Eftir Þorvald Gylfason [1]

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2018

 

Ágrip

Þorvaldur Gylfason

Þorvaldur Gylfason. Mynd: Vigfús Birgisson

Þessi ritgerð fjallar um spillingu á Íslandi, einkum þann hluta hennar sem varðar meðferð nokkurra kunnra mála í réttarkerfinu og á Alþingi. Vandinn birtist í því að réttarkerfið hefur ekki brugðizt við meintri refsiverðri háttsemi og að Alþingi hefur ekki staðið undir ábyrgð sinni heldur sýnt af sér athafnaleysi eða afskiptaleysi. Sagan er rakin í stuttu máli frá helmingaskiptum tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna sem hófust um 1937 og þaðan að hermanginu sem fylgdi komu varnarliðs Bandaríkjanna fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins til Íslands í síðari heimsstyrjöldinni og síðan að ókeypis úthlutun aflaheimilda með tilurð kvótakerfisins í sjávarútvegi 1985 og hliðstæðri einkavæðingu bankanna 1998–2003. Rakið er hvernig meint lögbrot voru framin án þess að yfirvöld brygðust við nema að litlu leyti fram að hruni, jafnvel þegar lög voru brotin í allra augsýn að heita má. Fjallað er um þá hættu sem réttarvitund í samfélaginu stafar af refsileysi – þ.e. því að lögum sé almennt ekki framfylgt þegar valdsmenn eða aðrir vel tengdir menn eiga í hlut.

 

I. Inngangur

Hann bað ráðherrann um að gera svo vel að ganga með sér út á tröppurnar, benti honum á stórvirk vinnutæki skammt frá og sagði: Þessi tæki voru flutt til landsins undir því yfirskini að þau skyldi nota á Keflavíkurflugvelli til að komast hjá sköttum og skyldum. Þetta var á skrifstofu ráðherrans í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Ráðherrann lét sér fátt um finnast.

Sá sem reyndi að hreyfa málinu var Kristján Pétursson löggæzlumaður í Keflavík. Hann birti sjálfsævisögu sína Margir vildu hann feigan 1990. [2] Þar lýsir hann hermanginu og þá um leið olíumálinu, umfangsmesta fjársvikamáli síns tíma. Framkvæmdastjórinn fékk fangelsisdóm en stjórnarmenn fengu fjársektir. Kristján segir að reynt hafi verið að múta honum til að fella rannsókn málsins niður (bls. 95–97). Hann segir síðan (bls. 98):

„Það sem vakti mesta athygli mína var að embættismenn fengu ekki einu sinni áminningu fyrir vanrækslu eða brot í starfi enda þótt stór hluti dómskjala væru áritanir og stimplanir hinna opinberu embættismanna.“

Forstjóri Olíufélagsins sagði síðar við Kristján:

„Ef ekki hefðu komið til heimildir, áritanir og stimplar ágætra embættismanna fyrir tollfrelsi þessa ólögmæta innflutnings hefði Olíufélagsmálið aldrei orðið til en sá sem öðrum fremur skipulagði þetta af okkar hálfu slapp þó blessunarlega að mestu fyrir horn á fyrningarreglum okkar ágætu laga.“

Sá sem slapp fyrir horn var einn mesti virðingarmaður Framsóknarflokksins um sína daga, fv. forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri og síðar fulltrúi Norðurlanda í stjórn Alþjóðabankans í Washington.

Kristján bætir við: „Virðing mín fyrir íslenskum dómstólum beið nokkurt skipbrot.“ Honum var bolað úr starfi.

 

II. Frá helmingaskiptum til hermangs

Þegar Alþingi samþykkti aðildina að Atlantshafsbandalaginu 1949 og síðan varnarsamninginn við Bandaríkin 1951 voru landvarnarsjónarmið lögð til grundvallar. Enginn sá ástæðu til að reyna að leggja mat á fjárhagslegan ávinning og kostnað sem fylgja myndi samstarfinu líkt og margir telja nú brýnt til að geta myndað sér skoðun á hugsanlegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Bandaríkjastjórn hafði undirbúið jarðveginn með örlátri Marshall-aðstoð við Íslendinga. [3] Hermangið kom síðar.

Kristján Pétursson lýsir því vel í bók sinni hvernig helmingaskipti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins voru heimfærð upp á landvist varnarliðsins með aukaaðild Alþýðuflokksins. Lög voru brotin þvers og kruss. Þjóðviljinn hneykslaðist á brotunum, en aldrei kom neitt af þessum málum fyrir dómstóla nema olíumálið. Kannski þurfti Framsóknarflokkurinn að gjalda þess að talsambandið brast aftur milli hans og Sjálfstæðisflokksins 1959 þegar stjórnarskránni var breytt líkt og gerzt hafði 1942 til að jafna atkvæðisréttinn gegn vilja framsóknarmanna. Kristján Pétursson þakkaði Bjarna Benediktssyni, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og síðar forsætisráðherra, að friður fékkst til að ljúka rannsókn olíumálsins og fara með málið fyrir dóm.

Kristján sagði mér þetta sjálfur. Hann hringdi til mín 2010, við þekktumst ekki, og bað um að fá að hitta mig. Þegar hann var setztur í sófann heima hjá mér, þetta var 4. febrúar, hóf hann mál sitt með þessum orðum: Mig langar að fá að segja þér hluti sem ég get ekki leyft mér að taka með mér í gröfina. Ég sperrti eyrun. Kristján lét dæluna ganga í þrjár klukkustundir. Sumt af því sem hann sagði mér vissi ég fyrir líkt og margir aðrir, annað ekki. Nokkru síðar, 9. október, leitaði ég ráða Ragnars Aðalsteinssonar hrl. um viðbrögð við ummælum Kristjáns um símahleranir. Litlu síðar, 10. nóvember 2010, fór ég í samráði við Kristján á fund dómsmálaráðherra til að greina honum frá fundi okkar Kristjáns og til að hvetja ráðherra til að hlutast til um að Kristján fengi að leysa frá skjóðunni án þess að baka sér vandræði.[4] Kristján veiktist skömmu síðar, missti meðvitund og lézt 4. janúar 2011. [5]

Ekkert af þessu þurfti að koma á óvart. Ég lýsti vandanum svo í Fréttablaðinu 26. febrúar 2009: [6]

„Lögbrot hafa lengi verið látin viðgangast á Íslandi. Sigurður Nordal prófessor vitnar um vandann í Skírni 1925. Bjarni Benediktsson, síðar forsætisráðherra, ber vitni í einkabréfum 1934 og þannig áfram. Margir vissu, en enginn gerði neitt; þess vegna héldu lögbrotin áfram. Brottkast [7] og löndun fram hjá vigt viðgangast í stórum stíl samkvæmt ítrekuðum frásögnum sjómanna, en lögreglan hefst ekki að. Innherjaviðskipti í bönkunum voru algeng, svo sem vottar munu trúlega staðfesta við Rannsóknarnefnd Alþingis og sérstakan saksóknara, en lögreglan horfir í aðrar áttir. Fyrrum bankastjóri Landsbankans hefur árum saman í grein [8] eftir grein [9] í blöðunum borið þungar sakir [10] á nafngreinda bankamenn, en löggan hrýtur.“

Nýjar uppljóstranir RÚV [11] vitna um Fiskistofu sem virðist viðmóta máttlaus og Fjármálaeftirlitið var fram að hruni svo sem Rannsóknarnefnd Alþingis lýsir í skýrslu sinni enda var þv. forstjóri FME í hópi þeirra sjö manna sem RNA taldi hafa gert sig seka um vanrækslu í skilningi laga. [12]

 

III. Kaup kaups

Lögbrotin sem Sigurður Nordal og Bjarni Benediktsson vitnuðu um ýttu líkt og hermangið síðar undir siðaveiklun stjórnmálastéttarinnar. Ýmislegt annað lagðist á sömu sveif. Vitað var að margir heildsalar og aðrir geymdu umboðslaun o.fl. í útlöndum þótt lögin leyfðu það ekki. Panama-skjölin drógu vorið 2016 a.m.k. einn slíkan reikning fram í dagsljósið, reikning undir stjórn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. [13] Þjóðviljinn hneykslaðist á heildsölunum á sinni tíð, en sjálfstæðismenn kipptu sér ekki upp við það enda sagði Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 1. júní 2008:

„Það hafa komið fram traustar upplýsingar um tengsl sósíalista við Sovétríkin, Austur-Þýzkaland og önnur ríki í Austur-Evrópu. En það mál hefur aldrei verið hreinsað upp, hvorki að því er varðar pólitísk samskipti né fjárhagsleg samskipti. … Úr því að Kjartan Ólafsson [fv. ritstjóri Þjóðviljans] vill fá afsökunarbeiðni vegna símahlerana eigum við þá ekki öll, stríðsmenn kalda stríðsins, að taka höndum saman og óska eftir því að öll gögn verði lögð á borðið? … Það eru ekki margir Íslendingar lifandi, sem þekkja þessa sögu vel. Einn þeirra, sem þekktu hana frá sjónarhóli vinstri manna, var Ingi R. Helgason lögfræðingur, sem var áratugum saman í innsta kjarna Sósíalistaflokksins, alveg eins og Kjartan Ólafsson. Síðustu árin, sem Ingi lifði, fóru fram nokkur vináttusamleg samtöl á milli hans og ritstjóra Morgunblaðsins, þar sem Ingi var hvattur til að segja söguna alla. Þau samtöl komust það langt að Ingi sagði að tæki hann slíka ákvörðun mundi hann segja þá sögu hér á síðum Morgunblaðsins. Úr því varð ekki því miður. Er Kjartan Ólafsson tilbúinn til þess? … Það væri þá kannski hægt að sjá til þess að sambærilegt framlag kæmi úr hinum herbúðunum! Það hefur litla þýðingu að taka eitt mál út úr eins og símahleranir. … Það er ekki fráleitt að ætla, að þeir sem nú deila um símahleranir og önnur mál þeim tengd eigi eftir að ganga saman í einni fylkingu gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og hver veit nema Kjartan Ólafsson og höfundur þessa Reykjavíkurbréfs haldist þá í hendur!“ [14]

Sem sagt: Kaup kaups. Þessi nýgamla saga ratar smám saman inn í bækur sagnfræðinganna eins og t.d. Líftaug landsins – saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010 sem er nýkomin út. [15]

Málverkafölsunarmálið [16] var ekki heldur hreinsað upp. Mistök við rannsókn málsins leiddu til þess að um 900 fölsuð málverk eru enn í umferð. Verðhrun á málverkamarkaði leiddi til gríðarlegs eignatjóns í boði lögreglunnar og Alþingis sem leiddi málið hjá sér ef frá er talin tillaga tveggja þingmanna [17] um að þetta megi helzt ekki gerast aftur.

Helmingaskipti gátu af sér hermangið og meðfylgjandi lögbrot án þess að stjórnvöld reyndu að skakka leikinn ef olíumálið eitt er undan skilið eins og Kristján Pétursson lýsir í sjálfsævisögu sinni. Þessi þróun hneigðist til að spilla mannvali stjórnmálaflokkanna með því að laða að þeim ýmsa óprúttna fjármálamenn. Siðaveiklun stjórnmálanna gat síðan af sér kvótakerfið 1985–1990 í óþökk almennings og misheppnaða einkavæðingu bankanna 1998–2003. Alþingi ákvað að afhenda útvegsmönnum auðlindina í sjónum á silfurfati líkt og gert var nokkru síðar við olíulindir Rússlands frekar en að fylgja nærtækri fyrirmynd frá Noregi þar sem olíulindir hafa verið í óhagganlegri þjóðareigu frá öndverðu. Þegar stjórnmálamennirnir sáu að þeir höfðu komizt upp með þessa meðferð þjóðareignarinnar í hafinu ákváðu þeir að hafa svipaðan hátt á einkavæðingu bankanna með afleiðingum sem allir þekkja. Kapallinn rakti sig sjálfur.

 

IV. Horfin tíð?

Ég vitnaði að framan í Skírnisritgerð Sigurðar Nordal prófessors frá 1925 þar sem hann sagði m.a.:

„Eg las nýlega í erlendu riti um Íslendinga, að engin þjóð í heimi mundi vera svo grandvör og löghlýðin. Fangelsin stæði tóm og hegningardómarnir væri óvenjulega fáir í hlutfalli við mannfjölda. Þá datt mér í hug samtal, sem ég átti í fyrra við einn af helztu lögfræðingum vorum. Hann var að segja mér frá meðferð einnar íslenzkrar peningastofnunar, sem nýlega var komin í fjárþröng. Sögurnar voru svo hroðalegar, að hárin risu á höfði mér. „En er þetta ekki hegningarvert?“ spurði eg. „Það mundi það vera alls staðar nema á Íslandi,“ svaraði hann rólega. En er það ekki svo, að hér sé framinn grúi lagabrota, sem eru á almanna vitorði, en enginn hróflar við? Er ekki spillingin í þjóðfélagi voru orðin almennt umtalsefni, án þess að rönd verði við henni reist? Almenningsálitið er magnlaust, af því að lífsskoðun almennings stefnir öll að vorkunnsemi. Yfir allt er breidd blæja, þar sem kærleikur kann að vera uppistaðan, en kæruleysi er áreiðanlega ívafið.“

Bjarni Benediktsson, síðar forsætsráðherra, tók í sama streng. Hann skrifaði Pétri bróður sínum í bréfi 1934:

„Bersýnilegt er, að þjóðlífið er sjúkt. Kemur það ekki einungis fram í svikunum sjálfum, heldur einnig því, að raunverulega „indignation“ er hvergi að finna hjá ráðandi mönnum, persónuleg vild eða óvild og stjórnmálahagsmunir ráða öllu, á báða bóga, um hver afstaða er tekin. Slíkt fær ekki staðizt til lengdar. Dagar linkindarinnar og svika samábyrgðarinnar hljóta að fara að styttast.“

Nýir vitnisburðir bætast við. Guðni Th. Jóhannesson, nú forseti Íslands, segir t.d. frá ólöglegum atkvæðakaupum í ævisögu sinni um Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra. [18] Margir kaupsýslumenn, nú síðast Sveinn R. Eyjólfsson blaðaútgefandi, hafa sagt í bókum sínum frá yfirgangi og meintum lögleysum af hálfu stjórnmálamanna og embættismanna allt fram á síðustu ár. [19] Hrunið 2008 opnaði augu margra þeirra sem áður höfðu kosið að hafa þau lokuð. Panama-skjölin 2016 opnuðu enn fleiri augu upp á gátt. Það sem ætti að vera horfin tíð er ennþá rammíslenzkur raunveruleiki.

 

V. Jafnræði fyrir lögum?

Sum mál fyrnast eða eru látin fyrnast líkt og gerðist í olíumálinu fyrir meira en hálfri öld eða rannsókn þeirra misferst eins og t.d. í málverkafölsunarmálinu. [20] Frekar en að reyna að berja í brestina er Alþingi sjálft hluti vandans. Það kom berlega í ljós þegar þingið samþykkti í desember 2012 að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu bankanna 1998–2003 en lét síðan ekki af slíkri rannsókn verða. Vanræksla Alþingis er bagaleg vegna gruns um lögbrot við einkavæðinguna og einnig vegna gruns um að bankarnir hafi stundað fjárböðun fyrir Rússa. [21]

Alþingi bað um aðgang að símtali seðlabankastjóra og forsætisráðherra 6. október 2008 þar sem þeir ræddu lánveitingu bankans til Kaupþings. Seðlabankinn færðist undan en afhenti gögnin sérstökum saksóknara og þaðan virtust þau leka í Kastljós RÚV 2016. [22] Ekki er vitað hvort sá gagnaleki var rannsakaður. Kjarninn höfðaði mál gegn Seðlabankanum 2017 og krafðist aðgangs að gögnunum og þá birtir Morgunblaðið skyndilega gögnin, bersýnilega stolin, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Vænta má að yfirvöldin séu að rannsaka gagnastuldinn úr Seðlabankanum nema þau séu þeim mun uppteknari við að taka skýrslur af blaðamönnum Stundarinnar sem birtu upplýsingar um verðbréfaviðskipti formanns Sjálfstæðisflokksins úr gögnum sem var lekið úr Glitni og máttu sæta lögbanni skömmu fyrir alþingiskosningarnar 2017, lögbanni sem bíður úrskurðar dómstóla. [23]

Skyldu yfirvöldin hafa áhyggjur af því að fólkið í landinu kunni að efast um jafnræði þegnanna fyrir lögum?

Gagnastuldurinn úr Seðlabankanum er samt aukaatriði. Efni símtalsins á brýnt erindi við almenning því þar kemur fram að Seðlabankinn ákvað að lána Kaupþingi 500 milljónir evra auk fyrri lána og bankastjórinn segir í símann: „Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka.“ Dómstólar þurfa að fjalla um hvort háskalánveiting af þessu tagi feli í sér umboðssvik eða önnur brot. Til að svo megi verða þarf að hefja rannsókn málsins í tæka tíð því annars fyrnist málið með gamla laginu 6. október 2018.

Þingnefnd undir forsæti Atla Gíslasonar alþm. og hrl. var falið að undirbúa viðbrögð Alþingis við skýrslu RNA. Með bréfi 7. maí 2010 kom nefndin á framfæri við settan saksóknara nöfnum fjögurra manna af þessum sjö sem voru nefndir í II. kafla að framan, þ.e. þriggja fv. bankastjóra Seðlabanka Íslands og fv. forstjóra FME. Settur saksóknari svaraði 7. júní með bréfi og sendi frá sér fréttatilkynningu [24] sama dag og segir þar: „Niðurstaða setts saksóknara er að umfjöllunarefni og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis … gefi að svo stöddu [leturbreyting mín, ÞG] ekki tilefni til að efna til sakamálarannsókna á hendur Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni, Ingimundi Friðrikssyni og Jónasi Fr. Jónssyni.“ Engin gögn eru tilfærð í bréfinu til að skýra þessa niðurstöðu sem gengur í berhögg við niðurstöðu RNA en hún var vel rökstudd eins og ráða má af því að Landsdómur féllst á hliðstæða niðurstöðu RNA varðandi Geir H. Haarde fv. forsætisráðherra. Aðeins tvö tilvik eru tilgreind í bréfi setts saksóknara, annað vegna viðbragða Seðlabankans við erindi Landsbankans í ágúst 2008 varðandi aðstoð við flutning Icesave innlánsreikninga úr útibúi yfir í dótturfélag og hitt vegna afgreiðslu Seðlabankans á erindi Glitnis varðandi lán til Glitnis í september 2008, erindi sem var einnig hafnað. Lán Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008 kom ekki til álita í bréfi setts saksóknara. Orð hans „að svo stöddu“ þarf að skoða í því ljósi. Þar eð nýjar upplýsingar hafa komið fram með opinberun símtalsins 6. október 2008, sýnist einboðið að niðurstaða setts saksóknara hafi verið reist á veikum forsendum og þarfnist því endurskoðunar.

Ísland er við vatnaskil. Fólkið í landinu á það á hættu að í augum umheimsins festist orðið „mafíuríki“ við Ísland svo sem orðið er nú notað í umræðum t.d. um Möltu, Rússland, Ungverjaland og Úkraínu. [25] Hættan stafar af því að lögbrot eru hér og hafa lengi verið látin viðgangast í stórum stíl eins og ég hef lýst hér að framan. Játningar liggja fyrir í sumum málum að segja má, trúverðugir vitnisburðir í öðrum. Sökudólgar verjast með því að kenna þeim um sem segja útlendingum frá lögleysunum og spillingunni frekar en að þegja. [26]

 

VI. Hleranir og brottkast

Ég kalla það játningu þegar höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins skrifar um símahleranir eins og tilgreint var í III. kafla. Meintar ólöglegar símahleranir hafa aldrei verið gerðar upp þrátt fyrir marga vitnisburði um þær. [27] Menn hafa skýlt sér á bak við lögboðna þagnarskyldu þótt hún eigi aðeins við um löglegar hleranir skv. dómsúrskurði. Engum ber skylda til að þegja um ólöglegar hleranir, öðru nær.

Þór Whitehead lýsir svo atburðum frá 1976 (bls. 83): „Sigurjón Sigurðsson [lögreglustjóri, innskot mitt, ÞG] sótti um starf hæstaréttardómara og taldi sig fá vilyrði fyrir því embætti. Um leið taldi hann tíma til kominn að farga mestum hluta af því skjalasafni, sem lögreglan hafði komið sér upp um kommúnista. Bjarki Elíasson segir, að Sigurjón hafi … ekki viljað láta eftirmanni sínum eftir þessa arfleifð … Ekki er heldur að efa, að Sigurjón hefur viljað forðast að vitnaðist um safnið eftir að hann var sestur í hæstarétt … Trúnaðarmaður Sigurjóns flutti því megnið af safninu, þ. á m. spjaldskrár, upp í sumarbústað sinn í nágrenni Reykjavíkur og brenndi gögnin til ösku í götóttri olíutunnu. Af varð „mikill reykur“, eins og haft var við orð í þeim fámenna hópi, sem vissi um þessa brennu.“ [28]

Annað dæmi er brottkast úr fiskiskipum. Margir sjómenn hafa áratugum saman lýst fyrir mér og öðrum miklu brottkasti. Yfirvöldin hafa þrætt fyrir brottkastið og kallað það smámuni, einnig þær stofnanir ríkisins sem ber skv. lögum að fylgjast með framfylgd laga um fiskveiðistjórn, laga sem banna brottkast. Nú loksins hafa starfsmenn Fiskistofu stigið fram og lýst ástandinu hreinskilnislega fyrir fréttamanni RÚV og leyft honum að birta myndir af brottkasti. [29] Starfsmennirnir vitna um bitlaust eftirlit og einnig um stórfelld brotamál sem hafa verið felld niður. Og þá rifjast upp mál mannsins sem fékk dóm fyrir brottkast sem hann sviðsetti til að hægt væri að birta myndir af því í sjónvarpinu til að vekja athygli á vandanum. [30] Eitt helzta einkenni mafíuríkja er að þar eru þeir sem segja frá brotunum teknir frekar en þeir sem fremja brotin.

 

VII. Umboðssvik, innherjasvik

Eitt dæmi enn varðar umboðssvik eða innherjasvik. Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins fékk fangelsisdóm fyrir innherjasvik, þ.e. fyrir að forða fé sínu úr banka á grundvelli innherjaupplýsinga. Eigi að síður hefur ákæruvaldið látið ýmis önnur hliðstæð mál afskiptalaus. Guðmundur Gunnarsson rafvirki og fv. stjórnlagaráðsmaður lýsti málinu nýlega í Stundinni 27. nóvember 2017: [31]

„… ríkisstjórninni og stjórn Seðlabankans var orðið ljóst að bankarnir myndu falla og ríkisstjórninni var eindregið ráðlagt að ganga í þessi mál áður en bankarnir myndu opna á mánudagsmorgun. Í gagnaleka sem birtist síðar kom hins vegar fram að áhrifamenn úr fjármála- og stjórnmálaheiminum fengu aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans … frestað fram á mánudagseftirmiðdag. Á mánudagsmorguninn hófust strax við opnun bankanna umfangsmiklir flutningar fjármagns út úr íslenska krónuhagkerfinu yfir á erlenda bankareikninga, eins og til dæmis var opinberað í gögnum sem sett voru í fjölmiðlabann. Þar var staðfest að þröngur hópur bjó yfir innherjaupplýsingum og náði að taka út lausafé í skiptum fyrir hlutabréf í bönkunum og koma því úr landi inn á leynireikninga á aflandseyjum. Í þetta var nýttur allur fáanlegur gjaldeyrir í landinu á mánudagsmorgun. Hlutabréf í bönkunum urðu skömmu síðar einskis virði …“

Þarna var þverbrotin sú grundvallarregla sem gildir um viðbrögð stjórnvalda í bankakreppum að miða allar aðgerðir við að bönkum sé lokað í dagslok á föstudegi og öllu sem gera þarf sé lokið fyrir opnun banka á mánudegi. Um þessa atburðarás er ekkert að finna í skýrslu RNA þótt gögnin sem var lekið úr Glitni til Stundarinnar fyrir nokkru og lögbann var sett á hljóti að hafa verið í fórum RNA. Þarna virðast hafa verið framin alvarleg brot sem hafa verið á margra vitorði og munu fyrnast 6. október 2018 nema rannsókn hefjist fyrir þann tíma. Eitt annað helzta einkenni mafíuríkja er að þar eru þegnarnir ekki jafnir fyrir lögum.

 

VIII. Vinahópur valdsins

Meðferð þessa máls hingað til er í samræmi við fyrri reynslu þar sem einn er settur inn fyrir annan, bakari er hengdur fyrir smið. Það gerðist t.d. í olíumálinu fyrir meira en hálfri öld þar sem sakir þess sökunautar sem mest átti undir sér fyrndust eða voru látnar fyrnast eins og áður kom fram. Einnig getur komið sér vel fyrir sakamenn að rannsókn misfarist eins og gerðist t.d. í málverkafölsunarmálinu sem mikilvægir stjórnmálahagsmunir voru bundnir við svo sem við er að búast í landi sem er gegnsýrt af stjórnmálum langt umfram viðtekna heilbrigðisstaðla í öðrum löndum. [32] Enn eru í umferð um 900 fölsuð málverk til mikils skaða fyrir fórnarlömb fölsunarfaraldursins, bæði listamenn sem hafa verið eignuð undirmálsverk og eigendur listaverka sem hrundu í verði. [33]

Alþingi lætur sér allt þetta í léttu rúmi liggja eins og kom í ljós þegar þingið samþykkti í desember 2012 að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu bankanna 1998–2003 en lét síðan ekki af slíkri rannsókn verða þrátt fyrir vísbendingar um að bankarnir hafi stundað fjárböðun fyrir Rússa auk annars. [34] Enn eitt einkenni mafíuríkja er áhugaleysi almannavaldsins á lögbrotum í vinahópi valdsins. Eitt einkenni enn er hótanir í garð blaðamanna og lögbann gegn fréttaflutningi þeirra.

Alþingi þarf án frekari tafar að hefja rannsókn á meintum umboðssvikum í hruninu til að girða fyrir yfirvofandi fyrningu. Skipun rannsóknarnefndar á vegum Alþingis myndi að vísu ekki í sjálfri sér girða fyrir fyrningu, enda hefur Alþingi ekki lagalegt boðvald yfir lögreglu eða saksóknurum. Slík skipun rannsóknarnefndar eða ályktun eða einfaldlega bréf frá þinginu til lögreglu og saksóknara eins og lýst var í II. kafla myndi eigi að síður senda skýr skilaboð til réttra yfirvalda. Og það gætu áskoranir af hálfu almennings einnig gert.

Hæstiréttur er óragur við umboðssvik. Um helmingur þeirra 35 einstaklinga sem Hæstiréttur hefur til þessa dæmt í samtals 88 ára fangelsi fyrir brot í tengslum við hrunið fékk dóm fyrir umboðssvik meðal annars. [35] Þessi 88 ár skiptast þannig milli stofnana: Kaupþing 32 ár, Glitnir 19 ár, Landsbankinn 11 ár, sparisjóðir 12 ár og aðrir 14 ár. Fjöldi ákærðra fyrir brot í tengslum við hrunið er 71, en þar eð sumir voru ákærðir oftar en einu sinni er fjöldi ákærðra einstaklinga án tvítalningar nokkru minni eða 53. Hæstiréttur hefur til þessa fjallað um mál 52 einstaklinga og fundið 41 sekan (79%) en sýknað 11 (21%). [36] Þar eð sumir voru fundnir sekir eða sýknaðir oftar en einu sinni er fjöldi dæmdra einstaklinga fyrir brot í tengslum við hrunið 35 eins og að framan greinir og fjöldi sýknaðra 10.

 

IX. „Vel tengdur glæpalýður“

Eftir hrunið 2008 varð fljótlega ljóst að þv. ríkisstjórn vildi ekki að erlendir aðilar kæmu að rannsókn málsins. Ég lagði það til í ræðu minni á borgarafundi í Háskólabíói 24. nóvember þá um haustið að óvilhallir útlendingar yrðu hafðir með í ráðum við rannsóknina og aftur í einkasamtali við ráðherra. Ég varð þess áskynja að við þetta var ekki komandi. [37] Ég var ekki einn um þessar áhyggjur. Jónas Kristjánsson ritstjóri skrifaði tæpu ári síðar, 28. september 2009, undir yfirskriftinni „Vel tengdur glæpalýður“: [38]

Jónas Kristjánsson

Jónas Kristjánsson: Frjáls og óháður

„Erlendir ráðamenn efast um, að Ísland geri upp sakirnar við glæpalýðinn, sem rústaði fjárhag og áliti landsins. Gera ráð fyrir, að sannleiksnefndin fræga stundi kattarþvott. Taka eftir, að enginn glæpamaður hefur verið settur inn, ekki einu sinni yfirmenn IceSave og Landsbankans. Ísland er talið vera eins konar mafíuríki, þar sem vel tengdur glæpalýður sleppur billega frá ofursyndum sínum. Samt er Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur formlega við völd. En hann ræður enn embættum og dómstólum og lögreglu og skilanefndum og sannleiksnefnd. Pólitíkin er máttvana, jafnvel þótt hér sé vinstri stjórn.“

Jóhann Hauksson tekur í sama streng í bók sinni Þræðir valdsins 2011. [39]

 

X. Erlend skrif um Ísland

Bakgrunnur þessara áhyggna Jónasar Kristjánssonar og margra annarra var m.a. fréttaflutningur erlendra fjölmiðla um Ísland, en landið hafði fram að hruni ekki verið í alfaraleið heimspressunnar. Hrunárið 2008 brá svo við að Financial Times í London birti 250 greinar um Ísland, Globe and Mail í Torontó birti 170 greinar, Guardian sem var áður kennt við Manchester og er nú heimsblað 130, Le Monde í París 110 og New York Times 75. [40] Erlendir fjölmiðlar [41] (og innlendir!) [42] fjölluðu m.a. um grunsemdir um að íslenzkir bankar hefðu stundað fjárböðun fyrir rússnesku mafíuna [43] og um tilraun þv. ríkisstjórnar og Seðlabankans til að komast hjá að þiggja aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með því að taka heldur risalán hjá Pútín Rússlandsforseta.  [44] Grunsemdirnar eru enn á sveimi m.a. vegna þess að Ísland kann að koma við sögu í rannsókn bandaríska saksóknarans Roberts Mueller á tengslum Trumps forseta og manna hans við Rússa, þ. á m. dæmda menn og mafíósa. [45]

Þetta er samt ekki allt. Fyrir liggur að miklu fé var mokað út úr bönkunum í miðju hruni, [46] bæði mánudaginn 6. október 2008 eins og leknu gögnin sem Stundin birti frá Glitni vitna um og lögbann var lagt á fyrir nokkru [47] og jafnvel einnig þriðjudaginn 7. október eins og Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hafa lýst. Þau skrifa [mín þýðing, ÞG]:[48]

„Meðan krónan var í frjálsu falli, gjaldeyrisforðinn var á þrotum og engar hömlur öftruðu útstreymi fjármagns, var gengið fest í fáeinar klukkustundir; þetta var e.t.v. stytzta fastgengisskeið sem sögur fara af. En það var nógu langt til þess að vel tengdir innherjar gátu fært fé sitt úr krónum yfir í gjaldeyri á miklu hagstæðara gengi en þeim myndi bjóðast síðar. Heimildir innan bankanna herma að milljarðar hafi flúið krónuna þessar klukkustundir. … Síðan var krónan sett á flot – og hún sökk eins og steinn.“

 

XI. Virðing Alþingis

Ótti við hvítþvott af hálfu Rannsóknarnefndar Alþingis reyndist ekki réttur. Nefndin skilaði góðu verki á heildina litið. Hitt er þó rétt að RNA tók á hvorugu málinu sem lýst er hér að framan, hvorki meintri fjárböðun fyrir Rússa né meintum mokstri fjár vel tengdra manna út úr bönkunum og út úr landinu í miðju hruni, þ.m.t. lán Seðlabankans til Kaupþings, meðan venjulegt fólk sat eftir með sárt ennið og sumir misstu aleiguna.

Yfirvöldin hafa haft nægan tíma til að rannsaka þessa atburðarás, en þau hafa kosið að leiða hana hjá sér. Tilfinnanlegust er e.t.v. vanræksla Alþingis sem samþykkti í desember 2012 að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu bankanna en ekkert bólar þó enn á slíkri rannsókn.

Svo vant sem Alþingi er að virðingu sinni getur það varla talið sæma að fagna 100 ára afmæli fullveldisins 1. desember 2018 með lúðraþyt og söng eftir að hafa látið fyrningarfrest meintra innherja- og umboðssvika í hruninu líða hjá sjö vikum fyrr vitandi vits – og stolið nýju stjórnarskránni í þokkabót. [49]

Rifjast nú upp fyrir mér spurningin sem einn helzti listamaður þjóðarinnar beindi til mín við kvöldverðarborð í heimahúsi: Datt ykkur ekki í hug að bjóða þeim að halda þýfinu í skiptum fyrir nýju stjórnarskrána? Ekki mitt að bjóða, svaraði ég.

 

XII. Ef refsileysi er reglan

Hér að framan hafa verið rakin gömul og ný dæmi um meint lögbrot sem margir vita um og stjórnmálahagsmunir voru og eru bundnir við og voru samt og eru látin afskiptalaus eða látin fyrnast. Meint brot í tengslum við einkavæðingu bankanna 1998–2003 fyrntust 2013, nokkrum mánuðum eftir að Alþingi samþykkti að skipa rannsóknarnefnd í málið. Með því að láta hjá líða að skipa nefndina gerði Alþingi sig sekt um að hindra óbeint framgang réttvísinnar sem væri lögbrot ef einstaklingur ætti í hlut frekar en Alþingi. Einnig voru nefnd til sögunnar nokkur meint brot tengd hruninu 2008 sem virðast nú vera í kunnuglegum fyrningarfarvegi með vitund og vilja yfirvalda. Klukkan tifar. Brýnt er að Alþingi og önnur yfirvöld læri af mistökum fyrri tíðar og láti hefja rannsókn á þessum málum til að girða fyrir fyrningu meintra brota og snúi með því móti af braut meðvitaðs refsileysis í málum sem tengjast stjórnmálum og skyldum viðskiptahagsmunum.

Í samtali við Jóhann Hauksson í júní 2009 lýsti Eva Joly refsileysi svo:

Jóhann Hauksson

Jóhann Hauksson.

„Að vera hafinn yfir lögin er merking þessa orðs. Þetta er stétt manna sem telur sig ekki þurfa að lúta reglum réttarkerfisins. Hún lítur svo á að lögin séu ekki ætluð þeim heldur öðrum. Í spilltum löndum mútar þessi stétt dómurum. Meðal þróaðra þjóða á Vesturlöndum mynda menn bræðrareglu innan þessarar stéttar. Lendi einhver þeirra bak við lás og slá koma reglubræður á vettvang og vitna um sakleysi eða sjúkdóma og þar með er viðkomandi sleppt. Ég hef tekið þátt í fjölþjóðlegu starfi lögfræðinga. Við tökum þessu sem meginreglu og viljum berjast gegn þessari mismunun, refsileysi hinna ríku og voldugu. Við höfum eitt nýlegt dæmi frá Frakklandi. 15. maí var kveðinn upp dómur yfir Charles Pasqua, fyrrverandi innanríkisráðherra, en hann er nú 82 ára. Hann hafði verið ákærður fyrir spillingu og fyrir að hafa komið undan sem svarar 170 milljónum króna. Þetta var hafið yfir allan vafa. Ríkislögmaður krafðist eins árs skilorðsbundins fangelsis. Í næsta réttarsal var verið að dæma 19 ára mann. Hann hafði stolið sem svarar 40 þúsund íslenskum krónum í matvörum. Viltu giska á hvaða dóm hann hlaut? Jú, eins árs fangelsi óskilorðsbundið. Íslenska þjóðin er sködduð og ég finn til samstöðu með henni og finn til með henni þegar ég hugsa til afleiðinganna af bankahruninu. Byrðarnar sem henni er ætlað að bera eru eins og eftir mikla styrjöld. Það er því mjög mikilvægt fyrir framtíðina að ábyrgðin sé dregin fram í dagsljósið og að menn verði dregnir fyrir rétt. Meira get ég ekki sagt um Ísland og hugsanlegt refsileysi að sinni þar sem ég á hlut að rannsókninni. En ekkert er mikilvægara fyrir Íslendinga nú en að þessi rannsókn gangi alla leið.“ [50]

Eva Joly hélt áfram: „… ég held að Ísland sé réttarríki. Sannleiksnefndir eru frekar verkfæri sem grípa þarf til í þróunarlandi. Maður setur ekki á fót sannleiksnefnd í réttarríki. Þar er stuðst við réttarkerfið sjálft. Maður dregur fólk fyrir dóm.“ [51]

Á það á e.t.v. eftir að reyna hvort unnt verður ef með þarf að skjóta refsileysi í málum með mikilvægu mannréttindaívafi til úrskurðar erlendra mannréttindadómstóla, t.d. Mannréttindadómstóls Evrópu, eða til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Getur hvaða kjósandi sem er í þéttbýlu kjördæmi talizt hafa lögvarða hagsmuni af jöfnu vægi atkvæða í kosningum? Getur hvaða Íslendingur sem er talizt hafa lögvarða hagsmuni af jafnræði í ráðstöfun rentunnar af auðlindum í þjóðareigu og af hagsýnni ráðstöfun almenningseigna? – t.d. gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Spurningar sem þessar gætu reynzt eiga erindi við dómstóla í ljósi örrar framþróunar mannréttinda.

Í „Nokkrum frumreglum um vernd og eflingu mannréttinda til að sporna gegn refsileysi“ (e. Set of Principles for the Protection and Promotion of Human Rights Through Action to Combat Impunity) sem lagðar voru fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna 8. febrúar 2008, er refsileysi lýst svo [mín þýðing, ÞG]: [52]

Það heitir refsileysi (e. impunity) þegar „ókleift reynist að lögum eða í reynd að láta meinta lögbrjóta sæta ábyrgð – hvort heldur í sakamálum, einkamálum, málum sem varða stjórnsýslulög eða agabrot – þar eð hinir brotlegu eru ekki látnir sæta rannsókn sem kynni að leiða til ákæru á hendur þeim, handtöku, lögsóknar og, teldist sök sönnuð, til refsingar að lögum og greiðslu skaðabóta til fórnarlamba.“

Fyrsta frumreglan í skjalinu hljóðar svo [mín þýðing, ÞG]:

Eva Joly

Eva Joly.

„Refsileysi stafar af því að ríkisvaldið vanrækir skyldu sína til að rannsaka meint lögbrot; til að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi meinta lögbrjóta, einkum innan réttarkerfisins, með því að tryggja að þeir sem grunaðir eru um ólöglegt athæfi séu ákærðir, yfir þeim sé réttað og þeir dæmdir til viðeigandi refsingar að lögum; til að veita fórnarlömbum virk réttarúrræði (e. effective remedy) og tryggja þeim þá um leið viðeigandi skaðabætur; til að tryggja ófrávíkjanlegan rétt til að sannleikurinn um lögbrot sé leiddur í ljós; og til að gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir ítrekuð brot.“

Þessar frumreglur þarf Alþingi í ljósi sögunnar að tileinka sér að fyrra bragði frekar en að eiga á hættu að erlendum dómstólum verði blandað í málið líkt og þegar mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gaf Alþingi bindandi fyrirmæli um að nema brotaþáttinn burt úr fiskveiðistjórnarkerfinu.

Mannréttindamál og baráttan fyrir mannréttindum hafa þróazt hratt undangengin ár. Fram undir aldamótin 2000 var megináherzla lögð á afhjúpun mannréttindabrota, þ. á m. valdníðslu gegn fólki sem hefur verið refsað eða jafnvel stungið inn fyrir skoðanir sínar og sætir að auki illri meðferð í fangelsi. Aðferðin var að segja frá: „Name them and shame them,“ eins og sagt er á ensku, beita þrýstingi. Baráttan beindist gegn brotlegu almannavaldi. Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 2007 varðandi fiskveiðistjórnkerfið á Íslandi var af þessum toga. Þar var mælt fyrir um breytingar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnarinnar og skaðabætur handa fórnarlömbum þeirrar mismununar sem mannréttindanefndin taldi brjóta gegn mannréttindum án þess að fyrirmælunum fylgdi heimild til að knýja á um framfylgd fyrirmælanna.

Frá aldamótum hefur áherzla mannréttindabaráttunnar færzt í auknum mæli yfir á vettvang sakamálaréttar. Nú er lögð þyngri áherzla en áður á baráttu gegn refsileysi með ákærum eða lögsóknum á hendur brotlegum einstaklingum. [53] Hér er hugsunin að reyna að efla mannréttindi með því að láta þá sem brjóta af sér sæta ábyrgð að lögum innan lands eða utan. Þessar áherzlur á annars vegar afhjúpun brota og hins vegar ráðstafanir gegn refsileysi skarast þar eð einstaklingar verða ekki dregnir til lagalegrar ábyrgðar nema fyrir tilstilli almannavaldsins, þ.m.t. réttarkerfið. Hér þarf eins og næstum alltaf að fara bil beggja.

 

XIII. Að lokum: Hvar liggur meinið?

Hér að framan hafa verið rakin ýmis atvik sem í heild sinni vitna um dauðadjúpar sprungur í innviðum íslenzks samfélags. Skýrar vísbendingar um lögbrot í tengslum við hermangið, símahleranir, brottkast, bankamisferli o.fl. hafa yfirvöldin oftast virt að vettugi, rannsókn mála hefur verið klúðrað (málverkafölsunarmálið) og meintar sakir hafa fyrnzt (einkavæðing bankanna). Eina umtalsverða undantekningin frá þessu mynztri er dómar Hæstaréttar yfir 35 mönnum vegna brota í tengslum við hrunið. Í þeim hópi fer þó meira fyrir smáfiskum en stórlöxum. Fv. formaður bankaráðs Landsbanka Íslands bíður dóms í Hæstarétti Frakklands en hefur hvergi komið við sögu íslenzkra dómsmála frá hruni. [54]

Það sem helzt virðist binda saman atvikin sem hér hafa verið rakin er einsleitni og samþjöppun ríkisvaldsins, þ.e. framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þar skortir tilfinnanlega valdmörk og mótvægi (e. checks and balances). Framkvæmdarvaldið sem styðst að vísu við meiri hluta Alþingis hefur jafnan haft öll ráð í hendi sér. Alþingi stóð til að mynda máttlaust hjá þegar tveir ráðherrar drógu Ísland upp á sitt eindæmi inn í stríð Bandaríkjanna gegn Írak 2003. [55] Þegar sömu tveir ráðherrar gagnrýndu dóm Hæstaréttar í Valdimarsmálinu 1998 sneri rétturinn við blaðinu 18 mánuðum síðar og bar fyrir sig sérsaumaða lagabreytingu sem sneiddi hjá kjarna málsins enda staðfesti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna 2007 fyrri dóminn í Valdimarsmálinu frá 1998. [56] Það var í Valdimarsmálinu að Hæstiréttur felldi úr gildi synjun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðileyfi sem Valdimar Jóhannesson hafði sótt um til ráðuneytisins til að láta reyna fyrir rétti á ójafnræðið í úthlutun aflaheimilda. [57] Enginn lagaprófessor í Háskóla Íslands fékkst til að skrifa undir yfirlýsingu 105 af 150 prófessorum Háskólans til varnar sjálfstæði Hæstaréttar gegn áhlaupi ráðherranna 1998. [58] Allir dómarar Hæstaréttar hafa sótt sömu lagadeild í Háskóla Íslands. Ef tíu ár af röskum 90 eru undan skilin, hafa dómsmálaráðherrar tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, skipzt á um að stýra dómsmálaráðuneytinu allar götur frá 1926 og haft skipan dómara á hendi sinni. Fimm af hæstaréttardómurunum sex sem úrskurðuðu kosninguna til Stjórnlagaþings 2010 ógilda höfðu verið skipaðir í réttinn af Sjálfstæðisflokknum sem reyndist síðan vera höfuðandstæðingur nýrrar stjórnarskrár. Undangengin ár hefur það gerzt nokkrum sinnum að hlutdrægni dómsmálaráðherra við skipun í dómaraembætti hefur bakað ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart hæfari umsækjendum sem ráðherra gekk fram hjá. Nýlega úrskurðaði Hæstiréttur að dómsmálaráðherra braut stjórnsýslulög við skipun í dómaraembætti en ráðherrann lætur engan bilbug á sér finna. [59]

Ekkert þessu líkt gæti gerzt í nokkru nálægu landi. Almenningur ber eftir því lítið traust til dómskerfisins. Frá aldamótum fram að hruni 2008 treysti rösklega þriðjungur viðmælenda Capacents dómskerfinu og Alþingi, en frá hruni til þessa hafa 30% til 40% áfram sagzt treysta dómskerfinu borið saman við 10% til 20% sem segjast treysta Alþingi. [60]

Alþingishúsið

Alþingishúsið

Svo virðist nú sem löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið ætli sér að virða einnig að vettugi nýjar upplýsingar um meint umboðssvik með gáleysislegri meðferð almannafjár (Kaupþingslánið 6. október 2008) og um vanrækslu í skilningi laga sem birtist í meintum fjáraustri vel tengdra manna úr bönkunum í miðju hruni. Fyrra brotið getur varðað allt að níu ára fangelsi, þ.e. sex ára hámarksrefsingu fyrir umboðssvik skv. 249. gr. hegningarlaga með 50% álagi þegar opinber starfsmaður á í hlut skv. 138. gr. sömu laga. Ef Alþingi og ríkisstjórn, lögregla og saksóknarar leyfa þessum málum að fyrnast 6. október 2018 frekar en að hefja rannsókn þeirra, þá er illt í efni. Heggur sá er hlífa skyldi ef löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið taka höndum saman um að hefta framgang réttvísinnar. Má af þessu ráða nauðsyn þess að ný stjórnarskrá nái án frekari tafar fram að ganga með skarpari skilum milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds.

 

Tilvísanir

[1] Prófessor í hagfræði í Háskóla Íslands. Þessi ritgerð er að stofni til og efnislega samhljóða fjögurra greina flokki sem birtist í Fréttablaðinu 23. og 30. nóvember og 7. og 14. desember 2017 undir yfirskriftinni Samstæð sakamál I, II, III og IV. Textinn hefur verið aukinn talsvert með ýmsum viðbótum til áréttingar og fyllingar. Kaflinn um refsileysi er nýr og einnig lokakaflinn. Ég er þakklátur fáeinum sagnfræðingum og öðrum fræðimönnum og einnig fv. dómurum fyrir að lesa textann yfir á báðum vinnslustigum og veita mér gagnlegar ábendingar þótt ég kjósi í ljósi efnisins og efnistaka minna að nefna engin nöfn af nærgætni við þessa félaga mína og fjölskyldur þeirra.

[2] Morgunblaðið sagði frá bókinni 6. desember 1990: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/60408/.

[3] Sjá Gylfi Þ. Gíslason, „Marshalláætlunin“, Almanak Hins íslenzka þjóðvinafélags, 1949, bls. 38–52. Sjá einnig https://is.wikipedia.org/wiki/Marshall%C3%A1%C3%A6tlunin.

[4] Ég taldi einnig rétt að gera sérstökum saksóknara grein fyrir frásögn Kristjáns sem náði meira en hálfa öld aftur í tímann og snerist um þrjú mál: hermang, bankamisferli og símahleranir. Fyrir mér vakti að sérstakur saksóknari hefði þá e.t.v. betri tök á að setja verkefni sín vegna hrunsins í sögulegt samhengi. Kristján sagði mér á fundi okkar að hefði hann fengið að ljúka rannsókn sinni á miðmálinu svo sem efni stóðu til hefði það gert út af við báða helmingaskiptaflokkana – hans orð, ekki mín. Hann sagði mér að lögreglubækurnar, þ.e. skráðar upplýsingar um gang rannsóknarinnar þar til hún var lögð niður, ættu enn að vera til enda væri lögbrot að farga slíkum gögnum.

[5] Í minningargrein um Kristján Pétursson í Morgunblaðinu 13. janúar 2011 sagði þv. ríkissaksóknari m.a.: „Þannig hafa margir orðið vitni að því, að aðilar, sem vitað var að reyndu allt til að komast að kjötkötlunum og taka þátt í dansinum kringum gullkálfinn, voru fyrstir og harðastir til að fordæma allt eftir hrun bankanna.“ Ekki er vitað við hverja hann átti. Sjá http:// www.mbl.is/greinasafn/grein/1364094/.

[6] Sjá http://www.visir.is/g/200930346648/raetur-hrunsins.

[7] Sjá frétt RÚV 21. nóvember 2017: http://www.ruv.is/frett/myndbond-syna-itrekad-og-mikidbrottkast.

[8] „Lokasenna í Landsbankamáli“, 18. desember 2012, http://www.visir.is/g/2012712189943.

[9] „Örlítil athugasemd,“ 17. febrúar 2010, http://visir1.365cdn.is/g/2010891323330/orlitil-athugasemd-.

[10] Sjá ritstjórnarpistil DV 20. apríl 2009: http://www.dv.is/frettir/2009/4/20/sverrir-hermannsdavid- vildi-styrmi-gjaldthrota/.

[11] Sjá aftur nmgr. 6.

[12] Sjá Rannsóknarnefnd Alþingis (2010), „Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis“, 7. bindi, bls. 316–318, en þar segir (bls. 317): „Sýndi Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, þannig af sér athafnaleysi … Verður þetta athafnaleysi hans talið honum til vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr, 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.“ Auk hans taldi RNA þrjá ráðherra (bls. 312–316) og alla þrjá bankastjóra Seðlabanka Íslands (bls. 318–312) seka um vanrækslu í skilningi laga.

[13] Sjá http://www.visir.is/g/2017170909502.

[14] Um tengsl sósíalista við Sovétríkin segir Þór Whitehead (bls. 75): „Vitað er með vissu, að sovétstjórnin greiddi Sósíalistaflokknum reglulega úr einum leynisjóði sínum 1956–1966, alls eitt hundrað þúsund Bandaríkjadali en það samsvarar nú rösklega 40 milljónum króna. Leynilögreglan, KGB, annaðist þessar greiðslur, grænu dalirnir kunna að hafa verið afhentir fulltrúa flokksins í sovétsendiráðinu og seldir hér á svörtum markaði fyrir margfalt hærri upphæð en opinbert gengi segir til um.“ Sjá Þór Whitehead (2006), „Smáríki og heimsbyltingin – Um öryggi Íslands á válegum tímum“, Þjóðmál, 3. hefti, bls. 55–85. Sjá ritgerð Þórs: https://timarit. is/view_page_init.jsp?pageId=6651127.

[15] Líftaug landsins – saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010, Forlagið, Reykjavík, 2017. Höfundar: Anna Agnarsdóttir, Gísli Gunnarsson, Guðmundur Jónsson, Halldór Bjarnason (d. 2010), Helgi Skúli Kjartansson og Helgi Þorláksson.

[16] Sjá Halldór B. Runólfsson, „Þankar um málverkafalsanir“, Tímarit Máls og menningar, 2000, 1. hefti, bls. 26–35. Lögmannafélagið hélt námskeið 2011 „um fölsun listaverka út frá sjónarhorni forvarðar og lögmanns“, sjá http://lmfi.is/fyrir-logmenn/namskeid/nr/4284/.

[17] Sjá frétt Pressunnar 15. janúar 2014: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/radstafanir-gegnmalverkafolsun— yfir-900-folsud-myndverk-i-umferd.

[18] Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Thoroddsen – Ævisaga, JPV, Reykjavík, 2010. Á vefsetri Guðna Th. Jóhannessonar segir um Gunnar: „Og vart ætlaðist hann til að upplýsingar um atkvæðakaup og ýmiss konar fyrirgreiðslu kæmu fyrir almennings sjónir.“ Sjá http://gudnith.is/efni/ kafli_úr_bókinni_6.

[19] Sjá Silja Aðalsteinsdóttir, Allt kann sá er bíða kann – Æsku- og athafnasaga Sveins R. Eyjólfssonar, Mál og menning, Reykjavík, 2017. Sjá einnig Jakob F. Ásgeirsson, Alfreðs saga og Loftleiða, Iðunn, Reykjavík, 1984; Jón Óttar Ragnarsson, Á bak við ævintýrið, Iðunn, Reykjavík, 1990; Einar Kárason, Jónsbók – Saga Jóns Ólafssonar athafnamanns, Edda, Reykjavík, 2005; Arnþór Gunnarsson, Guðni í Sunnu – Endurminningar og uppgjör, Edda, Vaka-Helgafell, Reykjavík, 2006; og Sigmundur Ernir Rúnarsson, Allt mitt líf er tilviljun – Ævintýralegt lífshlaup Birkis Baldvinssonar úr saggafullum kjallara í hæstu byggingu heims, Veröld, Reykjavík, 2016.

[20] Sjá frétt Morgunblaðsins 3. júlí 2003: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/739745/.

[21] Sjá frétt á visir.is 5. janúar 2011: http://www.visir.is/g/2011442933641.

[22] Sjá frétt RÚV 19. október 2016: http://ruv.is/frett/kastljos-i-kvold-simtal-davids-og-geirs.

[23] Rannsókn á gagnalekanum úr Glitni bar ekki árangur og var lögð niður í janúar 2018.

[24] Sjá bréfið og fréttatilkynninguna: https://www.mbl.is/media/42/2142.pdf.

[25] Sjá t.d. Maria Snegovaya, „The Implications of Russia’s Mafia State“, The American Interest, 23. desember 2015, https://www.the-american-interest.com/2015/12/23/the-implications-ofrussias- mafia-state/.

[26] Sjá frétt á visir.is 28. október 2017: http://www.visir.is/g/2017171028772.

[27] Þorvaldur Gylfason, „Að hlera síma“, DV, 23. nóvember 2014. Sjá http://www.dv.is/blogg/thorvaldur- gylfason/2014/11/23/ad-hlera-sima/.

[28] Sjá tilvísun í nmgr. 13.

[29] Sjá mynd RÚV: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/kveikur/20171121.

[30] Sjá frétt Morgunblaðsins 16. nóvember 2001: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2001/11/16/ segir_brottkastid_hafa_verid_svidsett_ad_hluta/.

[31] Sjá https://stundin.is/grein/5832/skyldusparnadi-launamanna-bjargad/. Sjá einnig Karl Th. Birgisson, Hinir ósnertanlegu, saga um auð, völd og spillingu, Herðubreið, Reykjavík, 2017.

[32] Sjá tilvísanir í nmgr. 15, 16 og 21. Formaður stjórnar Gallerís Borgar sem seldi mörg fölsuð málverk var einnig um skeið formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokka. Sjá fréttir Morgunblaðsins 3. júlí 2003: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/739706/ og 14. ágúst 2010: http://www.mbl.is/frettir/innlent/ 2010/08/14/galleri_borg_grunad_um_ad_selja_falsad_verk/.

[33] Sjá frétt RÚV 7. desember 2016 „Segir nafn Svavars Guðnasonar eyðilagt“, http://www.ruv.is/ frett/segir-nafn-svavars-gudnasonar-eydilagt.

[34] Sjá frásögn dr. Gary Busch: http://www.academia.edu/11142945/Iceland_The_Russian_Connection.

[35] Sjá greinargerð eftir Jennýju Stefaníu Jensdóttur á vefsetri Gagnsæis, Samtaka gegn spillingu, http://www.gagnsaei.is/2017/12/29/domar1/.

[36] Til samanburðar var réttað yfir 65 einstaklingum í héraði og voru 32 fundnir sekir en 33 voru sýknaðir. Hæstiréttur ógilti þrjá sektardóma og vísaði þrem sýknudómum aftur í hérað.

[37] Í marz 2010 réð sérstakur saksóknari Evu Joly til ráðgjafarstarfa sem hún gegndi fram í október 2011.

[38] Sjá Jónas Kristjánsson, http://www.jonas.is/vel-tengdur-glaepalydur/.

[39] Sjá Jóhann Hauksson, Þræðir valdsins. Kunningjaveldi, aðstöðubrask og hrun Íslands, Veröld, Reykjavík, 2011. Sjá samandregið yfirlit höfundar: http://www.dv.is/blogg/johann-hauksson/ 2012/4/7/thraedir-valdsins/. Sjá einnig grein Jóhanns „Tilvera ofar lögunum“, DV, 23. september 2010.

[40] Daniel Chartier, The End of Iceland‘s Innocence: The Image of Iceland in the Foreign Media during the Financial Crisis, Ottawa University Press, Ottawa, 2011.

[41] Sjá tilvísun í nmgr. 34.

[42] Sjá ritstjórnargrein DV 12. febrúar 2009: http://www.dv.is/frettir/2009/2/12/stundar-peningathvaetti- islandi/.

[43] Sjá tilvísun í nmgr. 22.

[44] Sjá frétt Morgunblaðsins 7. október 2008: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2008/10/07/sedlabankinn_ faer_lan_fra_russlandi/.

[45] Paul Fontaine, „Bloomberg Column Suggests Mueller “Check Out Iceland”“, Grapevine, 5. júlí 2017. Sjá https://grapevine.is/mag/articles/2017/07/05/bloomberg-column-suggests-muellercheck- out-iceland/.

[46] Sjá t.d. greinar Stefáns Ólafssonar „Kaupþingslánið – svörin sem vantar“ 23. febrúar 2015, http:// blog.pressan.is/stefano/2015/02/23/kaupthingslanid-svorin-sem-vantar/, og „Kaupþingslánið: Hvers vegna var það veitt?“ 22. nóvember 2017, http://blog.pressan.is/stefano/2017/11/22/kaupthingslanid- hvers-vegna-var-thad-veitt/.

[47] Sjá frétt Stundarinnar 6. október 2017: https://stundin.is/grein/5550/.

[48] Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, “Lessons from Iceland”, New Left Review, 65, september/október 2010, bls. 22.

[49] Sjá The Icelandic Federalist Papers, nýtt vefsetur á vegum Berkeley-háskóla í Kaliforníu þar sem ýmsar hliðar nýju stjórnarskrárinnar eru reifaðar og stöðu málsins er lýst: https://escholarship. org/uc/igs_ifp.

[50] „Ég gerði samning við þjóðina“, samtal Jóhanns Haukssonar við Evu Joly, DV, 12. júní 2009, bls. 18, https://tryggvigunnarhansen.blog.is/blog/tryggvigunnarhansen/entry/900701/.

[51] Bandaríkin hafa lengi haft orð á sér fyrir jafnræði gagnvart lögum, en það orðspor kann að hafa breytzt. Sjá Jesse Eisinger, The Chickenshit Club – Why the Justice Department Fails to Prosecute Executives, Simon and Shuster, New York, 2017.

[52] Sjá http://derechos.org/nizkor/impu/principles.html.

[53] Þessari þróun er lýst í nokkrum ritgerðum í Anti-Impunity and the Human Rights Agenda, ritstj. Karen Engle, Zinaida Miller og D.M. Davis, Cambridge University Press, 2016.

[54] Vilhjálmur Bjarnason fv. alþm. og hluthafi Landsbankans segir í grein í Morgunblaðinu 9. júní 2017: „Formaður bankaráðs Landsbankans var með skrifstofu á milli bankastjóra bankans og hafði þar daglega móttöku fyrir viðskiptavini bankans sem bankastjóri væri.“ Sjá https://www. mbl.is/greinasafn/grein/1642875/?t=172525925&_t=1515114445.33.

[55] Sjá grein Hans Kristjáns Árnasonar í Morgunblaðinu 20. desember 2004, https://www.mbl.is/ greinasafn/grein/835764/.

[56] Sjá Þorvaldur Gylfason, „Hvað segja lögin? Sameignarauðlindir eru mannréttindi“, Ragnarsbók – Fræðirit um mannréttindi, afmælisrit til heiðurs Ragnari Aðalsteinssyni hrl., 2009, bls. 497–522. Sjá úrskurð mannréttindanefndar SÞ í íslenzkri þýðingu: http://mhi.hi.is/haraldsson_ og_sveinsson_gegn_islandi.

[57] Sjá ræðu Valdimars Jóhannessonar í Hæstarétti: https://notendur.hi.is/gylfason/ValdimarHaestarettarmal. pdf.

[58] Sjá yfirlýsingu prófessoranna: https://notendur.hi.is/gylfason/_borders/pdf/YFIRLYSING.pdf.

[59] Sjá grein Þórðar Snæs Júlíussonar „Hæstiréttur segir dómsmálaráðherra hafa brotið gegn stjórnsýslulögum“ í Kjarnanum 19. desember 2017, https://kjarninn.is/skyring/2017-12-19- haestirettur-segir-domsmalaradherra-hafa-brotid-gegn-stjornsyslulogum/.

[60] Sjá https://datamarket.com/is/data/set/1wb6/traust-til-stofnana-skv-thjodarpulsi-capacent#!ds= 1wb6!1xyh=1.5&display=line.