Eftir Berg Ebba Benediktsson
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2013
Vestur-Berlín IV
Í rjóðri í Tiergarten,
í skjóli frá skarkala borgarinnar.
Hér er alltaf haust.
Hver dagur byrjar eins,
þú gengur af stað í snjóþvegnum gallajakka.
Hér er upptökuverið
þar sem Bowie tekur upp Heroes eftir korter.
Útsýni yfir Potzdamer Platz.
Heitur koss í köldu stríði.
Svo aftur með vindinum
svífa tvö gallajakkaklædd
í mannhafið á Ku‘damm.
Hann er óskiljanlegur stormurinn.
Vindurinn sem feykir ástföngnum.
Trylltur vindurinn sem feykti mér hingað.
Nú skarta ég brosi í miðjum augum
því það er gleði að fjúka með öðrum.
Kit Kat klúbb
Denim decadence
Hommadaður
Sprautudauði
Svo byrjum við upp á nýtt
Það liggur blóðugur hálsklútur í snjónum,
þau hlaupa kát upp tröppurnar á jarðlestastöðinni,
áttavilltir krakkar.
Þú kveikir ljós í glugga þínum í blokkinni
Ég sé það þar sem ég stend 200 metrum frá
og svæli sígarettur.
„Að við skyldum aldrei hafa verið til“
sé ég krotað á vegg
hjá Kottbuscher Tor
áður en ég lygni aftur augum
og stirðna.
Svo vakna ég aftur
í rjóðri í Tiergarten
í snjóþvegnum gallajakka.
Kyrrðarstund
Það eru engar trommur,
engir lúðrar,
engin rúða brotin.
Ekkert í sjónvarpinu,
engar fylkingar,
engir fánar.
Þvílíkan frið hef ég ekki fundið lengi.
Það eru tvær klukkustundir síðan ég vaknaði.
Ég sit rólegur í stól,
borða hrökkbrauð með kavíar,
fletti bæklingi frá ferðaskrifstofu sem kom inn um lúguna.
Ég finn að stríðið er hafið.