Ullblekill
Eftir Melkorku Ólafsdóttur
Úr ljóðabókinni Flagsól sem kemur út 31. október. Mál og menning gefur út.
Við röðum okkur upp
í vegköntunum
höfum skjól hver af annarri
drögum pilsin upp fyrir hné
keyri einhver framhjá
að tala um hvað sé við hæfi
hvað betra en annað
aldrei hluti af orðaforða okkar
við fundum þessa leið
til að lifa af
og þegar þeir koma
flettum við upp um okkur
svört leðjan lekur niður hvíta leggina
horfum á eftir þeim
bruna út í myrkrið
leifarnar loða við dekkin
Ullblekill eða ullserkur (Coprinus comatus) vex nær eingöngu í grennd við híbýli eða meðfram vegum. Jafnan í þyrpingum, með misgömlum aldinum. Er eflaust gamall slæðingur á Íslandi, nú tíður um allt land. Þegar sveppurinn kemur fyrst upp er hann hvítur og flösugur utan. Dökknar við þroska og flösurnar verða brúnleitar. Hattbarðið víkkar að neðan og svartar fanirnar verða sýnilegar. Hattbarðið brettist síðan upp, verður svart og kvoðukennt og líkist þá tjöru. Gróin berast með þessum þykka vökva, líklega oft með bílhjólum meðfram vegunum.