Um Fótboltasöguna miklu eftir Gunnar Helgason

eftir Jón Yngva Jóhannsson

úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2015

 

Gunnar Helgason

Gunnar Helgason / ljósm.: Gassi

Það getur verið mögnuð upplifun að fara á fótboltaleiki með Þrótti. Á heimaleikjum  í Laugardalnum  lærist manni  fljótt að stjörnur  félagsins eru ekki bara inni  á vellinum. Í stúkunni  er líka mikið úrvalslið sem heldur uppi fjörinu með söng, stuðningshrópum og einstaka athugasemdum um frammistöðu  dómara og aðstoðardómara. Í því síðastnefnda er Gunnar Helgason oft fremstur í flokki og kemur kannski ekki á óvart.

Einn minnisstæðasti  Þróttarleikur  sem ég hef séð, af ýmsu ástæðum, var þó ekki heimaleikur, heldur leikur við Fjölni sem fór fram í Grafarvoginum síðsumars árið 2013. Stuðningsmenn  Þróttar voru fjölmennir í stúkunni  og nokkrir ungir Fjölniskrakkar hlupu um og létu okkur heyra það. Þangað til þau komu auga á Gunnar  Helgason. Þá snarrann  af þeim töffaraskapurinn og óblandin  aðdáun  kom í staðinn.  Þótt Gunnar  væri að vísu Þróttari,  og þar með andstæðingurinn, þá yfirtrompaði  hann það algerlega með því að vera höfundur  Fótboltasögunnar miklu,  bókanna  fjögurra  um  Þróttarann Jón Jónsson og félaga hans. Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef orðið vitni að svipuðum  uppákomum. Mér er óhætt  að fullyrða að enginn leikmaður Þróttar skrifar jafnmargar eiginhandaráritanir á leikjum liðsins og Gunnar Helgason.

Fótboltasagan hefur náð miklum vinsældum og hún hefur laðað fjölmarga fótboltakrakka að bóklestri. Í þessari grein er ætlunin að rýna aðeins í þessar fjórar bækur, huga að þeim hugmyndum um kyn og kyngervi sem þar birtast og síðast en ekki síst að fjalla um bókmenntaleg  einkenni  þeirra og sögu­ mannsaðferðina  sérstaklega.

Fótboltasagan mikla er ekki fyrsta fótboltasagan sem kemur út á íslensku. Samband  hennar  við fyrirrennara  sína er mikilvægt af ýmsum  ástæðum. Þess vegna er rétt að byrja á því að rifja upp í örfáum dráttum  sögu íslenskra fótboltabóka.

 

Frá séra Friðrik til samtímans

Séra Friðrik Friðriksson

Séra Friðrik Friðriksson í Vatnaskógi 1974

Fótbolti  og bækur,  sérstaklega bækur  fyrir stráka,  hafa lengi átt  samleið í íslenskum  barnabókum  þótt  saga þeirra  sé vissulega nokkuð  bláþráðótt fram  á síðustu  ár. Fyrsta íslenska bókin  af þessu tagi kom  út  árið  1931. Hún hét Keppinautar. Knattspyrnusaga og var gefin út af Knattspyrnu­ félaginu Val. Höfundurinn var stofnandi félagsins, séra Friðrik Friðriksson. Í Keppinautum  er sögð saga af stofnun knattspyrnufélags  KFUM á sléttum Bandaríkjanna  og átökum  sem spretta  af því að únítarar,  eða öllu heldur trúlausir  menn,  eins og þeir eru  kallaðir í sögunni,  stofna  annað  félag í bænum  til höfuðs  hinum  kristilegu  ungu  mönnum.   Sagan ber  samtíma sínum og höfundi  skýrt vitni. Átökin reynast rista grunnt  og allir samein­ ast í guðsótta og góðum siðum að lokum. Í bænum  Watertown  virðast búa eintómir  karlmenn, eina konan sem kemur þar við sögu er móðir einnar af aðalpersónunum sem ekki er einu sinni nefnd með nafni. [1]

Eftir að bók séra Friðriks kom út leið raunar  nokkuð langur tími þar til út kom frumsamin  fótboltabók  á íslensku. Árið 1964 sendi Þórir  S. Guð­ bergsson frá sér bók sem nefnist Knattspyrnudrengurinn.  Saga um  drengi í starfi og leik. Hún er snoðlík bók séra Friðriks, engin kvenpersóna kemur fram undir  nafni og kristindómurinn er alltumlykjandi.  Nokkrar  merkar þýðingar á fótboltabókum  litu þó dagsins ljós á eftirstríðsárunum, hér má nefna (einkum vegna persónulegrar  nostalgíu) bækur eins og Ellefu strákar og einn knöttur  eftir þýska kommúnistann Hans Vogt, sem meðal annars vann sér til frægðar að gerast flugumaður innan nasistaflokksins á stríðsár­unum,  að ógleymdum  bókunum  um Hæðargerði  eftir Max Lundgren,  en tvær  af fjórum  bókum  í þessum  fræga sænska  bókaflokki komu  út  árin 1974 og 75 í þýðingu Eyvindar P. Eiríkssonar. Ævisögur fótboltamanna hafa líka lengi verið vinsælar, Jónas frá Hriflu reið á vaðið með ævisögu Alberts Guðmundssonar árið 1957 og síðan hefur komið út töluverður  fjöldi slíkra sagna, bæði frumsaminna og þýddra. Nú síðast hefur Illugi Jökulsson sent frá sér bókaflokk þar  sem  fjallað er  um  skærustu  fótboltastjörnur sam­tímans, Messi, Ronaldo og Zlatan Ibrahimovic að ógleymdum „villingnum“ Balotelli. Nýjasta bókin í ritröð Illuga fjallar svo um bestu knattspyrnukonur heims.

Það er auðvitað ekki hægt að fjalla um fótbolta og bækur án þess að nefna Þorgrím  Þráinsson  og bækur  hans fyrir börn  og unglinga. Allt frá fyrstu bók Þorgríms, Með fiðring í tánum sem kom út árið 1989, til Núll, núll 9 frá 2009, hafa þær notið fádæma vinsælda hjá unglingum.  Raunar hefur vægi fótboltans  smám saman minnkað  í bókum  Þorgríms  og í þríleiknum  sem lýkur með Núll, núll 9 víkur hann smám saman fyrir öðrum viðfangsefnum.

Tár, bros og takkaskór

Tár, bros og takkaskór eftir Þorgrím Þráinsson.

Bækur Þorgríms hafa höfðað til íslenskra unglinga, bæði stráka og stelpna. Eins og Silja Aðalsteinsdóttir hefur bent á gera fyrstu fótboltabækur Þorgríms þetta  með  því að ganga inn  í algerlega hefðbundnar kynjastaðalmyndir. Draumar  strákanna snúast um að sigrast hver á öðrum í fótbolta til þess að vinna hylli stelpnanna sem þekkja „vart muninn  á marki og bolta“ en láta sig dreyma um hamingjuna í „tilfinningaríkum  samskiptum kynjanna“. Svið kynjanna eru skýrt afmörkuð og stelpur sem spila fótbolta fara yfir þau mörk og þykja ekki eftirsóknarverðar  í heimi sagnanna. [2]

Dulrænir  atburðir, skyggni, berdreymi og draugagangur  eru nokkuð algengir í bókum Þorgríms. Að þessu leyti eiga fótboltabækur  Gunnars Helgasonar ýmislegt sameiginlegt með bókum Þorgríms. Þar er líka fjallað um samskipti kynjanna á unglingsárum og dulrænir atburðir setja svip sinn á bæði atburðarásina  og ekki síður frásagnaraðferð bókanna um Jón Jónsson Þróttara.  Að öðru leyti eru bækur Gunnars  Helgasonar gagnólíkar bókum Þorgríms eins og síðar verður komið að.

 

Stráka­ og stelpubækur?

Hér er ekki rúm til að kafa dýpra í sögu íslenskra fótboltabókmennta fyrir börn en það er óhætt að fullyrða að þær hafa fram á síðustu ár verið algerar strákabækur þar sem ekki er efast um hefðbundin hlutverk kynjanna og þeir sem sýna merki þess að víkja frá þeim, sterkar stelpur eða kvenlegir strákar eru fyrst og fremst uppspretta  brandara.

Þess vegna þarf það ekki að koma á óvart þótt  einhverjum  verði það á að setja bækur  Gunnars  Helgasonar  fyrirvaralaust í sama flokk og ég hef reyndar rekið mig á það oftar en einu sinni að fólk sem ekki hefur lesið Fótboltasöguna  miklu – og þekkir kannski ekki börn sem hafa gert það – heldur einmitt að þetta séu bara bækur um stráka í eilífum fótbolta, bækur sem ýti undir staðalmyndir og kynjaskiptingu. En stundum  leitum við langt yfir skammt  að slíkum  staðalmyndum;  þær  er ekkert  síður  og stundum miklu fremur að finna í væntingum okkar en í bókunum  sjálfum.

Höfundurinn  virðist  hafa  verið  ágætlega  meðvitaður   um  þetta  strax þegar fyrsta bókin kom út. Hann sagði í viðtali við Börk Gunnarsson  á mbl. is: „Annars halda allir að þetta sé strákabók, en þetta er það ekki, þetta er fótboltabók og það eru bæði strákar og stelpur í fótbolta.“ [3]

Staðreyndin  er sú að í Fótboltasögunni  miklu, einkum  frá og með bók númer tvö, Aukaspyrnu á Akureyri, er ýmislegt gert til að vinna á móti því að bækurnar  detti í það fyrirsjáanlega far að vera hreinræktaðar strákabækur. Þar kemur  Rósa til sögunnar,  fótboltastelpa  sem æfir með Fylki og vekur nýjar  tilfinningar  í brjósti  aðalsöguhetjunnar og sögumannsins.  Í næstu bók, Rangstæður í Reykjavík, er sviðið REYCUP, alþjóðlegt fótboltamót fyrir unglinga sem haldið er í Laugardalnum á hverju sumri. Þar spila bæði kynin og einn af hápunktum sögunnar er REYCUP­ballið þar sem hormónaflæðið og gelgjan sem einkenna bókina nær hámarki. Stelpurnar sem Þróttarstrák­ arnir kynnast þar koma líka við sögu í síðustu bókinni, Gula spjaldinu í Gautaborg, þar sem þær taka þátt í stærsta alþjóðamóti barna og unglinga í fótbolta í Svíþjóð. Rósa, kærasta Jóns, og aðrar kvenpersónur  sem koma við sögu eru góðar í fótbolta og raunar er ekki að finna eina einustu stelpu í öllum bókunum  sem er áhugalaus um íþróttina.

Víti í Vestmannaeyjum

Fyrsta bókin í Fótboltasögunni miklu eftir Gunnar Helgason, Víti í Vestmannaeyjum, kom út haustið 2011.

Síðast en ekki síst má minna á að helsta hetja Jóns og vina hans í fótbolt­ anum  allt frá fyrstu  bók, Vítaspyrnu  í Vestmannaeyjum,   er einmitt  ung kona, eldri systir Jóns, Eivör, sem skorar mark í sínum fyrsta landsleik í Aukaspyrnu á Akureyri og er komin til Svíþjóðar í atvinnumennsku í Rang­ stæður í Reykjavík þar sem hún spilar líka landsleik. Þannig hefur hún látið sameiginlegan draum þeirra systkina rætast og draumur  Jóns er að feta í fótspor hennar.

Þótt kynjajafnvægið í fótboltabókum  Gunnars  Helgasonar  sé meira en í flestum sambærilegum barnabókum  er aðalpersónan samt sem áður strákur og sagan er næstum öll sögð frá hans sjónarhorni.  Athyglin er meiri á strák­ unum.  Sem er ekki tilviljun. Það er yfirlýst markmið  höfundar  með ritun bókanna  að fá stráka til að halda áfram að lesa á þeim krítíska aldri þegar margir þeirra hætta því alveg. Við vitum að strákar lesa minna en stelpur og að þeir eiga það til að heltast úr lestrarlestinni í upphafi gelgjuskeiðsins. [4] Við þurfum bækur fyrir þessa stráka, meðal annars bækur sem fjalla um fótbolta sem er aðaláhugamál  þeirra margra.  Fótbolti hefur reynst mjög góð beita til að fá krakka til að lesa, bæði stráka og stelpur. Gunnar  Helgason er ekki einn um að hafa uppgötvað þetta. Bókaflokkur Helenu Pielichaty, Girls FC, er ágætt dæmi um hliðstæðan bókaflokk þar sem fjallað er um stelpnalið. [5]

Í Fótboltasögunni  miklu eru stelpur miklu sýnilegri og miklu virkari en í eldri fótboltabókum,  en kynjavíddirnar  í bókunum  eru  fleiri. Í Rangstæður í Reykjavík eru strákarnir orðnir 13 ára og komnir með hvolpavit. Í lok sögu hafa þeir flestir eignast kærustur,  þótt það tildragelsi sé allt mjög saklaust. Einu undantekningarnar eru annars vegar Ívar, besti vinur sögumanns,  og hins vegar varnarjaxlinn  og átvaglið Bjössi. Undir lok sögunnar  rennur  þó upp ljós fyrir aðalpersónunni og sögumanninum Jóni Jónssyni:

Ég leit á stelpurnar sem stóðu þrjár saman með Jason á milli sín. Kærusturnar okkar. Og þá rann það upp fyrir mér. Bjössi og Jason! Þeir voru líka kærustupar! Auðvitað. Kannski hefði ég gert eitthvað mál úr því að uppgötva þetta ef það hefði ekki gengið svona mikið á. En ég var bara ánægður. Ég leit á hann og hina

Þarna voru þeir. Ívar, Skúli, Davíð og Bjössi. Og ég. Fimm bestu vinir. Ekki fjórir heldur fimm. Ég sagði ykkur að við yrðum ekki fjórir lengi. Og allir áttum við kæró. Nema Ívar. [6]

Samkynhneigð Bjössa verður aldrei neitt mál og með þeim Jason verða fagn­ aðarfundir í síðustu bókinni, Gula spjaldinu í Gautaborg. Einhver myndi kannski gagnrýna það að viðbrögð strákanna eða viðbragðaleysi séu ekki alveg raunsæ en ef við lítum svo á að barnabækur  MEGI líka hafa uppeldis­ legt gildi og sýna okkur ekki bara einstaklinga sem eru fyrirmyndir heldur líka hegðun sem er til fyrirmyndar er auðvelt að fallast á viðbrögð strákanna og umhverfis þeirra. Það er einfaldlega ekkert mál þótt strákur verði skotinn í breskum fótboltastrák sem spilar með Tottenham  frekar en að íslensku stelpurnar fái stjörnur í augun yfir félögum hans. [7]

Saga Bjössa varpar ljósi á það hversu mikilvægur kynjavinkillinn í Fótboltasögunni miklu er og ekki síður hvernig hann birtist. Viðbrögð sögu­ manns við samkynhneigð Bjössa gefa okkur innsýn í það hvernig sagan öll býr til rými fyrir lesandann til að taka afstöðu með strákunum  og samsama sig þeim. Að þessu leyti sver Fótboltasagan  sig í ætt við ákveðna þróun  í alþjóðlegum barnabókaheimi  sem hefur verið lýst þannig:

Mikilvæg áhrif femínismans felast í tilkomu skáldverka fyrir unglinga sem byggja upp innbyggðan lesanda sem tekur sér femíníska stöðu við lestur. Slíkur lesandi er oft byggður upp með textatengslum, með samræðu milli frásagnarinnar og ákveðinna eldri texta eða almennra sögufléttna sem tilheyra bókmenntagreininni sem frásögnin notar eða vísar til. [8]

Fótboltasöguna  miklu  má  greina  á svipuðum  nótum.  Hún  á í samræðu við hefðbundnari fótboltabækur  þar sem strákar eru einir á sviðinu. Þetta gerir hún  ekki með því að hamra  á því að stelpur geti líka spilað fótbolta eða að strákar í fótbolta geti verið hommar,  heldur með því að ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut og búa til rými fyrir lesandann sem hann gengur fyrirhafnarlaust  inn í. Það má líka segja að eldri fótboltabækur,  til dæmis bækur Þorgríms Þráinssonar,  séu mikilvægur undirtexti  í Fótboltasögunni miklu. Fótboltasagan mikla tekst á við fordóma lesandans um fótboltabækur og fótbolta almennt með þessum hætti, og samanburðurinn við aðrar fótboltabækur  getur styrkt þá jafnréttisumræðu sem greina má í bókunum enn frekar.

En þótt ég hafi bæði áhuga á fótbolta og kynjafræði ætla ég að einbeita mér að öðru í þessari umfjöllun um Fótboltasöguna  miklu. Jón Jónsson er nefnilega ekki bara lunkinn í fótbolta og skotinn í stelpu(m), hann er líka og kannski umfram allt sögumaður sinnar eigin sögu.

Án þess að ég vilji gera lítið úr fótbolta og kærustusorgum Jóns þá má líta svo á að hvort tveggja og öll sú spenna sem myndast í bókunum  séu öðrum þræði aðferðir til að teyma lesandann  áfram og fá hann til að lesa um öllu alvarlegri hluti.  Utan  vallar þurfa  persónur  bókanna  að kljást við marg­ vísleg vandamál. Þótt Jón sé aðalsöguhetja bókanna og sögumaður  eru það örlög Ívars vinar hans sem eru aðalsöguefnið. Í fyrstu bókinni verða Jón og aðrir Þróttarar  vitni að því að faðir Ívars, fyrrverandi landsliðsmaðurinn og alkóhólistinn Tóti, beitir son sinn margvíslegu ofbeldi og í öllum bókunum þarf að „bjarga“ Ívari á einn eða annan hátt. Saga Ívars er vandmeðfarin. Þar er fjallað um  heimilisofbeldi, barnaverndarmál og fleira sem auðveldlega gæti leitt frásögnina út í tilfinningasemi eða predikanir. Hvort tveggja tekst Gunnari að forðast. Hér er frásagnaraðferðin lykilatriði.

 

Sögumaður í mútum

Strax á fyrstu síðu Fótboltasögunnar miklu kemst lesandinn  að nokkrum mikilvægum hlutum  um aðalpersónuna.  Hann  heitir Jón Jónsson og hann er nýbúinn að fara á fótboltamót í Vestmannaeyjum. Þegar hann er búinn að kynna sig og fjölskyldu sína hefst sagan með þessum orðum:

Og hér byrjar þá sagan:

Nei, bíðið aðeins … ég gleymdi að setja svona kaflaheiti við þennan kafla … set það bara hér. Þessi kafli hét

Kynningin

Ég lofa svo að hafa kaflaheitin í byrjun hvers kafla. Hér byrjar þá …

… fótboltasagan mikla!

Eða sko … ekki hér. Þú verður að fletta, sko. [9]

Jón Jónsson er sem sagt sögumaður  eigin sögu og hann fer ekki leynt með það að hann  sé að skrifa bók. Strax í upphafi  er athygli lesandans dregin að því. Jón þarf að muna að setja kaflaheiti í byrjun hvers kafla, því þannig gera þeir sem skrifa bækur. Og í öllum bókunum  minnir  Jón lesendur sína reglulega á að það er hann sem segir söguna og heldur í alla þræði.

Fræðimenn  sem fjallað hafa um  frásagnafræði  barnabóka  hafa bent  á að greina megi ákveðna meginþróun  í því hvernig lesendur  eru ávarpaðir í skáldverkum  fyrir börn.  Lengi vel einkenndust  barnabækur  af „tvöföldu ávarpi“ þar sem sögumaður  ávarpar barnið sem lesanda en talar jafnframt yfir höfuðið á því og ávarpar fullorðinn lesanda. Eftir miðja tuttugustu  öld fór að bera meira á einfaldara ávarpi þar sem barnið var ávarpað beint og á þess eigin forsendum.  Loks, eftir því sem bókmenntagreinin þróaðist, varð til það sem Barbara Wall nefnir tvíþætt ávarp en það einkennist  af því að bækurnar  virðast einfaldar en hafa „misjafnlega dulin skilaboð til eldri inn­ byggðs lesanda ef hann kýs að taka á móti þeim.“ [10] Þótt greining Wall geri ráð fyrir því að bækur með tvíþættu ávarpi séu þróaðri en eldri barnabækur þarf það þó ekki að útiloka  að beita megi öðrum  aðferðum  til að koma flóknum skilaboðum til lesenda.

Silja Aðalsteinsdóttir  hefur fjallað um frásagnartækni  í íslenskum barna­ bókum  og nefnir  þar fyrstu bækur  Gunnars  Helgasonar,  Goggi og Grjóni (1992) og Goggi og Grjóni í sveit settir (1995) sem dæmi um einfalt ávarp sem hafi oft þann galla að sögur sem þannig eru sagðar „skorti raunverulega dýpt“. [11] Frásagnaraðferð bókanna um Gogga og Grjóna er ólík Fótbolta­ sögunni  miklu. Þar segir þriðju  persónu  sögumaður  frá, en hann  virðist samt samsama sig algerlega með strákunum  og bernsku  viðhorfi þeirra til heimsins og atburða sem þeir hafa takmarkaðan  skilning á.

Fyrstu persónu  frásögn Jóns í Fótboltasögunni  miklu einkennist  líka af nokkuð einföldu ávarpi. En sögurnar sýna að slíkt ávarp má nota til að segja flókna sögu. Slík frásögn getur verið leið til að nálgast unga lesendur, skapa nánd  milli sögumanns  og lesanda sem gefur færi á að fjalla um viðkvæm mál og erfið. Þetta er einmitt  raunin  með Fótboltasöguna  miklu. Sá sögu­ höfundur sem er að baki Jóns er sjaldan sýnilegur og þótt fullorðnir lesendur geti vitanlega séð sitthvað með öðrum augum en þeir yngri er langt frá því að tvíþætt ávarp sé ríkjandi í sjónarmiði sögunnar eða málfari, þvert á móti. Sjónarhornið  er (með örfáum undantekningum) algerlega hjá Jóni og mál­ beitingin er í samræmi við aldur hans.

Í greiningu  á sögumannsrödd skiptir  ekki einungis  máli hvaða lesandi er ávarpaður í sögunni, það skiptir líka máli hvernig það er gert og hvaðan. Hér skiptir það sem nefnt er tímasjónarmið  í frásagnarfræði töluverðu máli, það hvernig sambandinu  á milli sögutíma og frásagnartíma  er háttað. Við greiningu á tímasjónarmiði  er meðal annars spurt hversu langur tími líður milli atburða sögunnar  og frásagnarinnar,  hvort sagt er frá í réttri tímaröð eða með fram­ og afturgripum  og hvort sagt er einu sinni frá atburðum  eða endurtekið. [12]

Þegar tímasjónarmið  og aðrir  þættir  frásagnarinnar  í Fótboltasögunni miklu  eru  greindir  kemur  í ljós að hún  er, allt frá upphafi  til enda,  það sem  kanadíski  bókmenntafræðingurinn  Andrea  Scwhenke  Wyile  kallar „immediate engaging“ og kalla má á íslensku nálæga og aðlaðandi frásögn. [13] Hún  er nálæg í tíma þannig að Jón segir sögu sína mjög skömmu  eftir að hún gerist og hún er aðlaðandi í þeim skilningi að lesandi á auðvelt með að samsama sig sögumanni, sagan „umfaðmar“ lesandann svo notað sé orðalag frá Wyile.

Þessi sögumannsaðferð  er mjög algeng í barnabókum  en sjaldgæfari í skáldsögum fyrir fullorðna. Í fyrstu persónu frásögnum fyrir fullorðna lesendur er algengara að tímasjónarmiðið sé með þeim hætti að sögumaður líti til baka, rifji upp atburði úr æsku sinni og sjái þá með augum þess sem hefur öðlast aukinn þroska. Þessa aðferð þekkjum við úr íslenskum sjálfsævi­ sögulegum skáldsögum frá Fjallkirkju Gunnars  Gunnarssonar til Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur  svo augljós dæmi séu nefnd. Slík sögumannsaðferð  er ein helsta uppspretta  margræðni  og íróníu  í skáldsögum af þessu tagi þar sem sögumaður  getur sett sitt yngra sjálf á svið og gert góðlátlegt grín að eigin vanþroska og skilningsleysi á aðstæður. Í bókum fyrir börn og unglinga getur  hún  á  hinn  bóginn  orðið  til  þess  að  fjarlægja aðalpersónuna   frá lesendum. Fullorðinn sögumaður kemur upp á milli lesandans eða þess sem ávarpaður  er í textanum  annars vegar og aðalpersónunnar hins vegar. Hin nána og aðlaðandi frásagnaraðferð  Fótboltasögunnar gefur fá færi á slíkri íróníu.  Jón sér sjálfan sig með augum  barns, hann  skrifar sögu sína ekki jafn óðum en það líður greinilega ekki langur tími á milli frásagnartíma og sögutíma. Hann er því enn á sama þroskastigi og þegar atburðirnir gerast og hann veit t.d. ekki þegar fyrstu bókinni lýkur hvað tekur við í þeirri næstu.

Aukaspyrna á Akureyri

Aukaspyrna á Akureyri kom 2012. Kápuhönnun á öllum bókunum var í höndum Ránar Flygenring.

Jón er ekki nema níu ára þegar atburðir fyrstu bókarinnar  gerast og hann skrifar bókina strax í kjölfarið. Í annarri bók flokksins, Aukaspyrnu á Akur­eyri, er hann orðinn 11 ára. Á fyrstu síðu upplýsir hann okkur um að hann sé höfundur  fyrri bókarinnar:  „Fyrir tveimur árum fórum við Þróttararnir til Vestmannaeyja og lentum í ótrúlegustu ævintýrum. Ég skrifaði meira að segja bók um þá ferð sem heitir Víti í Vestmannaeyjum.“ [14]

Í Fótboltasögunni  miklu er sem sagt látið eins og Jón sé ekki bara sögumaður  bókanna  heldur er hann líka höfundur  þeirra bóka sem út eru komnar. Þar með nær sögumannshlutverk hans til bókanna allra, ekki bara frásagnarinnar.

Sem slíkur beitir Jón líka óspart öðrum aðferðum en einföldum texta við skrifin. Myndirnar  í bókunum  eru sumar hefðbundnar myndskreytingar atburða,  vignettur  í upphafi kafla og skemmtileg útfærsla á blaðsíðutölum og fleira í þeim dúr. En inn á milli eru myndir sem Jón sjálfur vísar til, þær sýna liðin sem Jón spilar með, leikkerfi og einstök atvik úr leikjum liðanna (AáA, 9).

Jón er ágætlega að sér í frásagnarfræði miðað við aldur og beitir ýmsum brögðum sem þekkt eru úr bókmenntaheiminum til að sýna lesandanum  á spil sín og gera grein fyrir aðferðum sínum við að segja sögu. En hann leitar fanga víðar. Krakkar af kynslóð Jóns eru auðvitað alin upp við kvikmyndir á geisladiskum og þeim fylgir iðulega aukaefni af ýmsu tagi, viðtöl við leikara og leikstjóra, burtklipptar  senur, heimildamyndir  um gerð myndarinnar og  fleira í þeim dúr.  Jón er enginn  eftirbátur  kvikmyndafyrirtækja  að þessu leyti. Öllum bókunum  fylgir ítarlegt aukaefni þar sem farið er í saumana á einstökum  atvikum í leikjum stráka og stelpna á mótunum sem lýst er í meginsögunni,  úrslit eru tíunduð  og einnig má finna þar atriði sem ekki rata inn í meginsöguna. Í fyrstu bókinni er þannig birt viðtal sem ónefndur heimildamyndagerðarmaður tekur við Jón og félaga hans og í Rangstæður í Reykjavík fær íþróttafréttamaðurinn Guðjón Guðmundsson að leika lítið aukahlutverk þar sem hann tekur viðtal við stelpur úr Fylkisliðinu, þeirra á meðal Rósu. Jón vísar líka iðulega til þessa aukaefnis, fyrst snemma í fyrstu bókinni.

Ef þið viljið fá að vita meira um strákana í liðinu þá er allt um þá í aukaefninu aftast í bókinni, á blaðsíðu 253. Ég mæli reyndar með því að þið kíkið á það. Aukaefnið er alltaf skemmtilegt! [15]

Aukaefnið er líka upplýsandi fyrir lesandann, bæði um Jón sem sögumann og höfund og um fótbolta almennt. Rangstöðureglan, sem hefur vafist fyrir mörgum  áhorfandanum, bæði í leikjum barna og fullorðinna, er til dæmis skýrð í aukaefninu sem fylgir Rangstæður í Reykjavík (302–04).

Jón er ekki bara á heimavelli þegar kemur að fjölbreyttum aðferðum við að miðla efni og aukaefni. Hann er líka ágætlega fróður og vel lesinn. Stundum notar hann tækifærið til að sýna þetta og fræða lesendur sína:

Leikurinn  byrjaði. Við  vorum  ekkert  verri  en  Fjölnismenn  (Fjölnismenn  eru reyndar nafn yfir annan félagsskap sem var til átjánhundruð og eitthvað og snerist ekki um fótbolta heldur um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og ljóðlist … hvernig sem það fer nú saman!?). (VV110)

Jón fer létt með að stinga sjálfum sér sem sögumanni og höfundi í samband við hefðina og minnir um leið einu sinni enn á það að við erum að lesa skáldsögu og hann er höfundur  hennar.

Rangstæður í Reykjavík

Í þriðju bókinni, Rangstæður í Reykjavík, vindur sögunni fram á Þróttarsvæðinu í Laugardalnum.

Fótboltasagan mikla er með öðrum orðum sögusögn (e. metafiction) eða saga sem fjallar öðrum þræði um eigin tilurð og minnir  reglulega á að hún er skáldsaga. Sögur af þessu tagi eiga sér auðvitað langa sögu í bókmennta­ sögunni  en undanfarin  hundrað  ár eða svo hafa þær oft verið tengdar  við tilraunamennsku í bókmenntum, allt frá Gustave Flaubert til skáldsagna póstmódernismans. [16] Sögusagnir einkennast oft af því að þær vekja með lesandanum ákveðna óvissu um samband skáldskapar og veruleika, um möguleikann  á því yfirhöfuð að lýsa veruleikanum  í frásögn. Slíkar sögusagnir eru þá taldar hafa það fram yfir hefðbundnari frásagnir að þær vinni á móti algerri innlifun lesandans sem geti haft þau áhrif að lesandinn gangist inn á hugmyndir  og hugmyndafræði  sögunnar gagnrýnislaust. [17]

Sjálfsvísanir í barnabókmenntum hafa gjarnan verið greindar á svipuðum nótum.  Fræðimenn  á sviði barnabókmennta hafa hampað  slíkum sögum á kostnað hefðbundnari frásagna vegna „róttækra eiginleika þeirra og möguleika til að ýta lesendum  úr þeirri þægilegu og barnalegu stöðu sem aðrir [fræðimenn]  hafa kvartað yfir.“ [18]

Að mati  bandaríska  bókmenntafræðingsins Joe Sutliff Sanders er þessi upphafning sögusagnanna og róttækni þeirra þáttur í viðleitni barna­ bókmenntafræðanna til að fjarlægja bókmenntagreinina frá því að vera álitnar fræðslu­ og uppeldisbókmenntir eingöngu. „Í sífelldri viðleitni sinni til að greina sig frá boðunarhyggju  hafa barnabókmenntafræðin fagnað róttækum  möguleikum sögusagna ákaft.“ [19]

Sanders andmælir þessari einföldun á hlutverki sögusagna í barnabókum og bendir á hvernig slíkar sögur geti haft önnur áhrif á lesandann en að gera hann róttækan  og efins um yfirvald hinna fullorðnu, ekki síst þau að gera hann  bæði gagnrýninn  sem lesanda og betur færan um að njóta þess sem hann les. [20]

Staða Jóns sem sögumanns  og höfundar  bókanna ásamt hinni aðlaðandi og nálægu sögumannsrödd gerir það að verkum að í Fótboltasögunni  miklu er allt á forsendum  barna. Þetta er undirstrikað  með málnotkun  sögunnar og húmor  sem er oft barnslegur án þess að það verði nokkurntíma banalt. Í upphafi fyrstu bókar lýsir Jón fjáröflun strákanna  fyrir ferðina sem felst í því að selja klósettpappír  og lakkrís eins og flestir foreldrar fótboltakrakka munu kannast við:

Pabbi sagði að þetta hefði verið algjör súper­pakka díll. Fyrst seldum við fólki lakkr­ ísinn svo fólkið fékk niðurgang og neyddist til að kaupa klósettpappírinn líka. Hann ætti að vita það. Hann er með algjört æði fyrir lakkrís og át tvo pakka sjálfur á einu kvöldi. Hann segist ennþá vera með rispur á rassinum eftir klósettpappírinn sem ég var að selja, Hann kaupir bara EXTRA­SÚPER­MEGA­MJÚKAN pappír núna.

Og talandi um að skíta á sig […](VíV,9)

Barnsleg sögumannsröddin gerir að verkum að brandarar  af þessu tagi, sem kannski virkuðu illa með annarri frásagnaraðferð sleppa og rúmlega það. En Jón er (sem betur fer) ekki alltaf í kúk og piss húmornum. Hann hefur líka bókmenntalegan  metnað, hann veltir fyrir sér orðunum sem hann notar. Í fyrstu bókinni er hann stundum  óöruggur með orðin og við sjáum að hann er að reyna að nota orð sem hann ræður ekki alveg við: „Þannig brýst tap­ sárið út … tapsærið … tapsárnin út, segir mamma“ (VV,10). Hann getur líka klappað sjálfum sér á bakið þegar tungumálið hlýðir honum og skrifin ganga vel, til dæmis þegar beygja þarf erfið orð eða nöfn: „Við hlupum  til Arnar (það er sko Örn! Hér er Örn – um Örn – frá Erni – til Arnar!) (VíV, 42).

Gula spjaldið í Gautaborg

Gula spjaldið í Gautaborg – sögulok, eða hvað?

Eftir því sem líður á bókaflokkinn  sjáum við líka að Jóni vex ásmegin, ekki bara sem fótboltamanni  heldur  líka sem sögumanni.  Metnaður  hans vex og í síðustu bókunum  er hann kominn í nokkurs konar bókmenntalegar mútur.  Hann  reynir  að beita tungumálinu á skapandi  hátt  sem stundum verður til þess að hann teygir sig of langt og röddin verður skræk: „Þegar við komum  aftur á staðinn  okkar í stúkunni  var köttur  kominn  í ból bjarnar. Eða kannski: Læður komnar í sæti fressa? (Nei, þetta var glatað.)“ [21]

Jón leyfir sér líka ýmsa dirfsku í frásagnaraðferðinni  í síðustu bókinni. Eins og hver annar módernisti veltir hann t.d. fyrir sér eigin stöðu sem sögu­ manns: „Nú hefði komið sér vel að vera alvitur sögumaður og vita hvað allir í sögunni voru að hugsa og segja.“ (GíG, 270) Í Aukaspyrnu á Akureyri verður frásögnin líka margradda  þar sem Jón lætur öðrum  persónum,  Eivöru og Ívari, eftir frásögnina í stuttum  köflum.

Málfarspælingar  Jóns og vangaveltur um stíl og frásagnaraðferð  minna líka á annað. Hann er barn og seinna unglingur og veit að lesendur hans eru það líka. Þess vegna getur hann ekki leyft sér hvað sem er: „Foreldrar Vals­ manna og þjálfari fóru að hrópa og öskra á dómarann og kalla hann öllum illum nöfnum sem mörg voru svo slæm að ég þori ekki að setja þau hérna því þetta er barnabók.“ (VíV, 145).

Jón er ótrúlega vel smíðaður  sem sögumaður  í barnabók.  Maður verður varla var við að fullorðinn söguhöfundur kíki yfir öxlina á honum  eins og oft vill verða í barnabókum  með fyrstupersónu  sögumann. Þetta gerir hann einstaklega viðkunnanlegan  og aðlaðandi sögumann,  en hitt er þó kannski mikilvægara að þetta gerir ungum  lesendum  auðvelt að treysta honum  og láta hann leiða sig í gegnum erfiðar aðstæður og sára reynslu.

 

Í öruggum höndum

Árangurinn  af sjálfsvitund bókanna  og aðlaðandi  frásögn Jóns verður  sá að lesandinn hvílir öruggur í frásögninni. Sögumaður hefur búið honum öruggan stað, líkt og hann sé á trúnó  með sögumanni  sem treystir honum fyrir innstu leyndarmálum  sínum. Það sama má segja um eitt helsta frásagnarbragð Jóns, fyrirboða og aðvaranir. Í upphafi Aukaspyrnu á Akur­eyri er boðaður  dauði  einnar  persónunnar sem þó verður  ekki fyrr en í blálok bókarinnar:

Ég ákvað að skrifa EKKI bók um ferðina til Akureyrar í fyrra því það gerðist ekkert svo margt merkilegt þá. Ég ákvað hins vegar að skrifa um mótið í ár því það var bara fáránlegt hvað það gerðist margt á mótinu í sumar. Ég vil ekkert segja of mikið strax en …:

Það deyr einn í þessari bók! (AáA, 9)

Draumar  Jóns, en hann  er berdreyminn  í meira lagi, gegna svipuðu hlut­ verki, þeir auka spennuna  í sögunni en búa lesandann jafnframt undir það að hann eigi eftir að lesa um erfiða og stundum  skelfilega hluti.

Þetta er mikilvægt vegna dauðsfallsins sem boðað er í upphafi annarrar bókar, en ekki síður vegna sögu Ívars og ofbeldisins sem hann verður fyrir. Samtakamáttur  vinanna og aðstoð frá fullorðnum  bjargar honum  úr þeim hremmingum í fyrstu bókinni  en það þarf að bjarga Ívari oftar  eins og kemur á daginn í síðari bókunum.

Það steðjar ýmis ógn að strákum  og stelpum  í Fótboltasögunni  miklu, sem þarf að sigrast á, og það gera þau, ekki síst í krafti samstöðu og vináttu. Helsta ógnin í bókunum  stafar frá hinum fullorðnu. Allar fjölskyldur, aðrar en Ívars, eru samheldnar  og foreldrar, systkini og þjálfarar standa eins og klettar við hlið strákanna.  Það er önnur  ástæða þess að hægt er að láta þá ganga í gegnum það sem þeir lenda í.

Þannig  vinnur   frásagnaraðferðin   með  atburðarásinni.  Bæði  sjálfsvís­ anir Jóns og hin nálæga og aðlaðandi frásögn gera það að verkum að þótt heimurinn sem lesandi gengur inn í við lesturinn  sé spennandi  og þar geti hættulegir og sorglegir atburðir gerst, þá er lesandinn alltaf í öruggum höndum.

Sá ungi lesandi sem hefur lesið Fótboltasöguna  miklu hefur þannig lært ýmislegt um mannlífið. Um fólk sem er vont við börnin sín, glæpamenn sem einskis svífast og slys sem geta breytt lífi fólks. En um leið hefur hann fræðst um það hvernig hægt er að segja sögu og hvaða brögðum  sögumenn  geta beitt. Og þessi brögð sögumannsins eru mikilvæg, án þeirra væri margt sem ekki væri hægt að segja í barnabók.

Barist í Barcelona

Fimmta bók Fótboltasögurnnar miklu kom út eftir að þessi grein birtist, fimm árum á eftir þeirri fjórðu.

 

Heimildir

Ástráður Eysteinsson. „„… þetta er skáldsaga.“ Þankar um nýjustu bók Jakobínu Sigurðardóttur.“. Tímarit Máls og menningar 44, no. 1 (1999): 87–99.

Brynhildur Þórarinsdóttir, Þóroddur Bjarnason, and Andrea Hjálmsdóttir. „Bóklausir og bóka­ ormar. Tengsl menntunar og efnahags foreldra við yndislestur unglinga í alþjóðlegu ljósi. “ Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2012 (2012).

Börkur Gunnarsson. „Fótbolti og fantaskapur í Eyjum.“ http://www.mbl.is/smartland/stars/2011/11/23/fotbolti_og_fantaskapur_i_eyjum/.

Friðrik Friðriksson. Keppinautar. Knattspyrnusaga. Reykjavík: Knattspyrnufélagið  Valur, 1931.

Gunnar Helgason. Aukaspyrna á Akureyri. Reykjavík: Mál og menning, 2012.

— —. Gula spjaldið í Gautaborg. Reykjavík: Mál og menning, 2014.

— —. Rangstæður  í Reykjavík. Reykjavík: Mál og menning, 2013.

— —. Víti í Vestmannaeyjum. Reykjavík: Mál og menning, 2011.

Helena Pielichaty, Tom Palmer. „How football gets kids reading.“ http://www.theguardian.com/childrens­books­site/2014/jun/13/how­football­gets­kids­reading­helena­pielichaty­tom­palmer.

Jón Karl Helgason. „Tólf persónur leita höfundar. Tilraun um sögusagnir og dæmisagnalist.“ Skírnir Vor (2008): 81–120.

McCallum, Joseph Stephens; Robyn. „Discourses of Femininity and the Intertextual Construction of Feminist Reading Positions.“ Í Girls, Boys, Books, and Toys. Gender in Children‘s Literature and Culture, ritstjóri Beverly Lyon Clark and Margaret R. Higonnet, 130–41. Baltimore: Johns Hopkins, 1999.

Sanders, Joe Sutliff. „The Critical Reader in Children‘s Metafiction.“ The Lion and the Unicorn 33 (2009): 349–61.

Silja Aðalsteinsdóttir.  „Draumar Þorgríms.“ Tímarit Máls og menningar 3, no. 56 (1995): 58–72.

— —. „Raddir barnabókanna. Um frásagnartækni í barnabókum.“ Í Raddir barnabókanna, ritstjóri Silja Aðalsteinsdóttir,  79–100. Reykjavík: Mál og menning, 1999.

Wyile, Andrea Schwenke. „Expanding the View of First­Person Narration.“ Children‘s Literature in Education 30, no. 3 (1999): 185–202.

Þorbjörn Broddason; Kjartan Ólafsson; Sólveig Margrét Karlsdóttir. „Ný börn og nýir miðlar á nýju árþúsundi.“ Í Rannsóknir í félagsvísindum X, ritstjóri Gunnar Þór Jóhannesson; Helga Björnsdóttir,  253–62. Reykjavík: Félagsvísindastofnun  Háskóla Íslands, 2009.

Þorleifur Hauksson og Þórir Óskarsson. Íslensk stílfræði. Reykjavík: Mál og menning, 1994.

 

 

Tilvísanir

[1] Friðrik  Friðriksson,  Keppinautar. Knattspyrnusaga. (Reykjavík:  Knattspyrnufélagið Valur, 1931).

[2] Silja Aðalsteinsdótir, „Draumar Þorgríms,“ Tímarit Máls og menningar 3. hefti. 56 (1995), 64.

[3] Börkur Gunnarsson,  „Fótbolti og fantaskapur í Eyjum,“ http://www.mbl.is/smartland/stars/2011/11/23/fotbolti_og_fantaskapur_i_eyjum/.

[4] Sjá: Þorbjörn  Broddason;  Kjartan Ólafsson; Sólveig Margrét Karlsdóttir, „Ný börn  og nýir miðlar á nýju árþúsundi,“ in Rannsóknir í félagsvísindum X, ritstj. Gunnar Þór Jóhannesson; Helga Björnsdóttir (Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2009); Brynhildur Þórarinsdóttir,  Þóroddur  Bjarnason, and Andrea Hjálmsdóttir, „Bóklausir og bókaormar. Tengsl menntunar og efnahags foreldra við yndislestur unglinga í alþjóðlegu ljósi,“ Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2012 (2012).

[5] Tom Palmer Helena Pielichaty, „How football gets kids reading,“ http://www.theguardian. com/childrens­books­site/2014/jun/13/how­football­gets­kids­reading­helena­pielichaty­tom­ palmer.

[6] Gunnar Helgason, Rangstæður í Reykjavík (Reykjavík: Mál og menning, 2013), 291. Hér eftir verður vitnað í bókina innan sviga með skammstöfuninni (RR).

[7] Eftir fyrirlesturinn sem þessi grein byggir að nokkru leyti á mótmælti höfundurinn  raunar þessari athugasemd minni. Þetta atriði mun byggt á raunverulegum atburðum og ekki fært í stílinn nema síður sé.

[8] Joseph Stephens; Robyn McCallum, „Discourses of Femininity and the Intertextual Const­ ruction of Feminist Reading Positions,“ in Girls, Boys, Books, and Toys. Gender in Children‘s Literature and Culture, ritstj. Beverly Lyon Clark and Margaret R. Higonnet (Baltimore: Johns Hopkins, 1999). „A significant effect of feminism has been the production of adolescent fiction that constructs an implied reader who occupies a feminist reading position. Such a reader is often constructed intertextually, out of a dialogue between the current narrative and particular pre­texts or more general plots implicit in the genres that the narrative uses or evokes.

[9] Gunnar  Helgason, Víti í Vestmannaeyjum (Reykjavík: Mál og menning, 2011), 20. Hér eftir verður vitnað í bókina innan sviga með skammstöfuninni (VíV).

[10] Silja Aðalsteinsdóttir, „Raddir barnabókanna.  Um frásagnartækni í barnabókum,“ í Raddir barnabókanna, ritstj. Silja Aðalsteinsdóttir (Reykjavík: Mál og menning, 1999), 82.

[11] Ibid.

[12] Þorleifur  Hauksson  og  Þórir  Óskarsson,  Íslensk  stílfræði  (Reykjavík:  Mál  og  menning, 1994), 135–37.

[13] Andrea Schwenke Wyile, „Expanding the View of First­Person Narration,“ Children‘s Literat­ure in Education 30. hefti. 3 (1999).

[14] Gunnar Helgason, Aukaspyrna á Akureyri (Reykjavík: Mál og menning, 2012), 9.

[15] Víti í Vestmannaeyjum, 20.

[16] Jón Karl Helgason hefur gert góða grein fyrir hugtakinu sögusögn og rótum þess. Sjá Jón Karl Helgason, „Tólf persónur leita höfundar. Tilraun um sögusagnir og dæmisagnalist,“ Skírnir Vor (2008).

[17] Sjá Ástráður Eysteinsson, „„… þetta er skáldsaga.“ Þankar um nýjustu bók Jakobínu Sigurðar­dóttur,“ Tímarit Máls og menningar 44. hefti. 1 (1999).

[18] Joe Sutliff Sanders, „The Critical Reader in Children‘s Metafiction,“ The Lion and the Unicorn 33 (2009).

[19] Ibid.

[20] Ibid.

[21] Gunnar Helgason, Gula spjaldið í Gautaborg (Reykjavík: Mál og menning, 2014), 36. Hér eftir verður vitnað í bókina innan sviga með skammstöfuninni (GíG).