Bergsveinn Birgisson. Lifandilífslækur.

Bjartur, 2018. 295 bls.[i]

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2019

Því segi ég skál fyrir Fróni og Fjölni og allt það
og firðum snjöllum sem þar hafa skrimt og hrokkið,
við minnumst Ingólfs Arnarsonar í veislum
en óskum þess að skipið hans það hefði sokkið.[ii]

 

LifandilífslækurSögusvið og aðalpersóna

Ekki er neinn hörgull á hörmungum í heiminum. Fólk þarf ekki að vera neitt sérlega athugult né fréttasólgið til að verða þess áskynja að víðsvegar er barist á banaspjótum, víða hefur fólk ekkert að bíta og brenna og ekkert lát virðist á feigðarósförum mannskepnunnar. Auðnist svo manninum ekki sjálfum að mála sig út í horn má treysta á náttúruna með sínum flóðbylgjum, eldgosum og jarðskjálftum, að ógleymdum sjúkdómum, til þess að gera lífið að barningi, að baráttu við að halda sér á lífi.

Gæfunni er misskipt. Það er og gömul saga og ný. Aðallánið felst í því hvar maður fæðist, hvort konu sem leggur lag sitt við kvæntan mann, eða þegar kvæntur maður nauðgar konu, verði drekkt (konunni það er) í refsingarskyni eða hvort almennur níðingsskapur á minni máttar eigi almennt upp á pallborðið, sé jafnvel verndaður með lögum. Ekki ósvipað og raunin var eitt sinn á Íslandi. Eitt sinn var heldur ekki búið að koma auga á fegurð náttúrunnar, hvað þá setja verðmiða á hana.

Oft var verra að líta dagsins ljós á Íslandi en nú til dags. Sú var eitt sinn tíðin að „líf hinnar íslensku þjóðar hékk á bláþræði“ (bls. 5) og „[l]ífið var á sinn hátt ekki mögulegt. Það var ekki hægt – að lifa.“ (bls. 9). 18. öldin er sú öld sem hvað harðdrægust var Íslendingum. Og ef öldin sú er persónugerð þá má halda því fram að hún hafi haft sig hvað mest í frammi við að murka lífið úr Íslendingum. Nafntogaðasta katastrófan var Skaftáreldar og í kjölfar þeirra móðuharðindin á árunum 1783 til 1784.

Tölurnar tala sínu máli. Árið 1784 fækkaði landsmönnum um 4.289, hrossum um 28 þúsundir, nautfé fækkaði um 11.461, sauðfé fækkaði um 190.488. (bls. 8)

Það er í þessa tíð sem skáldsagan Lifandilífslækur er skrifuð. Í fyrsta kafla verksins eru raktar þær hörmungar sem dundu yfir Ísland á 18. öld, eldgos, plágur, sultur, og „kuldar svo miklir að sjór fraus […] Menn gengu þurrum fótum frá Reykjavík beint yfir á Akranes og eins millum allra Breiðafjarðareyja.“ (bls. 7)

Og náttúran sagði að henni stæði alveg á sama þótt hún myndi eyða öllu mannkyni – hún myndi ekki einu sinni veita því athygli. Henni var umhugað um allt aðra hluti en hag mannfólksins; þar virtist hinn góði Faðir, sem áður hafði fylgst með voru amstri, byrjaður að mást burt úr skýjunum (bls. 10).

Heimsendastemning svífur yfir vötnum og textinn kann jafnvel að skapa hugrenningatengsl við Opinberunarbók Jóhannesar eða Jobsbók Biblíunnar. Auk þess er heimsmyndin við að breytast svo um munar. Upplýsingin hefur hafið innreið sína og með henni „menn hins nýja tíma, […] það var hinn nýi maður sem ætlaði að sigrast á náttúrunni með harðri hendi vísindanna og temja hana með hugviti sínu […] Allt mátti mæla, skilja og sundurgreina í þartilgerða flokka“ (bls. 11). Guð skipar æ minni sess í heimsmyndinni, sköpunarsagan er rædd út frá þeim forsendum að ef til vill sé heimurinn eldri en 3500 ára og einstaklingurinn þokar sér í sviðsljós tilverunnar.

 

Danmörk, Ísland, siðmenning, ómenning

Í öðrum kafla er sögusviðið Kaupmannahöfn. Árið er 1784. Í Kansellíinu eru örlög Íslands rædd af karlmönnum með lúsugar, yfirdrifnar hárkollur, þar „fer valdataflið um örlög þjóðanna“ (bls. 18) fram. Kryddvín eru drukkin, íburðarmikið barokkið er allsráðandi, fallegir hlutir, fallegar byggingar, kristileg siðmenning. Úti við eru portkonur pískraðar fyrir að vera portkonur. Sú mynd sem dregin er upp af mönnum Kansellísins er um margt skopleg. Stíllinn sem notast er við til að greina frá fundinum tekur mið af staðsetningunni og ber keim af svokölluðum kansellístíl, flóknar samanbarnar setningar, uppskrúfuð orðaskipan. Hátt flækjustig, latínu- þýsku- og frönskuskotið málfar.

Danskir embættismenn eru á því að Íslandi sé ekki viðbjargandi og fer þar fremstur í flokki kammerherrann Levetzow (1754-1829, hann var stiftamtmaður á Íslandi 1785-85). Í ljósi aðstæðna og innrætingar íbúa eyjunnar eru danskir á eitt sáttir um að ekki þjóni tilgangi að halda úti byggð þar, hvar fólk sé óalandi og óferjandi og náttúran eins og hún er.

Allar umbótatilraunir hafa engu skilað nema skuldum, öll verk vors náðuga konungs og verðlaun skila engum arbeiðsdugnaði meðal fólksins sem fallið er í þjófdóm, brennivín, tóbakssukk og leti. (bls. 23)

Fólkið í þessu landi fussar við hvörri góðri viðleitni og vill engan árangur sýna […] Ég sé fyrir mér að búa megi því betra líf hér í voru konungsríki og tukta það til heiðviðrar vinnu, ég veit að margir ykkar gætu vel fundið þar starfskrafta í ykkar manufacturer – góðir og billegir starfskraftar yrðu virkjaðir ef tuktun tækist (bls. 25).

Mynd þessi af Íslendingum rímar við þá sem dregin er upp í Sextíu kíló af sólskini Hallgríms Helgasonar. Einnig fellur verkið í flokk, því að gera, nýlegra verka þar sem einnig er unnið með sögulegan efnivið. Má þar nefna Brotahöfuð (1996) Þórarins Eldjárns, Rökkurbýsnir (2008) eftir Sjón og Skáldsögu um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma (2010) Ófeigs Sigurðssonar. Af erlendum sögum má nefna Mælingu heimsins (2005, 2008 á íslensku) og Tyll (2017) hvor tveggja eftir hin þýsk-austurríska Daniel Kehlmann. Síðarnefnda verkið gerist á tímum Þrjátíu ára stríðsins (1618-1648).

Á umræddum fundi má jafnframt finna tvo Íslendinga, konferensráð Jón Eiríksson (1728-1787) og Magnús Stephensen (1762-1833, af mörgum er hann talinn maður upplýsingarinnar, Alexander von Humboldt Íslendinga) sem af veikum mætti mótmæla. Álíta þeir að Danskurinn hafi ekki staðið sig sem skyldi og óráðsía einkenni öðru fremur flestan ráðahaginn er Ísland áhrærir: „Þar fóru átta þúsundir af löndum okkar í sultardauðann meðan ég gekk á milli áhrifamanna og át svínasteikur og drakk franskan klaret“, segir t.a.m. Jón Eiríksson við Magnús á blaðsíðu 31.

Í kjölfar fundarins verður úr að fulltrúar eru sendir til Íslands með það augnamið að rannsaka hagi Íslendinga áður en vinnufærir verða fluttir af landi brott, það er að segja „gamla hugmyndin um brottflutning fólks frá Íslandi […] Nokkrir skyldu flytjast til Finnmerkur í Noregi, slatti til Jótlandsheiða, festir til Kaupinhafnar.“ (bls. 35) Minni áhugi er á þeim örvasa og illa höldnu. „Íslendingar voru þá samkvæmt skjölum aðeins 38.667 að tölu“. (bls. 36).

Einn fulltrúanna sem sendir eru er hinn hálf íslenski, hálf danski (danski hluti hans er aðsópsmeiri) Magnús Aurelius Egede. Maður nýrra tíma, vísindamaður, tilbúinn að mæla heiminn, öðlast skilning á gangverki náttúrunnar, þess fullviss að ratíó og lógos séu að finna á bakvið allt, að ekkert sé mannlegri skynsemd og skilningi ofaukið.

Heimurinn var enn ekki fyllilega skrásettur er hér var komið við sögu, þeir krókar og kimar fundust sem maðurinn hafði ekki brotið undir sitt skynsvið og mælingar og auðsýnt sitt herradæmi, átti það mjög við á skreiðar- og lýsiseyju hins danska konungsríkis, þeirri er Thule hét á eldri sjókortum. (bls. 45-46)

Manngerð þessi sver sig í ætt við þá mynd sem Daniel Kehlmann dregur upp af Alexander von Humboldt í Mælingu heimsins; óbilgjarn, þrjóskur og kreddufastur. Magnús Árelíus er og sendur af konungalega danska Vísindafjelaginu „til staðar sem enn var „ufuldstændig“ mældur og hnitaður hvað varðaði norðlæga breidd“ (bls. 39). Alexander von Humboldt fæst við viðlíka mælingar. Báðir lenda þeir í atburðum sem skekur heimsmynd upplýsingarinnar.

Sá hluti Íslands sem Magnúsi Árelíusi ber að gera skýrslu um er Strandasýsla sem talinn er sá hluti Íslands sem hvað minnst hefur verið mældur. Ýmsum sögum fer af þessum landshluta, ótrúlegum sögum. Hann er sveipaður dulúð auk þess sem þar kvað vera „barbarí mest á Íslandi. Þeir drepa fólk og nota það í beitu“ (bls. 52). Það tjáir í það minnsta Zachariassen skipstjóri skips þess sem flytur Magnús Árelíus og aðstoðarmann hans, Jón Grímsson urtagarðaspecialist, til Íslands. Zachariassen skilur og ekkert í því hví þeir ætla að sinna starfa sínum en vilja ekki halda sig fyrir sunnan og eyða hýrunni þar í vínföng og vergjarnar konur eins og kollegar þeirra.

Margar lýsingarnar á Íslandi og Íslendingum bera svip af ýkjusögum þeim sem fóru af landanum í ritum fólks sem sem margt hvert hafði t.a.m. aldrei stigið fæti á landið. Leiða má hugann að Ditmar Blefken og meintu rógriti hans sem út kom 1607. Blefken var fremstur meðal jafningja þegar kom að því að lýsa Íslandi sem barbaríi þar sem landinn þvoði sér upp úr hlandi.

Magnús Árelíus er hálfgerður spjátrungur, klæddur á móðins fordildarlegan máta með hárkollu „í sínu tvíhneppta, hvítmunstraða vesti, undir frakka dökkbláum og látúnshnepptum með standandi kraga, með sinn silkiklút um háls“. (bls. 69). Jón Grímsson sér hann fyrir sér sem mann er „hafði aldrei farið um landið né dýft hendi í kalt vatn! […] Hann var ofverndaður mömmudrengur aðalsins, drakk sykurvatn úr porcelan og svaf í kiplíngalíni“ (bls. 56). Hann talar íslensku en „verður eins og lítill drengur þegar hann talar“ (bls. 54). Hann passar því ekki vel við harðfegnið landið, þar sem „[e]ymd þessa arma fólks má eigi með orðum útþrykkja!“ (bls. 62) Fátæktin er gífurleg, fólkið þjakað og „[h]úsin eru helst holur grafnar í jörð“ (bls. 65)

 

Stíll og söguandi

Bókin skiptist í þrjátíu mislanga kapítula og Epilogus. Stíllinn er um margt fornfálegur og orðaforðinn oft og tíðum gamaldags, sumpart svo forn að orðabók gæti þurft til þess að skilja. Þar að auki eru setningar oft langar og undirskipaðar, kryddaðar slettum þess tíma þegar verkið á sér stað.

Þegar kemur að frásagnarmáta má tengja hann við frásagnarmáta Jóns Kalmans Stefánssonar í Himnaríki og helvíti, Harmi englanna og Hjarta mannsins þar sem notast er við 1. persónu fleirtölu, sögumenn eru eins konar sameiginleg söguvitund, kollektíft minni. Líku er fyrir að fara í Lifandilífslæk. Notuð er, að mestu leyti, fleirtölumyndin vér sem er auðvitað úrelt þegar kemur að nútíma íslensku. Ekki er þó alfarið haldið sig við það form. Við kemur einnig fyrir og þar að auki 1. persóna eintala. Rímar það við stílbreytingar og málsniðsbreytingar innan sögunnar sem breytast eftir því hvaða söguandi (sögumaður) á í hlut. Að vísu er einvörðungu talað um einn söguanda innan textans en ekki er úr vegi, í ljósi stíls svo og málsniðs, að ætla þar fleiri auk þess sem tekið er fram að sagan sé samansett af heimildarmönnum: „Og þá finnur þessi sögunnar andi að heimildarmennirnir taka nú að þagna og svipirnir hver á fætur öðrum að hverfa inn í móðuna sem þeir stigu út úr.“ (bls. 286)

Innan verksins rúmast því ólíkar raddir sem greina frá mismunandi veruleika, sjá veruleikann á ólíkan hátt. Jafnframt fær Magnús Árelíus sjálfur orðið í bréfum og greinir einkum frá því volæði sem fyrir augu ber og sendir yfirboðara sínum „kammerherra og vísindanna elskandi æruverðugheit, Levetzow!“ (bls. 58) Þar er sömuleiðis annað málsnið á ferð. Er því farið út og suður og samræmis ekki alltaf gætt þegar, t.a.m., kemur að því hve vitandi sögumaður er, oft skapast þversagnir, írónískar þversagnir. Innskot eru tíð og þar hefur nútíminn einatt orðið:

Um leið viljum við ekki með öllu líta framhjá vissum annmörkum í skýrslubréfum vísindamannsins, sem við fyrstu sýn mætti skilja sem hlutlausa rödd hins svokallaða veruleika, því á þessum dögum var rödd hins skynsama manns í nánara sambandi við veruleikann en reyndist síðar meir. (bls. 70)

Ef það er eitt sem helst verkið á enda þá er það hæðnislegur, gamansamur tónn. Textinn kann að virka spaugilegur og er það næsta víst tilgangurinn. Einnig verður að minnast á að Bergsveinn skrifar sjálfan sig inn í verkið sem fíflið á Bæ sem syngur allslags illskiljanlega texta sem virðast fela í sér feigð. Vissulega er af mörgu að taka, mikið liggur undir, mörg plön, tími og þemu.

 

Ferðin

Ferð Magnúsar Árelíusar, Jóns Grímssonar aðstoðarmanns auk Bárðs Grímkelssonar leiðsögumanns norður á Strandir, sífellt norðar og norðar til að „gera rapport um samfélagsins tilstand ásamt því að búa í haginn fyrir brottflutning fólksins“ (bls. 41) er ævintýraleg. Lokatakmark Magnúsar Árelíusar er Hornbjarg, nyrsti hluti Vestfjarða, þar sem hann hefur í hyggju að finna út breiddargráðu staðarins. Landsvæðið hefur yfir sér áru mystíkur, galdra og fordæðuskapar. „Menn vissu lítið sem ekkert.“ (bls. 42) Og eftir því sem þeir ferðalangar færast lengra í norður, lengra frá siðmenningunni, þeim mun illskiljan- og óútskýranlegri verður tilveran „við endimörk hins byggilega heims.“ (bls. 189)

Magnúsi fylgja íslenskir draugar sem upplifðu óréttlæti stjórnkerfi landsins og náttúru á eigin skinni. Magnús er enda skyggn en leitast við að bæla þá náðargáfu sína uns það reynist ekki mögulegt lengur. Hann upplifir margt sem vísindin fá ekki útskýrt, mara sækir á hann, útburður, og náttúran verður stöðugt fyrirferðarmeiri, háskalegri, hún persónugerist: „Hamrar birtust skyndilega eins og tröll í hvítaþykkninu, svartir uxar snusuðu við götuna og urðu að svörtum sauðum eða hundum þegar nær dró áður en þeir urðu að steinum.“ (bls. 119) Samanburður við Innstu myrkur (1902) Josephs Conrads er ekki úr vegi sem og kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Börn náttúrunnar (1991).

Spurningarnar: „Hvað er draumur? Hvað veruleiki?“ (bls. 127) vakna eða þá „[a]ldrei mun nokkur leið að vita hvað er sannast sagna og hér berast vandi vor, hvaða veruleika á andi sögunnar að segja frá?“ (bls. 110) Samband manns og náttúru verður æ óaðskiljanlegra. Nær það hápunkti í persónu Hallvarðs Hallsonar (1723?-1799) í Skjaldarbjarnavík sem var nafntogaður Strandamaður, trölli líkastur, heiðinn og sagður göldróttur. Veruleika- og gildismati Magnúsar er snúið á hvolf, vissan verður afstæð: „Tíminn bíður handan við hæðina að méla trúna úr sálu þinni og troða þínum fegurstu tilfinningum inn í pulsuþarm fyrirsjáanleikans.“ (bls. 126) Jafnframt breytist útlit Magnúsar Árelíusar. Hann verður líkari og líkari Íslendingi, er jafnvel tekin fyrir sprúttsölumann:

Klæði hans voru farin að renna saman við landið. Þau höfðu misst gljáa sinn, hvíta vestið með brúnum flekkjum og hnappar burtfallnir hér og hvar, hálsklúturinn og kniplingar skyrtunnar orðnir brúnir í köntum. Hann hafði lýti í andliti eins og fólk flest, mál innbyggjara varð honum sífellt skiljanlegra og þó íslenskan hans væri dönskuskotin í mesta lagi virtist fólk skilja hann for det meste. (bls. 129)

Er því ekki úr vegi að líta á verkið sem þroskasögu.

Magnús Árelíus lendir í miklum hrakningum á Ströndum. Hann verður ástfanginn af tunguskorinni konu að nafni Sesselja, Ísbjörn ræðst á hann. Hallvarður bjargar honum frá ísbirninum og leggur björninn að velli. Ígerð hleypur í sárið þannig að dauðinn er vís. Sesselja leggur land undir fót til að ná að Lifandilífslæk, læk sem er Magnúsar eina von um að komast lífs af, ef hann bara trúir á lækningamátt vatnsins, trúir á náttúruna.

Sesselju má sjá fyrir sér sem tákngerving þess óréttlætis sem á Íslandi er alið (draugarnir sem elta hann einnig), hún stendur og fyrir trú á það sem ratíó og logos fá ekki útskýrt. Þau eru ósennilegt par en samt einhvern veginn óhjákvæmileg í þessum heimi handan skynsemi mælinganna, handan þeirrar hugsunar sem hólfar tilveruna eftir nytsemi og notagildi, handan þess heims sem setur verðmiða á fegurðina.

 

Vandi þess að fjalla um þessa sögu

Hvernig á að skrifa um verk eins og Lifandilífslæk? Verk sem klárlega er eitt af þeim sem stendur upp úr bókaflóru síðasta árs. Hér hefur vonandi tekist að miðla, að einhverju leyti, hve áhugavert þetta verk er. Samt gerir sú tilfinning vart við sig að einvörðungu sé yfirborðið gárað, svo mikið mætti segja um verkið, enn fleiri dæmi mætti tína til.

Við lestur bókmenntaverka leitast maður við að setja í samhengi, finna hliðstæður, samanburð við önnur verk, samanburð við veruleikann. Verk verða ekki til í tómarúmi. Í góðum marglaga verkum má koma auga á allslags tengingar, allskonar hugrenningartengsl skjóta upp kollinum, myndir ryðja sér rúms; verk kunna að bjóða upp á slíkt, útkoman veltur á móttökuskilyrðunum og móttökubúnaðinum. Lifandsilífslækur er verk sem býður upp á möguleika hvað nálgun og túlkun varðar sem og pælingar á stíl og setningaskipan, tengingar við fortíð, nútíð og framtíð.

Auðvitað er um ákveðna nálgun á sögu Íslands að ræða, túlkun sem rímar við margt það sem skrifað hefur verið og sagt um landið. Söguandinn er þó engan veginn staðsettur í fjarlægri fortíð heldur er hann nálægur, samansettur úr anda liðins tíma jafnt sem þeim sem nú svífur yfir vötnum en ekki síst þeim sem koma skal.

Auðvelt er og að tengja við samtímavandamál sem plaga nútímann. Nærtækur er flóttamannavandinn. Einnig talar verkið til tíma sem virðist á sífelldri hreyfingu, tekur sífeldum breytingum og miðar ekki síst að frelsi einstaklingsins, ýtir Guði og náttúrunni enn frekar út á jaðarinn, eða gerir hana að einhvers konar Disney-landi.

Á okkar tímum hefur heimurinn verið mældur í bak og fyrir. Við teljum okkur skilja sköpunarverkið, við teljum okkur hafa rétt á að hagnýta það okkur til hagsbóta og tökum ef til vill ekki alltaf fórnarkostnaðinn með í reikninginn. Allt þetta og meira til kann lesanda að koma til hugar við lestur Lifandilífslæks.

Það er alveg hægt að draga verkið í pólitískan dilk en það er ekki óhjákvæmilegt. Verkið getur að mestu leyti sloppið við þann stimpil. Alveg fram að lokasíðunum þegar „saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns allt sitt líf, dag og nótt“ andartak brýtur sér leið fram á síður verksins. Gríman fellur. Það vill nefnilega þannig til að í téðu verki er sögu Íslands breytt, svona eins og sagan hefði breyst ef skipið hans Ingólfs hefði sokkið. Í Lifandilífslæk var Íslendingum gert að yfirgefa eyjuna eins og danskir ráðmenn vildu og „nú á tímum mestur hluti miðhálendis kominn undir vatn.“ (bls. 291) Landið hefur breytt um svip:

Þar réðu ekki eins og menn vita, hinar rómantísku hugmyndir um fegurð óspilltrar náttúru. Þær bræðslur, olíuhreinsistöðvar, járnblendi-, súráls- og brennisteins verksmiðjur og risaorkuver er sækja kraft í hálendislónið er þekur tvo þriðju landsins, skipta nú hundruðum. (bls. 292)

Óhjákvæmilega leiðir þetta hugann að virkjanaframkvæmdum og náttúruvernd. Reyndar líka fram að lokahlutanum en fram að þeim tíma er pólitíska afstaðan ekki tær. En þótt við séum ekki mótfallin virkjunum breytir það engan veginn gildi og ágæti þessa verks, hvort sem það er í fagurfræðilegum skilningi eða í ljósi umræðu um hitamál samtímans. Þetta er sannlega gott verk.

 

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

 

Tilvísanir

[i] Yfirskrift greinar er fengin á bls.110.

[ii] Úr dægurlagatexta Megasar, „Um óþarflega fundvísi Ingólfsarnarsonar“, af plötunni Megas(1972)