Nokkrir dropar í bakkafulla læsislækinn

Eftir Brynhildi Þórarinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2015

Brynhildur Þórarinsdóttir

BrynhildurÞórarinsdóttir / Mynd: Gassi

Læsishasar – hverjum hefði dottið í hug að þessi tvö orð næðu saman? Það er þó varla hægt að lýsa umræðunni um læsi í haust á annan hátt. Forsíðufréttir með krassandi fyrirsögnum, yfirlýsingar og aðdróttanir – um kennslu í 1. bekk. Sísí sem sá sól var ýmist hafin til skýjanna eða send út í kuldann. Einhvern veginn fléttaðist fjarvera Sísíar saman við lesskilning unglinga og þjóðarsáttmála menntamálaráðherra um læsi. Samt fór hún aldrei neitt.

Íslenskir unglingar standa sig sífellt verr í alþjóðlegum samanburði og það veldur skiljanlega áhyggjum. [1] Í fréttum er hermt að þriðji hver drengur í 10. bekk geti ekki lesið sér til gagns samkvæmt PISA rannsókn OECD. Stjórn­málamenn draga upp hrollvekjandi framtíðarsýn þar sem ólæsir piltar ráfa stefnulaust um upplýsingaþjóðfélagið, vergri þjóðarframleiðslu til mikils skaða [2]. Kynntur er þjóðarsáttmáli um læsi með inngripum í kennslu og glænýjum prófum sem hækka eiga drengina upp úr gagnsleysisflokknum.

Ekki er þó fyllilega ljóst hvað felst í því að lesa sér til gagns og ýmsir geta eflaust tekið undir með Jóni Gnarr sem sagði í grein í Fréttablaðinu 29. ágúst sl.: „Ég verð líka að viðurkenna að ég skil ekki alveg hugtakið „að lesa sér til gagns“. Ég set það alltaf í samband við það að geta lesið innihaldslýsingu á umbúðum útí búð. Ég skil ekki hugsunina á bak við hugtakið. Hvað varð um „að lesa sér til gamans“?“ [3] Í meðförum Menntamálastofnunar þýðir hugtakið að nemendur séu undir þrepi 2 á lesskilningshluta PISA prófsins, en takmarkað gagn og lítið gaman kann að vera að slíkri tæknihyggju í skólum landsins.

Á málþingi Háskólans á Akureyri um lestur og læsi 10. október sl. boðuðu sérfræðingar Menntamálastofnunar þá kenningu að börn þurfi tækni og hraða áður en þau hafi forsendur til að njóta lestrar. Það er skrýtin hug­ mynd. Börn þurfa bækur til að verða læs og góðar barnabækur til að langa til að lesa. Lestrarkennsla getur aldrei hverfst um það eitt að kenna lestur, eins furðulega og það hljómar, börnin verða ekki læs nema sökkva sér ofan í lesturinn; þau verða að öðlast áhuga á lestri.

Læsi felur í sér meira en lestur sem umskráningu tákna, læsi felur í sér færni í tungumálinu, lestri og ritun. Að vera læs snýst um meira en atkvæði á mínútu eða mælanlega frammistöðu, það snýst um sköpun merkingar – túlkun og tjáningu. Það snýst um að kafa í djúpið í stað þess að skoppa á yfirborðinu og það tilheyrir öllum námsgreinum. [4] „Læsi snýst um samband orðanna við lífið sjálft, það sem við köllum raunveruleikann, og flest það sem við tökum okkur fyrir hendur.“ [5]

Átaks er þörf til að efla læsi barna, um það eru flestir sammála. Krakkarnir okkar lesa of lítið, of sjaldan og sífellt minna og lesskilningi þeirra hrakar. Lausnin felst þó ekki í því að ráðuneytið sendi lesvélvirkja inn í skólana til að laga bilaða kennara svo börnin geti hakkað sig í gegnum staðlaða texta á tvö hundruð atkvæðum á mínútu. Lestraránægja lýtur að vera forsenda þess að börnin fáist yfirhöfuð til að lesa og áherslan verður að vera á lestur sem áhugamál frekar en vandamál.

Fleiri próf eru ekki vænleg leið til vekja áhuga barna á lestri. Börnin verða kannski betri í að svara prófum en þau verða örugglega ekki betri lesendur. Við eflum ekki ímyndunarafl, sköpunarkraft, víðsýni, mannskilning, kímnigáfu eða gagnrýna hugsun með prófum. Í versta falli fælum við þau börn frá sem eru vel læs og hafa áhuga á lestri – þau eru sem betur fer nokkur ennþá sem langar til að lesa.

Sögnin „að langa“ ætti að vera lykilatriði í lestrarátaki. Það er sama hvað við látum börnin puða, ef áhuginn vaknar ekki þá munu þau ekki lesa. Margt er hægt að gera til að efla lestraráhuga barna og unglinga – ef til eru peningar.

 

Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?

Markmið þjóðarsáttmálans um læsi er að lyfta unglingunum okkar upp úr ruslflokki í lesskilningi í PISA prófum OECD. Þjóðarsáttmálinn er skjal sem ráðherra og sveitarfélög undirrita, auk fulltrúa Landssamtakanna heimila og skóla. Takmarkið er að 90% nemenda í viðkomandi sveitarfélagi muni lesa sér til gagns í PISA 2018 og Menntamálastofnun, sem heyrir beint undir ráðherra, mun mæta í skólana með ný próf, prófaráðgjöf og aðgerðaráætlanir á grundvelli niðurstaðna prófa. [6]

Kostnaður við Þjóðarsáttmálann í heild er áætlaður rúmlega einn millj­ arður króna á þessu ári og næstu fjórum, þ.e. út árið 2019. Langstærsti kostn­ aðarliðurinn felst í tíu lestrarprófaráðgjöfum sem starfa eiga við hina nýju Menntamálastofnun. Samtals kosta þeir 585 milljónir. Ráðgjafarnir mæta auðvitað ekki fullkomnir til leiks og því eru áætlaðar sjö milljónir í ár og fimm milljónir á ári næstu fjögur ár í kennslu og leiðsögn fyrir þá, alls 27 milljónir.

Í upphaflegri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir því að lestarráðgjafarnir „sitji dreifðir um landið þ.a. þekking þeirra og hæfni byggist upp í öllum landshlutum.“ [7] Þegar auglýst var eftir læsisráðgjöfum til starfa var tekið fram að þeir skyldu allir verða staðsettir hjá Menntamálastofnun í Kópavogi. Ljóst er því að ferðakostnaður mun verða mun hærri en þær 20 milljónir á ári sem gert er ráð fyrir í áætlun, en gisting virðist ekki vera inni í þeirri tölu.

Prófin sem ráðgjafarnir eiga að hrinda í framkvæmd þarf að kaupa. Þau kosta 10 milljónir á ári, alls 50 milljónir. Þá eru ráðgjafarnir ábyrgir fyrir heimasíðu þar sem þeir eiga að deila bestu leiðum í lestrarkennslu. Reiknað er með 5 milljónum í síðuna í ár, síðan 10 milljónum á ári, alls 45 milljónum.

Lestrarátak menntamálaráðuneytisins skarast með sérkennilegum hætti við margvíslega vinnu síðustu ára til eflingar lestri og lestraráhuga. Þannig er ekki ljóst hvort heimasíða ráðgjafanna muni með einhverjum hætti tengjast við Lesvefinn um læsi og lestrarerfiðleika [8] sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands þróaði í samstarfi við Menntamálaráðuneytið 2013. Margir sérfræðingar um lestur; lestrarkennslu, lestrarerfiðleika, lesskilning og lestraráhuga eiga efni á þessum vef, bæði frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Einhvers staðar á leiðinni frá tillögum læsishóps ráðherra til útfærslu þjóðarsáttmálans færast áherslurnar frá landinu öllu og inn á ganga Mennta­ málastofnunar. Ekki var lengur í boði að sækja um starf lestrarráðgjafa en hafa starfsstöð utan Kópavogs, þó að gengið væri út frá slíkri starfsemi í fjárhagsáætlun. [9] Með sama hætti umbreyttust námsstefnur um læsi í kjör­ dæmum landsins í drögum að þjóðarsáttmála í námsstefnu Menntamála­ stofnunar í endanlegri gerð hans. [10]

Í þessu sambandi er athyglisvert að við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri starfa nú níu manns við skólaráðgjöf, fyrst og fremst læsisráðgjöf. Læsisráðstefnur Miðstöðvar skólaþróunar eru haldnar annað hvert ár og voru þátttakendur síðast yfir 300. [11] Ekki kom til álita af hálfu Menntamálastofnunar að staðsetja einn eða fleiri hinna nýju ráðgjafa við Miðstöð skólaþróunar [12], né heldur virðist standa til að samnýta kraftana til að skipuleggja námsstefnur um lestur og læsi á breiðum grunni um land allt.

Þess í stað hóf Menntamálastofnun læsisátak sitt í ágúst 2015 með sér­ kennilegri fjölmiðlaherferð þar sem reynt var að draga upp þá mynd að samstarf skóla við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri um byrjendalæsi leiddi til minnkandi lesskilnings og verri árangurs í ýmsum námsgreinum [13]. Í framhaldinu fór menntamálaráðherra um landið og undirritaði viljayfirlýsingar við sveitarfélögin um að skólar landsins skyldu fylgja leiðsögn Menntamálastofnunar um eflingu lestrar og læsis – barnanna vegna.

 

Ekki svart og ekki hvítt

Það er mikið gleðiefni að ráðherra menntamála skuli setja eflingu lestrar og læsis í forgang og pólitískur vilji sé til þess að leggja milljarð króna til þess verkefnis. Það er hins vegar ástæða til að staldra við og spyrja hvort því fé sé vel varið í uppbyggingu stórrar ríkisstofnunar sem taka á við því starfi sem þegar er unnið um allt land.

Hvað væri hægt að gera annað fyrir milljarð króna? Gefum okkur að meðalverð á barnabók sé 3.000 krónur, allt frá ódýrum kiljum eins og Skúla skelfi upp í dýrar innbundnar skáldsögur og fræðibækur. Fyrir milljarð hefði mátt kaupa 333.333 bækur og dreifa þeim jafnt á alla 176 skóla landsins. Það gerir um það bil 1.894 bækur fyrir hvern skóla.

Vitaskuld mætti taka hluta af þessari upphæð, semja við höfunda og útgefendur og hanna rafbókasafn fyrir börn á borð við þau ensku sem kaupa má áskrift að á netinu [14]. Það er sérkennilegt vinnulag að spjaldtölvuvæða skólana án þess að hugsa fyrir því að börnin hafi aðgang að íslensku lesefni í þeim. Rafrænt bókasafn fyrir spjaldtölvur kynni að lokka marga krakka inn í lesturinn.

Hluta af gjöfinni frá frúnni í Hamborg hefði mátt setja í sjóð sem styrkti lestrarhvetjandi verkefni. Í þjóðarsáttmálanum stendur aðeins: „Sjóðir á vegum ráðuneytisins á leik­ og grunnskólastigi verða með sérstaka áherslu á lestur og læsi meðan samningurinn er í gildi.“ [15] Þeir sjóðir sem hér um ræðir eru Þróunarsjóður námsgagna og Sprotasjóður. Ekki kemur fram að lagt verði aukið fé í þessa sjóði en hvorugur þessara sjóða rís undir hlutverki sínu, eins og Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands­ ins, hefur bent á. [16] Sjóðirnir hafa ekki rétt hlut sinn frá hruni, Sprotasjóður er nærri því en Þróunarsjóðurinn er aðeins 62,5% þess sem hann var að verðgildi. Ásókn í sjóðina er umtalsvert meiri en ráðstöfunarfé. Í ár var sótt um styrki í Sprotasjóð fyrir 360 milljónir en til úthlutunar voru um 49 milljónir. [17] Umsóknir í Þróunarsjóðinn námu um 164 milljónum en til úthlutunar voru rúmar 48 milljónir. [18] Þess má geta að báðir þessir sjóðir eru bundnir skólakerfinu, samtök eða einstaklingar sem vinna að lestrar­ hvetjandi verkefnum handa börnum utan skóla hafa enga möguleika á styrkjum úr þeim.

Það er í sjálfu sér gott að gefa kennurum kost á stuðningi og utanumhaldi. En var það stuðningur við skimanir sem helst vantaði? Engar rannsóknir virðast liggja að baki þeirri sannfæringu að kennarar viti ekki hvernig ein­ stakir nemendur standa í lestri eða að skortur á nákvæmum mælingum sé orsök hnignandi lestrar. Eða er hugsunin sú að besta leiðin til að bæta árangur íslenskra skólabarna á alþjóðlega PISA prófinu sé að þrautþjálfa þau í því að taka slík próf?

 

Áhugi á lestri leiðir til árangurs

Ótal rannsóknir sýna að tengsl eru milli lestraráhuga eða ánægju af bóklestri og árangurs í lesskilningi. [19] Þetta sýna PISA prófin einkar vel – sömu próf og ætlunin er að þjálfa íslensk skólabörn til að ná betri árangri í. Lesskilningur var meginviðfangsefni PISA prófanna 2009 og munurinn á árangri barna sem lásu daglega utan skóla og hinna bóklausu samsvaraði allt að einu og hálfu skólaári. [20]

Ánægja af lestri og lestur utan skóla segja einna helst fyrir um gott gengi í lesskilningi í PISA. Nýjar rannsóknir sýna að orðaforðinn vegur jafnvel enn þyngra þegar kemur að PISA, eins og Freyja Birgisdóttir hefur bent á. [21] Maryanne Wolf, sem kom til landsins á vegum Menntamálaráðuneytisins í fyrra, ræddi einnig um mikilvægi orðaforða fyrir lesskilning [22] og í riti ráðu­ neytisins um grunnþætti menntunar, læsi, er minnt á að skilningur er háður orðaforða. [23]

Orðaforði verður ekki til í tómarúmi. Farsælasta og fljótlegasta leiðin til að byggja upp ríkulegan orðaforða er lestur bóka því jafnvel í myndabókum fyrir leikskólaaldurinn er orðaforðinn annar og fjölbreyttari en í talmáli. Einhver ódýrasta fjárfesting sem samfélagið getur ráðist í er að taka upp 20 mínútna yndislestur á dag í hverjum einasta bekk í hverjum einasta grunn­ skóla. Sambandið milli lestraráhuga, tíma sem varið er í frjálsan lestur, orða­ forða og lesskilnings er of sterkt til að líta fram hjá því.

Mikilvægt er að taka rannsóknir á mikilvægi orðaforðans fyrir lesskiln­ ing alvarlega. Staðan er hreinlega orðin þannig að mörg íslensk börn skortir grunnorðaforða á móðurmálinu og það kemur vitaskuld niður á lesskilningi þeirra. Talsverð umræða varð í vor um enskuskotinn orðaforða barna í kjölfar orða Lindu Bjarkar Markúsdóttur talmeinafræðings. [24] Linda sagðist oft fá til sín grunnskólabörn sem gripu til ensku í daglegu tali, jafnvel börn á leikskólaaldri ættu stundum auðveldara með að sækja orð á ensku en íslensku í fylgsni hugans. Ástæðan var augljós að mati Lindu, tölvur og tækni sem aðeins að takmörkuðu leyti byðu upp á íslensku. Það er hægt að fá tækin til að tala og skilja íslensku en það kostar sitt. Samkvæmt tillögum nefndar um notkun íslensku í upplýsingatækni er þörf á milljarði króna í máltækni á næstu 10 árum [25]. Farið var fram á 90 milljónir fyrir árið 2016 en í fjárlögum er verkefninu skammtaður þriðjungur þess fjár. Þarna er enn einn möguleikinn á skynsamlegri nýtingu fjár til styrkingar þeirra grunnþátta sem byggja upp lesskilning.

Rannsóknir á lestrarvenjum bókaorma sýna enn fremur að aðgengi að barnabókum og sterkar lestrarfyrirmyndir skipta miklu máli eigi börn að fá áhuga á lestri. [26] Þetta vita líka reyndir kennarar á borð við Nancie Atwell sem hlaut The Global Teacher Award fyrr á árinu fyrir framúrskarandi árangur nemenda sinna í læsi. [27] Nancie kennir 12–14 ára unglingum í Maine í Bandaríkjunum og nemendur hennar lesa að jafnaði 40 bækur á skólaári. Ástæðan fyrir miklum lestraráhuga nemendanna er ekki síst sú að í kennslu­ stofunni er gott bókasafn sem valið er sérstaklega fyrir nemendahópinn. Nancie leggur út af versnandi frammistöðu enskumælandi nemenda í PISA í grein í The Telegraph 5. október sl. og fjallar þar um mikilvægi breyttrar nálgunar í læsi. [28] Hún bendir á að niðurstöður rannsókna sl. Aldarfjórðung sýni að læsi blómstri þar sem nemendur hafa aðgang að bókum sem þá langar að lesa, leyfi til að velja sjálfir og fái tíma til að sökkva sér ofan í þær.

Bandarískir skólar hafa unnið eftir „No child left behind“ stefnu Georg W. Bush frá árinu 2002, sem einkennist af stöðugum prófum rétt eins og stefnt er að hér. [29] Stefnan hefur verið umdeild og átalin fyrir að draga úr skapandi vinnu og gagnrýninni hugsun. Skólakerfið framleiðir próftakendur í stað þess að skapa lesendur og það drepur niður ástríðu barnanna fyrir lestri, eins og Gallagher orðar það. [30]

 

Hafa íslensk skólabörn gott aðgengi að barnabókum?

Því miður vantar mikið upp á að barnabækur eigi jafngreiða leið inn í grunn­ skóla á Íslandi og lýst er hér að ofan. Skólasöfnin urðu fyrir harkalegum niðurskurði við hrun, eins og rannsókn greinarhöfundar leiddi í ljós 2011. [31] Framlög til bókakaupa lækkuðu að meðaltali um 50%, sums staðar fóru þau niður í ekki neitt, núll krónur árið 2009, en mjökuðust svo lítillega upp á við næstu tvö árin. Í meðalskóla með um 400–450 nemendur var algengt að safnið hefði í kringum 700–750.000 krónur til bókakaupa 2007 en um 350.000 krónur 2011. Á sama tíma hækkuðu barnabækur um 28% svo að raunverulegur samdráttur í bókakaupafé var miklu meiri en fjárframlög segja til um. Varlega áætlað gat dæmigert safn keypt 125–130 færri bækur á ári. Yndislesturinn mætti afgangi og erfiðara varð fyrir börn að finna lesefni við hæfi. Langir biðlistar mynduðust eftir vinsælum bókum sem ekki var hægt að kaupa mörg eintök af. Fræðsluefni eða fagefni fyrir kennara var ekki keypt. Verst úti urðu þó unglingarnir því þeir lásu minnst fyrir og lágu best við höggi. Unglingabókakaup drógust mest saman. Auk þess var tímaritaáskriftum að mestu hætt sem kom helst niður á unglingunum. En það var fleira en bókakaupaféð sem dróst saman, víða var opnunartími styttur og þjónusta minnkuð. Nemendur höfðu færri tækifæri til að sækja safnið.

Nú er aftur komið góðæri, segja menn. En skyldi það ná til skólasafnanna? Ég hef kannað stöðuna hjá sömu söfnum og 2011 og fyrstu niðurstöður sýna að þau eru enn fjársvelt. „Það er orðinn mikill uppsafnaður vandi hjá mér,“ sagði einn skólasafnskennarinn. Þessi starfsmaður fær 500.000 krónur til bókakaupa í ár en telur sig þurfa milljón. „Það vantar mikið af nýlegum skáldritum fyrir börn og unglinga,“ segir hann. „Það vantar fleiri orðabækur, fræðibækur fyrir börn og alls kyns handbækur og fræðirit fyrir kennara.“ Annað safn hefur fengið hækkun upp á 7,5% eða 25.000 krónur síðan 2011 og fær nú 355.000. Ef reiknað er með vísitölubreytingum ætti framlagið að vera um milljón til að samsvara framlaginu fyrir hrun. Bæði þessi söfn eru í skólum með 400–450 nemendur.

Barnabækur hafa hækkað enn meira í verði frá 2011 og munar þar auð­ vitað mest um hækkun virðisaukaskattsins. Ef við lítum í Bókatíðindi má sjá að innbundin bók fyrir u.þ.b. 12 ára kostaði 3.990 árið 2011, sambærileg bók kostar nú 4.499. Hækkunin er 13%.

Hér gæti maður hugsað sér að Námsgagnasjóður gripi inn í en hann hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til viðbótarfé til námsgagnakaupa og ætti því að geta styrkt kaup á til dæmis bekkjarsettum af barnabókum sem ekki eru gefnar út af Námsgagnastofnun (nú Menntamálastofnun). Það er ekki svo vel því Námsgagnasjóður er aðeins þriðjungur af því sem hann var fyrir hrun að verðgildi. [32]

Sjóðurinn var rekinn af Menntamálaráðuneytinu og skorinn niður um 50% 2009 en hefur frá 2011 verið á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem úthlutuðu í fyrsta sinn úr honum 2012. [33] Skólarnir nýta sjóðinn fyrst og fremst til að kaupa forrit, vefáskriftir, spil og bækur en bókakaup hafa numið um 50–60%. [34] Slæm staða Námsgagnasjóðs kemur því niður á sölu barna og unglingabóka. Og þar af leiðandi kemur hún niður á bókaútgáfunni í landinu.

 

Hvað hrjáir útgáfu barnabóka?

„Blómleg bókaútgáfa staðfestir að við lifum í alvöru samfélagi sem hugsar og finnur til í einhverskonar sameiginlegri þjóðarvitund.“ skrifar Margrét Tryggvadóttir í júníhefti TMM og lýsir síðan áhyggjum sínum af stöðu íslenskra barnabóka vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í útgáfu mynda­ bóka.

Grein Margrétar er þörf áminning. Við þurfum að staldra við og velta því fyrir okkur á hvaða leið íslensk barnabókaútgáfa er og hvað markar henni stefnu. Það er ágætis tilefni til þess núna þegar efla á læsi barna og unglinga.

Samkvæmt Bókatíðindum 2014 komu út 78 íslenskar barnabækur og 92 þýddar árið 2014. Titlafjöldinn segir þó ekki alla söguna. Nokkur hluti bókanna er endurútgáfur, þannig eru níu endurútgáfur meðal þýddu barna­ bókanna (og þá eru ýmis gömul ævintýri í nýrri útgáfu ekki talin með) og 16 af íslensku bókunum hafa komið út áður. Þó nokkur hluti þýddu barnabókanna er á mörkum þess að teljast bókmenntir, þ.e. 10 föndur­ eða límmiðabækur.

15–20 íslenskar skáldsögur komu út í fyrra sem telja má henta lesendum á aldrinum 10–12 ára, þar af fjórar endurútgáfur. Þetta er viðkvæmur lesendaaldur, formlegri lestrarkennslu er lokið og nú er það undir börnunum sjálfum komið hvort þau lesa. Rannsóknir sýna að á þessum aldri byrjar lestraráhuginn að dvína. Það skiptir því miklu máli að börn á þessum aldri hafi úr fjölbreyttum og spennandi bókakosti að velja. Mest hrapar lestrará­ huginn þó á unglingsárunum svo að mikilvægt er að hlúa sérstaklega að útgáfu fyrir unglinga. [35] Í fyrra var kynntur nýr flokkur í Bókatíðindum, ungmennabækur. Þetta er flokkur sem erlendis kallast young adults og teygir sig svolítið ofar en hefðbundnar unglingabækur. Í þessum flokki voru sex íslenskar bækur í fyrra og 12 þýddar. Af þessum sex íslensku voru fimm skáldverk og ein spurningabók um fótbolta. Unglingarnir sem mest lesa ná að minnsta kosti tíu bókum á mánuði eða tveimur til þremur á viku. Þeir eru búnir með allt nýmetið í febrúar. Vissulega leita margir unglingar í bækur á ensku en það er engin lausn að beina þeim út fyrir móðurmál sitt. Það er heldur ekkert svar að þau geti lesið Arnald eða Yrsu eins og mörg þeirra gera.

Ungmennabækur eru mikilvægt svar við lestrarvanda sem er að færast upp í framhaldsskólana, en flokkurinn er allt of rýr. Það hlýtur hreinlega að vera orsakasamband milli þess að unglingabækur urðu verst úti í niður­ skurði eftirhrunsáranna á skólasöfnunum og að útgáfa bóka fyrir unglinga er í sögulegu lágmarki. Getur verið að við séum kerfisbundið að draga úr möguleikum unglinga á að verða bókhneigðir?

Það væri hægt að bæta stöðu barna­ og unglingabókaútgáfunnar en til þess þarf peninga. Hugsið ykkur ef skólasöfn landsins fengju styrk til að kaupa allar barna­ og unglingabækur sem gefnar eru út á íslensku. Byrjum smátt og gefum okkur að allir skólarnir 176 keyptu allar ungmennabækurnar 18, eitt eintak af hverri. Meðalverð þeirra var 4.499 krónur, en reiknum með 30% magnafslætti, eintakið kostar þá 3.149 krónur og heildarkostnaður er kr. 9.976.032 eða ámóta og árskostnaður við að kaupa ný skimunarpróf.

Nemendurnir sem eiga að ná betri árangri í PISA 2018 eru í 7. bekk núna. Hvort ætli virki nú betur að afhenda þeim bækur að lesa eða leggja lestrar­ próf fyrir yngri börnin í skólanum þeirra?

 

Áhrínisorð um gagnsleysi

„Þriðjungur íslenskra drengja les sér ekki til gagns.“ Án efa kannast allir lesendur tímaritsins við þessa upphrópun. Það eru hrollvekjandi tölur á bak við hana. 21% unglinga í 10. bekk lesa sér ekki til gagns, þ.e. eru undir þrepi 2 á PISA. Kynskiptingin er ójöfn, 30% pilta og 12% stúlkna skila svona lökum árangri. [36] Það er hins vegar misskilningur að halda að strákar séu upp til hópa ófærir um að lesa. Stærsti hluti þeirra sem ekki les bækur er ágætlega læs en hefur ekki komist á bragðið. Þessir strákar munu aldrei byrja að lesa ef við teljum þeim endalaust trú um að þeir geti ekki lesið og það sé óstrákalegt að lesa.

Orðræðan um ólæsi drengja er mengandi. Hún dregur úr sjálfstrausti og metnaði stráka til að lesa, gefur þeim afsökun fyrir að neita bókum, og veldur því að þeir svara svona í viðtalsrannsóknum: „Ég hef heyrt að það sé sannað að stelpur eru betri að lesa en strákar.“ [37] Hún er hluti af erfiðri orðræðu um skólamál þar sem gengið er út frá því að skólakerfið henti ekki strákum. Jafnvel heyrist því fleygt að strákum gangi verr í skóla en stelpum vegna þess að konur séu allráðandi í kennslu. [38]

Yfirlýsingar um að strákar lesi sér ekki til gagns hafa áhrif langt út fyrir skólana. Foreldrar fá þau skilaboð að strákarnir þeirra séu í áhættuhópi en af stelpunum þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Orðræðan kallar fram stress meðal höfunda og útgefenda; skyldu hinir fáu læsu strákar vilja þessa bók? Er ekki vissara að hafa strák sem aðalpersónu því að strákar lesa bara um stráka? Er ekki vissara að auglýsa frekar bækur eftir karlmenn þar sem þeir geta kveikt í strákunum? Hún er nefnilega lífsseig sú mýta að strákar lesi bara bækur eftir karlmenn og um stráka. Hún er líka lífsseig sú mýta að strákar lesi lítið vegna þess að konur séu allsráðandi í stétt barnabókahöf­ unda. Barnabókaútgáfan var vissulega borin uppi af konum fyrir nokkrum árum en einhverra hluta vegna hafa karlmenn verið nær allsráðandi sl. ár.

Hún er ekki séríslensk þessi drengjaorðræða um lestur, lestrarvenjur eru víðast á Vesturlöndum með þessu móti – stelpur lesa miklu meira en strákar. Kari Sverdrup (2006) bendir á að fullyrðingin um að drengir lesi ekki bækur um stelpu í aðalhlutverki sé viðtekin meðal rithöfunda og útgefenda. Hún telur að kvenrithöfundar hafi tekið þetta til sín og hafi þess vegna alltaf að minnsta kosti einn strák sem aðalpersónu. Þetta viðhaldi ójöfnum kynja­ hlutverkum í barnabókum þar sem karlkynið hefur mun oftar verið í aðal­ hlutverki en kvenkynið. [39]

En hvernig mótast svona hugmyndir? Að drengir geti bara lesið um drengi en stelpur um bæði kyn? Eitthvað hlýtur það að vera í bókmenntauppeldinu sem kallar þetta fram. Nærtækast er að skoða bækurnar sem börnin alast upp við; myndabækurnar sem börnin kynnast meðan þau eru að móta hug­ myndir sínar um eigið kyn og annarra. Skyldu stelpur og strákar sjá jafn­ margar og jafnspennandi fyrirmyndir í slíkum bókum?

Byrjum á að skoða fjöldann. Íslenskar myndabækur 2014 skiptust sem hér segir: Í 13 þeirra var karlkyns aðalpersóna en í átta var hún kvenkyns. Í einni bók voru aðalpersónur hvorugkyns skrímsli. Börn (bæði strákur og stelpa eða mörg börn) voru í aðalhlutverki í fjórum og í jafnmörgum voru dýr. Tvær bækur fjölluðu um Jólasveinana þrettán og foreldra þeirra – séu þær taldar með skekkist allverulega hlutfall kynjanna, svo ég sleppi þeim. Staðan er 13­-8 fyrir stráka.

Þýddu myndabækurnar hafa mun ójafnari kynjahlutverk. Í 20 þýddum myndabókum eru karlkyns aðalpersónur en aðeins sex hafa kvenkyns aðal­ persónu. Dýr án nafns eru í aðalhlutverki í fimm bókum. Karlkynið er þar algengara en ekki er alltaf ljóst hvort það er þá líffræðilegt eða málfræðilegt kyn dýrsins svo ég undanskil þessar bækur. Ég sleppi líka bendibókum og orðabókum sem eru án persóna en rétt er þó að nefna fjórar þýddar myndabækur um bíla eða vinnuvélar sem í sjálfu sér eru hvorki um stelpur né stráka en markaðssettar fyrir drengi. Staðan er orðin 33-­14 fyrir stráka þó að bílabókunum sé sleppt.

Börn fá skýr skilaboð strax frá fyrsta myndabókafletti um að mun algengara og þar með eðlilegra sé að strákar séu í brennidepli en stelpur. Sams konar kynjaskiptingu sjá börnin í teiknimyndum og bíómyndum. [40]

Öll athygli læsisumræðunnar hefur beinst að drengjum. Nýjar bókaútgáfur koma fram á sjónarsviðið og ætla að leysa málið með því að gefa út strákalegar myndabækur, hér mætti til dæmis nefna bókaflokkana tvo um Jóa kassa (útg. Jói­kassi útgáfa) og Kalla kalda (útg. Vefboxið). Hvort tveggja eru þunnar, ódýrar kiljur fyrir leikskólaaldurinn þar sem aðalpersónurnar eru ímynd karlmennskunnar. Kalli kaldi staðfestir rækilega staðalmyndir kynjanna; mamman sér um mat, innkaup og barnapössun en afi keyrir bíl og fer á veiðar.

Í fyrra tóku nemendur mínir í barna­ og unglingabókmenntum við Háskólann á Akureyri þátt í norrænu verkefni um kynjamyndir í mynda­ bókum (sjá genustest.no). Í athugun í tengslum við þetta verkefni kom í ljós að börn á leikskóla völdu sér bækur eftir því hvort þau héldu að þær væru fyrir sitt kyn og dæmdu þá út frá útliti, lit og söguhetju. Bæði stelpurnar og strákarnir sögðu hins vegar að þeim þættu strákabækurnar skemmtilegri vegna þess að það gerðist meira í þeim og þær væru meira spennandi.

Viðhorf barna til bókmennta mótast frá fyrsta kjöltulestri. Strax á leik­ skólaaldri hafa börn áttað sig á því að strákar eru oftar í aðalhlutverki og hafa myndað sér þá skoðun að bækur um stráka séu skemmtilegri en bækur um stelpur. Eigi okkur að takast að jafna viðhorf kynjanna til lestrar verðum við að hugsa um lestur sem uppeldismál; að mata börnin ekki á staðalmyndum, hvorki í bókum né í umræðunni um lestur.

Kynjahlutföllin í vönduðum íslenskum myndabókum eru mun jafnari en í þýddu bókunum. Stóra vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er að hrunið breytti myndabókamarkaðnum, eins og Margrét Tryggvadóttir benti á í júníhefti TMM á þessu ári. Stóru forlögin hafa dregið saman seglin, minna er gefið út af vönduðum íslenskum myndabókum. Hér er enn einn möguleikinn á skynsamlegri nýtingu fjármuna til að ala upp bókaorma. Ef við vöndum ekki til verka handa yngstu börnunum eru minni líkur á að þau laðist að lestri.

 

Samstarf og fyrirmyndir

Ég held að það séu bókstaflega allir sammála um mikilvægi þess að efla lestur barna. Út um allt land má finna fólk sem vinnur að lestrarhvatningu. Hjálparsveit skálda steig fram 2011 og í kjölfarið stóð hópur rithöfunda fyrir málþingi um lestrarvenjur barna í Norræna húsinu í janúar 2012. Barna­ bókasetur Íslands var stofnað í febrúar 2012 og hefur staðið fyrir ýmsum lestrarhvetjandi verkefnum. Rithöfundasambandið heldur utan um verk­ efnið Skáld í skólum. IBBY samtökin gáfu öllum fyrstubekkingum á landinu bók í haust með aðstoð Lionshreyfingarinnar sem einnig hefur sett lestur barna á verkefnalista sinn. Einstaklingar hafa ekki látið sitt eftir liggja, Þor­ grímur Þráinsson lét hanna veggspjöld með lesandi íþróttahetjum og Ævar vísindamaður stendur fyrir lestrarátaki. Kennarar allt upp í framhaldsskóla hafa áhyggjur af slöku lestrarúthaldi nemenda sinna og beita ýmsum ráðum til að koma börnunum á bragðið, eins og ný rannsókn á íslenskukennslu í grunn­ og framhaldsskólum leiðir í ljós. [41]

Læsisátakið hefði orðið svo miklu sterkara með víðtæku samstarfi; breið­ fylkingu fólks sem áhuga og þekkingu hefur á verkefninu. Ekkert samráð var hins vegar haft við samtök á þessu sviði. Ekki var talað við Kennara­ sambandið eins og fram kemur í grein varaformanns þess í október­ hefti Skólavörðunnar. [42] Ekki var talað við Rithöfundasambandið, bóka­ útgefendur, bókasafnsfræðinga, skólasafnakennara eða nokkra aðra sem hafa með barnabækur að gera. Upplýsingagjöf er ekki það sama og samráð, hvað þá samvinna.

Í umræðunni um árangur barna í lesskilningi hefur helst verið horft til Finnlands sem fyrirmyndar. Áhugi á lestri í Finnlandi er mun meiri en hér og námsárangur barna betri í PISA. Þetta er samt varasamt viðmið því að finnskir krakkar eru á nákvæmlega sömu leið og okkar börn. Línuritið steypist með sama hraða niður á við, þeir hafa bara úr hærri söðli að falla. Ef við skoðum Norðurlöndin er árangur barna í Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi áberandi lakari í PISA 2012 en 2000. [43] í Danmörku og Noregi er árangurinn aftur á móti um það bil sá sami nú og árið 2000. Það sem þessi tvö lönd eiga sameiginlegt er að hafa lagt í umfangsmikið lestrarátak, Danir kölluðu sitt átak Læselystkampagne, Norðmenn notuðu yfirskriftina Gi rom for lesing. [44]

Í báðum löndum var lögð áhersla á víðtækt samstarf stjórnvalda, rithöf­ unda, skólasafna, kennara, fjölmiðla og fleiri. Unnið var út frá lestraránægju og bættu aðgengi barna að bókum. Í báðum löndum voru stofnaðir sjóðir sem veittu styrki til lestrarhvetjandi verkefna. Læselyst í Danmörku stóð frá 2003–3007 og hlutu 130 lestrarhvetjandi verkefni styrk á því tímabili. Sýnt þótti að árangur næðist með því að höfða til áhuga barnanna og frelsis til að velja sér lesefni og var átakið því framlengt til 2010. Margvísleg verkefni sem urðu þá til eru enn í gangi.

 

Gagn og gaman

Átaks er þörf til að bæta lestrarvenjur barna á Íslandi og opinbert átak er hafið. 12,8 milljónir voru greiddar fyrir undirbúning átaksins; 1,2 milljónir fyrir nefndarstörf og 11,6 milljónir fyrir verkefnisstjórn, eins og Fréttablaðið greindi frá. [45] Þessi kostnaður er ekki talinn með í fjárhagsáætlun átaksins sem hljóðar upp á 1.060 milljónir. Þar kemur hins vegar fram að sex millj­ ónir fara í PR­mál eða kynningu á átakinu. [46] Inni í þeirri fjárhæð eru ferðir ráðherra og fylgdarliðs milli sveitarfélaga með holótt plastlíkan af lands­ svæðum sem upprúlluðum, undirrituðum samningum er stungið í. Ingó veðurguð syngur lagið hans Bubba um að gott sé að elska með nýjum texta: „Það er gott að lesa“ og börnin raula með. Samt er ekki rætt um neitt annað en „að lesa sér til gagns“ og 70% fjárins sem ætlað er í átakið fara með beinum hætti í prófaráðgjöf hjá einni stofnun. Hvergi heyrir maður minnst á „að lesa sér til gamans“.

Í máli forstöðumanns Menntamálastofnunar á læsisþingi í Háskólanum á Akureyri 10. október sl. kom fram sá skilningur að fyrst þurfi barn að læra að lesa upp á 200 atkvæði á mínútu, síðan eigi að byggja upp áhuga þess á lestri. [47] Það er svolítið eins og að segja að maður þurfi ekki vatn til að læra að synda. Fyrst þurfi maður að læra sundtökin á bakkanum og svo þegar maður geti gert 200 sundtök á mínútu megi maður prófa að busla sér til skemmtunar. Það er ekki vænleg leið til að efla áhuga á sundi að láta börn leika þorska á þurru landi.

Engin leið er að slíta svona sundur gagnið og gamanið í lestri því læsi er svo miklu meira en umskráning tákna. Lestraráhuga verður að byggja upp sam­ hliða lestrarkennslu og leggja verður áherslu á áhugann frá fyrstu stundum lestrarátaks. Einhverra hluta vegna er hann ekki á dagskrá læsisátaks fyrr en 2016 skv. fjárhagsáætlun og þá merktur spurningamerkjum. Ekkert fé er merkt þessum lið. [48]

Ég vona innilega að lestrarvenjur barna og unglinga breytist á næstu árum; að þau lesi meira og oftar sér til ánægju; að yndislestur verði fastur liður í skólastarfi; að skólasöfnin verði styrkt og fjármunir lagðir í sjóði sem styðja lestrarhvetjandi verkefni.

Aðgerðir til að bæta árangur barna í lestri eru hins vegar marklausar ef mikilvægustu atriðin gleymast: Að börn þurfa að hafa gaman af því að lesa til að fást til þess að lesa. Og að börn lesa ekki bækur nema þau hafi bækur innan seilingar.

 

Tilvísanir

[1] Sjá Hvítbók um umbætur í menntun: http://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir/ Hvitbik_Umbaetur_i_menntun.pdf

[2] Sjá t.d. frétt RUV 3.12.2013: http://www.ruv.is/frett/30­prosent­geta­ekki­lesid­ser­til­gagns

[3] http://www.visir.is/of­sjoppulegt­til­ad­kalla­thjodarsattmala/article/2015150828686

[4] Skilgreiningar læsis hafa breyst á undanförnum árum, færst frá þröngri sýn á tæknilega færni til víðari skilgreiningar sem tengist félagslegri færni. Sjá grein Guðmundar B. Kristmunds­ sonar í Skímu 2010: http://modurmal.is/pdf/skima2010­2.pdf og Baldurs Sigurðssonar á Lesvefnum: http://lesvefurinn.hi.is/node/132.

[5] Ritröð um grunnþætti menntunar: læsi. Höf. Stefán Jökulsson. Mennta­ og menningarmála­ ráðuneytið og Námsgagnastofnun, 2012.

[6] Sjá eintak af sáttmálanum: http://www.menntamalaraduneyti.is/media/hvitbokargogn/Thjodarsattmali_um_laesi_Samningur.pdf

[7] Fjárhagsáætlun átaksins má finna á vef ráðuneytisins:http://www.menntamalaraduneyti.is/ menntamal/hvitbok/ Flettið niður á læsi – síðan gögn – síðan fjárhagsáætlun og tímalína.

[8] lesvefurinn.hi.is

[9] Fjárhagsáætlun átaksins má finna á vef ráðuneytisins:http://www.menntamalaraduneyti.is/ menntamal/hvitbok/ Flettið niður á læsi – síðan gögn – síðan fjárhagsáætlun og tímalína.

[10] Drög að þjóðarsáttmála merkt 14. júlí 2015: http://gagnagatt.samband.is/meetingsearch/ displaydocument.aspx?itemid=30635712668086942976&meetingid=1506008F%20%20%20%20%20%20%20&filename=Drög%20að%20samningi%20vegna%20lestrarátaks.docx&cc=­ Document

[11] Um miðstöð skólaþróunar: http://www.msha.is/is/moya/news/rekstur­midstodvar­skolathro­ unar­ha

[12] Spurst var fyrir um þetta hjá Menntamálastofnun, eins og forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar skýrði frá á læsisþingi 10. okt. Upptaka frá þinginu: http://upptaka.unak.is/ Panopto/Pages/Viewer.aspx?id=6ffc8d47­68a0­4081­8cf3­8f35f6bc99db

[13] Sjá grein Þórodds Bjarnasonar „Táldregnir villidýraheilar“ sem birtist í Kvennablaðinu 27. ágúst 2015: http://kvennabladid.is/2015/08/27/taldregnir­villidyraheilar/

[14] Gott dæmi um slíkt rafbókasafn er getepic.com.

[15] Sjá má eintak af Þjóðarsáttmála á vef ráðuneytisins: http://www.menntamalaraduneyti.is/ media/hvitbokargogn/Thjodarsattmali_um_laesi_Samningur.pdf

[16] Aðalheiður Steingrímsdóttir. Um menntastefnu og ákvarðanir í menntamálum. Skóla­ varðan, október, 2015, bls. 63–69: http://issuu.com/kennarasamband/docs/08_skolavar­ dan_2?e=10593660/30504605

[17] Sjá úthlutun úr Sprotasjóði 2015–2016: http://www.sprotasjodur.is/is/um­sprotasjod/uthlut­ anir/2015­2016

[18] Sjá úthlutun úr Þróunarsjóði Námsgagna 2015: http://www.rannis.is/frettir/sjodir/nr/3210

[19] Sjá t.d. Research evidence on reading for pleasure. Department for Educations, UK, 2012. https://www.gov.uk/government/uploads/system/uploads/attachment_data/file/284286/read­ ing_for_pleasure.pdf

[20] Sjá PISA in focus 8, 2009: http://www.oecd.org/pisa/pisaproducts/pisainfocus/48624701.pdf

[21] Freyja Birgisdóttir, erindi á Menntakviku í Háskóla Íslands, 2. okt. sl.

[22] Fyrirlestur Maryanne Wolf frá 27. ágúst 2014 er hér: http://www.menntamalaraduneyti.is/ verkefni/malthing_og_radstefnur/2014/07/02/nr/8063

[23] Ritröð um grunnþætti menntunar: læsi. Höf. Stefán Jökulsson. Mennta­ og menningarmála­ ráðuneytið og Námsgagnastofnun, 2012.

[24] Sjá umfjöllun málfarsráðunautar RUV um málið: http://www.ruv.is/frett/ordafordi­islenskra­ barna

[25] Nefndin skilaði tillögum til ráðherra í desember 2014. sjá http://www.menntamalaraduneyti. is/ menningarmal/utgafa/

[26] Sjá Lestrarvenjur ungra bókaorma. Brynhildur Þórarinsdóttir og Kristín Heba Gísladóttir, 2012. Útg. Barnabókasetur Íslands.

[27] sjá frétt NPR 16.03. 2015: http://www.npr.org/sections/ed/2015/03/16/393324420/nancie­ atwell­of­maine­wins­1­million­global­teaching­prize

[28] Nancie Atwell, 2015. ‚It‘s time to take a hard look at how we teach reading’ http://www. telegraph.co.uk/education/educationopinion/11911578/Its­time­to­take­a­hard­look­at­how­   we­teach­reading.html

[29] http://www.edweek.org/ew/issues/no­child­left­behind/

[30] Gallagher, 2010. Reversing readicide. Educational leadership, 2, 36–41.

[31] Brynhildur Þórarinsdóttir. „Er hjartað hætt að slá? Skólabókasöfn á krepputímum.“ Greinin hefst á bls. 133: http://skemman.is/handle/1946/10261

[32] sjá grein Aðalheiðar Steingrímsdóttur í Skólavörðunni. Sjóðurinn hefur rýrnað úr 153,9 millj­ ónum 2007 í 54,1 árið 2015 (uppreiknað miðað við vísitölubreytingar).

[33] http://www.menntamalaraduneyti.is/afgreidsla/sjodir­og­eydublod/menntamal/nr/4558

[34] http://www.samband.is/media/namsgagnasjodur/Unirritud­Arsskyrsla­Namsgagnasjods­ skolaarid­2014­2015.pdf

[35] Margar rannsóknir sýna hvernig dregur úr lestraráhuga með aldrinum, t.d. Börn og sjónvarp á Íslandi. Þorbjörn Broddason, Kjartan Ólafsson og Sólveig Margrét Karlsdóttir. (2009). „Ný börn og nýir miðlar á nýju árþúsundi.“ Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir (rit­ stjórar), Rannsóknir í félagsvísindum X (bls. 253−262).

[36] Sjá Hvítbók um umbætur í menntun: http://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir/ Hvitbik_Umbaetur_i_menntun.pdf

[37] Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, 2014. Sko ég get alveg lesið, en ég nenni ekki að lesa.“: lestraráhugi unglingsdrengja og leiðir kennara til að efla áhuga nemenda sinna á lestri. MA ritgerð frá HA.

[38] Ingólfur Ásgeir Jóhannesson hefur hrakið þessa kenningu í bók sinni Karlmennska og jafn­ réttisuppeldi, 2005.

[39] Sjá Bergljot Østerås, 2010. Fortellinger om kjønn i barnelitteraturen. https://www.utdannings­ forbundet.no/upload/Tidsskrifter/Forste%20steg/FS_nr_3_10/FS_3_2010_side_18­21.pdf

[40] Maríanna Clara Lúthersdóttir: Spegill, spegill herm þú mér… Birtingarmyndir kvenna í hreyfimyndum Disney og Pixar. MA ritgerð frá HÍ 2012.

[41] Óbirt. Rannsóknin íslenska sem faggrein og kennslutunga er unnin í samvinnu íslenskukenn­ ara við kennaradeildir HÍ og HA.

[42] Skólavörðuna má lesa hér: http://ki.is/um­ki/utgafa/frettabref­og­timarit/skolavardan/2889­ skolavardan­5­tbl­2015

[43] Sjá Almar M. Halldórsson, Ragnar F. Ólafsson og Júlíus K. Björnsson: Helstu niðurstöður PISA 2012, bls 36. http://www.namsmat.is/vefur/rannsoknir/pisa/pisa_skyrslur/PISA_2012.pdf

[44] Um Læselyst: http://www.kulturstyrelsen.dk/institutioner/biblioteker/fokusomraader/boern/ laeselyst/forskning­og­publikationer/ Um Gi rom for lesing: https://www.regjeringen.no/no/ dokumenter/gi­rom­for­lesing/id106009/

[45] http://www.visir.is/fyrrverandi­thingmadur­fekk­taepar­tolf­milljonir­fyrir­laesisverkefnid/ article/2015150929244

[46] Fjárhagsáætlun átaksins má finna á vef ráðuneytisins:http://www.menntamalaraduneyti.is/ menntamal/hvitbok/ Flettið niður á læsi – síðan gögn – síðan fjárhagsáætlun og tímalína.

[47] Málþingið í heild er hér: http://upptaka.unak.is/Panopto/Pages/Viewer.aspx?id=6ffc8d47­68­ a0­4081­8cf3­8f35f6bc99db

[48] Fjárhagsáætlun átaksins má finna á vef ráðuneytisins:http://www.menntamalaraduneyti.is/ menntamal/hvitbok/ Flettið niður á læsi – síðan gögn – síðan fjárhagsáætlun og tímalína.