Eftir Lindu Ólafsdóttur og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020

 

Starf myndhöfundarins er fjölbreytt og skemmtilegt, enda gefandi að gæða sögur lífi, skapa umhverfi og persónur, en á sama tíma getur starfið verið vanþakklátt. Umfjallanir um barnabækur sniðganga oft nær alfarið annan höfundinn og gagnrýnendur minnast varla orði á myndir, nema þá helst til að kalla þær sætt skraut. Myndhöfundar fá nær aldrei starfslaun úr Launasjóði listamanna og því kemur ekki á óvart að myndhöfundar upplifi sig jafnvel sem afgangsstærð. Þegar svo er komið finna undirritaðar sig knúnar til að stinga niður penna, ekki til að tjá sig í myndum í þetta skiptið, heldur í rituðu orði. Kannski komast skilaboðin þá loks til skila.

Myndhöfundar eru sagnamenn og tungumálið þeirra eru myndir. Með pensilstrokum og blýantsstrikum segja þeir sögur, svo marglaga að túlkunarmöguleikar hverrar myndar eru óteljandi. Hvert einasta mannsbarn upplifir myndina á sinn hátt, út frá sínum eigin forsendum, ólíkt eftir dögum og aðstæðum. Engir tveir lesendur nálgast myndmálið á sama máta og börn eru jafnvel færari í myndlæsi en fullorðnir. En hver er máttur myndlýsinga í barnabókum og hvers vegna ættum við að gera kröfur til þess að í barnabókum séu vandaðar myndlýsingar?

 

Samstarf og samvinna

Ég vil fisk eftir Áslaugu Jónsdóttur

Í bókinni Ég vil fisk eftir Áslaugu Jónsdóttur sést vel hvernig mynd, texti og letur geta skapað vandaða heildarmynd. Bækur Áslaugar hafa komið út á fjölda tungumála um víða veröld. Mál og menning 2015.

Sé litið á starfandi íslenska myndhöfunda má sjá einstaka dæmi þess að viðkomandi skrifi einnig textann. Mun oftar er um samstarf tveggja aðila að ræða. Þá vinna mynd- og textahöfundar saman, gjarnan í nánu samstarfi. Hugmyndir kvikna og mótast í gegnum samtöl og tölvupósta, símtöl og fundi. Þegar um myndabækur er að ræða skapa myndhöfundarnir heim bókarinnar gjarnan til jafns við textahöfundinn. Í sumum tilfellum getur framlag myndhöfundarins verið umtalsvert og jafnvel margfalt á við textahöfundarins. Í bókum fyrir yngstu börnin getur samspil mynda og sögu verið enn mikilvægara en samspil mynda og texta.

 

Hinar mikilvægu hliðarsögur barnsins

Með myndum má segja margt sem ekki rúmast í rituðu orði. Þannig má bæta við textann og dýpka söguna án mikilla orðalenginga. Langur texti og flókinn orðaflaumur hentar sjaldnast ungum börnum. Þá geta myndir sýnt án þess að segja, túlkað djúpar tilfinningar án þess að áhorfandanum finnist hann vera mataður á því hvað honum eigi að finnast. Lesandanum er þannig treyst til að taka söguna til sín sem virkur þátttakandi. Myndir geta verið endalaus uppspretta samræðna, um tilfinningar eða lífið sjálft. Spurningar kvikna og samtal verður til. Sá sem les getur spurt þann sem hlustar: „Hvernig heldurðu að stúlkunni á myndinni líði?“, „hvar ætli sagan gerist?“, „hvað heldur þú að gerist næst?“ og svo framvegis. Sá sem hlustar getur einnig nýtt tækifærið til að spyrja út í það sem í kollinum kviknar. Myndmálið opnar dyr, bæði að skemmtilegum hliðarsögum þar sem ímyndunarafl barnsins fær lausan tauminn, eða inn á við, að persónulegum hugsunum barnsins, reynsluheimi þess og tilfinningum. Það er einmitt það sem gerir myndabók vel heppnaða. Eftir að textinn hefur verið lesinn getum við dvalið mun lengur yfir opnunni, talað saman, skoðað, leitað, rýnt og speglað okkur sjálf. Við getum jafnvel skapað okkar eigin orð í kringum myndirnar.

 

Að leiðrétta óvandað efni

Enginn sá hundinn

Hafsteinn Hafsteinsson er dæmi um myndhöfund sem tekst á við flókin og erfið málefni í fallegum myndum. Í bókinni Enginn sá hundinn fær hann til liðs við sig ljóðskáldið Bjarka Karlsson sem vinnur upp úr myndum og grunntextum Hafsteins, enda bækurnar fyrst og fremst hugarsmíð Hafsteins sjálfs. Mál og menning 2016.

Að sitja með barn í fanginu og bók í hendi er notaleg gæðastund. Ófáir fullorðnir eiga sér uppáhaldsbækur úr æsku, bækur sem kalla fram ljúfar minningar og fortíðarþrá. Það kannast sjálfsagt margir við að hafa verið helteknir af ákveðinni mynd í bókinni, fundist hún fyndin, ógnvekjandi eða jafnvel sorgleg. Myndir geta nefnilega vakið tilfinningar og eftirvæntingu sem veldur því að við verðum að lesa áfram til að sjá hvað gerist næst. Barnabækur eru þær bækur heimilisins sem eru lesnar oftast. Uppáhaldsbókin er gjarnan lesin kvöld eftir kvöld, svo oft og mikið að á endanum hangir hún varla saman á kilinum. Í flestum tilfellum velur barnið hvaða bók það tekur ástfóstri við. Við könnumst við foreldrið sem ranghvolfir augunum í laumi þegar barnið biður um sömu bókina enn einu sinni. Sumar bækur þykja ekki nógu vandaðar, eru látnar hverfa eða textanum breytt á meðan lesið er. Foreldrar gera nefnilega kröfu um að texti bókarinnar sé vel skrifaður, að höfundur notist við vandað íslenskt mál, enda vita þeir að barnið lærir það sem fyrir því er haft. Þegar bók er lesin fyrir ólæsan einstakling er nokkuð auðvelt að leiðrétta málvillur og laga setningar til, jafnvel er hægt að hnika vafasömum boðskap og rétta kynjahalla. Þannig getur sá sem les gætt þess að textinn sem barnið heyrir sé vandaður. Það er hins vegar ómögulegt að leiðrétta óvandaðar myndir. Þess vegna er gríðarmikilvægt að útgefendur beri skynbragð á hvað eru vandaðar myndlýsingar, að þeir vandi valið á myndunum sem prýða bækur þeirra rétt eins og þeir sjá til þess að textinn sé vel skrifaður.

 

Að lesa myndir og orð

Það að geta lesið í myndir er stór og órjúfanlegur hluti lestraruppeldis. Í upphafi erum við fyrst og fremst læs á það sem við sjáum. Smám saman lærum við að para saman hljóð og hluti, móta fyrstu orðin og lærum þannig að tala. Þegar bók er flett með nokkurra mánaða barni sést vel hvernig barnið fylgist einbeitt með myndunum á meðan sá fullorðni les orðin. Á meðan barnið hlustar vex orðaforði þess en einnig sjónræni heimurinn. Myndabækur eru hinn góði grunnur sem seinna þarf að byggja á heilt hús. Allt framtíðarnám barnsins byggir á lestri og læsi en sé grunnurinn ekki góður stendur húsið ekki lengi. Hefð er fyrir því að gefa út myndabækur fyrir allra yngstu börnin en að textamagn fari síðan vaxandi eftir því sem barnið eldist. Smám saman tekur tungumálið yfir og myndmálið víkur. Nútímasamfélag er þó langt því frá laust við myndmál og mikilvægi myndlæsis hefur líklega aldrei verið meira. Á okkur dynja ótal auglýsingar úr öllum áttum, margar með duldum skilaboðum, og börnin okkar verða að kunna að líta þær gagnrýnum augum. Aðeins þannig byggist samfélagið meðvituðu fólki sem lætur ekki ginnast af glansmyndum. Á sama tíma eru börn vön snjallsímum, spjaldtölvum og sjónvarpi. Myndir eru eitt áhrifaríkasta tækið sem við höfum til að kenna læsi og viðhalda lestraráhuga. Í stað þess að láta myndmál víkja eða mæta afgangi um leið og textinn verður aðalatriðið væri skynsamlegt að leggja enn meiri áherslu á myndirnar, ekki eingöngu fyrir yngstu börnin heldur öll börn, jafnvel unglinga. Myndir skapa nauðsynlegt uppbrot í sögunni, dýpka merkingu orðanna og halda þeim við efnið sem minni áhuga hafa á löngum texta. Flestir fullorðnir finna fyrir sömu þörf fyrir myndmál og börn. Ímyndið ykkur fréttablað án mynda eða þungan fræðitexta með engum línu- eða súluritum. Ímyndið ykkur bókabúð með útprentuðum Word-skjölum, heftuðum saman í horninu. Myndir eru okkur nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka inn og melta texta.

 

Sjálfsmynd og heimsmynd

Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar

Samspil mynda og texta krefst fullrar athygli lesanda í bókinni Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar. Myndhöfundur er Halldór Baldursson og textahöfundur er Margrét Tryggvadóttir. Vaka Helgafell 2006.

Rétt eins og við gerum kröfur til texta hljótum við að vilja gera kröfur til mynda. Draumastaðan er að á markaði séu myndlýstar barnabækur af fjölbreyttum toga, bækur sem sýna ólíkan veruleika barna, bæði íslenskra og erlendra, barna með ólík fjölskyldumynstur og ólíkan bakgrunn. Allt þetta og meira til geta myndir sýnt án þess að það sé gert að umtalsefni í texta. Mynd getur sýnt barn eða foreldri með fötlun, foreldra af sama kyni, einstæða foreldra eða einstaklinga af ólíkum uppruna án þess að sagan fjalli beinlínis um minnihlutahópa. Sum umfjöllunarefni geta verið viðkvæm eða átt mismikið erindi við lesendur eftir aðstæðum. Má þar nefna stríð, heimilisofbeldi, dauða og skilnað. Margt má sýna með myndum og gefa þannig þeim sem les tækifæri til að ræða málefnið við barnið sé það við hæfi. Sé barnið ekki tilbúið fyrir samtalið er auðvelt að halda sig við söguna eins og hún er skrifuð og kafa ekki dýpra í myndirnar. Þannig skapa myndir möguleikann án þess að ýta lesandanum lengra en hann vill fara hverju sinni.

 

Af túni í Texas

Í myndheimi íslenskra barnabóka er æskilegt, jafnvel nauðsynlegt, að fjölbreytt litróf samfélagsins sé sýnilegt. Þannig geta myndir stækkað sjálfa söguna og sent þau skilaboð að veruleiki okkar er margbreytilegur, það eru ekki allir eins. Mikilvægt er að börn geti endurspeglað sig, sína tilveru og sitt nærumhverfi í bókum. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fámenna þjóð á litlu málsvæði. Viljum við viðhalda menningu okkar og tungu þurfum við að leggja sérstaka rækt við okkar séríslenska myndheim. Í bók um íslensk sveitadýr er vissara að kindur og kýr séu af íslensku kyni en ekki fengin að láni af túni í Texas. Því er ávallt best að myndhöfundur hafi þekkingu á sögusviði þeirrar bókar er hann myndlýsir, enda skýtur skökku við að sjá til að mynda skýjakljúfa í nágrenni við Leifsstöð eða íkorna í háu tré í íslenskum garði.

Myndabækur eru mikilvæg heimild um íslenskan veruleika á ólíkum tímum, menningarverðmæti sem ekki má kasta hroðvirknislega í lægstbjóðanda. Á sama tíma er gríðarmikilvægt að kynna börn fyrir vel þýddum og myndlýstum erlendum bókum sem veita þeim vængi. Með bók hefur barn takmarkalausan aðgang að veröldinni og stækkar heimsmynd sína. Þannig kynnist það menningu annarra þjóða og lærir um leið að meta menningu sinnar eigin þjóðar. Í bók getur barnið ferðast til Egyptalands til forna og verið komið alla leið út í geim örskömmu síðar. Myndirnar vekja áhuga, kveikja á fróðleiksþorstanum og þannig markast jafnvel snemma sú stefna sem barnið tekur í lífinu.

 

Hvað á ég að titla þig?

Margir myndhöfundar kannast við að hafa átt í vandræðum með að lýsa starfi sínu og hafa flestir fengið spurningar á borð við „hvað gerirðu?“ „hvað á ég að titla þig?“ og „má ég kalla þetta myndskreytingar? Fæstir vildu sjálfsagt túlka starf sitt sem bara „skraut“, eitthvað sem hefur þann eina tilgang að fegra verk annarra. Og það er kannski mergurinn málsins: Til þess að koma fólki í skilning um að myndir í barnabókum skipti máli þurfum við að hætta að hugsa og tala um þær sem skraut. Myndir sem lýsa persónum, atburðarás, umhverfi og tilfinningum eru svo miklu meira. Þær eru órjúfanlegur hluti af sögunni. Myndirnar mætti því með réttu kalla myndlýsingar.

En hvert er þá starfsheiti þess sem myndirnar skapar? Sá sem segir sögur með myndum skapar myndabók til jafns við rithöfundinn. Því væri réttast að kalla þann sem myndirnar gerir myndhöfund, og ætti hann að standa fullkomlega við hlið rithöfundarins, þess sem skrifar orðin. Til þess að breyta hugarfari þarf fyrst að breyta orðræðunni. Rithöfundar myndu seint sætta sig við titilinn „textaskreytir“ og því með öllu ótækt að notast enn við orðið myndskreytir. Myndhöfundar skapa myndlýsingar. Útrýmum nú með öllu þessu skrauti úr orðræðunni, myndirnar eiga betra skilið.

 

Verðmæt fjárfesting

Við köllum eftir hugarfarsbreytingu hjá öllum sem að bókum koma, frá þeim sem semja textann, þeim sem ritstýra og gefa bækurnar út, þeim sem kaupa þær, lesa og njóta. Hver einasti hlekkur í keðjunni þarf að sjá og skilja að myndir eru mikilvægur og órjúfanlegur hluti af því listaverki sem myndabókin er. Aðilar í bókaútgáfu missa af verðmætum tækifærum loki þeir augunum fyrir virði vandaðra myndlýsinga. Þær eru ekki eingöngu mikilvægar á okkar litla en öfluga innanlandsmarkaði, heldur gæðastimpill fyrir útgáfuna út á við. Á erlendar bókamessur og ráðstefnur koma fagaðilar sem geta á einu augabragði metið gæði myndlýsinga. Hafi höndunum verið kastað til við myndlýsingar íslenskrar bókar er ólíklegt að hún fangi augu erlendra útgefenda. Myndlýsingar eru því ekki kostnaðarsamt skraut heldur verðmæt fjárfesting.

 

Hinn ósýnilegi meðhöfundur

Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann

Mynd Ránar Flygenring úr bókinni Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann sýnir glöggt hversu mikla sögu er hægt að segja í einni mynd þótt textinn sé stuttur. Þarna segir Jón forseti til dæmis: Vér mótmælum ekki þessu. Angústúra 2019.

Ein leið til að tryggja útgáfu vandaðra myndabóka er að útgefendur og textahöfundar séu með okkur myndhöfundum í liði. Þeir þurfa að gera þá kröfu að beggja höfunda sé getið þegar fjallað er um myndabækur í fjölmiðlum. Öll umfjöllun um myndabækur, hvort sem um er að ræða kynningarefni kostað af útgáfunni eða faglega umfjöllun, ætti að sýna myndhöfundinn sem hluta af verkinu. Barna- og unglingabókahöfundar hafa lengi barist fyrir því að fá meiri umfjöllun og fleiri dóma um verk sín. Sjáist bókadómur um myndlýsta bók er myndunum því miður oftast gefinn lítill gaumur. Þetta er að sjálfsögðu ekki algilt og til eru þeir sem leggja sig fram um að rýna í myndir en dæmin eru sorglega fá. Dæmi eru um að myndhöfundar sé ekki einu sinni getið í dómi eða umfjöllun, jafnvel þótt bókina prýði tugir myndlýsinga. Þetta er í besta falli virðingarleysi við þá sem að verkinu standa. Heimfærum þetta á kvikmynd eða leikrit. Hvað myndi fólk segja ef dómur birtist þar sem einungis væri fjallað handritið, hið ritaða orð. Horft væri framhjá leikurum, dönsurum, tónlist, lýsingu, búningum og leikmynd? Er í lagi að fjalla um sumt og hunsa annað?

 

Hvar eru myndaritstjórarnir?

Myndaritstjórn (e. Art Direction) er gott verkfæri sem sjaldan er nýtt í íslenskri bókaútgáfu. Myndaritstjóri vinnur náið með textaritstjóra og saman finna þeir þann myndhöfund sem hentar verkinu best. Gott samstarf myndhöfundar og myndaritstjóra gerir að verkum að bókin verður heildstætt verk að öllu leyti. Þá henta persónur og stíll bæði sögunni og þeim aldurshópi sem hún er ætluð og myndefnið endurspeglar sögutíma og sögusvið bókarinnar. Myndaritstjóri gætir þess að bókin gangi upp fagurfræðilega, að myndir séu fjölbreyttar hvað varðar sjónarhorn og svipbrigði, að myndir sýni ekki staðalmyndir og séu ekki særandi. Samstarfið tryggir einnig að myndirnar skilji eitthvað eftir fyrir áhorfandann að túlka, upplifa, hugsa um, skynja og gleðjast yfir. Þetta samstarf myndaritstjóra og myndhöfundar er mikilvægur hlekkur í sköpunarferli bókar. Það er einnig þýðingarmikið fyrir myndhöfund að hafa bandamann sem skilur myndmálið og þær vísanir sem þar leynast, einhvern sem hefur skarpa sýn á verkið og hvetur myndhöfundinn til að gera sitt allra besta. Það mætti jafnvel kalla myndaritstjóra „gæðaeftirlitsmann“. Þótt myndhöfundur sé listamaður og hafi listrænt frelsi í teikningu og túlkun mynda, þá er bókin alltaf samstarf nokkurra aðila; myndhöfundarins, rithöfundarins, textaritstjórans, myndaritstjórans, bókahönnuðarins, uppsetjarans og útgefandans. Þetta er heildarverk sem allir þurfa að halda utan um saman.

Erlend bókaforlög státa langflest af myndaritstjórum og eru þeir órjúfanlegur hluti af fæðingarferli bókar. Íslensk bókaforlög hafa því miður fæst séð hag sinn í að hafa slíkan aðila innanhúss. Það er miður og sannar líklega best hvar áherslan í íslenskum barnabókum liggur. Myndhöfundur starfar að miklu leyti einn síns liðs á meðan rithöfundur nýtur leiðsagnar ritstjóra. Fæstum myndi sjálfsagt detta í hug að gefa út ó-ritstýrða bók og jafnvel ó-prófarkalesna, en myndlýsingar í mörgum íslenskum bókum eru það einmitt, ó-ritstýrðar og mæta því miður oft afgangi.

 

Frá síðu til síðu

Það krefst þekkingar, reynslu og náms að vera myndaritstjóri og ekki er hægt að ætlast til að textaritstjóri sinni því meðfram sínum störfum. Í starfi myndaritstjóra er nauðsynlegt að þekkja vel til myndmáls, myndbyggingar og bókahönnunar. Þá kemur sér vel þekking á lista- og hönnunarsögu. Myndaritstjóri þarf að hafa næmt auga fyrir stærðarhlutföllum og staðsetningu mynda á opnu. Hann þarf að átta sig á því hvernig myndirnar flæða frá síðu til síðu og hvernig auga les myndir frá einum punkti til annars, hvernig myndirnar miðla sögunni til lesenda með línum og litum. Myndaritstjórar vinna jafnan með breiðum hópi myndhöfunda, því börn vilja jú ekki bara eina tegund af bókum eða myndum. Það þarf að tryggja fjölbreytni og áríðandi er að tengja rétta myndhöfundinn við rétta textann. Börn eru opin fyrir alls konar myndefni. Eina stundina hrífast þau af litríkum og ofhlöðnum síðum en þá næstu vilja þau bók með einföldum svart-hvítum myndum eða jafnvel myndasögur. Einn hluti bókaflórunnar eru orðalausar bækur. Bók án orða getur innihaldið margar ólíkar sögur því bókina má lesa á ólíkan hátt hverju sinni. Auk þess les hver einstaklingur bókina á sinn hátt. Bækur án orða þurfa ekkert tungumál, þær þarf ekki að þýða og því geta allir lesið þær, óháð tungu og aldri. Þessar orðalausu bækur sýna okkur hversu máttugar myndir eru og mikilvægar börnunum okkar.

 

Betur má ef duga skal

Myndheimur íslenskra barnabóka er þó ekki á hraðri leið til glötunar, þvert á móti. Árlega er gefinn út fjöldi fallegra og vandaðra bóka, eins og sést á tilnefningum myndlýstra bóka til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Góðu fréttirnar eru þær að á Íslandi starfar nú ört stækkandi hópur myndhöfunda sem hefur lagt þetta fag, að myndlýsa bækur, sérstaklega fyrir sig. Við erum lánsöm að þessi fjölbreytti hópur íslenskra teiknara vinnur af ástríðu og metnaði að því að skapa vandaðar bækur í samstarfi við rithöfunda og útgáfur. Við erum því að mörgu leyti í góðum málum en verðum að styðja og viðurkenna þennan mikilvæga hlekk bókaútgáfunnar. Myndhöfundar verða að fá úthlutun úr Launasjóði listamanna en úthlutunarnefndir síðustu ára hafa hunsað starfsstétt myndhöfunda. Myndhöfundar með aðaláherslu á myndlýsingar fá 0 mánuði. Sé ekki stutt við stéttina munum við missa myndhöfunda í önnur störf, þar sem vinna þeirra er ekki töluð niður og kölluð skraut.  Betur má ef duga skal, nú þegar umræða um mikilvægi bóklesturs barna og verndun íslenskunnar er í hámæli. Við viljum því hvetja alla þá bókelskandi aðila, sem að barnabókum koma, að gleyma ekki myndlýsingum, hvorki í umfjöllun, launum, styrkjum, verkefnum né gagnrýni. Myndlýstar bækur geyma lykilinn að læsi og í þeim ber að fjárfesta af fullri alvöru.

 

Þegar kemur að umfjöllun um barnabækur er raunveruleg rýni og skilningur á mikilvægi myndmáls lítil sem enginn. Við söfnuðum saman sögum frá teiknurum, sem eru síður en svo einsdæmi:

 

Umfjöllun í sjónvarpi

Rætt var ítarlega um söguna og textahöfundinn. Blaðað var hratt í gegnum bókina sem er prýdd tugum myndlýsinga. Myndirnar sagðar „flottar“ en engin þeirra sýnd.

 

Umfjöllun í dagblaði

Eingöngu rithöfundur var titlaður fyrir myndabók sem tilnefnd var til verðlauna. Bókin er mikið myndskreytt með stuttum texta en þess ekki getið að rithöfundur deilir verkinu til jafns við myndhöfund.

 

Umfjöllun frá útgefanda

Texta- og myndhöfundur eru meðhöfundar að myndabók og skipta höfundalaunum til jafns. Útgáfan deildi myndum úr útgáfuboði en í meðfylgjandi texta var talað um útgáfuboð rithöfundarins og fögrum orðum farið um hann. Síðar í textanum var minnst á að myndskreytir bókarinnar hafi verið á staðnum.

 

Verðlaun fyrir myndlýsingar

Dómnefnd veitir myndhöfundi verðlaun fyrir myndlýsingar bókar en tilkynnir honum að verðlaunum skuli deilt með rithöfundinum. Rökstuðningur er sá að myndhöfundur hefði ekki getað skapað þessar myndir án textans. Rithöfundur mótmælir þessu með því að þiggja ekki verðlaunin.

 

Bókadómar

Langur og ítarlegur bókadómur birtist um barnabók sem inniheldur tugi myndlýsinga. Ekki er minnst einu orði á myndlýsingar og nafn myndhöfundar kemur hvorki fram í upplýsingum um bókina né í bókadóminum sjálfum.