Álfar

Álfar eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring (Angústúra, 2023)

eftir Hjörleif Hjartarson

Úr Tímariti Máls og mennningar, 3. hefti 2023

Ljóðin birtast einnig í bókinni Álfar eftir þau Hjörleif og Rán Flygenring sem kemur út hjá Angústúru á dögunum. Þau hafa áður gefið út verkin Fuglar og Hestar saman. Verk úr bókinni eftir Rán prýðir einnig síðustu kápu Tímaritsins.

 

 

 

 

Nýársnótt

 

Ógn fer yfir borg,
álfar dansa um torg.
Úti á nýársnótt
ei nokkrum manni er rótt.
____________Blíðan leggur byrinn
____________undan björgunum fram.
____________Villir mann og tryllir mann
____________taumlaust næturdjamm.

Um Hallgrímskirkju hlöð
hlakkandi og glöð
huldumanna mergð
mælir þína ferð.
____________Komdu, litla lipurtá,
____________eitt lítið stundar bil;
____________Gættu þess að ganga ekki
____________kirkjuhvolsins til.

Loftið fullt af fnyk.
Fyllir vitin ryk.
Ölvað álfaband
er að beisla gand.
____________Karlinn upp við Klapparstíg
____________kordur sínar slær.
____________Undir morgun seiðir hann
____________svikul álfamær.

Á bikuð bæjarsund
bleika lýsir grund.
Í dimmri tómthúströð
troðist er í röð.
____________Heilsaði mér drottningin
____________og hló að mér um leið.
____________Nú er hún að brugga mér
____________á barnum álfaseið.

Inn við Austurvöll
álfahróp og köll
trylla rænu og ráð
af ríkulegri bráð.
____________Uppi í háa hamrinum
____________huldukóngur býr,
____________hann er að leggja netin
____________fyrir næturævintýr.

——

Ógn fer yfir borg,
álfar dansa um torg.
Úti á nýársnótt
ei nokkrum manni er rótt.

 

 

 

Á krossgötum

 

Á krossgötum sat karl og hljóður beið,
kaldur inn að beini um næturskeið,
er skarður máni í skýjaflókum óð
og skuggar léku um hjarn á vetrarslóð.

Hann hafði marga ævidaga dreymt
– í dagsins önn sér löngum týnt og gleymt –
um hamingju og auð og frægð og fé
en fátt af því lét heimurinn í té.

Nú hafði hann burtu úr koti læðst á laun,
lá í hnipri einn og blés í kaun.
Í bænum sváfu börnin vært og rótt
og bóndakonan. Það var jólanótt.

Þá heyrði hann óma kirkjuklukknaslög
sem kveiktu líf um frostköld hlíðadrög
og líkt og elding lýsti allt í kring
á litskær klæði, dans og álfaþing.

Þeir buðu honum flís af feitum sauð,
fíkjur, ber og epli jólarauð,
en hann sat kyrr og úfinn hristi haus
í hljóðri þögn og brosti æðrulaus.

Þá komu þeir með og marglit silkisjöl,
silfurslegin horn með vín og öl,
rándýr klæði, reykelsi og gull,
roðasteina og ilmker fleytifull.

En alltaf sat hann, sagði ekki orð,
sama hvað krás þeir báru á borð,
uns álfamær með ilmhvítt hálsakot
að honum bar spikfeitt hangiflot.

Hann leit í hennar augu langa hríð
sem ljómuðu svo skær og undur blíð
og sagði loksins eftir langa bið:
„Ja, sjaldan hef ég floti fúlsað við.“

Þá samstundis var honum horfið allt.
Á heiðinni var aftur myrkt og kalt
er hikandi og hægt upp aftur stóð,
en hiti fór um taugar hans og blóð.

—-

Síðan karlinn segir ekki neitt,
situr einn í horni og brosir breitt.
En sál hans unir glöð um alla tíð
hjá álfkonunni góðu í fjallsins hlíð.

 

Hjörleifur Hjartarson

Hjörleifur Hjartarson