Eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2017

Alda Björk Valdimarsdóttir

Alda Björk Valdimarsdóttir

Tveggja alda ártíðar hinnar frægu ensku skáldkonu Jane Austen (1775–1817) hefur verið minnst víða um lönd á árinu 2017, en þó sérstaklega í Hampshire í Suður-Englandi, þar sem Austen bjó stærsta hluta ævi sinnar. Jane Austen Hampshire Cultural Trust hefur ásamt Jane Austen’s House Museum skipulagt umfangsmikla hátíð með ýmsum uppákomum, eins og myndlistarsýningum, fyrirlestrum, gönguferðum, ritlistar- og ljósmyndakeppnum og leiksýningum. [1] Í Basingstoke og nágrenni í Hampshire má á afmælisárinu meðal annars sjá 24 bekki, handmálaða af listamönnum, hannaða eins og opna bók með myndskreytingum úr skáldsögum hennar. Síðast en ekki síst var nýr 10 punda peningaseðill með mynd af Jane Austen tekinn í notkun þann 18. júlí, 2017 við hátíðlega athöfn í dómkirkjunni í Winchester, en á þeim degi lést hún fyrir 200 árum og var grafin undir kirkjugólfinu. [2]

Öllum þessum viðburðum voru gerð góð skil í heimspressunni, t.d. vestrænum stórblöðum eins og The Guardian og The New York Times, en áhuginn sem vestrænir fjölmiðlar sýna skáldkonunni er rökrétt niðurstaða af því blómaskeiði í viðtökum á Austen sem hefur nú staðið yfir í þrjá áratugi, eða frá árinu 1995, þegar þrjár kvikmyndaaðlaganir á verkum eftir hana litu dagsins ljós. Þá fór af stað endurvakning á verkum hennar sem enginn endir virðist vera á, en fjöldi nýrra aðlagana, þýðinga og hliðarsagna spretta upp á hverju ári. Áhrif Jane Austen á afþreyingarmenningu kvenna í samtímanum eru gríðarleg, m.a. hefur hún haft djúpstæð áhrif á karlpersónur vinsælla ástarsagna og kvenhetjur skvísusagna eru einnig mótaðar eftir kvenhetjum Austen.

Lífshlaup og helstu verk

Jane Austen fæddist 16. desember 1775 í smábænum Steventon í norðurhluta Hampshire. Hún var dóttir prestsins George og eiginkonu hans Cassöndru en þau eignuðust 8 börn. Eina systir Jane, Cassandra, var næstum þremur árum eldri. Hún var jafnframt hennar besti vinur og lífsförunautur, en hvorug systranna giftist. Jane Austen byrjaði ung að skrifa eða 11 ára gömul, leikrit, ritgerðir og stuttar sögur. Hún safnaði saman æskuverkum sínum frá árunum 1787 til 1793 og skipti þeim í þrjár bækur sem varðveist hafa í handriti, en þær bera einfaldlega nöfnin Volume the First, Volume the Second og Volume the Third. Því næst skrifaði hún stuttu bréfaskáldsöguna Lady Susan 1794 sem kvikmynduð var undir heitinu Love and Friendship (2016) með bresku leikkonunni Kate Beckinsale í hlutverki lafði Susan. Árið 1795 hófst Austen handa við að skrifa aðra bréfaskáldsögu Elinor and Marianne sem varð síðar að skáldsögunni Sense and Sensibility, fyrsta útgefna verkinu sem Austen sendi frá sér, en skáldsagan kom út árið 1811, nafnlaust eins og allar sögur hennar á meðan hún lifði. [3]

Jane Austen 10 pund

Sama ár, í desember 1795, hitti skáldkonan laganemann Tom Lefroy, en ýmsir ævisagnahöfundar telja að samband hennar og Toms hafi haft djúpstæð áhrif á skáldkonuna. Þau dönsuðu nokkrum sinnum saman og hún daðraði við hann að eigin sögn, en hann var fátækur og ekkert varð úr sambandi þeirra þrátt fyrir gagnkvæma hrifningu. Tom fór til Írlands, giftist vel efnaðri konu og varð forseti hæstaréttar í Írlandi árið 1852. Frægasta ævisagan sem gerir sér mat úr þessu sambandi er Becoming Jane Austen frá 2003 eftir Jon Spence, en á henni er lauslega byggð kvikmyndin Becoming Jane (2007) með Anne Hathaway í hlutverki skáldkonunnar. [4]

Árið 1797 lauk Austen við handrit að skáldsögunni First Impressions en hún varð síðar að frægasta verki hennar Pride and Prejudice sem kom út 1813. Skrif Jane voru gjarnan lesin upp fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi þeim til skemmtunar. Faðir Jane var mjög hvetjandi og sendi handritið First Impressions til útgefanda í London en því var hafnað og sent til baka ólesið. En þetta varð ekki til þess að draga úr skrifum Jane sem fékk frá föður sínum skrifborð að gjöf sem er talið hafa varðveist til dagsins í dag. Á árunum 1798 til 1799 lagði Austen drög að handritinu „Susan“ sem varð síðar Northanger Abbey, en það er forvitnilegt að þegar fyrir 25 ára aldur hafði Jane Austen lagt drög að þremur af þeim sex skáldsögum sem hún skildi eftir sig þegar hún lést aðeins 41 árs gömul.

Í desember 1800 ákvað George Austen að setjast í helgan stein og flutti ásamt konu sinni og dætrunum tveimur til borgarinnar Bath. Jane varð miður sín við þessar fréttir þar sem hún taldi borgarlífið ekki eiga við sig. Bróðursonur hennar sagði síðar að Hampshire sveitin hafi verið „vagga snilligáfu hennar“ [5] og byggði þá ályktun eflaust á þeirri staðreynd að Jane Austen gekk illa að skrifa á meðan hún bjó í Bath og virðist ekki hafa liðið vel þar. Talið er að foreldrar systranna hafi m.a. valið bæinn vegna þess að hann þótti góður staður til þess að finna eiginmenn fyrir ógiftar dætur. Bath gerði fjölskyldunni það kleift að fara í sumarleyfi á ýmsa staði við sjávarsíðuna á suðurströnd Englands eins og til Lyme Regis, þar sem Persuasion gerist að hluta til.

Í slíku sumarleyfi 1801, líklega í bænum Sidmouth eða Colyton, er talið að Jane hafi kynnst herramanni sem hún hafi orðið verulega hrifin af og að tilfinningar hennar hafi verið endurgoldnar. Þegar þau kvöddust höfðu þau ákveðið að hittast aftur fljótlega. Cassandra sagði bræðradætrum sínum að hún hafi talið að maðurinn hefði hug á því að biðja um hönd Jane, en þau sáu hann aldrei framar og fengu síðar þær fregnir að hann hefði látist. [6] Nokkrar skáldævisögur um Jane Austen fjalla um þennan „ástmann“ Austen og áhrif sambands þeirra á rithöfundarferil hennar, en byggja að öllu leyti á getgátum. [7] Ári síðar, eða haustið 1802, bað góður vinur Austen systranna, bróðir vinkvenna þeirra, um hönd Jane. Hann hét Harris Bigg–Wither og var erfingi talsverða eigna. Í fyrstu játaðist Jane honum en dró svo samþykki sitt til baka næsta morgun eftir svefnlausa nótt.

Snemma 1803 var handritið Susan selt til útgefandans Richards Crospy fyrir 10 pund. Bróðir Jane, Henry, sá um samskiptin við útgefandann eins og hann gerði síðar þegar Jane var byrjuð að gefa út sögur sínar. Af einhverjum ástæðum vildi Crospy ekki gefa út Susan og handritið lá óhreyft í mörg ár. Susan sem síðar fékk heitið Northanger Abbey gerist m.a. í Bath, en hún kom ekki út fyrr en vesturinn 1817, nokkrum mánuðum eftir andlát Austen.

Í upphafi árs 1805 lést faðir Jane og voru mæðgurnar þá í lausu lofti án húsnæðis og peninga, háðar góðmennsku og stuðningi Austen bræðranna sem jafnframt þurftu að sjá fyrir sínum eigin fjölskyldum. Það var ekki fyrr en 1809 sem Edward Austen Knight, sem 12 ára gamall hafði verið tekinn í fóstur af mjög vel efnuðum barnlausum hjónum, lét móður sína og systur fá hús í Chawton í Hampshire, nálægt fæðingarstaðnum Steventon. Edward sem var eini erfingi Knight hjónanna átti töluverðar landareignir og sveitasetur í Chawton, Godmersham, Steventon og Winchester. [8] Fjölskylda eiginkonu hans átti einnig hús og setur í Kent. Þegar Austen var komin aftur í Hampshire sveitina tók hún upp handritin sín á nýjan leik og nú hófst sannkallaður blómatími á stuttum höfundarferli hennar.

Einu skyldurnar sem Jane hafði á heimilinu voru að sjá um morgunmatinn. Eftir að morgunverði var lokið settist hún niður í stofunni við litla hringlaga skrifborðið sitt og skrifaði verkin sín þar. Henni var umhugað að hvorki þjónar né aðrir sem heimsóttu fjölskylduna yrðu varir við skriftirnar og skrifaði hún því á smáa örk sem auðveldlega var hægt að þekja með klút ef einhver kæmi inn. Þá bannaði Austen að hurðin að herberginu yrði smurð því brakið í henni þegar hún var opnuð gaf skáldkonunni tækifæri á að fela blöðin sín. Austen fór fljótt að huga að útgáfumálum og fann útgefandann Thomas Egerton í London sem var tilbúinn að gefa út skáldsöguna Sense and Sensibility með því skilyrði að höfundur greiddi kostnaðinn. Skáldsagan kom út 1811 eins og áður segir og var nafnlaus en „eftir dömu“, eða „by a lady“. Hún seldist upp, hlaut góða dóma og var hagnaður Austen af sölunni alls 140 pund. Jane byrjaði um þetta leyti á nýrri sögu Mansfield Park ásamt því að vinna að útgáfu Pride and Prejudice sem kom út 1813 og var einnig gefin út nafnlaus eða „by the Author of Sense and Sensibility“. Pride and Prejudice hlaut góðar viðtökur og varð fljótt mjög vinsæl á meðal lesenda. Einn maður úr bókmenntalífinu sagði: „Ég myndi gjarnan vilja vita hver höfundurinn er því hún er alltof snjöll til þess að hafa verið skrifuð af konu.“ [9]

Jane Austen

Jane Austen

Mansfield Park kom út 1814 og seldist einnig upp og fékk góðar viðtökur, en söluhagnaður Jane af þeirri bók varð 350 pund. Í janúar 1814 hóf Jane Austen að skrifa Emmu og sagði fjölskyldu sinni að í þessari skáldsögu væri að finna „kvenhetju sem engum nema mér sjálfri mun líka sérstaklega vel við.“ [10] Austen var ekki sátt við að Egerton vildi ekki prenta fleiri eintök af Mansfield Park og því var fundinn annar útgefandi fyrir Emmu og var það hinn þekkti útgefandi John Murray, sem var m.a. frægur fyrir að vera útgefandi Byrons lávarðar. Fræg eru orð Jane Austen um Murray í bréfi: „hann er að sjálfsögðu þrjótur, en hann er kurteis þrjótur.“[11]

Á þessum tíma var orðið erfitt að halda nafni Austen leyndu og margir vissu hver hún var. Haustið 1815 frétti Austen að krónprinsinn, George Augustus Frederick, sem stjórnaði landinu í veikindum föður síns George III, væri hrifinn af verkum hennar og var henni boðið að hitta herra Clarke, bókasafnsvörð prinsins í Carlton húsi, þar sem krónprinsinn hafði aðsetur. Meðan á heimsókninni stóð tilkynnti herra Clarke Austen að henni væri frjálst að tileinka prinsinum næstu skáldsögu sína sem hún og gerði. Sú skáldsaga var Emma sem kom út 1816 prentuð í 2000 eintökum og var einnig nafnlaus. [12] Um þetta leyti var Austen komin langt með handritið af því sem reyndist verða hennar síðasta skáldsaga, Persuasion.

Snemma árs 1816 byrjaði Austen að finna fyrir kvilla sem fór versnandi. Læknar vissu ekki hvað amaði að henni og sérfræðingar eru enn ekki á eitt sáttir um hvað dró hana til dauða. Sumir telja þó að hún hafi þjáðst af nýrnahettu-sjúkdóminum Addison, sem er mjög sjaldgæfur, á meðan aðrir segja sjúkdómseinkennin gefa til kynna að hún hafi fengið eitlakrabba. Austen hélt áfram að vinna að handriti sínu meðan heilsan leyfði þar til það var fullunnið um miðjan ágúst 1816. Hún byrjaði á nýrri skáldsögu í byrjun árs 1817, Sanditon, en varð fljótlega svo veik að hún þurfi að leggja skrifin frá sér. Í apríl það ár semur Jane erfðaskrá sína þar sem hún arfleiðir Cassöndru að öllum eigum sínum, fyrir utan 100 pund sem skiptust til helminga og fóru til bróður hennar Henrys, en hann tapaði umtalsverðum peningum þegar bankinn hans fór á hausinn, og til ráðskonu Henrys. [13] Mánuði síðar samþykkir Austen að fara til Winchester til að leita sér lækninga. Hún lá banaleguna í College Street nr. 8, í litlu húsi á bak við dómkirkjuna, en Cassandra vék ekki frá henni síðustu dagana. Jane lést 18. júlí eftir erfiða banalegu og Cassandra lýsir missi sínum á þessa leið í bréfi til bróðurdóttur sinnar Fannyar: „Ég hef glatað fjársjóði, þvílík systir, þvílíkur vinur, sem aldrei verður bættur. Hún var sól lífs míns, uppspretta allrar gleði, sefaði allar sorgir. Ég leyndi hana ekki einustu hugsun og það er eins og ég hafi glatað hluta af sjálfri mér.“ [14]

Þar sem ekki þótti við hæfi að konur væru viðstaddar jarðarfarir í upphafi 19. aldar þá fylgdi Cassandra ekki systur sinni í hinstu ferð hennar. Hún lýsir því í bréfi hvernig hún horfir á líkfylgdina bera kistu systur sinnar í átt að kirkjunni: „Ég horfði á litla dapurlega líkfylgdina ganga götuna á enda og þegar hún hvarf úr augsýn og ég hafði glatað henni að eilífu, var ég jafnvel ekki jafn yfirbuguð og ég er nú þegar ég skrifa þetta.“ [15]

Henry Austen bjó þær tvær skáldsögur til prentunar eftir Jane Austen sem ekki höfðu komið út, Northanger Abbey og Persuasion. Þær voru gefnar út saman í lok árs 1817 í fjórum bindum. Sem fyrr var nafn Austen ekki að finna á bókarkápunum, en Henry skrifaði nú æviágrip þar sem hann rakti í stuttu máli lífshlaup systur sinnar og dró upp þá mynd af henni að hún hefði verið góðviljuð, gallalaus og ljúf piparmey.

Austen og ástin í tveimur bókmenntagreinum samtímans

Frægð Austen óx hægt og rólega á 19. öldinni og fyrsta Austen-æði heimsbyggðarinnar má rekja til þess þegar bróðursonur hennar Edward Austen– Leigh skrifaði ævisögu um frænku sína A Memoir of Jane Austen sem kom út 1869 og varð gríðarlega vinsæl. Síðan þá hefur Austen verið órjúfanlegur hluti breskrar bókmenntahefðar, en líklega hefur þó frægðarsól hennar aldrei risið hærra en nú á 21. öldinni. Á síðustu tveimur áratugum hefur komið út fjöldi kvikmyndaaðlagana á öllum skáldsögum hennar, bókmenntalegar endurgerðir, hliðarsögur, framhaldssögur sem og skáldsögur um ævi hennar. Komið hafa út ýmis konar handbækur, sjálfshjálparbækur ritaðar í nafni hennar, kokkabækur, glæpasögur, hrollvekjur og þannig mætti lengi telja. Á íslensku hafa komið út verkin Hroki og hleypidómar (1988) í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur (eldri þýð. Ást og hleypidómar, 1956) og Emma (2012) í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur. [16]

Því má halda fram að Jane Austen sé nútímalegasti rithöfundur 19. aldarinnar og hefur hún haft mikil áhrif á kvennamenningu samtímans. Írónísk frásagnarrödd Austen afhjúpar hræsni, snobb og uppgerð efri stéttar auk þess sem sögur hennar takast á við siðblindu, hroka og mannasiði um leið og þær segja frá ást og tilhugalífi kvenna sem reyna að fóta sig í karlaheimi.

Becoming Jane (2007)

Becoming Jane (2007)

Á undanförnum árum hefur það farið vaxandi að aðdáendur skáldkonunnar leiti skýringa í lífi hennar á því hvernig hún fór að því að skrifa svo magnaðar ástarsögur. Það þykir undarlegt að einn mesti ástarsagnahöfundur vestrænnar menningar skuli sjálf ekki hafa gengið út. Í grein sem Austenfræðingurinn Deidre Lynch skrifar fyrir bandaríska tímaritið Slate spyr hún hvers vegna aðdáendur Austen séu svona uppteknir af hjúskaparstöðu hennar og mögulegum ástum: „Hvers vegna eru svo margir aðdáendur Austen áfjáðir í að sanna að jafnvel þótt hún kæmist aldrei að altarinu, en þangað kom hún kvenhetjum sínum gjarnan, þá hafi hún raunverulega verið góður kvenkostur?“ [17]

Spurning Lynch vísar, eins og áður hefur komið fram, til umfangsmikils sviðs í umræðunni um Jane Austen, en ástalíf hennar er viðfangsefni í fjölmörgum ævisögum og fræðigreinum, ekki síður en skáldverkum sem byggja á lífshlaupi skáldkonunnar, jafnt skáldsögum og kvikmyndum. Fjallað er um „leyndu“ ástina í lífi hennar, eftirsjá Jane vegna glataðra tækifæra, og jafnvel misheppnað líf hennar. Austen sé þannig að skrifa sig frá þungbærri, harmrænni reynslu sem hafi mótað hana í senn sem manneskju og skáldsagnahöfund, en skáldsögurnar eru taldar veita okkur óbeinan aðgang að lykilaugnablikum úr lífi skáldkonunnar, stundum sem nánast ekkert er vitað um. Sögurnar verða samkvæmt þessu að tilraunum skáldkonunnar til að endurskapa raunveruleg ástarævintýri sín, vinna úr þeim og festa þau í minningunni.

Í þessu samhengi má nefna að ævisagnahöfundurinn Jon Spence gerði mikið úr sambandi Jane og Toms og les það sem lykilatburð fyrir líf Jane Austen, atburð sem gerði hana að rithöfundi, í áðurnefndu verki sínu Becoming Jane Austen. Ævisaga Spence og kvikmyndin Becoming Jane varpa ljósi á þá tilhneigingu lesenda skáldsagna Austen að vilja sjá hana ástfangna, að bæta fyrir það sem virðist vera líf án ástarsambanda og gera hana jafnvel hugsjúka af ástarþrá. Því hvernig getur það farið saman að höfundur mikilfengustu ástarsagna 19. aldarinnar hafi aldrei kynnst töfrum og sársauka ástarinnar? [18]

Þannig má sjá hvernig aðdáendur dæma rithöfundinn með hliðsjón af viðfangsefni hans og telja að skrifin hafi verið flótti, dagdraumar og fantasía en þannig er einmitt lesandi vinsælla ástarsagna útskýrður af hefðinni, dagdraumar hans eru taldir hættulegir því þeir koma í veg fyrir að hann geti lifað lífinu til fulls. Sjónvarpsþáttaröðin Lost in Austen fangar vel viðhorf okkar til ástarsagnalesturs sem þráhyggju. Aðalhetja þáttaraðarinnar, Amanda Price, ánetjast eftirlætisskáldsögu sinni, Hroka og hleypidómum. Strax í upphafi frásagnarinnar er fíkn Amöndu dregin skýrt fram: „Það er kunnara en frá þurfi að segja að við viljum öll flýja. Ég flý alltaf inn í mína eftirlætisbók, Hroka og hleypidóma.“ [19]

Pamela Regis heldur því fram að Hroki og hleypidómar sé „besta ástarsaga sem skrifuð hefur verið“. Skáldsagan sýni „fullkomið vald Austen á greininni“, [20] en því er ekki að neita að sagan hefur haft mótandi áhrif á kvennamenningu nútímans. Hroki og hleypidómar er samanburðarverk bæði fyrir ástarsöguna og skvísusöguna en glæpasagnadrottningin P.D. James lýsti verkinu sem „Mills og Boon, skrifuðu af snillingi“. [21] Þá sprengingu sem verður í Austen-tengdri menningu á síðustu tveimur áratugum má rekja til sjónvarpsþáttaraðarinnar Hroki og hleypidómar frá 1995 þegar Colin Firth gerði kvenþjóðina vitlausa í hlutverki sínu sem Darcy. Í kjölfarið komu út mörg hundruð aðlaganir á Hroka og hleypidómum þar sem algengt þema er Darcy þráhyggja kvenhetjunnar.

Herra Darcy er ein mikilvægasta fyrirmynd hinnar hrokafullu, valdsmannslegu og viljasterku karlhetju ástarsögunnar ásamt persónunni Rochester, úr skáldsögu Charlotte Brontë, Jane Eyre, en hann er jafnframt myrkari hetja, ofbeldis- og ástríðufull, sem á erfitt með að temja skap sitt. Í Romance and the Erotics of Property segir Jan Cohn frá því að söguþráður vinsælla ástarsagna gangi út á kynferðislegt samband kvenhetju og karlhetju og hefjist á því að pari sögunnar líki ekki vel við hvort annað. Ekki hjálpar að kvenhetjan verður sér meðvituð um kynþokka karlhetjunnar. Það eru erótísk viðbrögð sem vekja með henni ótta, miklu fremur en árásargirni og hroki karlhetjunnar. Ógnin af karlinum gerir sigur kvenhetjunnar undir sögulok sætari, en hún temur ofsafullt kynferði hans með hjálp ástarinnar. [22] Cohn tekur þannig undir með mörgum ástarsagnahöfundum, því hún telur sögurnar fagna sigri konunnar á hinum sterka karlmanni sem í lokin hefur verið yfirbugaður. Konan endurskapar flagarann og gerir hann bæði að elskhuga og tryggum eiginmanni. [23]

Mr. Darcy, Vampyre (2009)

Mr. Darcy, Vampyre (2009)

Doreen Owens Malek tekur í sama streng í grein sinni „Mad, Bad and Dangerous to Know“, en hún segir að fantasían í vinsælum ástarsögum gangi út á að sterkur, drottnunar- og árásargjarn karlmaður gefi sig á vald konu. Þannig sé baráttan milli kynjanna sett á svið og konan vinni alltaf sigur. Karlinn í ástarsögum blótar kannski og stappar, hann afneitar kannski kvenhetjunni og hafnar henni, eða reynist henni að minnsta kosti erfiður. En undir lokin gefst hann upp af því að hann verður að gera hana að sinni. Því harðari sem hann er, þeim mun betra. Þótt við viljum kannski blíðan, tilfinninganæman, nútímalegan karlmann inn í líf okkar, á sá sem er í sögunum að vera hrokafullur, goðsagnakenndur stálnagli. Því forhertari sem hann er, þeim mun sætari verður sigurinn þegar kvenhetjan knésetur hann. [24]

Dearest Bloodiest Elizabeth (2016)

Dearest Bloodiest Elizabeth (2016)

Herra Darcy í sögu Austen er óumræðilega ein af mikilvægustu fyrirmyndum drambsömu og viljastyrku karlhetjunnar, þó að hann sé ekki jafn hættulegur og hún er gjarnan. Nú hefur verið reynt að ráða bót á þessu og gera söguhetju Austen myrkari og hættulegri en sjálf fyrirmyndin. Umbreytingu Darcys í gotneska hetju má glögglega sjá í ýmsum hrollvekjum sem skrifaðar hafa verið upp úr Hroka og hleypidómum, t.d. í fjórum nýlegum vampíruaðlögunum, sögunum  Mr. Darcy, Vampyre eftir Amöndu Grange, Vampire Darcy’s Desire eftir Reginu Jeffers, Pulse and Prejudice og Dearest Bloodiest Elizabeth eftir Collette L. Saucier.

Undir lokin hefur Darcy að einhverju leyti verið taminn í þessum sögum og sigrast á sínum innri djöflum. Þessi lýsing á Darcy er einnig í anda hugmynda Jayne Ann Krentz um að ástarsögur séu byggðar á goðsögum á borð við frásögnina af Persefónu, því konan sé numin á brott af dularfullum og valdamiklum karli sem endi á því að verða gagntekinn af henni og tilbiðja hana. [25] Fantasía lesandans sem les ástarsögur felst að einhverju leyti í því að konan sigrast á hinum valdsmannslega karli sem beygir sig undir vilja hennar: „Hvers vegna er þessi endir svona fullnægjandi,“ spyr Doreen Owens Malek: „Ekki aðeins vegna þess að ástin hefur sigrað, heldur vegna þess að hann hefur gefist upp og hún hefur unnið.“ [26]

Stærstu áhrif Jane Austen á ástarsöguna liggja í persónueinkennum karlhetjunnar. En skáldkonan hefur sömuleiðis mótað aðra kvenlega bókmenntagrein en það eru svokallaðar skvísusögur sem komu fyrst fram á sjónarsviðið á tíunda áratug síðustu aldar og hafa fest sig rækilega í sessi sem nútímagrein í bókmenntum. Gjarnan er litið svo á að Helen Fielding hafi skrifað fyrstu nútímalegu skvísusöguna með Dagbók Bridget Jones, sem fór af stað sem dálkur í breska blaðinu The Independent árið 1995 og er sagan að einhverju leyti aðlögun á Hroka og hleypidómum eftir Austen. Augljósustu vísun Fielding í Austen má sjá í að karlhetjan heitir Mark Darcy eftir þekktustu karlhetju Austen og er hann að mörgu leyti byggður á honum.

En innan skvísusagnanna liggja áhrif Jane Austen þó fremur í persónusköpun kvenhetjunnar en karlhetjunnar. „Mér verður illt og ég verð illgjörn þegar ég sé ímyndir fullkomleikans […]“ sagði Austen í bréfi til frænku sinnar Fannyar Knight. [27] Þessi orð varpa ljósi á viðhorf skáldkonunnar til kvenhetja sinna og um leið áhrif hennar á bókmenntagreinina. Raunsæisáhrifin í skvísusögum felast að hluta til í því að hin dæmigerða kvenhetja er miklu fremur gölluð en fullkomin og þannig eiga lesendur auðveldara með að samsama sig henni. Eins og Suzanne Ferriss og Mallory Young benda á í þekktu greinasafni um þessa nýju bókmenntagrein gerir skvísan gjarnan grín að sjálfri sér; hún getur verið dónaleg, yfirborðsleg, þjáðst af ýmis konar áráttu, verið taugaveikluð, óörugg, djörf, metnaðarfull eða hnyttin, en þrátt fyrir það (eða kannski vegna þess) „elskum við hana“. [28]

Skáldsögur Jane Austen eiga að sama skapi í samræðu við mannasiðabækur og hegðunarrit átjándu og nítjándu aldar, rétt eins og skvísusögur nútímans eiga í textatengslum við glanstímarit og sjálfshjálparbækur samtímans. Kvenpersónur Austen falla yfirleitt ekki vel að fullkominni kvenímynd hegðunarritanna og kvenlegar dyggðir þeirra og hegðun eru ekki endilega í samræmi við það sem æskilegt þótti á tímabilinu. Menntun er vissulega mikilvæg fyrir kvenpersónur Austen en þær eru ekki uppteknar af henni og þær skara ekki framúr á eftirsóknarverðum sviðum, líkt og í teikningu, söng, lestri, tónlist eða tungumálum. Skáldkonan leggur einmitt áherslu á það að sumar þeirra séu ekkert sérstaklega iðjusamar, og má þar einkum nefna Emmu, Catherine Morland og Elísabetu Bennet, þótt sú síðarnefnda búi yfir meiri visku en stallsystur hennar.

Bridget Jones's Diary (1996)

Bridget Jones’s Diary (1996)

Bridget Jones er fyrsta stóra persóna bókmenntagreinarinnar og sú sem líklega skilgreinir hana best. Hún er gallagripur sem lesendur hafa löngum tekið ástfóstri við. Hún virðist alltaf vera að lýsa því yfir að hún hafi aldrei verið jafn niðurlægð um ævina. Bridget er hvorki gullfalleg né heilsteypt kvenhetja og mikil áhersla er lögð á hversu óánægð hún sé með útlit sitt enda passar hún ekki inn í þá hefðbundnu mynd sem dregin er upp af konunni í tískublöðum: „Af hverju er ég svona óaðlaðandi? Af hverju? Meira að segja karlmanni í býflugnasokkum finnst ég hryllileg“ skrifar Bridget í dagbók sína eftir fyrsta fund sinn með Mark Darcy. [29]

Bridget Jones minnir ekki aðeins á Elísabetu Bennet hetju Hroka og hleypidóma, þótt fyrst og fremst hafi verið dregin upp samsvörun með bókaflokki Fielding og þeirri skáldsögu í fræðilegri umræðu. Um margt svipar henni meira til Catherine Morland, söguhetju Northanger Abbey. Catherine er líkt og Bridget Jones ekki hefðbundin kvenhetja í skáldsögu og hún myndi líklega vera fyrst til þess að viðurkenna það sjálf. Í Northanger Abbey er lögð áhersla á að Catherine Morland passi ekki inn í hlutverkið sem henni hefur verið ánafnað, sem kvenhetja í ástarsögu:

Engum sem þekkti til Catherine Morland í æsku hefði komið til hugar að þar færi framtíðarkvenhetja. Félagsleg staða hennar, skapgerð foreldra, persónuleiki og lyndiseinkunn, allt lagðist á eitt gegn henni […]. Hún var horuð og luraleg í sköpulagi, guggin, með föla, litlausa húð, dökkt líflaust hár, en svipsterk – eru þá ytri einkennin öll upptalin – og ekki virtist hugur hennar líklegri til hetjudáða. [30]

Catherine Morland hefur ekkert við sig sem gerir hana áhugaverða sem kvenhetju í ástarsögu, hvorki útlit né persónuleika. Tíu ára gömul leikur hún sér í strákaleikjum, hefur enga tilfinningu fyrir kvenlegri iðju, eins og garðrækt, hún er ekkert sérstaklega vinnusöm og hefur litla einbeitingu: „Hún hvorki lærði né skildi nokkurn hlut án leiðsagnar og jafnvel ekki þá, því að hún tók gjarnan illa eftir og var stundum hreinlega heimsk.“ [31] Hún nennir ekki að læra á hljóðfæri, teiknar ekkert sérstaklega vel, er oft skítug og hávaðasöm en hefur góða skapgerð, gott hjartalag og er vinaleg við börn. En á sextánda aldursári verður loks breyting til batnaðar, hún verður kvenlegri og útlitið ásættanlegra. Þegar meginatburðir sögunnar hefjast er hún „næstum því sæt“.32 Í kjölfarið fer hún að lesa bækur sem búa hana undir hlutverk sitt sem kvenhetju, en sem slík lendir hún reyndar fyrst og fremst í pínlegum, skömmustulegum aðstæðum og gerir sig að fífli.

Í þessu felast einmitt megineinkennin í persónusköpun kvenhetjunnar í skvísusögum. Algengt er að kvenhetjan sé á skjön við þann heim sem karlhetjan byggir, en þótt klaufaskapurinn, vandræðagangurinn og endalaus og síendurtekin niðurlæging skvísunnar geri það að verkum að lesanda finnist karlhetjan stundum yfir hana hafin þá er sú skýring einnig sett fram að hún sé ómótstæðileg vegna þess hversu opin, fjörug og lífleg hún sé. Mark Darcy viðurkennir sjálfur að Bridget sé engri lík: „Bridget, allar aðrar stúlkur sem ég þekki eru svo tilhafðar og lakkaðar. Ég þekki enga aðra sem myndi næla kanínuskott á nærbuxurnar sínar“. [33] Þessi orð karlhetjunnar kallast á við samræður Elísabetar og herra Darcy þegar þau eru nýlofuð þar sem hún spyr: „Vertu nú hreinskilinn, varðstu hrifinn af því hvað ég var ósvífin?“ Herra Darcy svarar: „Ég varð hrifinn af því hvað þú varst fjörug.“ [34]

Kvenhetjur Austen eru flestar sterkar, sjálfstæðar konur sem láta ekki beygja sig eða stýra sér; konur sem vita hverjar þær eru og hvað gerir þær hamingjusamar. Þvert á óskafyrirmyndina eru kvenhetjur skvísusagna með sjálfsmyndarbrest, ósáttar við sjálfar sig og karlmennina í lífi sínu, óánægðar með útlitið og/eða líkar illa í vinnunni. Sumar kljást við allt þetta. Eins og Naomi Wolf bendir á í The Beauty Myth hafa konur í samtímanum meiri peninga, meiri völd, fleiri tækifæri og meiri lagalega viðurkenningu en nokkru sinni fyrr, en vegna þess hve illa þeim líður vegna líkama síns og útlits, eru þær mögulega ekki jafn frjálsar og ömmur þeirra sem höfðu ekki sömu borgaralegu réttindi. [35]

Óánægja með útlit eða vandamál sem stafa af framakröfum, barneignum og leitinni að sannri ást eru meðal meginviðfangsefna skvísusagna og í mörgum tilfellum rótin að sjálfsmyndarbresti söguhetjanna því sáttin og jafnvægið er alltaf handan seilingar í samfélagi þar sem skorturinn er eina viðmiðið og sá veruleiki sem þær lifa við.

Fyrir hvað stendur Jane Austen í samtímanum?

Á síðustu tuttugu árum hefur Austen lætt sér inn í sífellt fleiri rými samtímamenningarinnar, en hún fyllir nú út í svæði sem tilheyrðu henni ekki áður. Verk hennar eru ítrekað kvikmynduð fyrir sjónvarp og hvíta tjaldið, þau eru aðlöguð sem teiknimyndasögur og prýða frímerki, auk þess sem endalaus straumur afleiddra bókmenntagreina byggir á verkum hennar. Ef magn endurritana er vísbending um sterka stöðu höfundar, eins og ráða má af umfjöllun þýðingafræðingsins André Lefevere, hefur höfundarvirkni Jane Austen aldrei verið jafn sterk og nú, og menningarleg staða hennar aldrei betri. [36]

Að sama skapi er höfundarímynd Austen furðu flókin. Fyrir hvað stendur skáldkonan? Var hún róttæk eða íhaldssöm? Var hún fyrirmynd helstu ástarsagnahöfunda samtíðarinnar eða kaldlyndur samfélagsrýnir? Snúast sögur hennar um ást eða peninga, yfirburðakonur eða klaufa, um fágun eða flumbrugang? Var heimur hennar lokaður kvennaheimur eða er allt mannlegt undir í skáldskap hennar? Trúði hún á ástina eða tók hún höfundardrauma sína fram yfir hjúskaparmöguleika? Er hún klassískur arfleifðarhöfundur eða merkilegasti afþreyingarhöfundur samtímans? Er hún femínisti, póstfemínisti eða andfemínisti?

Þörf lesenda fyrir að spegla sig í skáldkonunni varpar ljósi á þá tilhneigingu stuðningsmanna (og andstæðinga) að sjá í henni nokkurn veginn það sem þeim hentar hverju sinni. Gríðarleg virkni hennar í samtímanum hefur að sama skapi orðið til þess að hún hefur færst yfir á svið hins goðsagnakennda. Hún er orðin að margbreytilegu táknmiði sem lesendur og áhugamenn um skáldkonuna og verk hennar ná hvorki að festa eða binda niður. Höfundarvirkni Austen nær, eins og komið hefur fram, langt út fyrir hefðbundið svið bókmenntanna, djúpt inn í afþreyingarmenningu samtímans. Hún er einn fyrsti kvenrithöfundurinn til að takast með áhrifamiklum hætti á við kvenlega reynslu og eru ítök hennar í nútímanum meiri en flestra þeirra höfunda sem tilheyra samtíma okkar.

 

Tilvísanir

  1. Sjá viðburði tengda 200. ártíð Jane Austen í Hampshire: http://janeausten200.co.uk sótt 22. júní 2017.
  2. Takmörkuðu upplagi af 2 punda gull og silfurmynt var einnig dreift sama dag.
  3. Sjá m.a. Helen Amy, Jane Austen, Gloucestershire: Amberley Publishing, 2013.
  4. Jon Spence, Becoming Jane Austen. A Life, London og New York: Hambledon Continuum, 2003; Becoming Jane (2007), leikstj. Julian Jarrold, handrit: Kevin Hood og Sarah Williams, aðalhlutverk: Anne Hathaway, James McAvoy, Julie Walters, James Cromwell og Maggie Smith.
  5. Sjá Helen Amy, Jane Austen, Gloucestershire: Amberley Publishing, 2013, bls. 63: „cradle of her genius“.
  6. J.E. Austen–Leigh, A Memoir of Jane Austen and Other Family Recollections. Oxford: Oxford University Press, ritstj. Kathryn Sutherland, 2002, bls. 29.
  7. Sá fyrsti til að skrifa um nafnlausa manninn við hafið er enski rithöfundurinn Rudyard Kipling sem orti ljóðið „Jane’s Marriage“, sem birtist í ljóðabókinni Debits and Credits árið 1926. Sjá ljóðið hér: https://www.poetryloverspage.com/poets/kipling/janes_marriage.html [sótt 21. júlí 2017]. Einnig má nefna skáldævisögur Syrie James The Lost Memoirs of Jane Austen (New York: HarperCollins, 2008) og The Lost Years of Jane Austen eftir Barbara Ker (Wilson, Berkeley: Ulysses Press, 2009).
  8. Claire Tomalin segir í ævisögu sinni Jane Austen. A Life að Austen systurnar og móðir þeirra hafi örugglega leitt hugann að því hvort lukka þeirra yrði önnur en Edwards þegar það hvarflaði ekki að honum að láta þær fá hús til afnota í fjögur ár eftir að herra Austen lést. New York: Vintage Books, 1997, bls. 191.
  9. Sjá Helen Amy, Jane Austen, bls. 116: „I should like to know who is the author, for it is much too clever to have been written by a woman“.
  10. J.E. Austen–Leigh, A Memoir of Jane Austen, bls. 119: „I am going to take a heroine whom no one but my self will much like“.
  11. „To Cassandra Austen“, 17.–18. okt. 1815, Jane Austen’s Letters, ritstj. Deirdre Le Faye, Oxford og New York: Oxford University Press, 1995,: „he is a Rogue of course, but a civil one“.
  12. Um þetta æviskeið í lífi Austen fjallar kvikmyndin Miss Austen Regrets (2008), leikstj. Jeremy Lovering, handrit: Gwyneth Hughes, aðalhlutverk: Olivia Williams, Hugh Bonneville, Greta Scacchi.
  13. Sjá Helen Amy, Jane Austen, bls. 163.
  14. „From Cassandra Austen to Fanny Knight“, 20. júlí 1817. Jane Austen’s Letters: „I have lost a treasure, such a Sister, such a friend as never can have been surpassed,—She was the sun of my life, the gilder of every pleasure, the soother of every sorrow, I had not a thought concealed from her, & it is as if I had lost a part of myself.“
  15. „From Cassandra Austen to Fanny Knight“, 29. júlí 1817. Jane Austen’s Letters: „I watched the little mournful procession the length of the Street & when it turned from my sight & I had lost her for ever – even then I was not overpowered, nor so much agitated as I am now in writing of it.“
  16. Hroki og hleypidómar, þýð. Silja Aðalsteinsdóttir, Reykjavík: Mál og menning, 1988; Ást og hleypidómar, Reykjavík: Hauksútgáfan, 1956, þýð. ekki getið; Emma, þýð. Salka Guðmundsdóttir, Reykjavík: Mál og menning, 2012.
  17. Deidre Lynch, „See Jane Elope. Why are we so obsessed with Jane Austen’s love life?“, Slate, 3. ágúst 2007: http://www.slate.com/articles/arts/culturebox/2007/08/see_jane_elope.html [sótt 27. júlí 2017].
  18. Um þetta fjalla ég m.a. í óbirtri doktorsritgerð minni „Ég hef lesið margar Jönur“. Höfundarvirkni Jane Austen í þremur kvennagreinum samtímans. Reykjavík: Hugvísindasvið Háskóla Íslands, 2014, bls. 67–88. Ritgerðin verður gefin út af Háskólaútgáfunni og Bókmennta- og listfræðastofnun á vormánuðum 2018.
  19. Lost in Austen (2008), leikstj.: Dan Zeff, handrit: Guy Andrews, aðalhl.: Jemima Rooper, Elliot Cowan, Hugh Bonneville.
  20. Pamela Regis, A Natural History of the Romance Novel, Philadelphia: University of Pennsylvania Press, 2003, bls. 73. Regis kallar 8. kaflann „The Best Romance Novel ever Written. Pride and Prejudice, 1813“.
  21. Susannah Fullerton, Happily Ever After. Celebrating Jane Austen’s Pride and Prejudice, London: Frances Lincoln Limited, 2013, bls. 73: „Mills and Boon, written by a genius.“
  22. Jan Cohn, Romance and the Erotics of Property, Mass-Market Fiction for Women, Durham og London: Duke University Press, 1988, bls. 26–27.
  23. Jan Cohn, Romance and the Erotics of Property, bls. 33–34.
  24. Doreen Owens Malek, „Mad, Bad and Dangerous to Know. The Hero as Challenge“, Dangerous Men and Adventurous Women. Romance Writers on the Appeal of the Romance, ritstj. Jayne Ann Krentz, Philadelphia: University of Pennsylvania Press, 1992, bls. 75.
  25. Jayne Ann Krentz, „Trying to Tame the Romance. Critics and Correctness“, Dangerous Men and Adventurous Women, bls. 113.
  26. Doreen Owens Malek, „Mad, Bad and Dangerous to Know. The Hero as Challenge“, Dangerous Men and Adventurous Women, bls. 77.
  27. Jane Austen, „To Fanny Knight“, 23.-25. mars 1817, Jane Austen’s Letters.
  28. Suzanne Ferriss og Mallory Young, „Introduction“. Chick Lit. The New Woman’s Fiction, ritstj. Suzanne Ferriss og Mallory Young, New York og London: Routledge, 2006, bls. 4.
  29. Helen Fielding, Dagbók Bridget Jones, .ý.. Sigrí›ur Halldórsdóttir, Reykjavík: Mál og menning, 1998, bls. 20.
  30. Jane Austen, Northanger Abbey, London: Penguin Book, 1995, bls. 13 (eigin .ý.ing).
  31. Jane Austen, Northanger Abbey, bls. 13.
  32. Jane Austen, Northanger Abbey, bls. 13.
  33. Helen Fielding, Dagbók Bridget Jones, .ý.. Sigrí›ur Halldórsdóttir, Reykjavík: Mál og menning, 1998, bls. 192.
  34. Jane Austen, Hroki og hleypidómar, bls. 296.
  35. Naomi Wolf, The Beauty Myth. How Images of Beauty Are Used Against Women, New York: Harper Perennial, 2002, bls. 10.
  36. André Lefevere, „Why Waste Our Time on Rewrites: The Trouble with Interpretation and the Role of Rewriting in an Alternative Paradigm“, The Manipulation of Literature: Studies in Literary Translation, ritstj. Theo Hermans, London: Croom Helm, 1985.