Guðmundur Óskarsson. Bankster.

Ormstunga, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010.

 

BanksterÞegar má tala um nokkurskonar bókmenntagrein á Íslandi sem kalla mætti „hrunbókmenntir“, það er að segja skáldverk sem fjalla beinlínis um tímabilið rétt fyrir og eftir hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 og þær afleiðingar sem það hefur haft. Skáldsaga Guðmundar Óskarssonar, Bankster, fyllir þennan flokk ásamt fleiri verkum sem þegar hafa litið dagsins ljós. Í fljótu bragði koma upp í hugann tvær aðrar skáldsögur frá árinu 2009, þótt ólíkar séu, það er að segja Gæska Eiríks Arnar Norðdhal, og Vormenn Íslands eftir Mikael Torfason. Vafalaust mætti nefna fleiri verk frá síðasta ári í þessu samhengi.

Titillinn, Bankster, er augljóslega dregin af enska orðinu „gangster“, það er að segja glæpamaður og vísar á íronískan hátt til þess álits sem bankamenn hafa notið í þjóðfélaginu í kjölfar hrunsins og sjálfsmyndar þeirra. Titillinn gefur fyrirheit um að hér sé á ferðinni uppgjör bankamanns sem lék stóra rullu í því sjónarspili sem uppgangur og fall íslensku bankanna var. Því er þó ekki beinlínis að heilsa, nema að því leyti að Markús, aðalpersóna og sögumaður skáldsögunnar, er þátttakandi í taflinu. En hann er miklu frekar peð í þessu tafli – fórnarlamb í þessum hamförum – og þegar hann hefur misst vinnuna í bankanum og stendur frammi fyrir gjörbreyttri stöðu, þarf hann að endurmeta líf sitt. Það endurmat snýst um það hvort hann hafi valið sér rétta braut hvað menntun og starf varðar, en beinist þó ekki síður að Hörpu, sambýliskonu hans sem einnig starfar í banka og missir vinnuna.

Formálinn

Bókin er tvískipt. Hún hefst á formála sem er uppskrift símtala Markúsar við foreldra sína, einkum föðurinn, rétt fyrir hrunið. Í framhaldinu hefst svo meginhluti frásagnarinnar í formi dagbókar sem Markús heldur í atvinnuleysi sínu í kjölfar hrunsins.

Símtölin uppskrifuðu einkennast af spurningum föður Markúsar um „ástandið“ í aðdraganda hrunsins. Þetta er ansi snjöll og kröftug byrjun á bókinni, því með þessum hversdagslegu samtölum kemst ýmislegt forvitnilegt til skila, bæði um bakgrunn Markúsar og viðhorf hans fyrir sjálft hrunið. Á afar lágstemmdan hátt er til dæmis fjallað um þær blekkingar sem haldið var að almenningi fram í rauðan dauða bankanna í kjölfar „guð blessi Ísland“- ávarps Geirs Haarde forsætisráðherra þann 6. október 2008.

Foreldrar Markúsar búa í litlu sjávarþorpi út á landi. Þau eru eins og hverjir aðrir almennir borgarar á Íslandi sem skynja að eitthvað er ekki eins og það á að vera en hafa engar forsendur til að átta sig fyllilega á því. Spurningar föðurins og svör Markúsar leiða einnig í ljós hve lítið starfsmenn á borð við hann vissu. En svörin leiða líka í ljós hve bjartsýnin og trúin á hið ofvaxna bankakerfi var óbilandi. Grípum niður í samtal þeirra feðga föstudaginn 3. október 2008, fáum dögum eftir að ríkið yfirtók Glitni:

– Hefurðu áhyggjur?
– Ég er ekkert að drepast úr þeim. Landsbankinn og Glitnir eru svo ólík fyrirtæki,
bæði bankar en ótrúlega ólík fyrirtæki.
– Við skulum vona það.
– Trúum því. Það er bara þannig.
(bls. viii-ix)

Þetta stutta brot úr samtali feðganna lætur ekki mikið yfir sér en það kallast á við eitthvað stærra og meira sem mann rámar í að hafa heyrt óma í fjölmiðlum þessa daga. Reynt var að telja fólk á að trúa því skilyrðislaust að allt myndi blessast. Guð myndi blessa Ísland og ef ekki hann, þá að minnsta kosti snarræði ráðherranna. Því hvert leitar örvæntingarfullur maður annað en í trúna,
hvort sem það er trúin á markaðsöflin eða á guð?

Dagbókin

Dagbókarskrif Markúsar sem fylgja í kjölfar formálans eru ekki tilkomin að hans eigin frumkvæði. Fljótlega eftir atvinnumissinn hefur gamall vinur, sagnfræðingurinn Vésteinn, samband og þeir hittast á kaffihúsi til að fara yfir stöðuna. Vésteinn hvetur Markús til að halda dagbók, og raunar líka til að fjalla um síðustu dagana í bankanum í formála, til að hjálpa honum „að halda utan um lífið á þessum trylltu tímum, [því] það væri svo auðvelt að missa jafnvægið og fyllast af svartsýni“ (bls. 3). Þótt Markús taki vel í þessa tillögu, og fari augljóslega eftir henni, grunar hann að einhverskonar fræðilegur áhugi sagnfræðingsins fyrir því að skapa samtímaheimildir um hrunið búi að baki. Þótt Markús nefni það ekki berum orðum má ætla að doktorsverkefni Vésteins eigi þar hlut að máli því það fjallar um pólitísk átök á Sturlungaöld.

Grunur Markúsar er reyndar ekki fjarri lagi því Vésteinn verður að nokkurskonar lesanda til að byrja með og les fyrstu færslu dagbókarinnar á næsta fundi þeirra. Síðar virðist hann allt að því líta á sig sem ritstjóra dagbókarinnar:

Við vorum að tala um spennuna í samfélaginu þegar hann spurði hornrétt á umræðuefnið hvernig gengi með bókina. Ég mundi ekki eftir að hafa sagt honum frá neinni bók og bað hann að útskýra. „Bókina sem þú ert að skrifa.“ Ég sagði honum að ég væri hættur að halda dagbók en farinn að skrifa minnisbók, það væri reyndar sama bókin, þetta væri tæknilegt skilgreiningaratriði [..] Vésteinn brosti og spurði hvort hann mætti ekki sjá […] Hann sagði ekkert þegar hann var búinn, lokaði bara bókinni, sneri henni í hendinni og horfði á brúnina eins og til að sjá hvað ég væri kominn með margar blaðsíður, horfði þar til hann rétti mér hana með orðum sem slógu mig utan undir: „Ég ráðlagði þér að halda dagbók en … mér sýnist þú gera ráð fyrir lesanda í framtíðinni, Markús, og það … nei , haldu bara áfram að kannast ekkert við að þú sért að skrifa bók, ég held það sé auðveldara ómeðvitað“ (bls. 41).

Þessi orð Vésteins hafa samt þau áhrif að Markús fer að ritstýra sjálfum sér. Yfirfara textann, leiðrétta og lagfæra aftur í tímann. Þar með er kominn innbygður lesandi í verkið fyrir tilstilli sagnfræðingsins. Dagbókin er orðin að einhverju öðru í huga Markúsar en persónulegum skrifum í þerapískum tilgangi. Hann verður meðvitaður um að hann sé ekki að skrifa fyrir sjálfan sig eingöngu. Þetta vekur aftur spurningar um formálann, því strax í fyrstu færslu dagbókarinnar tekur Markús fram að hann geti ekki skrifað formála um síðustu dagana í bankanum því „þeir renna allir saman í gráa slettu í höfðinu“ (bls. 3). Þeirri hugmynd er því lætt að lesandanum að e.t.v. hafi dagbókin orðið að bókinni sem Markús vill ekki kannast við að hann sé að skrifa og sú bók er e.t.v. sjálf skáldsagan Bankster.

Skrif Markúsar taka talsverðum breytingum þegar á líður. Dagbókin verður skáldlegri, í stað dagsetninga fara einstaka færslur að bera titla eins og „Hrafnarnir“ og „Snjóflyksusaga“. Á einum stað skiptir Markús meira að segja yfir í þriðju persónu frásögn. Þetta er í þremur færslum sem hann kallar „Án titils“ með viðeigandi númerum frá eitt og upp í þrjú. Annar kafli sem vert er að minnast á í þessu samhengi er sagan af Valentine, vændiskonu í London sem tekur 400 pund fyrir nóttina. En frásögn Markúsar af samskiptum sínum við Valentine reynist vera skáldskapur:

Ég velti því fyrir mér hvort ég væri áhugaverðari persóna ef Valentine hefði verið raunveruleg, ekki bara hugarburður úr penna […] Og það er skrýtið – samt ekki mjög – en mér finnst hálfpartinn, og allt í einu súrt að viðurkenna að mér þótti best af öllu að fara eftir fundi dagsins og setjast á bekk í St. Jame‘s Park, horfa á óvenjulega fugla á tjörninni, grátviðinn teygja sig að vatnsfletinum […] meðan ég beið eftir að komast heim (bls. 145).

Þessi uppdiktaða saga af stefnumótum við háklassa vændiskonu eftir bankafundi í London er kannski tilraun Markúsar til að máta sig við hlutverkið sem titill bókarinnar ber með sér og þá ímynd sem útrásarvíkingar hafa sem siðlausir gjálífismenn. Hið mikilvæga er þó að líkt og svo margt annað í dagbókarfærslum hans snýst þessi saga um að ná áttum í sambandinu við Hörpu, finna út hvað það var sem fékk hann til að langa að komast heim. Og hér er í raun komið að kjarna málsins hvað bókina varðar. Hún er fyrst og fremst saga um samband pars sem hefur ratað í ógöngur.

Sambandið og eftirsjáin

Dagbókarskrif Markúsar spanna tímabilið frá 9. október 2008 til 23. apríl 2009. Með öðrum orðum frá hruni, fram yfir búsáhaldabyltingu og allt fram að kosningum. Þessir stóru sögulegu atburðir mynda bakgrunn frásagnarinnar – nokkurskonar leikmynd. Því í raun er þessi skáldsaga fyrst og fremst ástarsaga. Í sjálfu sér væri hægt að stilla grundvallaratriðum frásagnarinnar upp með allt annan bakgrunn: Par sem lifir góðu lífi, skortir ekkert, er hamingjusamt og gæfuríkt allt þar til óvæntir atburðir eiga sér stað sem neyðir það til að horfast í augu við að líf þess hefur byggst á blekkingu. Á hinn bóginn gefur fyrrnefndur bakgrunnur, þ.e. hrunið, búsáhaldabyltingin og eftirmálar hennar, þessari tiltölulega einföldu ástarsögu aukinn þunga.

Stundum er talað um að áfallið sem fólk verður fyrir við atvinnumissi komi næst á eftir því að missa ástvin. Sjálfsagt segir það meira en mörg orð um hve stór hluti sjálfsmyndar vesturlandabúa byggir á launavinnunni. Atvinnumissir Markúsar, og skömmu síðar Hörpu, skapar tómarúm í tilveru þeirra. Það skiptir örugglega máli að áfallið er nokkuð stærra en gengur og gerist um atvinnumissi því starfsvettvangur þeirra eins og hann leggur sig hrynur – og þau eru fyrirlitin af samborgununum, banksterar. Bæði draga þau sig inn í skel sína. Markús leitar aðallega á náðir dagbókarinnar og bókmenntalesturs, en nær litlu sambandi við fyrrum starfsfélaga sína sem hittast öðru hvoru á nokkurskonar peppfundum. Harpa reynir hvað hún getur að virðast upptekin og fær reyndar tímabundið vinnu í forfallakennslu. Þau gátu verið bankapar á meðan allt lék í lyndi, speglað sig saman og hvort í sínu lagi í því gervi en þeim virðist hins vegar um megn að vera saman þegar þau hafa ekkert slíkt gervi að íklæðast og standa nakin frammi fyrir hvort öðru. Til að fylla upp í tómarúmið er nánast eins og þau geri sitt ýtrasta til að hittast ekki meira en þau gerðu áður en áfallið dundi yfir. Þau finna hvort sína rútínuna, líkt og í örvæntingarfullri tilraun til að halda sama takti og áður í samskiptunum. Slíkar tilraunir eru þó aðeins blekkingarleikur og smátt og smátt fjarlægast þau hvort annað. Og neyðast til að horfast í augu við brestina í sambandinu sem tómarúmið framkallar.

Þessi persónulega kreppa hjónaleysanna fylgir ástandinu í þjóðfélaginu og endurspeglar það. Þannig sjáum við þjóðarsöguna endurspeglast í einstaklingasögunni, stóru söguna endurspeglast í hversdagslífinu. Í kringum 20. janúar verður svo nokkurskonar uppgjör þeirra á milli og í framhaldinu rifjar Markús upp sársaukafullan atburð frá upphafi samlífis þeirra. Einmitt um þetta leyti nær búsáhaldabyltingin hámarki, þ.e.a.s. 21. janúar og þá gerir Markús tilraun til að taka þátt í mótmælunum. Áður hefur hann að því er virðist viljað sem minnst vita af þeim, a.m.k. lítið fært til bókar um þau málefni í dagbókina. En þetta kvöld drífur hann sig af stað á Austurvöll:

Ég hafði mætt þarna til að steyta hnefa, mótmæla stöðunni og krefjast breytinga, en ég var á kolröngum stað, við jarðarför ókunnugs manns. Mér fannst ég asni að halda að ég gæti fengið eitthvað annað en útrás þarna fyrir framan Alþingishúsið, þau sem þar störfuðu höfðu ekkert með mín vandamál að gera, allavega gætu þau tæplega brugðist við áskorun minni um að spóla snöggvast sjö ár aftur í tímann og gefa mér annað tækifæri (bls. 106).

Þrá Markúsar eftir öðru tækifæri er auðvitað hluti af brotinni sjálfsmynd hans. Birtingarmynd þeirra bresta felst í efasemdum um að hann hafi valið rétta leið í lífinu.

Þessar efasemdir Markúsar birtist víða í dagbókarfærslunum og vegna þeirra leitar hugur hans sífellt meira aftur til fortíðarinnar, til að skilja sjálfan sig og samband þeirra Hörpu betur. Átakanlegt dæmi um þetta er örvæntingarfull tilraun hans til að „spóla snöggvast sjö ár aftur í tímann“ með því að reyna að nota lykilinn að íbúð þeirra Hörpu að gömlu íbúðinni sinni á Stúdentagörðunum. Flótti Markúsar á vit skrifa og bókmennta er ekki tilviljun því lesandanum er víða bent á að hugur hans hafi staðið til einhvers annars en viðskiptafræði og þaðan inn í banka. Á snyrtilegan hátt er bókmenntaáhugi Markúsar einnig notaður til að benda á hve mikið hjóm efnishyggjutilvera hjónaleysanna er. Þau eru áskrifendur í bókaklúbbi og ákveða í rælni að kaupa upp allan klúbbinn fram að þeim tíma sem þau gerast áskrifendur:

Um kvöldið þegar við vorum að taka plastið utan af bókunum kom í ljós að við höfðum keypt nokkrar sem við áttum fyrir. Harpa sagði að það væri í fínu lagi af því bækurnar væru svo litríkar og tækju sig vel út á dreif um svarta hillusamstæðuna. Ég var sammála […] Og vinahjón okkar voru sammála […] þau tóku nokkur skref frá bókunum, til að sjá þær betur, litu á hvort annað og töluðu lengi um „skemmtilega lausn“. Fljótlega eftir þetta skelltu þau sér í forlagsverslunina og keyptu sjö sett af ritröðinni, tæplega þrjúhundruð bækur, til að fylla smekklegu spíralvegghillurnar sem þau höfðu keypt um vorið og tóku sig ekki nógu vel út tómlegar.

[…]

Ég var hættur að sjá bækurnar í hillunum, þær voru hættar að vera bækur og orðnar hluti af sviðsmyndinni. Þess vegna kom mér hálfpartinn á óvart þegar ég gat lagt fingur á eina þeirra og dregið hana til mín, kom mér á óvart að hún skyldi hvorki vera úr plasti né tré og ekki einu sinni föst við hinar bækurnar. Þetta var á miðvikudaginn. Ég er búinn að lesa fjórar bækur í vikunni. Það er örugglega persónulegt met (bls. 26–27).

Bankster er algjör samtímasaga. Hún er skrifuð í beint inn í samtíma sem mun líklega seint gleymast. Þetta er látlaus bók, lágmælt raunsæi. Í henni fer ekki fram kröftugt uppgjör eða hvöss gagnrýni á aðdraganda og eftirmála hrunsins. En þeim mun nöturlegri verður myndin sem hún dregur upp af af hugmyndum og viðhorfum nokkuð afmarkaðs hóps tiltekinnar kynslóðar sem tók sín fyrstu skref í atvinnulífinu og naut góðs af blekkingarleik efnhagsuppgangsins á Íslandi á fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

 

Ingi Björn Guðnason