eftir Ana Stanicevic

úr Tímariti Máls og menningar, 1. 2015

 

1.0 Forleikur

Mánasteinn

Mánasteinn – drengurinn sem aldrei var til eftir Sjón

Sjón er einn af mest þýddu samtímahöfundum Íslands. Það er engin tilviljun. Honum tekst í verkum sínum að sameina fortíð og nútíð með tilþrifum og frásagnarástríðu. Sjón býður þjóðsögum á stefnumót við súrrealisma sem hann hefur lengi hrifist af. Hann rannsakar sögu þjóðar sinnar og fléttar hana saman við skáldaðar persónur og segir lesendum óvenjulegar sögur sem aldrei áttu sér stað, nema á mörkum veruleikans og draumsins. Mánasteinn er þannig saga.

Rannsóknarvinnan sem liggur að baki flestum skáldsögum hans, eins og Skugga-Baldri, Rökkurbýsnum og Mánasteini, er ítarleg. Það voru þrjú þemu sem Sjón einbeitti sér sérstaklega að í vinnunni sem leiddu af sér Mánastein: spænska veikin, áhugi Íslendinga á kvikmyndum í árdaga þeirra og saga samkynhneigðra í Reykjavík.[i] Þess vegna er skáldsagan einnig söguleg og lýsingar Sjóns á lífi einstaklinganna og upplýsingar sem birtast í henni eru ekta. Samt sem áður er aðalpersónan Máni Steinn, „drengurinn sem aldrei var til“,[ii] fæddur í deiglu ímyndunarafls Sjóns og þessa sögulega veruleika.

Rithöfundur sem þekkir hvern krók og kima tiltekins tímabils skrifar skáldsögu sem geymir margar veraldir í sér. Hægt er að lesa Mánastein aftur og aftur og í hvert sinn ratar lesandinn í nýjar áttir og uppgötvar marga ólíka hugmyndaheima. Meðal þeirra er heimur þögulla kvikmynda sem lesandinn getur eytt mörgum dögum í að horfa á og leita að smáatriðum sem birtast hér og þar í draumum Mána Steins, blönduð atriðum úr hans eigin lífi. Í raun liggur öll kvikmyndasagan undir og leiðir lesandann áfram á vit jaðarmenningar og skáldskapar í Evrópu á árunum í kringum fyrri heimsstyrjöldina. Þar koma líka við sögu atburðir sem eru mikilvægir fyrir sögu Íslands, þar á meðal fullveldisdagurinn 1. desember 1918 og öflugt og eyðileggjandi gos í eldfjallinu Kötlu fyrr þetta sama ár. Lesandinn er einnig kynntur fyrir raunverulegum áhrifum spænsku veikinnar á Íslandi á þessu sögulega ári. Síðast en ekki síst er hversdagslegu lífi í Reykjavík á þessu tímabili lýst og um leið hugsunum manna og hugmyndum um hið framandi.

Þessi fjölbreytni og dýpt Mánasteins gerir lesanda kleift að lesa skáldsöguna með margvíslegum hætti og á mörgum plönum. Það er einnig hægt að einbeita sér að hinu sjónræna í sögunni og taka eftir þeim aðferðum sem Sjón notar, en þær líkjast að mörgu leyti expressjónisma í myndlist sem var ríkjandi á þeim tímum þegar sagan gerist. Ennfremur tekur Sjón tillit til heimspekilegra hugmynda og almenns hugmyndaheims stríðstímans og tilvistarstefnan, eins og hún var í upphafi skilgreind af Kierkegaard, finnur sér líka leið inn í söguna. Tilvistarkvíði er áberandi í gegnum hana alla og Sjón tjáir hann af glæsileika hins expressjóníska málara. Þessar aðferðir ná til allra, því þær sýna á sannfærandi hátt tilfinningar sem allir kannast við af eigin raun. Auk þess er þessi leið sjónræn og hún talar til lesenda óháð því tungumáli og þeirri menningu sem þeir tilheyra.

Sá myndlistarmaður sem var brautryðjandi expressjónismans í Evrópu og sem flestir kannast við er norski málarinn Edvard Munch. Málverk hans „Ópið“ er heimsfrægt og hefur með tímanum orðið að táknmynd tilvistarkvíða. Þar að auki eru ýmis önnur myndefni Munchs − dauði, sjúkdómar, missir, ást, togstreita konu og karls − áberandi á síðum Mánasteins. Þess vegna eru dæmin í umfjöllun minni hér á eftir tekin úr listheimi Munchs til að sýna með hvaða hætti Sjón notar aðferðir expressjónisma í myndlist í skáldsögu sinni.

Expressjónísk hlið Mánasteins getur náð til allra, af því að hún talar það alþjóðlega tungumál hjartans sem allir kunna. Hægt er að þýða skáldsögu Sjóns yfir á hvaða tungumál sem er og gefa hana út í hvaða menningarheimi sem er, vegna þeirrar aðferðar sem höfundurinn notar.

 

1.1 Með bældu ópi

Edvard Munch skrifar sína stefnuyfirlýsingu árið 1889: „Það ætti ekki lengur að mála innanhússmyndir, fólk sem les og konur sem prjóna. Það eiga að vera lifandi manneskjur sem anda og finna til, þjást og elska.“[iii] Segja má að Munch sé einn fyrsti og frægasti listamaður sem kynnir expressjónisma í myndlistinni og kafar djúpt í mannlegt sálarlíf. Listaverkin hans öskra af tilfinningum, þau lýsa innra lífi mannsins og grípa áhorfandann við fyrstu sýn. Þekktasta dæmið er hið heimsfræga málverk „Ópið“ (1893). Því hefur verið lýst sem „íkon nútímalistar, Mónu Lísu okkar tíma“.[iv] Munch hefur tjáð sig um þá reynslu sem liggur að baki listaverkinu:

Ég gekk kvöld eitt út eftir vegi – öðrum megin lá þorpið og fjörðurinn fyrir neðan mig. Ég var þreyttur og sjúkur – ég stóð og horfði út yfir fjörðinn – sólin settist – skýin lituðust rauð – eins og blóð – ég fann eins og óp gegnum náttúruna – mér fannst ég heyra óp. – Ég málaði þessa mynd – málaði skýin eins og raunverulegt blóð. Litirnir æptu –[v]

Þetta málverk er orðið tákn fyrir þann tilvistarkvíða sem það lýsti vel á sínum tíma og lýsir enn. Til eru kenningar sem útskýra rauðan himininn í bakgrunni myndarinnar og tengjast miklu eldgosi í fjallinu Kratakoa í Indónesíu 1883-1884 sem litaði himin um allan heiminn.[vi] Hvort það sé rétt eða ekki skiptir ekki öllu máli. Það sem hér skiptir máli er að stemning myndarinnar minnir mann á dramatískan himin í kjölfar eldgoss og að Munch málaði himininn þannig til að lýsa innri líðan mannsins. Þessi myndhverfing er líka notuð í Mánasteini og lýsing Sjóns á Kötlugosi speglar án efa innri líðan fólksins í sögunni og minnir á lýsingu Munchs á því sem hann fann:

− milli þess sem fólk talast við í lágum hljóðum starir það á ljósaganginn í austri þar sem eldfjallið málar nóttina appelsínurauða, rauða, fjólurauða, rauðsvarta og sprengir svo upp myndina með gasbláum og bálgulum blossum. (bls. 15)

Það er eins og „Ópið“ birtist fyrir augum manns þegar maður les þessa málsgrein. Og þetta er bara fyrsta myndin í skáldsögunni sem endurómar listheim Munchs.

En hvernig er staða manna á þessum tíma á Íslandi? Árið er 1918 og Íslendingar eru á góðri leið með að verða fullvalda þjóð eftir aldalöng dönsk yfirráð. Ísland stendur fyrir utan heimsstyrjöldina, en það er kolaskortur og ekki sérstaklega auðvelt að lifa. Það er eins og einkenni fin de siècle séu áberandi á Íslandi og þá fyrst og fremst í aðalpersónunni Mána Steini. Þar er að finna hnignun, svartsýni, leiðindi og óhugnað, en samt má finna von um betri framtíð. Ísland er á milli tveggja heima, í upphafi umskipta. Kötlugosið verður eins og sprenging á þær tilfinningar sem hlaðist hafa upp í mönnum. Það er þögult óp sem vill komast út úr öllum, ekki síst Mána Steini.

Óps-minnið kemur ekki bara fram í skáldsögunni í þessari lýsingu á Kötlugosi og logandi himninum. „Ópið“ sýnir gapandi mannveru sem virðist vera dauðhrædd og finnur mikinn sársauka, í líkamstjáningu sem passar við hreyfingu landslagsins, eða frekar öfugt, en ópið heyrist ekki. Það er bælt óp sem fyllir allan líkamann og umhverfið og kemst ekki út. Eitthvað óhugnanlegt grípur þann sem horfir á málverkið. Yfirþyrmandi tilvistarkvíði gerir vart við sig. Þetta óp fylgir okkur í gegnum skáldsöguna, hvort sem það er „bælt óp“ samkynhneigðs karlmanns sem kaupir kynlíf af sextán ára strák og fær fullnægingu í leyni, bældur af samfélaginu (bls. 11), óp líkkistusmiðsins sem kemst að því að hann á eftir að smíða tvær kistur handa fjölskyldumeðlimum sínum (bls. 50) eða óp Mána Steins sem langar til að hrópa í ráðaleysi sínu (bls. 113).

Tilvistarstefna Sørens Kierkegaard hafði áhrif á Munch og tilvistarkvíðinn sem Kierkegaard lýsir í Begrebet Angest fléttast inn í list expressjónismans. Í dæmi Kierkegaards stendur maður á kletti og finnur til kvíða vegna mögulegs falls, en líka ólgandi hvöt til að stökkva af sjálfsdáðum. Þetta frelsi til að velja sjálfur annaðhvort að hoppa fram af eða vera kyrr á klettinum veldur manni tilvistarlegri angist.[vii] Málverkið „Ópið“ hét raunar upprunalega „Angst“. Það er margt sem persónurnar í sögu Sjóns kvíða fyrir: eigin lífi sem stofnað er í hættu af spænsku veikinni, erfiðleikunum samfara því að tjá sig og vera maður sjálfur, óvissu yfir hvort þau öðlist loksins sjálfstæði eða ekki og óvissunni sem fylgir því að vera sjálfstæður. Það er bæði ráðleysið og valið ásamt afleiðingum þess sem þjakar fólkið í þessari sögu, eins og Kierkegaard fjallar einnig um í Enten – Eller.[viii]

 

1.2 Skuggaleikur[ix]

Það þarf ekki að leita lengi í Mánasteini til þess að komast að því að skuggi fylgir mörgum persónum hennar. Og lesandinn er alltaf minntur á þetta. Það er eins og skugginn taki á sig sjálfstætt hlutverk og sé persónugerður. Þegar í fyrsta kaflanum er gefið í skyn að hér sé um að ræða myrkur sem hangi yfir öllum: „Með bældu ópi slítur maðurinn sig frá klettaveggnum ásamt skugga sínum.“ (bls. 11). Að auki eru persónurnar skuggagerðar: „Göturnar gapa mannlausar, nema hér og hvar bregður fyrir stakri skuggaveru á ferli.“ (bls. 49). Það eru líka í sögunni „skuggamyndir sem bæra á sér“ og það „skuggar fyrir manni“ (bls. 88). Lesandinn fyllist óheillavænlegum tilfinningum um að skuggarnir séu lifandi og á góðri leið með að taka yfir persónurnar sínar, eins og í ævintýri H.C. Andersens „Skuggi“ þar sem Skugginn verður Herra og Herrann verður Skuggi.[x] Þessi ótti rætist í sótthita spænsku veikinnar: „Á gólfinu liggur skuggi hans og er með óhagganlegri mannsmynd. Skugginn teygir úr sér, sprettur á fætur, afskræmir drenginn.“ (bls. 64). Skugginn rís og drengurinn verður að skugga: „Hann er skuggi sem fer frá manni til manns …“ (bls. 65). Hér ómar bergmál úr ævintýri Andersens þegar fólk segir við aðalpersónuna: „De ser virkelig ud ligesom en Skygge!“[xi]

Þessi áminning um skuggann er í eðli sínu expressjónísk og endurspeglar sálarlíf persónanna. Hún er hliðstæð framsetningu skuggans í málverkum Munchs þar sem skugginn er óvenju stór og næstum ónáttúrulegur. Hann sýnist vera lifandi og yfirgnæfandi og þótt hann komi úr persónunum og sé tengdur þeim, lifir hann eigin lífi og svífur þungur yfir sínum „herrum“. Sjaldan er hann undirgefinn þeim, en í staðinn er honum gefið óhugnanlegt vald og hann rís yfir þá. Málverkið „Sjálfsmynd í helvíti“ er gott dæmi um notkun Munchs á skugga. Hér sjáum við Munch nakinn lýstan upp af ljósinu, logandi ljós lýsir hægra megin og svartur skuggi hans hvílir vinstra megin. En skugginn er miklu stærri en fyrirsætan og það er einhvers konar hreyfing í honum, jafnvel líf. Ekkert síður máttugur og ógnvekjandi er skugginn bak við stelpuna í málverkinu „Gelgjuskeið“. Það er óvissa og ótti við það nýja og ókunnuga sem hangir yfir stelpunni, kannski eins og yfir Mána Steini sem er sjálfur á kynþroskaskeiði. Munch gengur lengst í skugganotkun sinni í einu af síðustu málverkum sínum sem heitir „Sjálfsmynd kl 2 ¼ um nótt“. Hér er skugginn bak við stólinn sem Munch situr í og það eru engin tengsl á milli þeirra. Skugginn er sjálfstæður og táknar dauðageig.[xii] Allir þeir skuggar sem laumast um í deyjandi Reykjavík koma því ekki á óvart.

Það er ljóst að það er ekkert náttúrulegt við hvernig bæði Sjón og Munch nota skugga. Eins og skuggar sáust ekki í sumum öðrum málverkum Munchs þar sem maður mætti búast við þeim, þannig nefnir Sjón heldur ekki skugga þegar þeir eru bara náttúrufyrirbæri án tilgangs. Skugginn gegnir ákveðnu hlutverki hjá báðum listamönnunum og vitnar um þunga byrði eða kvíða sem persónurnar sem þeir lýsa bera með sér. Skugginn virðist vera óumflýjanlegur bæði í skáldsögu Sjóns og málverkum Munchs, skuggaheimur Munchs veitir lesandanum góðan undirbúning fyrir andrúmsloft Mánasteins.

 

1.3 Sóttin mikla í fylgd engils dauðans

Með þessum skuggum laumast spænska veikin inn í Reykjavík og inn í söguna. Lýsingar Sjóns á fólki í bænum sem áttar sig á þessari pest og eyðileggingarmætti hennar minna á málverk Munchs „Kvöld á Karl Johan“. Hvort heldur í bíósalnum eða úti á götunni er ráðleysissvipurinn alveg eins. Fólkið er óttaslegið og óöruggt. Margir eru orðnir veikir og þögulir. „Varkárir í hreyfingum mjaka gestirnir sér úr sætaröðunum, feta sig upp gangveginn, hverfa hljóðlaust út úr salnum“ (bls. 47). Það er hljótt í kvikmyndahúsinu, það er hljótt á Karl Johan.

Sjúkdómur og dauði eru ekki framandi í listheimi Munchs. Sjálfur var hann oft veikur sem barn og unglingur, en hann missti líka móður sína og systurina Soffíu snemma á ævinni.[xiii] Þetta fylgdi honum alla ævi og oftar en ekki fékk þessi sára reynd útrás í málverkunum hans. Eitt áhrifaríkasta málverk Munchs, og sem er oft skilgreint sem afgerandi fyrir stíl hans, er „Sjúka barnið“. Sóttarsængurmyndir voru vinsælar á tíma natúralismans, en sterk viðbrögð almennings við þessari mynd útskýrði Munch svona:

… ég fullyrði að varla hafði nokkur þessara málara upplifað þannig til síðasta kvalabikars myndefni sitt eins og ég í sjúka barninu. Því það var ekki bara ég sem sat þarna – það voru allir ástvinir mínir –[xiv]

Myndin sýnir deyjandi stúlku, systur hans Soffíu, og móður Munchs sitjandi við rúmið, en hún var löngu dáin þegar Soffía lést. Munch vekur móður sína til lífs á þessu erfiða augnabliki, næstum því eins og Máni Steinn þegar hann veikist og sér látna móður sína í gömlu konunni.[xv] Þessi mynd skáldsögunnar sýnir alla sorgina við það óumflýjanlega óréttlæti sem felst í því að missa ástvini sína, og endurspeglar ástandið í spænsku veikinni eins og því er lýst í aðsendri minningargrein í Morgunblaðinu sem birtist í bókinni:

Hrifnir eru á burt menn og konur á ýmsum aldri og af ýmsum stéttum. Dauðinn fer eigi í manngreinarálit og oft finst manni, að hann komi þar við, sem sízt skyldi. […] Flest átti það vini og ættingja sem bera nú þungan harm, ellibeygðir foreldrar gráta fagrar vonir, einstæðingar einkaathvarf sitt og börnin ástríka foreldra. (bls. 77−78)

Og ekki er út í hött að sjá líkingu milli málverks Munchs „Arfur“, sem sýnir grátandi móður yfir deyjandi smábarninu sínu, og senunnar í skáldsögunni þegar doktor Garibaldi, Máni Steinn og Sóla Guðb- fara í sjúkravitjun:

Í torfbæ á Bráðræðisholtinu liggur stirðnað karlmannslík í hjónarúmi og fyrir framan það fársjúk kona með lík af kornabarni í hvorum handarkrika. Með veggjum standa barnarúm og gægjast einn eða tveir kollar yfir hverja rúmbrík. Húsbóndinn hafði látist frá fimm smábörnum og kona hans veikst áður en hún gat gert viðvart. Stuttu síðar fæddi hún andvana tvíbura. (bls. 85)

Móðir sem gefur barni sínu veikindi og dauða í arf í staðinn fyrir líf er sterk og ógleymanleg mynd og Sjóni tekst að festa hana fyrir hugskotssjónum lesandans eins eftirminnilega og Munch gerir með sínu málverki. Munch málaði þetta verk eftir að hann heimsótti spítala Saint-Louis í París í fylgd læknis,[xvi] en í Mánasteini fær lesandinn að fylgja doktor Garibalda sem fer á milli heimila Reykjavíkur. Honum er gefin innsýn í dauðann eins og sýnt er í málverkinu „Dauðinn í sjúkrastofunni“ eftir Munch. Það hvílir bið og sorg yfir öllum heimilum.

Edvard Munch málaði einnig „Sjálfsmynd í spænsku veikinni“, en hann var svo lánsamur að sigrast á sjúkdómnum. Á myndinni situr hann í herberginu sínu í hægindastól með teppi breitt yfir sig. Munch sagði sjálfur um þessa mynd: „Er hún ekki viðbjóðsleg? – Hvað eigið þér við? – Finnið þér lyktina? – Lyktina? – Já, takið þér ekki eftir því að ég er farinn að rotna?“[xvii]

Spænska veikin hafði áhrif á Munch, persónurnar í skáldsögu Sjóns og alla sem urðu fyrir henni. Máni Steinn hefur séð hana í návígi og sjálfur upplifað hana: „Reykjavík hefur í fyrsta sinn tekið á sig mynd sem speglar innra líf hans“ (bls. 85). Á myndinni eru „tómar augnatóftirnar opinn munnurinn; þetta er ekki óp eins og […] í mynd Munchs sjálfs, Ópi frá 1893, heldur segir hér frá því að vöðvaaflið er hætt að starfa […]“.[xviii] Þessi lýsing Arne Eggum á málverkinu endurómar í lýsingu Sjóns á drengnum þegar hann tekur pestina: „Drengurinn þarfnast ekki lengur blóðs og beina, hvorki vöðva né innyfla. Hann sundrar líkama sínum, breytir föstu efni í fljótandi, byrjar innan frá og skolar því út, lætur það fossa um öll op sem hann finnur.“ (bls. 65). Báðir listamenn fara svipaða leið að því að miðla áhorfandanum og lesandanum þessum skæða sjúkdómi og því hugarástandi sem honum fylgir. Skortur á líkamlegum mætti hefur mikil áhrif á hugsanir og líðan manns. Expressjónismi finnur leið inn í það sjónræna og það ritaða og kemur tilfinningunum á framfæri.

 

1.4 Blóðsugurnar

Fyrir utan sjúkdóms- og dauðaminnið kemur annað algengt expressjónískt minni sterkt fram í Mánasteini, þ.e. vampíruminnið. Einasta dægrastytting Mána Steins virðist vera að fara í bíó og horfa á þöglar kvikmyndir og uppáhaldsmyndin hans er franska myndin Les Vampires eða Blóðsugurnar. Þó að hér sé ekki um að ræða alvöru vampírur líkjast aðalpersónan í myndinni, Irma Vep og leikkonan sem leikur hana, Musidora, vampírum. Og Sóla Guðb-, einasta fegurðin í skáldsögunni, líkist þeim:

Hún birtist á klettabrúninni líkt og gyðja risin úr dýpstu hafdjúpum, ber við logandi himin litaðan af jarðeldunum í Kötlu, stúlka engum öðrum lík, klædd svörtum leðursamfestingi sem dregur fram allt sem honum er ætlað að hylja, með svarta hanska á höndum, kúptan hjálm á höfði, hlífðargleraugu og svartan trefil fyrir vitum. (bls. 12)

Bara út frá þessari kynningu á Sólu Guðb- er augljóst að Máni Steinn lítur á hana sem fullkomna. Hann heillast af henni, og á sama tíma er hún honum fjarlæg og ósnertanleg, eins og gyðja. En hún er líka óhugnanleg: „Varirnar eru rauðar sem blóð. Augun kringd svörtum farða sem lætur púðrað hörundið virðast hvítara en hvítt“ (bls 12). Drengurinn lýsir henni hér eins og vampíru sem er komin úr einhverri þögulli mynd frá byrjun tuttugustu aldarinnar. Máni Steinn er fullviss um að tvífari Sólu Guðb- sé Musidora, sem leikur aðalvampíruna í Blóðsugunum, en það er jafnframt uppáhaldsmyndin hans:

Líkt og örskotsstund hefði honum gefist röntgensjón og hann sá hana eins og hún raunverulega er. […]

Uppgötvunina gerði hann á fyrri laugardagssýningu á Blóðsugunum í Gamla Bíói. […]

Augnablikið sem skuggi hennar féll á sýningartjaldið runnu þær saman, hún og persónan í kvikmyndinni. Hún leit við og geislinn varpaði andliti Musidoru á andlit hennar.

Drengurinn fraus í sæti sínu. Þær voru nákvæmlega eins. (bls. 13)

Sóla Guðb- er „engum öðrum lík“ og hér má hugsa aðeins um val á þeim orðum sem Sjón notar til að lýsa henni. Það væri ekki ólíkt honum að fela leiðsögn í orðunum, eins og dulmálslykil í skilaboðum í þögulli glæpamynd. Orðið lík verður litað rautt ef við skoðum þessa setningu með augum leynilögreglumanns sem reynir að lesa úr leyniletri. Sóla Guðb- er að vísu öðrum lík, af því að hún er eins og Irma Vep, þ.e.a.s. VampIre ef við röðum bókstöfum saman aðeins öðruvísi. En hún er um leið engum öðrum lík af því að hún er eins og lík sem bendir á vampírunáttúru hennar á skemmtilegan og dularfullan hátt.

Það er afar misjafnt hvernig Máni Steinn horfir á hana. Hún er ýmist „madonna“ eða „blóðsuga“ eins og konan er oft í augum Munchs. Í hinu fræga málverki „Madonna“ sýnir Munch nakta og ástríðufulla konu. Hún er dreymin á svip og nýtur sín án blygðunar. Hárið á henni er slegið og augun lokuð. Hún er kynvera og femme fatale. En það er líka geislabaugur yfir höfði hennar og ljós breiðist út í kringum hana. Hún er dýrlingur og gyðja, „risin úr dýpstu hafdjúpum, ber við logandi himin litaðan af jarðeldunum“ (bls. 12), svo vitnað sé til orða Sjóns. Hún er madonna.

Í málverki Munchs „Blóðsuga“ rís kvenvera yfir manni og hann er samanskroppinn í faðmi hennar á meðan hún gefur honum „vampírukoss“ og sýgur úr honum líf og orku. Maðurinn er líflaus afturganga sem kvenlegi ránfuglinn setur klær sínar í.[xix] Og Sóla Guðb- er lík henni, hún er vampíra. Þessi eina kona í lífi Mána Steins, burtséð frá móður sem er löngu dáin og gömlu konunni sem er fóstra hans, vekur aðdáun og hræðslu hjá honum. Hann sér hana úr fjarlægð frá „felustað“ (bls. 41) sínum. Hann vill ekki vera fórnarlamb „vampírukoss“ hennar, en samtímis finnst honum hún aðlaðandi. Hann þorir ekki að láta sjá sig þegar hún kallar á hann, hann þorir ekki að snerta hana og guðdómleika hennar. Það er engin tilviljun að hann kallar hana Sólu Guðb-. Og eins og konan í skilningi Munchs geta bæði hún og Irma Vep „brugðið sér í þúsund gervi og eru í senn „Allar konur“ og „Konan eina“ – jafnvel þegar þær eru í jakkafötum og með bindi“, eins og segir í skáldsögunni.[xx]

 

1.5 Aðdráttarkraftur í svart-hvítu

Þar að auki felast andstæðurnar ekki bara í kvenmyndinni, heldur líka í togstreitunni á milli Mána Steins og Sólu Guðb-. Hann heitir Máni og hún Sóla. Nafnið hans táknar nótt og hennar dag. Hann er myrkrið og hún er ljósið. Karlmaður og kona eru oft borin saman og sýnd eins og andstæður í listaverkum Munchs, og þá gjarnan sem dökkt og ljóst.[xxi] Í steinþrykki hans „Aðdráttarkraftur II“ eru karl og kona sett andspænis hvort öðru; hann er svartur og hún hvít. Þetta er minni sem gengur í gegnum fleiri verk hans, eins og til dæmis „Losun“ þar sem konan er alhvít, hárið hennar og kjóllinn, en karlmaðurinn er með svart hár og í svörtum fötum. Sjón notar líka þessa táknrænu og sjónrænu aðferð til að koma innihaldinu í sögunni til skila og lýsa persónunum sínum. „Í brjósti Mána Steins ólmast svartir vængir“, á meðan geislinn varpar andliti Musidoru á andlit Sólu Guðb- sem er „hvítara en hvítt“ (bls. 13). Munch eins og Máni Steinn lýsir sjálfum sér í myndinni „Sjálfsmynd með sígarettu“ í algjöru myrkri, svörtum. Konunni lýsir hann með ljósinu sem skín frá henni eins og í myndinni „Madonna“. Í verkinu „Tvær manneskjur (Þau einmana)“ er konan enn og aftur í hvítu en karlmaðurinn í svörtu.

Það er augljós andstæða milli Mána Steins og Sólu Guðb-. Jafnvel seinni nöfnin þeirra stangast á. Steinn er jarðbundinn og í föstu formi og guð er himneskur og án forms. Munch tengir konur oft hafinu, en karlmenn jörðinni. Það er líka áhugavert að máninn er algengt minni í listaverkum Munchs og sumir hafa haldið því fram að máninn og mánaskinið á vatninu séu kynjatákn.[xxii] Í þessum skilningi verður enn rökréttara að Máni Steinn skuli fá þetta nafn, en ekki Sóla Guðb-. Það er samt ekki sól að sjá í listaverkum Munchs, nema í myndinni „Sólin“ þar sem hún er í brennidepli og skín yfir hafinu og landinu.

Við nánari skoðun á nöfnum í skáldsögunni opnast nýjar dyr skilnings. Skáldsagan sjálf heitir Mánasteinn og er orðaleikur með nafn aðalpersónunnar. Mánasteinn er eðalsteinn sem lengi hefur verið notaður í skartgripi og Rómverjar trúðu að mánasteinn væri skapaður úr frosnu mánaskini.[xxiii] Hann er talinn vera kveneðalsteinn, þ.e.a.s. hann hefur mest áhrif og lækningamátt á konur og það er talið best að nota hann undir fullum mána.[xxiv] Tengsl Mána Steins við mánann eru sláandi, ekki síst þegar ungi útlendingurinn kallar hann „Moonstone“ og seinna „Auburn moon, harvest moon…“ (bls. 27). „Harvest moon“ er fullur máni og mánasteinn er sérstaklega virkur undir fullu tungli. Í skáldamáli er „máni“ notaður í kenningum um úlf, t.d. mánagarmur.[xxv] Tengsl úlfs og fulls mána eru þekkt í mörgum menningarheimum og í þessari skáldsögu má finna vel dulin smáatriði sem gefa enn meiri innsýn í andstæðu og skyldleika milli Mána Steins og Sólu Guðb-. Eitt slíkt atriði kemur fram hér: „Neglurnar á vinstri hendi drengsins taka vaxtarkipp, verða fingurlangar á augabragði. Fingurnir og höndin þrefaldast í einum rykk svo að brestur í beinum“ (bls. 64). Það er ekki annað að sjá en að Máni Steinn sé varúlfur og hér er lýst breytingu hans. Sóla Guðb- er vampíra í augum hans og hann eins og varúlfur er andstæða við hana. Samt sem áður hrífst hann af henni og hún dregur hann að sér.

Þegar Sóla klæðir sig í hann losnar hún við allt það sem passar ekki við vampírupersónuleika hennar – hún dregur inn neglurnar og þvær af honum yfirvaraskeggið (bls. 65), sem er önnur hárfín vísbending um varúlfsnáttúru Mána Steins. En samt þykja henni „rauðar varir hans, undirstrikuð augun og eyrnalokkarnir fara sér vel“ (bls. 65). Hér kemur í ljós skýrara en áður tvírætt eðli Mána Steins. Hann er með kveneinkenni sem Sólu líkar vel við þegar hún klæðir sig í hann. Og kemur þá í huga lesandans lýsing á dögum hans í skátafélaginu og því eina sem honum þótti skemmtilegt við það:

Skást þótti honum þegar þeir fengu að klæðast Væringjabúningunum sem var sniðinn að hætti fornmanna, blár og hvítur kyrtill, rauð skikkja, blá og rauð húfa á höfði. Bæði vegna þess að honum þótti gaman að láta fald skikkjunnar sveiflast um læri sín og hins að þá var eins og hann væri einhver annar. (bls. 23)

Mána Steini finnst gaman að „láta fald skikkjunnar sveiflast um læri sín“ eða með öðrum orðum að vera í kjól. Honum finnst gaman „að vera einhver annar“. Það má ímynda sér að Máni Steinn finni kvenlega hlið hjá sér og að hann langi til að geta lifað þessa hlið að fullu. Þá er enn auðveldara að skilja aðdáun hans á og þráhyggju gagnvart Sólu Guðb-. Máni Steinn „fylgist með hverri hreyfingu stúlkunnar“ (bls. 86). „En mest þykir honum til um hversu tilgerðarlaust hún framkvæmir þetta allt saman, hversu auðvelt það er fyrir hana að vera Sóla Guðb-“ (bls. 86). Það er alls ekki óhugsandi að hann langi að vera hún.

Sjón notar þjóðtrú og goðsögur til að skapa andstæður og tengsl milli persónanna og lýsa þeim á fleiri stigum. Það er líkt því sem Munch gerði í málverkinu „Depurð. Maður og hafmeyja. Mót á ströndinni.“ Verkið geymir allar andstæður í tákni hafmeyjar sem kemur upp úr hafinu andspænis manni á ströndinni. Hún er freisting og lokkar hann í annan heim sem tilheyrir honum ekki, en dregur hann samt að sér, því oft situr þessi samanskroppni maður í málverkum Munchs við sjóinn og langar til hafs. Það er depurð og löngun sem fela sig í honum og þetta stefnumót er eins ómögulegt og það er óumflýjanlegt. Karlmaður og kona, jörð og haf, svart og hvítt, máni og sól, steinn og guð, varúlfur og vampíra. Þannig stefnumót á sér stað í súrrealísku senunni á milli Sólu Guðb- og Mána Steins: „Um kvöldið þegar fuglinn í fjörunni er drukknaður í blóði drengsins kemur Sóla Guðb- og nær í Mána Stein út á snúru. Hún fer með hann heim og klæðir sig í hann“ (bls. 65).

Fullur máni rís við sólsetur en eins og áður var rætt tengist Máni Steinn fullu tungli og nótt. Þetta er stefnumót þegar Máni Steinn sýnir varúlfsnáttúru sína. Undir fullu tungli verður hann að varúlfi. Mána, sem táknar nótt, langar að verða að Sólu, sem táknar dag. Þetta er eðlileg þróun í náttúrunni, að nótt verður að degi. En rétt áður en þetta gerist, kemur dögun sem er rauð og stendur milli hinnar svörtu nætur og hins hvíta dags. Rauði liturinn birtist á milli Mána Steins og Sólu Guðb-. Og þessi litur skiptir miklu máli, eins og fjallað verður um hér á eftir.

 

1.6 „Allar konur“ og „Konan eina“

Það má segja að Sóla Guðb- sé tákn fyrir konu sem er bæði stúlka og fullþroskuð kona, sérstaklega ef við lítum á samanburð hennar við vampíru og Musidoru, sem var femme fatale. Það er endurtekin hugmynd í list Munchs að konan gangi í gegnum þrjú stig á ævinni – ung og saklaus stúlka, kynvera og fullþroskuð kona, og gömul og líflaus kona. Málverkið „Konan í þremur fösum“ sýnir „hina dreymnu konu − hina glaðværu konu − og konuna eins og nunnu – hana sem stendur föl bak við tré“[xxvi] eins og Munch sjálfur hefur lýst því fyrir Henrik Ibsen. Annar vinur Munchs, August Strindberg, hefur líka túlkað þetta málverk Munchs. Strindberg sá einnig þrískiptingu í konu Munchs en hann bætti við tveimur stigum: amasónan – synduga konan – ástkonan og málaða konan – barnshafandi konan – dýrlingurinn.[xxvii] Amasónan stendur andspænis máluðu konunni. Þetta er kona eins og maður teiknar, eða málar, hana í huga sér og hún er án efa Sóla Guðb- í augum Mána Steins. Hún getur verið í mótorhjólabúningi, keyrt mótorhjól og bíl án bílprófs, klifrað upp á húsþak án þess að svima, reykt sígarettu. Hún er á fyrsta stiginu í úrvinnslu Strindbergs á konu Munchs. Það er athyglisvert að þegar Máni Steinn kemur aftur til Íslands eftir að mörg ár eru liðin þá vill hann ekki hitta Sólu Guðb-. Hann er hræddur um að eyðileggja minningu sína um hana eins og hún var. Hann er mögulega hræddur um að uppgötva að hún sé búin að breytast og fara úr einum fasa í annan. Hann vill geyma hana í minni sem fullkomna veru. Honum finnst vissulega betra að minnast hennar eins og hún er máluð í huga hans, eins og amasóna klifrandi á þökum húsa. Hún má ekki vera syndum spillt, eða barnshafandi, heldur á hún að vera áfram gyðja og músa hans.

 

1.7 Rauð er veröld hans öll

Auk þess sem Sjón notar andstæður til að lýsa persónunum sínum á myndrænan og táknrænan hátt, gerir hann meira sem líkist tækni í myndlist, þ.e. hann leggur sérstaka áherslu á ákveðinn lit. Þetta gerir listamaðurinn til að skerpa mynd eða beina athygli að einhverju sérstöku sem hann vill að áhorfendur (eða lesendur í þessu tilfelli) taki eftir. Þetta er leið til að tjá sig með því að gera allt annað lítt áberandi og setja í brennidepil ákveðna tilfinningu sem oft verður lykill að gátu listaverksins. Liturinn sem gengur í gegnum skáldsöguna eins og rauður þráður er svo sannarlega rauður.

Þegar Katla gýs og himinninn logar í öllum litbrigðum rauðs og guls, þá er Máni Steinn staddur í sínum rauða heimi:

Drengurinn horfir á þau álengdar. Þaðan sem hann stendur sér hann ekki það sem þau sjá. Hann tekur klútinn rauða úr vasa sínum. Gljáandi efnið skríður milli fingra hans eins og kvikasilfur, rautt sem varir hennar, rautt sem mótorhjólið hennar, rautt sem ólgandi blóð hans.

Og rauður litur klútsins er eini liturinn sem skiptir hann máli í nótt, rauð er veröld hans öll. (bls. 15–16)

Hér er jafnvel gefið í skyn að rauði liturinn tákni það sem skiptir Mána Stein mestu máli. Það virðist eins og liturinn standi fyrir það sem vekur með honum tilfinningar og snertir hann innilega. Þetta er litur sem táknar líf í honum, ólgandi líf í æðum hans. Rauðar varir Sólu Guðb- gefa honum innblástur og rauði klúturinn, sem hann fær frá henni og sem kemur aftur og aftur við sögu, veitir honum stuðning og öryggi. Það er eins og öll ástríða hans sé sameinuð í þessum lit.

En rauði liturinn kemur líka við sögu í fleiri blæbrigðum. Höfuð drengsins sem hann dreymir að hann hafi fundið í kistlinum er „hrokkinhært og rauðbirkið“ (bls. 17). Þegar Máni Steinn hittir útlendinginn sem honum þykir sérlega vænt um, eins og kemur fram síðar í sögunni, þá er hárið hans „dumbrautt“ og ástvinur hans segir þá: „Auburn moon, harvest moon …“ (bls. 27). Þetta er heiti á fullum mána sem birtist nærri haustjafndægri og er rauðbrúnn á litinn, einmitt eins og Máni Steinn. Rauður er litur sem gefur í skyn líf í annars rökkvaðri sál þar sem svartir vængir ólmast (bls. 115). Jafnvel eru neglurnar á gráfölum fingrum deyjandi stelpunnar purpurarauðar, eins og þetta sé síðasta tákn lífsins í henni áður en hún andast úr spænsku veikinni (bls. 75). Blóðið sem sprettur fram úr Mána Steini og dumbrauðir smáfuglar sem hann sér í sótthita (bls. 63), allt það rauða sem langar að berjast fyrir lífi sínu og lifa af.

Expressjónistar notuðu ýkta liti til að magna tilfinningar og ekki síður notuðu þeir rauðan lit með áberandi hætti til að leggja áherslu og koma tjáningu á framfæri. Munch gerði þetta ósjaldan sjálfur. Í málverkinu „Blóðsuga“ er hár blóðsugunnar slegið og rautt og hún faðmar manninn að sér og samtímis rammar hárið hennar inn kossinn. Rauða hárið hefur verið túlkað sem tákn um kynæsandi spennu sem persónurnar finna fyrir undir áberandi skugganum.[xxviii] „Madonna“ rís með líkum hætti yfir áhorfandann með rauðan geislabaug á höfði og rauðar strokur í kringum sig sem styðja hreyfingar hennar. Hún er lífið sjálft persónugert. Hún geislar af lífi í nautn sinni og hún býr til líf á þessu getnaðaraugnabliki. Texti einn eftir Munch lýsir andrúmsloftinu vel:

Andlit þitt rúmar allt ástríki heimsins – Það rennur Mánaskin yfir Andlit Þitt sem er fullt af Jarðneskri Fegurð og Sársauka Því núna er það Dauðinn sem réttir lífinu Höndina og keðja hnýtist milli Ættanna þúsund sem eru dauðar og Ættanna þúsund sem eru væntanlegar.[xxix]

Mikilvægi rauðs litar í tjáningu Munchs sést líka í málverkinu „Dauða móðirin og barnið“. Eins og í öðrum málverkum hans sem lýsa dauðanum eru syrgjendur hver í sínum heimi og einangraðir, en í þessu málverki er nýtt minni: lítil stelpa sem starir beint út úr málverkinu og skapar tengsl við heiminn utan við það. Rauði kjóllinn hennar hefur verið túlkaður sem tjáning á „skíðlogandi tilfinningaútrás, sem andstæða þögullar og draugalegrar sorgar fullorðinna“.[xxx] Eins og Munch notar rauðan kjól stúlkunnar til að undirstrika tilfinningar hennar, notar Sjón rauða klútinn til að gefa í skyn hvað vekur tilfinningar í Mána Steini, þ.e.a.s. Sóla Guðb-. Ef lesandinn reynir að sjá fyrir sér háaloftið, þar sem Máni Steinn býr með gömlu konunni, bara út frá því sem Sjón lýsir er allt frekar grátt og dökkt á heimili þeirra, nema þessi rauði klútur sem drengurinn sefur með um hálsinn. Rauður klúturinn er það eina sem vekur hamingju í lífi hans.

Það er einnig athyglisvert hvaða aðferð Munch notaði til að hressa upp á málverkið „Losun“ sem hafði orðið fyrir vatnstjóni. Hann leggur bara áherslu með rauðum lit í sumum atriðum í myndinni. Það eru nefnilega máni og mánaskin í vatninu, hár stelpunnar, rauð sársaukablóm og blóðrauð lauf á trjágreinunum.[xxxi] Hár stelpunnar er einasta tengingin milli hennar og mannsins sem er að slitna í þessu málverki, eins og samband þeirra. Munch notar konuhár oft sem tengipunkt milli kvenna og karla og það er einmitt hárið sem tengir þau saman í málverkinu „Aðdráttarkraftur“. En blómin og laufin sem vaxa í kringum þunglynda manninn sem horfir niður samanskroppinn eru blóðrauð og tákna ástarsorgina sem sker hann til blóðs. Það skiptir Munch og áhorfandann ekki miklu máli hvort restin af málverkinu sé skemmd og sjáist ekki nógu vel eða ekki. Það sem skiptir máli rammar Munch inn með nokkrum strokum af rauða litnum. Þetta er það sem losun þýðir fyrir hann. Sú tilviljun að málverkið hans hafi orðið fyrir skaða sýnir bókstaflega hvernig Munch annars vinnur með málverk og tjáningu. Með líkum hætti rammar Sjón með rauða litnum inn allt það sem skiptir máli fyrir Mána Stein.

 

1.8 RöntgenSjón

Hinn expressjóníski málari er alltaf viðstaddur í listaverkum sínum. Tilfinningarnar eru málaðar beint á striga og tjáningin er ákaflega huglæg. Munch skilgreindi list þannig: „Öll list, bókmenntir og tónlist eru framleidd af hjartablóði manns. List er hjartablóðið í manneskjunni.“[xxxii] En stundum sýnir expressjónisti enn meira af sjálfum sér, jafnvel þegar ekki er um að ræða sjálfsmynd. Munch gefur stundum persónunum sem hann málar svip sinn þegar hann ber kennsl á stöðu þeirra eða þegar hann finnur samúð með þeim. Hann gefur einungis í skyn yfirbragð sitt, en vill ekki bókstaflega undirstrika að þarna sé hann sjálfur. Á þennan hátt gefur hann málverkum sínum allsherjargildi, en samtímis eru þau mjög persónuleg. Í málverkinu „Lífsins dans“ mætti kannast við Munch í miðju málverks, dansandi við konuna í rauðum kjól, á öðru stigi ævinnar, við hina glaðværu konu. Hér er hann sjálfur í lífi sínu, að glíma við kynveru og fullþroskuðu konuna, og ekki síður við hina syndugu konu. Þá kemur málverkið „Afbrýði“ sem framlenging og afleiðing af þessum dansi. Það mótar fyrir Munch í fölu andliti mannsins hægra megin sem er nokkuð þungur í sinni og konan á bak við er rauð í framan, full af togstreitu. En vinstra megin í nærmynd er annar maður sem horfir ráðalaus fram, grænn af afbrýði. Þessi mynd er skýr lýsing á þessari tilfinningu, en ef við þekkjum ævisögu Munchs er ekki mjög erfitt að tengja málverkið við atburði úr lífi hans og nefna allar persónur í málverkinu.

Ef við skoðum verk Sjóns nánar, kemur í ljós að hann skrifar sjálfan sig inn í textann einmitt eins og Munch málar sig inn í málverkin. Úlfhildur Dagsdóttir hefur skrifað um þetta einkenni á verkum Sjóns. Hún nefnir að hann minni lesandann á sjálfan sig í upphafi ljóðabókarinnar Ég man ekki eitthvað um skýin (1991) með því að gefa lýsingu á sjálfum sér sem samsvarar andlitsmynd sem er að finna fremst og aftast í bókinni. Úlfhildur gefur fleiri dæmi:

Í fyrstu skáldsögu Sjóns, Stálnótt (1987), brunar Johnny Triumph (Jón Sigur, Sigurjón) upp af sjávarbotni og í annarri skáldsögu sinni, Engill, pípuhattur og jarðarber (1989) var hann skuggi aðalsöguhetjunnar. Í Augu þín sáu mig er nærvera höfundar ekki eins sýnileg, en hinsvegar er lögð áhersla á áðurnefnda þátttöku sögumanns eða söguhöfundar.[xxxiii]

Þetta einkenni finnum við líka í Mánasteini. Það er sláandi líking milli kynningar Johnny Triumph og Sólu Guðb-. Johnny Triumph kemur akandi upp af sjávarbotni „langur og grannur, […] [með] brún sólgleraugu […] klæddur svörtum jakkafötum og þvældri blúnduskyrtu […] og skórnir úr leðri, sígildir og támjóir.“[xxxiv] Sóla Guðb- „birtist á klettabrúninni líkt og gyðja risin úr dýpstu hafdjúpum […] klædd svörtum leðursamfestingi […] með svarta hanska á höndum, kúptan hjálm á höfði, hlífðargleraugu og svartan trefil fyrir vitum“ (bls. 12). Í lok sögunnar þegar Máni Steinn fer aftur til Reykjavíkur og gengur framhjá húsi Sólu Guðb- „stendur gljábónað Triumph Model-Q“ utan í skúrveggnum (bls. 125). Sjón leikur sér aftur með nafn sitt og setur sig í samband við Sólu.

Sjón hefur sagt að hann væri sjálfur líkastur Mána Steini[xxxv] og það kemur ekki á óvart, af því að Máni hefur fyrst og fremst mikinn áhuga á kvikmyndum eins og rithöfundurinn. En Sjón gefur nærveru sína líka í skyn með smáatriðum. Hann minnir á sig þegar hann lætur Mána Stein fá „röntgensjón“ til að sjá Sólu Guðb- eins og hún raunverulega er (bls. 13). Þetta er líka tilvísun í ljóðasafn Sjóns, Drengurinn með röntgenaugun (1986). Sjón fléttar nafn sitt inn í verkin og leikur sér með augna-minni sem er sígilt hjá honum eins og Úlfhildur hefur bent á.[xxxvi] Ennfremur á Máni Steinn afmæli tuttugastaogþriðja apríl (bls. 95), en þetta er líka afmælisdagur Halldórs Laxness, afmælis- og dánardagur Williams Shakespeare, dánardagur Miguels de Cervantes og alþjóðlegur dagur bókarinnar. Einu sinni enn vísar Sjón, rithöfundur og skáld, til sín með tilvísun í aðra fræga rithöfunda og dag bókarinnar og um leið sýnir hann tengsl sín við Mána Stein. ExpresSJÓNistinn í honum málar sig inn í verkin.

 

1.9 Lokaorð

Samanburðinum við Edvard Munch, sem hér hefur verið lögð áhersla á, er ekki ætlað að gefa til kynna að Sjón hafi verið innblásinn af Munch eða haft málverkin hans fyrir framan sig á meðan hann skrifaði Mánastein. Það er reyndar ekki óhugsandi, ef tekið er tillit til þeirrar ítarlegu rannsóknarvinnu sem Sjón leggur á sig áður en hann skrifar skáldsögurnar sínar. Hvort það sé tilfellið hér eða ekki, skiptir litlu máli í samhengi ritgerðarinnar. Ég hef tekið dæmi af málverkum Munchs til að sýna hvernig skáldsagan mótast af listbrögðum expressjónískra málverka. Það vottar fyrir ópi og tilvistarkvíða í gegnum alla söguna. Notkun skugga sem haga sér eins og sjálfstæðar persónur er greinileg, bæði í Mánasteini og málverkum Munchs. Það er hægt að greina vampíruminni og gyðjuminni í skoðunum Mána Steins á konunni, rétt eins og hjá Munch. Bæði Sjón og Munch sýna karl og konu sem andstæður, meðal annars með markvissri notkun á myrkri og ljósi. Sjón notar rauðan lit eins og Munch til að leggja áherslu á og ramma inn það sem skiptir mestu máli. Munch málar sig inn í málverkin og Sjón skrifar sig inn í textann. Og allar þessar aðferðir eru í eðli sínu expressjónískar.

Þessi grein býður upp á eina leið til að lesa og skynja Mánastein. Hin myndræna og sjónræna hlið skáldsögunnar getur náð til allra. Lesandinn þarf ekki að kunna mikið um sögu Íslands og stöðu landsins árið 1918, og heldur ekki að þekkja allar götur og staði í Reykjavík sem koma fram. Hann á ekki að láta truflast af furðulegum nöfnum og framandi veruleika. Lesandi frá öðrum menningarheimi og með annað tungumál að móðurmáli en íslensku getur hrifist jafnmikið af skáldsögunni og íslenskur lesandi. Það sjónræna, sem hér hefur verið til umræðu, var í brennidepli í þýðingarferlinu á Mánasteini. Ég hef þannig lagt höfuðáherslu á að rödd Sjóns geti fundið leið sína inn í serbnesku. Sjón bregður upp nærmynd eða fjarmynd með notkun á tíðum og þessi hárfínu umskipti milli nútíðar og þátíðar var líka mikilvægt að varðveita vel. Slíkt er líka expressjónísk leið til að leggja áherslur, reyndar með notkun á verkfærum tungumálsins fremur en penslum málarans. Ég hef einnig reynt að passa upp á að kímnigáfa og kaldhæðni Sjóns skíni í gegnum hnitmiðaðan stílinn, sem oftar en ekki sækir í tungumál tímans sem sagan gerist á. Markmiðið var að láta rödd Sjóns snerta lesandann á sama hátt á serbnesku og hún gerir á íslensku. Það var áríðandi að láta hina skörpu innsýn, en líka hið stóra hjarta Sjóns vera sýnileg í textanum. Sjón hefur sjálfur líkt sér við Mána Stein,[xxxvii] sem virðist alltaf vera drengur óháð aldri sínum (bls.126). Með tilliti til skilgreiningar Munchs á list sem hjartablóði manneskjunnar,[xxxviii] er óhætt að kalla Sjón drenginn með röntgensjónina sem málaði með hjartablóði.

 

Heimildir

Andersen, H. C. 1925. Eventyr, anden samling. Dansk bogsamling – Martins Forlag, København.

American Gem Trade Association. 2014. Moonstone. Sótt 12. apríl 2014 af http://www.addmorecolortoyourlife.com/gemstones/moonstone.asp

Bøe, Alf. 1992. Edvard Munch. Aschehoug, Oslo.

Eggum, Arne. 1986. Edvard Munch. Norræna húsið 1986. Sýningarnefnd: Arne Eggum, Ólafur Kvaran, Knut Ødegård. Ísafoldarprentsmiðja h.f., Reykjavík.

Emily Gems. 2014. Moonstone. Sótt 12. apríl 2014 af http://crystal-cure.com/moonstone.html

Grøn, Arne. 1994. Begrebet angst hos Søren Kierkegaard. Filosofi – Gyldendal, København.

Hodin, J.P. 1948. Edvard Munch – Nordens genius. Ljus, Stockholm.

Íslensk orðabók. 2007. Ritstjóri Mörður Árnason. Sótt 12. apríl 2014 af http://snara.is

Kunsthistorie. 2013. Edvard Munch. Sótt 27. apríl af http://kunsthistorie.com/fagwiki/Edvard_Munch

Langaard, Johan H. og Reidar Revold. 1964. Edvard Munch. McGraw-Hill Book Company, New York-Toronto.

Lubow, Arthur. 2006. Edvard Munch: Beyond The Scream. Smithsonian Magazine, mars. Sótt 6. apríl 2014 af http://www.smithsonianmag.com/arts-culture/edvard-munch-beyond-thescream-111810150/

Moen, Arve. 1957. Edvard Munch – Kvinnen og Eros. Forlaget norsk kunstreproduksjon, Oslo.

Olson, Donald W., Russell L. Doescher og Marilynn S. Olson. 2005. The Blood-Red Sky of the Scream. Americal Physical Society, maí. Sótt 6. apríl af http://www.aps.org/publications/apsnews/200405/backpage.cfm

Sjonorama. 2014. Moonstone interview. Sótt 27. apríl af http://sjon.siberia.is/books/moonstoneinterview/

Sjón. 2013. Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til. JPV útgáfa, Reykjavík.

Sjón. 1987. Stálnótt. Mál og menning, Reykjavík.

Stang, Nic. 1971. Edvard Munch. Johan Grundt Tanum Forlag, Oslo.

Úlfhildur Dagsdóttir. 2001. Augu þín sáu mig eftir Sjón. Heimur skáldsögunnar, bls. 314-328. Ritstj. Ástráður Eysteinsson. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

 

Tilvísanir

[i] Sjonorama 2014

[ii] þessarar heimildar með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.

[iii] Eggum 1986:9

[iv] Lubow 2006

[v] Eggum 1986:13

[vi] Olson o.fl. 2005

[vii] Grøn 1994:28

[viii] Grøn 1994:70

[ix] Þetta er nafn óperu sem Sjón skrifaði texta fyrir árið 2006 sem byggist á sögunni „Skugganum“ eftir H.C. Andersen.

[x] Andersen 1925:35-48

[xi] Andersen 1925:44

[xii] Bøe 1992:63

[xiii] Eggum 1986:9

[xiv] Eggum 1986:10

[xv] Eggum 1986:53

[xvi] Langaard og Revold 1964:21

[xvii] Eggum 1986:55

[xviii] Eggum 1986:55

[xix] Moen 1957:20

[xx] Sjón 2013:39

[xxi] Bøe 1992:36

[xxii] Moen 1957:24

[xxiii] American Gem Trade Association 2014

[xxiv] Emily Gem 2014

[xxv] Íslensk orðabók 2007

[xxvi] Stang 1971:117

[xxvii] Hodin 1948:55

[xxviii] Bøe 1992:26

[xxix] Bøe 1992:26

[xxx] Bøe 1992:31

[xxxi] Bøe 1992:28

[xxxii] Kunsthistorie 2013

[xxxiii] Úlfhildur Dagsdóttir 2001:318

[xxxiv] Sjón 1987:31

[xxxv] Sjonorama 2014

[xxxvi] Úlfhildur Dagsdóttir 2001:318

[xxxvii] Sjonorama 2014

[xxxviii] Kunsthistorie 2013