Melkorka Ólafsdóttir

Melkorka Ólafsdóttir / Mynd: Saga Sig

Eftir Melkorku Ólafsdóttur

Úr ljóðabókinni Hérna eru fjöllin blá sem er væntanleg 21. nóvember. Svikaskáld gefa út.

 

Sendingar

Vinkonu minni finnst
að fjöllin
fjöllin og hann
muni éta hana kæfa hana
kæfa hana fyrst éta hana svo
svo hún breytir þeim í pappír
brýtur þau rólega í tvennt og svo fernt

ég hlakka alltaf til sendinganna
opna bréfin varlega
anda að mér uppþornuðum vonum
halla mér aftur í sunnudagsstól

fjarlægðin
og marið er ekki lengur blátt
fjöllin eru blá
hérna eru fjöllin blá

 

 

Blæðingar

Við höfum vaðið stórfljótið í nára
sleppt birkistöfunum í strauminn

ég strýk sólina á vanga þínum

ertu að telja hárin
spyrð þú
telja gráu hárin

og það rennur rautt
úr eyranu á mér

en ég skil:
sorgin hefur flætt gegnum jökulvatnið
hingað komin löngu á undan okkur

nálarnar þiðna í æðum okkar
framundan sólarglætur
og eldgömul jörð

 

Hérna eru fjöllin blá