Ægir Þór Jahnke

Ægir Þór Jahnke / Mynd: Sigtryggur Ari

eftir Ægi Þór Jähnke

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021

 

Mig langar að yrkja ljóð fyrir þá sem lesa ekki ljóð
ljóð um basilíkuna í gluggakistunni
hvernig hún hengir haus og fellir blöð
hversu vel sem ég gæti að því að vökva hana reglulega
og bendi á sólina sem skríður yfir húsþökin í næstu götu.
Mig langar að yrkja ljóð fyrir þá sem kunna ekki á plöntur
fyrir þá sem er alveg sama um plöntur
ljóð fyrir menn með hendur útataðar smurolíu
fyrir konur í drögtum með skjalatöskur
alla þá sem hafa ekki tíma fyrir ljóð eða plöntur
eða morgunroðann á bárujárnsþökum.
Mig langar að yrkja ljóð fyrir tímann
ljóð um tímann og alræði klukkunnar
mig langar að semja stef sem er utan tímans
sem er söngur spörfugla og brot öldunnar
og sem er líka niður umferðarinnar
þytur í laufi sem ómar einsog höggbor
þegar þú leggur við hlustir.
Mig langar að yrkja ljóð um hljóðin
og um þá sem hlusta með öðru eyra eftir tónlist
á meðan þeir horfa á sekúnduvísinn tifa
og bílana sitja fasta í óendanlegum umferðateppum
innan um sólroðin bárujárnsþök
fyrir þá sem slá taktinn á stýrið með vísifingri
við lag sem spilast aðeins innra með þeim sjálfum.

Mig langar að yrkja ljóð um mig sjálfan
sem segir allt um hvað ég er án þess að uppljóstra neinu
ekki því ég vilji fela neitt heldur aðeins því
allt sem ég vil segja er þegar augljóst.
Mig langar að yrkja ljóð um allt hið augljósa
sem er aldrei sagt
um tímann og trén og tónlistina
og fólkið sem hlustar án þess að heyra
og fólkið sem heyrir án þess að hlusta
og fólkið sem skapar sín eigin stef og leikur þau aðeins
fyrir sig sjálf
og sérstaklega um þá sem aðeins leika fyrir aðra.
Mig langar að yrkja ljóð um aðra
um þig og hann og hana og þau og þá og hán
og alla þess utan og milli og innan
allt fólkið sem ég hef kynnst og gleymt
alla þá sem ég á eftir að kynnast
alla sem ég mun aldrei kynnast
alla sem hafa lifað og dáið og skrifað er um í sögubókum
en þó miklu frekar þá sem aldrei rötuðu á sögunnar spjöld
ljóð um þá sem lifðu og dóu í litlum húsum
og skildu ekkert eftir nema minningu
sem síðar gleymdist.

Mig langar að yrkja ljóð um minni
og ljóð um gleymsku
og það er sama ljóðið því minni og gleymska fara saman
einsog haf fer með strönd og hönd fer með annarri hönd
og koss fer með vörum miklu frekar en orð.
Mig langar að yrkja ljóð sem er koss með orðum
sem falla einsog mjúkir dropar af regni
sem leika tónlist og vökva gróður og kyssa andlit þitt
þar sem þú stendur berfættur í grasinu með augun lukt
beint til himna.
Mig langar að yrkja ljóð fyrir það augnablik
sem er utan tímans og lyktar af blautu grasi
sem er eilíft og tímalaust einsog gleymska
sem er hverfandi og skammlíft einsog minni
sem er aðeins það sem það er og ekkert annað
sem er ekkert nema niður regnsins
og ilmur vorsins og roði sólar
tilfinningin fyrir jörðinni undir fótum
það sem þú sérð aðeins með augun lokuð
mig langar að yrkja ljóð sem er ljóð
sem er aðeins hinn innsti tærasti kjarni þess
sem allir vita og allir skynja en sem aldrei
aldrei er hægt að tjá.

Mig langar að yrkja ljóð um það sem ekki
er hægt að segja
ljóð um þá sem segja það ekki
um tímann sem það er ekki sagt
um af hverju það er ekki tími
til að segja það sem ekki er hægt að segja
sem þarf samt að segja
sem þarf samt að reyna að segja
ef til einskis annars en að búa til tímann
til að segja það ekki.
Mig langar að yrkja ljóð um ekki
um nei og já og kannski og mögulega
en þó fyrst og fremst um ekki
og af hverju og hvers vegna og hví
og hvar og hvenær og hvað
en þó fyrst og fremst um ekki
um af hverju ekki
um af hverju ekki reyna það
af hverju ekki að sóa tímanum
af hverju ekki að nýta tímann
af hverju nýtum við ekki tímann
frekar en að sóa honum?
Mig langar að yrkja ljóð um þennan tíma
sem liggur þarna á milli hluta og enginn vill kannast við
á milli nýtingar og sóunar
sem er tími lífsins
tími augnabliksins sem er jafn eilíft og gleymska
jafn hverfult og minni
sem er punkturinn á eftir setningu
jafn tilgangslaus og deyjandi basilíka í stofuglugga
jafn fallegt og fífill sem brýtur sér leið uppúr malbikinu
jafn ómþýtt og tónlist regndropanna sem við heyrum
með öðru eyra
á meðan tif sekúnduvísisins glymur í hinu
einnig hann er fallegur.

Mig langar að yrkja ljóð um fegurðina
um fegurðina sem er allsstaðar og hvergi
sem er handan orða og ljær þeim mátt sinn
sem er hið svarta við hrafna
hið bláa við hafið
hið rjóða við vanga elskhuga.
Mig langar að yrkja ljóð um ástina og fegurðina
í öllum þeirra óteljandi myndum
frá augum þess sem horfir djúpt í þín
til fjallaloftsins sem blandast angan af kaffi
til kattarins sem hringar sig í kjöltu þinni
til barnanna sem skríkja einsog spörfuglar
þegar skyndilega fer að rigna
og pollar myndast á stéttinni.
Mig langar að yrkja ljóð um pollana
sem sólin speglar sig í þegar styttir upp
og vorgrösin og ánamaðkana
sem leikskólabörnin tína upp af stéttinni
til að skila heim í moldina.

Mig langar að yrkja ljóð fyrir þessi börn
og fyrir maðkana og moldina
sem einn daginn munu einnig taka við þeim
því tíminn er knappur og vegurinn langur
og það eru of fá augnablik gefin
of fá augnablik tekin
til að stoppa og hlusta
og finna og sjá og skilja
að þú skilur það aldrei.
Og því vil ég yrkja ljóð fyrir þá sem lesa ekki ljóð
fyrir þá sem hafa ekki tíma fyrir moldina
fyrren moldin gefur sér tíma fyrir þá
fyrir þá sem leita að ástinni og fegurðinni
með báðum augum en gleyma að sjá
sem sjá bara malbikið en ekki fífilinn
sem stíga í pollana án þess að skríkja
sem heyra bara tifið í klukkunni og muna
að gleyma ekki og gleyma að muna að gleyma sér.

Það er ljóðið sem mig langar að yrkja
ljóðið sem yfirgnæfir án þess að heyrast
sem blindar án þess að sjást
sem er ilmur allra heimsins blóma
sem kitlar örlítið í nefið
sem brotnar á þér einsog aurskriða án þess
að þú finnir hið minnsta til.
Það er ljóðið sem mig langar að yrkja
hverja þessa sekúndu
sem tifar niður tímann
á meðan sólin þurrkar upp pollana
og dreifir gulli á húsþökin
á meðan gluggaplönturnar visna og deyja
og ánamaðkar þorna upp á stéttinni
því börnin eru orðin gömul
og hætt að heyra tónlistina.
Það er ljóðið sem mig langar að yrkja
en það er ekki þetta ljóð.