eða hvernig Saga Borgarættarinnar varð þjóðkvikmynd Íslands[1]
Eftir Erlend Sveinsson
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020
Hvernig má það vera að aðeins örfáum mánuðum eftir að Íslendingar öðluðust fullveldi frá Dönum geri danskur kvikmyndaflokkur út leiðangur til Íslands til að taka stórmynd eftir sögu Íslendings? Í kjölfarið nær þessi þögla kvikmynd slíkum vinsældum með þjóðinni að hún hefur lifað með henni í heila öld og því freistandi að skýrgreina hana sem eins konar þjóðkvikmynd Íslands. Sambærileg flokkun á ekki við um neina aðra kvikmynd þótt alíslensk sé.
Hverfum aftur til ársins 1918. Í aprílmánuði það ár fæðist hugmyndin um að gera kvikmynd eftir Sögu Borgarættarinnar, ef marka má frásögn Gunnars Sommerfeldt, sem bæði leikstýrði og lék eitt aðalhlutverkið í myndinni. Sommerfeldt skrifaði hugleiðingar sínar um kvikmyndatökuna stuttu eftir að henni var lokið á Íslandi árið 1920. Honum segist svo frá að þegar hann hafði lesið skáldsöguna í annað sinn, „sá ég hana í huga mér umbreytta í lifandi myndir, en það var ekki fyrr en í apríl 1918 að ég fékk tilefni til að leggja það til við Nordisk Films Kompagni að kvikmynda hina sérkennilegu fjölskylduskáldsögu Gunnars Gunnarssonar.“[2] Þetta er væntanlega rétt því Gunnar skáld segir í viðtali 1968: „hugmyndina átti að því er ég bezt veit Gunnar Sommerfeldt. Að minnsta kosti braut hann fyrstur manna upp á því við mig að kvikmynda söguna.“[3]
Stórveldið Nordisk Film
Nordisk Films Kompagni var næststærsta kvikmyndafélag heims þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á. En í stríðinu laskaðist dreifikerfi þess þegar flestöll markaðslönd lokuðust sem hafði fjárhagslegar þrengingar í för með sér. Félagið dró saman seglin, lagði niður handritsdeild sína og sagði upp fólki í kvikmyndaverinu í Valby í stórum stíl. Kvikmyndaleikstjórar urðu sjálfir að útvega sér handrit eða nota tilbúin handrit af lager. Handrit fóru samt ekki í vinnslu fyrr en Ole Olsen, stofnandi félagsins, hafði samþykkt þau. Leikstjórarnir urðu einnig að gangast í fjárhagslega ábyrgð fyrir framleiðslu sinni. Á þessum erfiðu tímum losaði Nordisk sig líka við fastráðna leikara en þess í stað var leikstjórum falið að ráða leikara frá einu verkefni til annars.[4]
Gunnar Sommerfeldt er 27 ára þegar hann fær áheyrn hjá forstjórum Nordisk, þríeykinu Ole Olsen, Harald Frost og Wilhelm Stæhr, árið 1918. Þá er félagið farið að leita leiða úr kröggunum og hefur heimilað öðrum ungum kvikmyndaleikstjóra, Carl Theodor Dreyer, sem átti eftir að gera garðinn frægan, að undirbúa stórmynd í anda Intolerance D.W. Griffiths. Hún nefndist Blade af Satans Bog. En Nordisk þarf fleiri verkefni sem eru líkleg til að rétta við fjárhag félagsins og koma því aftur á heimskortið. Einhvern veginn tekst Sommerfeldt að telja þríeykinu trú um að Saga Borgarættarinnar sé slíkt verk. Leiða má líkum að því að hann hafi m.a. vísað til stórmyndar sem Svensk Biografteatern hafði þá nýverið kvikmyndað eftir leikriti Jóhanns Sigurjónssonar um Fjalla-Eyvind. Sú mynd var í leikstjórn Victors Sjöström, tekin upp í hrikalegu landslagi í Norður-Svíþjóð og vakti mikla athygli þegar hún var frumsýnd á nýársdag 1918.
Lítil þekking á landinu
Sommerfeldt leggur til að landslagið leiki stórt hlutverk í Sögu Borgarættarinnar líkt og hjá Sjöström og vill kvikmynda víða um Ísland, m.a. á æskuslóðum Gunnars austur á Vopnafirði og einnig á Borgarfirði eystra.[5] Þær hugmyndir sýna ískyggilega vanþekkingu kvikmyndastjórans á innviðum landsins og aðstæðum.
Árið 1918 er ár hörmunga og hamfara á Íslandi en líklega hafa Sommerfeldt og forkólfar Nordisk Film haft litlar spurnir af því sökum styrjaldarinnar. Verkefnið er sett af stað þótt fordæmalausar frosthörkur hafi verið á Íslandi í byrjun árs og að hin svokallaða spænska veiki komi í júlí þetta ár og aftur í október og þá sem mannskæð drepsótt. Rúmri viku síðar gýs Katla, sem hefur miklar hörmungar í för með sér með jökulhlaupum og öskufalli sem dreifist yfir meira en helming landsins. Stóð þetta sögufræga gos fram til 4. nóvember 1918. Styrjöldinni lýkur 11. nóvember og 1. desember verður Ísland fullvalda ríki.
Góðir gististaðir eru vandfundir. Hótel Reykjavík brann 1915 þannig að í höfuðstaðnum er aðeins eitt hótel og í Hafnarfirði annað. Á öðrum tökustöðum þarf að gista í tjöldum eða leita á náðir bænda og kirkna. Hér við bætist að vegakerfi landsmanna er mjög takmarkað og sömuleiðis bílafjöldi og því verður nauðsynlegt að ferðast umtalsverðar vegalengdir á hestbaki. Aðstæður til kvikmyndagerðar eru því ekki upp á marga fiska á Íslandi, hvenær svo sem Sommerfeldt gerir sér grein fyrir því.
Samningar við skáldið
Veturinn 1918 til 1919 kemur Sommerfeldt aftur að máli við nafna sinn skáldið og segir honum að Nordisk hafi samþykkt að gerð verði kvikmynd undir hans stjórn upp úr Sögu Borgarættarinnar. Nú þurfi þeir að semja um kvikmyndaréttinn. Hvort hann geti sætt sig við 3000 krónur?[6] En skáldið vildi meira fyrir sinn snúð og orðar Gunnar það svo að „lengi vel framan af virtist allt ætla að stranda á því að ég vildi fá 5000 kr. fyrir réttinn til að kvikmynda söguna, en það tóku þeir ekki í mál, sögðu það alltof hátt. Ég sagði að mér væri þá alveg sama hvort þeir kvikmynduðu eða ekki en lét engan bilbug á mér finna með upphæðina.[7] Gunnar var „ekki sérlega ginnkeyptur“[8] enda fullur efasemda um kvikmyndun bókmenntaverka eða eins og hann orðaði það síðar: „Það fer oftast illa með sögu, frekar en hitt, að gerð sé eftir henni mynd.“[9] Til viðbótar við uppsett verð vildi Gunnar fá „ákveðinn hundraðshluta af hreinum hagnaði. Hvorugt þótti koma til mála … Þá setti ég einnig upp að Guðmundi Thorsteinssyni yrði falið hlutverk Ormars. Nordisk Film gekk að því síðast talda, eftir að hafa litið á manninn og séð hann á sviði.“[10]
Þessum þreifingum lyktaði með því að Nordisk sendi Gunnari bréf 7. maí 1919 og bauð honum 3500 krónur. Skömmu seinna var undirritaður samningur sem kvað á um að Nordisk Films Kompagni fengi einkarétt á kvikmyndun Borgarættarinnar um allan heim og sömuleiðis á dreifingu hennar og sýningu. Gunnar var harður samningamaður en til að hann næði því kaupverði sem honum fannst sanngjarnt þurfti hann að láta gerð kvikmyndahandritsins afskiptalausa sem og að fá kvikmyndafélaginu óskoruð yfirráð yfir verkinu.[11] „Útkoman varð að þeir gengu að því að greiða mér 5000 gegn því að ég slægist í förina og færi með aukahlutverk læknisins.“[12]
Handritsgerð og leikaraval
Nú þurfti að taka til óspilltra málanna við samningu kvikmyndahandrits, ætti að verða unnt að ráðast í kvikmyndatökur síðar um sumarið. Sommerfeldt fær til liðs við sig hinn þrítuga Valdemar Andersen, handritshöfund og seinna kvikmyndaleikstjóra. Þeir höfðu unnið saman við myndina Lykkens Galoscher, sem var kvikmynduð fyrr á árinu af Louis Larsen, sem Sommerfeldt réð líka til að kvikmynda Borgarættina. Gunnar Gunnarsson segir að hann hafi ekki séð „kvikmyndahandritið fyrr en það var fullgert að heita má, og fékk þar fáu um þokað, varð jafnvel að láta mér lynda að vikið væri í einstökum atriðum frá gangi sögunnar – það var ýmislegt sem þurfti um að bæta vegna myndarinnar, var viðlagið“ hjá þeim Sommerfeldt og Andersen.[13]
Gera má ráð fyrir að samhliða handritsgerðinni hafi orðið til listi yfir leikarana sem ráða þurfti til verksins. Í huga Sommerfeldts var ljóst að þau hjónin, Inge Sommerfeldt og hann, myndu vera í hlutverkum Ketils prest og Ölmu konu hans. Guðmundur Thorsteinsson léki Ormarr, bróður Ketils, að tillögu Gunnars skálds. Þá vantaði bara einn leikara í hóp lykilpersóna. Samið var við Frederik Jakobssen um að leika Örlyg bónda, kónginn á Borg, og kona hans, Elisabeth Jacobsen, var fengin til að leika Snæbjörgu sem kölluð er Bagga. Í hlutverk Rúnu, fósturdóttur Örlygs sem síðan verður kona Ormars, er ráðin Ingeborg Spangsfeldt og ungur leikari, Ove Kühl, er fenginn til að leika son hennar, Örninn unga. Íslenska leikara aðra en Mugg átti svo að finna uppi á Íslandi.
Bæði Jacobsen og Sommerfeldt voru stórlaxar hjá Nordisk. Þegar Jacobsen lést aðeins þremur árum síðar, 45 ára gamall, átti hann að baki leik í 173 kvikmyndum enda einn af öflugustu kvikmyndaleikurum Dana á sinni tíð. Sommerfeldt kom fram í 33 kvikmyndum og voru þrjár frumsýndar árið 1919 þegar hann var að undirbúa tökur á Sögu Borgarættarinnar.
Bjarni bíóstjóri kemur til sögunnar
Við þessar aðstæður kom sér vel að Harald Frost, einn þriggja forstjóra Nordisk, skyldi hafa veður af því að bíóstjóri ofan af Íslandi, sem þeir áttu í filmuviðskiptum við, væri í borginni. Þetta var Bjarni Jónsson, kenndur við Galtafell, forstjóri Nýja Bíós. Frost kallar Bjarna á sinn fund út í Valby til að ræða við hann um áform félagsins. Bjarni segist hafa þurft að bíða æði lengi eftir Sommerfeldt, sem var á ferð í Noregi,[14] og hefur þá eflaust gefist færi á því að skreppa í Palads Teatret, glæsilegasta kvikmyndahús Danmerkur á þessum tíma og þótt víðar væri leitað, sem tekið var í notkun í byrjun árs 1918. Bjarni stóð sjálfur í stórframkvæmdum heima á Íslandi við að reisa nýtt Nýja Bíó við Austurstræti og Lækjargötu úr steinsteypu. Bæði þessi kvikmyndahús áttu eftir að frumsýna Sögu Borgarættarinnar. Bjarna segist svo frá í viðtali í Morgunblaðinu í júní 1919:
Þegar Sommerfeldt kom frá Noregi, skýrði hann mér frá því, að ferðaáætlunin væri sú, að fara héðan úr Reykjavík landveg suður og austur um land til Borgarfjarðar eystra. Þar á að leika. Síðan á að halda landleiðina áfram upp til Mývatnssveitar og póstleiðina þaðan, eða Kaldadal. Fól hann mér að útvega hesta, fylgdarmenn og hestasveina eins og þörf gerðist, og annan fararútbúnað, svo sem tjöld, reiðtygi, klyfsöðla o.s.frv. Ætlan Sommerfeldts var að fá í Reykjavík 5 eða 6 leikendur og ætlar hann að leita þar aðstoðar Leikfélagsins. Sérstaklega mun hann hafa augastað á þeim frúnum Stefaníu Guðmundsdóttur og Guðrúnu Indriðadóttur. Um aðra veit eg ekki, nema ef „statista“ er þörf, þá á að fá þá eystra. Búist er við að flokkurinn verði í mánuð eða svo á Íslandi. Búast þeir við því, að geta á fám dögum leikið allt, sem leika þarf hér, en komi þeir því ekki í verk, vegna þess að tími er naumur, þá verður gerður annar leiðangur hingað að sumri. Mestur hluti kvikmyndarinnar verður leikinn í Kaupmannahöfn, og er eigi búist við því, að hún komi á markaðinn fyr en á öndverðu árinu 1921.[15]
Kvikmyndaævintýrið hafið
Bjarni var ekki vanur að tvínóna við hlutina og hefur því ekki tjáð sig um smáatriði, segir aðeins blaðamanni eftir komu sína til Íslands að Harald Frost hafi beðið sig um að taka að sér alla fyrirgreiðslu heima á Íslandi „og varð það úr, að ég gerði það“.[16]
Sama á við um Sommerfeldt sem skrifar: „Að lokinni forvinnu, sem var svo sem ekkert smáræði, gat ég gefið merki um brottför frá Kaupmannahöfn þann 25. júlí 1919.“[17] Það er ekki ljóst hve margir hafa tekið þátt í þessum leiðangri til Íslands. Bjarni bíóstjóri segir að leikendur hafi verið á bilinu 10–12.[18] Þar við bætast að minnsta kosti Louis Larsen kvikmyndatökumaður og Christen Fribert, sem var ritari Nordisk[19] og gjaldkeri leiðangursins, auk þess að vera bæði rithöfundur og leikari en hann tók að sér hlutverk kaupmanns í myndinni.[20] Það hefur því verið myndarlegur farangur sem fylgdi hópnum um borð í ms. Gullfoss; búningar og gervi á leikarana, tvær kvikmyndatökuvélar og þrífætur, kassar með eldfimum 35 mm nítratnegatífum, leikmunir, handrit fyrir alla að viðbættum farangri hvers og eins.
Þegar flaggskip Íslands leysir landfestar þennan júlídag er þetta mikla kvikmyndaævintýri hafið. Fjárhagsáætlunin er upp á 175.000 danskar krónur[21] og er Borgarættin því dýrasta kvikmynd Nordisk Films Kompagni í framleiðslu fram til þessa, ásamt Blade af Satans Bog, sem Carl Th. Dreyer er við tökur á í landi þegar Borgarættarfólkið heldur út á Atlantshafið.
Á meðan Gullfoss er í hafi er bíóstjórinn kominn á fullt við að undirbúa kvikmyndatökuna. Til myndatökunnar í Reykjavík leigði hann túnblett við Hallveigarstíg og Ingólfsstræti undir „kvikmyndaver“.[22] Fyrir túnið varð hann að greiða 25 krónur yfir tímann og fannst dýrt. Hann leigði síðan að eigin sögn yfir 20 hesta handa leikurunum og starfsfólki,[23] og drjúgan bílaflota þótt vegakerfi landsins væri frumstætt.[24]
Fyrstu kvikmyndastjörnurnar stíga á land
Þegar Gullfoss leggur að bryggju mánudaginn 4. ágúst er þar fyrir múgur og margmenni til að sjá alvöru bíómyndastjörnur augliti til auglitis en líka til að berja augum annars konar stjörnur því með skipinu kom einnig fremsta knattspyrnulið Danmerkur í keppnisferð.[25] Sommerfeldt orðar það þannig að „gjörvallir íbúar bæjarins hafi tekið á móti þeim á bryggjunni.“[26] Bíó-Petersen, forstjóri Gamla Bíós, mætir niður á bryggju og tekur fréttamynd af komu skipsins til sýningar í bíói sínu og blöðin senda blaðamenn á vettvang. Það skrítna er að þegar Petersen sýnir fréttamynd sína í Gamla Bíói er ekkert kvikmyndalið að sjá á myndinni, bara textaskilti sem á stendur: „E.s. Gullfoss. Sig. Pétursson. Á þilfarinu kvikmyndaleikarar frá Nordisk Films Kompagni og knattspyrnumenn frá A.B.“[27] Petersen fer að vísu um borð með kvikmyndavélina en tekur bara mynd af skipstjóranum á meðan blaðamenn taka viðtöl við kvikmyndafólkið.
Morgunblaðið hefur áform um að senda fréttaritara sinn, Árna Óla, með hópnum út á land svo hann geti skrifað ferðapistla sem blaðið birti jafnharðan og viðhaldi þannig áhuga lesenda á stjörnunum. Blaðið hafði birt frétt og viðtal við Bjarna bíóstjóra nokkrum dögum áður en Gullfoss lagði að bryggju[28] en daginn eftir komu hópsins er stórfrétt á forsíðu blaðsins og ljósmyndir af öllum helstu þátttakendum leiðangursins. Fram kemur að ferðaáætlunin sé ekki að fullu ákveðin en að mikið starf bíði leikenda sem eigi fyrir höndum að leika í 800 senum. Það sé hins vegar ákveðið að atriðin í „kvikmyndaverinu“ í Reykjavík verði tekin upp eftir að búið verði að kvikmynda úti á landi.[29]
Christen Fribert lýsir því fyrir blaðamanni Berlingske Tidende tveimur mánuðum síðar að „um leið og við komum til Reykjavíkur voru útvegaðir 70 hestar, 8 tjöld og mikið af niðursuðuvörum, sem við skyldum hafa með í ferðina inn í landið.“ Hann nefnir að Bjarni Jónsson, forstjóri Nýja Bíós og ættingi Gunnars Gunnarssonar,[30] sé „að reisa um þessar mundir nýtt kvikmyndahús, þannig að Reykjavík fær brátt alveg nýtt nútímalegt kvikmyndahús samkvæmt bestu stöðlum.“[31]
Leikaraval og ferðaplön
Freistandi er að hugsa sér að Sommerfeldt, Fribert og Louis Larsen fari fljótlega eftir komuna í land með Bjarna að skoða framkvæmdirnar við byggingu nýja bíósins samhliða því að fara upp í Þingholtin til að segja fyrir um og fylgjast með þegar byrjað er á smíði kirkju og baðstofu á Amtmannstúninu. Mikilvægt er að smiðirnir komist af án forsagna á meðan hópurinn verður úti á landi.[32] Bjarni hefur falið Finni Thorlacius, byggingarmeistara Nýja Bíós, að stjórna byggingu kvikmyndaversins.[33] Ekkert rafmagn var í Ingólfsstrætinu en í Nathan & Olsens-húsinu var mótor og var lögð taug þaðan og upp í Þingholt til þess að lýsa senurnar.[34]
Væntanlega ræða þessir þrír herramenn það sín á milli dagana fram að brottför að hætta við kvikmyndatökur austur á Vopnafirði og á Borgarfirði eystra.[35] Ekki er ólíklegt að Bjarni hafi haft eitthvað um það að segja og jafnvel lagt til að notast yrði við Keldur á Rangárvöllum sem tökustað fyrir Borg og Reykholt í Borgarfirði sem Hof, auk Þingvalla.
Tíminn nýtist líka til að spjalla við leikara hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þau Stefaníu Guðmundsdóttur, Guðrúnu Indriðadóttur, Mörtu Indriðadóttur og Stefán Runólfsson, sem öll gefa færi á sér til að leika í myndinni, og aðstæður eru nýttar til æfinga suður á Melum.[36] Ráðgert er að auglýsa eftir statistum í Reykjavík þegar komið verður til baka úr ferðinni en hafa uppi á öðrum úti á landi eftir þörfum.
Ferðalagið að Keldum
Mánudaginn 11. ágúst hafa allir tiltækir bílar í bænum verið pantaðir til ferðarinnar og koma nú að góðum notum við að aka hópnum austur að Þjórsá, þar sem akvegurinn suður á land endar og færa þarf allt yfir á hestklakka. Einu vatnsheldu hirslurnar sem fundust í landinu eru rauð koffort póstsins sem Bjarna bíóstjóra hafði hugkvæmst að fá að láni. Það var því myndræn sjón að mati Friberts gjaldkera „að sjá okkur fara út úr bænum. Fararstjóri okkar, Ögmundur Sigurðsson, var stórkostlegur gamall maður, sem hafði ferðast með fjölda Englendinga og Ameríkana um landið.“[37] Og Fribert gefur Bjarna bíóstjóra líka háa einkunn þegar hann segir að það hafi verið „ómetanlegur stuðningur í vinnu okkar hvernig Bjarni … hefur af miklu trygglyndi aðstoðað okkur í stóru jafnt sem smáu.“[38]
Sommerfeldt lýsir síðari hluta ferðarinnar með svofelldum orðum:
Við Þjórsá biðu okkar 65 viljugir hestar, óþolinmóðir að fá úr því skorið hverjum okkar yrði best að kasta af baki. Sjö ágætir leiðsögumenn, þeirra á meðal Sigurðsson, skólameistari og skáldin tvö, Heydal og Sigmundsson,[39] höfðu gengið frá tjöldum og koffortum og af stað hélt þessi langa lest undir áköfum hrópum frá þeim sem stjórnuðu hestunum og öttu þeim fram og til baka, trússhestarnir hafðir fremst í lestinni. Það heyrðust smáhljóð, stundum skelfingu lostin hróp frá dömunum, þegar hestarnir prjónuðu eða farið var yfir á. Orðrómur um okkur dönsku filmarana, sem voru væntanlegir til landsins, hafði náð þangað nokkrum mánuðum áður, þannig að alls staðar þar sem við komum og hittum fólk á leið okkar vissi það deili á okkur og okkar ferðalagi. Sumir undruðust að „við værum svona ósköp venjulegt fólk“.[40]
Komið er að Keldum á þriðjudagskvöldi en þegar Sommerfeldt og Larsen fara að skoða aðstæður til myndatöku rekur þá í rogastans. Um ástæðu þess má lesa í fyrsta ferðapistli Árna Óla, blaðamanns hjá Morgunblaðinu, sem skrifar:
Þegar lagt var á stað frá Reykjavík, var búist við því að bæinn hér á Keldum mætti hafa fyrir Borg. Var hann sérstaklega valinn vegna þess, að hér er forn bygging, hinn nafnkunni skáli og mörg þil fram að hlaði. En er hingað kom varð mönnunum það fljótt ljóst, að Keldur gátu ekki verið Borg, vegna þess að hér er kirkja og stendur hún svo nærri bænum eða þeim hluta hans sem flest eru þilin, að annaðhvort varð að sleppa þiljunum eða að kirkjan sæist á myndinni. En á Borg á ekki að vera nein kirkja. Þess vegna var það afráðið að gera Keldur að Hofi.[41]
Það fór því svo að á Keldum voru tekin upp atriði í þáttinn „Danska frúin á Hofi“ en tökur gengu hægt sökum veðurs. Það gekk ýmist á með rigningu sem hamlaði tökum eða roki sem feykti sandi og ösku um allt. Kvikmyndatökuliðið átti að gista í tjöldum, sem slegið var upp að baki húsunum á Keldum, en svo fór að flestum var fundið svefnpláss innandyra í bænum og kirkjunni. Inn á milli rofaði þó til og daginn sem kirkjuatriði með 60 aukaleikurum úr sveitinni var tekið upp brast á með blíðviðri. Að viku liðinni var búið að taka upp þau atriði sem gerast á Hofi og var þá farið að ganga á matarbirgðir. Í ferðapistli Árna Óla segir að slátrað hafi verið tveimur dilkum við Þjórsárbrú til að metta hópinn á leiðinni til næsta tökustaðar.[42]
Ósætti leikstjórans og skáldsins
Dvölin á Keldum reyndi á taugar tökuliðsins. Sumir leikararnir höfðu lítið að gera þar vegna þess að tökustöðum var víxlað og hefðu allt eins getað orðið eftir í Reykjavík. Á þessum dögum hljóp líka snurða á þráðinn milli leikstjórans og skáldsins.
Jón Yngvi Jóhannsson lýsir samskiptum þeirra í ævisögu Gunnars, Landnám, með svofelldum hætti:
Gunnar [Gunnarsson] fylgdi leiðangrinum austur en þar sauð upp úr á milli þeirra nafnanna, hans og leikstjórans Gunnars Sommerfeldt. Gunnar segir frá viðskiptum þeirra í eftirmála við íslenska gerð Borgarættarinnar og gerir þar hlut Sommerfeldts heldur hlálegan, segir meðal annars af því sögu þegar Sommerfeldt velti sér upp úr hlandfor á hlaðinu á Keldum til að líkjast betur íslenskum útilegumanni í hlutverki Gests eineygða. […] Fleira bjó þó undir. Helsta rótin að reiði Gunnars í garð Sommerfeldts var að á Keldum var leiðangurinn rukkaður um hærri upphæð en samið hafði verið um fyrir gistingu, Gunnar samdi um að fá reikninginn lækkaðan um helming en Sommerfeldt hélt upphaflega reikningnum fyrir bókhaldið og stakk mismuninum í vasann. Þótt þegar hafi verið orðið stirt á milli nafnanna á Keldum fylgdi Gunnar kvikmyndaleiðangrinum áfram.[43]
Erfið ferðalög milli tökustaða
Tökum lýkur á Keldum 20. ágúst og þá dreifist hópurinn. Sommerfeldt og Fribert halda norður um Kaldadal undir leiðsögn Sigurðar Heiðdals til Reykholts í Borgarfirði sem nú átti að taka við hlutverki Borgar. Ferðin tekur fjóra sólarhringa.
Í Reykholti, frægustu jörð frægasta bústaðar Íslands, nefnilega Snorra Sturlusonar, sagnaritarans, hinum gamla bæ hetjunnar sem er svo ríkur af sögulegum minningum, slógum við upp tjöldum. Eftir að hafa gert nauðsynlegar breytingar, viðbyggingar, lagfæringar, o.s.frv. o.s.frv. kom hópurinn.[44]
En það gekk á ýmsu hjá hinum hópnum á leiðinni til Borgarfjarðar. Þegar búið var að koma öllum farangri fyrir á klyfjahestunum á Keldum vill ekki betur til en svo að hestarnir fælast. „Var það ófögur sjón að sjá klárana tólf saman æðistryllta hendast á hvað sem fyrir var, gaddavír, hraun og girðingar, slíta af sér kofort og reiðinga og hverfa út í buskann.“[45]
Árni Óla lýsir því hvernig þeir tína saman farangurinn sem hafði dreifst um hraun og móa og komast loks við illan leik í Þjórsártún til hinna sem höfðu farið þangað á undan lestinni. Þar kemur í ljós að aðalmyndavélin hefur skemmst.
Auðvelt er að ímynda sér hvílíkt skelfingarástand hefur skapast. Larsen myndatökumanni tekst sem betur fer að gera við myndavélina og spóluboxin virðast hafa sloppið við hnjask í póstkoffortunum. En þetta tefur hópinn sem ætlaði að taka næst upp við Geysi og Gullfoss. Á þeirri leið tekur ekki betra við og lendir hópurinn í svartaþoku. Fyrsti dagurinn við Geysi, 25. ágúst, fer í stórþvott hjá öllum enda hálfur mánuður síðan haldið var af stað frá Reykjavík. Ætlunin var að Sommerfeldt og Fribert kæmu þangað en þess í stað senda þeir skilaboð um að allir eigi að drífa sig til Reykholts þar sem allt sé klárt fyrir tökur. Sú ferð gengur litlu betur en leiðin frá Keldum. Næturfrost er tekið að gera vart við sig og verður mörgum kalt í tjöldum þar sem gist er að Brunnum norðan Skjaldbreiðar. Sömu nótt fælist helmingur hrossanna og finnst ekki fyrr en um hádegi. Hópurinn er því ekki kominn að Reykholti fyrr en 27. ágúst. Þaðan skrifar Árni Óla tveimur dögum síðar í sínum þriðja ferðapistli:
Hér í Reykholti verður tekinn aðalhluti myndarinnar – sá er gerist í Borg. Bærinn þótti eigi nógu stór og þessvegna var sóttur trjáviður til Borgarness og reist hér timburstofa með gafli fram á hlaðið og skemmuþil sett upp á öðrum stað. Síðan hafa öll þilin verið máluð og er nú staðarlegt að horfa heim að bænum. Á morgun verður byrjað að leika, þó ekki hér, heldur á koti, sem er alllangt inn í Hálsasveit og heitir Kolslækur. Er sá bær hafður fyrir Bolla. Verður sennilega leikið þar í tvo daga, en síðan tekið til við Borg. Ef góð verður tíð, er búist við því, að öllu verði þar lokið á hálfum mánuði. Verður þá farið til Borgarness og þar leikin þau atriði sögunnar, er gerast í kaupstaðnum. Munu þá flestir halda til Reykjavíkur, en þó verður eitthvað leikið hjá Geysi og á Þingvöllum á eftir.[46]
Tökuplanið úr skorðum gengið
Ekki gekk þetta tökuplan eftir áætlun því rúmri viku síðar situr Árni Óla enn í Reykholti og þá hefur „tæplega komið bjartur dagur“. Þrátt fyrir það hefur tekist að ná „mörgum allgóðum myndum“ í Reykholti, á Kolslæk og uppi í heiði. Daginn sem kvikmyndað var í heiðinni var gott veður en þar voru m.a. tekin upp atriði með lækninum, sem Gunnar Gunnarsson leikur sjálfur, Böggu og Erninum unga.[47]
Ein stærsta senan sem tekin er í Reykholtsdal er við réttir þar sem féð á Borg er rúið. Líkt og við kirkjusenuna á Keldum leikur veðrið við tökuliðið þennan dag, 9. september. Um morguninn eru smalar sendir á fjall til að sækja fé og á meðan þeir leita kinda allt inn að Oki til að reka niður í Rauðsgilsrétt fara fram tökur í Rauðsgilinu sjálfu.
Leikendurnir lögðu leið sína upp með Rauðsgili og upp að háum fossi, er Bæjarfoss nefnist. Þar var svo leikið lengi dags og gerðust mörg atriði leiksins í blábrúninni, þar sem fossinn fellur fram af. Klofnar áin á bjargbrúninni sjálfri og er þar steinn upp úr. Á þeim steini var leikið. Meðal leikendanna var lítil telpa frá Akranesi. Hún er annaðhvort á fjórða ári eða fjögra ára gömul og heitir Sigurdís Kaprasíusdóttir. Móðir hennar var í sumar í kaupavinnu í Breiðabólstað í Reykholtsdal og hafði hana þar hjá sér. Þessi litla stúlka var látin leika Rúnu meðan hún er hjá Páli á Seyru. Er Páll ræfill og getur ekki séð sér og barninu farborða og ætlar því að fyrirfara sér og því í fossinum. Var dásamlegt að sjá það, hvað telpan lék vel og eðlilega og hvað hún var óhrædd þarna fram á hengifluginu yfir fossinum. En ég er hræddur um, að mamma hennar hefði aldrei gefið samþykki sitt til þess að telpan léki, ef hún hefði vitað að hún ætti að leika á svona ægilegum stað.[48]
Að mati Árna Óla voru tökurnar í Rauðsgili bestu náttúrumyndirnar sem náðst höfðu í ferðinni. Þá hafði leiðangurinn staðið í um mánuð og aðeins verið hægt að taka upp sextán daga. Samt sem áður var búið að filma 300 senur fyrir myndina.[49] Hópurinn dvaldi nokkra daga í viðbót í Reykholti áður en komið var aftur til Reykjavíkur að vel áliðnum september.
Tökur hefjast í Reykjavík
Bjarni Jónsson lýsir því sem tók við þegar hópurinn kom til Reykjavíkur.[50] Allt var til reiðu og búið að smíða kirkju og baðstofu í „kvikmyndaverinu“ á Amtmannstúni. Hinn 24. september var auglýst eftir fólki til að „fylla í eyðurnar“. Hundrað manns voru ráðnir til að vera við kirkju og höfðu venjulegt verkamannakaup þessa viku sem þær senur voru teknar, nema hvað unglingar voru á lægra kaupi. Sumir fengu vinnu í lengri tíma og léku statista í baðstofuatriðum en alls tóku tökur á Amtmannstúninu þrjár vikur.[51] Spurningunni um það hvort þetta hafi ekki verið mikil tíðindi svarar Bjarni: „Jú vissulega, því að þetta hafði aldrei gerzt hér áður. Fjöldi manns var alltaf uppi við Amtmannstún til að fylgjast með öllu, og sumir töldu ekki eftir sér að vera þar allan daginn. Þetta var sannkallað „Tivoli“ meðan það stóð, eiga margir minningar um það.“[52]
Það átti þó ekki við um Gunnar Gunnarsson, höfund sögunnar. Hann lét ekki sjá sig á tökustað þegar hér var komið sögu heldur var farinn að undirbúa brottför sína af landinu.[53] Óvíst er hvort þeir Sommerfeldt hafi náð að kveðjast, sennilega ekki.
Sommerfeldt segir í minningum sínum að „úr sveitinni komu gamlir bændur og þeirra frúr sem höfðu áður tekið þátt í kvikmyndatökunni til að geta nú verið með í innitökum. Það var þvílík aðsókn af áhorfendum meðan á þessum tökum stóð að við þurftum á lögreglunni að halda til að halda fólki í skefjum.“[54] Eða eins og Fribert gjaldkeri orðar það í blaðaviðtali eftir heimkomuna: „Fólk er svo áhugasamt um kvikmyndir á Íslandi að þegar við auglýstum eftir 100 statistum streymdi fólk að þúsundum saman, á sama hátt og það voru alltaf óendanlegir skarar af fólki að fylgjast með þegar við vorum að filma.“[55]
„Snattarar“, fornmunir og framköllun
Það voru fleiri en statistar sem tóku þátt í þessu ævintýri á Amtmannstúninu. Ólafur L. Jónsson, sýningarmaður í Nýja Bíói, var til aðstoðar við kvikmyndatökuna og segir frá því að „snattarar“ hafi verið auk hans fyrrnefndur Sigurður Heiðdal, Gunnlaugur listmálari og fleiri. Ólafur segist hafa aðstoðað Larsen tökumann og verið „skósveinn hans og aðstoðarhólkur allan tímann í Reykjavík.“[56]
Í viðtali við Ólaf sem birtist í Vikunni 1965 kemur fram að mikil ábyrgð hvíldi á aðstoðarmönnunum:
Ég man t.d. að Matthías Þórðarson fornminjavörður lánaði ýmsa muni úr safninu, sem voru notaðir við myndatökuna. Þar á meðal var predikunarstóll og ýmsir aðrir kirkjumunir og húsgögn. Þetta voru svo dýrmætir munir, að við urðum að fara með þá alla á handvagni til safnsins á hverju kvöldi og sækja þá aftur klukkan átta um morguninn … Þessu var hróflað upp í skyndi bara til útlitsins, [kvikmyndaverið] hefur vafalaust ekki verið vatnsþétt og langt frá því að vera eldtraust. Þessi „hús“ voru svo rifin aftur strax þegar myndatökunni lauk […] Það var algjörlega bannað að taka ljósmyndir í kvikmyndaverinu, því kvikmyndafélagið ætlaði sjálft að sitja að öllum slíkum myndum. Óskari Gíslasyni ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanni tókst samt að ná þar nokkrum myndum.“[57]
Larsen kvikmyndatökumaður vildi nýta sér þann möguleika að fá framkallaðar prufur og setti sig í samband við ljósmyndastofu Ólafs Magnússonar í því augnamiði.[58] Óskari Gíslasyni, nema á stofunni, var falið verkefnið og varð það afdrifaríkt fyrir feril hans því nú varð hann smitaður af kvikmyndabakteríunni og átti fundum þeirra Larsens eftir að bera saman í kvikmyndaverinu í Valby ári síðar. Þeirri spurningu er ósvarað hvaða efni Óskar framkallaði nákvæmlega, helst er að skilja það svo að þetta hafi verið prufur fyrir tökurnar í „kvikmyndaverinu“ á Amtmannstúninu. Sviðið sem þar var byggt nýtti sér sólina sem ljósgjafa og einhver rafmagnsljós líka. Nú var komið fram í október og á myndunum sést hvernig íslenski haustvindurinn bærir hár á höfðum leikaranna og gerir sig líklegan til að slökkva blaktandi kertaloga á predikunarstóli séra Ketils.[59] Samt sem áður voru allar innisenur myndarinnar þar sem Íslendingar komu við sögu kvikmyndaðar þarna á Amtmannstúninu.
Tökum lýkur í október
Líklegt verður að teljast að þegar tökum var lokið í „kvikmyndaverinu“ á Amtmannstúni hafi verið farið á bílum til Hafnarfjarðar til að kvikmynda kaupstaðaratriðið þar. Kvikmyndatökur í Hafnarfirði fóru fram undir syðri Hamrinum þar sem voru verslunarhús Þórarins Egilson. Fjörukráin er nú í eina húsinu sem eftir stendur.
Bjarni Jónsson segir frá því að síðustu atriðin hafi verið tekin í lok októbermánaðar „og fóru þá flestir leikaranna utan, en Sommerfeldt og Larsen ljósmyndari urðu eftir til að taka ýmis aukaatriði. Héldu þeir heim í nóvember.“[60] Eða eins og Sommerfeldt lýsir sjálfur verklokunum:
Undir lok október gat ég sent stærsta hluta starfsfólksins heim þannig að bara kona mín, kvikmyndatökumaðurinn og ég urðum eftir. Fyrir okkur lá að fara nokkrar ferðir út á land, sem nú var klætt meters háum snjó og þar sem hestarnir, eftir að hafa farið yfir fljót, komu upp úr vatninu þaktir ís og með tagl sem var einn ísdröngull.
Að endingu voru nokkur óvenjuleg veislukvöld í Reykjavík, þar sem Íslendingarnir kvöddu okkur og við þá – og allra síðast Reykjavíkurhöfn eitt nóvemberkvöld, upplýst með rakettum, stjörnukösturum með bláu og rauðu ljósi og dimmt, bylgjótt, fyrirferðarmikið mannhaf á hafnarbakkanum, sem vinkaði og veifaði vasaklútum til móts við okkur um borð í Gullfossi – og ég sorgmæddur yfir því að þurfa að segja skilið við þetta fagra ævintýraland og allt þetta þægilega og hjálpsama fólk, sem ég hafði kynnst og þótti nú orðið svo vænt um.[61]
Þegar Sommerfeldt og frú ásamt Louis Larsen sigla út í myrkrið og sjá raketturnar springa í kveðjuskyni er kvikmyndun Sögu Borgarættarinnar ekki lokið. Það eru ekki einvörðungu atriði sem eftir er að taka í kvikmyndaverinu í Valby heldur þarf að taka útisenur á götum Kaupmannahafnar. Hvenær atriðin með Muggi og Janzen skipstjóra um borð í farþegaskipinu voru tekin er ekki gott að segja enda engum heimildum til að dreifa um áframhaldandi tökur og klippingu myndarinnar í Kaupmannahöfn.
Framleiðslan í Danmörku
Á þessum tíma hefur Carl T. Dreyer lokið við að kvikmynda og gera grófklipp af stórmynd sinni Blade af Satans bog. Flestum starfsmönnum Nordisk hefur verið „gefið frí“ og blöðin lýsa „filmuverksmiðjunni“ sem dauðabæ. Það eina sem þar fer fram er framköllun myndefnisins frá Íslandi og 24. október berast þau tíðindi að …
Kvikmyndin, sem hér hefir verið tekin í sumar, hefir nú verið framkölluð og reynd í Kaupmannahöfn. Er mikið af því látið, hvað hún hafi tekist vel og hvað margar „senurnar“ séu ljómandi fallegar. Þess er sérstaklega getið, hvað Guðmundur Thorsteinsson leiki vel og er það mál manna, er myndina hafa séð, að hann muni geta orðið afbragðs kvikmyndaleikari. – Það er vel farið, að myndatakan skuli hafa heppnast vel, og ekki fælir það aðra frá því að leita hingað til kvikmyndatöku.[62]
Hvernig svo sem framhaldið hefur verið nákvæmlega þá vindur framleiðslu myndarinnar fram og tökum lýkur að líkindum vorið 1920 en þá var eftir að klippa og skrifa millitexta. Upphaflegur kreditlisti myndarinnar er glataður og því er óvíst hvort hægt verði að hafa uppi á nafni klippara hennar eða afla vitneskju um hvort Sommerfeldt hafi sjálfur klippt hana, kannski í félagi við Valdemar Andersen. Fyrrnefndur Dreyer hafði lært að klippa og skrifa millitexta áður en hann byrjaði að leikstýra kvikmyndum. Sama gæti hafa átt við um Sommerfeldt og Andersen. En hver svo sem klippti myndina þá hafa þeir haft hönd í bagga með því verki og annar hvor eða báðir samið millitextana sem var mikið og vandasamt verk. Þegar þeir lágu fyrir þurfti að filma þá og klippa inn í myndina. Ráðgert er að frumsýna í Palads Teatret með pomp og prakt þann 27. ágúst og þá er í fyrsta sinn farið að tala um að skipta myndinni í tvo hluta.
Dreifing og markaðssetning
Áður en kemur að frumsýningu þarf að semja ítarlegt efniságrip til birtingar í sýningarskrá ásamt ljósmyndum af leikurum og senum. Og þar sem Nordisk Films Kompagni ætlar sér stóra hluti með Sögu Borgarættarinnar þá er ráðist í það mikla verkefni að þýða millitextana á nokkur erlend tungumál. Hversu mörg getum við ekki vitað með vissu því að allar erlendu útgáfur myndarinnar, aðrar en sú íslenska, eru glataðar eftir því sem næst verður komist. Hins vegar eru heimildir fyrir því að myndinni hafi verið dreift til fimmtán landa, jafnmargra og Blade af Satans Bog. Ætla má að nítján sýningareintök hafi verið gerð af Sögu Borgarættarinnar í þessu augnamiði og þrjú til viðbótar til sýningar í Danmörku.[63]
Fyrsta danska sýningareintakið er búið til 26. júní 1920, sem segir okkur að þann dag var myndin tilbúin. Annað eintak var keyrt út úr framköllunarstofunni 14. ágúst, tæpum hálfum mánuði fyrir frumsýningu, og það þriðja 11. desember. Fyrra eintakið af tveimur fyrir Austurríki er tilbúið 29. júlí, væntanlega með þýskum millitextum, fyrir Svíþjóð 31. ágúst, Sviss 20. september og Holland 24. september. Á skrá Nordisk yfir framleidd sýningareintök og dreifingu þeirra segir að negatífnúmer Sögu Borgarættarinnar sé 1811 og að lengd myndarinnar sé 4343 metrar. Í tæknilegum upplýsingum danska kvikmyndasafnsins (DFI) er sagt að upphafleg lengd hafi verið 4394 metrar.
Varðveist hafa heimildir sem gefa innsýn í hina þróuðu markaðssetningu sem Nordisk beitir á þessum tíma og minnir um margt á það sem nú tíðkast. Við kynningu í Bretlandi notar félagið slagorðið: „Nordisk Films are „Always Different”“. Félagið er með söluskrifstofu í London við Denmark Street og fram kemur að til sé mikið úrval af veggspjöldum í eðlilegum litum, bunkar af heillandi ljósmyndum fyrir anddyri bíóanna, auglýsingaskyggnur, fánar, veifur og auglýsingamiðar (throwaways). Efnisþráðurinn er gefinn út á fjórum blaðsíðum með ljósmyndum, en líka rakinn í stuttu máli (8 línur) og slagorðum eins og „Úr predikunarstólnum ásakaði sonurinn föður sinn um sína eigin misgjörð!“ Nöfnum einstakra leikara hefur m.a.s. verið breytt til hægðarauka fyrir enskumælandi lesendur, Ingeborg Spangsfeldt verður t.a.m. Irma Spanfield.[64]
Tónlistarvalið
Á tímum þöglu myndanna var ævinlega leikin tónlist undir sýningu þeirra og fór umfang og íburður tónlistarflutningsins eftir aðstæðum hverju sinni, allt frá því að notast var við eitt hljóðfæri, ýmist píanó eða bíóorgel, eða stóra hljómsveit. Stundum var áhrifshljóðum bætt við tónlistarflutninginn. Við Palads Teatret var fastráðin 30–50 manna hljómsveit og var Georg Steen-Jensen stjórnandi hennar.[65] Hann var bæði tónlistarstjóri og tónskáld, og hafði numið tónlist af föður sínum, tónlistarstjóranum Christian Jensen.
Það er ekki heiglum hent að tónsetja heila bíómynd þannig að tónlistin undirstriki og hjálpi til við að koma efni og tilfinningu myndarinnar til skila. Enn vandasamara verður verkefnið þegar myndirnar eru langar og í tveimur hlutum eins og Saga Borgarættarinnar. Það lætur nærri að Georg Steen-Jensen hafi sett saman tónlistarprógrammið fyrir sýningu Sögu Borgarættarinnar í Palads, enda útsetti hann tónlistina jafnframt því að stjórna flutningi hennar.[66] Á lagalistanum er íslensk tónlist í bland við danska og erlenda tónlist, þ.á m. eftirtalin íslensk verk: Buldi við brestur, Sú rödd var svo fögur, Ísland farsælda frón, Ó fögur er vor fósturjörð, Stóð ég úti í tungsljósi, Ríðum ríðum, Sefur sól hjá ægi og þjóðsöngurinn. Hið sama á við um lagalista fyrir seinni hlutann, þar eru að nokkru leyti sömu íslensku lögin en hin nýju eru: Kvöld í blíðum blænum og Ó blessuð vertu sumarsól.
Ísbjörninn vaknaður af dvala
Forsvarsmenn Nordisk Films Kompagni setja markið hátt og bjóða ríkisstjórninni og helstu embættismönnum borgarinnar til hátíðarfrumsýningar, auk Íslendinga í Kaupmannahöfn. Forsvarsmenn fyrirtækisins gera sér grein fyrir uppganginum sem er í amerískri kvikmyndagerð um þessar mundir og benda á að Nordisk hafi haft hægt um sig í stríðinu en nú hafi ísbjörninn vaknað af dvala og vilji taka þátt í kapphlaupinu mikla í kvikmyndagerðinni. „Á síðasta ári framleiddi Nordisk fjölda stórmynda, sem nú hafa verið seldar til mikilvægustu kvikmyndamiðstöðva heimsins. – Og það er ein af þessum myndum, Saga Borgarættarinnar, sem Nordisk hefur mestar væntingar til. Íslenski höfundurinn Gunnar Gunnarsson hefur öðlast mikla viðurkenningu með Sögu Borgarættarinnar, ekki bara hér á landi heldur einnig úti í hinum stóra heimi“.[67]
Þá er áréttað að kvikmyndir sæki margt til bókmenntanna en líka hitt að kvikmyndir styðji við bókmenntir sem sjá má af því að Gyldendal-forlagið hafi nú gefið út nýtt upplag af Sögu Borgarættarinnar til að hafa til sölu á sama tíma og myndin verði sýnd hjá Palads. Forlagið sendir jafnframt frá sér enska og þýska útgáfu skáldsögunnar sem verða tilbúnar til sölu þegar „myndin byrjar ferð sína umhverfis jörðina“, eins og það er orðað.[68]
Frumsýningin í Palads – án skáldsins
Þegar kemur að frumsýningu skundar Gunnar Sommerfeldt upp hallarstigann í anddyri Palads Teatret með frú Inge Sommerfeldt sér við hlið og kannski varnarmálaráðherrann líka, en fleiri ráðherrar sáu sér ekki fært að mæta. Sætin 1519 í töfrahöll kvikmyndalistarinnar eru öll setin. Rjóminn af Íslendinganýlendunni í Kaupmannahöfn er mættur, margir íslensku karlanna í smóking og konur þeirra í þjóðbúningum. Og svo er þarna bókmenntapáfinn sjálfur, Georg Brandes. En Gunnar Gunnarsson, höfundur sögunnar sem fólk er komið til að sjá í lifandi myndum, kýs að sitja heima þetta frumsýningarkvöld, á Gammel Kongevej í göngufæri frá kvikmyndahúsinu á Vesturbrú.[69] „Hvað hafði gerst á Þingvallasléttunni á milli Svarta-Gunnars [leikstjórans] og Rauða-Gunnars [rithöfundarins]?“ spyr blaðamaður Berlingske Tidende í inngangi að viðtali sem tekið er við skáldið af þessu tilefni.[70] Rithöfundurinn er varfærinn í svörum en af þeim má þó ráða að hann varpi ábyrgðinni á því hvernig farið hafi verið með skáldsöguna yfir á handritshöfundinn, Valdemar Andersen.
Nei, samvinnan var ekki eins góð og skyldi og svo ákvað ég að segja skilið við þetta. – Yður líkar ekki kvikmyndin? Ég veit ekki hvernig hún er sem kvikmynd. Hún er hugsanlega ágæt sem kvikmynd. En ég álít að bókin standi fyrir sínu til hliðar. Gunnar Sommerfeldt sagði að hann hefði meiri skilning en ég á því hvað myndi standa undir sér á tjaldinu. Og það er nú vissulega rétt. Mér fyndist það ekki rétt að ég gagnrýndi kvikmyndina hér.“ Þannig mælti Gunnar Gunnarsson. Mjög varfærnislega. Mjög hæglátlega. Spennan sem hvílir yfir frumsýningunni verður ekki minni fyrir vikið.[71]
Gagnrýni dönsku blaðanna
Blaðamaður Berlingske Tidende fer mörgum orðum um myndina og segir hana hafa fallið í grýttan jarðveg hjá áhorfendum fyrir hlé. Honum finnst of ört skipt á milli Íslands og Kaupmannahafnar og það sé ekki fyrr en í upphafi fjórða þáttar sem myndin „kristaliserist“. Þá loks stígi fram hin sérkennilega náttúrufegurð Íslands og myndi bakgrunn fyrir dramað. Hann hrósar leikstjóranum fyrir það en gefur leikurum misjafna umsögn. Guðmundur Thorsteinsson fær þó háa einkunn og er sagður minna á „Lars Hansson og nær stundum tækni þessa gáfaða leikara með þeim skáldskap sem frá honum streymir.“[72]
Það verður þó að segjast að fyrir augað vantaði útfærsluna, kraft eldgossins [Vulkanskhed], heita hveri, – Ísland, söguna. Þetta var allt mjög fallegt en hefði sem best getað átt sér stað í Gladsaxe án þess að myndramminn spryngi. Það var ekki fyrr en allra seinast að myndirnar öðluðust einhvern mikilleika. Það gerðist þegar Kóngurinn var borinn heim yfir hraun og ár. Þá varð maður snortinn af mikilfenglegu andrúmi og kannski hjálpaði útfærsla hljómsveitarinnar upp á tilfinninguna með því að leika prýðilegan sorgarmars undir þessu atrið sem dýpkaði sjónarhornið og fyllti senurnar með því sem máli skipti. Myndinni lauk þannig á grípandi og lotningarfullan hátt. Og tilfinningin í bíóinu leystist upp í einróma, langvarandi fagnaðarlæti, sem linnti ekki fyrr en herra Gunnar Sommerfeldt hafði móttekið hyllingu fjöldans úr stúku sinni.[73]
Gagnrýnandi Politiken er á svipaðri skoðun og fullyrðir að ekki sé hægt að yfirfæra sálina í skáldverki yfir í kvikmyndaform, allavega hafi Sommerfeldt mistekist það. Hann tekur hins vegar undir það að myndin vaxi eftir því sem á líður og leiði upp að atriðinu í kirkjunni þegar „faðirinn bannfærir soninn, hinn hræsnisfulla prest“.[74] Gagnrýnandinn bendir á að Steen Jensen hafi útsett leiðarstef sem byggist á íslenskri þjóðlagatónlist „sem færðu sem betur fer athyglina frá millitextunum. Því í þeim var að minnsta kosti ekki deigur dropi af skáldskap.“[75]
Í fyrsta lagi þá átti hann heiðurinn af því á hvern hátt hann stýrði flutningnum á Hátíðarpólónesu Svendsens sem opnaði fyrir sýningu kvöldsins en umfram allt fyrir þá virðingarfullu vinnu sem útsetning tónlistarinnar ber fagurt vitni um, þar sem hvert smáatriði í framvindunni er úthugsað. Íslenski þjóðsöngurinn, „Ó Guð vors lands, Ó lands vors Guð“ hóf og lauk kvöldstundinni, og áhorfendur hlýddu á hann standandi, því við Danir erum löghlýðið fólk.[76]
Hrífandi leikslok
Íslendingar bíða í ofvæni eftir fréttum af frumsýningunni og móttökum myndarinnar. Þann 31. ágúst segir Morgunblaðið frá því að fyrri hluti kvikmyndarinnar af Sögu Borgarættarinnar hafi verið sýndur í fyrsta sinn. Dómar blaðanna séu mjög á eina lund, að byrjunin sé að vísu losaraleg en festan aukist er á líði og vænta megi hrífandi leiksloka.[77] Nokkru síðar segist Morgunblaðið hafa fengið eina úrklippu „úr dönsku blaði – „vér nefnum ekki hverju“ – þar sem sagt er frá því þegar Borgarættin var sýnd í fyrsta sinn og klykkt út með þessu:
Ekki verður því neitað að myndina skortir verulega fyrsta flokks listamenn – sá langbezti mun sjálfsagt hafa verið byrjandinn Guðmundur Thorsteinsson, málari, í hlutverki Ormars. Og enginn efi er á því, að Viktor Sjöström hefði fengið meira út úr sögunni en Gunnar Sommerfeldt hafði tekist. Alt of margar sýningarnar voru of hreyfingarlitlar (Tableauer) eins og þær ættu að prentast inn í sögubækurnar. Og það var of lítið af því góða.[78]
Sommerfeldt þarf að búa við þá endurteknu tuggu að hinn sænski Victor Sjöström myndi hafa búið til betri kvikmynd heldur en hann upp úr þessum íslenska efniviði. Danskur gagnrýnandi sem kallar sig Axel K. huggar hann að vísu með því að fullyrða að alltof mikið hafi verið lagt á hans herðar:
Gunnar Sommerfeldt þurfti að gera hitt og þetta og þar með varð enginn tími fyrir smáatriðin. Konurnar litu alveg jafn ungar út eftir 30–40 ár og karlarnir fengu bara límda lambaull í andlitið og urðu þar með gamlir o.s.frv. Og svo þetta vonlausa íslenska landslag sem var gert ennþá leiðinlegra með einhæfri og hugmyndasnauðum tökum kvikmyndatökumannsins, tökumanns sem gat ekki losað sig undan gamaldags skuggamyndum. En Nordisk Films Kompagni fékk sitt tækifæri.[79]
Ellen Duurloo skrifar neikvæðan dóm í Nationaltidende og virðist á sama máli og Gunnar Gunnarsson um aðkomu Valdemars Andersen að myndinni:
En fyrir þá sem ekki þekkja söguna fyrir verður ómögulegt að fylgjast með framvindu myndarinnar sem sýnd er í Paladsteatret um þessar mundir. Hinn aldeilis óþekkti herra Valdemar Andersen sem færði söguna yfir í lifandi myndir skortir allan grunnskilning á sálfræðinni sem stjórnar gjörðum persóna bókarinnar […] Það er þegar allt kemur til alls ekki ofsögum sagt að maður þarf lengi að leita eftir jafn flatri, óskáldlegri, óskiljanlegri og ólistrænni kvikmyndun á skáldsögu […] Leikararnir náðu engu taki á þeirri sál og skáldskap sem Hr. Andersen hafði skorðað handritið með.[80]
Duurloo tekur samt fram að í leikstjórninni felist fallegur lítill sigur fyrir Danmörku sem hefur þörf fyrir nokkra slíka.[81] Gagnrýnandi Berlingske Tidende er einnig sáttur við heildina og telur að nú sé loksins hægt að bera danskar kvikmyndir saman við nýjar myndir Svía: „Eftir stendur, hvað sem öllu líður, dönsk kvikmynd sem við getum verið þekkt fyrir að hafa gert.“[82]
Annar hluti Sögu Borgarættarinnar, sem bar undirtitilinn „Örninn ungi og Gestur eineygði“, var frumsýndur í Palads Teatret 10. september 1920.[83] Morgunblaðið birtir örfrétt frá frumsýningunni þar sem segir: „Síðari hlutinn af Sögu Borgarættarinnar var sýndur í fyrsta sinn í Khöfn í gær. Politiken telur hann lakari en fyrra hlutann, en Berlingske Tidende telur hann miklu betri.“[84]
Hér er ekki rúm fyrir tæmandi úttekt á viðtökum Sögu Borgarættarinnar í Danmörku en af þeim dæmum sem tiltekin hafa verið má sjá að myndin hefur vakið mikla athygli en dómarnir verið mismunandi.
Frumsýning á Íslandi
Nú líður að stóru stundinni, frumsýningu Sögu Borgarættarinnar heima á Íslandi. Hún er ráðgerð í byrjun nýs árs 1921. Það lá beint við að myndin yrði sýnd í Nýja Bíói vegna tengsla Bjarna Jónssonar bíóstjóra við Nordisk Films Kompagni og þátttöku hans við undirbúning og framleiðslu myndarinnar. Hann segir í blaðaviðtali að óhætt sé að segja að menn hafi beðið í ofvæni eftir myndinni. Bjarni segir að Borgarættin hafi verið talin ein stórfenglegasta kvikmynd sem þá hafði verið gerð á Norðurlöndum. Kostnaður við hana hefði líka verið óskaplegur og að myndin hafi verið fimmfalt dýrari í leigu en nokkur mynd sem fengin hefði verið til landsins áður. Nýja Bíó var þá nýrisið og hafði líka orðið miklu dýrara en gert hafði verið ráð fyrir, eins og svo margt annað á árunum eftir heimsstyrjöldina miklu. „Við tefldum því djarft, þegar við fengum hana, og óhætt er að segja, að starfsmenn og eigendur Nýja Bíós biðu ekki síður í ofvæni en aðrir.“[85]
Áður en sýningar gátu hafist þurfti að hafa hraðar hendur við að ákveða tónlistarflutninginn. Um hann sáu Þórarinn Guðmundsson, fiðluleikari og vinsælt tónskáld, og bróðir hans Eggert, fortepíanóleikari og organisti, en þeir höfðu verið ráðnir til að leika undir sýningum Nýja Bíós þegar nýju húsakynnin voru opnuð, 19. júlí 1920. Ekki verður séð að nokkur lagalisti hafi borist með myndinni að utan en lagalisti þeirra bræðra hefur varðveist og má sjá að hann er ólíkur þeim sem Georg Steen-Jensen, tónlistarstjóri Palads bíósins, hafði látið fylgja myndinni. Samkvæmt lista þeirra bræðra hefur verið byrjað á því að flytja Ó fögur er vor fósturjörð tvisvar og því næst Í djúpið mig langar. Á listanum eru margar perlur, t.d. Ísland farsælda frón, Gígjan, La Boheme, Pílagrímakórinn eftir Wagner, Draumalandið, Sólskríkjan, Ég lít í anda liðna tíð, og síðast er leikið Sólsetursljóð. Það var eftir því tekið hvernig Þórarinn setti sína sérstöku stemmningu í fiðluleik Ormars.[86] En ekki þótti taka því að útbúa íslenska sýningareintakið með íslenskum millitextum, né heldur að þýða sýningarskrána eða efnislýsingu myndarinnar á íslensku.[87]
Á frumsýningardaginn. 8. janúar,[88] birtist þessi frétt í Morgunblaðinu: „Loks er hún komin hingað myndin sem meir hefir verið beðið eftir en öllum kvikmyndum sem sýndar hafa verið hér. Og ástæðan fyrir eftirvæntingunni er réttmæt; þetta er fyrsta kvikmyndin sem tekin hefir verið á Íslandi.“[89]
Engum sögum fer af nafntoguðum gestum á frumsýningunni en heimildir eru fyrir því að statistarnir hafi fjölmennt og klappað óspart þegar þeim brá fyrir í myndinni.[90] Það getur vart leikið vafi á því að aðalmaður Nordisk á Íslandi, Bjarni Jónsson bíóstjóri, hefur setið í stúku uppi á svölum í nýja kvikmyndahúsinu og á bak við sýningarvélina hefur staðið Ólafur L. Jónsson, sýningarmaður og „snattari“ kvikmyndarinnar. Þá er viðbúið að íslensku leikararnir hafi flestir mætt nema Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, sem var búsettur í Kaupmannahöfn.
Þegar Bjarni bíóstjóri er spurður út í aðsóknina að myndinni í kjölfar frumsýningar hennar á Íslandi svarar hann á þessa leið:
Hún [varð] meiri en við þorðum að láta okkur dreyma um. Það eru engar ýkjur, að „Saga Borgarættarinnar“ kom sá og sigraði, og aðsóknin varð meiri en dæmi eru til um nokkra kvikmynd sem hér hefir verið sýnd, fyrr og síðar, og er þá tekið tillit til þess, hversu fáir Reykvíkingar voru þá. Myndin var sýnd í tvennu lagi, og var fyrri hlutinn sýndur á 33 sýningum. Stundum varð að hafa tvær eða jafnvel þrjár sýningar á dag. Slíkt var vitanlega óþekkt með öllu þá, og gerðist ekki aftur fyrr en næstum tveim áratugum síðar – á hernámsárunum. Það var ekki hægt annað en að hafa sýningar svona margar á dag, því að fólk bókstaflega þusti til bæjarins úr nærsveitunum, kom gangandi, ríðandi eða á sleðum og gistu menn eina eða tvær nætur til að komast á sýningu.[91]
Reyndin varð sú að fyrri hlutinn var sýndur í síðasta sinn í þessari lotu 21. janúar, daginn áður en seinni hlutinn var frumsýndur.
Íslensk gagnrýni
Margvísleg gagnrýni birtist um Sögu Borgarættarinnar í blöðunum hér, sem um margt er af öðrum toga en sú sem lesa mátti í dönsku blöðunum. Blaðamaður Vísis skrifar eftirfarandi 10. janúar:
Myndin er að flestu leyti ágætlega góð, einkum eru landslagssýnir framúrskarandi fallegar. Sá leikandinn, sem mesta athygli dregur, er Guðmundur Thorsteinsson og má heita, að hann beri leikinn uppi, þó að fleiri leiki þar vel. Smá misfellur eru á töku myndarinnar, en sumar þeirra eru svo, að ekki munu aðrir en Íslendingar veita þeim eftirtekt. Svo er t.d. um skyrátið á Borg, — skyrið er etið án útáláts! Askar eru þar notaðir, en aðrir kaflar myndarinnar eru svo nýmóðins, að þar sjást bifreiðir. – Munu útlendingar draga af því þá röngu ályktun að enn sé etið úr öskum á Íslandi. „Söfnuðurinn“ er æði forneskjulegur, enda gátu fáir varist hlátri þegar hann kom á sjónarsvið. Hljóðfærasveit lék fjölda mörg íslenzk (eða alkunn) lög, meðan sýningin fór fram.[92]
Önnur umsögn birtist í Vísi 9. febrúar þar sem kvartað er undan því að persónurnar eldist ekki eðlilega, t.d. Ormarr. Um síðari myndhlutann skrifar blaðamaður Morgunblaðsins 26. janúar:
Aðalviðfangsefnið í þessari mynd er hlutverk Gests eineygða, sem Gunnar Sommerfeldt leikur. Sá kafli sögunnar þótti bestur frá höfundarins hendi, en að ýmsu leyti er hann erfiðari viðfangs til kvikmyndunar en hinir. Sem leikrit stendur þessi hluti myndarinnar að baki þeim fyrri, en ýmis einstök atriði grípa áhorfendurna.[93]
Saga Borgarættarinnar hlýtur samkvæmt þessu að hafa verið mikið til umræðu á meðal fólks á mannamótum þennan vetur. Íbúafjöldi Reykjavíkur er þá tæplega 17.500 manns. Álitlegur hluti þeirra sá myndina í fyrstu lotu þótt efast megi um sannleiksgildi fullyrðingar sýningarmannsins að fjöldinn hafi slagað upp 20 þúsund manns.[94] Um sumarið 1921 auglýsir Nýja Bíó enn á ný sýningu á báðum hlutum í einu á þeirri forsendu að margir aðkomumenn séu í bænum sem óskað hafi eftir því „að geta séð þessa ágætu mynd og því verði hún sýnd aðeins þetta umrædda kvöld.“[95]
Framhaldslíf myndarinnar
Hvort rétt sé að myndin hafi verið sýnd annað til þriðja hvert ár upp frá þessu eins og bíóstjórinn fullyrðir skal ósagt látið. [96] Samkvæmt þessari rannsókn getur það tæpast verið rétt, en myndin gleymdist þó ekki og fullyrt er að hún hafi skapað tekjur. Gunnar Gunnarsson segir í viðtali árið 1957 að sér skiljist „að myndinni hafi alls staðar verið vel tekið og kvikmyndafélagið muni hafa grætt á henni drjúgan skilding.[97] Ólafur L. Jónsson sýningarmaður er á sömu skoðun í viðtali árið 1965 þar sem hann segir: „Þessi myndataka var heldur ekki gerð í neinum hálfkæringi, því myndin varð fræg víða um lönd og þótt hún væri ein dýrasta kvikmyndin, sem félagið hafði ráðizt í að taka þá, fór samt svo að hún varð ein hin vinsælasta og gaf félaginu drjúgar tekjur.“ Hvað sem þessum jarðbundna hagnaði leið þá urðu til með Sögu Borgarættarinnar óáþreifanleg verðmæti handa þjóðarsálinni, því kvikmyndin var þeirrar náttúru að hún hélt áfram að lifa með þjóðinni allt til okkar dags og sýningareintakið þraukaði og neitaði að verða tímans tönn að bráð.
Varðveislusaga myndarinnar
Síðla árs 1956 fór Ólafur L. Jónsson, sýningarstjóri Nýja Bíós, að huga að sýningareintaki Borgarættarinnar og komst að því að ekki var hægt að sýna hana lengur „eins og hún var orðin skemmd“.[98] Nýja Bíó ákvað þá að láta lagfæra hana eins og hægt var. Árni Óla var fenginn til að þýða dönsku millitextana yfir á íslensku og sýningarskrána líka.[99] Ólafur sýningarmaður tók að sér að velja tónlist við myndina og var hún sett á segulband. Það leysti hljómplötur hans af hólmi og það vandaverk sýningarmannsins að láta þær passa við myndina undir sýningu. Bíóið kostaði því til að láta filma og framkalla nýju millitextana og afrita myndina á 16 mm filmu. Við þetta fyrsta viðgerðarverkefni myndarinnar nutu forráðamenn bíósins aðstoðar Magnúsar Jóhannssonar, kvikmyndagerðarmanns og útvarpsvirkja.
Í viðtali við Ólaf sem tekið er af þessu tilefni kemur fram „að menn bíði þess með óþreyju, hvernig tekizt hafi, bæði kvikmyndahúsgestir og bíóeigendur, því að kópían hefur víst orðið nokkuð dýr, þótt engar fregnir hafi borizt um verðið.“[100] Kostnaður við endurgerðina var um 200 þúsund krónur en „aðsókn að myndinni eftir breytingarnar varð það mikil að kostnaðurinn vannst upp og meira til.“[101]
Orð forráðamanna bíósins verða vart skilin öðruvísi en svo að hið skemmda sýningareintak bíósins hafi verið afritað og íslenskað á 16 mm filmu. Þannig mátti líka skilja frásögn Magnúsar Jóhannssonar rúmum 20 árum síðar í samtali hans við greinarhöfund. En orð Gunnars Gunnarssonar í viðtali sem blaðamaður Tímans átti við skáldið af þessu sama tilefni 1957 benda til annars:
[Það mun] vera síðasta eintakið af kvikmyndinni, sem nú er verið að sýna. Bjarni fékk það úr safni Nordisk Film og lét lagfæra það eitthvað. Í sjálfu sér eru þessar sýningar mér alveg óviðkomandi, en eins og ég sagði áðan: Mér þætti vænt um að þetta eintak varðveittist vegna þess íslenzka fólks, sem bar myndina uppi.[102]
Miðað við ástandslýsingu Hannesar á horninu[103] á hinu 35 ára gamla sýningareintaki bíósins er það fullkomlega rökrétt að Bjarni bíóstjóri hafi fundið sig knúinn til þess að setja sig í samband við Nordisk Film í von um að þar leyndist heilt eintak af myndinni sem mætti nota til afritunar. Það reyndist vera til en þótt heilt væri þá voru myndgæðin mun lakari en í hinu skemmda eintaki Nýja Bíós. Og svo áttu þau eftir að rýrna enn við frekari afritanir. En Bjarni átti ekki annarra kosta völ en að nýta sér eintak Nordisk til að búa til nýtt íslenskt sýningareintak. Og hvernig sem að verki var staðið þá varð útkoman 16 mm sýningareintak með íslenskum textum og segultóni.
Magnús Jóhannsson tjáði greinarhöfundi að frummyndinni hefði verið fargað. Það virðist hafa átt við eintakið sem fannst hjá Nordisk. Menn hafa talið sig vera búna að bjarga því sem bjargað varð með því að afrita það yfir á 35 mm „millinegatíf“. Og þar sem ekkert eintak var til af Borgarættinni í Danmörku þegar að var gáð löngu síðar, þá styður það þá tilgátu að Bjarni hafi fengið 35 mm negatífa afritið sent til sín og að sýningareintaki Nordisk hafi verið eytt eftir að búið var að afrita það. Gamla, skemmda sýningareintak Nýja Bíós á 35 mm nítratfilmu varðveittist sem betur fer niðri í kjallara bíósins þar sem filmugeymslan var og hita- og rakastig hagstætt. Það átti þrátt fyrir skemmdirnar eftir að gegna lykilhlutverki við nýja endurgerð myndarinnar í stafrænt form.
Í kvikmyndadálki Vísis árið 1964, þegar Nýja Bíó endursýndi myndina enn eina ferðina, skrifar blaðamaður sem kallar sig LG eftirfarandi hugleiðingu á næstsíðasta sýningardegi:
Þessi kvikmynd, sem hefur einstætt gildi fyrir okkur – meðal annars vegna þess, að mesta leikkona okkar þá, frú Stefanía Guðmundsdóttir, lék þar eitt hlutverkið – mundi nú glötuð, ef forráðamenn Nýja Bíós hefðu ekki komið í veg fyrir það, með því að kaupa eitt eintak. Hefur myndin síðan verið sýnd á nokkurra ára fresti, og að vonum við mikla aðsókn, og nú hafa þeir hinir sömu látið gera mjófilmu eftir gömlu kvikmyndinni, svo að víst sé að hún varðveitist, en fyrir allt það framtak eiga þeir miklar þakkir skildar. – Hefur mjófilma þessi verið sýnd núna undanfarið, og eru nú síðustu sýningar á henni um ófyrirsjáanlega framtíð, og eftir það verður þessi merkilega kvikmynd skoðuð sem safngripur, en ekki til sýningar. Þetta munu því vera allra síðustu tækifærin, sem okkur, eldri kynslóðinni veitast til að endurnýja við hana gömul kynni.[104]
Varðveisla kvikmyndarinnar er höfundi pistilsins sérstaklega hugleikin þegar hann bætir því við að leiklistarsögulega sé myndin svo merkileg heimild að menningaryfirvöld ættu að fá að gera annað eintak eftir frummyndinni sem haft yrði á Þjóðminjasafninu „til ævarandi varðveizlu“.[105] Af því varð ekki en þegar Sjónvarpið sýndi myndina í heild sinni árið 1970 var hún skönnuð inn á myndband til sjónvarpssýninga.
Kvikmyndasafn Íslands tekur við keflinu
Kvikmyndasafn Íslands var stofnað með lögum 1978. Árið 1981 stóð safnið fyrir sýningum á leiknum, þöglum kvikmyndum sem tengdust Íslandi í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá upphafi reglubundinna kvikmyndasýninga hér á landi. Fjallað er um myndina og bíóið sem frumsýndi hana á Íslandi í afmælisriti sem safnið gaf út af þessu tilefni.[106] Nýja Bíó lánaði 16 mm sýningareintak sitt af þessu tilefni en Jónas Þórir Jónasson lék eigið tónlistarval á píanó undir sýningu myndarinnar. Sama ár afhenti Nýja Bíó Kvikmyndasafni Íslands gamla, skemmda sýningareintakið á tólf 35 mm nítrat-spólum sem varðveist höfðu í kjallarageymslu bíósins.[107]
Tveimur árum síðar afhenti Magnús Jóhannsson safninu 35 mm millinegatífið á tólf spólum með íslensku millitextunum sem búið var til eftir eintakinu sem fannst hjá Nordisk Film 1956–1957.[108] Til að forðast rugling í því sem hér fer á eftir verður þessi gerð myndarinnar nefnd A-gerð en eintakið sem kom upp úr kjallaranum í Nýja Bíói B-gerð. Heillegu partarnir í B-gerð hafa til að bera mun meiri myndgæði en A-gerðin auk þess sem hún varðveitir tvo til þrjá myndramma af upprunalegu millitextunum.
Árið 1985 lætur Kvikmyndasafn Íslands Ankerstjerne A/S kvikmyndavinnustofuna í Kaupmannahöfn gera sýningarkópíu til prufu eftir fyrstu spólu A-gerðar.[109] Þremur árum síðar sendir safnið B-gerð myndarinnar til afritunar hjá Printer Effects kvikmyndavinnustofunni í Svíþjóð. Þar voru búnar til nýjar negatífar og pósitífar „frumfilmur“ til varðveislu og afnota þegar kæmi að því að endurgera myndina á filmu. Printer Effects hefur þann háttinn á að afrita kyrrmyndir úr köflum þar sem skemmdir eru svo miklar að ekki er hægt að afrita í lifandi myndum. Þetta verkefni hafði mikinn kostnað í för með sér. Frumspólurnar voru ekki sendar til baka að afritun lokinni. Ætlunin var að fá þær geymdar, helst hjá kvikmyndasafninu í Svíþjóð, að öðrum kosti yrði þeim fargað.[110] Afritin af Sögu Borgarættarinnar sem gerð voru hjá Printer Effects skila sér heim til safnsins 1990.[111]
A-gerð Sögu Borgarættarinnar á 35 mm filmuspólum var falin danska kvikmyndasafninu til varðveislu árið 1993.[112] Í gjafabréfi er kveðið á um gjöf þessa en ætlunin var að danska safnið gerði afrit sem myndi skila sér í einhverju formi til baka til Kvikmyndasafnsins.
Árið 2006 berst Kvikmyndasafninu 16 mm filmueintak á fjórum spólum (A-gerð) til varðveislu.[113] Eintakið kom frá Sambíóunum sem höfðu Nýja Bíó á leigu og allt bendir til þess að þetta sé eintakið sem notað var við endursýninguna 1957 og árin þar á eftir.
Fyrsta stafræna endurgerðin
Árið 2007 eignaðist Kvikmyndasafn Íslands filmuskanna sem gat skannað í lágskerpu (SD). Allt tiltækt grunnefni hjá safninu var skannað til að freista þess að búa til eins góða stafræna útgáfu af Sögu Borgarættarinnar og unnt var: Úr A-gerð fyrsta spólan á 35 mm filmu og allar 16 mm-spólurnar; úr B-gerð allar 12 negatífu spólurnar sem afritaðar voru í Svíþjóð. Ákveðið var að skrifa skýringartexta milliskiltanna frá árinu 1957 upp og láta þessa nýju uppskrift koma í staðinn fyrir gömlu íslensku skiltin. Mikilvægur þáttur í þessari endurgerð var ákvörðun um að stilla sýningarhraðann á 18 ramma á sekúndu. Með því urðu allar hreyfingar eðlilegar og myndin af þeim sökum áhrifameiri en áður.
Greinarhöfundur annaðist samstillingu og klippingu hins skannaða efnis og endanlega klippingu textaskilta í lengdir í samræmi við nýja tónlist sem hann valdi við myndina. Haft var að leiðarljósi að hún undirstrikaði atburðarás myndarinnar og tíðaranda. Tónlist eftir Jón Leifs var í fyrirrúmi en einnig gegndi tónlist eftir Niels Gade, Frédéric Chopin og Artur Schnabel mikilvægu hlutverki, til viðbótar við íslensk þjóðlög sem leikin voru af Jónasi Þóri og föður hans, Jónasi Dagbjartssyni, fyrir sjónvarpssýninguna 1991.
Kvikmyndasafnið sýndi þessa nýju og fyrstu stafrænu endurgerð árið 2012 í safnbíói sínu, Bæjarbíói í Hafnarfirði. Gefin var út sýningarskrá þar sem fjallað er um myndina og jafnframt var myndin gefin út til prufu á fáeinum mynddiskum sem sýndir voru á nokkrum öldrunarstofnunum um þetta leyti.[114]
Margir lýstu mikilli ánægju með þessa nýju heildarútgáfu myndarinnar og var hún m.a. nýtt til að kynna forsvarsmönnum hinnar frægu þögulmyndahátíðar í Pordenone á Ítalíu myndina sem hugsanlega hátíðarmynd. Myndgæði lágskerpuskönnunarinnar voru hins vegar hindrun og því var ákveðið árið 2015 að freista þess að búa til endanlega endurgerð myndarinnar í háskerpu. Af því tilefni lét danska kvikmyndasafnið skanna negatífur A-gerðarinnar sem það hafði í sinni vörslu[115] og fékk líka það hlutverk að útvega gögn og gera könnun á því hvort hugsanlega leyndust eintök af myndinni á öðrum málum erlendis. Sú leit hefur ekki enn borið árangur.
Ný endurgerð á aldarafmæli
Í ársbyrjun 2018 tók Kvikmyndasafnið í notkun nýjan háskerpuskanna sem það eignaðist í nóvemberlok 2017 og í kjölfar þess var hafist handa við að skanna og endurgera Sögu Borgarættarinnar. Með þessari endurvinnslu verður til stafræn útgáfa í háskerpu af hinni hundrað ára gömlu mynd, unnin upp úr besta fáanlega filmuefni sem varðveist hefur.[116]
Saga Borgarættarinnar mun því ganga í endurnýjun lífdaga á hundraðasta afmælisári frumsýningar hennar. Það er eins og hundrað árin sveigist í hring því nú, eins og í upphafi, verður efnt til hátíðarsýninga í tveimur glæsilegustu menningarhúsum Íslands, Hofi á Akureyri og Hörpu í Reykjavík. Þá verður myndin sýnd í Pordenone á Ítalíu og í Kaupmannahöfn. Líkt og stór hljómsveit lék undir í Palads Teatret í Kaupmannahöfn 1920 mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leika undir sýningum myndarinnar, a.m.k. hérlendis. Í tilefni afmælisins var samið við Þórð Magnússon tónskáld um að semja tónlist við myndina sem verður tekin upp í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og lögð við myndina til frekari sýninga og útgáfu.
Saga Borgarættarinnar fjallar um bræður. Annar er listamaður af Guðs náð sem víkur af þeirri brautinni þegar allir vegir virðast færir til heimsfrægðar og gerist kaupsýslumaður. Þá lífsleið yfirgefur hann líka til þess eins að snúa heim þegar stefnir í að viðskiptin færi honum mikil auðæfi. Hinn bróðirinn er andstæðan, fullur af drambi og dómhörku og verður fyrir vikið valdur að dauða föður síns og sinnisveiki konu sinnar. En þegar hann áttar sig á gjörðum sínum gefur hann prestdóminn upp á bátinn, hverfur fólkinu sínu og gerist flakkari sem hjálpar meðbræðrum sínum til að geta öðlast fyrirgefningu synda sinna. Hann stefnir líka heim á sinni göngu, þangað sem fyrirgefningu og frið er að finna. Stefið er sígilt. Sagan er sígild. En lífssaga þessarar þöglu kvikmyndar í heila öld er það undur sem gerði Sögu Borgarættarinnar að þjóðkvikmynd Íslands. Sú saga hefði orðið hálfri öld styttri ef forstjóri Nýja Bíós hefði ekki fundið sig knúinn til að útbúa nýtt sýningareintak árið 1957 og látið það ógert að eyða skemmda eintakinu. Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar væri þá ekki lengur á meðal vor og engin hátíðarhöld framundan með sýningum í menningarhúsum við undirleik sinfóníuhljómsveitar á nýrri íslenskri tónlist.
Tilvísanir
[1] Greinarhöfundur þakkar Skúla Birni Gunnarssyni, forstöðumanni Gunnarsstofnunar, fyrir yfirlestur, góðar ábendingar en umfram allt fyrir þær leiðir sem hann fann til styttingar greinarinnar.
[2] Gunnar Sommerfeldt (1920): „Gunnar Sommerfeldt fortæller om Optagelserne af Borgslægtens Historie“. Paladsteatrets Filmens Nyheder Sæson 10/21 No 3. Þýðing greinarhöfundar, sem hefur þýtt allar heimildir á erlendum málum sem stuðst er við í greininni.
[3] Árni Johnsen (1968): „Horft um öxl. Fyrsta kvikmyndataka á Íslandi“. Lesbók Morgunblaðsins, 9. júní 1968.
[4] Isak Thorsen (án árs): „Nordisk Films Kompagni“. http://www.carlthdreyer.dk/en/carlthdreyer/about-dreyer/workplaces/nordisk-films-kompagni. Sótt í nóvember 2019.
[5] Blaðamaður Morgunblaðsins (29-06-1919): „Kvikmyndaleikendur koma til Íslands í sumar. Viðtal við Bjarna Jónsson, bíóstjóra.” Morgunblaðið, 29. júní 1919, bls. 1.
[6] Árni Johnsen (1968).
[7] Jó blaðamaður Tímans (1957): „Það var íslenzka fólkið sem bar kvikmyndina um Borgarættina uppi. Gunnar Gunnarsson segir frá kvikmyndatökunni 1919 og ræðir um bækur sínar, gamlar og nýjar.“ Tíminn, 26. febrúar 1957.
[8] Árni Johnsen (1968).
[9] Árni Johnsen (1968).
[10] Árni Johnsen (1968).
[11] Jón Yngvi Jóhannsson (2011): Landnám. Ævisaga Gunnars Gunnarssonar. Mál og menning, 2011, bls. 198.
[12] Árni Johnsen (1968).
[13] Árni Johnsen (1968).
[14] Það er freistandi að ætla að erindi Sommerfeldts til Noregs hafi verið að undirbúa gerð næstu myndar hans á eftir Borgarættinni, sem var Gróður jarðar eftir skáldsögu Knuts Hamsun en sagan kom út árið 1917.
[15] Blaðamaður Morgunblaðsins (29-06-1919).
[16] Bjarni Jónsson frá Galtafelli (20-02-1957): „„Saga Borgarættarinnar“ sýnd á ný: „Hún býr enn yfir seiðmagni sínu óbreyttu, þessi gamla kvikmynd“. Þegar fyrsta kvikmyndin var tekin hérlendis fyrir nærri 38 árum. Bjarni Jónsson bíóstjóri rifjar upp gamlar minningar.“ Dagblaðið Vísir, 20. febrúar 1957.
[17] Gunnar Sommerfeldt (1920).
[18] Blaðamaður Morgunblaðsins (29-06-1919)
[19] Blaðamaður Berlingske Tidende 0 (09-10-1919): „Den Stumme Scene“. Berlingske Tidende, 9. október 1919.
[20] Blaðamaður Morgunblaðsins (05-08-1919): „Kvikmyndaleikararnir komnir til Reykjavíkur“. Morgunblaðið, 5. ágúst 1919.
[21] Blaðamaður Aftenposten (27-08-1920): „Den store dansk-islandske Film“. Aftenposten, 27. ágúst 1920.
[22] Þetta er lóðin þar sem kirkja Aðventista stendur nú.
[23] Hestafjöldinn er á reiki í heimildum. Blaðamaður Vikunnar (1965), sem tekur viðtal við Bjarna, skráir 20 hesta, Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur nefnir 40 hesta í sinni grein en Christian Fribert 70 hesta þegar tekið er við hann viðtal árið 1920. Gunnar Sommerfeldt (1920) segir hestana hafa verið 65 sem biðu leiðangursins við Þjórsá.
[24] Blaðamaður Vikunnar (1965): „Saga Borgarættarinnar kvikmynduð á Íslandi. Viðtal við Ólaf L. Jónsson, sýningarmann í Nýja Bíói“. Vikan 11. tbl. 1965. Útg. 18.03.65.
[25] Blaðamaður Morgunblaðsins (05-08-1919).
[26] Gunnar Sommerfeldt (1920).
[27] Fréttamynd þessi er varðveitt í Kvikmyndasafni Íslands.
[28] Blaðamaður Morgunblaðsins (29-06-1919).
[29] Blaðamaður Morgunblaðsins (05-08-1919).
[30] Christen Fribert segir: „Reykjavíks Bíógrafteater=Gamla Bíó“ sem er ekki rétt. Um er að ræða Nýja Bíó.
[31] Blaðamaður Berlingske Tidende (09-10-1919)
[32] Blaðamaður Berlingske Tidende (09-10-1919): „Að auki er hann um þessar mundir að reisa nýtt kvikmyndahús, þannig að Reykjavík fær brátt alveg nýtt nútímalegt kvikmyndahús samkvæmt bestu stöðlum“.
[33] Kvikmyndir á Íslandi 75 ára – Afmælisrit. Reykjavík, 1981, bls. 7.
[34] Alter Ego, blaðamaður (19-02-1957): „BORGARÆTTIN í Nýja Bíói. Kvikmyndabann í Danmörku. BORGARÆTTIN Í NÝJUM BÚNINGI – Viðtal við Ólaf L. Jónsson, sýningarmann í Nýja Bíói og snattara fyrir kvikmyndagerðina“.
[35] Jó, blaðamaður Tímans (1957): Gunnar Gunnarsson segir í viðtali 1957 „að fyrst vorum við að hugsa um að fara austur í Öræfi en ekkert varð úr því, enda voru Danirnir ekki miklir ferðamenn og í þá daga varð að ferðast á hestbaki hvert sem fara skyldi.“ Þetta hlýtur að vera misminni hjá skáldinu, sbr. Bjarna Jónsson.
[36] Eggert Þór Bernharðsson (20-05-1995): Á aldarafmæli kvikmyndalistarinnar: Ísland „land kvikmyndanna“? Greinarflokkur unninn í samstarfi við Kvikmyndasafnið og Lesbók Morgunblaðsins í tilefni af 100 ára afmæli kvikmyndanna á heimsvísu.
[37] Blaðamaður Berlingske Tidende (09-10-1919) og Jón Yngvi Jóhannsson (2011).
[38] Blaðamaður Berlingske Tidende (09-10-1919).
[39] Gunnar Sommerfeldt (1920). Fullt nafn Sigurðssonar, skólameistara, er Ögmundur Sigurðsson, Heydal er Sigurður Heiðdal, launsonur Þorláks O. Johnson.
[40] Gunnar Sommerfeldt (1920).
[41] Árni Óla (27-08-1919): „Ferðapistlar 1, skrifaðir á Keldum, 19. ágúst.“ Morgunblaðið, 27. ágúst 1919.
[42] Árni Óla (27-08-1919).
[43] Jón Yngvi Jóhannsson ( 2011), bls. 199-200.
[44] Gunnar Sommerfeldt (1920).
[45] Árni Óla (28-08-1919): „Ferðapistlar 2, skrifaðir í Þjórsártúni, 23. ágúst.“ Morgunblaðið, 28. ágúst 1919.
[46] Árni Óla (05-09-1919): „Ferðapistlar 3, skrifaðir í Reykholti, 29. ágúst.“ Morgunblaðið, 5. september 1919.
[47] Árni Óla (21-09-1919): „Ferðapistlar 5.“ Morgunblaðið, 21. september 1919.
[48] Árni Óla (21-09-1919).
[49] Árni Óla (12-09-1919): „Ferðapistlar 4, skrifaðir í Reykholti 8. september.“ Morgunblaðið, 12. september 1919. Ekki er alveg ljóst í huga greinarhöfundar hvað varð um fyrirhugaða kvikmyndatöku í Borgarnesi. Mögulega voru atriði sem átti að taka þar færð til Hafnarfjarðar.
[50] Bjarni Jónsson frá Galtafelli (20-02-1957).
[51] Auglýsing (24-09-1919): „Auglýst er eftir statistum í Reyjavík.“ Morgunblaðið, 24. september 1919.
[52] Bjarni Jónsson frá Galtafelli (20-02-1957).
[53] Jón Yngvi Jóhannsson (2011), bls. 200.
[54] Gunnar Sommerfeldt (1920).
[55] Blaðamaður Berlingske Tidende (09-10-1919).
[56] Alter Ego, blaðamaður (19-02-1957).
[57] Blaðamaður Vikunnar (1965).
[58] Óskar Gíslason (1976). „Heimildarkvikmynd í tveimur hlutum eftir Erlend Sveinsson og Andrés Indriðason“. Framleiðandi: Sjónvarpið, 1976.
[59] Jón Yngvi Jóhannsson (2011), bls. 201.
[60] Bjarni Jónsson frá Galtafelli (20-02-1957).
[61] Gunnar Sommerfeldt (1920).
[62] Blaðamaður Morgunblaðsins (20-10-1919): „Saga Borgarættarinnar“. Forsíðufrétt. Morgunblaðið, 24. október 1919.
[63] Dreifingarkatalóg Nordisk Films Kompagni (1920-1922): „Borgslægtens Historie“, bls. 84.
[64] Program (án ártals): „Sons of the Soil“. A thrilling drama of Iceland from the novel „Guest, the One-Eyed” by Gunnar Gunnarsson.
[65] Jón Yngvi Jóhannsson (2011): 30 manna hljómsveit en skv.: Blaðamaður Berlingske Tidende 4 (1920): 50 manna hljómsveit.
[66] Fram kemur í óþekktri dagblaðaheimild (vantar framan á hana) að S. Sveinbjörnsson hafi valið og útsett tónlistina: Musiken er samlet og arrangeret af den unge islandske komponist, Sveinbjörnsson stendur þar. Hér virðist átt við Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld, sem samdi þjóðsöng Íslendinga, Ó Guð vors lands, en hann var reyndar fluttur í upphafi og enda sýningarinnar. Vandinn er hins vegar sá að hann var ekki ungur á þessum tíma, heldur maður vel á áttræðisaldri búsettur í Winnepeg í Kanada, þótt hann hafi raunar sýnt því áhuga að setjast að í Kaupmannahöfn árið 1919.
[67] Paladsteatrets Films Nyheder 2 (1920): sæson 1920 – 21, No. 4.
[68] Paladsteatrets Films Nyheder 1 (1920).
[69] Jón Yngvi Jóhannsson (2011).
[70] Blaðamaður Berlingske Tidende 1 (28-08-1920): „Hvorfor forlod Gunnar Gunnarsson Filmsekspeditionen paa Island“. Viðtal við höfund Sögu Borgarættarinnar. Berlingske Tidende, 28. ágúst 1920.
[71] Blaðamaður Berlingske Tidende 1 (28-08-1920).
[72] Blaðamaður Berlingske Tidende 3 (28-08-1920): „Paladsteatrets Premiere i aftes“. Berlingske Tidende, 28. ágúst 1920.
[73] Blaðamaður Berlingske Tidende 2 (1920-08-28): „Borgslægtens Premiére i Paladsteatret“. Berlingske Tidende, 28. ágúst 1920.
[74] Blaðamaður Politiken (1920): „Paladsteatret. Af Borgslægtens Historie“. Politiken, 28. ágúst 1920.
[75] Blaðamaður Politiken (28-08-1920).
[76] Blaðamaður Berlingske Tidende 3 (28-08-1920).
[77] Blaðamaður Morgunblaðsins (1920-21): Smáfréttir úr Morgunblaðinu 1920-21 safnað saman í eitt skjal.
[78] Blaðamaður Morgunblaðsins (1920-21): Morgunblaðið, 5. október 1920.
[79] Axel K. (1920): Borgslægten. Københavns Amts Folkeblad, 17.09.1920.
[80] Ellen Duurloo (20-09-1920): „Den Stumme scene, Af Borgslægtens Historie“, Nationaltidende, 20. september 1920.
[81] Ellen Duurloo (1920).
[82] Blaðamaður Berlingske Tidende 3 (28-08-1920).
[83] Frumsýningardagur 2. hlutans er skv. gagnagrunnsupplýsingum DFI 7. september 1920.
[84] Blaðamaður Morgunblaðsins (1920-21).
[85] Bjarni Jónsson frá Galtafelli (20-02-1957).
[86] Blaðamaður Vikunnar (1965).
[87] Blaðamaður Vikunnar (1965): Ólafur L. Jónsson segir í viðtali 1965 að textinn hafi birst á tjaldinu og að helztu setningar og útskýringar komi þar fram á dönsku.
[88] Blaðamaður Vikunnar (1965): Ólafur L. Jónsson sýningarmaður segir árið 1965 að frumsýnt hafi verið 7. janúar.
[89] Blaðamaður Morgunblaðsins (08-01-1921): „Saga Borgarættarinnar. Íslenzka kvikmyndin sýnd í kvöld“. Forsíðufrétt. Morgunblaðið, 8. janúar 1921.
[90] Hávar Sigurjónsson (2005): „Höfuðlausn, skáldsaga byggð á Sögu Borgarættarinnar“. Viðtal við höfundinn, Ólaf Gunnarsson. Lesbók Morgunblaðsins, 29. október 2005.
[91] Bjarni Jónsson frá Galtafelli (20-02-1957).
[92] Blaðamaður Vísis (1920 (1971)): „Saga Borgarættarinnar“ (Gagnrýni). Vísir, 10. janúar 1920.
[93] Blaðamaður Morgunblaðsins (1920-21).
[94] Alter Ego, blaðamaður (19-02-1957).
[95] Blaðamaður Vísis (1921): Vísir 1921, smáfréttir frá janúar til júní.
[96] Blaðamaður tímaritsins Samtíðin (1940): Úr ríki kvikmyndanna. Viðtal við Bjarna Jónsson, framkvæmdastjóra. Samtíðin, 7. árgangur, 4. tölublað. bls. 4-7. 1. maí 1940.
[97] Árni Johnsen (1968): Í viðtali Árna Johnsen við Gunnar áratug síðar segir hann að sig rámi í að hafa heyrt því fleygt að hagnaðurinn hafi skipt milljónum, „frétt hef ég á skotspónum, að hagnaðurinn hafi orðið fleiri milljónir en fingur eru á annarri hendi. Er mér því efst í huga að afsaka nafna minn um útgjöldin, því að ýmsu leyti vann hann með töku myndarinnar verk, sem tönn tímans hefur vissulega ekki látið ósnert, en á því á hann ekki alla sökina.“
[98] Blaðamaður Vikunnar (1965).
[99] Blaðamaður Vikunnar (1965).
[100] Alter Ego, blaðamaður (19-02-1957).
[101] Blaðamaður Vikunnar (1965).
[102] Jó, blaðamaður Tímans (1957). Í viðtali við Árna Johnsen segir Gunnar líka: „Eigi að síður væri æskilegt að [myndin] kæmist í opinbera eign, enda forsenda fyrir því að ég féllst á endurtökuna, þótt ekki hafi verið frá því gengið. Árni Johnsen (1968).
[103] Hannes á horninu (17-06-1945).
[104] Blaðamaður LG (1964): „Kvikmyndir: Saga Borgarættarinnar“. Vísir, 21. apríl 1964.
[105] Blaðamaður LG (1964).
[106] Erlendur Sveinsson (1981): Kvikmyndir á Íslandi 75 ára – Afmælisrit. Útgáfa: Gamla Bíó, Nýja Bíó og Kvikmyndasafn Íslands, Reykjavík, 1981.
[107] Þessar spólur fengu aðfanganúmerið Kn 81-7 hjá KÍ.
[108] Þessar spólur fengu aðfanganúmerið Kf 83-24 hjá KÍ.
[109] Afrit þetta fékk aðfanganúmerið Kf 85-15 hjá KÍ.
[110] Óvíst var hvað varð um spólurnar en vonir standa til að þær hafi lent í geymslu Norska kvikmyndasafnsins í Mo i Rana í Noregi.
[111] Þessar spólur fengu aðfanganúmerið Kf 90-15 hjá KÍ.
[112] Sbr. gjafabréf í bréfasafni Kvikmyndasafns Íslands sent Ib Monty, forstöðumanni Danska kvikmyndasafnsins, þann 9. júlí þetta ár, undirritað af þáverandi starfsmanni Kvikmyndasafnsins, Guðmundi Karli Björnssyni.
[113] Þessar spólur fengu aðfanganúmerið Kf 06-28 hjá KÍ.
[114] Greinarhöfundur annaðist hönnun alls umbúnaðar þessarar diskaútgáfu, texta og myndaval á diska og kápu sem og aðra framsetningu. Settar voru tvær aukamyndir framan á disk nr. tvö: Fréttamynd Gamla Bíós af komu kvikmyndahópsins til Íslands með Gullfossi og frásögn Óskars Gíslasonar af þjónustu þeirri sem hann veitti kvikmyndatökumanni Borgarættarinnar, Louis Larsen, í sambandi við framköllun á prufum sem teknar voru í „kvikmyndaverinu“ á Amtmannstúninu. Þessi diskaútgáfa var hugsuð sem undirbúningur fyrir endanlega útgáfu myndarinnar á mynddiskum.
[115] Skönnun DFI var framkvæmd í Hollandi og og barst safninu 2016 og 2018. Þessar skrár fengu aðfanganúmerin Kr 16-24 og Kr 18-13 hjá KÍ.
[116] Jón Stefánsson, starfsmaður á skanna- og endurvinnslustöð Kvikmyndasafnsins, annaðist endanlega skönnun þeirrar útgáfu Sögu Borgarættarinnar sem safnið varðveitir, gerði hraðalagfæringar, sá um samstillingu og samsetningu alls filmuefnis sem notað er við endurgerðina, endurgerði upprunalegu textaskiltin og áferðarlagfærði alla myndina. Við endurgerðina var fallið frá því að láta tónskáld skrifa upp tónlistarvalið frá 2012 eins og stefnt hafði verið að.