Brynja HjálmsdóttirEftir Brynju Hjálmsdóttur

Brot úr ljóðabálkinum Okfruman birtist fyrst í 1. hefti Tímarits Máls og menningar 2019 en er hér endurbirt í örlítið breyttri mynd eins og það kemur fyrir í ljóðabókinni Okfruman, 2019. Una útgáfuhús gefur út.

 

 

Í upphafi ekkert

og svo

sprenging

***

ein + ein = ein

svo verður ein tvær
tvær fjórar
fjórar átta
átta sextíuogfjórar
sextíuogfjórar fjögurþúsundníutíuogsex

fjögurþúsundníutíuogsex sextánmilljónirsjöhundruðsjötíuogsjö-
þúsundtvöhundruðogsextán

hrannast upp
iðandi eins og maðkar

***

Þegar barnið kemur út
úr kviðnum halda frumurnar áfram
að hrannast upp
hætta því
aldrei það þarf stöðugt
að endurnýja

Ævi húðfrumu er tuttugu til fimmtíu dagar

Eftir tuttugu til fimmtíu daga deyr hún
og verður að ryki
sem enginn losnar við sama hvað
það er þurrkað oft af
mynd af barni sem lifir að eilífu
skorðað í rammann
á náttborðinu hennar mömmu

***

Ölvuð af sumarangan
þræðir hún leynileiðir
milli sökkvandi húsa í Norðurmýri

laufgaðar trjágreinar
krækja í hárið

kíma og lauma
hárfínum flísum í svörðinn

vita ekki
að ekkert bítur á hana núna
þegar sólin skríkir
nema tilhugsunin
um vöðvastælta stráka í hlýrabolum
sem standa í annan fótinn
og hvíla hinn upp við búðarvegginn
hlæja og tala saman á víetnömsku
klípa sígarettustubba milli fingranna
og skjóta þeim út á götu

upp af þeim vaxa reynitré
að hausti klekjast út
bústin fuglaber

***

Á Íslandi býr hundraðogáttatíuþúsundfjögurhundruðogeinn karl
og hún er ástfangin af þeim öllum

Segir við hvern og einn:

Ástin mín
ef þú nærð þér í mjúkan púða máttu sofa á mér
annars gætirðu meitt þig á harðbrjóstinu mínu

ég vil bara vera góð

ég harma þegar hrammur minn hremmir þig
og mer

Sannleikurinn er sá að ég er með mjúkar hendur
hannaðar til að strjúka mjúka kroppa
og aldrei skyldi ég kroppa
augun úr tóftum þínum
því þar eiga þau heima
rétt eins og hendur mínar eiga heima
utan um þig

***

Þú ert beinagrindin sem heldur uppi þessu slímuga farsi

Þú ert görnin sem mótar mig í lystuga pylsu

án þín væri ég ekkert
nema kjöt og bein í poka