Um líf og verk Steindórs Sigurðssonar

eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020

 

Í vor eru liðin áttatíu ár frá því hernámslið Breta gekk á land á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni. Margt hefur verið skrifað um sögu og bókmenntir hernámsáranna, þar á meðal „ástandið“ svokallaða; fordæmingu samfélagsins á samskiptum íslenskra kvenna við breska og bandaríska hermenn og aðgerðir ríkisvaldsins gegn þeim. Þrír bæklingar hafa oft verið teknir sem sérstaklega illræmd dæmi um það hvernig talað var um konur og ástalíf þeirra á stríðsárunum: Setuliðið og kvenfólkið frá 1940, Meira um setuliðið og kvenfólkið frá 1941 og hinn ódagsetti Íslenzka konan og aðkomumennirnir. Þessir bæklingar innihalda mergjaðar og heiftúðugar lýsingar á meintum ólifnaði íslenskra kvenna með erlendum hermönnum. Textinn er eins og vakúmpökkuð mynd ástandsorðræðunnar og kvenfyrirlitningin nær sums staðar svo fjálglegum hæðum að maður veltir fyrir sér hvort höfundinum geti verið alvara. Konum sem leggja lag sitt við hermenn er lýst svo að þær séu „innþurkaðar og taugabilaðar „piparjúnkur“, útlifaðar útigöngumellur, friðlausar ekkjur, sem farið er að „slá í“, og jafnvel giftar konur, sem eru að reyna að lifa upp nýja hveitibrauðsdaga.“[1]

Bæklingarnir þrír eru skrifaðir undir dulnefninu S.S., sem er skammstöfun á nafni Steindórs Sigurðssonar rithöfundar. Steindór hefur ekki hlotið mikla athygli í íslenskri bókmenntasögu hingað til en hans er stundum minnst fyrir einstök verk, svo sem ástandsbæklingana, spennusögur sem hann gaf út undir nafninu Valentínus og Reykjavíkurlýsinguna Háborg íslenskrar menningar.[2] Það er hins vegar vel þess virði að víkka sjónarhornið, tengja punktana og skoða líf og verk Steindórs í heild sinni.

 

Steindór Sigurðsson

Páll Steindór Sigurðsson fæddist í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði 30. nóvember 1901. Móðir hans og faðir voru ógift og í æsku fylgdi Steindór þeim til skiptis milli bæja þar sem þau voru í húsmennsku. Þau héldu þó saman og Steindór átti albróður sem var fimm árum yngri en hann. Upp úr 1910 flutti fjölskyldan til síldarbæjarins Siglufjarðar þar sem Steindór gekk í skóla í þrjú ár. Eftir fermingu lærði hann prentiðn á Siglufirði og Akureyri og hélt því áfram þegar hann flutti til Reykjavíkur árið 1919 en þar flosnaði hann upp úr náminu, eins og hann átti eftir að flosna upp úr flestu því sem hann tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni.

Steindór Sigurðsson

Steindór Sigurðsson

Steindór var bókaormur frá barnæsku og á þessum árum byrjaði hann að birta ljóð og sögur, greinar og þýðingar í blöðum. Sama ár og hann flutti til Reykjavíkur gaf hann út sínar fyrstu ljóðabækur, Dranginn og Ungar vonir. Hann gerðist skáti og sósíalisti og gekk í stúku. Bindindislífið átti þó ekki fyrir Steindóri að liggja því hann fór að drekka mikið og illa strax um tvítugt. Næstu tveir áratugir í lífi hans einkenndust af sukki og flakki. Lengst dvaldi hann í Reykjavík, Grímsey og Vestmannaeyjum en hann staldraði líka við á Akureyri, Siglufirði, Seyðisfirði, Húsavík, Ísafirði og Snæfellsnesi, í Hrísey, Fljótshlíð, Flatey á Skjálfanda og Svarfaðardal. Hann dvaldi í útlöndum mánuðum saman, aðallega í Danmörku og Noregi. Hann greip í ýmis störf á sjó og landi og slarkaði þess á milli en alltaf var hann sílesandi og skrifandi. Hann gaf út bækur, blöð og bæklinga og hélt opinbera fyrirlestra víðs vegar um landið. Þegar hann var svangur, kaldur og timbraður leitaði hann skjóls á bókasöfnum.

Steindór fluttist til Vestmannaeyja árið 1928 til þess að gefa út blað undir verndarvæng Alþýðuflokksins. Þar giftist hann Helgu Sigurðardóttur, skálds frá Arnarholti. Hún var menntuð í píanóleik frá Edinborg og þau hjón voru hámenningarlega sinnuð, lásu saman Kóraninn, Keats og kennslubækur í sanskrít, en það var óregla á þeim. Helga veiktist og dó úr berklum árið 1931. Steindór var þá staddur í Noregi en börn þeirra tvö ólust upp hjá móðurforeldrum sínum.[3] Árið 1942 greindist Steindór sjálfur með berkla og lagðist inn á Vífilsstaðaspítala. Hann flutti síðan á Kristneshæli í Eyjafirði og loks á sjúkrahús á Akureyri, þar sem hann lést í ársbyrjun 1949, tæplega fimmtugur að aldri. Vinur hans og skáldbróðir Guðmundur Frímann skrifaði að líklega hefði þrennt hjálpast til við að murka líftóruna úr Steindóri: Berklar, brennivín og amfetamín.[4]

 

Einstaklingsins eina vopn og vígi

Merkilegt nokk er þetta annað árið í röð sem fjallað er um Steindór Sigurðsson í Tímariti Máls og menningar en í febrúarheftinu 2019 var grein eftir Guðmund Andra Thorsson um æviminningar Steindórs, Eitt og annað um menn og kynni. Annálsbrot einnar mannsævi. Þær komu út haustið 1948, fáeinum mánuðum áður en sögumaðurinn lést. Í upphafi greinar sinnar lýsir Guðmundur Andri Steindóri sem manni „sem hefði getað orðið“. Það liggur að sumu leyti beint við að lýsa honum einmitt þannig, með tilliti til þeirrar sterku tilfinningar fyrir vannýttum tækifærum og uppgjöf sem maður fyllist við lestur æviminninga hans. Sjálft form bókarinnar ber svip af skapgerð höfundarins og lífsmynstri, hinum þráfelldu glæstu fyrirætlunum sem alltaf leysast fljótlega upp í fyllerí og rugl. Upphafskaflarnir eru innblásnir og háfleygir en innan skamms fer höfundurinn að flýta sér og stór hluti bókarinnar er skrifaður í hálfgerðum skeytastíl, eins og drög að sögu. Undir lokin gefst skrásetjarinn alveg upp við að steypa punktunum saman í heildstæða frásögn og árunum 1934–1942 er skeytt aftan við bókina í annálaformi. Þegar hér var komið sögu var Steindór enda í kapphlaupi við tímann. Bókinni lýkur árið 1942 þegar hann greinist með berkla. Guðmundur Andri veltir fyrir sér hvort hinn snubbótta stíl æviminninganna megi jafnvel kalla „berklastíl“, eins og einræðu andstutts manns sem af og til fær hroðaleg hóstaköst.

Hvað er það sem Steindór Sigurðsson „hefði getað orðið“ ef hann hefði ekki verið fátækur, drykkjusjúkur og ístöðulaus? Sjálfur hefði hann líklega lagt áherslu á hlutverk sitt sem höfundur þess sem hefðbundið er að kalla fagurbókmenntir; það voru þær sem hann elskaði og upphafði. Kannski hefði hann betur getað þroskað hæfileika sína á því sviði ef hann hefði haft meira úthald. Það er það sem ég hef á tilfinningunni að Guðmundur Andri eigi við. Í æviminningum Steindórs eru margar lýsingar á stórhuga áformum um umfangsmikil skáldverk (og eina sögulega kvikmynd). Um mann sem varð honum eftirminnilegur skrifar Steindór til dæmis að líf hans væri „stórkostlegt efni í skáldsögu, sem kæmi jafnframt til að geyma óvenjulega yfirgripsmikla aldarfars- og þjóðlífslýsingu um meira en hálfrar aldar skeið … Margra binda ritverk.“[5] Stundum kemst verkið aldrei lengra en á hugmyndastigið, öðru byrjar höfundurinn á en lýkur ekki við, mörgum handritum týnir hann á förnum vegi.

Aftast í æviminningunum er ritsmíðaskrá Steindórs. Þar eru tilgreindar átta ljóðabækur sem komu út á tímabilinu 1919–1947 og smásagnasafnið Meðal manna og dýra frá 1943, auk ýmiss konar kvæðasafna, ritgerða og þýddra skáldsagna. Þetta eru í sjálfu sér ekki slæm afköst hjá manni sem lifði jafn óreglusömu lífi. Steindór hafði ýmislegt til síns ágætis sem rithöfundur. Hann hafði mikla skáldskaparástríðu, komst oft vel að orði og hafði ágætan húmor. Hann hefði samt varla orðið meðal frumkvöðla í íslenskri ljóða- eða sagnagerð. Kveðskapurinn er æði misjafn og sem skáld er hann fremur rómantískur og gamaldags. Ítarlegustu útlistun á skáldskaparhugsjónum Steindórs er að finna í heilmikilli grein sem hann birti í tímaritinu Jörð skömmu áður en hann lést og er skrifuð af þeirri yfirþyrmandi skrúðmælgi sem hann átti til. Þar hæddist hann að nýju módernísku skáldunum en hampaði hinu háttbundna íslenska ljóðformi sem hann taldi að væri „hugbundin og brjóstvígð helgilist, skjaldborg þjóðlegs metnaðar og andlegs sjálfstæðis – og einstaklingnum oft og tíðum hans eina vopn og vígi gegn innri og ytri kúgun“.[6] Skáldskapurinn var Steindóri sjálfum augljóslega mikilvægt vopn og vígi í lífsbaráttunni. Kolbrún Bergþórsdóttir hefur hins vegar lýst grein hans í Jörð svo að þar hafi „skáld rétt í meðallagi“ ausið skömmum yfir aðra (og betri) höfunda.[7]

Í fyrrnefndri ritsmíðaskrá er tekið fram að þar séu tilgreindar þær bækur höfundarins „sem helst mætti til bókmenta telja“. Steindór útskýrir að hann hafi ekki séð ástæðu til að telja upp það „sem þörf hversdagsins skipar fyrir um sköpun á, og hverra efni eru af maganum metin og mæld til gildis, samkvæmt því hve líklegt sé til skyndisölu og þar með til varnar gegn sulti og seyru“.[8] Stór hluti þess prentmáls sem Steindór sendi frá sér um ævina voru einmitt verk sem sköpuð voru „til varnar gegn sulti og seyru“ – og eru reyndar það langáhugaverðasta í höfundarverki hans.

 

Mjólkurkýr á kreppuárum

Þegar Steindór Sigurðsson var strákur að alast upp í Skagafirði var einn staður umfram aðra mynd hans af paradís á jörð. Það var prentsmiðjan. Þótt Steindór lyki á endanum ekki prentnámi sínu var hann prentari og útgefandi af lífi og sál, ekki síður en rithöfundur, og hafði ríkt auga fyrir hinu sjónræna. Bækur sínar gaf hann gjarnan út sjálfur og þótt efnin hafi ekki verið mikil eru sumar kápurnar mjög fallegar. Í erindi sem Rannver H. Hannesson og Unnar Örn héldu um bókverk í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni haustið 2018 sýndu þeir til dæmis tvær bækur eftir Steindór, Rökkurljóð frá 1922 og Eg elska þig frá 1947.[9] Sumar síðari bóka Steindórs innihalda teikningar eftir hann og einn af ástandsbæklingunum er meira að segja skreyttur dúkristum sem hann hefur örugglega gert sjálfur.

Eg elska þig

Eg elska þig eftir Steindór Sigurðsson

Rökkurljóð

Rökkurljóð eftir Steindór Siguðrsson

Steindór hóf að gefa út eigin blöð og tímarit um sama leyti og hann byrjaði að yrkja og það væri of langt mál að telja upp allan þann fjölda titla sem hann gaf út um ævina: Sumarliljan, Neistar, Vikan, Hádegisblaðið, Alþýðumagasínið, Austurstræti… Strax í æsku dundaði hann sér við að setja saman dagblöð úr gömlum stílabókum, „strikaði sundur í dálka, skírði og skrifaði svo „blaðhaus“ fyrir“.[10] Flest blöð sem Steindór gaf út lognuðust út af eftir fáein hefti, að hans eigin sögn fyrir skort á „Pe-vítamíni“, það er peningum. Blaðamennskuhugmyndum sínum lýsir hann í frásögn af dagblaði sem hann ritstýrði í Reykjavík haustið 1928 og hét Klukkan 12:

Kom það út um hádegið samkvæmt því. Rann út eins og volgt brauð. – Stórar fyrirsagnir yfir fréttum og yfirhöfuð eitthvað ofurlítið í líkingu við það, sem maður kallar: „Journalistiskt umbrot“, eftir því sem föng stóðu til. – Þar af leiðandi þótti það vitanlega ekki „fínt“ í þann tíð. – Og fékk hiklaust nafnið sorpblað, – þar sem siðvenjan í íslenskri blaðamensku um þær mundir krafðist þess, að það litla, sem viðeigandi þótti að birta af innlendum fréttum, sem var harla fátt, nema dánarfregnir og hreppsfundagerðir o.s.frv., þá skyldi það þjappast saman í petitklausur í einn dálk eða svo, helst á sem minst áberandi stað í blaðinu með einni andríkri yfirskrift yfir öllu klabbinu. Til dæmis „Fréttir“, „Úr borg og byggð“, „Innlend tíðindi“ eða annað álíka girnilegt heiti til „skemtunar og fróðleiks“. – Allar gleiðletraðar og áberandi fyrirsagnir um „innlend tíðindi“ hétu einu nafni „sorpblaðamenska“, og að ég ekki tali um, ef minst var á í blaði nokkuð, sem tilheyrði undir sakamál, – lög- eða réttarbrot. – Slíkt alt skyldi þá ætíð vendilega hulið undir yfirbreiðslu einfeldnislegrar skinhelgi og ímynduðum virðuleik daglegs hátternis í orði og æði.[11]

Fréttaflutningur Klukkan 12 byggði oft fremur á æsilegum getgátum en áþreifanlegum heimildum og það er auðvelt að sjá Steindór fyrir sér á þönum um bæinn að snapa efni í blaðið fram á rauðar nætur, líkt og hann lýsir í æviminningum sínum. Áhersla var lögð á fréttir af sakamálum, svo sem þjófnuðum, leynivínsölu og manni sem hafði verið staðinn að því að fremja „svívirðilegan verknað með skepnum“.[12] Steindóri fór auðvitað fljótlega að leiðast vinnuálagið og vanþakklætið og gafst upp á blaðinu eftir tvær vikur.

Klukkan 12

Umfjöllun um Dularfullu flugvélina í blaði Steindórs, Klukkan 12.

Útgáfa Klukkan 12 átti þó eftir að hafa frekari áhrif á líf hans. Meðan hann ritstýrði blaðinu hóf Steindór að skrifa framhaldssögu sem hann birti neðanmáls og kallaði „Leyndardóma Reykjavíkur“. Nokkrum árum síðar auglýsti Ásgeir Guðmundsson prentari og bókaútgefandi eftir frumsaminni reykvískri skemmtisögu til útgáfu og Steindór tók sig þá til og lauk við neðanmálssöguna úr Klukkan 12 á einni viku. Hún kom út sumarið 1932 undir titlinum Sonur hefndarinnar en höfundurinn kallaði sig Valentínus. Síðar sama ár skrifaði Steindór annað bindi af „Leyndardómum Reykjavíkur“, Dularfulla flugvélin. Þessar bækur hafa verið taldar með fyrstu íslensku glæpasögunum, þótt spennusögur sé ef til vill nákvæmari skilgreining. Með útgáfu þeirra hófst blómlegur ferill Steindórs Sigurðssonar sem höfundar ýmiss konar æsilegra smábóka og afþreyingarsagna en slík útgáfa fór vaxandi í Reykjavík á þessum tíma. Bæklingaútgáfan segir Steindór að hafi orðið sér „sú mjólkurkýr, sem á stundum gaf af sér jafnvel ævintýralegar tekjur í samanburði við lausalaun af ritstörfum“ og verið eina tekjulindin sem honum stóð opin á þessum kreppuárum.[13]

Starfið hentaði pennafærum drykkjumanni vel; þetta voru stutt rit með léttum texta, skrifuð hratt og seldust hratt. Þegar bæklingarnir komu úr prentun var auglýst eftir strákum til að selja þá á götum úti. Í júnílok 1936 voru sölustrákar til dæmis hvattir til að mæta í Víkingsprent morguninn eftir og sækja eintök af hinni splunkunýju Háborg íslenskrar menningar eftir Steindór Sigurðsson: „Má óhætt búast við mikilli sölu.“[14] Bókin var byggð á vinsælum fyrirlestri þar sem Steindór bar saman Reykjavíkurlífið árið 1936 og bæjarlífið eins og Gestur Pálsson lýsti því árið 1888. Í þetta rit hafa oft verið sóttar litríkar lýsingar á Reykjavík millistríðsáranna þar sem Steindór hlífir samborgurum sínum hvergi.

 

Bak við glitofin tjöld skinhelginnar

Það er ekki hlaupið að því að meta umfang afþreyingarritanna sem eftir Steindór Sigurðsson liggja. Flest þeirra skrifaði hann undir dulnefni og fæst þeirra eru talin upp í ritsmíðaskránni í æviminningum hans. Bæklingaútgáfan var ekki hluti af hinum viðurkennda bókmenntaheimi og höfundar þeirra komu síður fram undir nafni. Velflestir fyrstu íslensku glæpasagnahöfundarnir skrifuðu til dæmis undir dulnefni. Steindór skrifaði „Leyndardóma Reykjavíkur“ sem Valentínus og ástandsbæklingana sem S.S. Tvo bæklinga með ástarsögum í djarfari kantinum, Frúin eða vinnukonan? og Í kvennahöndum, skrifaði hann undir nafninu Reykvíkingur. Þessar bækur eru skráðar í gagnagrunni bókasafna sem höfundarverk Steindórs en í öðrum tilvikum verður að geta í eyðurnar. Eftir miðnætti á Hótel Borg frá 1933, æsileg frásögn sveitastúlku af hraðri leið hennar í sollinn, hefur til dæmis verið talin verk Steindórs og allt bendir til þess; hún er prentuð af Ásgeiri Guðmundssyni samstarfsmanni hans og ný saga eftir hinn nafnlausa höfund bókarinnar er síðar auglýst í blaði sem Steindór gaf út. Steindór hefur líka verið bendlaður við pólitíska bæklinga eftir „Arnór Liljan Krossness“, sem skrifaði meðal annars um sambúðina við setuliðið á stríðsárunum.[15] Honum hafa stundum verið eignaðar bækur Davíðs Draumland en Bragi Kristjónsson heldur því fram að það sé ekki rétt – þótt hann telji Steindór þann höfund Íslandssögunnar sem hafi gefið út hvað flesta titla.[16] Steindór skrifar sjálfur í formálanum að Háborg íslenskrar menningar að fólk hafi haft tilhneigingu til að eigna honum alla óskilagemsa af þessu tagi.

Eftir miðnætti á Hótel Borg

Eftir miðnætti á Hótel Borg eftir Steindór Sigurðsson.

Ástandsbæklingarnir eru ágætt dæmi um hversu erfitt getur verið að henda reiður á þessari útgáfu. Bæklingarnir þrír sem áður voru nefndir, Setuliðið og kvenfólkið, Meira um setuliðið og kvenfólkið og Íslenzka konan og aðkomumennirnir (einnig skráður sem Kvenfólkið og setuliðið III og Sögur úr ástandinu), eru bundnir saman í eina kápu á Íslandssafni Landsbókasafns. Þeir eru allir skrifaðir undir dulnefninu S.S. og skráðir á safninu sem höfundarverk Steindórs Sigurðssonar. Steindór telur Setuliðið og kvenfólkið frá 1940 upp í ritsmíðaskránni í æviminningum sínum en neðanmáls bætir hann við að pésinn „Kvenfólkið og setuliðið II“ sé honum óviðkomandi. Innan á kápu bæklinganna þriggja á Landsbókasafni er handskrifuð athugasemd: „Steindór sagðist ekki hafa skrifað (einn?) seinasta heftið af þessum“ – og virðist þar átt við þriðja bindið, Íslenzka konan og aðkomumennirnir. Til að flækja málið enn frekar er annar bæklingur í Íslandssafni með nafninu Setuliðið og kvenfólkið. Hvernig er ástandið í Reykjavík, gefinn út undir dulnefninu Árvakur árið 1940, og kápumynd hans er sú sama og á samnefndum bæklingi eftir S.S. frá sama ári.

Þetta er auðvitað svo ruglingslegt að það hálfa væri nóg. Hvaða bæklingur eða bæklingar voru það sem Steindór vildi ekki kannast við og af hverju? Átti hann sér meðhöfund að einhverjum þeirra? Af hverju hefði einhver annar skrifað svipaða bæklinga undir sama dulnefni? Íslenzka konan og aðkomumennirnir sker sig sumpart úr hinum bæklingunum eftir S.S., textinn er skrifaður í fyrstu persónu og ekki í sama uppskrúfaða Steindórslega stíl og hinir tveir, og í honum er vísað til Þingholtsstrætis í Reykjavík sem bernskuslóða hins nafnlausa höfundar (þótt það þurfi auðvitað ekki að vera rétt). Hvað sem því líður er líklegt að Steindór hafi skrifað að minnsta kosti Setuliðið og kvenfólkið og Meira um setuliðið og kvenfólkið.

Í upphafi Háborgar íslenskrar menningar lýsir Steindór því að út komi sífellt fleiri bæklingar og blöð sem bregði upp myndum af því „sem dylja átti bak við glitofin tjöld skinhelginnar“.[17] „Skinhelgi“ var mikið uppáhaldsorð Steindórs Sigurðssonar. Það má segja að rauði þráðurinn í afþreyingarritum hans sé viðleitni við að fletta ofan af hroðanum sem leynist undir yfirborði hins borgaralega lífs. Áberandi stef eru misskipting gæfunnar og bitur örlög smælingjanna, stundum í bland við sveitarómantík. Það er engin sótthreinsuð nostalgíumynd af Reykjavík millistríðsáranna sem birtist í bókum á borð við Eftir miðnætti á Hótel Borg og Sonur hefndarinnar. Í þeirri síðarnefndu vaða hrottafengnir glæpamenn uppi en hreinlynt og hjartagott fólk lifir í fátækt og niðurlægingu og neyðist til að leita í áfengi, fjárhættuspil og vændi. Spillingin teygir sig á æðstu staði, leynivínsalar eru á hverju strái og ólögleg spilavíti eru rekin í bakhúsum við Laugaveg. Hetja bókarinnar er hraustmennið Víglundur Dalmann en aðrar persónur ganga undir viðurnefnum á borð við „Rottuauga“ og „Ránfuglinn“.

Almennt er talið að „gul pressa“ hafi haldið innreið sína á Íslandi með stofnun Mánudagsblaðsins árið 1948. Á áratugunum eftir miðja 20. öld fór líka vaxandi útgáfa sjoppurita, ódýrra afþreyingarrita sem oft byggðu á æsilegri framsetningu ástalífs og glæpa. Þessi æsilegu blöð og bækur eiga sér þó ákveðna fyrirrennara í þeim afþreyingarritum sem gefin voru út á millistríðsárunum, þar á meðal verkum Steindórs Sigurðssonar. Efnistök dagblaða eins og Klukkan 12 minna oft á stíl Mánudagsblaðsins og ýmis umfjöllunarefni í bæklingum Steindórs, til dæmis makaskiptaævintýrið í Frúin eða vinnukonan?, kallast á við áherslur æsiritanna sem seld voru í sjoppum eftir miðja öldina. Að sama skapi eru ástandsbæklingar Steindórs ekki aðeins heimild um kvenfyrirlitningu og þjóðernishyggju í umræðunni um íslenskar konur á tímum erlendrar hersetu heldur framhald af útgáfu á ódýrum, æsilegum sögum úr Reykjavíkurlífinu sem miðaði ekki síst að því að tryggja afkomu höfundarins.

Hádegisblaðið

Hádegisblaðið

Æsiblöð og æsibókmenntir innihalda eðli málsins samkvæmt ekki raunsæjar frásagnir úr þjóðlífinu en geta samt sem áður verið afar áhugaverðar sögulegar heimildir. Í þeim birtist gjarnan umræða og sögur sem þóttu fyrir neðan virðingu „vandaðri“ miðla og þannig geta þau veitt innsýn í menningarkima sem sjást síður í öðrum heimildum. Sú innsýn er auðvitað ekki hlutlaus heldur einmitt æsileg og því er nauðsynlegt að líta á æsibókmenntirnar sem virkan miðil, þar sem ákveðnar hugmyndir og ímyndir eru settar fram og þeim viðhaldið.[18] Þannig hefur Þorsteinn Vilhjálmsson nýlega nýtt götublöð millistríðsáranna – þar á meðal Hádegisblaðið, sem Steindór Sigurðsson tók þátt í að ritstýra á síðari hluta starfstíma þess árið 1933 – til þess að skoða hugmyndir um ógnir frjálsrar kynhegðunar kvenna í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar og hvernig þær bergmáluðu síðan í ástandsumræðunni eftir 1940.[19] Að sama skapi hefur Ásta Kristín Benediktsdóttir notað Mánudagsblaðið til þess að skoða orðræðu um samkynhneigða karlmenn í Reykjavík á sjötta áratugnum.[20]

Þess má geta að ástandsmálin koma einnig við sögu í þeirri smásögu Steindórs sem hlaut bestar viðtökur á sviði viðurkenndari fagurbókmennta, „Laun dyggðarinnar“ úr Meðal manna og dýra frá 1943. Þótt stíll og framsetning smásögunnar sé allt önnur en í ástandsbæklingum Steindórs er kvenímyndin sem þar birtist í sjálfu sér ekki svo frábrugðin; aðalkvenpersóna sögunnar elst upp sem saklaus sveitastúlka en eftir að hún hefur kynnst bæjarlífinu í Reykjavík svíkur hún föður sinn, hundinn sinn, ástina og ættjörðina fyrir ruddalegan enskumælandi hermann. Það væri rannsóknarefni út af fyrir sig að skoða hvernig þessi kvenímynd birtist í æsilegri ritum annars vegar og hefðbundnari bókmenntafrásögn hins vegar.

 

Ostur, kæfa, mjólk, smjörlíki, sardínur, pylsa, palmínfeiti

Steindór Sigurðsson þekkti lífið á jaðri hins borgaralega samfélags af eigin raun. Hann átti sjaldan fastan samastað lengi í einu, gisti hjá vinum og kunningjum eða dvaldi á gistiheimilum þar sem hann lét stundum undir höfuð leggjast að borga fyrir sig. Veturinn 1920–1921 svaf hann til dæmis í skáp undir stiganum á Hótel Skjaldbreið í Kirkjustræti (þar sem reksturinn var í uppnámi af því að eigandinn var í steininum) og gekk með pappaplötur og tóma sígarettupakka í skónum „meðan götin á sólunum voru ekki alveg komin út í yfirleðrið beggja megin“.[21] Á aðfangadagskvöld 1923 skreið hann leynilega leið milli þils og veggjar út úr þakherbergi sínu til að forðast leigusalann sem sat um hann vegna ógreiddrar húsaleigu og hélt svo upp á jólin með Kristmanni Guðmundssyni, vini sínum og rithöfundi, í herbergi Kristmanns. Fátæku skáldin tvö hituðu kakó í skaftpotti, borðuðu vínarbrauð og lásu kvæði hvor fyrir annan. Seinna, á árunum kringum 1940, var Steindór meðal þeirra sem Theodór Friðriksson rithöfundur kallaði „bekkjarbræður“ því hann fékk stundum að sofa á legubekk í herbergi Theodórs þegar hann átti hvergi höfði sínu að halla. (Bekkinn prýddi köflótt teppi sem var gjöf frá Halldóri Laxness.) Theodór og Steindór höfðu kynnst á Herkastalanum mörgum árum fyrr þegar Steindór var ungur maður, „einhleypur en allslaus, berfættur í lélegum skóm og söng gamanvísur á dönsku.“[22]

Að sumu leyti er frásögn Steindórs Sigurðssonar í Eitt og annað um menn og kynni ótrúlega nákvæm. Hann rekur flakk sitt milli staða og kynni sín af fjölda manns mánuð fyrir mánuð, ár fyrir ár. Guðmundur Andri Thorsson bendir á að annaðhvort hafi Steindór verið stálminnugur eða haldið dagbók sem hann gat stuðst við þegar hann skrifaði æviminningarnar. Bókin er þó þeim óheppilega eiginleika gædd að um suma af athyglisverðustu köflunum í eigin ævi skrifar Steindór aðeins fáeinar óræðar línur. Hann lýsti bókinni sjálfur sem „atburðaskrá“, „annálsbrotum“, en síðar hugðist hann skrifa ítarlegri ævisöguþætti um einstök tímabil. Það gerði hann auðvitað aldrei og þess vegna vitum við oft minnst um það sem forvitnilegast er.

Stundum má fylla í gloppurnar með öðrum heimildum.[23] Það á við um óvænta aðild Steindórs og Kristmanns Guðmundssonar að merku máli í íslenskri réttarsögu. Steindór og Kristmann umgengust mikið veturinn 1923–1924 en í febrúar fór Steindór til Kaupmannahafnar og nokkru síðar sigldi Kristmann til Noregs, þar sem hann átti eftir að búa árum saman. Steindór lýsir aðdraganda þess sem hann kallar landflótta sinn svo:

Drykkja mikil og margvísleg áföll leynd og ljós. – Óhugnanlegt málavafstur. Gæsluvarðhald eitt sinn í tvo til þrjá sólarhringa í því sambandi. Taugakerfið í háspennu. Aðsækjandi mannfyrirlitning. Kyntist andstygð botndreggjanna undir gljáa yfirborðsins í hinu borgaralega lífi. … Sá tími og þessi vetrarpartur allur er einn sá þáttur úr ævisögu minni, sem ég lengi hefi haft í hyggju og hefi enn að gera nokkuð ýtarleg skil, fyr en yfir lýkur.[24]

Af því varð aldrei. Ákveðinn bakgrunn að þessari torræðu frásögn má hins vegar finna í nýlegri grein Þorvaldar Kristinssonar um málaferlin gegn Guðmundi Sigurjónssyni glímukappa og bindindisfrömuði. Greinin heitir „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli“ og vísar til þess að Guðmundur varð í mars 1924 fyrstur og líklega síðastur Íslendinga til að vera dæmdur fyrir „samræði gegn náttúrlegu eðli“ í máli sem snerist um kynlíf fullveðja karla.[25] Guðmundur Sigurjónsson var þekktur íþróttamaður á sinni tíð en á þessum árum vínbannsins starfaði hann fyrir góðtemplarahreyfinguna og var málið gegn honum sprottið undan rifjum óvildarmanna sem hann hafði aflað sér með kappsamlegum afhjúpunum sínum á bruggurum og leynivínsölum.

Guðmundur Sigurjónsson

Guðmundur Sigurjónsson glímukappi.

Lögreglurannsókn hófst í byrjun febrúar 1924 í kjölfar kærubréfs þar sem Guðmundur var sakaður annars vegar um „hómósexúalisma“ en hins vegar um illa meðferð á sjúklingum á Litla-Kleppi, útibúi frá Kleppsspítala á Laufásvegi, þar sem hann var gæslumaður. Maðurinn sem sendi fyrrnefnt kærubréf til yfirvalda var Steindór Sigurðsson, titlaður prentari. Innan við tveimur vikum síðar barst hins vegar annað bréf frá Steindóri þar sem hann dró kæruna til baka og sagði hana innistæðulausa. Fimm menn hefðu nýtt sér það að hann var í æstu skapi gegn Guðmundi og boðið honum fé fyrir að kæra hann, í hefndarskyni fyrir aðgerðir hans í bindindismálunum. Einn þessara manna var Kristmann Guðmundsson. Hinir voru, samkvæmt bæjarfógeta Reykjavíkur, fjórir verstu sprúttsalar bæjarins. Bæjarfógeti hafði engan áhuga á að hefja rannsókn í málinu. Hann vildi helst að það yrði látið niður falla og ákærði færi af landi brott, til að sem minnstur blettur félli á góðtemplarahreyfinguna. Honum varð ekki að ósk sinni því þegar Steindór sendi iðrunarbréf sitt til yfirvalda var lögreglurannsókn þegar hafin í málinu. Í kjölfar gæsluvarðhalds og einangrunarvistar játaði Guðmundur Sigurjónsson að hafa stundað kynlíf með öðrum körlum og var dæmdur í átta mánaða fangelsi (en náðaður skömmu síðar fyrir tilmæli landlæknis). Ekki þótti hins vegar sannað að hann hefði beitt sjúklingana á Litla-Kleppi harðræði.

Það hefði sannarlega verið fengur að ítarlegri frásögn Steindórs Sigurðssonar af aðild sinni að málinu gegn Guðmundi, sem er einstakt bæði í íslenskri réttarsögu og íslenskri hinsegin sögu. Kristmann Guðmundsson er fáorður um það í ævisögu sinni en segist hafa „neyðzt til að bera vitni gegn manni, er ég þekkti lítils háttar, í leiðindamáli. Að vísu sagði ég það, er ég sannast vissi, en það var dálítið ljótt.“[26] Með því að fletta lögregluþingbókum Reykjavíkur frá þessum tíma má þó fá örlítið fyllri mynd af því hvernig Steindór og Kristmann flæktust í hefndaraðgerðir sprúttsalanna.

Þegar Steindór Sigurðsson skrifaði kærubréf sitt gegn Guðmundi Sigurjónssyni var mál gegn honum sjálfum til meðferðar í lögreglurétti Reykjavíkur. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Steindór komst í kast við lögin; árið 1921 hafði hann verið dæmdur fyrir að selja í leyfisleysi ýmsa muni úr fyrrnefndri skápkompu sem hann gisti í á Hótel Skjaldbreið, svo sem borðdúk og rúllugardínu, en einnig hafði hann tekið þar ófrjálsri hendi stígvél til eigin afnota (enda illa skóaður, eins og áður greinir).[27] Steindór var svo aftur sakaður um þjófnað í lok janúar 1924. Hann játaði að hafa farið inn í kjallarann á Litla-Kleppi við Laufásveg að næturlagi og stolið þaðan kílói af osti, kílói af kæfu, einu og hálfu kílói af niðurskorinni pylsu, sex mjólkurdósum, kílói af palmínfeiti, þremur og hálfu kílói af Smárasmjörlíki og þremur sardínudósum. Guðmundur Sigurjónsson, gæslumaður á Litla-Kleppi, vitnaði gegn Steindóri í málinu. Guðmundur hélt því fram að hann hefði stolið alls tuttugu mjólkurdósum og fjórum hnífapörum að auki og hann hlyti að hafa átt sér vitorðsmann, þar sem hann væri of kjarklaus til að standa í slíku einn. Steindór harðneitaði hvoru tveggja. Þeir deildu einnig um prentvél sem Guðmundur virðist hafa lánað Steindóri og hann selt í leyfisleysi.[28]

Litlakaffi

Litlakaffi

Þjófnaðarmálið gegn Steindóri var tekið fyrir í lögreglurétti Reykjavíkur fimmtudaginn 31. janúar 1924. Kærubréf hans gegn Guðmundi Sigurjónssyni fyrir hómósexúalisma og illa meðferð á sjúklingum er dagsett sama dag. Þar er því komin skýringin á því hvers vegna Steindór var „í æstu skapi og hefndarhug gegn Guðmundi“.[29] Sá grunur læðist að manni að hann hafi dottið í það eftir málsmeðferðina og hitt við það tækifæri mennina sem hann sagði síðar að hefðu eggjað hann til að senda kærubréfið, Kristmann og sprúttsalana fjóra. Það var ekki langt að fara úr lögregluréttinum í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg því Kristmann og Steindór voru fastagestir á Litla kaffihúsinu neðst í Bergstaðastræti, einn umræddra sprúttsala bjó á efri hæðinni í sama húsi en annar ofar í götunni.[30] Hvað andúð Kristmanns á Guðmundi varðar gæti hún hafa tengst bindindismálum. Kristmann og Guðmundur tókust aftur á fyrir lögreglurétti Reykjavíkur í apríl 1924 þar sem Guðmundur sakaði Kristmann um að hafa stolið sæng og fleiru frá Litla-Kleppi en það varð ekki sannað. Í skjölum þess máls kemur fram að þeir hafi áður verið saman í stúku en Guðmundur hafi kært Kristmann fyrir bindindisbrot og hann verið rekinn úr stúkunni.[31]

Ég hef tekið sögu Steindórs Sigurðssonar sem dæmi um það hve flókið getur verið að draga línuna milli róttækni og íhaldssemi í sögulegri umfjöllun um siðferðismál, milli þeirra sem vörðu ríkjandi siðgæði og þeirra sem ögruðu því.[32] Ástandsbæklinganna hefur verið minnst sem harðorðra siðapredikana yfir íslenskum konum en þegar þeir eru settir í samhengi við fyrri verk Steindórs er ljóst að þeir eru ekki síður æsirit þar sem samblandi af fordæmingu og afhjúpun er beitt til að vekja forvitni og spennu. Málaferlin gegn Guðmundi Sigurjónssyni eru annað dæmi. Guðmundur var fyrirmyndarborgari, afreksmaður í íslenskri glímu, háttsettur í góðtemplarahreyfingunni og samstarfsmaður yfirvalda við að framfylgja lögum sem áttu að styrkja heilbrigði og siðferði þjóðarinnar. Andstæðingar hans voru afbrotamenn, þjófar, drykkjumenn og leynivínsalar sem áttu í sífelldum útistöðum við lögregluna. Með því að draga hneigð Guðmundar til annarra karla fram í dagsljósið tókst þeim hins vegar til að snúa stöðunni við og fá hann sjálfan dæmdan fyrir siðferðisbrot.

 

Að baki mér brunnu skipin

Steindór eyddi síðustu æviárum sínum í Eyjafirði. Hann kom töluverðu í verk þrátt fyrir erfið veikindi, þýddi og gaf út bækur, hélt upplestra og fyrirlestra. Sjúklingarnir á Kristneshæli stofnuðu blað sem Steindór ritstýrði, Helsingjar, en það kom aðeins út tvisvar. Síðan sinnaðist Steindóri við samsjúklinga sína – hann var að því er virðist sakaður um að eyða fé útgáfunnar á drykkjutúr í Reykjavík – en gaf þá út eitt hefti af af eigin blaði: Einn helsingi.[33] Titillinn kallast á við einkunnarorðin sem Steindór valdi æviminningum sínum: „Ég hefi átt samleið með mörgum, en aðeins örfáir áttu samleið með mér.“ Hann er raunsær og hreinskilinn um veikleika sína í bókinni. Um viðskipti sín við Bakkus skrifar hann „að mér sem öðrum, sem liðs hans hafa orðið að leita til að lina sínar ytri eða innri þrautir, – reyndist það svo, að hann vildi hafa nokkuð fyrir sinn snúð.“[34]

Steindór lést á Akureyri 21. janúar 1949. Andláts hans var getið í blöðum og fáeinir vinir minntust hans opinberlega, þá og síðar.[35] Guðmundur Frímann og Kristján frá Djúpalæk ortu eftir hann ljóð.[36] Fáir drógu fjöður yfir að hann hefði verið gallagripur. Heimildum ber þó saman um að hann hafi verið greindur og fróður, góður upplesari og fyrirlesari. Benedikt frá Auðnum ku hafa lýst honum sem „bráðgáfuðum bölvuðum asna“.[37] Alþýðublaðið kallaði hann „gáfaðan öreiga“.[38] Björn Th. Björnsson nefnir Steindór „tígulgosa kastaladrykkjunnar“ í skrifum sínum um skáldhneigðar fyllibyttur í Reykjavík kreppuáranna en þá segir Björn að miðbærinn hafi verið „svo fullur af auðnuleysingjum að það komust varla aðrir fyrir“.[39] Sigurður Haralz skrifar um misgæfuleg útgerðarævintýri sín með Steindóri í Grímsey á fjórða áratugnum en tekur fram að hann hafi verið góður sjómaður og miðaglöggur.[40] Vinir hans minntust eirðarleysis hans og iðandi ókyrrðar, ofvirks hugmyndaflugs og lífsþorsta.

Theodór Friðriksson skrifar hlýlega um þennan „bekkjarbróður“ sinn í endurminningum sínum en lýsir því sem Steindór kallaði „hringekju sjálfseyðingarinnar“, loftköstulunum sem hann byggði þegar vel áraði og hinum sáru iðrunarköstum þegar allt fór út um þúfur. Þessi eilífa hringrás birtist ágætlega í sögunni af því þegar hann gaf Theodóri eintak af bók sinni Söngvar og kvæði „af vinsemd sinni og fyrir það skjólshús, sem ég hafði skotið yfir hann. En litlu seinna þurfti hann að fá bókina lánaða hjá mér, og hef ég ekki séð hana síðan.“[41] Theodór lýkur kaflanum með tregafullri vísu eftir Steindór sjálfan:

 

Að baki mér brunnu skipin.
Bálið við himin lék.
Við hrundar draumahallir
ég hljóður ofan tek.[42]

 

Tilvísanir

[1] S.S., Meira um setuliðið og kvenfólkið (Reykjavík 1941), bls. 17.

[2] Þó er rétt að benda á BA-ritgerð Kristjönu Knudsen í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2004, „Við lifum eitt sumar. Um Steindór Sigurðsson og verk hans“. Steindór kemur lítillega við sögu í bók minni Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem kom út 2018. Í desember sama ár hélt ég erindi um Steindór í afmælisfyrirlestraröð Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og á því er þessi grein byggð.

[3] Í æviminningum sínum segist Steindór hafa kynnst Helgu fyrst sumarið 1929 og nefnir aðeins son þeirra sem þau eignuðust ári síðar en Steindór var einnig faðir stúlku sem Helga hafði eignast árið 1925, átján ára gömul. Sjá Knudsensætt. Niðjatal Lauritz Michaels Knudsens kaupmanns í Reykjavík og konu hans Margrethe Andreu, f. Hölter I. Marta Valgerður Jónsdóttir, Þorsteinn Jónsson og Þóra Ása Guðjohnsen tóku saman (Reykjavík: Sögusteinn 1986), bls. 272–274.

[4] Guðmundur Frímann, Samt er gaman að hafa… (Akureyri: Skjaldborg 1975), bls. 56–57.

[5] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni. Annálsbrot einnar mannsævi (Akureyri: Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar 1948), bls. 69.

[6] Steindór Sigurðsson, „Þrír kapítular í tólf versum um ljóðskáld og ljóðagerð“. Jörð 9 (1948), bls. 48–87, sjá bls. 58.

[7] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Bjartir blossavitar og öslandi skáldfífl“, Pressan 21. apríl 1993, bls. 24.

[8] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni, bls. 190–191.

[9] Fyrirlesturinn er aðgengilegur á Youtube-rás Landsbókasafnsins, sem og erindið sem þessi grein er byggð á.

[10] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni, bls. 22.

[11] Sama heimild, bls. 73. Þetta var reglan í íslenskri blaðamennsku, skrifar Steindór, og dauðasök að brjóta hana, allt þar til Finnbogi Rútur Valdimarsson innleiddi nýjar hefðir þegar hann tók við ritstjórn Alþýðublaðsins 1934. Sjá einnig Guðjón Friðriksson, Nýjustu fréttir! Saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga (Reykjavík: Iðunn 2000), bls. 161–167.

[12] „Fábjáni eða dýr?“, Klukkan 12 27. september 1928, bls. 1.

[13] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni, bls. 149.

[14] „Steindór Sigurðsson: „Háborg íslenskrar menningar““, Vísir 25. júní 1936, bls. 1.

[15] Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, „Ástand fyrri alda bjargaði íslensku þjóðinni“, Morgunblaðið 12. desember 2007, bls. 10.

[16] Skapti Hallgrímsson, „Nauðsynleg og bráðskemmtileg afþreying“, Morgunblaðið 2. október 2005, bls. 10–11.

[17] Steindór Sigurðsson, Háborg íslenskrar menningar. Lífið í Reykjavík 1936 (Reykjavík 1935 [1936]), bls. 2.

[18] Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Reykjavík: Sögufélag 2018), sjá einkum bls. 102, 107–118, 129–136 og 155–194.

[19] Þorsteinn Vilhjálmsson, „Kaupstaðasótt og freyjufár. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjúkdóma í Reykjavík 1886–1940“, Saga LVII:2 (2019), bls. 83–116, sjá bls. 107–115.

[20] Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga“. Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 2017), bls. 147–183.

[21] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni, bls. 45.

[22] Theodór Friðriksson, Bekkjarbræður (Reykjavík 1944), bls. 117. Kaflinn um Steindór Sigurðsson var annar tveggja kafla sem felldir voru úr bók Theodórs Ofan jarðar og neðan þegar hún kom út hjá Víkingsútgáfunni árið 1944. Hinn kaflinn fjallar um Stein Steinarr og mun það einkum hafa verið vegna hans sem þessir kaflar voru fjarlægðir, þar sem Steini þótti að sér vegið í frásögn Theodórs. Kaflarnir voru hins vegar „prentaðir sem handrit“ í níu eintökum undir titlinum Bekkjarbræður og er það rit aðgengilegt á Íslandssafni Landsbókasafns. Sjá: Kolbrún Bergþórsdóttir, „Óbirtar drykkju- og kvennafarssögur af skáldum“, Pressan 15. apríl 1993, bls. 16–17.

[23] Sjá t.d. um hina „tragikómísku leynilögreglusögu“ sem Steindór átti aðild að í Osló vorið 1931 en útskýrir ekki nánar: „Bestjålet, men barmhjertig forfatter“, Dagbladet 28. apríl 1931, bls. 9.

[24] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni, bls. 59–60.

[25] Þorvaldur Kristinsson, „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli. Réttvísin gegn Guðmundi Sigurjónssyni 1924“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin saga og hinsegin sagnfræði á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 2017), bls. 107–145.

[26] Kristmann Guðmundsson, Ísold hin svarta. Saga skálds (Reykjavík: Bókfellsútgáfan 1959), bls. 347.

[27] ÞÍ. (Þjóðskjalasafn Íslands) Borgarfógetinn í Reykjavík. GA5/12. Lögregluþingbók 1918–1924, bls. 307–318 og 330–332.

[28] ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík. GA5/15. Lögregluþingbók 1923–1926, bls. 18–22.

[29] Þorvaldur Kristinsson, „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli“, bls. 118.

[30] Hannes Kristinsson, „Gaman og alvara í gráum leik“, í Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Við sem byggðum þessa borg II. Endurminningar átta Reykvíkinga (Reykjavík: Setberg 1957), bls. 200–245, sjá bls. 238–241. Kristmann skrifaði síðar smásöguna „Litlakaffi“ sem birtist sem framhaldssaga í Samvinnunni veturinn 1958–1959. Þar kemur við sögu brennivínssalinn Jónmundur sem býr á efri hæð kaffihússins og er greinilega byggður á Gesti Guðmundssyni. Hinn sprúttsalinn í Bergstaðastræti var hinn þekkti leynivínsali og okurlánari Sigurður Berndsen.

[31] ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík. GA5/16. Lögregluþingbók 1924–1926, bls. 36–40, 67–68 og 71–73; Kristmann Guðmundsson, Ísold hin svarta, bls. 345–349.

[32] Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins, bls. 277–278.

[33] Einn helsingi 1:1 (1946), Steindór Sigurðsson, Opið bréf og ákall til íslensku þjóðarinnar frá einum helsingja á örlagastund (Kristnes 1944) og Steindór Sigurðsson, Orðsending til þeirra sem hafa nú þegar lesið „Opið bréf“ – ákall mitt til íslensku þjóðarinnar (Kristnes 1944).

[34] Steindór Sigurðsson, Eitt og annað um menn og kynni, bls. 144.

[35] Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, „Steindór Sigurðsson rithöfundur“, Alþýðublaðið 1. febrúar 1949, bls. 7, og Kristmann Guðmundsson, „Skáldið í skýjunum“, Morgunblaðið 23. desember 1956, bls. 54 og 66. Sjá einnig Kristmann Guðmundsson, „Bækur“, Morgunblaðið 14. nóvember 1948, bls. 6, og Valdimar Hólm Hallstað, „„Þú saknar einskis.““, Þjóðviljinn 23. nóvember 1948, bls. 5.

[36] Kristján frá Djúpalæk, „Í minningu skálds“, Verkamaðurinn 4. febrúar 1949, bls. 3, og Guðmundur Frímann, „Í fylgd með farandskáldi“, Dagur 16. febrúar 1949, bls. 6.

[37] Arnór Sigurjónsson, „Ágrip af ævisögu“, Stígandi 6:1 (1949), bls. 70.

[38] „Ný ljóðabók“, Alþýðublaðið 24. desember 1930, bls. 7.

[39] Björn Th. Björnsson, „„Hér er náttúrlega mjög mikill kultur“. Kringum Vínarferð Jóns Pálssonar frá Hlíð“, Tímarit Máls og menningar 54:3 (1993), bls. 6–14, sjá bls. 8.

[40] Sigurður Haralz, Hvert er ferðinni heitið? (Reykjavík: Muninn 1959), bls. 129.

[41] Theodór Friðriksson, Bekkjarbræður, bls. 123.

[42] Sama heimild, bls. 126.