Úr ljóðabókinni Ég er það sem ég sef eftir Svikaskáld

Mál og menning gefur út þann 19. september 2024.

 

 

Mynd á kápu er verk eftir Helenu Margréti Jónsdóttur

 

 

 

Affall

Frá því að hann féll og reis aldrei upp aftur höfum

við passað okkur á stiganum, passað okkur í

stiganum, passað okkur í öllum stigum í öllum

partíum. Það er alveg sama hvort þeir eru teppalagðir

eða gljáfægðir, það sullast alltaf í teppið, negróní eða

púrtvín, eitthvað rautt og óafturkræft. Brjóstholið

er postulínsbjalla, hjartað er bjallan og þindin er

kólfurinn, en það er sama hvað við pössum okkur, á

eftir hverju þrepi kemur annað þrep og það er hálla

en hitt á undan, neðstu þrepin eru hreint út sagt

sleip af bleytu, já löðrandi alveg hreint, þau liggja

úr þvottahúsinu gegnum kartöflugeymsluna niður í

risið undir súðinni og við þurfum að beygja okkur

ofan í gólf þegar við stígum niður í efsta þrepið.

 

Sunna Dís Másdóttir

 

 

 

Til varnar björnum/börnum

Ég safna baugum

dýrmætir spretta þeir fram undan

augunum

skreyttir tárum og örfínum hárum

að óska sér og blása á

ég þræði þá upp á

ökklana svo hringli í

þegar ég geng um

í skóginum

konur sem ekki býðst

að fara í híði

bjarga sér

 

Melkorka Ólafsdóttir

 

  

 

Glósur

Og svo sitjum við, stilltar

og glósum og glósum meira

 

biðjum eina um að endurtaka

þegar hún talar of hratt

 

svona á að sýna áhuga:

lyftu augabrúnunum og brostu

 

svona á að klifra upp stiga

á fjórum fótum, gætilega

 

kasta sýklahræðslunni fyrir róða

þegar hendurnar feta fótsporin

 

og halda síðar, stuttu síðar

á brauðsneið með smjöri

 

hafðu þetta eftir:

batnandi mönnum

glöggt er

engin verður óbarin

 

við myndum kóngulóarvef

og svo myndum við keðju

 

hver og ein okkar, að sjálfsögðu

veikasti hlekkurinn

 

einu sinni lánaði ég strák

glósurnar mínar, fyrir líffræðipróf

 

ekki frábærar glósur greinilega

því hann kyssti aðra stelpu á vorballinu

 

nokkrum árum síðar

þegar ég sat með manninum mínum í áfanga

áður en hann varð maðurinn minn

 

glósaði ég ekkert nema hálsinn á honum

úlnliðina, prófílinn

 

ég féll í áfanganum en líkami minn bjó til barn

upp úr þessum glósum

 

og náði

næstum því

öllu rétt

 

Fríða Ísberg

 

 

 

Svikaskáld eru Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir. Ég er það sem ég sef er fimmta verkið sem þær gefa út saman.