eftir Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2013.
I
„Nýlega tók ég próf á netinu sem leiddi það ótvírætt í ljós að ég er með heilagerð karlmanns.“ [1] Þannig hljóðar upphafið að grein sem birtist í Skólavörðunni síðla árs 2004. Höfundurinn, Halldóra Kristín Thoroddsen, fjallar þar um ýmsa kynjafordóma sem uppi eru í samfélaginu. Hún mælir m.a. gegn aðskilnaði kynjanna eins og hann er tíðkaður í Hjallastefnunni og segir ísmeygilega sögu af því þegar hún pissaði á gólfið á öðrum skóladegi sínum frekar en fara á klósettið þar sem bekkjarsystur hennar sátu á vöskum, „Kvenynjur […] strax farnar að draga sig saman í samsærishópana“. [2] Ég nefni þessa grein af tvennum sökum. Hún vitnar um áhuga á mannslíkamanum en er að auki grallaralega hortug og í uppreisn gegn ýmsum háværum raustum samtímans, t.d. þeim sem gera meira úr andstæðum kynjanna en því sem þau eiga sameiginlegt, þeim sem einfalda rannsóknir á stúlkum og drengjum svo mjög að upp rísa afskræmin meðaltalsstrákur og meðaltalsstelpa – skilgetin afkvæmi tölfræði og takmarkaðs talnaskilnings − og mæra í framhaldi af því skólastefnu sem aðskilur ekki aðeins kynin drjúgan hluta dags heldur þegar fram í sækir þá efnaminni frá hinum efnameiri.
Einkenni Skólavörðugreinarinnar má finna í öðrum verkum Halldóru meðal annars ljóðum í bókinni Gangandi vegfaranda frá árinu 2005. Hér ætla ég aðeins að fjalla um tvö þeirra, víkja að aðferðum sem í þeim er beitt og áhrifum þeirra, drepa á menningarsamhengi þeirra og vísa þá m.a. í skrif um grótesku og hugræn fræði.
II
Eitt fínlegasta ljóð Gangandi vegfaranda mætir lesendum strax aftan á kápu bókarinnar. Það er ljóðið Tíðahvörf:
tapast hefur
kvenúr fornt
af mánasilfri
sett sólstöfum
með tifandi vísum
löðrandi í daggardropum
Hortugi þátturinn – sem stundum má kallast gróteskur – blasir ekki beinlínis við í þessu ljóði. Hann rís einkum í krafti tveggja fyrirbæra: annars vegar orðsins tíðir – sem kalla mætti samræðuorð með skírskotun til hugmynda Bakhtíns [3] – og hins vegar hugtakslíkingar sem mönnum er töm, þ.e. mannslíkaminn er vél. Gróteskan er með öðrum orðum látin kvikna í huga lesenda sem vita að orðið „tíðir“ má jafnt hafa um ,stundir dagsins‘ sem ,háttbundna starfsemi kvenlíkama í barneign‘, og eru að auki vanir orðalagi eins og „Gangverkið í skrokknum á mér er byrjað að gefa sig“ eða hafa séð í verslunum það sem nefna mætti óléttu-tifara (e. pregnancy ticker). Niðurstaðan verður auðvitað sú að fágaðar myndir, ljóðræna og angurværð textans kunna ekki bara að virkja ímyndunarafl lesenda í umhugsun um tengsl kvenlíkamans og göngu himintungla („kvenúr fornt/af mánasilfri“) eða ýta við annarri hugtakslíkingu í kolli þeirra eins og ævitíð er dagur – frá sólarupprás til sólarlags („sett sólstöfum […] /löðrandi í daggardropum“). Þau geta líka áreitt skynjun lesanda, vakið upp lykt og ýtt undir ónotatilfinningu af klístrugum úrgangi, blóði, hrörnun og dauða svo að upp rísi hrottalegar andstæður og árekstrar sem skella á vitundinni.
Það er naumast hending að einmitt þetta fínlega ljóð er valið á kápu bókarinnar, – en ekki önnur, opinskárri í grótesku sinni. Penheitin ríkja víða. Thomas Mann sagði strax á þriðja áratug 20. aldar að gróteskan væri „hinn eiginlegi andborgaralegi stíll“. [4] Og það á sennilega við í stórum dráttum enn þó að vestræn samfélög hafi tekið stakkaskiptum síðan á dögum Weimarlýðveldisins þýska.
En birtingarmyndir gróteskunnar eru ýmsar og henni hefur verið lýst á mismunandi hátt. Er þá skemmst að minnast Wolfgangs Kayser og Mikhails Bakhtín. Líta má á þá tvo sem andstæða póla í skilningi á hlutverki gróteskunnar: Kayser telur að gróteskan veki með hryllingi þá skynjun í viðtakendum sínum að heimurinn sé þeim framandi, en Bakhtín er talsmaður þess viðhorfs að endurnýjandi umbrot séu megineinkenni hins gróteska − hinn gróteski líkami sé í sífelldri sköpun og op hans öll og starfsemi útmái mörk líkama og heims. [5] Ljóð Halldóru standa nær sýn Bakhtíns en vilji maður skýra hvernig hún vinnur með tengsl líkama og hugar virðist stundum nærtækara að sækja til hugrænna fræða en Bakhtíns, sbr. hugtakslíkingarnar sem ég nefndi fyrr.
III
Á áratugunum kringum síðustu aldamót einkenndi hin „sæluríka fylgispekt“ Íslendinga sem aldrei fyrr. [6] Það kom ekki aðeins fram í því hve þeir treystu leiðtogum þjóðarinnar og fjármálaspekúlöntum í blindni, heldur líka í skiptum þeirra við ýmsar stofnanir samtímans. Meðan vegið var að undirstöðum samfélagsins, samhygð og samlíðan með öðrum, ræktuðu margir óspart ýmis form án þess að hirða um inntak þeirra. Glöggt dæmi um það eru kirkjubrúðkaup, sem urðu öðru fremur sjónarspil, eða það sem enskir kalla „spectacle“, og vörukynning fyrir neytendur, brúðhjónin, ættingja þeirra og vini, rammlega studd af sérstökum sjónvarpsþáttum, brúðkaupssýningum og sérblöðum. [7] Brúðhjónin nutu mörg hver athyglinnar og böðuðu sig í henni einhverja hríð – stundum fram að skilnaði þegar þeim gafst kostur á að leggja grunninn að nýju sjónarspili, kannski með öðru vöruúrvali. Kirkjan gerði fátt til að andæfa því að hjónabandið var nú í æ ríkara mæli helgað vörum og markaði, [8] enda var hún almennt eins og álfur út úr hól, réð t.d. hvorki við að leysa úr vandamálum innan safnaða sinna né bregðast við breytingum á samfélaginu. Um það vitnar afstaða hennar jafnt til Ólafs mála biskups og kröfu samkynhneigðra um að fá að giftast í kirkju. [9]
Eitt af ljóðunum í Gangandi vegfaranda er vert að skoða í ljósi hins almenna skorts á gagnrýni sem einkenndi íslenskt samfélag þegar bókin kom út, en þá einnig með hliðsjón af því að kristnin hefur síðustu aldir verið trúarbrögðin á Vesturlöndum og ráðamenn gjarna skilgreint sjálfa sig, aðra og umheiminn með hliðsjón af henni. [10] Ljóðið ber heitið Hinn hugsandi líkami. Þar fjallar konan sem mælir, um tengsl líkama og hugar. Framan af talar hún ýmist í 1. persónu fleirtölu eða eintölu og teflir þannig saman hinni opinberu menningu og eigin reynslu og afstöðu. Hún byrjar á menningunni:
að fornum sið
drögum við línu
þvert á prestinn ofanverðan
nánar tiltekið
skerum hann á hálsá hvítum prestakraga
hvílir tær hugur
í kúptu skríni
líkami hulinn svörtuokkur til viðvörunar
Eins og sjá má er aðferðin hér ansi útsmogin. Innvirðulegu orðalaginu, sem fyrsta erindið hefst á, er fylgt eftir með hlutlægri lýsingu á dráttlist svo ætla mætti að lýst væri hátíðlegri athöfn við teikniborð. En við frekari útlistun reynist dráttlistarlýsingin ekki aðeins líking heldur umbreytist hún í ofbeldi, línan hverfist í eggvopn, sem auðvitað er hvergi nefnt, en ekki fer milli mála að það erum „við“ sem bregðum vopninu á barka guðsmanninum. Í framhaldinu er brugðið upp mynd af presti í skrúða til að skýra frekar aðskilnað holds og „anda“ í kristinni hugmyndafræði. Líkingin í fyrri hluta erindisins þar sem „tær hugur“ hvílir í „kúptu skríni“ kallast á við skrín sem sögð eru geyma helga dóma svokallaða, það er að segja leifar kónga eða biskupa eða hluti úr þeirra eigu. Þar með er eins víst að á lesendur leiti tengsl kristninnar við valdhafa, og mýtusköpun hennar í þágu þeirra; svo ekki sé talað um að huganum er breytt í blæti og holdið, hinn kviki veruleiki, hulinn svörtu klæði. [11] En jafnframt hlýtur þá sjálf formgerð erindisins – myndin af klerki í tveimur pörtum – að minna á hverjir skilja höfuð frá bol. Viðbrögðin láta ekki á sér standa: maður skynjar sársauka þess sem skorinn er, um mann fer hryllingur, og kannski sektarkennd, þar sem maður stendur í hlutverki böðulsins, þess sem tekur að sér að framkvæma ofbeldishugsun menningarinnar; í sömu mund sér maður sjálfan sig fyrir sér líkt og Ara fróða „í sláturtíð“[12], skynjar atganginn, sletturnar, gorið, lyktina, og maður hlær að afhelguninni – þó naumast skærum hlátri.
En ekki hefur hláturinn fyrr krimt í manni en skil verða í ljóðinu og þess er skammt að bíða að ljóðmælandi birtist í eigin persónu. Hann er ekki bara kona eins og ég nefndi fyrr, heldur kona sem hrörnunin er tekin að setja mark sitt á. Og aldurinn skiptir máli þegar hún lýsir skynjun sinni, hugsun og kenndum:
andi og efni
harður kirkjubekkur
tekur æ meira í
Sjónarhornið er mjög í anda Bakhtíns, þegar ýtt er undir að lesendur ímyndi sér fyrst af öllu afturendann á ljóðmælanda eða finni hvernig strengirnir læðast frá rassi uppí hrygg. Ekki dregur úr þegar líkingar birtast sem tengjast hringrás náttúrunnar.
með hverjum árhring
bregst hugur minn
við nýrri skynjun
hnignandi líkamaþegar öldurót blóðsins sjatnar
fylgi ég eftir undirgefinskynjun
nemur lendur huga
En hinn holdbundni eða líkamsmótaði hugur er líka í brennidepli og einkar nærfærin er lýsingin á því hvernig hin uppreisnargjarna kona verður „undirgefin“ líkamsskynjun sinni þegar dregur úr hormónastarfsemi hennar. Margt er líka tvíbent í samhenginu og leikið ofurfínt á tilfinningar og ímyndunarafl lesanda; jákvæðu orðin ný skynjun, sem vitna að sínu leyti um sköpun, eru slegin niður með „hnignandi líkama“ þannig að ánægja og sársauki verða eitt. Í ofanálag kunna orðin „fylgi ég eftir“ jafnt að eiga við endalok sem skynjun, þannig að dauði og lífsmagn, angurværð og gleði leikast á. En lykilatriði er að þessum hluta ljóðsins lýkur á líkingu sem setur á oddinn skapandi tengsl ,anda‘ og efnis. Af ljóðlínunum „skynjun/nemur lendur huga“ skín semsé ekki hugtakslíkingin skynjun er viðtökur, sem markar svo oft tal manna, sbr. orðalag eins og „Þegar hljómlistin skall á eyrum hans hrökk hann í kút“. Nei, skynjun er gerandi, taugaboðin frá skynjun til heila verða landnám hugans og vegna virkni skynjunarinnar verður ímyndundaraflið, sem ekki er minnst á, skemmtilega nærri, og ekki síður líkaminn með lendar sínar.
Gegn tvískiptingu hinnar kristnu menningar í anda og efni teflir ljóðmælandi ekki síst „þrá“ en í sömu mund hverfur hann sem ljóðrænt ég og birtist í raun bara sem hluti af einni sögn í 1. persónu fleirtölu:
lengi hefur legið í landi
að aðskilja eðli
efnis og andaþótt við blasi
að hreyfiafl alheims
sé annað orð yfir þrádrögum krampakenndar línur
sýnilegar og ósýnilegarþótt skrifað standi
að allt sé eitt
Einhverjum kynni að finnast freistandi að lýsa þránni sem hér er nefnd með hliðsjón af skrifum Júlíu Kristevu um hið semíótíska [13] en í ljóðabók Halldóru tengist þráin öðru fremur þróunarsögu lífsins. [14] Konan sem talar í „Hinum hugsandi líkama“ ræðir ekki sérstaklega um tengsl þrár og tungumáls. Hún bendir hins vegar á að menn dragi „krampakenndar línur“ – sem kemur beinlínis heim og saman við þörf mannsheilans til að setja fyrirbærum mörk – og vekur athygli á að þeir dragi slíkar línur fremur en að hugsa um „að allt sé eitt“. Þá beinist írónían sennilega ekki síst að útleggingu biblíunnar, segjum eins og í sálminum „Fagna þú sál mín. Allt er eitt í Drottni“. [15] Menningin er semsé aftur í fyrirrúmi og nú tekur við líking sem bindur enda á allt saman, kúpta skrínið með huganum tæra myndbreytist á svo gróteskan hátt að í sjónhending kann það að orka sem einber groddaskapur:
Þetta blómstur
efst á guðsmanninum
minnir óneitanlega á
dónalegan hnoðra
á tælandi hvítum
krónublöðumtitrandi af greddu
eftir guði
Ljóðið hefst á einni líkingu en endar á annarri sem rekur ekki bara tunguna framan í þá fyrri heldur gerir lifandi þrá og kynhvöt að sjálfri forsendu kristninnar, með öðrum orðum einmitt þá hvöt sem kristin kenning hefur löngum lamið með lurk − í sömu mund og biskupar og ýmsir kennimenn hafa leynt og ljóst sýnt henni sóma. [16] En samræða orða ljóðsins við samtímamenningu, og samtímaviðburði sem lifa í huga lesenda, er margþætt og írónían ískrandi. Um kynhvötina vitnar ekki aðeins trúin á guð heldur kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi sem dónalegur hnoðri, „titrandi af greddu“ vekur athygli á, þannig að ljóðið sýnir „hina miklu einingu alls“ með því að binda þrá „holds“ og „anda“ í eina líkingu. [17]
IV
Ljóð Halldóru K. Thoroddsen hafa ekki vakið þá athygli sem þau eiga skilið. Þau vitna um efnishyggjumann sem hefur ekki aðeins lagt niður fyrir sér tengsl líkama og hugarstarfs heldur lítur svo á að skáldskapurinn sé skilgetið afkvæmi holdsins og skynjunarinnar og kann að fara þannig með hann að hann orki í krafti þess. Sú sem þetta skrifar þykist að minnsta kosti hafa fundið hvernig „harður kirkjubekkur“ tekur í − og þá reyndar allt frá rassi til hnakka. [18]
Tilvísanir
- Halldóra K. Thoroddsen, „Kynjafordómar“, Skólavarðan, Málgagn Kennarasambands Íslands, 4/2004, bls. 5.
- Sama stað.
- Bakhtín leit svo á að orð hefðu ekki merkingu í sjálfum sér heldur fengju hana í tilteknu samhengi. Samræðan (fyrr „samræðuorðið“) er lykilatriði í verkum hans. Samræða er að skilningi hann meira en samtal manna, eins og bent hefur verið á; sérhvert orð felur í sér mismunandi, sundurgreinandi og oft gagnstæða „talandi“ þætti, sbr. Caryl Emerson, The First Hundred Years of Michail Bakhtin, Princeton: Princeton University Press, 2000 [1997], bls. 36.
- Thomas Mann, „Vorvort zu Joseph Conrads Roman „Der Geheimagent [The Secret Agent]““ [1926], Reden und Aufsätze 2, Gesammelte Werke 10, Frankfurt am Main 1974: xxx, bls. 651.
- Sjá Wolfgang Kayser, The Grotesque in Art and Literature, þýð. Ulrich Weisstein, Gloucester, Massachusetts: Indiana University Press,1963, bls. 184−185 (t.d.), og Michail Bakhtin, Rabelais and his World, translated. by Hélène Iswolský, Bloomington: Indiana University Press, 1984, bls. 317−318 (t.d.)
- Sigfús Daðason, „Að komast burt“, Fáein ljóð, Reykjavík: Helgafell 1977, bls. 13.
- Sbr. „Brúðkaupsþáttinn Já“ á Skjá einum, ,sjá t.d. „Brúðkaupsþátturinn Já hefur göngu sína í sjötta sinn, Morgunblaðið 14. júní 2005, http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1022939/ (sótt 15. 10.2013); brúðkaupssýningu í Smáralind 8.-10. mars 2002 og sérstakt blað sem var gefið út í tilefni hennar, sbr. http://www.hagar.is/um-haga/frettir/nr/37 (sótt 15. 10. 2013).
- Nefna má þó t.d. að á heimasíðu Neskirkju andæfir séra Örn Bárður Jónsson af stakri varfærni aukinni markaðsvæðingu hjónabandsins: „Í seinni tíð hafa hjónavígslur í æ ríkari mæli borið svipmót sem rekja má til bandarískra kvikmynda. Engin ástæða er til að fylgja slíkum framandi siðum út í æsar.“ sjá http://neskirkja.is/helgihald/hjonavigslur/ (sótt 15. 10 2013;) en ég get ekki séð hvenær Örn Bárður semur þennan texta.
- Um viðbrögð kirkjunnar við ásökunum nokkurra kvenna um að þær hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni Ólafs Skúlasonar, biskups, sjá t.d. Sunna Valgerðardóttir, „Fréttaskýring. Hvernig brást kirkjan við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni. Biðst fyrirgefningar og leggur til nefnd“, Fréttablaðið, 26. ágúst 2010. Um viðbrögð við kröfu samkynhneigðra að giftast í kirkju sjá t.d. Karl Sigurbjörnsson biskup „Kenn oss að telja daga vora“, [predikun] flutt 1. janúar 2006 í Dómkirkjunni, Trúin og lífið, http://tru.is/postilla/2006/1/kenn-oss-ad-teljadaga-vora (sótt 15. 10.2013); Sigurður Ægisson, „Um hjónabandið“, Trúin og lífið, http://tru.is/pistlar/2006/01/hjonabandid/ (sótt 15.10.2013) og samantekt Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur, „Hvers kyns hjón“, Tímarit Morgunblaðsins, 29.1. 2006, bls. 10.
- Hér má jafnt nefna lokaorðin „Guð blessi Ísland“ í frægri hrunsræðu Geirs H. Haarde, sem þá staðhæfingu George Bush að guð hefði sagt honum að binda enda á harðstjórn í Írak, sjá Geir Haarde, „Ávarp forsætisráðherra vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði“, Forsætisráðuneytið 1. október 2008, http://www.forsaetisraduneyti.is/radherra/raedurGHH/nr/3034 (sótt 16. okt. 2013) og Ewan MacAskill, „George Bush: ‚God told me to end the tyranny in Iraq.‘ President told Palestinians God also talked to him about Middle East peace“, Guardian, 7. október, 2005.
- Unnendur ljóða Steins Steinars minnast eflaust líka orðanna „Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán“, sjá Steinn Steinarr, „Landsýn 26.5.1954“, Kvæðasafn og greinar, Reykjavík: Helgafell 1964, bls. 213.
- Böðvar Guðmundsson, „Síðasta lambið“, Tumma kukka, 2.útg. [Reykjavík 1975:] Mímir, bls. 111.
- Sjá Julia Kristeva, Desire in language, a semiotic approach to literature and art, Þýð. Thomas Gorz, Alice Jardin og Leon S. Roudiez, New York: Columbia University Press,1980.
- Ljóðið „Saman“ er t.d. til vitnis um það − en umfjöllun um það treini ég mér til betri tíma!
- Jakob J. Smári, „Fagna þú sál mín. Allt er eitt í Drottni“, Sálmabók til kirkju- og heimasöngs, Reykjavík: Forlag prestekknasjóðsins, 1945, bls. 530.
- Hér nægir að nefna að ýmsir kaþólsku biskupanna íslensku áttu sér konur og lútherskir prestar seinni alda áttu einatt börn sem öðrum voru kennd, sbr. vísu séra Jóns á Bægisá: „Á Bæsá ytri borinn er/býsna valinn kálfur,/vænt um þykja mundi mér/ mætti eg eig’ ann sjálfur“, sjá Jón Helgason, „Séra Jón Þorláksson 1744 – 13.des. − 1944“, Ritgerðakorn og ræðustúfar, Reykjavík: Félag íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn, bls. 159.
- Dante Alighieri, „XXXIII. Kviðan úr Paradísarljóðunum, Empyreum. – Endir: Guð (Bæn heilags Bernharðs)“, Tólf kviður úr Gleðileiknum guðdómlega, La Divina Commedia, Guðmundur Böðvarsson íslenzkaði, Reykjavík: Menningarsjóður 1968, bls. 146.
- Guðmundi Andra Thorssyni skulu þakkaðar góðar ábendingar.