Guðjón Samúelsson

Guðjón Samúelsson

eftir Kjartan Má Ómarsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2017.

 

 

 

Íslenska þjóðin var illa búin undir þessa breytingu. Fæstir þekktu bæjarmenning af eigin reynd og gerðu sér ekki ljóst, hver vandhæfni er á að byggja fagra hentuga og heilnæma bæi. [1]

Fáir einstaklingar, ef nokkur, hafa verið jafn atkvæðamiklir í skipulags- og byggðamálum þjóðar og Guðjón Samúelsson (1887–1950). Venjan er sú að borgir – sér í lagi höfuðstaðir – rísa á mjög löngum tíma og margar hendur koma að verki við uppbyggingu þeirra. Um aldamótin 1900 var Reykjavík aðeins lágreist þorp með nokkur þúsund íbúa og torfkofar settu enn svip á bæinn. Kringumstæðum er lýst í Lesbók Morgunblaðsins.

Fólk sem alist hefir upp í ágætum steinsteypuhúsum, uppljómuðum af rafmagni, með hitaveitu eða miðstöðvarhitun þar sem eru vatnssalerni og frárennsli út í neðanjarðargöturæsi, getur að vonum ekki skilið hvernig var umhorfs í Reykjavík um aldamótin. Þá voru langflest íbúðarhúsin úr timbri, hituð með kolaofnum eða móofnum, og lýsingin var ekki önnur en steinolíulampar. Vatn varð að sækja langar leiðir í brunna eða lindir, og þá þótti gott, ef hægt var að hella skolpi í opin göturæsi. [2]

Á fyrstu áratugum aldarinnar varð hins vegar gerbreyting á nærri öllum þáttum í lífi Íslendinga og á einum mannsaldri var lagður grundvöllur að nútíma iðnríki hér á landi. Reynt var að framkvæma það í einu stökki, sem aðrar þjóðir höfðu gert á hundruðum ára. Guðjón Samúelsson var þar í framvarðarsveit og í einstakri stöðu þegar stökkið var tekið. Hann var húsameistari ríkisins nánast frá því að fyrstu skrefin voru tekin og þar til að segja mátti að Reykjavík væri tekin að líkjast „alvöru“ nútímaborg á evrópska vísu. [3] Sé hugað að mikilvægi þeirra breytinga sem hann átti þátt í að koma í kring á starfsferli sínum er næsta ótrúlegt hversu lítið hefur verið ritað um störf hans. Til er ein bók, Íslenzk bygging, prentuð á Akureyri árið 1957, sem gerir tilraun til þess að fjalla ítarlega um Guðjón og verk hans, en þar fyrir utan er aðeins um tvær þrjár miðlungi langar greinar að ræða. [4] Segja má að hvati minn að þessum skrifum sé hreinlega sprottinn af þessum skorti.

Nálgun mín í þessari umfjöllun um Guðjón Samúelsson er að megninu til bundin sögulegu sjónarhorni, afmarkast við námsár hans og fyrstu starfsár. Að mínum dómi er þetta afdrifaríkt tímabil í þróun hans sem einstaklings og arkitekts – sem hefur víðtæk áhrif á byggðarsögu landsins síðar meir. Guðjón er með fyrstu mönnum til þess að kynna íbúa landsins fyrir hugmyndum og hugtökum skipulagsmála og almennt talinn fyrstur til að fjalla um þau mál með fræðilegum hætti. Fram að því að Guðjón byrjar starf sitt hér á landi hafði nærri allt sem kom að heildarhugsun skipulags- og húsnæðismála, hvernig þau gátu tengst heilbrigði og vellíðan íbúa meðal annars, verið virt að vettugi. En það átti eftir að breytast.

 

Bæjafyrirkomulag

Guðjón Samúelsson var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist „með hefðbundnum hætti“. [5] Hann gegndi embætti húsasmíðameistara ríkisins frá 1920–1950, allt frá því að hann sneri til Íslands eftir námsdvöl í Kaupmannahöfn til dauðadags. Á því skeiði teiknaði hann flest stórhýsi sem byggð voru á vegum ríkisins, fjölda smærri bygginga, auk þess sem hann átti ríkan þátt í skipulagsmálum hér á landi. En hann var ásamt Guðmundi Hannessyni lækni frumherji í þeim málum á Íslandi. [6]

Skrif Guðjóns Samúelssonar um skipulagsmál komu fyrst fyrir sjónir almennings sama ár og fyrsta teikning hans að húsi í Reykjavík varð að veruleika, árið 1912. [7] Miðvikudaginn 10. júlí birti Lögrjetta fyrri hluta greinar sem Guðjón ritar frá Kaupmannahöfn og kallast „Bæjafyrirkomulag“. Síðari hluti hennar birtist í næsta tölublaði viku síðar og voru þessi skrif að margra mati fyrsta tilraun sem gerð var til þess að fjalla um skipulagsmál á íslensku með fræðilegum hætti. [8]

Það er spurning hvort líta megi á grein Guðjóns sem einhvers konar „manífestó“. Eins manns stefnuyfirlýsingu þar sem breyttir og betri tímar eru boðaðir. Hún hefst á herhvöt manns sem stendur á mærum tveggja tíma og býr sig undir að taka fyrsta skrefið: „Bæjafyrirkomulag er eitt mesta áhugamál nútímans“. [9]

Upphafið gefur til kynna að Guðjón hafi þá þegar verið farinn að hugsa sér að eiga þátt í að hrinda íslenskum byggingarframkvæmdum inn í nútíma sem lúrði á næsta leiti. [0] Nýir tímar kölluðu á nýja menn, nýjar starfsaðferðir, og Guðjón byrjar á yfirlýsingu þess efnis að hingað til hafi bæirnir á Íslandi byggst af handahófi og hugsunarleysi. Tímabært sé að gefa skipulagi kaupstaða meiri gaum. Sú skoðun sé orðin almenn hjá málsmetandi mönnum, bætir hann við, að „til þess að bær geti þrifist, verði bæjarfyrirkomulag að vera ákveðið“.[11] Þá eigi jafnframt ekki að einskorða skipulag við skipan húsa heldur einnig að taka verðgildi lóða og heilbrigðisfyrirkomulag með í reikninginn. En hann lætur ekki þar við sitja. Hann lætur þá skoðun í ljós að arkitektúr myndi og/eða móti einstaklinginn, persónueinkenni hans, og jafnvel innræti. Hér má sjá fyrsta vísi þeirrar byggingarfræðilegu markhyggju (e. architechtural determinism) sem fylgdi Guðjóni ævina á enda. Hann vitnar í skrif enska rithöfundarins Raymond Unwin þessu til stuðnings og segir lyndiseinkunn „bæjarbúa myndast að miklu leyti af bæjarfyrirkomulaginu og húsunum“. [12] Það kann að vera, skrifar hann, að lesendum þyki þetta „mikið sagt“ en það sé aftur á móti „sannreynt“ að því verra sem bæjarfyrirkomulagið er og því „óvistlegri sem húsakynnin eru“ þeim mun „ruddalegra er fólkið“, „ósiðaðri“ unglingarnir og „óhreinni“ börnin. [13] Að hans hyggju mætti fólk á Íslandi taka mið af þessum fróðleik og yfirleitt huga meir að því „að hafa vingjarnlegra kringum hús sín“. [14] Hann leggur jafnframt til – í anda Voltaire – að maður rækti garðinn sinn, skipi honum í reiti og gróðursetji blóm, „t.d. „baldursbrá“, „mjaðjurt“ o.s.frv. og „þetta myndi geta litið mjög vel út“. [15]

Dæmi Guðjóns virðast grundvallast á einfölduðu tvenndakerfi andstæðna, þar sem eitt viðmið útilokar annað – og öfugt. Það er nánast ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en að Guðjón sjái fyrir sér beint orsakasamhengi milli umhverfis einstaklinga og athafna þeirra, jafnvel innrætis. Ljót hús geta af sér ljótt fólk, hugguleg heimili heimsmenn. [16] Hann bendir til suðurlanda og fullyrðir að glaðlyndi íbúa þeirra stafi „án efa“ af því hvað „náttúran er falleg, og hvað hinir gömlu bæir þeirra eru fallegir og í góðu samræmi við náttúruna“. Þetta er stef sem átti eftir að heyrast ítrekað í skrifum Guðjóns þegar fram liðu stundir. Sigurgeir Sigurðsson biskup skrifar til að mynda í minningargrein tæpum fjörutíu árum síðar, að daginn sem vígja átti Þjóðleikhúsið, og Guðjón lá banaleguna á Landspítalanum, hafi hann sagt: „Það er ekki hægt að ala upp góða menn nema í fallegu umhverfi“. [17] Hann var sannfæringu sinni trúr allt til loka.

Síðari hluti greinarinnar birtist í næsta tölublaði Lögrjettu 17. júlí 1912. Þar tekur Guðjón til umfjöllunar alla vega torg og áhrif þeirra á umhverfið í fagurfræðilegu og nytsamlegu tilliti og í baksýn læðist að manni sá grunur að fræjunum að háborginni hafi þá þegar verið sáð. [18] Þar vísar hann einnig talsvert til suðurlanda, í gamla bæi í sunnanverðu Þýskalandi og Ítalíu sem fyrirmyndardæmi. Það er tæpast til einhlít útskýring á því af hverju Guðjón leitar sífellt suður á bóginn í leit að lausnum við norrænum vandkvæðum en gera má því skóna að einhverjar rætur liggi í því sögulega uppeldi sem hann gekkst undir þá stundina í Kaupmannahöfn. Því eins og athygli hefur verið vakin á þá var Guðjón öðru fremur „maður hinnar klassísku hefðar í húsagerðarlist“. [19] Kennarar hans í dönsku Listaakademíunni aðhylltust svonefndan akademískan sögustíl (e. historicism, eclecticism) sem var ríkjandi á síðari hluta 19. aldarinnar og fólst í því að tilvonandi húsameistarar voru skólaðir í sögulegum stílgerðum þar til þeir höfðu þær algerlega á valdi sínu. [20] Fremur en að finna upp hjólið hvert sinn sem leitað var aðstoðar þeirra, gátu arkitektar því beitt þeim sígildu stílbrögðum sem þóttu henta best hverju sinni.

Þrátt fyrir að yfirlýst inntak skrifanna sé umfjöllun um skipulagsmál og greinin fjalli að mestu um gatnakerfi og torg, má sjá glitta í þræði úr öðru efni vefast saman við textann. Það má til dæmis greina vissa nánd við höfundinn. Textinn verður persónulegur upp að vissu marki. Þetta er markvert fyrir þær sakir að það er aðeins í tilfellum sem þessum að áhugamenn um Guðjón Samúelsson fá tækifæri til þess að sjá hann frá öðrum bæjardyrum en þeim sem Jónas frá Hriflu hefur opnað fyrir okkur. [21] Guðjón hættir á vissum punkti að halda fram bláköldum staðreyndum sem snúa eingöngu að fræðunum og miðlar eigin reynsluheimi til lesanda. Það koma fyrir stuttar rispur sem enda á upphrópunum, þar sem hann segir t.d. „Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji ekki hafa skemmtigarð. Öðru nær!“ – eða kaflar þar sem hann talar í angurværum tón um börn að leik á skítugum strætum: „Eru göturnar, eins óhreinar og þær eru, sá eini staður, sem börnin geta verið á“. [22] Þessi innskot sýna að umfjöllunarefnið stendur höfundi greinarinnar nærri. Hann leyfir sér jafnvel að verða rómantískur á köflum og talar um leikvellina sem hann vill byggja börnunum þar sem eru bekkir „rólutrje og hús, sem hægt er að fá í mjólk og kökur“. [23]

Skipulag Reykjavíkur – Skólavörðuhæðin, 1924

Skipulag Reykjavíkur – Skólavörðuhæðin, 1924

Það væri yfirsjón af hálfu lesanda að tengja þessi innskot alfarið við hinn unga hugsjónamann sem eigi eftir að láta lífið og reynsluna beygja sig í átt að jarðbundnari hugðarefnum. Þessi tilhneiging til þess að fabúlera í skrifum átti nefnilega eftir að fylgja Guðjóni alla tíð og tengdist eflaust óbifandi trú hans á mætti umhverfisins til þess að eiga ítök í lífi einstaklinga. Það mætti jafnvel segja að útópían hafi sótt í sig veðrið fremur en dalað eftir því sem á leið. Hugleiðingar Guðjóns í þessa veru eru til að mynda áberandi í grein sem hann ritar í Tímann árið 1934. Þar talar hann um möguleg samyrkjubú á landsbyggðinni. Hugmyndin virkar eins og jafngildi háborgarinnar sem átti að rísa á Skólavörðuholtinu, nema á forsendum dreifbýlisins. Guðjón fer ítarlega í saumana á kostnaði við slíkar aðgerðir, skipulag, stjórnarhætti og mögulegar staðsetningar. Rómantíkin er heldur ekki langt undan þegar hann sér fyrirmyndarsamfélag drauma sinna rísa af skissubókinni. [24]

Auk hins heilbrigða lífs, sem fylgir því að búa í vönduðum, upphituðum húsum, með ýmsum nýtízku þægindum, myndi allur heimilisbragur á hverju búi breytast vegna sambýlisins vði [svo] margar fjölskyldur á næstu bæjum. Börnin fengi [svo] tækifæri til að leika sér saman. Auðveldara yrði um alla kennslu fyrir hina uppvaxandi æsku. Unga fólkið myndi stofna félagsskap til íþróttaiðkana, skíðaferða og sleða á vetrum, en ferðalaga á sumrum. Á veturna myndi verða komið á skemmtunum fyrir alla búendur sambýlis, þar sem lesnar yrðu upp sögur og erindi flutt, en unga fólkið stigi dans á eftir. Gamla fólkið myndi leita hvert annars félagsskapar og minnast fornra daga og sveitabúskaparins, eins og hann var á þeirra uppvaxtarárum. En bóndi og húsfreyja myndu líta með velþóknun yfir byggðarlagið og horfa með trausti og gleði til framtíðar. [25]

Ráða má af fyrrnefndri grein úr Lögrjettu að Guðjón lifi í þeirri vissu að umhverfi og skipulag geti ekki eingöngu verið mikilvægt þegar hugað er að þjóðarbúskapnum heldur megi haga málum svo að það sé mannbætandi í heilsufars- og félagslegum skilningi. „Bæjarfyrirkomulagið á mikinn þátt í heilbrigði og þrifnaði bæjarbúa“, segir hann og bætir við að þar sem auð svæði eru falleg „og þeim vel fyrir komið, ginna þau fólk út í sólskinið og hið hreina loft“. [26] Guðjón ítrekar að þrátt fyrir að margir standi í þeirri trú að bæirnir á Íslandi séu það litlir að það „taki ekki að hugsa um að hafa gott fyrirkomulag í þeim“ sé það misskilningur, bæir vaxi og það sé ódýrast að „hugsa um gott bæjarfyrirkomulag sem fyrst“. [27] Því næst útskýrir hann meginatriði sem þurfi að víkja að í skipulagsmálum í sundurliðaðri greinargerð. [28]

Þar fer maður sem sér rót allra meina félagsins liggja í óskipulagi. Hann kallar á stýringu í anda – ekki eðli – ögunarsamfélags þar sem skipan hlutanna er ætlað að ala af sér „betri“ manneskjur og auka lífsgæði. [29] Hagræðing á heimilum og skipulag bæja hafa ekki eingöngu gildi í sjálfum sér heldur hafa beinlínis forvarnargildi fyrir komandi kynslóðir. Þessi orð eru skrifuð þegar Guðjón er aðeins hálfþrítugur og enn í námi – titlaður húsagerðarnemi – og það má undrum sæta hversu margt af því sem kemur fram í greininni átti eftir að einkenna embættisstörf hans síðar meir, allt til starfsloka tæpum fjörutíu árum síðar. [30]

En greinin markaði auk þess annars konar vatnaskil, önnur en þau að nýju blóði var spýtt í umræður um íslenska byggingarlist. Þegar fram liðu stundir varð „Um bæjafyrirkomulag“, ásamt riti Guðmundar Hannessonar frá 1916, Um skipulag bæja, lögð til grundvallar „við mótun fyrstu laga sem sett voru um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921“. [31] Því mætti að vissu leyti segja, líkt og Ólafur Rastrick bendir á „að þegar við upphaf faglegrar stefnumótunar á Íslandi á sviði skipulagsmála hafi sú hugsun legið til grundvallar að tengsl væru milli fagurfræði arkitektúrs og bæjarskipulags annars vegar og siðlegrar breytni og siðmenningar íbúanna hins vegar“. [32]

Í riti sem Páll Líndal sendi frá sér 1982 segir að fyrir utan greinina „Bæjafyrirkomulag“ liggi fátt eftir Guðjón í rituðu máli, „a.m.k. sem aðgengilegt er“. [33] Hvað sem því líður má ætla að sökum stöðu sinnar sem húsameistari ríkisins, þess félagspólitíska ágreinings/þrýstings sem var oft í kringum verk hans, og þeirra upplýsinga- og umbótagilda sem hann tileinkaði sér, hafi hann hreinlega ekki komist hjá því að blanda sér í dægurmálin – hann var hluti af þeim og þurfti að tjá sig. Guðjón skrifaði aldrei langar ritgerðir eða bækur, eins og Páll bendir á, sem kann að helgast af þeim önnum sem fylgdu embættisstörfum hans fremur en áhugaleysi. Dagblöð og tímarit þess tíma bera því hins vegar vitni að hann var ekki með öllu frábitinn hinu ritaða orði.

Það væri ekki ofsögum sagt að viss ljómi hafi leikið um þessa grein Guðjóns í skrifum um skipulagsmál á Íslandi. Þó verður að benda á, án þess að tilraun sé gerð til þess að varpa rýrð á innihald hennar, að tilurð greinarinnar kann að hafa stafað af veraldlegri rótum en þörfinni til þess að boða fagnaðarerindið, eins og hingað til hefur verið talið. Sagan á sér nokkurn aðdraganda og er að mörgu leyti samofin uppvexti Guðjóns.

 

Aðdragandinn

Saga Guðjóns Samúelssonar er að mörgu leyti ævintýri líkust. Raunar hefur saga hans verið skráð eins og ævintýri af Jónasi Jónssyni frá Hriflu, [34] sem átti sinn þátt í að skapa söguvitund Íslendinga á 20. öldinni með útgáfu kennslubóka sinna. [35] Í bók þeirra Jónasar og Benedikts Gröndals, Íslenzk bygging, er sagt að Guðjón hafi fæðst á Hunkubökkum í Skaftafellssýslu þann 16. apríl 1887. [36] Þegar Guðjón var á þriðja aldursári flutti faðir hans, Samúel Jónsson, með fjölskylduna að Eyrarbakka þar sem hann gerðist mikilvirkur húsasmiður. [37] Þar á Guðjón strax á unga aldri að hafa fundið þá stefnu sem líf hans átti eftir að taka, eftir því sem Jónas segir. Drengnum var skipað að gæta ánna en fórst smalamennskan illa úr hendi því hann gleymdi hvoru tveggja ánum og sjálfum sér við að mynda hús og hallir úr leir. Eftir það varð ekki aftur snúið. [38]

Guðjón varð snemma fullnuma í trésmíði undir leiðsögn föður síns sem flutti með fjölskylduna til Reykjavíkur aldamótaárið 1900, þar sem hann „átti verulegan þátt í húsagerð höfuðstaðarins á timburhúsaöldinni“. [39] Hann mun til að mynda hafa liðsinnt föður sínum við smíðar endrum og eins og vitað er með vissu að hann vann með föður sínum að smíði Hreppahólakirkju – sem faðir hans teiknaði – sumarið 1909. [40] Í ljósi þess er freistandi að geta sér þess til að hann hafi einnig verið föður sínum innan handar við að reisa tvílyft timburhús á horni Skólavörðu- og Kárastígs í Reykjavík sama ár. Sinnepsgula húsið á horni Skólavörðustígs 35, sem stendur enn, var heimili fjölskyldunnar og síðar Guðjóns, alla tíð, eftir að hann fluttist aftur heim að loknu námi. [41]

Þegar Guðjón var að slíta barnsskónum í Reykjavík fór hann í læri í teikningu hjá Stefáni Eiríkssyni myndskera (hinum oddhaga) og í tungumálanám hjá Þorsteini Erlingssyni. Þorsteinn er sagður hafa hrifist svo af listrænum gáfum drengsins að hann hafi farið til foreldra hans og tjáð þeim að „það væri skylda þeirra að gera honum fært að halda áfram námi, sem samboðið væri gáfum hans“. [42] Í bók Jónasar frá Hriflu og Benedikts Gröndal er það orðað á þá leið að „Guðjón [hafi] á þessum árum fengizt í kyrrþey við myndhöggvaralist, en foreldrar hans voru mótfallin því ráði. Hins vegar féllust þau á að kosta utanferð hans til þess að nema húsagerðarlist“. [43]

Maður getur gert sér í hugarlund að afstaða foreldra hans hafi ráðist af því að faðir hans hafði alið önn fyrir fjölskyldunni sem smiður og „átt verulegan þátt í húsagerð höfuðstaðarins“ eins og fyrr segir; og þar að auki að móðir Guðjóns var systir Sveins Jónssonar „eins athafnamesta byggingarmeistara aldamótatímabilsins í Reykjavík“. [44] Guðjón hóf því undirbúningsnám í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1905 í stað þess að fara í listnám. Þaðan útskrifaðist hann árið 1907 og ári síðar lauk hann einnig prófi í trésmíðum sem hann hafði stundað samfara undirbúningsnáminu. [45]

Síðar, um haustið eftir útskrift, settist Guðjón að í Kaupmannahöfn og sótti um í Tekniske Selskabs Skole þar sem Rögnvaldur Ólafsson og Einar Erlendsson höfðu stundað nám áður. [46] Guðjóni var hins vegar neitað um inngöngu á þeim grundvelli að „Íslendingar þyrftu ekki að læra húsgerðarlist“ en ættu fremur að einbeita sér að tala almennilega dönsku. [47] Hann varði því næstu mánuðum í að búa sig undir inntökupróf í arkitektúrdeild Listaakademíunnar 1909. Í Listaakademíunni var Guðjóni kennt að teikna í öllum hugsanlegum stíltegundum og þar steig hann sín fyrstu skref í átt til þjóðernisklassíkurinnar. Um það bil sem Guðjón var í Kaupmannahöfn voru Danir nefnilega að hverfa frá hinum akademíska sögustíl sem hafði verið ríkjandi þar um aldamótin „á svokallaðri „dúskaöld“ (d. klunketid) þar sem þjóðernisrómantísk endurnýjun var að hefja göngu sína“. [48] Næstu sex árin sat hann samfellt á skólabekk en lét sér ekki nægja að stúdera og teikna því það var um þetta bil sem hann byrjaði að skrifa og birta hugmyndir sínar um skipulagsmál, þar á meðal greinina sem birtist í Lögrjettu 1912.

Eins og fyrr hefur komið fram var forsmiðurinn Sveinn Jónsson móðurbróðir Guðjóns. [49] Og það vildi svo til að Sveinn – einn athafnamesti byggingarmeistari Reykjavíkur – var eins og flestir fremstu forsmiðir á þeim tímavirkur í félagsmálum stéttar sinnar. [50] Sökum þess, og áreiðanlega frændseminnar sömuleiðis, ritar Sveinn grein í Lögrjettu árið 1911 sem kallaðist „Um húsabyggingar“. Í greininni tekur hann fram að ætlun hans hafi veriðað „rita um húsabyggingar“ vegna þess að til stóð að „endurskoða byggingarsamþykkt Rvíkur“. [51] Hann notar hins vegar tækifærið og fordæmir opinberlega nýlega ákvörðun fjárlaganefndar að synja Guðjóni um styrkveitingu til námsins í Kaupmannahöfn. [52] Sveinn skrifar um frænda sinn:

Hann er, eins og margir vita, að læra húsagerðarfræði á Listaskólanum í Khöfn, og fær þar engan styrk, eins og þeir, sem eru á háskólanum […] Jeg var ekki við staddur, þegar þetta var rætt í efri deild, því miður, því jeg hefði þó haft gaman af að heyra ástæðurnar á móti þessum styrk í sambandi við meðmæli ýmsra annara styrkveitinga. Jeg hugsa mjer, að ástæðurnar á móti styrknum hafi verið eitthvað á þá leið, að landið þarfnist ekki byggingafróðra manna, alt þar að lútandi sje í svo góðu lagi, að það verði ekki bætt, eða að húsabyggingamál sje hjegómamál, sem alþingi varði ekki um […] Þegar nú ein einasta beiðni um styrk í þá átt, að læra að fullkomnast í byggingarfræði, fjekst ekki, og var þó ekki nema 600 kr., þá verða menn að líta svoá, að þinginu virðist landbúspóstur þessi ekki styrks verður, eða byggingarnar hjer á landi svo fullkomnar, að þar sje ekki um bót að ræða […] Jeg skil satt að segja ekki í neituninni, því þingið hefur þó oft sýnt, að það vill styrkja efnileg listamannaefni, svo sem E. Jónsson, Ásgrím málara o.fl., o.fl., og vantar okkur þó síður slíka listamenn, þótt sjálfsagt sé að styrkja þá ef hægt er. En styrkur til manns, sem er að læra húsagerðarfræði, er sjálfsagt þarfastur fyrir landið af öllum styrkjum, sem þetta þing veitir. [53]

Þetta var árið 1911, Guðjón skrifar „Um bæjafyrirkomulag“ árið 1912; árið 1913 má svo finna tilkynningu frá fjárlaganefnd þess efnis að hún telji „eðlilegast“ að hún hefði „eitthvert fje til umráða handa skáldum og listamönnum“ því oft vildu umræður um þessi málefni verða „óviðfeldnar“. [54] Hún tekur svo fram að Guðjóni Samúelssyni skuli veittar 600 kr. í námsstyrk „hvort árið“ sem hann á eftir af námi sínu. [55] Það er því ekki útilokað að hvati fyrstu tilraunar til þess að skrifa fræðilega um skipulagsmál hafi jafnframt verið að forða sultarólinni frá öðru gati.

Það ber að gefa sérstakan gaum að þessum orðum Sveins: „Jeg hugsa mjer, að ástæðurnar á móti styrknum hafi verið eitthvað á þá leið, að landið þarfnist ekki byggingafróðra manna, alt þar að lútandi sje í svo góðu lagi, að það verði ekki bætt“. Einnig: „þá verða menn að líta svo á, að þinginu virðist landbúspóstur þessi ekki styrks verður, eða byggingarnar hjer á landi svo fullkomnar, að þar sje ekki um bót að ræða“. Sveinn var einn athafnamesti byggingarmeistari bæjarins og hafði því nokkra vigt í umræðum um byggingarmál. Hann gat trútt um talað. Þessi hluti greinarinnar er í rauninni argasta háð og harðorð gagnrýni á borgarstjórn sem að margra mati var að láta bæinn drabbast niður áður en honum hafði verið hróflað upp. Ekki er þar með sagt að fyrstu fræðilegu skrif um skipulagsmál á Íslandi hafi einkum birst til þess að þrýsta á fjárlaganefnd – þótt vissulega væri hægt að draga þá ályktun. Hitt er augljóst, að efni greinarinnar sýnir þann sess sem húsnæðis- og skipulagsmál skipa innan stjórnmálanna þegar Guðjón fer utan til náms. Hér var allt í ólestri. [56]

Sagt hefur verið að manngert umhverfi endurspegli gildismat þess samfélags sem skapaði það. Fyrir bragðið væri hægt að segja að byggingarlist og borgarumhverfi feli, að vissu marki, í sér siðræna hlið – sem virðist falla ágætlega að hugmyndakerfi Guðjóns. Ætti þá, að breyttu breytanda, ekki að vera hægt að lesa nokkuð í byggingarlist þjóða um þau gildi sem eru í hávegum höfð, að minnsta kosti þau gildi sem ríktu, eða töldust ákjósanleg, þegar byggt var?

Reykjavík hefur um skeið verið mikilvæg í menningarþróunarlegum og menningarsögulegum skilningi á Íslandi. Miðbær hennar ennfremur. Hann er einn þeirra staða sem er efnisleg staðfesting á menningarsögu okkar og leggur drjúgt af mörkum til að gera okkur að þjóð. [57] Þá er spurning, fallist maður á að manngert umhverfi endurspegli gildismat þess samfélags sem skapaði það, hvort snúa megi fullyrðingunni á haus: Hvort samfélagið endurspegli ekki – að lokum – gildismat þeirra bygginga sem eru reistar?

 

Ef hús fellur í borginni og það er enginn sem heyrir …

Í upphafi 20. aldarinnar var mikill framfarahugur í Íslendingum. Fólk flutti unnvörpum úr sveitinni á mölina í leit að lífsgæðum. Reykjavík fór ört vaxandi og stöðugt vantaði húsnæði. Landið „var kalt og veðrasamt og engar menntastofnanir í listum eða verkfræðum gátu vísað veginn“. [58] Berklar voru landlægir, hreinlæti var ábótavant og bústaðir fólks ekki til þess hæfir að ráða á þessu bót. Svo lítið var um byggingarefni að dæmi eru um að heil hverfi hafi risið sem voru að mestu úr kassafjölum og bárujárni. [59] Færð hafa verið rök fyrir því að Reykjavík hafi aðeins borið nafnið „höfuðstaður“ sökum dómkirkjunnar og latínuskólans. Alþingi kom saman í skólanum og menningin rúmaðist á kirkjuloftinu: „stiptsbókasafn og forngripasafn“. [60] Íslensk húsagerð bar tímunum vitni og þær skoðanir heyrðust viðraðar að mestur hluti höfuðstaðarins væri „skammarblettur á íslenskri þjóð“. [61]

Jóhannes Sveinsson Kjarval

Jóhannes Sveinsson Kjarval, 1934 / Mynd: Willem van de Poll

Jóhannes Sveinsson Kjarval skrifaði endrum og eins í blöðin um hugðarefni sín á þriðja áratugnum, lágu þá menningarmálin iðulega undir og höfuðborgin var sjaldnast langt undan. Hann lýsir bæjarmyndinni í upphafi 20. aldar þannig: „Hver meðal múrari var tekinn góður og gildur til þess að setja svip á þennan bæ – og hröngla upp húskofa í flýti fyrir lítil efni manna– sem sjá nú óprýði og vanheilsu í þeim augnabliks húsakynnum – og þó var þetta altsaman þakkar vert, eins og sakir stóðu, því helst lítur út fyrir, að þetta sé lögbundið við seinþroska einangraðar þjóðar á vissum sviðum“. [62] Íslendingar voru bændaþjóð komnir skammt á veg í þróun í átt til nýrra tíma iðnaðar- og borgarsamfélags og höfuðstaður þeirra bar þess merki.

Á mótum annars og þriðja tugar tuttugustu aldar fékk fólk lausan tauminn hvar og hvernig það reisti sér hús og margir byggðu án þess einusinni að hafa fengið úthlutað lóðum. Knud Zimsen, sem þá var borgarstjóri, taldi víst ekki réttmætt að gera of miklar kröfur til þeirra sem byggðu í því húsnæðisleysi sem ríkti og mestu skipti að fá húsin upp. [63] Zimsen er sagður hafa gefið húsnæðislausum grænt ljós að byggja sér kofa eftir efnum upp á Skólavörðuholti með orðunum: „ég skal láta ykkur hafa götulínuna“ og það er um þessar mundir sem goðahverfið byggist. [64] Sökum þessarar blöndu vanefna, kunnáttu- og stjórnleysis ægði saman alla vega húsum í alla vega ástandi og bærinn endaði í bendu. Það var til að mynda ekki óalgengt að„hávær iðnaðarfyrirtæki væru inni í miðjum íbúðarhverfum“ og dæmi voru um að „sláturhús hefði verið byggt við hliðina á sjúkrahúsi“ og „íshús sunnan undir kirkjuvegg“ svo eitthvað sé nefnt. [65]

Að því sögðu er fróðlegt að velta fyrir sér hvaða ályktanir maður myndi draga um höfuðstaðinn, féllist maður á þá fullyrðingu að samfélagið endurspeglaði „gildismat þeirra bygginga sem eru reistar“. Af gefnum forsendum sæju áreiðanlega flestir fyrir sér að óeirðaástand hafi ríkt í bænum, einskonar eilíf en hversdagsleg kjötkveðjuhátíð. Víst má gera ráð fyrir að innan um allt óðagotið við húsagerð og taumlausa byggingastefnu borgarstjóra hafi ekki verið gefinn mikill gaumur að öryggismálum á borð við eldvarnir og því um líku. Hugsi maður til þess að timburhúsum ægði saman án skipulags eða eftirlits, og allt kynt með kolum, gæti maður jafnvel komist að þeirri niðurstöðu að bruninn í Austurstræti 1915 hafi verið óhjákvæmilegur. Eitthvað hlaut að brenna, fyrr eða síðar, og aðeins hending réð hvar.

 

Römm er sú taug

Stórbruninn sem kom upp í Hótel Reykjavík aðfaranótt 25. apríl varð tilþess að borgarsamþykkt bæjarins lagði blátt bann við byggingu timburhúsa í þéttbýli. [66] Ætlunin var að sporna við bruna af þessari stærðargráðu í framtíðinni og fyrir vikið runnu upp nýir tímar í byggingarframkvæmdum hér á landi. [67] Eftirspurn eftir húsnæði í bænum jókst jafnt og þétt og hafist var handa við endurbyggingu í bænum nær samstundis. Þjóðinni hafði áskotnast nokkur stríðsgróði í viðskiptasamningum við Breta og síðar Kanann og menn voru stórhuga um framkvæmdir. Ný hús voru reist í stað þeirra sem brunnu, þrí- og fjórlyftar randbyggingar – samfelldar húsaraðir – út að götu. Með þessu lagi var stefnt að því að gera miðbæinn þéttbyggðari og ýta undir borgarbraginn. Miðbærinn var að fá á sig nýja mynd, verða eins konar „steinbær“ eins og það var kallað í fyrirsögn í Morgunblaðinu 7. júní 1915. Steinsteypuöld gekk í garð. [68]

Verslunarhús Nathan & Olsen við Austurstræti 16

Verslunarhús Nathan & Olsen við Austurstræti 16 / Mynd: Magnús Ólafsson (Ljósmyndasafn Reykjavíkur).

Á sama tíma og steinsteypuöld hefst á Íslandi fær Guðjón álitlegan ferðastyrk fyrir tilstilli eins prófessorsins við skólann svo hann geti ferðast um Noreg og Svíþjóð. Þar ver hann sumrinu í rannsóknir á byggingarlist þessara þjóða en í stað þess að snúa aftur til Danmerkur að þeim loknum heldur hann heim til Íslands. Ástæðuna telja flestir vera brunann í Reykjavík en eins má vera að andlát systra hans tveggja hafi orðið þess valdandi að hann snýr heim. [69] Við heimkomuna buðust Guðjóni mörg verkefni. Ein fyrsta bygging hans frá þessum árum var Verslunarhús Nathan og Olsen á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Það sýnir að menn hlutu að hafa borið talsvert traust til Guðjóns því byggingin var þá „mesta steinsteypuhús, sem fram að þeim tíma hafði verið reist á Íslandi“. [70] Húsið ber auk þess námsárum Guðjóns í Danmörku glöggt vitni en hann hafði eins og fyrirrennarar hans verið alinn upp við að beita sögustílnum fyrir sig, leita fyrirmynda „hvaðanæva úr tíma og rúmi“. [71] Nýbarokkið bar hæst í Kaupmannahöfn þegar Guðjón dvaldi þar og áhrifin eru greinileg í húsinu. [72] Með þeirri byggingu markar hann á vissan hátt skil í þróunarsögu miðbæjarins frá skipulagssjónarmiði. Þar gerir Guðjón sitt ítrasta til þess að sýna í verki þau gildi borgarbyggðar sem hann hafði kallað eftir í áðurnefndri blaðagrein frá 1912. Þar að auki varmikið lagt í tækjabúnað hússins. Sérstök rafstöð var reist til þess að sjá því fyrir orku – þar sem rafmagnsveita bæjarins var ekki komin til sögunnar –og lyfta sett í húsið, en hvort tveggja var nýmæli í íslenskum byggingum. [73]

Guðjón sýnir snemma hvert hugur hans stefnir því hann reynir að sjá fyrir sér heildarmyndina þegar í upphafi verks. Hann hugsaði hús Nathan & Olsen sem hluta af stærri heild en ekki eitt afmarkað verkefni. [74] Hann hugsaði sér húsið sem anga af „skipulagðri byggð kringum Austurvöll, þ.e. veglegra bygginga, að jafnaði sambyggðra, sem ramma skyldu inn völlinn […]“. [75] Hann sá meira að segja fyrir sér að hornið á Austurstræti og Pósthússtræti yrði að eins konar borgarhliði, sem vísi inn í bæinn. Í þá daga var önnur aðalaðkoman til Reykjavíkur af sjó um steinbryggjuna sem lá beint fram af Pósthússtræti. [76] Guðjón setur áberandi turn á norðvesturhornhússins og hann sér fyrir sér að húsið sem reisa á hinumegin götunnar muni skarta öðrum eins. Það olli honum því töluverðum vonbrigðum þegar Einar Erlendsson, síðar aðstoðarmaður hans og arftaki í starfi, hannar Austurstræti 16 án þess að draga horn þess fram með turni.

Um ytra útlit skal ég geta þess, að báðu megin við Pósthússtræti og sunnan við Austurstræti hafði ég hugsað mér að turnar kæmu á hornbyggingarnar, og því gerði ég turn á hornið á þessari byggingu. Þessa turna hugsaði ég mér [sem] eins konarhlið inn í Miðbæinn. En því miður hefir þessi hugmynd ekki komizt í framkvæmd, því að hús Jóns Þorlákssonar, sem stendur andspænis húsinu Austurstræti 16, er byggt gjörsamlega í öðrum stíl og álít ég það illa farið. Það hefði gefið bænum talsverðan svip, ef komið hefðu þarna tveir turnar við aðalinngöngugötu bæjarins. [77]

Pétur H. Ármannsson hefur kallað þessi ár, 1915–1919, þegar Guðjón var enn við nám og sjálfstætt starfandi, fyrsta tímabilið í verkum hans og þetta er jafnframt tilraunaskeið steinsteypualdarinnar. [78]

Verkefnin voru næg og gáfu vel í aðra hönd fyrir Guðjón heima á Íslandi og honum varð fljótlega ljóst að hann þyrfti hvorki á lengra námi né lokaprófi í húsagerðarlist að halda til þess að geta unað hag sínum vel. Samkvæmt óútgefinni verkskrá sem Pétur H. Ármannsson hefur tekið saman um verk Guðjóns má sjá að hann hefur verið störfum hlaðinn. Af stærri verkefnum sem hann hafði á könnu sinni má nefna verslunarhús Nathans og Olsen, Austurstræti 7 (þar sem áhugi Guðjóns á sveitabæjarstílnum, ásamt því að leita fyrirmynda í náttúrunni kom fram í burstunum ásamt báruskrautinu sem prýddi burstirnar), íshúsið á Fríkirkjuvegi (nú Listasafn Íslands), auk fjölda smærri verkefna og alla vega breytinga. En þá taka hlutirnir skyndilega óvænta stefnu og má þá einkum tína tvennt til sem vó þungt í aðstöðubreytingunni.

Fyrst ber að nefna að skömmu eftir að Guðjón kemur heim í fyrra skiptið, kemur út bók Guðmundar Hannessonar, Um skipulag bæja. [79] Hún birtist í aukariti Árbókar Háskóla Íslands 1916, beint í kjölfar brunans í Austurstræti og var ásamt ítarlegri umfjöllun um borgarfræði, eins konar „ádeila á skipulagsmál Reykjavíkur“. [80] Það er spurning hvort Guðmundur hafi séð sér leik á borði með útgáfunni, gripið tækifærið í kjölfar þeirrar umræðu sem spannst kringum bæjarbrunann, til þess að gera „grein fyrir mikilvægi bæjarskipulags með hliðsjón af lífsskilyrðum íbúanna og möguleikum þeirra á heilnæmuumhverfi. [81] En fram að því voru fáir sem lögðu hlustir við þvílíku.

Í riti Guðmundar finnur Guðjón sér bróður í anda og ærið tilefni til þessað upplýsa almenning um ágæti skipulagsmála með því að skrifa grein sem birtist í Ísafold í nóvember. Guðjón byrjar á því að þakka höfundi bókarinnar fyrir að koma svo „þýðingarmikilli fræðigrein“ inn í bókmenntir þjóðarinnar og hefst svo handa við að reifa innihald hennar fyrir lesendum blaðsins. [82] Greinin er mjög athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Til dæmis kemur greinilega í ljós að Guðjón hefur þá þegar myndað sér ákveðnar skoðanir og er óhræddur við að gagnrýna það sem honum þykir of eða van í bók Guðmundar. Það kemur skýrt fram í greininni að Guðmundur hafi sinn lærdóm nær eingöngu af bókum en Guðjón sé þeirrar reynslu aðnjótandi aðhafa ferðast víða og séð í verki þær hugmyndir sem Guðmundur talar um. Eins bætir Guðjón eigin athugasemdum við í innskotum á milli þess sem hann ræðir um ritið. Í einu þessara innskota minnist Guðjón á tilraun sem gerð var í Englandi til þess að bæta „úr hinu hörmulega ástandi verkamanna“ þar. [83] Þetta er að sjálfsögðu hugmyndin um verkamannabústaðina sem Guðjón átti síðar eftir að gerast talsmaður fyrir. [84] Þar fyrir utan er rétt að gefa því gaum að Guðjón minnist á „fyrirmyndarbæinn“ Port Sunlight sem er gerður að einu viðmiðinu í riti Guðmundar.

Port Sunlight var afurð tilraunar sem eigendur sápufyrirtækisins Sunlight stóðu fyrir í lok nítjándu aldar. Þetta var verksmiðjubær í þeim skilningi að eigendurnir byggðu hann eingöngu fyrir starfsmenn verksmiðju sinnar. Þeir staðsettu bæinn með tilliti til aðgengis að vatni og samgöngum og sáu svo til þess að starfsmenn sínir hefðu allt til alls innan svæðisins: spítala, skóla, hljómleikasali, sundlaugar, kirkjur og svo framvegis. Auk þess buðu þeir uppá heilsuþjónustu, menntun og ýttu undir tómstundaiðkun bæjarbúa. Í huga Guðmundar og Guðjóns var Port Sunlight sönnun þess að mögulegt væri að byggja vel skipulagt fyrirmyndarsamfélag frá grunni ef aðeins væri hugað að skipulaginu frá fyrsta degi. [85]

Um þessar mundir andaðist byggingarfræðingur landsstjórnarinnar, Rögnvaldur Ólafsson, og þáverandi forsætisráðherra Jón Magnússon bauð Guðjóni stöðuna. [86] Jón setur hins vegar það skilyrði að hann ljúki fullnaðarprófi við listaháskólann. Tilboð Jóns er of gott til þess að hægt sé að hafna því. Borgin var full af möguleikum og þarfnaðist aðeins skipulagningar kunnáttumanns til þess að mannlíf og menning myndu blómstra. Þar á ofan skyldi Guðjón „fá fyrir starf sitt föst laun til jafns við vegamálastjóra, en aukþess hálfa greiðslu, eftir taxta húsameistara, fyrir hvert það hús, sem hann reisti fyrir ríkið“. [87] Guðjón hugsar sig ekki tvisvar um en heldur rakleiðis til Kaupmannahafnar til þess að ljúka námi.

Tveimur árum síðar, árið 1919, gengust tuttugu og tveir nemendur undir fullnaðarpróf í Listaakademíunni en aðeins níu stóðust. Fjórir þeirra hlutu fyrstu einkunn og þeirra á meðal var Guðjón Samúelsson. [88] Þá hafði hann lokið grunnnámi í byggingartækni og listum og þriggja ára framhaldsnámi í hönnun. Guðjón varð þar af leiðandi fyrstur Íslendinga til þess að ljúka háskólaprófi í byggingarlist. Guðjóni var í framhaldi af útskrift sinni boðinn rausnarlegur styrkur til frekara náms í Bandaríkjunum en hann afþakkaði. Hugur hans stefndi heim þar sem staða húsameistara ríkisins og ógrynni óleystra verkefna biðu hans. Borgin beið. Það yrði á valdi hans að móta og mynda borgarmyndina fyrir komandi kynslóðir. Hörður Ágústsson lýsir þessu tímaskeiði í Íslenskri byggingararfleifð 1:

Í upphafi 20. aldar var mikill framfarahugur í Íslendingum. Reykjavík og sjávarplássin víða um land voru ört vaxandi bæjarsamfélög […] Fólk flutti unnvörpumúr sveit að sjó […] Alstaðar þurfti því að byggja og víðast hvar frá grunni. Mikið verkefni og vandasamt beið þeirra sem móta áttu umbótahug Íslendinga í sýnilega mynd, arkitekta, verkfræðinga og forsmiða. [89]

Þegar Guðjón tekur við embætti húsameistara átti ríkið nánast engar byggingar úr varanlegu efni en það átti eftir að breytast með tilkomu steinsteypunnar. Það var í verkahrings húsameistara að teikna og reisa alla vega stórhýsi til almennra þarfa. Það þurfti að gera teikningar að „skólum, kirkjum, prestssetrum, sjúkrahúsum, opinberum íbúðarhúsum“, sundlaugum, íþróttahúsum, símstöðvum, veitingastöðum, gistihúsum, „og öðrum byggingum sem reistar voru á vegum landssjóðs og sjá um breytingar á þeim, stórar sem smáar“. [90] Því verður tæpast lögð nógu mikil áhersla á hlut hans í því að móta „umbótahug Íslendinga í sýnilega mynd“.

Þegar Guðjón var búinn að fylla ár í starfi húsameistara ríkisins, 1921, eru fyrstu lög um skipulag kauptúna og sjávarþorpa sett á alþingi. Í framhaldi af því er Guðjóni skipað sæti í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins sem fór skömmu síðar fram á það við bæjarstjórn „að gerður yrði skipulagsuppdráttur að Reykjavík“. [91] Úr þessari umleitan spratt samvinnunefnd ríkis og bæjar árið 1924 sem var metár í efnahagslegri afkomu Íslands. Ríkissjóður tútnaði út með þeim afleiðingum að ríki og bæjarfélög gátu hafist handa við mannvirki sem höfðu þurft að bíða meðan illa áraði. En einu gilti hversu mikið var byggt, alltaf virtist vera húsnæðisskortur því fólk hélt áfram að streyma til bæjarins. [92] Samvinnunefndin lagði fram heildarskipulagsuppdrátt að Reykjavík árið 1926 sem var samþykktur í meginatriðum ári síðar. Nefndin tók til óspilltra málanna en þrátt fyrir að allir hafi verið af vilja gerðir mun víst, að „meginþungi hinnar eiginlegu skipulagsvinnu [hafi] hvílt á herðum Guðjóns Samúelssonar“. [93] Áratugurinn milli 1920 og 1930 hefur sökum þess, með réttu, verið kallaður tímabil Guðjóns Samúelssonar í íslenskri byggingarsögu vegna þeirra víðtæku áhrifa sem hann hafði á þeim árum. Það er ekki eingöngu vegna þess gríðarlega fjölda verkefna sem komu frá hans hendi á því tímabili heldur var hann jafnframt „listrænn leiðtogi þeirrar húsagerðar sem einkenndi þennan áratug“ og Hörður Ágústsson listmálari kallaði steinsteypu-klassík. [94]

Meðal þeirra húsa Guðjóns frá þessum tíma sem enn setja svip sinn á borgarmyndina eru spennistöðvar Rafmagnsveitu Reykjavíkur við Bókhlöðustíg, Klapparstíg og Vesturgötu; verkamannabústaðirnir við Framnesveg; Landsbankahúsið í Austurstræti; Vonarstræti 4; Landsspítalinn; Landakotskirkja; Hótel Borg; Arnarhvoll á Lindargötu en þar áður hafði hann byggt verslunarhús Nathans og Olsen og Skrifstofuhús Eimskipafélags Íslands í Pósthússtræti þar sem nú – líkt og svo víða annars staðar í miðbæ Reykjavíkur – er hótel. [95] Þetta mun aðeins vera sýnishorn af því sem hann kom í verk í Reykjavík og þá er ótalið allt sem hann gerði á landsvísu. Sumum sem drógu andann á þessu skeiði þótti sem lífið blasti við þeim og yfirlýsingar eins og „Framtíðin ljómar öll, dýrleg, undursamleg. Oss tekur að dreyma stóra drauma og dásamlega“ tóku að sjást í skrifum manna. [96] Augu manna tóku um leið að opnast fyrir því að borgin væri ljót og það þyrfti að byggja, endurnýja og leggja á ráðin. Algengt var að greinar birtust í blöðunum þar sem sagt var af eldheitum umræðum á bæjarstjórnarfundum. Þar orðaði fólk skoðanir sínar um að flest húsin í Reykjavík væru „illa gerðir og ólögulegir kumbaldar“ og að bærinn væri svo ljótur sökum fátæktarog ofvaxtar að byggingarnefndin væri ekki vandanum vaxin: „Það eru brjóstumkennanlegir menn, sem eru til þess útvaldir, að vera í byggingarnefnd í Reykjavíkur [svo] – í jafnherfilega ljótum bæ“. [97]

 

Hjer í liggja ástæðurnar

Í fyrsta sinn í sögunni kom til greina að Reykjavík yrði höfuðborg í öðrum skilningi en aðeins að nafninu til. Allur asinn sem virtist fylgja fólksmergðinni virtist á sama hátt skjóta sumum skelk í bringu. Menn óttuðust að borgin yxi of geyst og afleiðingarnar hlytu að verða slæmar fyrir heill þjóðarinnar. Árið 1925 skrifar Jón H. Þorbergsson:

[M]entaþjóðir sjá betur og betur sannleik þessa máls. Sjá það, að fjöldinn af kaupstaða- eða borgarbúum verða andlegir og líkamlegir fátæklingar, og að stöðug fjölgun fólks í bæjum, en fækkun í sveitum, dregur óðum til úrkynjunar og eyðileggur þjóðflokkana […] Fólkið hrúgast í kaupstaðina, og fyrir fjölda þess verður hlutskiftið þetta: Óstöðug atvinna, þröng húsakynni og dýr, einhæft og oft ófullkomið fæði, sollblandið fjelagslíf, iðjuleysi unglinga, götulíf – og engin efni. Hjer í liggja ástæðurnar fyrir því að fólkið úrkynjast, tapar bæði andlegum og líkamlegum þrótti. [98]

Um þessar mundir fara umræður um menningarmál að tvinnast saman við byggingar- og skipulagsmál á Íslandi og meðan sumir vildu sækja fram vildu aðrir leita leiða til þess að halda í gömul gildi. Menningarsjóður er settur á laggirnar 1928 að undirlagi Jónasar frá Hriflu og gerir sitt til þess að hefta framrásina og heimilar að veita verðlaun fyrir teikningar að húsum „þar sem leitað væri samræmis við höfuðdrætti í náttúru landsins“. [99] Guðjón Samúelsson kemur á þessum tíma heim úr alþjóðlegu umhverfi og flytur viðhorf þess með sér í verkum sínum. Þau féllu hins vegar ekki í kramið hjá öllum hérlendis. Hugsanlega var það sökum þess að hér á landi var fornt bændasamfélag sem „hafði nýlega hrundið af sér helsi erlends valds og leitaði sjálfsvitundar í fortíð sinni“. [100]

Jónas frá Hriflu

Jónas frá Hriflu

Þriðji áratugurinn einkennist hér á landi af þverstæðum og togstreitu. Annars vegar reyna ráðamenn að sanna fyrir umheiminum að Ísland og íslensk menning standi jafnfætis öðrum „menningarþjóðum“ heimsins og til þess þarf samfélagið að nútímavæðast. Hins vegar – og það er einnig þáttur í nútímavæðingu Íslands – er sjálfstæðisbaráttan í fullum gangi og henni fylgir sjálfsmyndarsköpun sem er nátengd öllu sem fornt er. Tvennt gerist í senn. Haldið er í tvær áttir samtímis. Benedikt Hjartarson hefur rannsakað þessa þverstæðu og þykist „greina sameiginlega þræði í skrifum menntamanna um framtíð íslenskrar menningar á þessum tíma: flytja á inn það besta úr evrópskri menningu en vernda íslenskt þjóðfélag fyrir spillingaráhrifum nútímans“. [101] Benedikt bendir á að í grein sem Einar Olgeirsson skrifar í ritið Réttur árið 1926 birtist tvíbent viðhorf til nútímamenningar þess tíma. Einari finnst nauðsynlegt að opna þjóðlíf fyrir uppbyggilegum áhrifum en á sama tíma þurfi að vernda það fyrir alþjóðlegum meinum sem eiga rót í sama brunni. Benedikt telur grein Einars Olgeirssonar lýsandi fyrir hugmyndafræðilegar þverstæður sem gegnsýrðu orðræðu og listastefnur á sínum tíma og þá ekki síst þá skoðun hans að opna þurfi landið fyrir erlendum menningarstraumum en engu að síður að taka tillit til sérstöðu íslenskrar menningarhefðar. Einar vill, með öðrum orðum, éta kökuna en eiga hana, fá heimsenda pítsu með þjóðlegu áleggi – sushi úr súrmat.

Nýir tímar voru í vændum og menningin skyldi fylgja í svelginn sem þeimfylgdu. Aftur á móti voru menn klofnir í skoðunum hvort synda ætti með eða á móti straumnum. Annars vegar voru nýjungagjarnir listamenn sem vildu segja skilið við afdalina og tengja sig stóru hugmyndastraumunum sem flæddu um senuna í Evrópu. Ein leiðin sem farin var í þeim tilgangi var notkun framúrstefnulegra hugtaka á borð við expressjónisma, súrrealisma, dadaisma o.s.frv. Litið var á slíka hugtakanotkun sem „tákn um róttækanútímahyggju“ sem fæli í sér „ákall um byltingarkennda nútímavæðingu íslenskrar menningar“. [102] En nútímavæðing ríkisvaldsins átti einnig sinn þátt í röð atburða. Í doktorsritgerð Ólafs Rastrick segir til dæmis að áhugi íslenskra stjórnmálamanna á menningar-, mennta- og heilbrigðismálum – sem öll áttu sameiginlegan snertipunkt í borgarskipulagi Reykjavíkur – hafi ekki verið tilviljun heldur nauðsynlegur „á grundvelli almennrar þróunar í átt til frjálslynds lýðræðis og þjóðríkja“. [103]

Hins vegar voru þeir sem stóðu á hinum vængnum og vildu bregðast við flóttanum á mölina og treysta gömul gildi með því að koma á fót héraðsskólum í sveitum til þess að „rótfesta hjá æskulýðunum þar ást og virðingu fyrir sveitalífinu og framförum þess. Og glæða skilninginn á nauðsyn og þörf þjóðarinnar að rækta og byggja landið“. [104] Ekki fór hjá því að Guðjón, þrátt fyrir að vera einhvers konar Prómeþeifur byggingarlistar á Íslandi, yrði fyrir áhrifum af þjóðernisvakningu þessara ára og þess gætir í vinnubrögðum hans.

Framan af fylgir hann þeirri braut sem forverar hans, Einar Erlendsson og Rögnvaldur Ólafsson, höfðu lagt við húsasmíð. Það var einkum hin sígilda söguskoðun sem rekja mátti til gotnesku hreyfingarinnar í Evrópu. [105] En hann fer sömuleiðis snemma að gefa gætur að innlendri hefð með það fyrir augum að gera tilraunir með að endurvekja hana eða endurnýja. Hann var ötull við þessar tilraunir til sveita og átti stóran þátt í tímabili hinna steinsteyptu burstabæja á þriðja áratugnum, teiknaði fjöldann allan af embættisbústöðum, skólahúsum og bóndabæjum í burstabæjarstílnum. [106] Á næstu árum færast tilraunir Guðjóns svo í aukana og í stað þess að særa fram forneskju lands og þjóðar í hertri steypu leitar hann að einhverju nýju. Hann vildi búa til „íslenska, þjóðlega byggingarlist og fylgdi þar svipaðri stefnu þjóðernisrómantíkur og finna mátti víða í Evrópu um sama leyti“. [107]

Barbara Miller Lane hefur fjallað um þjóðernislega rómantík í arkitektúr á þessum tíma og heldur því fram að stefnan sé mikilvægur, og vanmetinn, undanfari módernismans. [108] Hún telur þó réttast að einskorða hana við ákveðin lönd Evrópu og hefur þá helst Þýskaland, Danmörku, Finnland, Svíþjóð og Noreg í huga. Sameiginleg tenging þessara landa innan þjóðarrómantísku stefnunnar myndi þá vera hinn sameiginlegi „norræni draumur“ þar sem íbúar þessara landa reyna að tengja sig við eddur og fornsögur.

Sumar af hugmyndum Guðjóns, sem sóttu fremur í alþýðumenningu en goðafræðina, komust reyndar ekki lengra en í rissbókina, eins og uppdrættir af bænum í Reykholti árið 1922 og sundhöllin í Reykjavík votta. Það er kannski til marks um togstreitu tímanna og hvað verkefnin gátu breyst frá fyrstu drögum þar til þau voru reist. Sundhöllin sem var upphaflega teiknuð í burstabæjarstíl endar í nýgotneskum stíl, eða nokkurs konar hæfingu klassíkur að íslenskri steinsteypuhefð. [109] Þessi þverstæða verður svo enn öfgakenndari sé hún sett í stærra samhengi. Því sé litið yfir hafið má sjá að um líkt leyti og þjóðlegar þreifingar eru efst á baugi hér, þá eru módernistar á meginlandi Evrópu þegar farnir að boða byggingarlist og borgarskipulag þar sem „hefðbundnu gildismati er varpað fyrir róða og leitast við að finna upp nýtt sem samsvari kröfum tímans og þörfum þjóðfélagsins“. [110]

 

Siðun þjóðar

Allar átakslínur dægurmálanna virðast skerast í einum punkti og þar standa tveir menn, Jónas frá Hriflu og Guðjón Samúelsson þétt við hlið hans. Í bók Ólafs Ásgeirssonar, Iðnbylting hugarfarsins, er því haldið fram að kringum 1920 hafi framfarahugsunin sem kenna mátti í upphafi aldar látið í minni pokann fyrir þeirri stefnu varðveislusinna að hamla gegn iðnvæðingu og hefja sveitina og gildi hennar til vegs og virðingar. Í því tilfelli þurfti hinsvegar líka að byggja og skipuleggja byggðarlag og því er eins og það skipti litlu hvar maður stígur niður. Skipulagsfræðin sem höfðu verið svo gott sem óþekkt í hugsun, hvað þá verki, fram að miðjum öðrum tug aldarinnar, eru skyndilega í miðju allra mála.

Hér hefur aðeins verið drepið á því helsta frá mótunarárum og upphafi starfsferils Guðjóns og fremur hugað að skipulagsmálum og þeirri umbótaorðræðu sem þeim fylgdi en farið út í tæknilega þætti bygginga hans. Í upphafi þessara skrifa stendur að það sé vandfundinn sá maður sem hafi komið jafnmikið við sögu uppbyggingar einnar borgar og almennrar vitundarvakningar varðandi skipulagsmál og Guðjón. Þessi yfirferð ætti að hafa brugðið eilítilli birtu á þá staðreynd og þar að auki skýrt að æviverk Guðjóns liggur fyrir frá upphafi. Hann skipar sér í flokk íslenskra lista- og menntamanna á þessu tímabili og einbeitir sér að einu lykilverkefni þeirra tíma.

Hörður Ágústsson hafði talað um að móta umbótahug þjóðarinnar í sýnilega mynd en ætla má að því hafi verið öfugt farið í huga Guðjóns. Að hans dómi var beint orsakasamhengi milli umhverfis einstaklinga og athafna þeirra og eðlishættir fylgja með í kaupbæti. Hið eiginlega verkefni Guðjóns var aldrei að byggja hús heldur siðun þjóðarinnar.

 

 

 

 

Heimildir

  • Applegate, Celia „National Romanticism and Modern Architecture in Germany and the Scandinavian Countries by Lane, Barbara Miller“, Central European history, 4/2002.
  • Atli Magnús Seelow, „Verslunarhús Nathan & Olsen við Austurstræti. Hornsteinn Guðjóns Samúelssonar að nýjum miðbæ Reykjavíkur“, Saga, 1/2012.
  • Á. Ó. „Þáttaskil í byggingarsögu Reykjavíkur“, Lesbók Morgunblaðsins, 31. desember 1959.
  • Benedikt Hjartarson, „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum og sjáendum. Um upphaf framúrstefnu á Íslandi“, Ritið, 1/2006.
  • Broady, Maurice „Social Theory in Architectural Design“, People and buildings, ritstj. Robert Gutman,
  • New Jersey: Transaction Publishers, 2009.
  • Descartes, René, Orðræða um aðferð, þýð. Magnús G. Jónsson, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998.
  • Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, Saga Reykjavíkur: bærinn vaknar. 1870–1940. Síðari hluti. Reykjavík: Iðunn, 1994.
  • Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, Lögrjetta, 10. júlí 1912, bls. 1.
  • Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag niðurl.“, Lögrjetta, 17 júlí 1912, bls. 1.
  • Guðjón Samúelsson, „Íslensk húsagerð og skipulag bæja“, Tímarit V.F.Í., 1–3/1930.
  • Guðjón Samúelsson, „Íslenzk byggingarlist: Nokkrar opinberar byggingar á árunum 1916–1934, eftir Guðjón Samúelsson, húsameistara ríkisins“, Tímarit V.F.Í., 6/1933.
  • Guðjón Samúelsson, „Um Skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson“, Ísafold, 18. nóvember 1916.
  • Gunnar Harðarson, „Að byggja upp á nýtt“, Smásmíðar: tilraunir um bóklist og myndmenntir, Reykjavík, Bjartur, 1998.
  • Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur: Genius Reikiavicensis, Reykjavík: JPV, 2008.
  • http://bokmenntaborgin.is/?post_type=mapplace&p=853
  • http://bokmenntaborgin.is/?post_type=mapplace&p=853.
  • http://www.library.cornell.edu/Reps/DOCS/sitte.htm
  • http://www.library.cornell.edu/Reps/DOCS/sitte.htm.
  • Höfundur óþekktur, „Dagbók“, Morgunblaðið, 6. febrúar 1919.
  • Höfundur óþekktur, „Fjárlögin í efri deild“, Ísafold, 28. apríl 1911.
  • Höfundur óþekktur, „Fjárlögin“, Lögrjetta, 13. ágúst 1913.
  • Höfundur óþekktur, „Frá alþingi“, Ísafold, 5. apríl 1911.
  • Höfundur óþekktur, „Frá bæjarstj.fundi“, Morgunblaðið, 9. október 1920.
  • Höfundur Óþekktur, „Frá bæjarstjórnarfundi á fimmtudagskvöldið“, Morgunblaðið, 18. apríl 1926.
  • Höfundur óþekktur, „Gluggað í hina áhrifamiklu kennslubók Jónasar frá Hriflu um Íslandssögu“, Tíminn, 6. febrúar 1983.
  • Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð, Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins, 2000.
  • Jóhannes Sveinsson Kjarval, „Guðjón Samúelsson, Tryggvi Magnússon, Guðmundur Hannesson, Alexander Jóhannesson“, Vísir, 12. janúar 1925.
  • Jóhannes Sveinsson Kjarval, „Reykjavík og umhverfið: Miðbærinn og útsýnið. Skemmtigarðurinn og tjörnin“, Morgunblaðið 18. mars 1923.
  • Jón H. Þorbergsson, „Ræktun og þjóðmenning“, Búnaðarrit, Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg, 1925.
  • Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, Íslenzk bygging: brautryðjandastarf Guðjóns Samúelssonar, Akureyri: Norðri, 1957.
  • Jónas Jónsson, „Guðjón Samúelsson“, Fegurð lífsins, Komandi ár, Reykjavík: Samband ungra framsóknarmanna, 1960.
  • Lárus Sigurbjörnsson, Þáttur Sigurðar málara: brot úr bæjar- og menningarsögu Reykjavíkur, Reykjavík: Helgafell, 1954.
  • Lúðvík Kristjánsson, Úr borg í bæ: nokkrar endurminningar Knud Zimsen fyrrverandi borgarstjóra um þróun Reykjavíkur, Reykjavík: Helgafell, 1952.
  • Ólafur Rastrick, „Arkitektúr siðmenningar“, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910–1930, Reykjavík: Hugvísindastofnun, 2011.
  • Páll Líndal, Bæirnir byggjast, Reykjavík: Skipulagsstjóri ríkisins og Sögufélag Reykjavíkur, 1982.
  • Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, Dynskógar, 2008.
  • Pétur H. Ármannsson, „Landslag sálarinnar“, Landnám Ingólfs, 4/1998.
  • Sigurður K. Pétursson, „Hjátrú“, Gangleri, 4/1925.
  • Sigurgeir Sigurðsson, „Prófessor Guðjón Samúelsson húsameistari“, Kirkjuritið, 4/1950.
  • Sveinn Jónsson, „Um húsabyggingar“, Lögrjetta, 7. júní, 1911.
  • Vilhjálmur Finsen, „Góðærið í heiminum mótar allt atvinnulíf á Íslandi“, Hvað landinn sagði erlendis, Akureyri: Norðri, 1958.
  • Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Við sem byggðum þessa borg III, Reykjavík: Setberg, 1956.

 

 

Tilvísanir

  1. Guðjón Samúelsson, „Íslensk húsagerð og skipulag bæja“, Tímarit V.F.Í., 1–3/1930, bls. 1–5, hérbls. 4.
  2. Á. Ó. „Þáttaskil í byggingarsögu Reykjavíkur“, Lesbók Morgunblaðsins, 31. desember 1959, bls. 639.
  3. Þótt sumir kynnu að segja að Reykjavík sé það ekki enn.
  4. Til dæmis greinar Péturs H. Ármannssonar, „Landslag sálarinnar“, Landnám Ingólfs, 4/1998 bls. 142–160 og „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, Dynskógar, 2008, bls. 6–25 og áðurbirtgrein mín „Húsin eru eins og opin bók, Tímarit Máls og menningar 1/2015, bls. 54–75.
  5. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð, Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins, 2000, bls. 344.
  6. Hér má ég til með að minnast á Sigurð Guðmundsson málara (1833–1874). Þrátt fyrir að aðeins eitt „hús“ hafi verið byggt eftir hann, það er Skólavarðan, þá liggur fjöldi teikninga eftir hann á Þjóðminjasafni Íslands þar sem hann hefur dregið upp hugmyndir sínar að framtíðarskipulagi Reykjavíkur. Ekki má gleyma framlagi hans þegar rætt er um upphaf skipulagsmála hér á landi.
  7. Húsið stóð á Hverfisgötu 14 og „telst vera fyrsta byggða verk hans“. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 11.
  8. Páll Líndal, Bæirnir byggjast, Reykjavík: Skipulagsstjóri ríkisins og Sögufélag Reykjavíkur, 1982, bls. 87; Pétur H. Ármannsson, „Landslag sálarinnar“, bls. 147; Ólafur Rastrick, „Arkitektúr siðmenningar“, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910–1930, Reykjavík: Hugvísindastofnun, 2011, bls. 178–192, hér bls. 178.
  9. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, Lögrjetta, 10. júlí 1912, bls. 1.
  10. Til þess að setja grein Guðjóns í víðara samhengi má nefna að þegar hún birtist er margt í deiglunni í evrópskum arkitektúr og skipulagsmálum. Walter Gropius, sem stofnar BauhausGuðjón skólann 1919, skrifar t.d. grein árið 1913 um þróun iðnaðarhúsa sem átti eftir að hafa mikil áhrif á aðra evrópska módernista á næstu árum. Þeirra á meðal má nefna Le Corbusier sem átti síðar eftir að skrifa stefnuyfirlýsingu sína um nútímaborgina árið 1925. Le Corbusier og Gropius voru báðir þátttakendur í mótunarhreyfingu módernískrar byggingarlistar sem kallaðist „alþjóðlegi stíllinn“ og var ríkjandi á 3. og 4. tug aldarinnar. Hins vegar eru þeir menn sem Guðjón vísar í í grein sinni nokkuð eldri í hettunni. Sitte, Stübben og Unwin eru í grunninn nítjándu aldar menn og því með aðrar áherslur í skrifum sínum. En þeir voru meðal brautryðjenda í evrópskum skipulagsmálum og nýttust Guðjóni vel, sér í lagi sökum þess hve þróun þessara mála var komin stutt á veg á Íslandi.
  11. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, bls. 1.
  12. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, bls. 1. Ritið sem Guðjón vitnar í er áreiðanlega: Raymond
  13. Urwin, Town Planning in Practice: An Introduction to the Art of Designing Cities and Urban Spaces. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, bls. 1.
  14. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, bls. 1.
  15. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, bls. 1.
  16. Sömu hugsun mátti sjá bregða fyrir hjá Halldóri Laxness nokkru síðar í Dagleið á fjöllum: „Fáir menn njóta uppeldis bóka en það er ómögulegt fyrir mannlega veru að flýja uppeldisáhrif húsa. Sálarlífseinkenni einstaklingsins mótast og hljóta stíl sinn mjög eftir einkennum hússins, gæðum þess og vangæðum, þar sem hann elur aldur sinn“. Í þessu samhengi er ákveðin gráglettni fólgin í annarri athugasemd Laxness úr sama kafla þar sem hann segir: „Hvílíkt happ hefði það ekki verið ef sumar byggíngar hér í bænum, sér í lagi þau hús sem standa í hjarta bæarins, kríngum Austurvöll, hefðu verið bygð þannig, að þau hefðu snarast eftir árið, í staðinn fyrir að nú er alt útlit fyrir að þau muni öldum saman standa þarna í sínum klúra herfileik sem minnisvarði yfir heimsku og ruddaskap fegurðarblindrar kynslóðar.“ En Guðjón mun hafa teiknað margar þeirra bygginga sem umkringja Austurvöll, t.a.m. Hús Nathan og Olsen, Hótel Borg, verslunarhúsið Nora Magasin í Pósthússtræti 9 og Landsímahúsið í Thorvaldssenstræti Halldór Laxness, Dagleið á fjöllum, Reykjavík: Helgafell, 1962, bls. 27, 28.
  17. Sigurgeir Sigurðsson, „Prófessor Guðjón Samúelsson húsameistari“, Kirkjuritið, 4/1950, bls. 317–321, hér bls. 321.
  18. Sjá umfjöllun um háborg m.a. í Pétur H. Ármannsson, „Landslag sálarinnar“.
  19. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 12.
  20. Meðal verka Guðjóns sem eru einkennandi fyrir sögustíl eru t.d. Kristskirkja á Landakotshæð og Landsbankinn í Austurstræti.
  21. Jónas Jónsson frá Hriflu var formaður Framsóknarflokksins í tíu ár og dóms- og kirkjumálaráðherra 1927–1932. Hann var einn mikilvægasti hugmyndasmiður íslenskrar þjóðernisstefnu og óþreytandi við að benda á þjóðlega þræði í verkum Guðjón Samúelssonar. Jónas skrifaði til dæmis ásamt Benedikt Gröndal bók um Guðjón, Íslensk Bygging: brautryðjendastarf Guðjóns Samúelssonar og svo má finna kafla um Guðjón í fimmta bindi ritraðar Jónasar, Komandi ár.
  22. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag: niðurl.“, Lögrjetta, 17 júlí 1912, bls. 1.
  23. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag: niðurl.“, bls. 1. Þessi áhersla á börn er dæmigerð fyrir þær hugmyndir sem voru ríkjandi í byggingarfræðilegri markhyggju á þessum tíma, sér í lagi í undirgrein hennar sem kallaðist hverfiseiningakenning (e. neighbourhood unit theory). „Hverfiseiningakenningin er sígilt dæmi um byggingarfræðilega markhyggju. Enn á ný var vafasamri félagskenningu spyrt við röklega tæknilega úrlausn. Hugmyndin, eins og hún var upprunalega sett fram í riti af Clarence Perry á 3. áratugnum, gekk í meginatriðum út á aðferðir til að tengja efnisleg lífsgæði almenningi með kerfisbundnum hætti, með sérstakri áherslu á öryggi og hentisemi gangandi vegfarenda og sér í lagi barna“.
  24. Broady, Maurice „Social Theory in Architectural Design“, People and buildings, ritstj. Robert Gutman, NewJersey: Transaction Publishers, 2009, bls. 170–185, hér bls. 174. Þýðing og leturbreyting mín.
  25. Það má benda á að 1934 voru Framsóknarmenn í stjórn hinna vinnandi stétta með Alþýðuflokki, og þarna má greina sósíalísk áhrif samfara byggðahyggjunni. Guðjón Samúelsson, „Hugleiðingar um atvinnumál“, Tíminn, 26. október 1934, bls. 184.
  26. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag: niðurl.“, bls. 1.
  27. Guðjón Samúelsson, „Bæjafyrirkomulag“, bls. 1.
  28. Það þurfi að: 1) fastsetja allar aðalumferðargötur 2) ákveða hvar opinberar byggingar skyldu vera 3) ákveða hvar auð svæði skyldu vera 4) ákveða hvar aðrar götur ætti að leggja.
  29. Um ögunarsamfélagið má lesa í riti franska sagnfræðingsins Michel Foucault, Surveiller et punir: Naissance de la Prison, frá árinu 1975. Valdir kaflar úr þessu riti hafa verið þýddir á íslensku og má nálgast í Michel Foucault, Alsæi, vald þekking, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005.
  30. Útlistanirnar sýna greinileg merki þess að hann er kappsfullur nemandi og efnið stendurhonum nærri. Það fara t.d. rúmlega tveir blaðadálkar í að ræða um helstu eiginleika gatna ogýmsar útgáfur þeirra. Sjá má að Guðjón er snemma á ævinni farinn að mynda sér skoðanirsem áttu eftir að fylgja honum alla tíð. Í greininni talar hann til að mynda um að götur eigiekki að vera lengri en 1000 metrar á lengd, né heldur eigi þær að „enda eða beygjast til hliðarán þess að hús eða minningarmerki standi fyrir endanum eða beygjunni“. Enn í dag má sjáþessar hugmyndir í verki. Þar má meðal annars nefna Landakotskirkju sem rís upp á holtinuvið endann á Ægisgötu og er sýnileg allt frá Geirsgötu. Eða Hallgrímskirkju sem rís upp úrskurðpunkti Njarðargötu, Klapparstígs og Skólavörðustígs.
  31. Pétur H. Ármannsson, „Landslag sálarinnar“, bls. 147.
  32. Ólafur Rastrick, „Arkitektúr siðmenningar“, bls. 179. Segja mætti að þessi skoðun ríki enntæpri öld síðar þar sem Gunnar Harðarson lætur líkt í ljós árið 1998 þegar hann segirútlendinga sem koma hingað til lands undrast hvernig svona ljót byggingarlist geti þrifist íjafnfögru landi. „Þeim hefur verið sagt að Íslendingar séu menningarþjóð og að þeirra dómier byggingarlistin vísbending um „menningarstig“ viðkomandi þjóðar. En sú byggingarlistsem mætir þeim víða hér um land er hrópleg andstæða við fegurð landsins og virðist ekkibera vitni um að í landinu búi mikil menningarþjóð. Líklega væri þó réttara að tala hér um„siðmenningu“, því að eins og alþjóð veit eru Íslendingar hin mesta menningarþjóð. En þeireru ósiðmenntuð menningarþjóð. Og arkitektúrinn er einmitt vísbending um þetta siðmenningarstigþjóðarinnar“. Gunnar Harðarson, Smásmíðar, Reykjavík: Bjartur, 1998, bls. 112.
  33. Páll Líndal, Bæirnir byggjast, bls. 87.
  34. Ég hef áður bent á líkindi frásagnarvæðingar Jónasar á lífi Guðjóns við formgerðareinkenniævintýra og goðsagna. Sjá: Kjartan Már Ómarsson, „Húsin eru eins og opin bók“, bls. 60.
  35. Í grein sem birtist í Tímanum er því t.d. haldið fram að kennslubækur Jónasar séu betriheimildir um hann en sögu Íslands. Jónas var þar að auki enginn fræðimaður, var t.a.m.ógagnrýninn á heimildir, hann efaðist ekki um sannleiksgildi íslenskra fornrita og hans eiginpersónulegu skoðanir áttu til að lita umfjöllunarefnið. Höfundur óþekktur, „Gluggað í hinaáhrifamiklu kennslubók Jónasar frá Hriflu um Íslandssögu“, Tíminn, 6. febrúar 1983, bls. 4–5.
  36. Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, Íslenzk bygging: brautryðjandastarf Guðjóns Samúelssonar, Akureyri: Norðri, 1957, bls. 8.
  37. Jónas Jónsson, „Guðjón Samúelsson“, Fegurð lífsins, Komandi ár, Reykjavík: Samband ungra framsóknarmanna, 1960, bls. 295– 310, hér bls. 295.
  38. Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, Íslenzk bygging, bls. 295–296.
  39. Jónas Jónsson, „Guðjón Samúelsson“, bls. 295.
  40. Þess má geta að Guðjón „skar allan skurð er þurfa þótti inni í samræmi við leifar verka Stefáns Eiríkssonar, enda var hann jafnframt í námi hjá honum“. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, bls. 262.
  41. Þar hafði hann einnig vinnuaðstöðu fram til ársins 1930 en þá flytur hann sig um set að Arnarhvoli.
  42. Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, Íslenzk bygging, bls. 11.
  43. Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, Íslenzk bygging, bls. 11.
  44. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 8. Pétur vísar í Morgunblaðið, maí 1947.
  45. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 9.
  46. Rögnvaldur Ólafsson (1874–1917) er fyrsti stúdentinn sem haslar sér völl í íslenskri húsagerð.„Með tilkomu Rögnvaldar Ólafssonar verða skil í sögu íslenskrar húsagerðar. Staða hans ogstarf varð hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Hið innlenda framkvæmdavald tók nú til sínmótun opinberra bygginga, sem áður höfðu verið í höndum Dana. Því var það engin tilviljunað fyrsti innlendi húsameistarinn tók til starfa sama ár og Íslendingar fengu heimastjórn […]“.Einar Erlendsson var aðstoðarmaður Rögnvalds „til ársins 1917 er Einar tók við embætti hansfram að því að Guðjón Samúelsson var ráðinn húsameistari ríkisins 1919. Fulltrúi Guðjónsvar Einar síðan allt til 1950 er hann var skipaður Húsameistari ríkisins fram til 1954“. HörðurÁgústsson, Íslensk byggingararfleifð I, s. 195; 200.
  47. Jónas Jónsson, „Guðjón Samúelsson“, bls. 296–297. Það kann að útskýra viðtökurnar að þegar Jónas rekur söguna aftur þegar hann gerir bókina Íslenzk bygging ásamt Benedikt Gröndal tekur hann fram að sá sem var fyrir svörum í Iðnfræðaskólanum hafi verið gamall og geðstirður herforingi.
  48. Atli Magnús Seelow, „Verslunarhús Nathan & Olsen við Austurstræti. Hornsteinn Guðjóns Samúelssonar að nýjum miðbæ Reykjavíkur“, Saga, 1/2012, bls. 9–21, hér bls. 10.
  49. Í Íslenskri byggingararfleifð I notar Hörður Ágústsson orðið „forsmiðir“ yfir þá menn sem mótuðu byggðaumhverfi Íslendinga umfram aðra frá upphafi og fram á tuttugustu öld. Þetta eru forverar húsameistara og arkitekta.
  50. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, bls. 153.
  51. Sveinn Jónsson, „Um húsabyggingar“, Lögrjetta, 7. júní, 1911, bls. 104.
  52. Sjá tilkynningu um synjun: Höfundur óþekktur, „Fjárlögin í efri deild“, Ísafold, 28. apríl 1911, bls. 66.
  53. Sveinn Jónsson, „Um húsabyggingar“, bls. 103–104.
  54. Höfundur óþekktur, „Fjárlögin“, Lögrjetta, 13. ágúst 1913, bls. 135.
  55. Höfundur óþekktur, „Fjárlögin“, bls. 135.
  56. Það er fróðlegt, þegar farið er yfir fjárveitingar þessa árs, að sjá hvar áherslurnar liggja ímenningarmálum þjóðarinnar. Svo virðist sem raunsæisskáld séu í náðinni hjá nefndinni þvíJón Stefánsson / Þorgils Gjallandi (natúralískt raunsæi); Þorsteinn Erlingsson (rómantísktraunsæi) og Einar H. Kvaran (siðboðandi raunsæi) fá allir styrk. Hins vegar gefur nefndin lítiðfyrir byggingarlist, myndlist/höggmyndalist og leikritun því styrktarbeiðnum Guðjóns Samúelssonar,Einars Jónssonar og Jóhanns Sigurjónssonar er öllum hafnað. Höfundur óþekktur, „Frá alþingi“, Ísafold, 5. apríl 1911, bls. 83.
  57. Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur: Genius Reikiavicensis, Reykjavík: JPV, 2008, bls. 19.
  58. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð, bls. 319.
  59. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Við sem byggðum þessa borg III, Reykjavík: Setberg, 1956, bls. 180.
  60. Lárus Sigurbjörnsson, Þáttur Sigurðar málara: brot úr bæjar- og menningarsögu Reykjavíkur, Reykjavík: Helgafell, 1954. bls. 81.
  61. Jóhannes Sveinsson Kjarval, „Reykjavík og umhverfið: Miðbærinn og útsýnið. Skemmtigarðurinn og tjörnin“, Morgunblaðið 18. mars 1923, bls. 2.
  62. Jóhannes Sveinsson Kjarval, „Guðjón Samúelsson, Tryggvi Magnússon, Guðmundur Hannesson, Alexander Jóhannesson“, Vísir, 12. janúar 1925, bls. 3.
  63. Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, Saga Reykjavíkur: bærinn vaknar. 1870–1940. Síðari hluti. Reykjavík: Iðunn, 1994, bls. 107–131, hér bls. 110. Guðjón vísar í: Höfundur óþekktur, „Frá bæjarstj.fundi“, Morgunblaðið, 9. október 1920, bls. 1–2.
  64. Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, bls. 110.„Í kringum Skólavörðuholtið eru götur sem sækja nöfn í norræna goðafræði. Þar eru til aðmynda Freyjugata, Njarðargata, Urðarstígur, Lokastígur, Nönnugata, Haðarstígur og Þórsgata.Hverfið er stundum kallað „goðahverfið“ af þessum sökum og mun það raunar upphaflegahafa átt að heita Ásgarður, en nafnið vann sér ekki sess“. Sjá: http://bokmenntaborgin.is/?post_type=mapplace&p=853. [sótt 6. september 2013].
  65. Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, bls. 108–109.
  66. Lesa má um brunann m.a. í 171. tbl. Morgunblaðsins, sem kom út 26. apríl 1915. Þar stendurt.d: „Þessi bruni ætti að kenna mönnum það fyrst og fremst að hrófa ekki upp stórum timburhúsumþar sem jafn téttbýlt er og hér. Að vísu getur kviknað í steinhúsum, það hefir þessibruni sýnt manni, en eldurinn verður þar aldrei jafn magnaður og annars staðar“.
  67. Þar sem aldrei nokkur skapaður hlutur getur átt sér stað án þess að einhver eigi þar hagsmunaað gæta langar mig til þess að benda á að þegar bannað er að byggja úr timbri í miðbænumog steinsteypuöld gekk í garð hlaut Knud Zimsen að hagnast töluvert. Zimsen sem var fyrstborgarverkfræðingur, svo í skipulagsnefnd og seinast borgarstjóri Reykjavíkur 1914–1932hafði um svipað leyti verið „umboðsmaður þeirrar verksmiðju sem mest flutti af sementihingað til lands“ eins og hann segir sjálfur frá. Lúðvík Kristjánsson, Úr borg í bæ: nokkrarendurminningar Knud Zimsen fyrrverandi borgarstjóra um þróun Reykjavíkur, Reykjavík:Helgafell, 1952, bls. 41.
  68. Að vísu höfðu Íslendingar gert tilraunir með steypu allt frá 1876. En hitt er „enn merkilegra aðþeir einir nýttu hana í hús sem báru klassískan sögustílssvip, alveg fram til 1930, meðan slíkmannvirki á meginlandinu voru hlaðin úr steini. Þeir þýddu jafnvel sveiser yfir á steinsteypuum skeið“. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, bls. 322, 330.
  69. Guðjón varð að þeim látnum eina eftirlifandi barn foreldra sinna.
  70. Jónas Jónsson, „Guðjón Samúelsson“, bls. 297.
  71. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, bls. 334.
  72. Eins má sjá nýbarrokáhrif í spennustöðvarhúsunum sem hann gerði, sjúkrahúsinu (nú Safnahúsi) á Ísafirði (1924) og Kleppi (1926), svo eitthvað sé nefnt. Hörður Ágústsson., Íslensk byggingararfleifð I, bls. 334.
  73. Atli Magnús Seelow, „Verslunarhús Nathan & Olsen við Austurstræti“, bls. 19.
  74. Þar fylgir hann stefnu Camillo Sitte sem hann nefnir í greininni frá 1912, sem var þeirrar skoðunar að það væri ekki byggingin sem eining sem skipti mestu heldur hvernig hún passaði inn í og bætti heildarmyndina, heildarskipulagið. Sjá: http://www.library.cornell.edu/Reps/DOCS/sitte.htm. [Sótt 6. september 2013].
  75. Atli Magnús Seelow, „Verslunarhús Nathan & Olsen við Austurstræti“, bls. 13.
  76. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, bls. 344.
  77. Guðjón Samúelsson, „Íslenzk byggingarlist: Nokkrar opinberar byggingar á árunum 1916–1934, eftir Guðjóns Samúelsson, húsameistara ríkisins“, Tímarit V.F.Í., 6/1933, bls. 53–81, hér bls. 53.
  78. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 11.
  79. Bókin var endurútgefin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi á 100 ára afmæli hennar, 2016.
  80. Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, bls. 108.
  81. Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur, bls. 143–144. Bókin var fylgirit með árbók Háskóla Íslands árið 1916.
  82. Guðjón Samúelsson, „Um Skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson“, Ísafold, 18. nóvember 1916, bls. 2.
  83. Guðjón Samúelsson, „Um Skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson“, bls. 4.
  84. Bent hefur verið á að Guðjón hafi ætíð látið sér annt um „híbýlakost alþýðu“ og hann hafifyrstur manna sett fram „kenningu um sambýlishús alþýðu manna og [sé] þar með frumkvöðullverkamannabústaða“ á Íslandi. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð 1, bls. 355.Sjá líka: Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“,Saga Reykjavíkur: bærinn vaknar. 1870–1940. Síðari hluti. Reykjavík: Iðunn, 1994, bls. 107–131og Guðjón Samúelsson, „Um húsnæðisleysið í Reykjavík“, Tímarit V.F.Í, 4/1921, bls. 41–49.
  85. Segja mætti að þeir lagsbræður bergmáli þar skoðanir franska heimspekingsins René Descartes(1596–1650) sem sagðist hafa tekið eftir því á göngu í Þýskalandi „að þau verk, sem margirmeistarar gera af mörgum hlutum, eru oftlega ekki eins fullkomin og hin, sem einn maðurhefur að unnið. Af þessum sökum eru þær byggingar, sem einn húsameistari hefur staðið aðfrá upphafi til enda, að jafnaði fegurri og samstilltari en hinar, sem margir hafa lagt sig framum að lagfæra […]“. Descartes, René, Orðræða um aðferð, þýð. Magnús G. Jónsson, Reykjavík:Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998, bls. 71.
  86. Rögnvaldur Ólafsson (1874–1917) er fyrsti stúdentinn sem haslar sér völl í íslenskri húsagerð.„Með tilkomu Rögnvaldar Ólafssonar verða skil í sögu íslenskrar húsagerðar. Staða hans ogstarf varð hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Hið innlenda framkvæmdavald tók nú til sínmótun opinberra bygginga, sem áður höfðu verið í höndum Dana. Því var það engin tilviljunað fyrsti innlendi húsameistarinn tók til starfa sama ár og Íslendingar fengu heimastjórn […]Fyrstu ár starfsferils síns helgaði Rögnvaldur nær eingöngu timburhúsabygging [svo]. Flestverk hans á þeim tíma eru íbúðarhús en einnig kirkjur. Svipur þeirra ber vott um tvennskonarstílbrigði sem snemma hafa mótað hann. Annars vegar eru áhrif frá norska sveiser, sem erusterkust, en hins vegar frá danskri byggingarlist er hátt bar í Danmörku á námsárunum ogsér frekar stað í steinsteypuhúsunum sem hann teiknaði […]“. Þannig væri hægt að færa rökfyrir því að Rögnvaldur byggi í þrengsta skilningi ekki (sér)íslensk hús. Sjá: Hörður Ágústsson,Íslensk byggingararfleifð I, s. 195.
  87. Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, Íslenzk bygging, bls. 12.
  88. Höfundur óþekktur, „Dagbók“, Morgunblaðið, 6. febrúar 1919, bls. 2.
  89. Hörður Ágústsson., Íslensk byggingararfleifð I, bls. 319.
  90. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 12.
  91. Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, bls. 117.
  92. Vilhjálmur Finsen, „Góðærið í heiminum mótar allt atvinnulíf á Íslandi“, Hvað landinn sagði erlendis, Akureyri: Norðri, 1958, bls. 194–196, hér bls. 194. Birtist upprunalega í Tidens Tegn, mars 1926.
  93. Guðjón Friðriksson, „Innan Hringbrautar. Skipulags- og húsnæðismál 1910–1930“, bls. 117.
  94. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 11. Guðjón Samúelssonásamt Rögnvaldi Ólafssyni og Einari Erlendssyni höfðu í öndverðu forystu í mótun steinsteypuklassíkurá Íslandi. Þeir voru sömuleiðis hluti af hóp sem stofnaði ByggingarmeistarafélagÍslands árið 1926. Það var fyrsta fagfélag sinnar tegundar á Íslandi og forveri ArkitektafélagsÍslands. Þar hafði loks myndast íslenskur skóli í byggingarlist og hann réð ríkjum framá fjórða tug aldarinnar undir stjórn Guðjóns Samúelssonar. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifðI, bls. 322–325.
  95. Samantekt er úr óútgefnu handriti yfir teikningar Guðjóns Samúelssonar sem Pétur H.Ármannsson hefur tekið saman og var svo hugulsamur að veita mér aðgang að.
  96. Sigurður K. Pétursson, „Hjátrú“, Gangleri, 4/1925, bls. 22–37, hér bls. 36–7. Tilvísun fengin úrBenedikt Hjartarson, „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum og sjáendum. Umupphaf framúrstefnu á Íslandi“, Ritið, 1/2006, bls. 79–119, hér bls. 101.
  97. Höfundur óþekktur, „Frá bæjarstjórnarfundi á fimmtudagskvöldið“, Morgunblaðið, 18. apríl 1926, bls. 7.
  98. Jón H. Þorbergsson, „Ræktun og þjóðmenning“, Búnaðarrit, Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg, 1925, bls. 118–129, hér bls. 121, 122.
  99. Stjórnartíðindi, 1928 A, bls. 132. Tilvísun fengin úr Ólafur Rastrick, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910–1930, bls. 191.
  100. Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, bls. 350.
  101. Benedikt Hjartarson, „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum og sjáendum“, bls. 85–86.
  102. Benedikt Hjartarson, „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum og sjáendum“, bls. 98.
  103. Ólafur Rastrick, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910–1930, bls. 242.
  104. Jón H. Þorbergsson, „Ræktun og þjóðmenning“, Búnaðarrit, Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg, 1925, bls. 118–129, hér bls. 124.
  105. Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur […], bls. 125–127.
  106. Pétur H. Ármannsson, „Húsameistarinn frá Hunkubökkum“, bls. 13.
  107. Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur[…], bls. 127.
  108.  Sjá ritdóm Applegate, Celia, „National Romanticism and Modern Architecture in Germany and the Scandinavian Countries by Lane, Barbara Miller“ , Central European history, 4/2002, bls. 627–630.
  109. Í nýgotneskum stíl er lögð áhersla á lóðréttar línur en hálfboga og oddboga sleppt.
  110. Gunnar Harðarson, „Að byggja upp á nýtt“, bls. 115.