Óskar Guðmundsson. Snorri: ævisaga Snorra Sturlusonar 1179–1241.

JPV-útgáfa, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010.

Til er á erlendu máli orð sem heitir souverain, súveren, – franskt upphaflega. Þetta orð er haft um keisara og páfa, en ekki vanalega konúnga. Maður sem lýst er með þessu orði, hefur vald til að segja hverjum sem er fyrir verkum, einnig konúngum; en tekur ekki við skipun frá neinum. Einginn nema maður af þessari gráðu skrifar bók einsog Ólafs sögu ens helga [Snorri – átta alda minning (1979): 22].

Svo komst Halldór Laxness að orði í ræðu sem hann hélt á Snorrahátíð í hátíðarsal Háskóla Íslands 22. júní 1979 þegar þess var minnst að átta aldir voru liðnar frá fæðingu Snorra Sturlusonar. Það vald og sú helgi sem gefin var Ólafi Noregskonungi í Heimskringlu er í orðum Laxness yfirfærð á Snorra sjálfan – sem menn hafa komið sér saman um að sé höfundur verksins.

Ævisaga Óskars Guðmundssonar um Snorra er mikið rit, 528 bls. þegar með eru taldar allar skrár: tilvísanir, heimildir og mynda- og nafnaskrár sem eru upp á tæpar 70 síður. Að vísu er letur stórt og í megintexta er talsvert af myndum til skýringa og skrauts. Jafnframt er þar mikið um ættrakningar til skýringa. Í formála gerir höfundur nokkra grein fyrir verki sínu. Þar segir m.a.:

Ævi Snorra er spennandi af mörgum ástæðum. Enginn annar miðaldamaður er talinn hafa tekið saman jafn mikið efni úr heimi bókmennta, sagnfræði og menningararfs. Enginn norrænn maður kemst nálægt honum að víðfeðmi – og enginn samtímamaður hans hefur skilað eftirkomendum eftir jafn gildum sjóði til varðveislu og úrvinnslu [9].

Snorri: ævisaga Snorra Sturlusonar 1179–1241

Snorri: ævisaga Snorra Sturlusonar 1179–1241

Óskar getur þess einnig með réttu að enginn hafi skrifað svo mikið rit um ævi Snorra Sturlusonar og hann þótt margir hafi skrifað æviágrip hans. Enda bendir hann á að heimildir séu takmarkaðar. En hann ætlar sér ekki síður eða jafnvel frekar að skrifa um stjórnmálamanninn Snorra, sem hann telur að hafi sett mikinn svip á þrettándu öldina, en bókmenntamanninn. Óskar dregur heldur ekki fjöður yfir að verk hans byggist á gömlum og nýjum rannsóknum á Sturlungaöld, ævi Snorra og verkum. Enda bera tilvísanir til heimilda og mikil heimildaskrá bókarinnar vitni um að víða er leitað fanga. Ég saknaði þar þó þegar tveggja ágætra og yfirlitsgóðra rita: Snorri Sturluson eftir Marlene Ciklamini (1978) og Heimskringla: An Introduction sem Diana Whaley samdi (1991). Þar er heldur ekki að finna doktorsritgerð Stephens N. Tranters, Sturlunga saga: The Role of the Creative Compiler (1985).

Fyrir flesta lesendur bókarinnar er það nokkur kostur að ævi Snorra er séð í ljósi samtíma hans, bæði hér á landi og í Skandínavíu, og brugðið upp lýsingum á aldarfari. En mörgum gæti líka þótt að of víða væri seilst og horfið langt frá aðalefninu. Raunar er eins og Óskar sé ennþá svo á valdi bóka sinna um aldir Íslandssögunnar að hann eigi erfitt með að greina á milli aðal- og aukaatriða. Að þessu líkist hann þeim miðaldahöfundum sem nútímamönnum þykir sem hafi dregið til safns til sögu en ekki skrifað skipulegt verk úr því safni sínu. Að vísu hefur verið bent á að þetta sé missýn nútímans, það hafi í raun verið fagurfræði 12. og 13. aldar að láta mörgum sögum fara fram í senn. En margþátta frásögn verður strembin fyrir nútímalesendur sem eru vanir öðru og undarlegt í verki sem er um ævi Snorra en ekki Sturlungaöld.

Óskar telur einnig að það megi „hvarvetna skynja spor Snorra“ í íslenskum bókmenntum. „En eftir að hinn langi vetur skall á íslenska menningu um miðja fjórtándu öld – með einangrun þjóðarinnar frá evrópsku málsamfélagi – hljóðnaði söngur hans um hríð [10–11].“ Þessi orð sýna hversu bundinn Óskar er enn bókmenntaskoðun rómantíkurinnar og söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar sem fræðimenn hafa þó verið að endurskoða á síðustu þrjátíu til fjörutíu árum. Ætli öll rímaskáldin hefðu samþykkt það að Edda hafi ekki lifað um aldir eða þeir sem áttu viðskipti við erlenda sjómenn hér við land og kaupmenn að þeir væru alveg einangraðir í sínu málsamfélagi jafnvel þótt norrænar tungur hafi deilst og íslenskan hafi ekki dugað til samskipta við erlenda menn lengur? Sýn Óskars á efniviðinn er því gömul jafnvel þótt hann hafi nýtt sér alls konar fræðirit, einnig nýjar rannsóknir. Tilvitnuð orð eru einnig dæmi um orðskrúð bókarinnar.

Eins og Óskar bendir réttilega á í formála eru heimildir okkar um Snorra Sturluson ekki margbrotnar – raunar hvorki ævi hans eða ritstörf. Helst þeirra er Sturlungu-samsteypan, – einkum Íslendinga saga sem höfundur Sturlunguformála eignar ritstofu Sturlu Þórðarsonar lögmanns (+1284). Í grundvallarriti svonefnds íslenska skóla í rannsóknum á fornbókmenntum, Snorra Sturlusyni eftir Sigurð Nordal, notar Sigurður einnig þau rit sem kennd hafa verið Snorra sem heimildir um hann. Þetta var í samræmi við hina ævisögulegu aðferð í bókmenntarannsóknum, sem Sigurður einatt beitti, en á Norðurlöndum var danski bókmenntagagnrýnandinn Georg Brandes meistari hennar. M.a. skrifaði Brandes um William Shakespeare út frá þeim verkum sem honum hafa verið með réttu eða röngu eignuð. Enda er enn minna vitað um ævi Shakespeares en Snorra. Þessi aðferð kom annars upp á tímum rómantísku stefnunnar snemma á 19. öld þegar farið var að líta svo á að rithöfundar byggju yfir guðlegum sköpunarkrafti og eining verka þeirra bæri vitni um persónuleika höfundarins. Áður höfðu verkbeiðendur og verndarar listamanna skyggt á þá. Enda var það oft svo fyrr á öldum – eins og við raunar þekkjum úr samtímanum – að ritverk voru unnin á ritstofum – ekki síst þau verk sem kalla má sagnarit. Af þeirri einni ástæðu var aðferð Sigurðar Nordals hæpin – jafnvel þótt aðrar kæmu ekki til. En þótt það hafi að mestu farið fram hjá almenningi hér í útnára – og ýmsum fræðimönnum – þá er ævisöguleg aðferð í bókmenntarannsóknum af ýmsum ástæðum talin vafasöm erlendis – m.a. að unnt sé að leita orsaka ritverka í persónuleika höfundanna.

Þetta er rifjað upp þar sem ýmislegt sem ritað hefur verið um Snorra Sturluson eftir að bók Nordals kom út 1920 – og hún er enn merkilegt rit í sögu bókmenntafræða hér á landi – er sama marki brennt. Það byggist á dýrkun á rithöfundum – stundum af því að menn hafa afneitað Guði sínum og tekið upp veraldlega guði eins og Gunnar Benediktsson – og Halldór Laxness – og þeirri villu að bókmenntaverk á miðöldum – sem einatt voru hefðbundin og margra manna verk – geti sagt til um hvern mann svokallaðir höfundar höfðu að geyma. Það er nefnilega engin tilviljun að það séu einkum dróttkvæði sem eru höfundargreind í íslenskum miðaldabókmenntum. Sturla Þórðarson er meira að segja kallaður skáld í Sturlunguformálanum og þar með vísað til hirðskáldskapar hans. Hins vegar er sagt að hann hafi sagt fyrir Íslendinga sögu og um leið bent á að hann sem höfðingi hafði skrifara sér til fulltingis.

Nú eru mörg nafngreind skáld á miðöldum en fáir rithöfundar. Þeim fáu sem vitað er með nokkurri vissu að fengust við bókagerð hafa því verið eignuð ýmis rit sem þó er alls óvíst að þeir hafi komið að – nema þá sem verkbeiðendur. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar fjallað er um ritstörf Snorra. Það er vitað að hann naut virðingar í Noregi sem hirðskáld en heimildir fyrir að hann hafi skrifað Eddu að hluta eða alla eru ekki ýkja merkilegar og þótt nafn hans hafi verið tengt Heimskringlu er full þörf á að rannsaka betur aðkomu að því verki enda hafa ýmsir fræðimenn dregið í efa að öll samsteypan sé verk eins manns. Um höfundskap að Egils sögu er ekkert vitað með vissu. Breytir þar engu þótt Alþingi hafi látið prenta hana í ritsafni Snorra. Sá sem ætlar sér að skrifa trúverðuga ævisögu Snorra en ekki endurtaka mýtuna verður að ganga á hólm við þær heimildir sem til eru um höfundarverk hans, hvað það var sem hann setti saman, eins og Íslendinga saga orðar það. En það vekur athygli að rannsókna Lars Lönnroths og Jonnu Louis-Jensen í þá veru er að engu getið í heimildaskrá bókar Óskars.

Ofboðslegust verður dýrkunin á Snorra skáldi í Reykholti (1957) í samnefndri bók Gunnar Benediktssonar þar sem hann vildi bregða upp „heilsteypri og sjálfri sér samkvæmri mynd af heimsfrægustu persónunni, sem fæðzt hefur og borið beinin á þessu landi og glæstustum ljóma hefur varpað yfir menningarsjálfstæði þessarar þjóðar [155].“ Þeir sem hafa þurft á þessari helgimynd af Snorra að halda hafa gert sem mest úr ritverkum hans og viljað eigna honum allt milli himins og jarðar en að sama skapi ráðist með offorsi á þá einu mynd sem við raunar höfum af Snorra Sturlusyni – þá skýru mynd sem gefin er af höfðingjanum í Íslendinga sögu. Þannig dró Árni Pálsson prófessor mjög í efa að Íslendinga saga segði rétt og satt frá Snorra í grein, sem birtist að hluta í Eimreiðinni 1941 (síðar í heild í bókinni Á víð og dreif árið 1947), af því að hann hafði aðra hugmynd sjálfur um Snorra, og síðan hafa aðrir tekið undir í þessum kór. Í formála bókar Óskars Guðmundssonar segir um aðal miðaldaheimildina sem höfundurinn hefur að verki sínu: „Þó er sá hængur á að sá sem fjallar mest um Snorra, Sturla Þórðarson, virðist gera hlut þessa frænda síns lakari en oft sýnist ástæða til [13].“ Seinna í bókinni er oft hnjóðað í heimildarmanninn Sturlu en síðan bregður svo við í 51. kafla, þar sem dregin er saman mynd af höfðingjanum í Reykholti, að lýsing Íslendinga sögu er ekki langt undan! Enda eru allir sem fást við Sturlungaöldina á valdi verka sem koma úr ritstofu Sturlu lögmanns – Íslendinga sögu og Hákonar sögu Hákonarsonar – nema þeir reyni fyrst að átta sig á frásagnarlistinni í verkunum og hugmyndafræði þeirra.

Um aldamótin 1900 lögðu þrír af ágætustu fræðimönnum í norrænum fræðum, W. P. Ker, Björn M. Ólsen og Kristian Kålund, grundvöllinn að öllum síðari rannsóknum á Sturlungu – Kålund með merkri útgáfu á sagnasamsteypunni, Björn M. Ólsen með rannsóknum sínum á þeim frumþáttum sem samsteypan var sett saman úr og W. P. Ker á list verksins. Því miður hafa rannsóknir Kers á frásagnarlist Sturlungu legið í láginni allt fram á síðustu ár enda lét Sigurður Nordal sagnfræðingum verkið eftir og sinnti því lítt. Bók Einars Ól. Sveinssonar, Sturlungaöld (1940), fjallar heldur ekki um Sturlungu sem bókmenntaverk. Bókmenntarannsóknir á Sturlungu eiga því allar upphaf sitt erlendis.

Líklega hefur Sturla Þórðarson og ritskóli hans hvergi hlotið jafn eindregið lof og hjá W. P. Ker í hinu einstæða riti hans Epic and Romance (1896) – þar sem Ker var langt á undan öðrum í mati sínu á frásagnarlist fornsagna. Jón Stefánsson, sem var samverkamaður Kers við University College í London, sagði í ævisögu sinni, Úti í heimi (1949), um álit Kers á Íslendinga sögu: „Sturlungu kunni hann að mestu utanbókar, og þótti honum Sturla Þórðarson bera sem gull af öllum þeim rithöfundum, sem skrifað höfðu um róstuga samtíð á svipaðan hátt [146].“ Það er ekki síst persónulýsingarnar sem Ker dvelur við í Íslendinga sögu. Björn M. Ólsen var sama sinnis, ekki síst dró hann fram lýsingar sögunnar á Sturlusonum, Þórði, Snorra og þó einkum Sighvati.

Sögur Sturlungu segja frá atburðum sem eiga að hafa gerst og þeim mönnum sem við þá voru riðnir. Mannlýsingarnar eru því að nokkru leyti ákvarðaðar af efnisvali frásagnarinnar en að öðru leyti af skilningi höfunda á því hvert var hreyfiafl atburðanna og frásagnaraðferðinni sem einatt er beitt í sögum samsteypunnar. Þar sem sögumaður lýsir atvikum og fólki eins og það birtist sjónar- og heyrnarvotti verða mannlýsingar að byggjast á því hvað menn segja og gera og hvernig þeir koma öðrum fyrir sjónir. Framkoma sögufólksins er því í brennidepli. Þar sem frásagnaferlin sem sögurnar fylgja eru fastmótuð rétt eins og örlagaþræðir er það vilji mannsins til að fylgja þessu síma sem ræður því hvort til atburða dregur. Viljinn til verka mótast þó ekki aðeins af manngerðinni heldur einnig af því orðspori sem menn telja sig geta hlotið að launum. Sögufólkið er því mjög meðvitað um hvernig aðrir sjá það og vill hafa áhrif á palladóma um sig.

W. P. Ker gerði nokkra grein fyrir mannlýsingum í Sturlungu í bók sinni Epic and Romance. Þar segir hann:

[…] ef saga Íslands átti ekki að verða (það sem hún seinna varð) einber keðja ómerkilegra annálsgreina, varð það að gerast með því að leggja áherslu á hvað vakti fyrir fólki, láta persónurnar taka til hendinni og tala, og með því að fylgja markvisst eftir mismundandi þráðum í lífi þeirra [251].

Snorra er tvisvar lýst almennum orðum í Íslendinga sögu. Í fyrra skiptið þegar hann flyst búferlum frá Borg í Reykholt um 1206: „Gerðist hann þá höfðingi mikill, því at eigi skorti fé. Snorri var hinn mesti fjárgæzlumaðr, fjöllyndr og átti börn við fleirum konum en Herdísi [Sturlunga saga I (1946): 242].“ En í síðara skiptið þegar greint er frá lyktum Gufunesmála um 1216–17: „Ok af þessum málum gekk virðing hans við mest hér á landi. Hann gerðist skáld gott ok var hagr á allt þat, er hann tók höndum til, ok hafði inar beztu forsagnir á öllu því, er gera skyldi [269].“ Hér segir sagan bæði kost og löst á Snorra. Auðsöfnun hans, sem sagan segir frá, sýnir að hann kunni að fara með fé og sú ábyrgð, sem honum er lögð á herðar margsinnis, að vera lögsögumaður, ber vitni um að menn hafa borið virðingu fyrir lagaþekkingu hans og líklega einnig stjórnmálasnilld hans þótt sumir þættust bera skarðan hlut frá borði í samskiptum við hann. En þeir lestir sem frásögnin ber á hann, græðgi (avaritia) og losti (fornicatio), voru hvorttveggja meðal helstu synda á miðöldum svo að dómur Sturlu um fóstra sinn er ekki mildur.

Ætla má að lýsingarnar á dauðastundum Sturlusona eigi að skoða eins og hnotskurn af lífi þeirra. Raunar var það algengara í erlendum miðaldaritum að draga saman persónulýsingu eins og eftirmæli eftir að sagt hafði verið frá andláti persónunnar en kynna þær til sögu eða fella dóma þegar þær fyrst láta til sín taka að einhverju ráði eins og gjarnan er gert í Íslendingasögum og gert er í tilfelli Snorra. En á miðöldum var almennt álitið að dauðastundin skipti miklu máli. Viðbrögð við dauðanum eru oft notuð í fornsögum til að sýna í sjónhending hvað býr í sögufólkinu – oftast til að stækka það – og um leið að hnykkja á orðspori þess. Fjölmargar lýsingar á hetjudauða sýna þetta. Í fornsögunum er þó ekki aðeins vopndauði notaður til að draga saman mannlýsingu. Mönnum, sem látast voveiflega eða á sóttarsæng, er einnig lýst andspænis dauðanum. Þórður Sturluson lést á sóttarsæng 1237 umkringdur fjölskyldu og vinum. Sighvatur, bróðir hans, féll hins vegar á vígvellinum á Örlygsstöðum 1238 og gekk hann ákveðinn og óhræddur í dauðann samkvæmt lýsingu Íslendinga sögu. En vinir hans reyndu að koma í veg fyrir að hann yrði drepinn og guldu með lífi sínu.

Gagnstætt bræðrum sínum var Snorri Sturluson alveg óviðbúinn þegar Gissur Þorvaldsson réðst til atlögu í Reykholti 23. september 1241 og lét drepa hann. Í augum miðaldamanna var það almennt talið manni til vansæmdar að deyja óviðbúinn, ekki síst fyrir morðingjahendi. Líklega hafa menn hér á landi verið svipaðrar skoðunar. Síðustu orð Snorra: „Eigi skal höggva“ – hafa yfirleitt verið talin vitna um skort á hetjuskap eins og flest það sem hann tók sér fyrir hendur og Íslendinga saga segir frá. Snorra hafi skort viljastyrk bræðra sinna og ró andspænis dauðanum. Lýður Björnsson sagnfræðingur hefur þó bent á það að dánarorð Snorra endurómi síðustu orð Skúla hertoga Bárðarsonar þegar hann var drepinn að Helgisetri í Þrændalögum 1240 og sagt er frá í Hákonar sögu Hákonarsonar. Þar segir að hann hafi mælt: „Höggið eigi í andlit mér, því at þat er engi siðr við höfðingja at gera [Flateyjarbók (1944–45): 514].“ Hvort hér sé um eiginlega samsvörun að ræða og orð Skúla skýri það sem Snorra verður að orði breytir það ekki því að Snorri er alveg óviðbúinn dauða sínum og svo vinasnauður að meira að segja fóstursonur hans fer að honum enda reynir hann ekki að verja sig.

Lagt hefur verið til að Snorri hafi í raun tekið sér andlátsorð Skúla hertoga í munn. Því hefur einnig verið haldið fram að lýsingin á falli Sighvats Sturlusonar sé samkvæmt því sem raunverulega gerðist en ekki ritklif. Þetta er í samræmi við þann skoðunarhátt að frásögn Sturlu sagnaritara í Íslendinga sögu sé sannleikanum samkvæm. En hvað sem staðreyndum frásagnar Sturlu sagnaritara líður er ljóst að hann ákvað hvaða atriði hann tók með í sögu sína og valdi að fylgja frásagnarhefð tíma síns. Ef litið er á hversu vandlega sagnaritarinn lýsir Sturlusonunum þremur, samskiptum þeirra og ágreiningi, bendir allt til þess að það sé ætlun sögumanns að áheyrendur/lesendur beri saman andlát bræðranna. Þórður Sturluson kemur fram í sögunni í hlutverki hins velviljaða ráðagerðamanns, Sighvatur sem vopnabróðir Sturlu, sonar síns, en Snorri er þarna undirhyggjumaðurinn sem svífst einskis til að ná sínu fram – svipað og föður hans er lýst í Sturlu sögu. Með því að lýsa andláti Þórðar og gefa þannig áheyrendum/lesendum tækifæri til að bera saman dauðastundir bræðranna leggur sögumaðurinn sérstaka áherslu á hversu ólíkir þeir bræður voru og gildi þess að sýna hófsemi eins og Þórður á að hafa gert af visku sinni. Samanburðurinn á bræðrunum nær síðan til næstu kynslóðar. Örlög Sighvatssona á Örlygsstöðum og óhamingja barna Snorra er í mótsögn við það að Sturla sagnaritari lifir öll átök aldarinnar af. Með ættartölur og ættarsagnir í farangrinum skrifar hann eftirmæli Sturlungaaldar að hætti sinnar tíðar. Hjá honum er Snorra Sturlusyni einkum lýst sem höfðingja og skáldi en ekki rithöfundi. Og á mælistiku þeirrar höfðingjahugsjónar sem gagnsýrir verkið var Snorri ekki eins sannur höfðingi og Þórður bróðir hans, jafnvel þótt hann yrði valdameiri!

Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar Íslendinga saga er notuð sem heimild. Hún er raunveruleikinn séður í söguspegli hins mikla sagnamanns. En það sýnir hversu bundinn Óskar Guðmundsson er frásögn Sturlu að saga hans um Snorra verður miklu læsilegri eftir að hann fer að einbeita sér að frásögn Íslendinga sögu og rekja hana að mestu. Og þrátt fyrir gagnrýni hans á lýsingu Sturlu á Snorra verður mynd hans ekki ýkja frábrugðin þeirri sem Sturla bregður upp eða blæbrigðaríkari þegar öllu er á botninn hvolft. Óskar segir: „Í frásögninni í þessari bók hefur verið dregin upp mynd af vel menntuðum heimsborgara, frumlegum fræðimanni, ágætu skáldi og frábærum sagnamanni. Hér hefur verið kynntur til sögu dálítið brokkgengur stjórnmálamaður og að ýmsu mistækur einstaklingur í einkamálum [388–89].“ Síðar segir hann einnig:

Snorri var marghama maður, stjórnmálamaður og skáld, nýjungagjarn framkvæmdamaður, lagarefur klókur og kappsamur til valda og eigna. Hann var stoltur maður og viðkvæmur, og stundum allhégómlegur. Veikleikar hans á því sviði urðu honum til trafala og stjórnuðu hugsanlega gerðum hans á köflum. Á ögurstund gat virst eins og hann væri að missa kjarkinn – eða miklaði fyrir sér hættur [397].

Að vísu lýsir Íslendinga saga Snorra aðeins sem skáldi, sem hlaut frama fyrir lofkvæði sín, en ekki rithöfundi eða sagnamanni. En skoðun Óskars á einkennum Snorra er fullkomlega í samræmi við frásögn sögunnar.

Sagan segir hins vegar ekkert um útlit Snorra svo að hugleiðingar Óskars eða annarra um það verða aldrei sannaðar. Hvað þá um að hann hafi þjáðst af þvagsýrugigt. Sama má segja um þær líkur sem Óskar reynir að draga af ritum sem eignuð eru Snorra um manninn enda er það óvíst hvar hann stýrði penna og varla leyfilegt að draga af ritum manna ályktanir um manngildi þeirra. Græðgi Snorra og fjöllyndi það sem Sturla hefur orð á breytir ekki neinu um snilld þeirra verka sem hann ef til vill setti saman.

Óskar Guðmundsson hefur lagt mikla vinnu í þessa löngu ævisögu Snorra og safnað miklu efni til hennar. Þeir sem lítið vita um Sturlungaöld geta þar fræðst mikið um tíma hans. Verkið hefði hins vegar orðið miklu bitastæðara ef höfundurinn hefði afbyggt mýtuna um Snorra og greint frásagnir Sturlungu um hann og samtíðarmenn hans.

 

Úlfar Bragason