Eftir Matthías Tryggva Haraldsson
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2014
Viljaþula
Ég vil að þú hringir en bara ef þú vilt það
Ég vil hringja í þig en bara ef þú vilt það
Ég vil vera með þér en bara ef þú vilt það
Ég vil að við tölum
Ég vil vera þinn ef þú talar við mig
Ég vil að þú viljir að ég tali við þig
Ég vil þig
Ég vil þig og vil að þú viljir
Ég vil að þú viljir allt sem ég vil
Ég vil að þú skiljir það sem ég vil
Ég vil það svo mjög að þú viljir mig
Ég vil það svo mjög að þú viljir mig vilja þig
Ég vil að þú viljir að ég skilji að þú viljir mig
Ég vil að þú viljir mig en viljir mig með því skilyrði að ég vilji þig
Ég vil þig svo mikið en bara ef þú vilt mig jafn mikið
Ég vil þig mjög mikið ef þú vilt mig jafn mikið
Ég vil þig jafn mikið og þú vilt mig sama hversu mikið þú vilt mig
Ég vil þig ef þú vilt að ég vilji þig
Mjög mikið
Ég vil það svo mjög að þú viljir mig
Ég vil ef þú vilt að þú snúir þér við
Ég vil að þú snúir þér mjög mikið við
Ég vil þig svo mikið
Ég vil það mjög mikið
Ég vil að þú viljir snúa þér við
Ég vil að þú viljir tala við mig
Ég vil að þú segir:
Ég vil þig
Ég vil þig
Ég vil þig mjög mikið.
Ég vil þig mjög mikið.
Vörðuljóð
Skammdegið kveður
Kveðjuljóð
Æ og æ –
Um aldir
Aftur
Mosi mosi
Grjót og gamlir vinir þess
Gróa á fjallinu.
* * *
Þú dregur andann
Andspænis eilífðinni
Sérð mosa mosa
Gróa á fjallinu
Og stendur og andar.
* * *
Steinn og steinn
Hafist handa
Starf þitt er starf þitt er starf þitt
Dropi verður flóð
Sem steinninn verður margir
Verk þitt er þitt verk þitt verk er verk
Fullkomnun
Þá stendur varða á fjallinu.
* * *
Skammdegið kveður líka
Komulag
Kalt og dimmt.
Kveður dag og mosa mosa
Oftar en þú færð að heyra.
* * *
Á fjallinu
Bergmálar
Fingrafar
Frá ævi sem leið