Haukur Már Helgason

Haukur Már Helgason

Eftir Hauk Má Helgason

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010

Árni Óskarsson þýddi

 

„Við gerum þetta til að ganga ekki af göflunum,“ svaraði Haraldur, hávaxinn, taugaóstyrkur og grannvaxinn maður með augu sem búa yfir samþjappaðri orku leysigeisla. Til að ganga ekki af göflunum? „Já, til að halda aftur af skepnunni.“ Skepnunni? „Skepnan er Ísland, þessi skelfilega harðbýla eyja sem við búum á, með sínu napra og síbreytilega veðri. Þetta er hin dimma tröllriðuveröld Goya, fögur og grótesk í senn. Þetta er hin dyntótta skepna Ísland. Við getum ekki flúið hana. Svo við finnum ráð til að lifa með henni, temja hana. Ég geri það í myndlistinni,“
– Haraldur Jónsson, myndlistarmaður. [1]

 

 

Í bók sinni Uppreisn fjöldans frá 1929 kynnir José Ortega y Gasset hugmynd um ríkið sem merkingarbært verkefni sem beinist að framtíðinni. [2] Þessum tveimur samtengdu sviðum hefur verið útskúfað úr íslenskum stjórnmálum um langa hríð – hugmyndinni um framtíð, og merkingu sem einu af hlutverkum tungumálsins. Ég er kominn á þá skoðun að þetta ástand sé svo inngróið að reyna megi að skilja landið mitt í ljósi hugtaksins geðklofi.

Hvernig líkar þér við mig?

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var sérkennilega borubrattur þegar hann birtist í fréttum BBC vorið 2010 og útskýrði hvaða lærdóma draga mætti af gosinu í Eyjafjallajökli. Forsetinn glotti á meðan hann gaf út viðvörun til áhorfenda um heim allan:

Ég held að við höfum umfram allt lært að það eru náttúruöfl að verki í þessu landi, samspil eldvirkni og jökla í þessum landshluta, sem getur valdið þróuðu samfélagi nútímans óheyrilegum skaða um langa hríð. Því miður er það sem við höfum fylgst með síðustu daga ef til vill aðeins upphaf þess sem menn eiga eftir að finna fyrir alla 21. öldina. Enda ber saga þessara eldfjalla í landi mínu það með sér að þau munu gjósa reglulega og senn líður t.d. að því að Katla fari að gjósa. [… H]ún er miklu stærri og það sem blasir við nú er í rauninni aðeins forsmekkur þess sem gerast mun – ég segi ekki ef, heldur segi ég þegar – Katla gýs. […] Ég held að það sé orðið tímabært að ríkisstjórnir og flugmálayfirvöld um alla Evrópu og um allan heim fari að búa sig undir komandi Kötlugos. [3]

Allt frá haustinu 2008 hafði Ísland fundið til skammar yfir eigin mistökum og gripið til þess ráðs að kvarta yfir „yfirgangi“ annarra landa, sérstaklega Bretlands og Hollands. Það getur bætt sjálfsálitið verulega að eiga þess kost að valda „óheyrilegum skaða“. Ræða forsetans jafngilti yfirlætislegu feginsandvarpi.

Þessi túlkun forsetans vakti þó litla ánægju innan ferðamannaiðnaðarins og milljónum evra var umsvifalaust veitt í sameiginlega auglýsingaherferð ríkis og atvinnurekenda um sumarið, „Inspired by Iceland“, þar sem sýnt var hversu hættulaust og skemmtilegt væri að sækja landið heim. Opinbera myndbandið í herferðinni hófst á því að ung og aðlaðandi kona virtist frá sér numin af undrun og aðdáun úti í miðju hrauni: „Þið trúið ekki hvar ég er,“ segir hún við myndavélina. „Ég er á Íslandi. Það er … það er ótrúlegt!“ – Brestur síðan í frjálsan dans með vini sínum. [4]

Það er alls engin nýbóla að menn sýni því yfirdrifinn áhuga hvernig Ísland kemur öðrum fyrir sjónir. Í Landnámu, handriti frá 13. öld, er greint frá landnámi norrænna manna á Íslandi til forna. Að undanförnu hafa fornleifa- og erfðafræðingar borið brigður á sannleiksgildi frásagnanna, en handritið er engu að síður þýðingarmikið vegna þeirra sanninda sem það birtir óviljandi. Í einni af eldri gerðum handritsins greina skrásetjararnir frá meginástæðunni fyrir verki sínu:

Þat er margra manna mál, at þat sé óskyldr fróðleikr at rita landnám. En vér þykjumsk heldr svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því, at vér séim komnir af þrælum eða illmennum, ef vér vitum víst várar kynferðir sannar… [5]

Í ritinu Iceland, the First New Society, bendir Richard F. Thomasson á sams konar áhuga meðal hetja Íslendingasagna sem voru skrifaðar á sama tímabili:

Noregur var miðjan og þeir sjálfir voru útjaðarinn […] Í Íslendingasögunum og sagnaritunum er Ísland úti en Noregur er „heima“. Íslendingar „sigla út“ til Íslands en „sigla heim“ til Noregs. Í Íslendingasögunum eru menn mjög uppteknir af því hvernig litið er á Íslendinga innan norsku konungshirðarinnar. Konungarnir og jarlarnir dást jafnan að því hve Íslendingar eru feikilega myndarlegir, gáfaðir, kurteisir, göfuglyndir og leiknir í íþróttum. (Thomasson, bls. 10)

Þetta virðist óbrigðult einkenni á yfirstétt landsins. Fimm árum áður en Ólafur Ragnar Grímsson skipaði sér í lið með eldfjalli virtist þjóðarstolt hans eiga sér traustari grundvöll. Árið 2005 var honum boðið að ávarpa meðlimi Walbrookklúbbsins í London. Yfirskrift erindisins var „Hvernig ná skal árangri í nútímaviðskiptum – lærdómar úr vegferð Íslendinga“ [6] og er prýðisgott dæmi um þá stemmningu sem var ríkjandi þegar efnahagsuppgangur Íslendinga var í hámarki. Forsetinn sagði að hann hefði nýlega verið „hvattur til að útskýra hvernig og hvers vegna áræðnir íslenskir athafnamenn ná árangri þar sem aðrir hika eða bregðast, að afhjúpa leyndarmálið að baki þeim árangri sem þeir hafa náð“. Hann taldi síðan upp þau þjóðareinkenni sem hann áleit skipta máli fyrir árangur Íslendinga: sterkt vinnusiðferði bænda og sjómanna, tilhneigingu til að

beina athyglinni að niðurstöðunum fremur en ferlinu […] að spyrja fremur hvenær en hvernig hægt sé að gera hlutina. Í þriðja lagi taka Íslendingar áhættu. Þeir eru áræðnir og árásargjarnir […] Í fjórða lagi er engu skrifræði fyrir að fara á Íslandi og þar umbera menn ekki skrifræðislegar aðferðir,

o.s.frv. Listinn er meira og minna í anda Clints Eastwood í dollaramyndunum sem aðeins mælir þarft eða þegir en lætur fyrst og fremst verkin tala. Ólafur er sannfærður um að aðrir geti lært af íslensku athafnamönnunum og lýsir árangurssögu þeirra sem „athyglisverðum sjónarhóli þaðan sem skoða má gildi hefðbundinna viðskiptafræða, þeirra kenninga og þeirrar starfsemi sem stórfyrirtæki og viðskiptaskólar beggja vegna Atlantshafsins hafa stundað og fylgt“. Hann endar síðan á hálfgerðri hótun: „You ain’t seen nothing yet“.

Auðvitað mætti tala hér um ofdramb, en það sem vekur athygli mína er sú ranghugmynd sem virðist mega greina í ræðu forsetans, þögulli iðju hetjanna sem þar er lýst og stoltinu yfir því að geta, að því er virtist, nánast gert kraftaverk. Þetta var útbreitt viðhorf. Í grein í The Observer í maí 2008 er vitnað í orð Dags B. Eggertssonar, 35 ára Samfylkingarmanns sem hafði komist skjótt til metorða: „Einhver kallaði það býflugnahagfræði – út frá vísindunum, loftaflfræðinni, er ekki hægt að átta sig á því hvernig býflugan flýgur, en hún gerir það, og það alveg prýðilega.“ [7] Í Walbrookræðu sinni lýsti Ólafur Ragnar Grímsson forseti sömu undrun og aðdáun: „Fólk lítur jafnvel á okkur sem heillandi meinlausa furðufugla og því eru allar gáttir galopnaðar þegar okkur ber að garði.“

Yfirstjórinn

Innan sálgreiningar er litið á geðveiki sem eina af þremur tegundum geðtruflunar, en hinar eru hugsýki og lastahneigð. Geðklofi er algengasta tegund geðveiki. Ríkjandi aðferðir við sjúkdómsgreiningu byggjast á nokkrum flokkum sjúkdómseinkenna og Bandaríska geðfræðisambandið (American Psychiatric Association) gefur út handbók með stöðluðum viðmiðum. [8] Sjúkdómseinkennin sem eru talin upp eru þessi, en af þeim þurfa tvö eða fleiri að vera fyrir hendi: ranghugmyndir, ofskynjanir, „óskipulegt tal sem birtingarmynd formlegrar hugsunartruflunar“, afar óskipulögð hegðun eða stjarfi, skortur á tilfinningaviðbrögðum, fámælgi og áhugaleysi.

Í sálgreiningu ráða þó sjúkdómseinkennin ein ekki úrslitum þar sem eðli raskana mótast af þeirri undirliggjandi vöntun sem sálarlífið hverfist um. Hugsjúkt sjálf verður til við innrás Lögmálsins sem byggist á áhrifum fjarlægs valds. Lacan kallaði þetta vald Nafn Föðurins, en í gamanmynd Lars Von Trier, Yfirstjórinn (d. Direktøren for det hele), frá 2006 er gerð skilmerkileg grein fyrir þýðingu þess: Í kvikmyndinni er Yfirstjórinn sá ímyndaði yfirmaður sem aðalpersóna myndarinnar vísar til þegar hann sker niður í fyrirtækinu. [9] Einstaklingurinn verður hugsjúkur þegar slíkur erindreki Lögmálsins lætur að sér kveða í tilvist hans og bælir niður löngun.

En önnur afstaða er þó hugsanleg: ekki að bæla löngunina heldur „afneita“ Yfirstjóranum, þ.e. einfaldlega að skeyta engu um bannið sem annars er lagt á í hans nafni. Að halda áfram að mæta í vinnuna jafnvel þótt maður hafi verið rekinn. Þetta er upphafið að hugkleyfri tilveru. Þar ræður þó ekki ríkjum sjálfsprottin, óheft gleði: Lögmálið takmarkast ekki við siðferðileg boð, heldur stendur það nær hugtakinu Logos – regla, orð og merking í einu knippi.

Fyrir „venjulegan“ hugsjúkan einstakling er Yfirstjórinn upphafsreitur merkingar. „Vegna þess að hann segir það“ er hinsta forsenda rökleiðslna, ekki bara um það hvort maður verði að fara í skólann eða ekki, heldur líka ef látnar eru í ljós efasemdir um hvort þetta sé skóli eða ekki, hvað það þýði að vera barn o.s.frv. Það sem ber og það sem er, eru óaðskiljanleg undir Lögmálinu. Ef ákall þess nær ekki til einstaklings, ef hann „afneitar“ Yfirstjóranum, skortir hann vissu um grundvallarviðmið í veröld sinni.

Stofnlygi

Samkvæmt Landnámu byggðist Ísland á tímabilinu 870–930 e.Kr. [10] Á meðal helstu ástæðna fyrir því að yfirgefa Noreg á þeim tíma var „löngun til að flýja ofríki Haraldar hárfagra sem hafði tekist að sameina Noreg“ og „reyndi að þvinga alla smáhöfðingja til að lúta valdi sínu“. [11] Nú er að vísu deilt um nákvæma tímasetningu landnámsins á Íslandi og uppruna landnámsmanna þar. [12]

Traustari heimildir eru fyrir kristnitökunni á Íslandi árið 1000 og ég hygg að hún hafi meiri þýðingu fyrir nútímann. Helstu samfélagslegu ákvarðanir voru teknar á alþingi að sumarlagi þegar höfðingjar og frjálsir menn komu saman til veisluhalda, trúlofana og til að jafna deilur. Kristnir trúboðar höfðu komið til landsins árið 995 og þar sem sumir höfðingjanna höfðu tekið kristni hafði skapast hætta á miklum innanlandsátökum. Á stormasömu alþingi árið 1000 „sögðust hvorir úr lögum við aðra, hinir kristnu menn og hinir heiðnu“.

Eftir „samningaviðræður og nokkrar mútugreiðslur samþykktu báðir aðilar að leggja ákvörðunina í hendur hinum heiðna lögmanni, Þorgeiri, mjög virtum manni“. [13] Hann er sagður hafa lagst undir feld dag allan og nóttina eftir uns hann birtist aftur og greindi frá niðurstöðu sinni: „honum þótti þá komit hag manna í ónýtt efni, ef menn skyldi eigi hafa allir lög ein á landi hér […] þat myndi at því ósætti verða, er vísaván var, at þær barsmíðir gerðust á milli manna, er landit eyddist af“, allir menn skyldu kristnir vera. – En hann bætti við að áfram gætu menn dýrkað hin heiðnu goð og fært þeim fórnir, ef leynt færi. „Skyldu menn blóta á laun, ef vildu en varða fjörbaugsgarðr, er váttum of kæmi við.“ [14] Höfðingjarnir féllust allir á þetta. Thor Vilhjálmsson lýsti þessum tímamótum síðar með þessum orðum: „Við urðum betri heiðingjar eftir að við tókum kristni“. [15]

Ef til vill var það einsdæmi að rof milli táknmyndar og táknmiðs skyldi þannig fært inn í stjórnlög. Á meðan sá viðtekni skilningur að táknmyndir og ætlað inntak þeirra eigi í undirskildu „opnu sambandi“ skapar möguleikann á íróníu, stofnar opinská, yfirlýst aðgreining þessara tveggja þátta til kýníkur (sem stundum er ruglað saman við „umburðarlyndi“): veraldar þar sem orð eru hvorki álitin hafa merkingu í skilningi þess að vísa til staðreynda, né framkvæmdarmátt. Slíkur skóggangur hinnar mállegu táknmyndar getur verið mjög erfiður viðureignar þar sem hin kýníska afstaða sem þannig er stofnað til getur sjálf varist öllum andófstilraunum.

Rofinu viðhaldið

Ef kristnitaka Íslendinga árið 1000 er tekin sem fyrsta merki um kerfislægt rof milli hins táknræna sviðs og Raunarinnar [16], sem valdi hugkleyfu ástandi innan samfélags, má líta á rofið milli ríkjandi þjóðrembu og þess hve Íslendingar hafa í reynd verið ofurseldir erlendum öflum á 20. öld sem viðhaldsvinnu við rofið.

Samkvæmt Sigurði Nordal markaði fyrsti ritsímasæstrengurinn milli Íslands og Evrópu, sem var lagður árið 1906, endalok miðalda á Íslandi. En margt var þá víst enn ógert og margt af því var síðar gert af eða í samvinnu við erlend herlið. Breski herinn nam Ísland árið 1941 og sá bandaríski tók við af honum árið 1942. Bandaríkjamenn fóru eftir stríðið, en komu aftur árið 1951, eftir að Atlantshafsbandalagið var stofnað, til að reisa herstöð á Íslandi, þar sem landið hafði hernaðarlega þýðingu í kalda stríðinu.

Efnahagsáhrifin voru gríðarleg: Bandaríski herinn lagði fyrsta nothæfa veginn sem tengdi saman hinar dreifðu byggðir. Herinn byggði líka eina alþjóðaflugvöllinn á landinu, líkt og Bretar höfðu gert flugvöll fyrir innanlandsflug í miðborg Reykjavíkur. Ísland fékk mesta Marshall-aðstoð allra ríkja miðað við höfðatölu, jafnvel þótt fiskútflutningur í stríðinu hefði verið svo ábatasamur fyrir Íslendinga að eldra fólk talar ennþá um „blessað stríðið“. Í hvert sinn sem innlendir stjórnmálamenn eða slæm efnahagsstjórn komu landsmönnum í vandræði var hægt að reiða sig á að bandamennirnir miklu í vestri keyptu af þeim fisk eða „opnuðu markaði“. Fyrirtækið sem var stofnað til að sinna byggingarstarfsemi í tengslum við herinn, Íslenskir aðalverktakar (IAV), er ennþá langstærsti byggingaraðilinn í landinu.

Íslendingar skrifuðu undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins árið 1949 þrátt fyrir hörð mótmæli. Mótmælin voru kveðin niður með lögregluvaldi og til þess beitt táragasi í fyrsta og eina sinn í sögu Íslands þar til í fjöldamótmælunum árið 2009. Mótmælin, táragasið og ákærur ríkisvaldsins á hendur mótmælendum í kjölfarið [17] mörkuðu upphaf og endalok tímaskeiðs, en ennþá er því afneitað hvers eðlis þau þáttaskil nákvæmlega voru, í Íslandssögunni eins og hún birtist víðast.

Það sem er merkilegt í ljósi núverandi aðstæðna er hve vera hersins hefur fengið tiltölulega litla athygli og umfjöllun miðað við áhrif hennar. Vissulega var herstöðin í um 50 km fjarlægð frá Reykjavík svo að hermennirnir og búnaður þeirra voru yfirleitt ekki í beinni snertingu við þorra landsmanna. Og vissulega gekk einnig hópur vinstrisinna, þar á meðal móðir mín og ég fimm ára gamall, frá herstöðinni til Reykjavíkur á hverju ári og kyrjaði slagorð og söngva friðarsinna. Þátttakendurnir, sem skiptu nokkrum tugum eða hundruðum, voru fámennur jaðarhópur sem fékk engu breytt. Meirihlutanum sem studdi hersetuna eða féllst á hana, tókst aftur á móti ágætlega að leiða herinn kurteislega hjá sér á meðan hann makaði krókinn.

Þetta skýrist ef til vill best í ljósi þjóðernisstefnunnar sem menn lýstu yfir á öllu pólitíska litrófinu. Jafnvel sá fjölmenni hægriflokkur sem leiddi ríkisstjórnir hlynntar bandarísku hersetunni næstum allt tímabil kalda stríðsins og lengur heitir „Sjálfstæðisflokkur“ og byggir sjálfsmynd sína á meintu sjálfstæði Íslands. Háskólasamfélagið virðist í heild þjást af sömu hugmyndafræðilegu sjónskekkju.

Fyrir utan rannsókn bandaríska stjórnmálafræðingsins Michaels T. Corgan [18] hefur sáralítið verið fjallað um hersetuna og áhrif hennar á íslenskt samfélag. Mikilvægasta einstaka pólitíska staðreyndin um Ísland á 20. öld, 55 ára herseta, er enn fyrst og fremst yrkisefni skálda. [19] Eftir að herinn hafði dregið saman starfsemi sína í Keflavík hvarf hann endanlega af landinu 15. mars 2006, án undangenginna samningaviðræðna, án þess að greiða bætur, án nokkurrar viðhafnar yfirleitt, að frátöldu bókasafni með 80 bókum um herfræði og stríðsrekstur sem var skilið eftir sem gjöf í kveðjuskyni handa íslenskum stjórnvöldum.

Tveimur árum síðar, þegar alþjóðlega bankakreppan skall á í lok september 2008, lýsti bandaríski seðlabankinn því yfir að hann mundi aðstoða seðlabanka í Svíþjóð, Noregi og Danmörku – en nefndi ekki Ísland. Skilaboðin voru ótvíræð: Þið eruð nú á eigin vegum. Þetta var á föstudegi. Næsta mánudag féll Glitnir, fyrstur íslensku bankanna. Áður en vika var liðin voru allir stóru bankarnir þrír komnir í ríkiseigu. Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins hélt því fram í útvarpsviðtali árið 2009 að hefðu Bandaríkjamenn „ennþá verið hér“ hefðu þeir aldrei „leyft hruninu að verða“.

Verufræðilegt óöryggi

Árið 1960 gaf breski geðlæknirinn R.D. Laing út bók sína Klofna sjálfið þar sem hann leitaðist við að „greina hvers eðlis reynsla [hugkleyfrar] manneskju er af heiminum og sjálfri sér“. [20] Laing notaði hugtökin hugkleyfur (e. schizoid) og geðklofa (e. schizophrenic) til að lýsa „stöðu heilbrigðs og geðveiks einstaklings hvorri um sig“ – ástand hugkleyfs einstaklings er dulinn geðklofi, ekki orðinn að geðveiki og ekki endilega einu sinni skaðlegur. Laing innleiddi hugmyndina um „verufræðilegt óöryggi“ sem lykilatriði til að skilja veru hins hugkleyfa í heiminum:

Maður kann að skynja veru sína í heiminum sem raunveruleg, lifandi, heil og, í tímalegum skilningi, samfelld manneskja. Sem slík getur hann beitt sér í heiminum og mætt öðrum – heimi og öðrum sem hann skynjar sem jafn raunverulega, heila og samfellda. Slík manneskja, sem er í meginatriðum verufræðilega örugg, mun mæta öllum hættum lífsins, félagslegum, siðferðilegum, andlegum, líffræðilegum, á grundvelli miðlægs og trausts skilnings á því hver veruleiki hennar og annars fólks er og hver hún sjálf og aðrir eru. Oft er erfitt fyrir manneskju með slíka skynjun á heilli sjálfsveru og persónulegri sjálfsmynd sinni, á varanleika hlutanna, […] á raunveruleika annarra, að setja sig í spor einstaklings með reynslu sem er gjörsneydd allri ótvíræðri fullvissu sem veitir sjálfum honum staðfestingu. [21]

Líf verufræðilega óöruggrar manneskju markast af viðbrögðum við einhverri ógn sem henni finnst sífellt steðja að sér:

Hin verufræðilega óörugga manneskja er gagntekin af því að viðhalda sér fremur en að fullnægja löngunum sínum – hin hversdagslegu lífsskilyrði ógna lágum öryggisþröskuldi hennar [og] fela [því] í sér samfellda og lífshættulega ógn. […] Hún verður að einbeita sér að því að hugsa upp leiðir til að reyna að vera raunveruleg, til að halda sjálfri sér og öðrum á lífi, til að viðhalda sjálfsmynd sinni, í því skyni, eins og hún orðar það oft, að koma í veg fyrir að hún glati sjálfi sínu. [22]

Þessi ógn tekur á sig þrjú meginform: Kaffæringu (e. engulfment), hrun (e. implosion) og stjarfa (e. petrification). Ógn kaffæringarinnar veldur því að maður kvíðir „tengslunum sem slíkum, við hvern eða hvað sem er eða jafnvel við sjálfan sig“ og á það á hættu þegar hann tekur upp hvers konar tengsl að glata sjálfræði sínu og sjálfsmynd. „Helsta úrræðið til að varðveita sjálfsmyndina andspænis þeim þrýstingi sem stafar af kaffæringarkvíða er einangrun.“

Ógn hrunsins stafar af „innri tómleikakennd“ þar sem sérhver tengsl við veruleikann fela í sér ógn við sjálfsmynd manns. Ógn stjarfans er sú hætta að verða „breytt úr lifandi manneskju í dauðan hlut, í stein, í vélmenni, í sjálfvirka vél, án persónulegs sjálfræðis til athafna, í það án sjálfs“ eða þá að gera aðra stjarfa, afneita sjálfræði hins, koma fram við hann „ekki sem persónu, sem frjálsan geranda, heldur sem það“. [23]

Laing útskýrir ástandið nánar með því að taka dæmi af sjúklingi, James 28 ára gömlum. Þótt algengasta viðbragðið við ógn kaffæringar og hruns sé einangrun, var viðbragð James við stjarfaógninni undanlátssemi á ytra borði, að „haga sér eðlilega“ þótt hann gerði aðra stjarfa í huganum:

Bæði úrræðin samanlögð tryggðu eigið sjálf hans sem hann mátti aldrei koma upp um opinberlega og sem gat því aldrei tjáð sig á beinan og krókalausan hátt. […] Með ytri hegðun sinni afstýrði hann þeirri hættu sem sífellt steðjaði að honum, þ.e. að verða hlutur einhvers annars, með því að þykjast vera bara korkur. (Enda er hægt að vera nokkur öruggari hlutur úti á hafi?) [24]

Erfitt kann að vera að greina muninn á slíku hugkleyfu sjálfi sem þykist laga sig að umhverfinu og verufræðilega öruggu, „eðlilegu“ sjálfi. Í fyrstu, segir Laing, kom honum

þægilega á óvart að [James] virtist geta hafnað og verið ósammála því sem ég sagði auk þess að vera mér sammála. Þetta virtist benda til þess að hann hefði í meira mæli sjálfstæðan huga en hann áttaði sig kannski á sjálfur og að hann væri ekki svo mjög hræddur við að sýna sjálfstæði í einhverjum mæli. Það kom þó í ljós að ástæða þess að hann gat látið eins og sjálfráður einstaklingur gagnvart mér var sú að á laun tók hann það til bragðs að líta ekki á mig sem lifandi manneskju, fullgilda persónu með eigið sjálf, heldur eins konar sjálfvirkt túlkunartæki sem hann mataði á upplýsingum og sem flutti honum munnleg skilaboð jafnharðan. Með þessu dulda viðhorfi til mín sem hlutar gat hann virst vera „persóna“. Það sem hann gat ekki viðhaldið var samband persónu við persónu sem skynjað var sem slíkt. [25]

Spölkorn frá Auschwitz

Ögmundur Jónasson skrifaði dagblaðsgrein skömmu áður en hann var gerður að dómsmála- og samgönguráðherra árið 2010 þar sem hann lýsti útþenslu Evrópusambandsins sem leit að „lífsrými“, en það hugtak hefur sömu aukamerkingar í íslensku og öllum öðrum Evrópumálum. [26] Þetta er engin nýbóla. Áður en Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til forseta var hann þingmaður Alþýðubandalagsins um árabil. Árið 1992, þegar Íslendingar áttu í viðræðum um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem veitti þeim aðgang að innri mörkuðum Evrópusambandsins, ásamt Noregi og Liechtenstein, kom Ólafur á framfæri eftirfarandi sýn í umræðunum:

Evrópulestin. Við vorum spurð að því hér hvort við ætluðum ekki að vera með í Evrópulestinni. Þá var myndin af hraðlestinni sem verið var að byggja í Evrópu á nýjum brautarteinum, sem með ógnarhraða tengdi saman borgirnar í eina heild. Í dag er mynd Evrópulestarinnar skuggamyndin úr styrjöldinni þegar fólk var flutt í ánauð og dauðann með lestum ógnarstjórnarinnar sem ríkti í Þýskalandi. [27]

Síðar bætir hann við dráttum í þessa mynd:

Richard von Weizsäcker, sá merki forseti Þýskalands, húmanisti, höfðingi og sómamaður, sem heimsótti okkur Íslendinga, getur ekki einu sinni haldið ræðu í höfuðborg Þýskalands án þess að æstur múgur nýnasista grýti hann svo að öryggisverðir verða að bregða skjöldum fyrir forsetann til að tryggja líf hans. Fyrrum formaður þýska jafnaðarmannaflokksins mátti þakka sínum sæla fyrir að sleppa úr höndum æstra öfgamanna í friðargöngu í Berlín og það lá við að hann yrði limlestur af hópum nýnasista. Hús eru brennd, heilar borgir eru á valdi öfgahópa og því miður er það þannig að vofa nasismans er farin að birtast á ný í þessu höfuðríki Evrópubandalagsins. [28]

Íslendingar skrifuðu að lokum undir EES-samninginn sem ríkisstjórnin hafði átt frumkvæði að og meirihluti alþingis studdi. Með einni athyglisverðri undantekningu lýsti þó aldrei neinn þingmaður nokkurn tíma í umræðunum yfir beinum stuðningi við sambandið sem pólitískt verkefni. Allar röksemdir fyrir samningnum byggðust á efnahagslegri þýðingu hans. Enginn alþingismaður talaði nokkurn tíma til stuðnings fólksflutningum, ferðafrelsi, menningaráhrifum, breiðari pólitískum vettvangi eða þátttöku í stækkuðu samfélagi. Raunar vísuðu flestir stuðningsmenn gagnrýni á bug með því að gera lítið úr áhrifum samningsins og bentu á að hægt væri að hafa eftirlit með fólksinnflutningi o.s.frv. Aðalbragð þeirra var þó það sama og nú – ruddaleg þögn.

Ummæli forsetans og dómsmálaráðherrans um fláttskap og illan ásetning Evrópusambandsins eru ekki undantekning í umræðunum um Evrópusambandið á Íslandi, heldur til marks um annað af tveimur ráðandi viðhorfum til sambandsins. Vænisjúkar áhyggjur af sjálfri tilvist Íslands gangi það í Evrópusambandið rista svo djúpt að nýstofnuð regnhlífarsamtök stuðningsmanna Evrópusambandsaðildar heita „Sterkara Ísland“.

Regnhlífarsamtök Evrópusambandsandstæðinga kalla sig á hinn bóginn að sjálfsögðu „Heimssýn“. Meðlimir þeirra fullyrða að þeir vilji halda Íslandi opnu fyrir umheiminum, en ekki lokuðu inni í nokkrum tilteknum samningi. Meðlimirnir spanna allt frá nýfrjálshyggjumönnum og íhaldsmönnum til sósíalista. Þeir benda á hin margvíslegu tækifæri í hnattvæddu umhverfi. Árið 2006 hófu Íslendingar t.d. samningaviðræður um fríverslunarsamning við Kínverja. [29] Hver sem andstaðan kann að vera gagnvart þeim samningi fer lítið fyrir henni.

Það var í takt við þetta að vegna mikilvægs samnings um fiskútflutning við Ítala í valdatíð Mussolinis tóku Íslendingar ekki þátt í stofnun Þjóðabandalagsins árið 1919, þar sem þau voru andvíg fasisma. [30] Ekki þarf að bera Kína saman við Ítalíu á fasistatímanum til að benda á samfelluna í afstöðu Íslendinga – allir samningar eru góðir svo framarlega sem þeir snúast bara um viðskipti eða þögla innleiðingu valds og ekki felast í þeim neinar skuldbindingar um opinber samskipti milli landa.

Merking

Hvað var það sem gerðist og nú gengur undir nafninu Hrunið? Allt frá því að Guð dó á 19. öld hafa ríkisstjórnir verið önnum kafnar við að breiða yfir þá vöntun sem það stýrilögmál samfélagslífsins skildi eftir sig. Þar sem Íslendingar höfðu aðeins tekið kristni að nafninu til vakti sá atburður sáralitla athygli meðal þeirra, þótt yfirgnæfandi meirihluti heiðinna íbúa landsins tilheyri lúthersku þjóðkirkjunni allt fram til þessa dags.

Á meðan hefur það lögmál sem í raun stýrir samfélagslífinu og á sér stoð í orðræðu, hugmyndafræði og tiltölulegum efnahagsstöðugleika verið jarðneskt boðorð um fórn og umbun, eða vinnu og eftirlaun. Þegar það lögmál féll úr gildi skildi það eftir algjört tóm – í bókstaflegum skilningi var ekkert undir fótum okkar annað en þessi klettur í miðju hafinu, jafn snauður af merkingu og af trjám. Kröfur hinna ýmsu hópa mótmælenda og pistlahöfunda sem brugðust við atburðinum má flokka á eftirfarandi hátt:

1. Sú efnahagslega krafa að tómið verði hulið eins hratt og mögulegt er – þ.e. stöðugleika komið á í efnahagslífinu, hugmyndafræðileg viðmið orðræðunnar lagfærð o.s.frv. Þetta hefur verið meginmarkmið nýju ríkisstjórnarinnar.

2. Sú krafa sósíal-demókrata að tómið verði ekki aðeins hulið heldur fyllt með því að leiða Yfirstjóra í öndvegi, svo sem með aðild að Evrópusambandinu, svo að regluverkið öðlist stöðugleika á einhverjum ímynduðum stað fyrir handan sem héti þá Brussel. Þetta hugsýkisferli hefur verið annað markmið ríkisstjórnarinnar.

3. Sú anarkíska krafa að tómið verði skilið eftir opið – í ljósi þess að það sem var rangt var ekki hrunið heldur það kerfi sem átti allan tímann skilið að hrynja. Það ætti hvorki að vera neinn Yfirstjóri né koma nokkurs konar yfirvarp í staðinn. Sumir þeir sem halda þessu viðhorfi fram tilheyra níumenningahópnum svokallaða sem nú er ofsóttur af ríki og lögreglu.

4. Sú kommúníska krafa að það beri að fást við tómið sem slíkt, að við, þjóðin, eigum að nota tækifærið og byrja frá grunni og fylla það af hægri og vökulli yfirvegun samkvæmt áætlun í þágu samfélags og jafnræðis. Skýrasta birtingarmynd þess var yfirlýsing sem birtist árið 2008 þar sem hvatt var til þess að stofnað yrði nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá.

Sú hugmynd Naomi Klein að fylgismenn Miltons Friedmans hafi gert áföll að aðferðafræði hefur opnað augu margra. Að Íslandi steðja enn allar þær hættur sem lýst er í bók hennar Áfallskenningin. [31] Að verki eru sterk öfl sem vinna að því að fórna orkuauðlindum og öðrum grundvallarverðmætum fyrir skammvinnan efnahagsbata, en sú ríkisstjórn sem var kosin eftir hrunið hefur enn sem komið er einkum verið vinstrisinnuð að nafninu til. [32] Hins vegar starfar nú af krafti á ýmsum vígstöðvum andkapítalísk hreyfing sem ekki var til á þensluárunum, svo sem áðurnefndir anarkískir aðgerðasinnar, íslensku Attac-samtökin og fjölmargir einstakir pistlahöfundar, bloggarar og mótmælendur.

Hinn mikli munur á opinberri umræðu fyrir og eftir áfall Íslendinga árið 2008 gefur til kynna að Hrunið kunni enn að reynast lífsnauðsynlegt kall til veruleikans fremur en náðarhögg. Árið 2005 bar enginn brigður á blátt áfram rasísk ummæli Ólafs Ragnar Grímssonar forseta um hvað Íslendingar væru frábærir,. En þegar hann brá sér í gervi eldfjalls árið 2010 olli hann aftur á móti miklu uppnámi og þau viðbrögð voru sjálf gagnrýnd og umtöluð.

Níu binda skýrslan um stjórnmál og viðskipti í aðdraganda og kjölfar efnahagshrunsins, sem var samin af óháðri nefnd og gefin út af Alþingi, er langvinsælasta bók ársins 2010 og hefur almennt verið hrósað sem ítarlegri, óvæginni og óhlutdrægri. Það er löng vegferð framundan, en sameiginlega er verið að reyna að tengja orð við veruleika. Þetta, möguleikinn að öðlast merkingu, liggur handan stjórnmála og er í þeim skilningi hápólitískt.

Árið 2005, á meðan aðrir landsmenn lágu í pólitískum dvala, færðu samtökin Saving Iceland með sér andkapítalíska aðgerðastefnu til landsins í baráttu gegn áliðnaðinum. Fólk varð stórhneykslað á ósvífni þeirra. Íslenskar andófshreyfingar höfðu í raun aldrei séð fyrir eða náð fram breytingum. Eins og þegar hefur verið nefnt gengu herstöðvaandstæðingar á hverju sumri áratugum saman frá bandarísku herstöðinni og ítrekuðu fullvissu sína um að áorka engu í hverju skrefi aftur á bak.

Eftir á að hyggja gegndu hinar alþjóðlegu mótmælabúðir Saving Iceland hlutverki þjálfunarbúða fyrir mótmælin 2008–2009 sem kölluð hafa verið „búsáhaldabyltingin“. Aðferðafræði þeirra voru beinar aðgerðir, að trufla aftur og aftur vinnu við stífluna sem verið var að byggja til að útvega álverksmiðju Glencore International orku. Úrræði og verkleg kunnátta baráttufólksins reyndust hafa mikla þýðingu eftir hrunið.

Ekki var þó síður mikilvægt það hugarfar sem breiddist út á milli manna – sú einfalda sannfæring að orð og gerðir eru í tengslum við heiminn og hafa áhrif á hann. Þessi óformlega hreyfing, sem varð til með frjálsum tengslum einstaklinga, hefði ekki getað orðið til nema vegna EES- og Schengen-sáttmálanna sem neyddu Íslendinga til að halda opnum gáttum fyrir evrópska ríkisborgara. [33]

Flestir af þeim vinstrisinnum sem eru ekki beinlínis andvígir umsókn Íslands að Evrópusambandinu gera lítið úr mikilvægi hennar og segja hana ekki skipta máli fyrir raunverulega, róttæka pólitík. Sumir leika út báðum spilum. Ég er ekki sammála. Þar sem EES-samningurinn er nú álitinn vera tímabundnar leifar liðins tíma stendur valið, til langs tíma litið, milli fullrar aðildar að Evrópusambandinu eða áframhaldandi tilviljunarkenndra fríverslunarsamninga við Kína eða hvern þann sem ber að garði, án nokkurrar þýðingar nema peningalegrar, án nokkurra aukinna lýðréttinda og án nokkurs aukins svigrúms fyrir frjáls félagasamtök.

Yfirleitt er gengið út frá því sem vísu að orð séu fær um táknun og aðgerðir. Aðeins þegar sú geta er ekki fyrir hendi, þegar ranghugmynd er ríkjandi ástand, verður þessarar getu vart sem nauðsynlegrar forsendu allra stjórnmála. Eftir 16 ára aðild að EES-samningnum væri lokun landamæra Íslands fyrir Evrópu sambærilegt því að fella stjórnarskrá úr gildi og takmarka gildissvið lýðréttinda við geðþóttaákvarðanir sveitarfélags – og það tækifærissinnaðs og geðklofa sveitarfélags. Ég veðja á ófyrirséða möguleika stærra samfélags, ókannaða möguleika uppnámsins sem í því felast að tengjast sameiginlegu umdæmi hugsýkinnar.

 

 

Greinin er upphaflega samin fyrir Lettre International í Þýskalandi.

 

Tilvísanir

  1. John Carlin. „No wonder Iceland has the happiest people on earth“. The Observer, 18. maí 2008.
  2. Hermanni Stefánssyni kann ég bestu þakkir fyrir að benda mér á þetta rit.
  3. Ólafur Ragnar Grímsson í Newsnight, BBC, 19. apríl 2010. http://news.bbc.co.uk/2/hi/8631343.stm
  4. “Inspired by Iceland video”, http://vimeo.com/12236680. Ímynd landsins erlendis er álitin svo mikilvæg bæði í fjárhagslegum skilningi og af öðrum orsökum að herferðin var bókstaflega skilgreind sem neyðarúrræði, svo vikið var frá viðteknum reglum og verkefninu úthlutað til ákveðinna auglýsingastofa án þess að leitað væri eftir tilboðum frá samkeppnisaðilum.
  5. Richard F. Thomasson. Iceland, the First New Society. University of Minnesota Press, 1980, bls. 7.
  6. Sjá textann í heild á opinberri heimasíðu forsetaembættisins: http://forseti.is/media/files/05.05.03.Walbrook.Club.pdf
  7. Carlin í The Observer, 2008.
  8. „Schizophrenia“. Diagnostic and statistical manual of mental disorders. The American Psychiatric Association, 2000.
  9. Í myndinni koma fyrir vel leiknir önugir íslenskir „útrásarvíkingar“ sem una því ekki að fást við millilið, heldur heimta að fá að hitta hinn fjarverandi Yfirstjóra og er þá ráðinn leikari til að fara með það hlutverk.
  10. Þetta hefur verið vefengt á grundvelli fornleifauppgötvana undanfarna þrjá áratugi sem styðja kenningar um að norrænir landnámsmenn kunni að hafa komið nokkrum áratugum, jafnvel öldum fyrr.
  11. Richard F. Thomasson. Iceland, the first new Society. University of Minnesota, 1980, bls. 5.
  12. Páll Theódórsson. „Hvað hét fyrsti landnámsmaðurinn?“ Skírnir, haust 2010. Bls. 511–522.
  13. Thomasson, bls. 178.
  14. Thomasson, bls. 179. Texti Íslendingabókar fenginn hér: http://is.wikisource.org/wiki/%C3%8Dslendingab%C3%B3k#7._Fr.C3.A1_.C3.BEv.C3.AD.2C_er_kristni_kom_til_. C3.8Dslands.
  15. Thomasson, bls. 86.
  16. Hér er stuðst við hugmyndir sálgreinandans Jacques Lacan um táknbundinn raunveruleika og ótáknaða Raun, eins og þær birtast meðal annars í Óraplágunni eftir Slavoj Zizek (HÍB 2007).
  17. Nýjustu tíðindi af réttarhöldunum yfir áttmenningunum er að finna á http://www.rvk9.org/in‐english/
  18. Michael T. Corgan. Iceland and its Alliances: Security for a Small State. the Edwin Mellen Press, 2002.
  19. Þá ber þess augljóslega að geta að Valur Ingimundarson hefur rannsakað hersetuna og gert utanríkisstefnu Íslendinga ítarleg skil í verkum sínum.
  20. Laing, R.D. The Divided Self, An Existential Study in Sanity and Madness. Fyrst gefin út af Tavistock Publications 1959. Tilvitnuð gerð gefin út af Penguin Books 1990, bls. 17.
  21. Laing, bls. 39.
  22. Laing, bls. 42.
  23. Laing, bls. 46.
  24. Laing, bls. 48.
  25. Laing, bls. 49. Ótal dæmi eru um að menn geri sér þannig upp eðlilegt atferli á Íslandi. Á skilti við sveitaveg á Vesturlandi sem vísar á minnismerki stendur á ensku: Þessi tiltekna kona „the first European woman to give birth in America“. Íslenski textinn er aftur á móti: „fyrsta hvíta móðirin í Ameríku“. Það er engin tilviljun hve tónninn er mismunandi: Við skulum þykjast vera eðlileg og með réttar skoðanir gagnvart útlendingum, en við vitum öll um hvað þetta snýst í raun …
  26. „Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn,“ skrifaði Ögmundur einnig í greininni „Virkisturn í norðri“ sem birtist í Morgunblaðinu 6. ágúst 2010.
  27. Ræða á Alþingi 9. september 1992, 13:39. www.althingi.is/altext/116/09/r09133900.sgml
  28. Ræða á Alþingi 15. desember 1992, 15:47. www.althingi.is/altext/116/12/r15154723.sgml
  29. Aukin tengsl við Kína hafa m.a. leitt til þess að flokkar láglaunaðra byggingarverkamanna voru fengnir til að reisa hina gríðarstóru tónlistar- og ráðstefnuhöll í miðbæ Reykjavíkur sem var hugarfóstur bankamanna fyrir hrun. Verkamennirnir búa í fyrrverandi herstöðinni við Keflavíkurflugvöll og þeim er ekið fram og aftur milli vakta til að girða fyrir alla möguleika á nokkrum samskiptum milli þeirra og heimamanna. Hvað sem hægt er að segja um framkomu Íslendinga við pólska verkamenn á uppgangsárunum, nutu þeir að minnsta kosti formlegra borgararéttinda og ferðafrelsis.
  30. Sjá t.d. Þór Whitehead. Íslandsævintýri Himmlers 1935–1937. Reykjavík, 1988.
  31. Naomi Klein. The Shock Doctrine. Metropolitan Books, 2007.
  32. Með sumum nýlegum skrefum sem ríkisstjórnin hefur tekið virðist hún reyndar smám saman vera að færast nær vinstristefnu, sérstaklega með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfisins í fiskveiðum úr sameiginlegum stofnum.
  33. Schengen-sáttmálinn kann að vera fyrirlitlegur eins og ríkisstjórnir hafa framfylgt honum og vísað flóttamönnum út og suður á ómanneskjulegan hátt, en hann er þó hátíð miðað við þá utanríkisstefnu sem Íslendingar hafa rekið allt frá lýðveldisstofnun. Það er markvert að hin pólitíska valdastétt í landinu harmaði það þegar Íslendingar skrifuðu undir Schengensáttmálann, að sjálfsögðu ekki vegna þess að með honum væri reist víggirðing um Evrópu, heldur vegna þess að landið yrði að opna landamæri sín fyrir Evrópu til að halda áfram að hafa aðgang að Norðurlöndunum. Á þeim tíma höfðu Íslendingar veitt einum manni pólitískt hæli á 20 árum. Sjá ávarp Davíðs Oddssonar á málþingi Lögfræðingafélags Íslands „Um för yfir landamæri: Mannréttindi eða forréttindi?“ http://www.forsaetisraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/372