eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur

Úr Urðarfléttu (2022).

Una útgáfuhús gefur út.

 

 

Fellibylur

 

Eftir sýninguna faldi ég mig á bak við ruslatunnu á torginu. Ég var að reyna að skilja hvað hafði gerst. Í leikverkinu var barn sem tók í höndina á mér og vildi spá fyrir mér. Dimm og íhugul augu þess pírðu í lófann. „Þegar þú sérð fellibylinn, skaltu elta hann.“ Barnið sleppti takinu, en hélt augnaráðinu sem fylgdi mér til dyra. Útgönguleið. Draumar um fellibylji hafa sótt á mig síðan ég man eftir mér. Ég hef aldrei reynt að elta þá. Alltaf staðið kyrr, í von um að vakna.

 

 

 

Dýrið

 

Á nóttunni heyri ég það krafsa í gluggann. Þannig vekur það mig, dýrið sem vakir yfir börnunum mínum. Feldur þess mjúkur, hjartslátturinn ör, annað augað opið. Það hvílist aldrei. Ég er þreytt þegar ég vakna. Þær segja að þegar börnin mín stækki fari dýrið í dvala. En þá hefur það markað spor í huga minn, kennt mér næmni og ákveðni. Ég safna hárunum í gamalt silfurbox til að muna eftir dýrinu, til að gleyma ekki að krafsið er til að ég vakni.

 

 

Ryk

 

Þau sögðu að þær væru aðeins ryk, eldfjallaaska. Sögðu okkur að hafa ekki áhyggjur. Raddirnar urðu óstyrkari við hverja endurtekningu. Hér eru engin eldfjöll. Jörðin hristist ekki. Hér er bara óbærileg þögn. Það rignir hvítum marflugum. Þær leggjast yfir húsin og festast í hári. Strætin eru þakin flygsum. Við hóstum þeim upp. Ég ryð veginn fyrir okkur með skóflu. Mér var sagt að sorgin breyttist þótt hún hyrfi aldrei. Mér var sagt ýmislegt áður en ég lagði af stað. Nú treysti ég innsæinu fyrir leið minni.

 

 

 

 

 

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir / Mynd: Eva Schram

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er rithöfundur og sviðslistakona. Fyrsta ljóðabók hennar Sítrónur og náttmyrkur kom út haustið 2019. Ragnheiður Harpa er ein Svikaskálda og hefur ásamt þeim gefið út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín. Skáldsaga Svikaskálda, Olía, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðalaunanna árið 2021.