skáldsögu minnar, Memduh Selîm, sem lifði í fimmtíu og þrjú ár í útlegð og dó þar. Hann hlýtur einnig að hafa átt sér slíka drauma og martraðir þær ótal nætur sem hann dvaldi fjarri heimalandinu.
Eins og útlæga rússneska skáldið Joseph Brodsky, sem býr núna í New York, segir: „Útlægt skáld eða menntamaður er manneskja sem er fyrst og fremst bundin fortíðinni, útlegðin ríkir í tilveru hans.“
Ég þróaði með mér svipað viðhorf þegar ég reyndi að endurvekja tapað líf Memduhs Selîm. Brostnu hjarta sem þurfti að yfirgefa heimaland sitt vegna þrár sinnar eftir hamingjusömu og frjálsu lífi, hvað hlotnast því annað en nætur þar sem ýmist ríkja geislandi litir himnanna eða rauðir logar vítis?
Verstu hörmungar sem geta dunið yfir mann er að vera rifinn með rótum frá heimalandi sínu í refsingarskyni. Sænski rithöfundurinn Olof Lagerkranz, sem ritaði magnað verk um Dante, „Frá helvíti til himna“, segir svo: „Ein sársaukafyllsta reynsla Dantes í útlegðinni var að verða fyrir sífelldum rógi, enginn var til að verja hann gegn útúrsnúningi á verkum hans og neikvæðri túlkun á þeim í heimalandinu.“
Það er þessi tilfinning biturðar sem hindrar að fortíðin verði fortíð og heldur sífellt lífi í henni. Munurinn á Scott Fitzgerald og Hemingway annars vegar og Herman Broch, William Saroyan, Nazim Hikhmet og Faiz Ahmed Faiz hins vegar liggur í þessu. Fitzgerald og Hemingway, þessir miklu rithöfundar Týndu kynslóðarinnar, kusu sér útlegð. Hinir voru neyddir til útlegðar. Fyrir Týndu kynslóðinni var útlegðin ævintýri, uppspretta innblásturs, straumhvörf í spennandi lífi, uppfullu af eldmóði. Þeir gátu snúið aftur til landa sinna hvenær sem þeim sýndist. Fyrir þeim var útlegðin ekki afleiðing ritskoðunar og gleymsku heldur leið til vinsælda, frægðar og skemmtana. Fyrir Broch, hinn mikla meistara þýskrar tungu, sem flúði ofsóknir nasista, fyrir armensk-bandaríska rithöfundinn Saroyan, sem slapp við þjóðarmorð Ottómana; fyrir hið mikla tyrkneska ljóðskáld Hikmet, sem varð að yfirgefa land sitt eftir mörg ár í fangelsi; fyrir Faiz, mesta skáld á úrdú, sem flúði undan frumstæðri ógnarstjórn hins ólæsa einræðisherra Zia-Ul-Haq, var útlegðin gjaldið sem þeir þurftu að greiða til að halda lífi, nauðungarferð sem lá aðeins í eina átt. Af þeirri ástæðu skynjum við ekki sömu glaðværð hjá Broch, Saroyan, Hikmet og Faiz eins og hjá Fitzgerald og Hemingway. Í verkum hinna fyrrnefndu sjáum við persónugervingu sársaukafullrar sögu, djúprar sorgar, heimþrár sem krefst þess að vera tjáð, harmakvein þeirra sem eru grimmdarlega sendir í dauðann, ritaða sem syndaaflausn af þeim sem ekki gátu fylgt fordæmi þeirra.
Kúrdíski rithöfundurinn Erebe Semo, sem er frægur fyrir snilldarlegan þríleik sinn, er einn þeirra höfunda sem ég les með mikilli ánægju. Þessi rithöfundur, sem flúði þjóðarmorð Ottómana og settist að í Kákasus til þess eins að vera svo sendur til Síberíu á Stalíntímanum, skrifaði afar persónulega um eftirfarandi þemu: skömmina yfir því að vera dæmdur til einskisverðs lífs og tilfinninguna fyrir að hafa stungið þá af sem eftir voru; hvötina til að tjá á heimsvísu gildi síns fyrra lífs og þess nýja og nauðsyn þess að sýna fram á að hann væri til, að hann væri hæfur og duglegur. Í dauðabúðum Stalíns varð þetta kjarninn í verkum hans.
Í skáldsögum sínum vísar hann iðulega til þess sem hefur tapast og unnist. Útlegð ræðst af þessum orðum. Rétt eins og Erebe Semo gekk ég líka í gegnum sorgarferli í nýja landinu mínu. Í fyrsta lagi missti ég móðurmál mitt, móðurlandið, eins og Albert Camus kallar það, helgustu eign mína. Móðurmálið mitt varð allt í einu gagnslaust, merkingarlaust og byrði. Það hætti að vernda mig, hætti að veita mér öryggiskennd og styrk. Ég gat ekki tjáð mig. Þegar ég var sviptur tungumálinu, þá tapaði ég sjálfsmynd minni og persónuleika. Ég varð einhver annar, óskilgreinanlegur en „þurfandi“ útlendingur. Ég bættist í hóp „útlendinga“, jaðarhóps sem ég hafði ekki sóst eftir að tilheyra og var mér í sjálfu sér framandi. Líf mitt, upplifanir og hugsanir glötuðu allri merkingu sinni og virði. Öll þau gildi sem ég hafði lagt mig í hættu fyrir og jafnvel sætt fangelsisvist fyrir reyndust þýðingarlaus. Mér fannst mjög erfitt að skilja hvers vegna ég hafði verið fangelsaður. Ég skammaðist mín þegar ég reyndi að útskýra ástæðurnar fyrir því að ég hélt til gistilandsins míns. Öll gildin sem höfðu verið svo sjálfsögð og óumdeilanleg höfðu glatast. Ég komst að því að þau áttu ekki við í nýja landinu mínu. Ég missti atvinnuna og ríkisfangið, ég missti réttinn til að snúa til baka og til að gefa út í heimalandinu. Ég missti ástina, stuðninginn og hvatninguna frá vinum mínum og kunningjahóp. Ég missti litinn á blómknöppum granateplatrjánna í garðinum okkar, bragðið af ferskjunum og söng svalanna sem vitjuðu okkar á hverju vori.
„Eins og þú veist,“ sagði Gombrowicz snemma á sjöunda áratugnum í bréfi sínu til annars rithöfundar, Maurice Nadean, sem lagði mikið á sig til að kynna útlæga rithöfunda fyrir Frökkum og umheiminum, „þá er bókmenntalíf mitt hér erfitt. Ég heyi harða glímu sem einmana og hjálparlaust skáld.“ Ég þræddi sömuleiðis göng glötunarinnar þar sem aðrar en erfiðari reglur gilda.
Til að komast út úr þeim umbreyttur og endurnýjaður …
Ef ég ætti á jafn einfaldan hátt og Erebe Semo að telja upp það sem ég hef öðlast myndi ég byrja á að nefna að ég öðlaðist nýtt tungumál – sem leyfir mér að tjá mig öðruvísi og njóta nýrra upplifana án þess að beygja mig undir sársaukann, höftin og mótsagnirnar í móðurmáli mínu. Með hjálp þess öðlaðist ég nýtt land, menningu og bókmenntir. Ég kynntist nýju fólki, siðum, gildum, upplifunum, tungumálum og menningu. Með hjálp nýja landsins kynntist ég restinni af Skandinavíu. Ég fékk aðgang að heilli veröld, fólki hennar og hefðum. Ég hlaut valfrelsi. Ég komst að því að utan við sjálfan mig og fólkið mitt og vandamál okkar var víð veröld, að við vorum ekki miðpunktur alls, að annað fólk var alveg jafn mikils virði. Ég uppgötvaði mér til undrunar að ég átti mér svipaðar tilfinningar og upplifanir og arabi, Lithái, Tékki, Úrúgvæmaður, Pólverji, Kínverji og Kongóbúi. Mér skildist að hver einræðisherra er öðrum líkur, að allt verður að meta út frá gildum mannúðarinnar. Ég kynntist hógværð. Ég lærði að leika ekki hetju heldur viðurkenna galla mína. Ég þróaði með mér endalausa forvitni og ákafa fróðleiksfýsn. Ég varð alþjóðlegur, öðlaðist sjálfsmynd heimsborgarans. Mér hlotnuðust heimsbókmenntirnar, ríkidæmi þeirra gat auðgað hjarta mitt að eilífu og hughreyst mig. Ég lærði þá list að vafra á milli tungumála og menningarheima, að greina betur á milli, skynja litbrigðin. Mér til mikillar undrunar kynntist ég því að allt hér á jörðu tengist einum einföldum raunveruleika – mannkyninu …
Áskotnaðist mér í alvöru allt þetta? Getur sá sem ferðast um göng tilviljunarinnar, þróunar og umbreytinga sagt til um það með nokkurri vissu? Ég er ekki alveg viss, en ég geri ráð fyrir að mér hafi áskotnast það.
Með þessum ágóða enduruppgötvaði ég eigið móðurmál. Með því að læra forboðna tungumálið mitt upp á nýtt skildi ég það betur og umvafði það dýpri og hlýrri ást. Ég sneri aftur til minnar forboðnu menningar, bjöguðu sögunnar, máðra rótanna, samsettu sjálfsmyndarinnar. Í fyrsta sinn hugsaði ég um landið mitt, með öllum sínum brotum, eins og litríka mósaíkmynd. Ég hóf manneskjulegt samband við það, þvert á kalt og grófgert málskrúð hugmyndafræðinnar og stjórnmálanna. Ég prýddi síðurnar sem ég skrifaði á köldum vetrarnóttum í Stokkhólmi með ósýnilegum skuggum þess. Ég reyndi að skrifa þessar síður sem heimsborgari og Kúrdi og reisa þannig brú milli tungumálsins míns og veraldarinnar. Ég tileinkaði skáldsögurnar mínar hinum kæru börnum þess. Ég varð ástfanginn af því á ný.
Það sem ég er að reyna að segja, með því að bæta mínum eigin og ómerkilegu upplifunum við þær sem safnast hafa á yfir tvö þúsund árum, er þetta: harmur aðskilnaðarins getur verið auðgandi og endurlífgandi. Hann getur verið ómótstæðileg uppspretta sköpunar, tækifæri til að leiða saman ólíkar þjóðir, menningu, tungumál; hann getur verið fólki örvandi torg þar sem allir leggja fram sinn skerf af hefðum, smekk og litum …
Eins og Rilke sagði, þá eru aðskilnaður og útlegð bæði sölnun og frjóvgun, bæði gleymska og ódauðleiki, bæði mannlegur harmleikur og litrík skrúðganga mannkynsins þar sem tími og rúm gleymast. Í djúpi þeirra mætast gærdagurinn, dagurinn í dag og morgundagurinn, menningarsamfélög og hefðir blandast og endalaus goðsögn sem lýsir sögu og framtíð mannkyns opnast.
Þegar ólík tungumál og menning mætast, þegar fólk með ólíkar hefðir deilir reynslu sinni hvert með öðru, getur það orðið uppspretta auðgandi sköpunar. Eru ekki flestir þeir rithöfundar sem við elskum og dáum félagar í þessari „litríku mannkynsskrúðgöngu?“ Joseph Conrad, sem fæddist í Póllandi en skrifaði á ensku; Írinn Samuel Beckett sem hafði bæði ensku og frönsku á valdi sínu; risi jiddískunnar, I.B. Singer; Íraninn Sadik Hikayet, sem svipti sig lífi í útlegð í París snemma á 6. áratugnum; V.S. Naipaul, Indverji frá Trinidad sem ritaði á ensku; arabíska skáldið Adonis, sem dvelur í útlegð í París, Tékkinn Milan Kundera … og ótal fleiri …
Ég tel að nýjar hugsanir, gildi og form verði til með fólksflutningum, þegar fólk kynnist nýrri menningu og tungumálum, þegar andlegar og félagslegar hræringar verða, með menningarlegum mótsögnum og breytingum. Það er með þvílíkum kynnum sem vonir okkar um að allt mannkynið verði ein fjölskylda blómstra. Pólsk-bandaríski rithöfundurinn Czeslaw Milosz heldur því fram að það sé „skylda bókmennta og ljóða að minna okkur á að við erum manneskjur“. Auðvitað er það svo. En það sem vantar er löngun fólks eftir því að mannkynið verði ein fjölskylda og gangist undir þá ábyrgð sem því fylgir. Sú þrá og sú ábyrgð, sem þróast í breytingum, sköpun og menningarlegri samræðu, eru grunnstoðir litríkrar, lýðræðislegrar og mannúðlegrar tilvistar. Þær geta gengið á hólm við raunveruleika öfga og alræðis – hugmyndafræði sem er einungis birtingarmynd myrkrar og kæfandi einstefnu – og teflt á móti þeim nýjum og lýðræðislegum raunveruleika.
Hér verð ég að vitna aftur í Gombrowicz. „Útlegð er gröf.“ Ef maður nær ekki að tileinka sér í gistilandinu þá þrá að verða heimsborgari, þá verður útlegðin í alvöru gröf. Án þess að skilja að þrátt fyrir alla örðugleikana sé tækifæri í útlegðinni væri ómögulegt að vera skapandi og ómögulegt að blása nýju lífi í fortíðina. Útlegð breytist í raunverulegan grafreit þegar maður er einangraður frá samfélaginu og innikróaður í gettói. Að lifa sífellt í fortíðinni er ekki það sama og að endurskapa hana. Það er mikill munur á blindri fortíðarþrá og skapandi hugarflugi. Að lifa í skugga minninganna til að sjá fyrir og skapa framtíðina er ólíkt því að leita í þrjósku sinni að lífsstíl sem er liðinn. Að kasta lífi sínu á glæ, innilokaður í útlegð í útjaðri stórborga og minnast í sífellu undraverka og dýrðar fortíðarinnar, hefur ekkert með sköpun að gera … í ritgerð sinni um Vladimir Nabokov og rithöfunda fjarri heimalandi sínu lýsir Danilo Kiš rússnesku útlögunum sem komu til Evrópu í kjölfar byltingar Bolsévika 1917 sem svo að þeir lifi „bitru og einangruðu lífi, eru ofurseldir innbyrðis mótsögnum og deilum, þeir eru fullir af hatri og heift vegna fortíðarinnar og í stað þess að reyna að aðlagast hinu nýju samfélagi og umheiminum búa þeir afvikið og þétt í útjaðri Berlínar og Parísar.“ Fyrir þessum aðalsmönnum, vísindamönnum, menntamönnum, rithöfundum, verkamönnum og stúdentum, sem voru ómóttækilegir gagnvart breytingum og dóu því smám saman út, merkti útlegð ósigur og eyðileggingu … grafreit sem var skipaður hinum lifandi.
Að lokum ætla ég aftur að minnast ömmu minnar. Þetta Welate xeribiye sem hún talaði um er því miður kjarninn í menningar- og vitsmunastarfi okkar Kúrda, það er okkur móðurland. Öld okkar er sorglegt tímabil afreka, þjóðarmorða, umbreytinga, tortímingar og fólksflutninga. Fyrir okkur Kúrda hafa þessar þjáningar verið mest áberandi. Af því leiðir að öll veigamikil menningar- og vitsmunaverk okkar hafa orðið til í útlegð. Rétt eins og gyðingar og Armenar hafa Kúrdar upplifað welate xeribiye sem tækifæri, stað þar sem hægt var að vernda og þróa tungumálið, bókmenntirnar, listina og menninguna. Sem sonur þjóðar sem prentaði fyrstu dagblöðin sín, tímarit og bækur í útlegð og kom á nútímastofnunum sínum á fót þar, langar mig að segja að ég hef líka lifað í welate xeribiye – sem er reynsla sem hefur veitt mér bæði sorg og skjól.
Mehmed Uzun (1953–2007) var kúrdískur rithöfundur frá Tyrklandi sem lagði mikið af mörkum við að móta kúrdísku sem bókmenntamál og endurvekja sagnahefð Kúrda. Hann var pólitískur flóttamaður og dvaldi í nærri 30 ár í útlegð í Svíþjóð. Árið 2005 var hann gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Einar Steinn Valgarðsson hefur nýlega þýtt skáldsögu Uzuns um Memduh Selim og uppreisnina við Ararat, Skugga ástarinnar, sem er væntanleg hjá Uglu útgáfu um miðjan september 2021.