eftir Steinunni Sigurðardóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2021.

 

1

Með árunum verðum við undarleg í háttum

um leið og þrekið til að dylja háttalagið fer þverrandi.

 

Við setjum upp ýktan svip þegar minnst varir í samtali um vindáttina

vegna þess að við erum víðs fjarri

eða vegna þess að stingandi hugsun sprettur upp,

um gamlar hremmingar sem koma veðri dagsins ekki við.

Og við vorum of svifasein að setja upp andlitsgrímuna
eða við mundum ekki að við ættum hana til.

 

– – –

 

Með árunum verðum við undarleg í háttum

stækkuð mynd af því slefandi flóni
sem var hrint af stað í leiðangurinn.

Strax til í tuskið, fara sér að voða.
Fullfært í þann sjó, staurblint á hættuna.

Og barnfóstran slæm með að blunda í ótíma.

 

– – –

 

Með árunum verðum við undarleg í háttum.

Vanhöld sálarinnar – sem alltaf voru – en falin bak við hrukkulausa brosið –

nú koma þau í ljós.  Naglfastur skeifumunnur og mött augun.

Hin þreytta sál og hin marghrjáða
grímulaust afhjúpuð
og grínlaust

 

 

2

Með árunum sækja að okkur í síhækkandi hrönnum
þrúgandi minningar
um Vonbrigði Lífsins –
kerlingardurginn
sem raðmyrðir áform þín og gleði
með því að bregða fyrir þig fæti þegar þú ert loksins á fljúgandi ferð.

Hlakkandi yfir þér í kollsteypunum. Hóstandi af áreynslunni
í eltingarleiknum.

Því líka þessi er farin að þjást af lítilleik fyrir hjarta og þembu.

 

———

 

Með árunum sækja að okkur í síhækkandi hrönnum
þrúgandi hugsanir
um Sársaukann Beinskeyttan
sem baneitrar lífið út í gegn –

stjórnlausa fíkilinn sem skiptir um kennitölu með hraði

og heldur kannski að það dugi til að villa á sér heimildir.

 

 

Steinunn Sigurðardóttir

Mynd: David Ignaszewski