Geim/vélmenna/stuðsöngleikurinn Vitfús Blú eftir Egil Andrason var frumsýndur í gærkvöldi hjá Afturámóti í Háskólabíó. Meðhöfundar eru Hafsteinn Níelsson og Kolbrún Óskarsdóttir. Tónlistin er líka eftir Egil og hana flytur sex manna hljómsveit á sviðinu af gífurlegu fjöri.
Árið er 3033. Þrjú þúsund ár eru liðin frá krossfestingu Jesú sonar Maríu og vélmennin hafa í raun tekið yfir því að oft er engin leið lengur að greina vél frá manni. Þá boða þrjár skapanornir (Halldór Ívar Stefánsson, Helga Salvör Jónsdóttir, Salka Gústafsdóttir) nýjan Messías sem mun bjarga mennskunni frá endanlegri tortímingu: Vitfús Blú (Mikael Emil Kaaber). Vitfús er alinn upp af einstæðri móður (Salka Gústafsdóttir) og veit ekki hver faðir hans er. Þetta er viðkvæmur ungur maður sem ekkert aumt má sjá og hefur enga trú á að hann geti unnið sitt stóra verkefni: sigrað Algrímu Alheimsforseta (Molly Mitchell). En hann verður að reyna því að Algríma er um það bil að ljúka við tæki sem mun sprengja sál mannkynsins og eyða henni. Og hvað eigum við þá eftir sem skilur okkur frá vélmennunum?
Aðskilnaður manna og véla er samt alls ekki skýr því að „móðir“ Vitfúss reynist vera stórhættulegt vélmenni og helsti aðstoðarmaður Vitfúss, Gestur (Mímir Bjarki Pálmason) er ástfanginn af Valentín (Sölvi Viggósson Dýrfjörð) sem er vélmenni. Munu þeir nokkurn tíma ná saman? Og hvaða vopn getur hugsanlega unnið bug á Algrímu? Skyldi það vera sama vopnið og Jesús benti á fyrir tvö þúsund árum? Og skyldi fara eins fyrir Vitfúsi og honum?
Þetta er sprellfjörug sýning með fallegan boðskap sem heillaði salinn upp úr skónum á frumsýningu. Hún minnti á framhaldsskólasýningu af bestu gerð, þrungin einlægri gleði og orku. En auðvitað kunna þessir leikarar líka sitt fag og bera fjörið fram af öryggi og listfengi, öll sem eitt, þó að mest mæddi á Mikael Emil í aðalhlutverkinu. Hann stóðst hverja raun með prýði. Tónlistin var skemmtileg og söngurinn góður, bæði samsöngur og einsöngur.
Í kynningu á verkinu segir að í því sé fagnað „ófrumleikanum og þversögnum mennskunnar í gegnum ýktan dans, stórsöng og ofleik“, þar er engu logið!
Silja Aðalsteinsdóttir
PS Kynningarefnið sem ég náði í var ófullnægjandi og það er Viðari Eggertssyni að þakka ef allir leikarar eru rétt tengdir við persónur. Eins dásamlegt fyrirbæri og Afturámóti er þá bera aðstandendur þess litla virðingu fyrir gildi og nytsemi góðra upplýsinga til neytenda; það þyrfti að breytast.