Það eru of margar mis-skyldar hugmyndir í verkinu Sveitabær í bæjarsveit eftir Melkorku Gunborgu Briansdóttur, sem hún frumsýndi í Listaháskólanum í kvöld, en þær mega eiga það að þær voru allar góðar út af fyrir sig! Það er afskaplega gaman að sjá og heyra hvað ungu sviðshöfundarnir okkar eru frjóir, hugkvæmir og vel skrifandi. Leiktexti Melkorku bar vott um góða heimildavinnu og kannski einkum mikinn og vel nýttan bóklestur sem gleður gamlan lestrarklár.

Melkorka leiðir okkur inn í torfbæ fyrir fáeinum öldum þar sem ekkjan Sigþrúður (Hólmfríður Hafliðadóttir) býr með dóttur sinni Guðrúnu (Katla Þórudóttir Njálsdóttir) og sveitarlimnum

 

Körgerði (Arndís Hrönn Egilsdóttir). Hér hafa allar sögur verið sagðar ótal sinnum og ekkert dreifir huga heimilismanna lengur, leiðindin eru óbærileg. Þá ber gest að garði, Hjalta Hjaltason gangnamann og skemmtikraft (Killian Gunnlaugur Emanúel Briansson) sem hefur verið lengi á flakki en sér nú möguleika á föstu heimili. Samskipti þeirra þriggja, mæðgnanna og Hjalta eru vel útfærð og alveg kostuleg en ég hefði kosið frekari vinnslu á atvikinu þegar Hjalti slekkur óvart eldinn í bænum; það hlýtur að hafa dregið dilk á eftir sér. Eftir að regla er komin á heimilishaldið með nýja manninum er eins og efnið sé tæmt og við taka stök atriði, ansi merkilegt innskot kararkonunnar  sem reynist ekki öll þar sem hún er séð, og svo innrás nútímans í mynd Leons (Mímir Bjarki Pálmason) sem er bráðskemmtileg en gengur ekki nógu vel upp.

Leikurinn er prýðilegur. Hólmfríður fór afar vel með langan og bóklegan texta Sigþrúðar þegar hún segir söguna sígildu um grannann sem skipti á mjölinu og sýndi skapbrigði persónunnar skýrt og afdráttarlaust. Katla var bæði aumkunarverð og aðdáunarverð Guðrún með sína skyggnigáfu. Killian var virkilega fyndinn Hjalti gangnamaður og  Mímir var sannfærandi áttavilltur nútímamaður. Munurinn á tungutaki hans og annarra persóna var frábærlega vel unninn. Svo átti kararkona Arndísar Hrannar auðvitað í engum vandræðum með að rísa úr kör sinni og heilla okkur með ævintýralegri einræðu sinni og minna á að meðan Íslendingar voru grafnir í holur sínar voru menn í öðrum löndum að skapa ódauðleg listaverk úr marmara, olíulitum og orðum.

Melkorka Gunborg leikstýrir verki sínu sjálf enda er það einstaklingsverkefni á öðru ári á sviðshöfundabraut. Aðstoðarleikstjóri og meðhöfundur er Elínborg Una Einarsdóttir. Iðunn Gígja Kristjánsdóttir gerði leikmynd og Hulda Kristín Hauksdóttir búningana sem voru virkilega gamaldags og sveitó, en hljóðmyndina vann Gunnar Haraldsson. Ég veit ekki hvort söngurinn í verkinu var á hans vegum en mig langar að taka sérstaklega fram að leikararnir fóru gullfallega með „Lækinn“ hans  Gísla Ólafssonar frá Eiríksstöðum í leikslok.

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir