eftir Natöshu S.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022

 

Natasha S.

Natasha S. / Ljósmynd: Eva Schram

Rústir

ég sat á fornum rústum
með fallegt útsýni yfir þök og fljót
á hlýjum og björtum degi
éclair í boxi við hlið mér
og skrifaði póstkort til mín

í rauðri viðvörun flaug ég heim
daginn eftir hófst stríð

ég fór á fyrsta stefnumót
í myrkum bíósalnum
ómaði hjartslátturinn
mig vantaði súrefni
langt í burtu blikkaði kvikmynd
mér líkaði samt að sitja við hliðina á honum
sem hvíslaði hvort ekki væri best að fara
svo við fórum

viskí flæðir
ofsahlátur
hundar gelta
konur detta

við brostum hvert til annars
hann stríddi mér
ég hló
stríðið hafði geisað í sólarhring
þung augu mín
voru dregin niður

 

Járntjaldið

í langri röð í apóteki bíður pabbi minn
heldur í miða með lista yfir lyf
við of háum blóðþrýstingi
sykursýki
krabbameini
hann kaupir eins mikið og hann getur

mamma fer í fatabúð
sendir myndir af fötum
fallegum strætum æsku minnar
brosandi andliti sínu

við systir mín tölum ekki lengur saman
guðdóttir mín sendir grátandi broskall
uppáhaldsveitingastaðurinn hennar lokaði

þegar slökkt verður á netinu
öll skilaboð ritskoðuð
ætlum við vinkonurnar að tala
um matreiðslu

hann-sem-má-ekki-nefna – kartafla
fjölmiðlar – bakkelsi
tilfinningar – súpur

tilbúnar gildrur
á landamærum
standa opnar