Eftir Brynjólf Þorsteinsson
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019
allir hrafnar eru gat
líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur
eins og brot
í himingrárri tönn
sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör
pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann
það glittir í úf
allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi
líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur
lestu hann
með vasahníf og opinn munn
hjartað springur
eins og ber undir tönn
bragðið er svart