Verkefnin sem Ísland á ólokið*
eftir Þorvald Gylfason
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020
Hér er fjallað um eftirmál fjármálahrunsins 2008 með áherslu á óuppgerð mál sem varða einkum skiptingu auðs og tekna, bankamál og stjórnmál. Þrennt ber hæst.
Í fyrsta lagi þarf að lagfæra matið á skiptingu auðs og tekna og þá um leið á lífskjörum. Rétt eins og meta þarf eignir fólks og fyrirtækja með hliðsjón af bæði afrakstri og áhættu, það er í tvívídd, þá þarf að mæla þjóðartekjur og þjóðarauð með hliðsjón af bæði umfangi auðs og tekna og skiptingu þeirra milli íbúa landsins. Viðteknar mælingar á dreifingu tekna og auðs eru ófullnægjandi af tveimur ástæðum. Venjan er sú að þær nái aðeins til launatekna en ekki til fjármagnstekna, að ekki sé minnst á falinn auð í skattaskjólum. Rannsóknir benda til að nærri sex milljarðar Bandaríkjadala af fjárhagsauði heimila heimsins árið 2008 hafi hvergi verið taldir fram[1] og þá ekki heldur tekjurnar af öllu þessu fjármagni. Þessi fjárhæð nam þá um 10% af samanlögðum þjóðartekjum heimsins alls. Enn fremur þarf að mæla þjóðartekjur og þjóðarauð hlið við hlið því háar tekjur geta verið villandi ef þær eru til komnar með því að ganga á auðlindir (náttúruauðlindir, félagsauð og svo framvegis). Menn mega ekki falla í þá gryfju að dásama fegurð eldfjalls sem er í þann veginn að gjósa – eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komst að sárri raun um þegar starfsmenn hans sögðu árið 2007:[2]
Langtímahorfur Íslands eru enn öfundsverðar. Markaðir eru opnir og sveigjanlegir, traustar stofnanir […] hafa gert Íslandi kleift að færa sér í nyt tækifæri sem skapast hafa með hnattvæðingu […] fjármálageirinn virðist vel í stakk búinn til að standa af sér umtalsverðan lánsfjárskort og áföll á markaði […] [B]ankarnir tóku mikilvæg skref á síðasta ári til að draga úr áhættu og styrkja stöðu sína.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var ekki einn á báti. Viðskiptaráð Íslands (2008) hældist um af því að stjórnvöld hefðu framkvæmt næstum allar tillögur þess. Nokkrum mánuðum fyrir Hrun lýsti það yfir á prenti: „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“[3] Segja má að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi beðist afsökunar á orðum sínum.[4]
Það var ekki fyrr en árið 2016 sem þjóðartekjur á mann á Íslandi náðu fyrra marki frá 2007. Endurheimt fyrri kaupmáttar launa tók átta ár, frá 2007 til 2015. Endurreisn Íslands tók þannig sömu átta til níu árin og endurreisn annarra landa að meðaltali eftir fjölmargar fjármálakreppur sem gengið hafa yfir í tímans rás.[5]
Í öðru lagi hefur Írland rétt hraðar úr kútnum en Ísland mælt í þjóðartekjum á mann. Sama á við um Lettland, og Portúgal fylgir fast á eftir. Þessi staðreynd veikir þá röksemd að Ísland hafi þurft á gengisfalli að halda til að rétta úr kútnum. Af gögnum virðist mega ráða að fyrst Írlandi og öðrum evrulöndum tókst svo vel að rétta sig við, þá gæti Ísland með líku lagi hafa náð sér á strik innan evrópska myntsamstarfsins. Sé svo, þá getur verið að lægra vöruverð heima fyrir, mælt í erlendum gjaldeyri, hafi ekki skipt sköpum fyrir skjótan uppgang ferðaþjónustu eftir Hrun svo sem margir virðast ætla. Þetta skiptir máli þar eð háir vextir og verðtrygging, sem eru næm fyrir gengissveiflum, eru viðvarandi uppspretta ágreinings sem sprettur af sérstöðu íslensks bankakerfis í Evrópu. Ísland er eina land álfunnar þar sem bankar sæta engri erlendri samkeppni á heimavelli. Þótt Eistland sé aðeins litlu stærra en Ísland í efnahagslegu tilliti eiga norrænar bankasamstæður meira en 90% allra banka þar.
Í þriðja lagi er endurreisn efnahagslífsins bjöguð af tilfinnanlegri afturför félagsauðsins. Með félagsauði er átt við stofnanir samfélagsins og samskipti milli manna sem, líkt og fjármagn, geta stuðlað að heilbrigðum árangri í efnahagslífi. Afturförin birtist í lakari lýðræðiseinkunn hjá Freedom House og í skýrslum Transparency International og Gallups sem afhjúpa aukna spillingu eins og fólkið í landinu upplifir hana. Dæmin bera vitni. Í Panamaskjölunum frá 2016 bar mikið á íslenskum stjórnmálamönnum og öðrum Íslendingum. Ráðherrar fimm Evrópuríkja fundust í skjölunum, þar af þrír íslenskir. Nöfn formanna tveggja stjórnmálaflokka á Alþingi fundust þar, þar á meðal er nafn núverandi fjármálaráðherra. Þriðji stjórnmálaflokkurinn er undir forystu manns sem var í öðru sæti á lista yfir tíu þingmenn sem skulduðu föllnu bönkunum meira en eina milljón evra við Hrunið.[6] Þessir þrír flokkar unnu 27 sæti af 63 í alþingiskosningunum 2017. Enda sýnir stjórnmálastéttin enn engin merki þess að hún ætli sér að standa við einróma ályktun Alþingis frá 2010: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“ Stjórnmálastéttin og viðskiptalífið hafa staðið öxl við öxl og stefnt endurreisn efnahagslífsins eftir Hrun í hættu með launahækkunum til sjálftökuhópa langt umfram almenna launþega og búið til aðstæður sem gætu hrundið af stað kapphlaupi í launakröfum og endurvakið gamalkunna verðbólgu.
Skoðum nú þessa þrjá þætti hvern fyrir sig.
Dreifing auðs og tekna
Sú var tíð að dreifing tekna og auðs var almennt talin skipta litlu máli í efnahagsmálum og stjórnmálum. Norðurlönd og Austurríki voru undantekningar. Þar var jöfn tekjuskipting talin stuðla að friðsamlegu samfélagi sem til lengdar myndi leiða til stöðugrar og farsællar hagþróunar. Annars staðar var þessum þætti víðast hvar ýtt til hliðar sem sérsviði út af fyrir sig. Viðtekin þjóðhagfræði hafði lítið pláss fyrir Gini-stuðla um ójöfnuð. Bók Pikettys, Capital (2014), átti ríkan þátt í að breyta þessu.[7]
Rannsóknir á sambandi tekjudreifingar og hagvaxtar virðast sýna að dreifing auðs og tekna hefur afleiðingar sem skipta máli.[8] Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er byrjaður að líta til tekjuskiptingar við ráðgjöf eins og raunin varð á Íslandi 2008–2010.[9]
Hingað til hafa rannsóknir á sambandi dreifingar tekna, auðs og annarra þjóðhagsstærða byggst að mestu á mælingum á ójöfnuði samkvæmt Gini-vísitölum. Þær eru að vísu strjálar og tiltæk gögn eru eftir því takmörkuð í fjölþjóðlegum gagnagrunnum. Annað vandamál er broguð meðferð fjármagnstekna og fjármagnsgróða. Tiltæk gögn fyrir alþjóðlegan samanburð frá OECD og LIS (Luxemburg income study) sleppa fjármagnsgróða með þeim rökum að líta megi á hann sem hvalreka líkt og vinning í happdrætti. En þetta er rangt. Það hefur sýnt sig að oft er fjármagnsgróði til kominn vegna sérgæskusamninga í hlutabréfaviðskiptum sem fjármálaelítan stundar innbyrðis. Slíkt er alls óskylt óvæntum hvalreka.
Afhjúpun margháttaðra fjárglæfra sjálfhverfrar elítu á nýliðnum árum gerir brýnt að horfast í augu við þær takmarkanir sem felast í að einblína á dreifingu ráðstöfunartekna heimila af launavinnu og vanmeta vaxtatekjur af fjármagni. Vanmatið stafar af því að stórum fjárfúlgum er skotið undan og komið fyrir í skattaskjólum.[10] Það sem þarf eru víðtækar mælingar á dreifingu heildartekna, bæði vinnutekna og fjármagnstekna, fyrir og eftir skatta. Einnig mælingar á dreifingu auðs og heilsufars í ljósi þess munar á lífslíkum milli tekjuhópa sem hefur verið að birtast í Bandaríkjunum og í minna mæli í Evrópu.[11] Þar til nýlega var erfitt að nálgast mælingar á dreifingu auðs nema í örfáum löndum og þær mælingar eru ekki endilega hentugar til samanburðar milli landa. Falinn auður í skattaskjólum eykur enn á vandann. Upplýsingar um dreifingu heilbrigðis eru enn nýrri af nálinni. Ríkasti hundraðshluti bandarískra karla lifir fimmtán árum lengur en fátækasti hundraðshlutinn og ríkasti hundraðshluti bandarískra kvenna getur átt von á að lifa tíu árum lengur en fátækari kynsystur þeirra.[12] Bilið fer breikkandi. Tölfræðiupplýsingar um misskiptingu heilbrigðis hafa þann kost að þar er engu hægt að skjóta undan.
Þessi atriði skipta máli við mat á endurreisn Íslands eftir Hrunið 2008. Ísland er skínandi dæmi um vandamálin sem lýst er hér framar vegna þess að Gini-stuðullinn, miðað við heildarráðstöfunartekjur, hækkaði um eitt stig á ári frá 1993 til 2008, einstakt fyrirbrigði sem Hagstofa Íslands og yfirvöld þóttust ekki taka eftir.[13] Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hafa kortlagt þessa þróun og baksvið hennar í smáatriðum.[14] Í bók þeirra frá 2017 eru birtar nýjar upplýsingar sem leiða í ljós að dreifing auðs á Íslandi er sú þriðja ójafnasta í hópi 29 landa, miðað við eignir 10% ríkustu heimilanna. Á þennan mælikvarða eru aðeins Bandaríkin og Sviss með ójafnari eignadreifingu en Ísland. Þeir Stefán og Arnaldur Sölvi hafa ennfremur sýnt fram á að dreifing auðs á Íslandi er sú sjötta ójafnasta í hópi sömu landa miðað við eignir 1% ríkustu heimilanna.[15] Miðað við þessa þrengri mælingu eru aðeins Bandaríkin, Sviss, Danmörk, Svíþjóð og Indónesía með ójafnari dreifingu auðs en Ísland. Þessar niðurstöður renna frekari stoðum undir áðurnefnda tortryggni gagnvart talnagögnum sem gefa til kynna að dreifing ráðstöfunartekna á Íslandi sé jöfnust meðal ríkja OECD.[16] Meðal heimilda sem Stefán og Arnaldur Sölvi vitna í er Global Wealth Report[17] frá Credit Suisse Research Institute. OECD og aðrar alþjóðastofnanir þurfa að taka saman og gefa út samanburðarhæf alþjóðleg talnagögn um tekjudreifingu og dreifingu auðs án þeirra annmarka sem eru á þeim nú. Þetta er knýjandi þar eð misskipting er nú orðin að einu brýnasta pólitíska og siðferðilega verkefni samtímans.
Einn þáttur enn flækir málið. Þegar fjármálakerfi Íslands hrundi árið 2008 var yfirvofandi eignatjón talið jafngilda sjöfaldri landsframleiðslu. Endurfjármögnun viðskiptabankanna kostaði röskan sjöttung af landsframleiðslu og endurfjármögnun Seðlabankans annað eins. Hlutabréfamarkaðurinn bókstaflega þurrkaðist út og eftirlaunasjóðir fengu þungt högg með heildartapi fyrir sjóðfélaga sem nam tvöfaldri landsframleiðslu. Til að kóróna þetta voru útlendir lánardrottnar, hluthafar og sparifjáreigendur taldir hafa tapað upphæð sem jafngilti fimmfaldri landsframleiðslu, mat sem eftir skárri endurheimt eigna en reiknað hafði verið með hefur verið lækkað í fjórfalda landsframleiðslu.[18]
Enginn segist vita hvert peningarnir fóru, þótt auðvelt væri að rekja slóðina, að því er ætla mætti. Þetta á til dæmis við um lán Seðlabankans til Kaupþings upp á 500 milljónir evra 6. október 2008, daginn sem fyrsti bankinn af þremur komst í þrot. Það gerðist nokkrum klukkustundum áður en Alþingi setti neyðarlög til að verjast afleiðingum Hrunsins. Upplýst var síðla árs 2017 að formaður stjórnar Seðlabankans sagði við forsætisráðherrann í símtali: „Ég býst við því að við fáum þessa peninga ekki til baka.“ Seðlabankinn hélt hljóðupptöku og endurriti af þessu samtali í læstum skáp í níu ár. En þá, allt í einu, birti Morgunblaðið endurritið undir ritstjórn hins afsetta fyrrum seðlabankastjóra. Lekinn var ekki rannsakaður. Og rétt í þann mund sem ákvæði hegningarlaga um fyrningu saka urðu virk upplýsti forsætisráðherrann fyrrverandi að hann hefði verið blekktur og hann vissi ekki hvað orðið hefði um peningana. Sama dag var tilkynnt að hann myndi láta af embætti sendiherra í Washington til að taka sæti sem fulltrúi Norðurlanda í stjórn Alþjóðabankans.[19] Löngu áður hafði komið fram opinberlega að þriðjungur lánsfjár Seðlabankans til Kaupþings var lagður samdægurs, þ.e. 6. október 2008, inn á reikning á Tortólu.[20]
Í stuttu máli: Þá skoðun að jöfnuður í tekjudreifingu eftir skatta og dreifing auðs á Íslandi hafi að mestu færst í skikkanlegt horf eftir Hrun, eins og segir til dæmis í skýrslum OECD, þarf að skoða með varúð af þremur meginástæðum.
- Fjármagnsgróði er enn undanskilinn í Gini-vísitölunni.
- Óvenjuhátt hlutfall Íslendinga í Panamaskjölunum bendir til að líklega sé umtalsverður hluti af auði landsins enn falinn í skattaskjólum.
- Enginn segist vita hvað varð um þýfið úr Hruninu 2008.
Þessi vandi er þó ekki bundinn við Ísland, eins og Zucman (2015) hefur lýst.
Baráttan um brauðið
Ör vöxtur ójafnaðar á Íslandi fyrir Hrun rímar við lýsingu Johns Kenneth Galbraiths[21] á uppgangstímum 3. áratugarins í Bandaríkjunum sem og nýleg þróun mála í því landi þar sem laun forstjóra fyrirtækja jukust frá því að vera tuttuguföld laun venjulegs launamanns árið 1965 og fimmtíuogáttaföld árið 1989 í tvöhundruðogsjötíuföld árið 2018 og þrjúhundruðogtólfföld árið 2017.[22] Ísland flutti inn kjarnann í þessum kúltúr amerísks viðskiptalífs en þó ekki stærðarhlutföllin líka. Staðtölur fyrir Ísland til að bera saman við bandarísku gögnin eru ekki tiltækar. Fyrir liggur að meðallaun forstjóra skráðra fyrirtækja í Kauphöll Íslands árið 2017 voru sautjánföld lágmarkslaun. Launahæsti forstjórinn var með þrjátíuföld lágmarkslaun, sem er lágt hlutfall á bandarískan mælikvarða en hátt í sögulegu samhengi hér á landi. Forstjórarnir sitja í stjórnum fyrirtækja hver hjá öðrum, bera saman bækur sínar og verðlauna hver annan með ríkulegum þóknunum. Sveiflur í tekjum forstjóra endurspegla að mestu sveiflur í fjármagnstekjum. Í bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar[23] kemur fram að ríkasta 1% íslenskra heimila þénaði sjö sinnum meira en neðstu 90% árin 1992–1995, þrjátíu sinnum meira árið 2007 og tíu sinnum meira 2015.
Athygli stjórnmálamanna var vakin. Samkvæmt fréttum hafa bæjarstjórar á Íslandi, sem allir eru pólitískt ráðnir, hærri laun en borgarstjórar Chicago, Houston, London, Los Angeles, New York, Parísar, Tókíó og Vínarborgar. Laun þingmanna hækkuðu um 111% frá árinu 2011 til 2018, eða um 11% á ári að meðaltali. Á sama tíma hækkaði verð á neysluvörum um 26% frá 2011 til 2018. Þessar launahækkanir voru ákveðnar af kjararáði sem hélt engar fundargerðir, gaf engar skýringar á stundum afturvirkum ákvörðunum sínum og verðlaunaði nýkjörinn forseta Íslands með óumbeðinni launahækkun, sem hann afþakkaði og gaf til góðgerðarmála. Kjararáð var lagt niður þegar bæði verkalýðshreyfingin og samtök vinnuveitenda vöruðu við því að ákvarðanir þess myndu skapa ólgu á miðstýrðum vinnumarkaði þar sem verkalýðsfélög hafa löngum haft mikil áhrif. Ákvarðanir kjararáðs voru látnar standa óhreyfðar.
Þegar launafólki var sagt að það þyrfti að sætta sig við fjögurra prósenta kauphækkun í yfirvofandi kjarasamningum 2019 – 2,5% verðbólgu og 1,5% framleiðniaukningu – til að ógna ekki efnahagslegum stöðugleika heyrði það enduróm af orðum Johns F. Kennedy: „Þú getur ekki samið við fólk sem segir: mitt er mitt og við semjum um hitt.“ Reynslan sýnir að launafólki er umhugað um launahlutföll jafnt sem launataxta.[24] Verður þá skiljanlegra hvers vegna lækkun launataxta er torsóttari en rýrnun kaupmáttar launa með hækkandi verðlagi. Launafólk stendur fast gegn lækkun launataxta vegna þess að það grunar að öllum yrði ekki boðið sæti við sama borð. Hærra vöruverð dregur hins vegar úr kaupmætti allra jafnt, sem er ásættanlegri leið og greiðari til að lækka laun.
Á dreifstýrðum vinnumarkaði líkt og í Bandaríkjunum getur launafólk hvergi andæft nema við kjörkassana, ráðvillt yfir himinháum og síhækkandi forstjóralaunum meðan miðgildi heimilistekna hefur staðið í stað í 40 ár. Margt af þessu fólki virðist hafa kosið Donald Trump árið 2016. Á miðstýrðum vinnumarkaði eins og á Íslandi hefur launafólk önnur ráð. Það getur krafist hærra kaups ellegar verði efnt til allsherjarverkfalls, eins og gerðist oft í eina tíð. Þetta er ein ástæða þess að Ísland á OECD-met í verðbólgu ef Tyrkland eitt er undanskilið. Vinnumarkaðslöggjöfin, að mestu óbreytt frá 1938, tryggir verkalýðshreyfingunni sterka stöðu. Nokkrum fremur auðsveipum verkalýðsforingjum var nýlega gert að víkja fyrir staðfastari forystu sem krefst réttlætis sem hún telur að launafólki hafi verið meinað um frá Hruni. Fyrsta útspil nýju forystunnar var krafa um mikla hækkun lágmarkslauna til að slá á sérgæskusamninga í viðskiptalífinu og sjálftöku stjórnmálaelítunnar. Þá gæti verkalýðshreyfingin látið finna fyrir sér með því að tukta ríkisstjórnina til og jafnvel fella hana (eins og gerðist 1958).
Svo virðist í stuttu máli sem horfur í íslenskum efnahagsmálum séu óvissar og um það megi að miklu leyti kenna skilnings- og hirðulausri yfirstétt sem hefur ekki enn dregið réttan lærdóm af Hruninu og þeirri stjórnmálamenningu sem gat það af sér.
Tólf árum eftir Hrun er Ísland enn púðurtunna.
Gengi gjaldmiðla, Ísland og Írland
Einn bókstafur og sex mánuðir voru sagðir eini munurinn á Íslandi og Írlandi sem máli skipti fyrir tólf árum þegar fjármálafárviðri, að mestu heimatilbúið, skall á báðum ríkjunum með sex mánaða millibili. En þar með var aðeins hálf sagan sögð því fleira skilur löndin að. Írland er í Evrópusambandinu og notar evru en Ísland stendur utan ESB og hefur sinn eigin gjaldeyri. Þarna sjáið þið, sögðu margir: Ísland getur fellt gengið til að koma sér út úr erfiðleikunum meðan Írland er bundið af evrunni. Hægan hægan, sögðu aðrir. Írland hefur aðgang að Evrópska seðlabankanum og öllum hjálpartækjum Evrópusambandsins sem Ísland hefur ekki. Þetta er eins nálægt því að vera tilraun á rannsóknarstofu og hagfræðingar geta vænst.[25]
Hvernig lægðu Ísland og Írland storminn?
Kaupmáttur þjóðartekna á mann, frá því hann var hæstur og þar til hann náði botni, dróst meira saman á Íslandi en á Írlandi frá 2007 til 2010 (Mynd 1). Það var ekki fyrr en árið 2015 að kaupmáttur þjóðartekna á mann í báðum löndum náði sama stigi og var 2007. Á þennan kvarða tók efnahagsbatinn átta ár á báðum stöðum, sem er meðaltími efnahagslegs endurbata eftir fjármálahrun.[26] Árið 2018 var kaupmáttur þjóðartekna á mann í dollurum á Írlandi orðinn fimmtungi meiri en á Íslandi. Fjölþættari mælingar á efnahagsárangri landanna ríma við þetta. Á nýjasta lista Sameinuðu þjóðanna yfir farsældarvísitölu landa (United Nations Human Development Index), sem endurspeglar kaupmátt þjóðartekna á mann sem og menntunarstig og heilbrigði, þá er Írland í 3. sæti og Ísland í 6. sæti borið saman við 6. og 16. sæti árið 2014. Ísland hafði grafið sér dýpri holu en Írland. Á Írlandi er miklu meira atvinnuleysi, rétt er það, en sú hefur verið raunin í áratugi og hefur lítið að gera með þrengingarnar 2007–2008 og eftirmál þeirra.
Írland náði bata án þess að kasta evrunni fyrir róða en Ísland að mestu með stórauknum straumi ferðamanna sem fylgdi 50% gengisfalli krónunnar og gerði Ísland að miklu ódýrari áfangastað en áður. Bæði löndin þáðu umtalsverða hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Aðild Írlands að evrusamstarfinu gerði greinilega meira en að vega upp á móti getu Íslands til að gjaldfella krónuna. Árið 2018 var gengi krónunnar aftur orðið eins og það var fyrir Hrun. Gengið var augljóslega of hátt skráð árið 2008 því innflæði skammtímafjár sem hélt því svo háu gat aldrei staðist til lengdar. Hvort krónan er núna enn á ný of hátt skráð veltur á því hvort útlendir ferðamenn halda áfram að flykkjast til landsins, og kannski sérstaklega því hvort túristar reynast jafn hvikulir og erlent fjármagn. Dragi úr ferðamannastraumi mun gengi krónunnar lækka og auka enn muninn á kaupmætti þjóðartekna á mann á Írlandi og Íslandi. Komum ferðamanna til Íslands fjölgaði um 8% á ári að meðaltali frá 1949 til 2010, eða úr fimm í 550 þúsund, en hefur síðan fjölgað um 22% á ári að meðaltali og námu þær 2,3 milljónum árið 2018. Það er næstum sjöfaldur íbúafjöldi landsins.
Lögsóknir og fangelsisdómar
Tvennt til viðbótar er vert að nefna sem skilur að Ísland og Írland. Meðan írskum skattgreiðendum var gert að axla ábyrgð á tapi bankakerfisins, jafnvel umfram ákvæði laga,[27] voru íslensku bankarnir settir í þrot með samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, enda var ekki hægt að leggja skuldir þeirra á herðar skattgreiðenda. Þessi sársaukafulla lausn – að standa í skilum – var möguleg á Írlandi því skuldir írsku bankanna við útlenda lánardrottna og hlutafjáreigendur voru svo miklu minni en skuldir hinna föllnu íslensku banka, auk þess sem Seðlabanki Evrópu og Evrópusambandið studdu Írland. Ólíkt því sem gerðist á Írlandi, þar sem stjórnvöld ákváðu að ganga jafnvel lengra en lög kröfðust til að bjarga bönkunum, með ærnum kostnaði fyrir írska skattgreiðendur, þá gáfu íslensk stjórnvöld bankana upp á bátinn. Enda var engin önnur leið út úr klúðrinu. Holan sem bankarnir höfðu grafið sér meðan stjórnvöld horfðu í hina áttina, eða jafnvel hvöttu þá áfram, var of djúp. Ef vandinn hefði verið smærri í sniðum hefðu íslensk stjórnvöld hugsanlega farið írsku leiðina og gert það sem flest fólk gerir ef það getur, það er að standa í skilum. Á Íslandi var það einfaldlega ekki hægt.[28]
Sumir lögðu til að beitt yrði lögfræðilegri meginreglu um óhreinar skuldir (e. odious debt), en það eru peningar sem teknir eru að láni og notaðir til að grafa undan hagsmunum almennings eða misfarið hefur verið með á annan hátt. Ef hægt er að sýna fram á að slík misnotkun lánsfjár hafi átt sér stað með vitund lánveitenda, þá geta þeir ekki með réttu vænst endurgreiðslu. Ef bankarnir voru rændir innan frá, eins og almennt er talið hafa verið raunin á Íslandi, þá ætti ekki að snúa sér til saklausra skattgreiðenda með reikninginn. Flestar ákærur Sérstaks saksóknara hingað til hafa endað með sektardómi. Á Írlandi aftur á móti var að mestu látið órefsað fyrir mútur, skattundanskot og falska eiðsvarna vitnisburði.
Það lýsti þannig engu sérstöku hugrekki eða dyggð að Ísland skyldi standa uppi í hárinu á útlendum bönkum. Leiðin sem var farin var óhjákvæmileg. Hæstiréttur staðfesti að neyðarlögin, sem sett voru í Hruninu 2008 til að tryggja að kröfur innstæðueigenda ættu forgang umfram aðrar kröfur í bú föllnu bankanna, stæðust stjórnarskrá. Með því var vegurinn ruddur fyrir samninga Íslands við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands vegna Icesave-skuldarinnar sem var að endingu gerð upp að fullu.
Í öðru lagi voru þó nokkrir íslenskir bankamenn lögsóttir fyrir fjármálamisferli (umboðssvik, fjárdrátt, skýrslufals, innherjasvik og markaðsmisnotkun), ólíkt því sem gerðist á Írlandi. Lykillinn að þessum lögsóknum var Fjármálaeftirlitið, sjálfstæð stofnun aðskilin frá Seðlabanka Íslands, og einnig Embætti sérstaks saksóknara, sem tók á móti stríðum straumi tilvísana frá Fjármálaeftirlitinu. Eftir nokkurn tíma var forstjóri Fjármálaeftirlitsins hrakinn úr embætti og fjárveitingar til Sérstaks saksóknara skornar niður svo að hætta varð rannsóknum á nokkrum mikilvægum málum vegna fjárskorts. Þrátt fyrir þetta hefur Hæstiréttur Íslands fram til þessa dæmt 36 einstaklinga (30 bankamenn, þrjá framkvæmdastjóra og tvo endurskoðendur ásamt ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu) til samtals 88 ára fangelsisvistar fyrir lögbrot tengd Hruninu, tvö og hálft ár á mann að meðaltali.[29] Meðal hinna 30 bankamanna eru bankastjórar allra föllnu bankanna þriggja og stjórnarformaður eins þeirra.
Þótt háttsemi bankanna hafi í grundvallaratriðum verið eins, þá var fangelsisdómunum ekki deilt út til þeirra allra jafnt. Kaupþing fékk 32 ár, Glitnir fékk 19 ár, Landsbankinn fékk 11 ár, sparisjóðirnir fengu 12 ár og aðrir 14 ár. Hæstiréttur hefur tekið fyrir 52 mál einstaklinga, sakfellt í 41 máli (79%) og sýknað í 11 (21%). Þar eð sumir voru sakfelldir eða sýknaðir oftar en einu sinni fyrir mál tengd Hruninu, þá er fjöldi dæmdra einstaklinga hingað til 26 og fjöldi sýknaðra 10.
Hinir fangelsuðu bankamenn og lögmenn þeirra sögðu Hæstarétt hafa fórnað þeim til að sefa reiði almennings. Þeir virðast þó hafa notið góðs atlætis í fangelsinu. Sumir þeirra héldu áfram að reka erindi úr klefum sínum og sumir voru látnir lausir áður en afplánun lauk. Í einu stóru leikhúsanna var tilkynnt í hátalara áður en sýning hófst: „Dömur mínar og herrar. Velkomin í leikhúsið. Vinsamlega slökkvið á farsímum ykkar og ökklaböndum.“ Daginn eftir að einn bankamannanna var látinn laus með ökklaband brotlenti hann einkaþyrlu sinni. Enginn meiddist.
Það var ekki fyrr en 2015 að háttsettir embættismenn í Bandaríkjunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lýstu yfir stuðningi við þá leið Íslendinga að lögsækja bankamenn fyrir fjármálamisferli. Í Bandaríkjunum og Evrópu, þar með talið Írland, hafa stjórnvöld að mestu látið nægja að sekta bankana fyrir svindl, ekki bankamenn, sem er svipað og að sekta Reykjanesbrautina fyrir of hraðan akstur. Áfallið sem Íslendingar urðu fyrir 2008 kallaði á annars konar viðbrögð: Refsingar að lögum fyrir gerendur í fjármálamisferli í nafni réttlætis og öðrum til aðvörunar. Meðal nýlegra talsmanna þess að einstaklingar séu látnir axla ábyrgð á fjármálamisferli eru Ben Bernanke, fyrrum bankastjóri Bandaríska seðlabankans,[30] Stanley Fischer, fyrrum varabankastjóri sama banka,[31] og framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, nú bankastjóri Evrópska seðlabankans.[32] Hvert þeirra hafði orð á þessu aðeins einu sinni og í hálfum hljóðum. Ef maður meinar það sem maður segir er góð regla að segja það að minnsta kosti tvisvar, hátt og snjallt.
Í stuttu máli hafa bæði Írland og Ísland náð undraverðum efnahagsbata hvort með sína mynt. Endurreisn Írlands innan evrusvæðisins sýnir að skjótur efnahagsbati er mögulegur með evru. Reynsla Lettlands og einnig Portúgals bendir til hins sama. Fyrst þessi lönd gátu það, hvers vegna ekki Ísland? Þegar allt kemur til alls hefur íslenska krónan tapað 99,95% af virði sínu miðað við dönsku krónuna frá árinu 1939. Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var sett í salt 2013. Það á eftir að koma í ljós hvort umræður um aðild verða teknar upp aftur innan tíðar. Færeyingar, næstu nágrannar Íslendinga ásamt Grænlendingum, hafa sinn eigin krónugjaldmiðil. Færeyska krónan er þó ekki sjálfstæður gjaldmiðill heldur afbrigði af dönsku krónunni og gefin út af Danska seðlabankanum. Gengi gjaldmiðlanna hefur þannig verið einn á móti einum, eins og var fyrir 1939 í tilfelli Danmerkur og Íslands. Þar sem Danmörk er í raun aðili að evrusamstarfinu með blýfast krónugengi gagnvart evru þá sýnir dæmi Færeyja að jafnvel enn einhæfari útflutningur en er hjá Íslendingum getur samrýmst föstu gengi. Ef Færeyjar geta það og einnig Grænland, því ekki Ísland?
Sótt að félagsauði
Nú er komið að þeim hluta sem einhverjir lesendur kunna að eiga erfitt með að kyngja. Til að undirbúa jarðveginn hefst frásögnin í Bandaríkjunum.
Á nýliðnum árum hafa Bandaríkin sýnt ýmis svekkjandi merki um rýrnandi félagsauð, þar á meðal dvínandi traust, líkt og sláandi bókartitill Putnams (2000) vitnar um, Bowling Alone.[33] Íhugið eftirfarandi:
- Transparency International hefur lækkað vísitölu Bandaríkjanna fyrir upplifun almennings á spillingu úr 78 árið 2000 í 69 árið 2019 og setur þau í 23. sæti meðal 180 ríkja sem voru skoðuð, langt fyrir neðan Kanada sem er með 77 stig og í 12. sæti.[34] Árið 2012 sögðu 73% svarenda Gallups (2013) í Bandaríkjunum að spilling væri „útbreidd í öllu stjórnkerfi Bandaríkjanna“, borið saman við 46% í Kanada og 68% í Póllandi.[35]
- Í skýrslu Gallups frá 2018 segir að hlutfall svarenda í Bandaríkjunum sem segist bera mikið eða nokkuð mikið traust til hæstaréttar landsins hafi minnkað úr 49% árið 1975 í 37% árið 2018.[36] Tveir af fimm dómurum, sem sumir vona að myndi sterkan íhaldssaman meirihluta í réttinum, hafa verið bornir trúverðugum ásökunum um kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Traust til þingsins hefur fallið úr 42% árið 1973 í 11% árið 2018.[37]
- Árin 2015, 2016 og 2017 dró úr lífslíkum í Bandaríkjunum. Það er í fyrsta skipti frá því í fyrri heimsstyrjöld og Spænsku veikinni að lífslíkur í Bandaríkjunum minnka – það er meðalævin styttist – þrjú ár í röð.[38]
- Freedom House hefur smám saman lækkað lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna, úr 94 árið 2010 í 86 árið 2019.[39] Til samanburðar er einkunn Kanada 99 og Póllands 84. Einkunn Bandaríkjanna hefur lækkað „vegna uppsafnaðra áhrifa af göllum í kosningakerfinu, sláandi aukningar á áhrifum peninga frá einkaaðilum í kosningabaráttu og á lagasetningu, þráteflis í löggjafarþinginu; […] brota núverandi ríkisstjórnar á grundvallarviðmiðum siðferðis og dvínandi gagnsæis í stjórnsýslunni.“
Við búum í breyttum heimi þar sem jafnvel frjálslynd lýðræðisríki sýna ógnvænleg merki um dvínandi félagsauð. Samkvæmt ofangreindum mælingum og ýmsum öðrum vísbendingum eru Bandaríkin nú ekki aðeins eftirbátur Kanada heldur standa þau einnig að baki æ fleiri Evrópulöndum. Rýrnandi félagsauður getur verið smitandi. Svívirðileg hegðun elítunnar í Bandaríkjunum er skálkaskjól sem ýtir undir sambærilega hegðun í öðrum löndum, svo sem í Ungverjalandi, Póllandi, Tyrklandi, Brasilíu, Bretlandi og Indlandi. Og ef til vill Íslandi líka.
Rýrnandi félagsauður
Líkt og Bandaríkin sýnir Ísland ýmis merki um dvínandi félagsauð, sem rýrnað hefur með auknum hraða frá Hruninu. Lítum á nokkur gögn því til sönnunar.
- Transparency International hefur lækkað vísitölu Íslands fyrir upplifun almennings á spillingu úr 93 stigum (5. sæti) árið 1998 í 89 stig 2008 (enn 5. sæti) og í 78 stig (11. sæti) árið 2019. Árið 2012 töldu 67% svarenda Gallups á Íslandi að spilling væri „útbreidd í öllu stjórnkerfi Íslands“ borið saman við 15% í Danmörku og 14% í Svíþjóð. Innlendar kannanir benda í sömu átt.[40] Að þessu leyti hefur Ísland sagt skilið við önnur Norðurlönd líkt og Bandaríkin hafa orðið eftirbátur Kanada.
- Gallup segir að hlutfall svarenda sem lýsir trausti á réttarkerfinu hafi lækkað úr 46% árið 2002 í 36% árið 2018.[41] Kannanir á almennu trausti til Hæstaréttar Íslands sýna svipaðar niðurstöður. Traust til Alþingis féll úr 42% árið 2008 í 10% árið 2012, en skreið aftur upp í 29% árið 2018 þegar gengi krónunnar náði aftur sama stigi og var árið 2007. Traustið minnkaði síðan aftur í 18% árið 2019.[42]
- Lífslíkur á Íslandi, sem náðu 82,5 árum 2012 – karlmenn 81 ár og konur 84 ár – héldust óbreyttar til 2016 þótt ungbarnadauði héldi áfram að lækka.[43] Það er ekki óheyrt nú á tímum en þó sjaldgæft að lífslíkur standi í stað í fjögur ár. Og það á Íslandi þar sem þær jukust frá 30 árum á 7. áratug 19. aldar í 73,4 ár árið 1960 og í 82,5 ár 2016. Lífslíkur minnkuðu lítillega árið 1971 (73,4 ár) miðað við 1969 (73,8 ár) í kjölfar snöggrar efnahagslegrar niðursveiflu vegna síldarbrests. Lífslíkur mældust einnig minni 1988 (77,1 ár) en árið 1984 (77,6 ár) eftir að verðbólga sem náði 83% árið 1983 var keyrð niður. Sambærilegar efnahagslegar skýringar kunna að eiga við um stöðnunina frá 2012 til 2016.[44]
- Freedom House lítur ekki lengur á Ísland sem fullgilt lýðræðisríki. Lýðræðiseinkunn landsins var 100 á árunum 2004–2009. Fullt hús. Einkunnin lækkaði í 99 stig á árunum 2010–2012 og náði síðan aftur 100 stigum 2013, 2014 og 2016. Eftir það, 2017 og 2018, var lýðræðiseinkunn Íslands lækkuð í 95 stig (19. sæti) og 94 stig 2019.
Þegar ríkjum innan OECD tekst ekki að ná hæstu einkunn hjá Freedom House, 100 stigum, snertir uppgefin ástæða nánast alltaf einhvers konar mismunun gagnvart útlendingum eða frumbyggjum (Ástralía, Kanada, Danmörk, Holland og Nýja-Sjáland). Ástæðan til þess að einkunn Íslands hefur lækkað er af allt öðrum toga. Freedom House spyr:
- „Er pólitískt val þjóðarinnar laust undan áhrifavaldi […] auðmanna sem ekki bera pólitíska ábyrgð?“ Nei. Ísland tapar einu stigi vegna þess að „náin tengsl milli stjórnmálamanna og ýmissa greina viðskiptalífsins gera vel samstilltum viðskiptahagsmunum kleift að hafa áhrif á stjórnmálin.“
- „Eru varnir gegn spillingu í opinberu lífi traustar og skilvirkar?“ Nei. Ísland missir eitt stig vegna þess að „embættismenn sem verða uppvísir að spillingu eða óæskilegri háttsemi starfa yfirleitt áfram innan stjórnsýslunnar. Dæmi: Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að nafn hans fannst í Panamaskjölunum – leknum lögfræðilegum gögnum sem afhjúpuðu mögulega ólöglega viðskiptahætti valdamikilla einstaklinga um allan heim – þá tók Bjarni Benediktsson sæti hans, en nafn Bjarna var einnig í Panamaskjölunum.“[45]
- „Starfa stjórnvöld með opnum og gagnsæjum hætti?“ Nei. Freedom House dregur eitt stig af Íslandi vegna þess að „embættismenn hafa reynt að leyna upplýsingum sem koma þeim sjálfum illa eða afhjúpa misferli þeirra.“
- „Eru fjölmiðlar frjálsir og óháðir?“ Já, en Freedom House dregur frá eitt stig vegna þess að „Sýslumaðurinn í Reykjavík setti lögbann á nokkra fjölmiðla sem kom í veg fyrir að þeir flyttu fréttir af grunsamlegu fjármálavafstri forsætisráðherra landsins.“[46]
- „Tryggja lög, stefnumótun og starfshættir að mismunandi hópar samfélagsins fái sömu meðferð?“ Nei. Freedom House dregur frá eitt stig vegna þess að árið „2017 tók ECRI, Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum, eftir augljósri aukningu á kynþáttafordómum í íslenskri samfélagsumræðu á undangengnum árum.“ Freedom House gerði einnig athugasemd við hve „tekið væri á móti fáum hælisleitendum á Íslandi miðað við nágrannalöndin í Norður-Evrópu. Aðeins 18% umsækjenda fengu alþjóðlega vernd árið 2017.“
- „Sitja allir við sama borð?“ Nei. Freedom House dregur frá eitt stig vegna þess að „kerfisbundið arðrán aðflutts verkafólks, þar með talin of lág laun og ógreidd yfirvinna, er orðið að umtalsverðu vandamáli undangengin ár, einkum í ferðaþjónustu.“
Í stuttu máli endurspeglar lækkun Freedom House á lýðræðiseinkunn Íslands rýrnandi félagsauð. Vegna óeðlilegra tengsla stjórnmálamanna og auðmanna, spillingar, skorts á gagnsæi og takmarkana á frelsi fjölmiðla, ásamt mismunun gagnvart innflytjendum. Upplifun almennings, samkvæmt skýrslum Transparency International og annarra, virðist koma heim og saman við staðreyndir. Útlendir jafnt sem innlendir greinendur eru nú loksins farnir að taka eftir. Augu þeirra opnuðust við Hrunið og lögleysuna sem það afhjúpaði. Ísland er þó ekki einstakt að þessu leyti. Spilling og skríðandi fasismi geta smitað út frá sér. Sumir íslenskir stjórnmálamenn fylgjast trúlega fegnir með þróun mála í Bandaríkjunum og víðar því hún dregur athyglina frá og samrýmist hliðstæðri þróun á Íslandi. Fræðimenn birta nú bók eftir bók um ógnirnar sem steðja að lýðræði.[47]
Lýðræðiseinkunn Íslands gæti haldið áfram að lækka. Að vissu leyti minnti það á Dolchstoßlegende, þýsku samsæriskenninguna frá millistríðsárunum um rýtingsstungu í bakið, þegar ýmsir þeirra sem Rannsóknarnefnd Alþings um bankahrunið yfirheyrði héldu því fram, ásamt meðreiðarsveinum og vænum slatta af blaðagreinahöfundum, að hið heimalagaða Hrun væri útlendingum að kenna.[48] Sömu öfl virðast staðráðin í að hafa að engu niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2012 um nýja og endurskoðaða stjórnarskrá fyrir Ísland sem 67% kjósenda lýstu stuðningi sínum við. Nýja stjórnarskráin var samin af stjórnlagaráði sem kosið var beinni kosningu af almenningi og síðan skipað af Alþingi og geymir mikilvæg ákvæði um auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða, gegnsæi, upplýsingafrelsi og umhverfisvernd auk annars.[49]
Hve einbeitt Alþingi er í því að hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem það sjálft boðaði til um stjórnarskrána er eitt skýrasta merkið um rýrnun félagsauðs á Íslandi. Eins og í Bandaríkjunum eru áhrif peninga í stjórnmálum rót vandans, sem lýsir sér aðallega í augljósri þjónkun stjórnmálamanna við fámennan hóp auðmanna, moldríka ólígarka sem Alþingi bjó til með einu pennastriki. Þeim var afhentur svo að segja ókeypis aðgangur að fiskveiðiauðlind landsins, almenningseign samkvæmt lögum og einnig samkvæmt þeirri nýju og endurskoðuðu stjórnarskrá sem Alþingi á eftir að staðfesta.
Spilling grefur undan trausti
Mismunandi stoðir félagsauðs hafa tilhneigingu til að styrkja hver aðra. Spilling grefur undan lýðræði rétt eins og refsileysi grefur undan ábyrgð og svo framvegis. Þegar dregur úr trausti hneigjast aðrir þættir félagsauðs einnig til að rýrna.
Jafnvel löngu fyrir Hrunið 2008 var traust á milli manna á Íslandi mun minna en annars staðar um Norðurlönd.[50] Panama-hneykslið snemma árs 2016 bætti gráu ofan á svart. Panamaskjölin afhjúpuðu nöfn um 600 Íslendinga, þar á meðal þriggja ráðherra. Tveir þeirra voru enn í embætti snemma árs 2017, forsætisráðherra og innanríkisráðherra, eftir að hafa með góðum árangri boðið sig fram að nýju í þingkosningum 2016. Sama á við um fyrrverandi forsætisráðherra sem hafði orðið að segja af sér vegna mótmæla almennings eftir birtingu Panamaskjalanna. Einn ráðherranna þriggja varð síðan forsætisráðherra skamma hríð áður en hann settist í stól fjármálaráðherra að nýju eins og ekkert hefði í skorist og situr þar enn.
Hið takmarkaða traust sem ríkti á Íslandi fyrir 2008 bendir til að vantraust gæti hafa átt mikilvægan þátt í að skapa aðstæður sem leiddu til Hrunsins. Sé þetta rétt þá gengur það í báðar áttir: Frá vantrausti til Hruns og aftur til baka. Sú staðreynd að lögreglan nýtur trausts bendir til að útbreitt vantraust verði ekki einvörðungu rakið til tortryggni almennings. Þvert á móti virðist rökréttara að álykta sem svo að sérstaklega bankamenn, stjórnmálamenn og dómarar þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum ætli þeir sér að vinna traust almennings. Spillt einkavæðing bankanna árin 1998–2003 var fyrirboði falls þeirra 2008.[51] Tveir stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa ennfremur sáð fræjum vantrausts. Þeir héldu ráðuneyti dómsmála nær alltaf fyrir sig (nánar tiltekið í 76 ár af 81 ári frá 1927 til 2008) og einokuðu skipanir í dómaraembætti. Með einkavæðingu bankanna í eigin þágu og fleiri aðgerðum á valdatíma sínum 1995–2007 sköpuðu flokkarnir tveir aðstæður sem leiddu til hruns.
Hið mikla vantraust sem gegnsýrir íslenskt samfélag þarf að skoða í samhengi. Alla 20. öld fram að einkavæðingu bankanna 1993–2003 var samfélagið rammpólitískt og háð ströngum reglum sem settu viðskiptalífinu þröngar skorður. Einkavæðingu bankanna var ætlað að viðhalda talsambandi stjórnmálamanna við þá, en bankarnir höfðu frá gamalli tíð þjónað hagsmunum ríkjandi afla.[52] Vinagreiðar og mismunun gagnvart viðskiptavinum bankanna vöktu ekki sterk viðbrögð og litið var á slíkt sem sjálfgefinn hlut úr því að Ísland virtist standa jafnfætis Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi í efnahagslegu tilliti (en ekki jafnfætis Noregi sem skaut sér upp í sérflokk með útsjónarsamri stjórn á olíuauði sínum og fleiru). Hrunið 2008 svipti hulunni frá. Spillingin lifði góðu lífi allan tímann þótt engar ráðstafanir væru gerðar til að slá máli á eða hemja hana. En það breyttist eftir Hrun. Nú er spurningin sú hvort efnahagsbatinn frá Hruninu 2008 standist þá eyðingu félagsauðsins sem hér hefur verið lýst. Það mun tíminn leiða í ljós.
Niðurstaða
Þrennt þarf að gera.
Ísland þarf víðtækt fjárhagslegt bókhald yfir auð þjóðarinnar og skiptingu hans. Ekki síst vegna þess að ólígarkar í stórútgerð hafa, með málamyndaveiðigjöldum frá árinu 2002, fengið afhent 90% auðlindarentunnar af fiskveiðum. Almenningi, réttmætum eiganda auðlindarinnar lögum samkvæmt, eru skömmtuð 10%.[53] Vanræksla stjórnvalda við að finna féð sem hvarf í Hruninu undirstrikar nauðsyn þessa og það gerir einnig framganga Seðlabanka Íslands sem bauð mönnum að flytja fé til Íslands 2012–2015 án þess að spyrja um uppruna fjárins og án þess að gera skattayfirvöldum viðvart nema síðasta árið.
Ísland þarf að taka í gegn fjármálakerfi sitt og peningamál. Til þess standa ýmis rök. Ein röksemdin er hagræn,[54] byggð á sögu mikillar verðbólgu í landinu. Önnur röksemd er dæmið um Írland sem sýnir að sveigjanlegt gengi er ekki nauðsynlegt til að ná fram hröðum efnahagsbata eftir fjármálaáföll, eins og færð hafa verið rök fyrir. Sé svo, þá er upptaka evru sjálfgefin lausn á hagnýtum vanda Íslands í peningamálum. Jafnvel þótt Danmörk líkt og Bretland hafi samið um sérstakar undanþágur og Svíþjóð hafi hingað til ekki uppfyllt lagalega skyldu sína til að taka endanlega upp evru. Aðild að ESB líkt og NATO er fyrst og fremst pólitískt mál og að mestu óháð efnahagslegum útreikningum á kostum og göllum þess að nota evru. Í landi sem löngum hefur verið þrúgað af efnahagslegum óstöðugleika mætti einnig líta á fastgengisstefnu sem mikilvægan þátt í stofnanakerfi er miðaði að því að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Fast gengi er síður berskjaldað en fljótandi gengi fyrir því að spilað sé með það. Í ljósi þess að samkeppni erlendis frá er engin við innlenda viðskiptabanka, sem skýrir kerfisbundið hátt vaxtastig, og einnig með hliðsjón af getu viðskiptabanka til að búa til peninga, þá er knýjandi að koma upp íslensku bankakerfi sem er heilbrigð blanda af traustum bönkum í almannaeigu og einkabönkum með þátttöku útlendinga. Líkt og gert var í Eystrasaltslöndunum eftir hrun kommúnismans.
Ísland þarf betri, heiðarlegri og hæfari stjórnmálastétt, eins og Alþingi sjálft viðurkenndi í verki með einróma þingsályktun 2010: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“ Án gagngerra breytinga á stjórnmálastétt landsins í gegnum kosningar er ólíklegt að fjárhagslegt yfirlit yfir auð landsins og skiptingu hans verði að veruleika, sem og árangursrík endurskipulagning bankakerfisins og peningamála. Fyrsta og mikilvægasta skrefið í þessa átt er staðfesting þeirrar nýju og endurskoðuðu stjórnarskrár sem legið hefur fyrir fullbúin frá árinu 2013.[55] Nýju stjórnarskránni er ætlað að taka á tilteknum þáttum sem ollu Hruninu og styrkja félagsauð landsins. Því verður náð með skarpari valdmörkum og mótvægi, auknu gagnsæi og betur skipuðum dómstólum ásamt knýjandi umbótum á kosningakerfinu með jöfnu vægi atkvæða. Einnig með stjórnarskrárvörðum rétti almennings til rentunnar af auðlindum sínum. Slíkur réttur mun draga úr vægi peningaafla í íslenskum stjórnmálum.[56] Það er í anda upphafssetningarinnar í aðfaraorðum nýrrar stjórnarskrár: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð.“
* Höfundurinn þakkar Ágústi Einarssyni, Eduard Hochreiter, Erni B. Jónssyni, Gunnari Þ. Andersen, Lars Jonung, Per Magnus Wijkman, Sigríði Ólafsdóttur og Þórólfi Matthíassyni fyrir gagnlegar athugasemdir við enska frumgerð textans sem Hjörtur Hjartarson þýddi á íslensku. Frumtextinn birtist í lengri gerð undir yfirskriftinni „Ten Years After: Iceland´s Unfinished Business“ í Robert Z. Aliber og Gylfi Zoega (ritstj.) (2019). The 2008 Global Financial Crisis in Retrospect: Causes of the Crisis and National Regulatory Responses. New York: Palgrave MacMillan, 16. kafli.
Tilvísanir
[1] Sjá Gabriel Zucman (2013). „The Missing Wealth of Nations: Are Europe and the U.S. net Debtors or net Creditors?“. Quarterly Journal of Economics, 128 (3), ágúst, 1321–1364.
[2] Sjá Nancy Wagner (2010). „IMF Performance in the Run-Up to the Financial and Economic Crisis: Bilateral Surveillance in Selected IMF Member Countries“. Independent Evaluation Office Background Paper BP/10/03, International Monetary Fund, Washington, DC.
[3] Viðskiptaráð Íslands (2008). „Ísland 2015“. Febrúar, https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6389/1612898009%c3%8dsland%202015%20Vi%c3%b0skipta%c3%being%202006.pdf?sequence=1, opnað 12/10/2018.
[4] Sjá amgr. 2.
[5] Sjá Carmen M. Reinhart og Kenneth S. Rogoff (2009). This Time is Different: Eight Centuries of Financial Folly. Princeton, New Jersey og Oxford: Princeton University Press. Sjá einnig Carmen M. Reinhart og Kenneth S. Rogoff (2014). „Recovery from Financial Crises: Evidence from 100 Episodes“. American Economic Review: Papers & Proceedings 104 (2), maí, 50–55.
[6] Sjá Panama Papers (2016). „Politicians, Criminals and the Rogue Industry That Hides Their Cash“. https://panamapapers.icij.org/, opnað 22/9/2018. Um þingmennina tíu sem skulduðu eina milljón evra eða meira hver fyrir sig, sjá Rannsóknarnefnd Alþingis (2010). Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis. Reykjavík: Alþingi, 2. bindi, 200–201. Skuldir þessara þingmanna við föllnu bankana námu frá einni upp í 40 milljónir evra. Meðalskuld þeirra var níu milljónir evra. Ekki hefur verið greint frá því opinberlega hvort eða hvernig þessar skuldir voru gerðar upp.
[7] Thomas Piketty (2014). Capital in the Twenty-First Century. Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press.
[8] Sjá t.d. Alberto Alesina og Dani Rodrik (1994). „Distributive Politics and Economic Growth“. Quarterly Journal of Economics 109, maí, 165–190; Torsten Persson og Guido Tabellini (1994). „Is Inequality Harmful for Growth? “ American Economic Review 84 (3), júní, 600–621; og Þorvaldur Gylfason og Gylfi Zoega (2003). „Inequality and Economic Growth: Do Natural Resources Matter? “. 9. kafli í Theo Eicher and Stephen Turnovsky (eds.), Inequality and Growth: Theory and Policy Implications. Cambridge, Massachusetts og London: MIT Press. Sjá einnig Victor Rios-Rull og Vincenzo Quadrini (2015). „Inequality in Macroeconomics“. 14. kafli í Anthony B. Atkinson og François Bourguignon (ritstj.), Handbook of Income Distribution 2, 1229–1302. Amsterdam: Elsevier.
[9] Sjá Andrew Berg og Jonathan D. Ostry (2017). „Inequality and Unsustainable Growth: Two Sides of the Same Coin? “. IMF Economic Review 65 (4), 792–815.
[10] Sjá t.d. Gabriel Zucman (2015). The Hidden Wealth of Nations: The Scourge of Tax Havens. Chicago og London, England: University of Chicago Press.
[11] Sjá Anne Case og Angus Deaton (2017). „Mortality and Morbidity in the 21st Century“. Brookings Papers on Economic Activity 1, 397–467. Sjá einnig Karin Hederos, Markus Jäntti, Lena Lindahl og Jenny Torssander (2017). „Trends in Life Expectancy by Income and the Role of Specific Causes of Death“. Economica 85 (339), júlí, 606–625.
[12] Sjá Ray Chetty, Michael Stepner, Sarah Abraham, Shelby Lin, Benjamin Scuderi, Nicholas Turner, Augustin Bergeron og David Cutler (2016). „The Association between Income and Life Expectancy in the United States, 2001–2014“. Journal of the American Medical Association 315 (16), 1750–1766.
[13] Sjá Þorvaldur Gylfason, Bengt Holmström, Sixten Korkman, Hans Tson Söderström og Vesa Vihriala (2010). Nordics in Global Crisis. Helsinki: The Research Institute of the Finnish Economy (ETLA), Taloustieto Oy.
[14] Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson (2013). „Income Inequality in Boom and Bust: A Tale from Iceland’s Bubble Economy“. 15. kafli í Janet C. Gornick og Markus Jäntti (ritstj.), Income Inequality: Economic Disparities and the Middle Class in Affluent Countries, 416–438. Palo Alto, California: Stanford University Press. Sjá einnig Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson (2017). Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
[15] Sjá amgr. 14, síðari tilvísun, mynd 4.11.
[16] Sjá t.d. Jon Pareliussen og Per Olof Robling (2018). „Demographic Change and Inequality Trends in the Nordic Countries“. Nordic Economic Policy Review, 136–166.
[17] Global Wealth Report (2017). Credit Suisse Research Institute. https://www.creditsuisse.com/corporate/en/articles/news-and-expertise/global-wealth-report-2017-201711.html, opnað 7/10/2018.
[18] Sjá Þorvaldur Gylfason (2015). „Iceland: How Could This Happen? “. 12. kafli í Torben M. Andersen, Michael Bergman og Svend E. Hougaard Jensen (ritstj.), Reform Capacity and Macroeconomic Performance in the Nordic Countries. Oxford, England og New York: Oxford University Press. Sjá einnig Sigríður Benediktsdóttir, Gauti B. Eggertsson og Eggert Thórarinsson (2017). „The Rise, Fall, and Resurrection of Iceland: A Postmortem Analysis of the 2008 Financial Crisis“. Brookings Papers on Economic Activity 2, 191–281.
[19] Sjá „Former PM Haarde Takes Position on Board of World Bank,“ Iceland Review, 7. október 2018,
http://icelandreview.com/news/2018/10/07/former-pm-haarde-takes-position-board-worldbank, opnað 8/10/2018.
[20] Sjá Viðskiptablaðið 1. apríl 2011, https://www.vb.is/frettir/lindsor-var-stjornad-af-stjornendum-kaupthings/62474/, opnað 7/8/2019.
[21] Galbraith, John Kenneth (1988). The Great Crash 1929. Boston: Houghton Mifflin Company. Frumútgáfa 1954.
[22] Sjá Lawrence Mishel og Jessica Schieder (2018). „CEO compensation surged in 2017“. Economic Policy Institute, 16. ágúst. https://www.epi.org/publication/ceocompensation-surged-in-2017/, opnað 9/8/2019.
[23] Sjá amgr. 14, síðari tilvísun, 224.
[24] Sjá Þorvaldur Gylfason og Assar Lindbeck (1984). „Union Rivalry and Wages: An Oligopolistic Approach“. Economica 51 (2), maí, 129–139. Sjá einnig Thaler, Richard (2015, 14. kafli). Misbehaving. The Making of Behavioral Economics. New York og London, England: W. W. Norton and Company.
[25] Sjá Þorvaldur Gylfason (2013). “A Tale of Two Debtors: Iceland, Ireland — and Their Banks”. Milken Insititute Review 2, 14–23. https://assets1b.milkeninstitute.org/assets/Publication/MIReview/PDF/14-22MR58.pdf, opnað 26/9/2018.
[26] Sjá amgr. 5, síðari tilvísun.
[27] Sjá Fintan O’Toole (2009). Ship of Fools: How Stupidity and Corruption Killed the Celtic Tiger. London, England: Faber and Faber Ltd. Sjá einnig Donal Donovan og Antoin E. Murphy (2013). Ireland and the Euro Debt Crisis. Oxford, England og New York: Oxford University Press.
[28] Sjá amgr. 25.
[29] Sjá Jenný S. Jensdóttir (2017). „Ákærur og dómar vegna hrunmála“. Gagnsæi, Samtök gegn spillingu, http://www.gagnsaei.is/2017/12/29/domar1/, opnað 8/10/2018.
[30] Sjá Ben Bernanke: „More execs should have gone to jail for causing Great Recession,“ USA Today, 13.
nóvember 2015, https://eu.usatoday.com/story/news/politics/2015/10/04/ben-bernankeexecs-jail-great-recession-federal-reserve/72959402/, opnað 23/9/2018.
[31] Sjá „Stanley Fischer pushes for harsher banker penalties,“ Financial Times, 1. júní 2015, https://www.ft.com/content/4b0dd16c-087a-11e5-b38c-00144feabdc0#axzz3qSF3VtR1, opnað 23/9/2018.
[32] Sjá Christine Lagarde (2015). „The Role of Personal Accountability in Reforming Culture and Behavior in the Financial Services Industry“. Ræða í Seðlabanka New York, 5. nóvember.
[33] Robert D. Putnam (2000). Bowling Alone. New York: Simon and Schuster.
[34] Transparency International (2018). „Corruption Perceptions Index 2017“. https://www.transparency.org/news/feature/corruption_perceptions_index_2017, opnað 8/10/2018.
[35] Gallup (2013). „Government Corruption Viewed as Pervasive Worldwide“, eftir Jan Sonnenschein og Julie Ray. http://www.gallup.com/poll/165476/governmentcorruption-viewed-pervasive-worldwide.aspx, opnað 1/10/2018.
[36] Gallup (2018). „Confidence in Institutions“. https://news.gallup.com/poll/1597/confidence-institutions.aspx, opnað 1/10/2018.
[37] Sama heimild.
[38] Sjá amgr. 11, fyrri tilvísun.
[39] Sjá Freedom House (2019). „Freedom in the World 2019“. https://freedomhouse.org/report/freedom-world/freedom-world-2019, opnað 25/1/2020.
[40] Sjá Sigrún Ólafsdóttir (2017). „Er spilling alls staðar? Viðhorf Íslendinga til stjórnmálamanna“. Kjarninn, 26. október. https://kjarninn.is/skodun/2017-10-25-er-spilling-alls-stadar-vidhorf-islendinga-tilstjornmalamanna/, opnað 3/10/2018.
[41] Gallup (2019). „Traust til stofnana“. https://www.gallup.is/nidurstodur/thjodarpuls/traust-til-stofnana/, opnað 2/10/2018.
[42] Sama heimild.
[43] Sjá Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (World Health Organization) (2018). „Global Health Observatory“. http://apps.who.int/gho/data/node.main.688?lang=en, opnað 8/10/2018.
[44] Nýjar tölur Hagstofu Íslands fyrir 2017 og 2018 sýna óbreytta meðalævi frá 2012 til 2018, 82,5 ár bæði árin. Sjá https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/faeddir-og-danir/aevilengd-og-danartidni-2018/, opnað 8/8/2019. Nýjar tölur OECD sýna styttingu meðalævinnar á Íslandi úr 81,6 árum 2012 í 81,1 ár 2017. Sjá https://data.oecd.org/healthstat/life-expectancy-at-birth.htm, opnað 25/1/2020.
[45] Washington Post birti þessa flennifyrirsögn 11. janúar 2017: „Iceland ousted one leader named in the Panama Papers, but ended up with another on the list“. Sjá https://www.washingtonpost.com/news/worldviews/wp/2017/01/11/iceland-ousted-one-leader-named-in-the-panama-papers-but-ended-up-with-another-on-the-list/, opnað 9/8/2019.
[46] Prentfrelsið sigraði í héraðsdómi í október 2018 og síðan aftur í Hæstarétti í mars 2019. Því hafði þá verið haldið í gíslingu í 522 daga. Á meðan flutti forsætisráðherrann sem málið snerist um
sig um set og gerðist fjármálaráðherra.
[47] Sjá t.d. Steven Levitsky og Daniel Ziblatt (2018). How Democracies Die. New York: Crown; Yascha Mounk (2018). The People Vs. Democracy: Why Our Freedom is in Danger and How to Save It. Cambridge, Massachusetts og London, England: Harvard University Press; og Jason Stanley (2018). How Fascism Works: The Politics of Us and Them. New York: Random House.
[48] Sjá Þorvaldur Logason (2018). „Rýtingsstunga nasistanna yfirfærð á Ísland“. Kjarninn, 9. og 20. september. https://kjarninn.is/skodun/2018-09-09-rytingsstunga-nasistanna-yfirfaerd-island/ og https://kjarninn.is/skodun/2018-09-18-rytingsstunga-nasistanna-yfirfaerd-island-ii/, opnað 4/10/2018.
[49] Sjá David A. Carrillo (ritstj.) (2018). The Icelandic Federalist Papers. Berkeley. California: Berkeley Public Policy Press. Höfundur þessrar ritgerðar var meðal 25 fulltrúa sem þjóðin kaus til setu á Stjórnlagaþingi 2010 og Alþingi skipaði síðan í Stjórnlagaráð til að endurskoða eða endurskrifa stjórnarskrá lýðveldisins.
[50] Sjá World Values Survey (2014). „Interpersonal Trust“. http://www.jdsurvey.net/jds/jdsurveyMaps.jsp?Idioma=I&SeccionTexto=0404&NOID=104, opnað 4/10/2018.
Sjá einnig Þorvaldur Gylfason (2015). „Social Capital, Inequality, and Economic Crisis“. Challenge 58 (4), júlí, 326–342.
[51] Sjá amgr 13.
[52] Sjá amgr. 18, fyrri tilvísun.
[53] Sjá Indriði H. Þorláksson (2015). „Veiðigjöld 2015. Annar hluti“. Herðubreið, 15. apríl. http://herdubreid.is/veidigjold-2015-annar-hluti/, opnað 4/6/2018.
[54] Sjá t.d. Andersson, Fredrik NG og Lars Jonung (2018). „Iceland Should Replace its Central Bank with a Currency Board“. Í Robert Z. Aliber og Gylfi Zoega (ritstj.) (2019). The 2008 Global Financial Crisis in Retrospect: Causes of the Crisis and National Regulatory Responses. New York: Palgrave MacMillan, 18. kafli.
[55] Sjá Þorvaldur Gylfason (2018). „Chain of Legitimacy: Constitution Making in Iceland“. 7. kafli í Jon Elster, Roberto Gargarella, Vatsal Naresh og Bjørn Erik Rasch (ritstj.), Constituent Assemblies. New York: Cambridge University Press.
[56] Sjá tilvísun í amgr. 49, 15. kafli.