Eftir Rúnar Helga Vignisson
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019
„Það er erfitt að lifa en ekki að skrifa um það,“ segir Carolina Setterwall í viðtali um bók sína Vonum það besta (2018) þar sem hún lýsir einni erfiðustu lífsreynslu sem manneskja getur lent í, makamissi. „Att leva är svårt, men inte att skriva om det.“[i] Í lok október árið 2014 ákveður hún að sofa ekki í hjónaherberginu heldur í barnaherberginu hjá tæplega níu mánaða gömlum syni sínum, eins og hún hefur iðulega gert vegna þess hvað hann er órólegur á nóttunni. Þegar hún vaknar morguninn eftir og vitjar mannsins síns reynist hann vera látinn, einungis þrjátíu og fjögurra ára að aldri. Tom Malmquist, annar sænskur höfundur, lýsir því í bókinni Hvert andartak enn á lífi (2015) hvernig barnshafandi kona hans veikist skyndilega af bráðahvítblæði og deyr síðan nokkrum dögum eftir að framkvæmdur hefur verið keisaraskurður. Eftir stendur hann með nýfætt barn og þúsund spurningar.
„Att leva är svårt, men inte att skriva om det.“ Sum okkar kynnu að halda öðru fram varðandi síðari liðinn, enda fela skrifin í sér að endurupplifa hina erfiðu lífsreynslu. Um leið getur það hjálpað fólki að vinna úr í áföllum eins og Anna Ingólfsdóttir, aðalhöfundur bókarinnar Makalaust líf (2012), hefur bent á. Hún skráði einmitt niður reynslu sína af veikindum og missi manns síns jafnóðum og það segir hún hafa hjálpað sér við úrvinnslu sorgarinnar.[ii] Að skrifa er að hugsa og höfundurinn er tilfinning heimsins.
Þetta hafa margir reynt, enda á mannkynið ótal sögur um missi og hörmungar. Frægar eru bækur bandarísku rithöfundanna Joyce Carol Oates og Joan Didion um makamissi. Sú síðarnefnda skrifar sína bók, The Year of Magical Thinking (2005), á meðan hún gengur í gegnum sorgarferlið og ber hún þess merki. Hún byrjar á henni sama dag og maður hennar deyr og skrifar hana á 88 dögum. Tilganginn með skrifunum segir hún vera að átta sig á tímanum sem fór í hönd, vikum og mánuðum sem brutu upp allar fastmótaðar hugmyndir sem hún hafði haft „um dauðann, um sjúkdóma, um líkur og heppni, um lán og lánleysi, um hjónaband og börn og minni, um sorg, um það hvernig fólk fæst og fæst ekki við þá staðreynd að lífinu lýkur, um það hvað geðheilsan má við litlu, um lífið sjálft“ (7).
Bók Joyce Carol Oates, A Widow’s Story (2011), er skrifuð þegar aðeins meira vatn hefur runnið til sjávar og er því yfirvegaðri og vitsmunalegri, en eigi að síður verður úr mögnuð lesning þar sem dauði eins er nýttur til að ná utan um tilvistarástand okkar mannanna. „My husband died, my life collapsed,“ stendur við titil fyrsta bókarhlutans, maðurinn minn dó, líf mitt hrundi. Báðar eru konurnar afar vel lesnar í bókmenntum, heimspeki og fleiru og nota þær þekkingu sína til þess að ljá umfjöllun sinni meiri dýpt og öðlast meiri sjálfskilning. Í bókunum sem hér verða til umfjöllunar er ekki gerð sérstök tilraun til þess að sækja utanaðkomandi visku, enda eru þær sjálfsprottnar ef svo má segja.
Allar eru þessar bækur til marks um vinsældir bókmenntagreinar sem ég hef kallað sannsögur og er hugtakinu ætlað að ná yfir það sem fyrir engilsaxneskum heitir „creative nonfiction“.[iii] Í skrifum af því tagi eru teknir fyrir sannsögulegir atburðir og þeim breytt í sögu sem er miðlað með hinum háþróuðu aðferðum skáldskaparins. Notuð eru samtöl og sviðsetningar en einnig er rými innan þessarar bókmenntagreinar fyrir persónulegar hugleiðingar af ýmsu tagi eins og Karl Ove Knausgård hefur sýnt í hinum mikla bókaflokki sínum Min kamp.
Sannsagnahöfundur notar sjálfan sig oftast sem sögumann og það skapar mikla nánd. Textinn er iðulega spjallkenndur, rétt eins og rabbað sé við lesandann á persónulegum nótum yfir kaffibolla, fremur en að messað sé yfir honum á hátíðlegan hátt, hvað þá talað niður til hans. Hér þarf höfundurinn að gæta þess að verða ekki of sjálfumglaður og mála ekki of einhliða mynd af sér, þá er hætt við að lesandanum þyki hann ekki nógu trúverðugur, verði honum jafnvel afhuga. Þessi aðferðafræði leiðir yfirleitt til þess að sannsögur verða mjög aðgengilegar, eru eins og skáldsögur aflestrar en þó um raunverulega atburði. Miðað er við að allar staðreyndir séu sannleikanum samkvæmar að svo miklu leyti sem það er unnt. Ekki er ætlast til þess að skáldað sé inn í heldur skal sannleikurinn birtur ber og þannig komið til móts við hungur okkar eftir raunverulegum atburðum. Á alvöruforlögum er meira að segja farið í nákvæma villuleit þegar sannsögur eru annars vegar.
Því hefur verið haldið fram að það eitt að nota aðferðir skáldskaparins dugi til þess að úr verði skáldskapur, lífsreynslu sé umbreytt í texta og við það ferli verði til það sem við köllum skáldskap, enda nái minnið seint að halda utan um allar þær smáu staðreyndir sem þarf til að sviðsetja einstaka atburði úr fortíðinni, ekki einu sinni þó að dagbækur hafi verið haldnar, auk þess sem við höfum tilhneigingu til þess að urða það sem getur komið illa út fyrir okkur.[iv] Minni er vissulega brigðult og háð sjónarhorni sem skapar sammannlegan vanda þegar að öllum upprifjunartextum kemur eins og kristallast í þeim orðum Ara fróða að hafa skuli það sem sannara reynist fremur en það sem sannast reynist eða það sem satt reynist. Þessi fleygu orð gætu sem best verið einkunnarorð sannsagna.
Sænsku bækurnar tvær nýta sér aðferð sannsögunnar til hins ýtrasta og sumir gagnrýnendur kalla þær skáldsögur. Segja má að Tom Malmquist sé lærisveinn Joan Didion að því leyti að hann reynir að láta lesandann upplifa atburðina með sér jafnóðum og þeir gerast. Það er engu líkara en lesandinn sé staddur í þeim miðjum, hafi enga fjarlægð á þá og að skilningarvit höfundarins séu okkar. Sagan er sögð í nútíð og stíllinn sjálfur er nýttur til þess að miðla þeirri ringulreið og angist sem Tom upplifir í tengslum við veikindi, dauða og eftirmál hans:
Yfirlæknirinn læsir hjólunum á sjúkrarúmi Karinar með fætinum. Háum rómi upplýsir hann hjúkrunarfræðinga gjörgæslunnar sem klippa í sundur hlýrabolinn og íþróttatoppinn: Barnshafandi kona, barni farnast vel samkvæmt skýrslu, vika þrjátíu og þrjú, veiktist fyrir um það bil fimm dögum með flensueinkenni, hita, hósta, í gær væg andnauð sem var talin tengjast meðgöngunni, miklu verri líðan í dag, alvarleg andnauð, kom á fæðingardeildina fyrir klukkutíma. … Ljósmóðirin sem sá um súrefnið á leiðinni hingað hikar í dyrunum. Hún tekur varlega um upphandlegginn á mér. Þú ert í stofu B á gjörgæslunni, viltu að ég skrifi það á miða fyrir þig? Það er óþarfi, takk, svara ég. Hún fær almennilega hjálp núna, segir hún. (5)
Þannig hefst bókin á komu eiginkonunnar sjúku á spítalann. Þarna er mikið undir, barn í kviði og móðirin með andnauð. Þegar að samtölum kemur er þeim miðlað í belg og biðu, án þess að greinaskil aðgreini þau eða gæsalappir og allt skapar þetta umrædda angistar- og glundroðatilfinningu í textanum, eins konar stýrt vitundarstreymi. Þar með finnum við hvernig sögumanni líður, verðum jafn ringluð og illa áttuð og hann þegar á söguna líður.
Bókin skiptist í tvo hluta sem eru svolítið ólíkir. Annars vegar frásögnina af spítalanum, sem mér finnst áhrifaríkasti hluti bókarinnar og í rauninni mikið afrek, og hins vegar af eftirmálum, svo sem umönnun dótturinnar og baráttunni við sænska kerfið sem vill m.a. fá sönnun fyrir því að hann sé faðir dóttur sinnar þar sem hann var ekki kvæntur barnsmóðurinni. Það reynist vera mikið ferli þar sem dómstólar koma við sögu. Á þeim kafla verður sagan kafkaísk í meira lagi, svo mjög að reynir á trúgirni manns. Til að bæta gráu ofan á svart deyr síðan faðir Toms líka.
Allan tímann miðlar stíllinn líðan Toms þar sem hann reynir að krafsa sig út úr þessu í sorgarferlinu miðju, nokkuð sem gerir miklar kröfur til höfundar og reyndar einnig til þýðandans, Davíðs Stefánssonar, sem hefur þó svarað þeirri áskorun vel. Aðferð Malmquists gerir þessa bók að eins konar prófraun á það hvort bókmenntir geti miðlað upplifun í rauntíma, verið bókmenntir í beinni ef svo má að orði komast. Um leið má auðvitað spyrja sig um réttmæti þess að gera mannlega eymd að afþreyingu, já og lífsviðurværi, en er það ekki grundvallarspurning þegar að allri sagnamiðlun kemur, sama í hvaða formi hún er? Er ekki einn tilgangur hennar að rjúfa einangrun okkar og gera okkur kleift að deila sorgum og sigrum með öðrum?
Carolina Setterwall fer svolítið aðra leið í sinni miklu bók, Vonum það besta, sem nú kemur út í þjálli þýðingu Höllu Kjartansdóttur. Hún skrifar bókina að vísu í nútíð líka, leyfir okkur að fylgja sér í gegnum ýmsa kafla úr lífi sínu, en frásögn hennar er yfirvegaðri en frásögn Malmquists, ekki sama vitundarstreymið og ringulreiðin í textanum sjálfum þó að lýst sé jafn erfiðum veruleika. Setterwall skrifar bókina, sérstaklega framan af, til hins látna eiginmans, ávarpar hann iðulega: „Þú ert ekki vanur að sofa í svona annarlegri stellingu. Í kengboginni hliðarlegu en með andlitið þrýst ofan í koddann“ (18). Með þessu kemur mikil nánd og væntumþykja inn í textann, rétt eins og í minningargreinum í Morgunblaðinu þar sem þessu stílbragði er stundum beitt.
Setterwall hleypir lesandanum líka býsna nálægt sjálfri sér, svo nálægt að þegar líður á bókina er engu líkara en maður sé orðinn vinur hennar. Við fáum enda bæði að sjá kosti hennar og lesti sem gerir að verkum að hún verður samsett persóna, ekki einhliða, að því er virðist alveg ónæm fyrir augnaráði lesandans. Hún hefur ekki uppi neina tilburði til að sýna sig eða sanna, er bara ósköp venjuleg manneskja að kljást við hversdaginn og tilvistarvandann á sinn ærlega hátt, já og auðvitað sorgina sem hefur orðið hlutskipti hennar. Á milli hennar og okkar virðist ekki vera neitt sem truflar eða kemst upp á milli nema ef vera skyldi sú hannaða formgerð sem hún velur frásögn sinni, hvernig hún stillir efninu upp til að það verði sem áhrifaríkast. Hún hefur t.d. bókina á því að vísa í leiðbeiningar sem maðurinn hennar sendi henni hálfu ári áður en hann dó, leiðbeiningar um það hvernig hún eigi að bregðast við ef hann skyldi verða kallaður brott. Þetta flækist samt ekki fyrir að neinu marki vegna þess að við þekkjum þessar aðferðir til að halda lesanda við efnið.
Bók Setterwall er líka tvískipt. Fyrri hlutinn samanstendur af tveimur söguþráðum, annars vegar úr núinu í kringum dauða manns hennar, hins vegar köflum sem lýsa því sem hún hefur misst, þ.e. sambúð þeirra allt frá fyrsta kossi. Þegar þessir þræðir hafa náð í skottið hvor á öðrum hefst seinni hluti bókarinnar sem er án markvissra endurlita. Þar lýsir Setterwall lífi sínu eftir dauða mannsins, flutningum, umönnun sonarins og samdrætti við annan mann, sem vel að merkja hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og hún sjálf, er ekkill og einstæður faðir. Þau fara að draga sig saman tæpum tveimur árum eftir að hún missir mann sinn, sem sumum þykir of snemmt, og lenda í hremmingum, kannski vegna þeirrar spegilmyndar sem þau verða hvort öðru.
Rauður þráður í frásögn Setterwall er að hún hafi valdið dauða manns síns. Hún hafi þröngvað honum til að eignast barn með sér þó að hann hafi ekki verið tilbúinn og hafi haft efasemdir um að hann hefði orku til þess. Hún hafi þrælað honum út við flutninga og vinnu. Þetta stöðuga samviskubit nístir hana stóran hluta þess tíma sem bókin spannar, þó að aðrir reyni að tala um fyrir henni, og vekur spurningar um það hvaða áhrif náin sambúð hefur á fólk. Hvers vegna áttaði hún sig ekki á því að hann gengi ekki heill til skógar? Var hún í afneitun eða komu hversdagsannirnar í veg fyrir það? Vel má þó vera að samviskubit hennar sé eðlilegt viðbragð við skyndilegum og ótímabærum missi.
Setterwall er upptekin af sorgarferlinu og stigum þess. Hún fer á bókasafn og fær lánaðar bækur um sorgarferlið í von um að geta farið hraðar í gegnum það og byrjað sem fyrst að lifa venjubundnu lífi aftur. Hún lætur fjarlægja rúmið sem maðurinn hennar dó í, sem og fötin hans, og flytur við fyrsta tækifæri í aðra íbúð. Hún gengur til sálfræðings, einnig í von um að hraða ferlinu, en sálfræðingurinn segir henni að hún hafi komið of snemma og vísar henni frá. Ferlið tekur sinn tíma og verður ekki umflúið, hún er berskjölduð gagnvart áfallinu.
Sama er að segja um Tom Malmquist, hann þarf að ganga í gegnum sitt sorgarferli jafn óundirbúinn samhliða því að takast á við umönnun hvítvoðungs sem er eðli málsins samkvæmt heldur flóknara fyrir karlmann. Samskiptin við tengdaforeldra eru líka flókin og síðan lætur faðir hans í minnipokann fyrir krabbameininu sem hann hefur glímt við árum saman. Sögu Malmquists lýkur þegar dóttir hans byrjar á leikskóla og því spanna bækurnar álíka langan tíma. Báðar eru þær grípandi og opna glugga inn í mannlegt líf. Á sinn hátt eru þær afrek. Það hve mörg okkar heillast af frásögnum sem þessum, þar sem venjulegt fólk fæst við raunverulega harmleiki, segir trúlega margt um okkur sjálf. Þarna komumst við í beint og milliliðalaust samband við þjáningar annarra eins og þær koma af skepnunni. Í því felst lykillinn að því hvers vegna við leitum í sögur yfirleitt, hvernig þær brúa bilið á milli okkar og búa okkur þegar best lætur undir það að takast á við þá sorg sem bíður okkar flestra einhvern tíma á ævinni.
Greinin var hluti af umfjöllun um Bókmenntahátíð í Reykjavík í apríl 2019.
Tilvísanir
[i] „När sorgen blandas med skuld och ilska“. HD 3.1.2018: https://www.hd.se/2018-01-03/nar-sorgen-blandas-med-skuld-och-ilska
[ii] „Það er ávallt þess virði að elska“. Morgunblaðið 19.11.2012: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1444632/
[iii] Um sannsögur í þessum skilningi má m.a. lesa í bók Davids Morley, The Cambridge Introduction to Creative Writing (Cambridge: Cambridge University Press, 2007) bls. 177–193.
[iv] Umræðu um þetta má m.a. finna í bók Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, Borderline: Autobiography and Fiction in Postmodern Life Writing (Amsterdam, New York: Rodopi, 2003), bls. 4–5.