Jón Karl Helgason. Mynd af Ragnari í Smára.

Bjartur, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010.

Mynd af Ragnari í SmáraÞessi bók er einkennileg í laginu. Æviágrip Ragnars í Smára eru dregin saman og þrædd á streng sem teygir sig yfir nokkra daga í desember árið 1955. Það er þá að Ragnar flýgur til Kaupmannahafnar og síðan Stokkhólms til að verða vitni að því að Halldóri Laxness eru afhent bókmenntaverðlun Nóbels. Þetta hljóta að vera dagar mesta sigurs listunnandans og bókaútgefandans – eftirlæti hans í skáldaflokki fær þá viðurkenningu sem mest þykir um vert, Ragnar á sinn þátt í því að stórveldisdraumar lítillar þjóðar rætist, nú munar miklu um Ísland á þeim vettvangi mannlegra umsvifa sem honum er kærastur. Hann tekur líka stórt upp í sig þessa daga: í auglýsingu frá Ragnari um nýja útgáfu á Heimsljósi sem birtist um þetta leyti segir: „Mest umtalaða skáldsaga veraldar í dag …“

Bókin er ofin úr mörgum þráðum, þar koma við sögu greinar og viðtöl en þó mest bréf til Ragnars sjálfs og frá honum, ekki síst þau sem hann skrifar Ólöfu og Sigurði Nordal, þá sendiherrahjónum í Kaupmannahöfn. Stundum veit lesandinn af því að heimildirnar eru til orðnar löngu fyrir sögutímann eða nokkrum árum síðar. En oftar eru beinar eða lítt umskrifaðar tilvísanir í bréf og viðtöl teknar og notaðar í ímynduð samtöl Ragnars við þá Íslendinga sem hann hittir á leiðinni til Nóbelshátíðar: orð falla sem aldrei voru sögð við þau sem í þessari bók eru látin við þeim taka. Þessu lýsir Jón Karl Helgason sjálfur í eftirmála: „Heimildirnar … eru hér settar í allt annað samhengi en þær urðu til í og gegna jafnframt allt öðru hlutverki en upphaflega var ætlast til“ (333). Þetta púsluspil getur skilað skemmtilegum árangri en aðferðin er varasöm og fæðir af sér galla sem síðar verður vikið að. Hitt er víst, að kannski er þetta fyrsta ævisagan sem við sjáum svo gerða og um leið sú síðasta sem hægt er að skrifa einmitt á þennan hátt – því í henni náum við í skottið á þeirri öld sendibréfa sem önnur fjarskipti hafa gengið af dauðri.

Í þversögninni miðri

Mynd af Ragnari heitir bókin, hvaða mynd er það? Að mörgu leyti staðfesting á því sem við eigum von á sem lifðum þá tíma sem frá segir og munum bæði Ragnar og aðra sem við sögu koma. Hér er kominn athafnamaðurinn ofvirki sem dælir margaríni, bókum, tónlist og myndlist út í samfélagið með því kappi að allt leikur á reiðiskjálfi. Sá örlyndi geðsveiflumaður sem hefur ótrúlegan áhuga á öllu sem lifir og hrærist og lýsir sjálfum sér svo að „venjulega er ég annaðhvort himinglaður eða sárhryggur“ (19). Og ekki síst sá maður sem lifir einmitt í þversögninni miðri. Kannski vill hann vera kapítalistinn fágæti sem er skítsama um peninga – en á þó í römmu verðstríði við keppinauta sína í smjörlíkinu og vissulega er þá brögðum beitt. Kannski er hann sá ósérplægni bókaútgefandi sem vill hverju skáldi liðsinna, heldur því blákalt fram að „bókaútgáfa hefur aldrei verið „business“ á Íslandi“ (37) og lætur sér í léttu rúmi liggja þótt hann tapi á hverri bók. En um leið er hann sá harði sölumaður sem semur stóryrtustu auglýsingar sem sést hafa um ágæti íslenskra skáldverka. Kannski er hann til í að lána ungu skáldi stórfé svo hann geti keypt sér bókabúð (82), kannski reistir hann hús yfir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara eins og hendi sé veifað (55).

En hann er um leið vís til að setja upp snúð við efnilegan skjólstæðing, Elías Mar, iðrast þess að hafa skrökvað „girnilegum verðleikum“ upp á skáldsögu hans sem illa seldist (98). Kannski finnur hann alltaf á sér hvar fiskur var undir steini í list og skáldskap – „af innbornu næmi“ segir Halldór Laxness í minningargrein um Ragnar (HKL 11). En þó áttar Ragnar sig ekki á kostum skáldsögunnar Vögguvísu eftir þann sama Elías Mar og vill helst ekki gefa hana út. Sambúðin við merkishöfunda eins og Davíð Stefánsson og Gunnar Gunnarsson er oftar en ekki mjög stirð og tortryggni blandin. Þú stendur ekki við samninga! segir Davíð (208). Gunnar spyr með nokkrum þjósti: „hvað er orðið af peningunum mínum?“ (115) Þversögn á þversögn ofan, hvert sem litið er. Ragnar er tilbúinn til að taka konu sína Björgu í guðatölu (30) og hefur aldrei aðra konu elskað (126) en getur samt ekki hugsað sér „neitt fyrirlitlegra en að langa ekki að halda framhjá … þess konar nægjusemi og skortur á forvitni er ekki heilbrigð.“ (125)

Þessu er öllu vel til skila haldið. En svo kemur að þessu: hvaða svör má í bókinni finna um það, hvað það var sem rak framleiðanda smjörlíkis til meiriháttar umsvifa í þágu sannra lista? Var hann sá ósérplægni gagnheili listunnandi sem Halldór Laxness hefur lýst við ýmisleg tækifæri? Í minningargrein um Ragnar segir Halldór: „Hann skipti sér ekki af listamönnum öðruvísi en sem styrktarmaður. Honum datt aldrei í hug að gagnrýna listamenn; því síður græða á þeim“ (HKL 11). Sjálfsagt var það rétt hjá Halldóri að Ragnar hafi ekki gagnrýnt sína skjólstæðinga opinberlega – en bók Jóns Karls segir frá því að hann gerir það oft í einkabréfum, ekki síst verða þá skáldin og Halldór sjálfur fyrir barðinu á honum. Var hann uppskafningur og listasnobb eins og svarnir fjandmenn á borð við Jónas frá Hriflu töldu, sem og ýmsir íhaldssamir nytjahyggjumenn sem telja hann „svartan sauð í hjörðinni“, þ.e.a.s. í Sjálfstæðisflokknum, „fyrir „dekur“ mitt við unga listamenn“ eins og Ragnar kemst að orði í bréfi til Bjarna Benediktssonar? Var Ragnar hinn sjálfmenntaði maður sem vildi púkka upp á sjálfstraustið með því að gera listheiminn skuldbundinn sér? Með því að seilast til valda í andans ríki? Í bókinni er látið að því liggja að Sigurði Nordal hafi dottið eitthvað slíkt í hug. Sigurður er látinn mæla við konu sína orð sem finna má í bréfi til sonar hans Jóhannesar: „Ragnar hefur vissa vanmetakennd gagnvart menntamönnum, vill ekki sleppa þeirri tilfinningu að það sé hann sem ráði og þetta er önnur ástæðan til þess að hann getur heldur sætt sig við menn sem eru heybrækur og að minnsta kosti upp á hann komnir fjárhagslega“ (127).

List sem vímugjafi

Í hverjum manni finnum við vísi að öllum mennskum eiginleikum segir Tolstoj – má vera að fótur sé fyrir flestu sem um mann eins og Ragnar í Smára er sagt. En nú er ónefndur sá eiginleiki Ragnars sem höfuðskáld hans Halldór Laxness lýsti svo: hann lifði „lífi sínu í list einsog nokkurskonar draumleiðslu í miðjum veruleikanum“ (HKL 9). Hann var rómantískt forlyftur í listum, eins og Benedikt Gröndal í öllu kvenfólki, það fer ekki á millli mála. Hvað eftir annað sjáum við dæmi um það í heimildum Jóns Karls að ræða Ragnars um listir, einkum myndlist og tónlist, forðast rökvísi og skilgreiningar. Hún er upphrópanir í hrifningu, áhrifin á tilfinningalífið eru sett á oddinn, hin beina og sterka upplifun. Listin er vímugjafi.

Ragnar segist hafa þann mælikvarða á list „að ef hún kætir mig ekki, vekur í brjósti mér nýjar hræringar, gleði sársauka eða sælukennd, sný ég heim og segi: Þetta er ekki neitt“ (67). Hann hefur sína fyrirvara um list Þorvalds Skúlasonar vegna þess að þótt myndir hans séu „gáfulegar“ og hann finni í þeim líf „hins fagra og heflaða handbragðs“ þá skorti það sem „hitar blóðið, örvar slátt hjartans“ (67). Í öðru dæmi talar hann um „annarlegt kastljós tæknisnilldar“ (80). Myndlist og tónlist eru honum næsti bær við trúarlega upplifun og erótíska alsælu. Nokkrir fallegir tónar verða til að stofnað er guðsríki jafnvel á ólíklegustu stöðum (20); myndir Jóns Stefánssonar „draga mann endalaust á tal við sig eins og kona sem er löðrandi í sexappíl“ (64). Ragnar kemst svo að orði að líf hans sé samtvinnað myndum sem hann á eftir Jón Stefánsson, hann saknar þeirra á ferðalögum og fagnar eins og börnunum sínum þegar hann kemur heim (63). Mynd eftir Ásgrím Jónsson „gefur mér hvern morgun nýja trú á lífið og trúir mér fyrir því að hún sé ávöxtur heitrar ástar“ (54).

Það er rétt að taka vel eftir því að aldrei kemst Ragnar á þvílíkt flug í lofi þegar talið berst að bókmenntum. Hann talar ekki um ljóð eða skáldsögur sem verki á hann „sem eldgos eða kvennafar“ með því „listræna æði og skelfingu“ sem hann sér til dæmis í myndum Ásgríms (147). Bókaútgefandanum áhrifamikla þykir í rauninni miklu meira í íslenska myndlist varið en skáldskap samtímans. Ragnar heldur því fram við enskumælandi viðtakanda bréfs að „Í sannleika sagt standa málarar okkar langtum framar rithöfundum okkar – að Laxness undanskildum en hann er nú vafalaust mesti skáldsagnahöfundur Evrópu … Mörg verk okkar bestu málara verða áreiðanlega sett við hlið hins besta í heimslistinni í framtíðinni“ (148).

Hvernig stendur á þessum mun? Eru bókmenntirnar of skynsamlegar eða „gáfulegar“ til að tilfinningagoshverinn Ragnar geti verið sáttur við þær? Eru skáldin svona erfið í umgengni? Eða er það hinn pólitíski þáttur bókmenntanna sem stendur hrifningarvímunni fyrir þrifum – einnig þegar kemur að þeim manni sem Ragnar fylgir á Nóbelshátíð? Eða eru bókmenntirnar ef til vill orðnar háskalega siðlausar? Bókaútgefandanum verður hálfleitt þegar hann gengur fram hjá bókabúð og finnst það sem hann sér „allt samið, prentað og gefið út til þess að villa um fyrir manneskjunum, gera þær heimskar, illa innrættar og hverja annarri líkar. Það sem snertir við manni með nokkuð óvenjulegum hætti kemur ekki lengur út að heitið getur“ (122–123).

Kommarnir og íhaldið

Pólitísk saga Ragnars er hin merkilegasta. Í bók Jóns Karls er gripið á henni hér og þar en aðferð höfundar gerir hana mjóslegnari og slitróttari en efni standa til. Hér og þar sjáum við, einkum af vísunum í bréf til Bjargar eiginkonu Ragnars frá fjórða áratugnum, að Ragnar var á þeim tíma afar sjaldgæfur pólitískur fugl: kapítalisti og kommúnisti. Aðdáandi Einars Olgeirssonar, samstarfsmaður Kristins E. Andréssonar í bókaútgáfu. Hann veltir því fyrir sér eins og Líu Sjaó-sjí í Kína í frægu bókarkveri, hvað það þýði „að vera góður kommúnisti“ og svarar sér á þennan veg: „Það heimtar fórnir, alvarlega vinnu og skilyrðislaust starf“. En á dögum Nóbelshátíðar er þetta liðin tíð, Ragnar hefur fyrir löngu fjarlægst þessar hugmyndir, finnst kommúnisminn hið versta böl og setur reyndar allan sósíalisma undir sama hatt og spíritisma – hvorutveggja er „barnaleg ósk sem menn heimta að gera að veruleika“ (174). Og eins og síðar verður á minnst, finnst honum beinlínis „óhugnanlegur óþefur“ (241) af ýmsu því sem Nóbelsskáldið skrifar um það leyti um heimspólitík.

Hér er stökk stórt milli bakka sem hefði mátt reyna að brúa betur í bókinni. Að vísu er komið inn á það að Ragnar er hjá hægrimönnum grunaður um græsku, um að vera hallur undir kommana – um leið og kommar telja hann liðhlaupa sem hafi gengið í björg hjá íhaldinu til að standa betur að vígi í bönkum. Hvorutveggja ber hann af sér í bréfi til Bjarna Benediktssonar sem vitnað er til (308). En kannski er tölvert til í báðum ásökunum! Einkum ef við viljum taka mark á því að listir og bókmenntir séu „haldreipi og lífsfylling“ Ragnars eins og hann komst að orði í viðtali í Eimreiðinni árið 1975 við væntanlega leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í anda og verki, Davíð Oddsson og Hannes H. Gissurarson.

Pólitíkin er Ragnari þá ekki síst tæki til að fylgja eftir þessari kenningu um „haldreipi“ nútímamannsins. Honum er „hlýtt til kommanna“ sem einstaklinga, segir hann í bréfi til Matthíasar Johannessen (MJ 370) og í Eimreiðarviðtalinu rétlætir hann rauðar æskusyndir með því að segja að fyrr á árum hafi mörkin ekki verið „eins glögg og nú milli sósíalista og fólks með aðrar pólitískar skoðanir.“ Þetta hljómar einkennilega – voru menn ekki í hatrömmu stéttastríði fyrr á tíð? En útskýring Ragnars er þessi: „Við vorum allir húmanistar og það laðaði suma að sósíalismanum að kenningar hans voru mannlegar.“ (EIM 187).

Ragnar trúir á snillinga eða kannski öllu heldur á snilldina – en hann er ekki elitísti. Hann líkist ekki frænda sínum Þórði Sigtryggssyni sem sagði: hvað er varið í að njóta lista og bókmennta ef hvaða drull sem er getur gert það líka? Ragnar er jafnaðarmaður í menningarpólitík. Hann vill breiða út fagnaðarerindið. Hann vill bæði ala upp góða tónlistaráheyrendur og koma á fót sinfóníuhljómsveit (42–43). Hann vill koma heimsbókmenntum inn í hvert hús.

Hann vill dreifa eftirprentunum af listaverkum um allt land í þeirri von að seinna fylgi á eftir frummynd sem verður húsráðendum eins kær og myndir Ásgríms og Kjarvals honum sjálfum (189). Hann vill og þarf að eiga sér félagsskap um þessi markmið. Og ekki aðeins t.d. í Tónlistarfélaginu. Kannski ræður sú þörf miklu um það að hann slæst fyrst í för með sósíalistum? Hann segir í bréfi til Bjargar frá 1937 að honum sé „kær sósíalisminn … sem gefur okkur tækifæri til þess að lifa eins og menningarfólk án þess að þurfa að safna utan um okkur fé“ (159). Þegar svo Ragnar hefur síðar, svo sem líklegt var vegna stöðu hans og þeirrar einstaklingshyggju sem býr í honum við hlið menningarjafnaðarstefnu, slegist í lið með sjálfstæðismönnum, þá þreytist hann aldrei á að brýna þá á því að þeir standi „kommum“ að baki einmitt að því er varðar afstöðu til mikilvægis lista og bókmennta. Það kemur afar vel fram í ýmsum heimildum öðrum en þeim sem Jón Karl Helgason notar.

Í bréfi frá Ragnari til Matthíasar Johannessen segir hann meðal annars að listamenn séu eins og konur „… þeir hallast að þeim sem sýna þeim traust og meta þá. Kommúnistar hafa þetta á sínu prógrammi en hinn kapítalíski heimur hefur fram á þennan dag keppst við að fyrirlíta listamenn“ (MJ 369). Hann vill tosa hægrimenn inn á sína menningarlínu og veifar fordæmi sem vinstrimenn hafa sýnt svo sem til að ögra þeim: ætlið þið að láta kommana eina um menninguna! Í Eimreiðarviðtalinu segir hann: „Sjálfstæðismenn hafa enn ekki gert sér grein fyrir því hvað það er mikilvægt að hafa listamennina sín megin“. Hann hnykkir svo á með því að mikla fyrir sér stórlega áhrif listamanna sem hann kallar „langvoldugasta afl samfélagsins. Það voru þeir sem komu Adolf Hitler fyrir kattarnef“ (EIM 188). Sem er að sjálfsögðu ekki rétt, því miður. Í framhaldi af þessu öllu dregur menningaráróður Ragnars stundum nokkuð spaugilegan dám af beinum flokkshagsmunum sjálfstæðismanna. Hann segir við Matthías að sumt sem komi fram í samtölum hans við Þórberg og á að fara í bókina „Í kompaníi við allífið“ geti orðið „stórkostlegt innlegg í kosningabaráttuna á komandi vori!“ (MJ 372).

Menn gætu vafalaust dregið af því sem nú var tekið saman þá ályktun að saga Ragnars staðfesti útbreiddar hugmyndir um að menningarlífið hafi allt mótast af samsærum til hægri og vinstri um að „halda fram sínum mönnum“ og draga alla í hægri og vinstri dilka. Nei – því mótmælir bókin í raun og það er einn ágætur kostur hennar. Ekkert er einfalt. Borgaralegur menningarhöfðingi eins og Sigurður Nordal kann illa við pólitík Halldórs Laxness en virðir hann miklu meira en „samherja“ á borð við Guðmund Hagalín og Kristmann sem hann kallar „siðferðilega sjúklinga“ (129) og sjálfan Tómas Guðmundsson aumingja í aðra röndina. Stríðið sem Ragnar stendur í um það hverjir stjórna tónlistarmálum í landinu kemur hægri og vinstri ekkert við – hann hamast gegn „druslum“ eins og Vilhjálmi Þ. Gíslasyni útvarpsstjóra og Guðlaugi Rósinkranz þjóðleikhússtjóra: „okkur finnst þessi fífl hafa fengið nóg í hendur“ (40). Myndlistarstríðin á hans dögum koma pólitík lítið við – þar er í rauninni deilt um „völd, peninga og úthlutun á tækifærum“ (66) segir Jón Karl réttilega.

Ekki góður maður

En engu að síður eru póltísk viðhorf í bland við siðferðilegar kröfur á ferð í mati Ragnars á skáldskap – og ekki síst í gagnrýni hans á verk sjálfs Nóbelsskáldsins sem kallast á við svipuð viðhorf Sigurðar Nordals. Þetta kemur skýrt fram í einum athyglisverðasta kafla bókar Jóns Karls Helgasonar.

Þeir vinir skrifast á um Gerplu og sýnist fyrst sitt hvorum: Ragnar er hrifinn en Sigurður ekki. Það dregur þó saman með þeim. Báðir hafa ýmigust á Halldóri Laxness sem pólitískum pistlahöfundi, svo sem kannski mætti við búast. En hér er mun fleira á ferð.

Eimreiðarviðtalið sem fyrr var nefnt ber yfirskriftina „Trúin og listin – haldreipi og lífsfylling nútímafólks“. Ekki aðeins listin – trúin einnig. Nú er að sönnu ekki auðvelt að átta sig á því hver trú Ragnars er. Ekki virðist hann búast við persónulegu framhaldslífi en telur sig engu að síður bænheitan á kristna vísu. En svo mikið er víst að þegar trú og list koma saman í huga hans þá fylgir með einhver sú siðferðileg krafa sem hann telur að Halldór Laxness rísi ekki undir. Hann ámælir Halldóri fyrir „virðingarleysi fyrir helgidómum annarra manna“. Þeir Sigurður koma sér saman um að „hugvitið, artisteríið“ hjá Nóbelsskáldinu
sé í góðu lagi en hjartalagið ekki (242). Þeir virðast sammála um að Halldóri hafi að því leyti farið aftur að hann eigi minna og minna af tilfinningum til að gefa persónum sínum, Ragnar tekur undir það að „blóðleysi“ hrjái persónur Halldórs og verk hans eigi sér „ekki þann eld og straumþunga „sem eilíft varir í gildi“ (243). Kannski þeir félagar sætti sig við bækur eins og Sjálfstætt fólk og Heimsljós en mun síður Atómstöðina og Gerplu? Það kemur ekki skýrt fram. En það er ljóst að Ragnar telur að Halldór Laxness hafi „fallið fyrir sjálfselsku sinni, er hið illa og góða háði stríð í blóði hans hafi hið góða tapað“. Og bætir því við að það sé vegna þess að „hið dökka í fari hans lagði til beittari vopn“. Meira en svo – Ragnar tekur svo djúpt í árinni að segja : „Halldór Kiljan Laxness er ekki góður maður, hann bindur ekki vináttu við neitt. Hinn stærsti er sá sem á mest af kærleika“ (245).

Hér er felldur grimmur dómur yfir Nóbelsskáldinu sem manneskju og má spyrja: með hvaða rétti heldur Ragnar öðru eins fram og að hann „bindi ekki vináttu við neitt“? En hér er öðrum þræði á ferð eitthvað sem nær út fyrir Halldór sjálfan. Vonin um að gott skáld sé um leið góður maður lifir í Ragnari, eins og mörgum öðrum sem gera sér skáldskapinn að veraldlegri kirkju, og þessi von er í uppnámi. Ragnar segir í bréfi frá 1953 um Gerplu: „Þetta er gerviskáldskapur á ákaflega háu plani eins og margir stærstu listamenn heimsins framleiða“ (242). Halldór syndgar sumsé í góðu kompaníi. Við erum komin á næsta bæ við áhyggjur Thomasar Mann af siðleysi listrænnar snilldar sem er eitt höfuðstefið í skáldsögunni um tónsnillinginn Adrian Leverkühn, Doktor Faustus. Ragnar hefur oftar en ekki áhyggjur af því að í list mikilla snillinga „þar skýtur djöfullinn upp kollinum“ – eins og hann er reyndar látinn gera hjá Thomasi Mann. Dæmi Halldórs Laxness verða til að draga í efa trú Ragnars á jákvæð áhrif lista yfirleitt.

Hann hefur áhyggjur af siðleysi bókmenntanna – rétt eins og Lev Tolstoj á sinni tíð. En Tolstoj var það skáld sem harðast hefur fordæmt skáldskapinn fyrir að skemmta ríkum og menntuðum iðjuleysingjum með fjasi um losta og ágirnd og greina ekki á milli góðs og ills. Rétt eins og Ragnari fannst obbinn af því sem hann sá í bókabúð til þess eins gefið út að „villa um fyrir manneskjunum, gera þær heimskar og illa innrættar“ – eins og áður var nefnt (123). Tolstoj biður um bókmenntir sem þjóna „lögmáli hins góða“ sem hann kallaði svo. Ragnar segir þann mann mestan sem kærleikann á. En hann segir fátt um það hvar slíkan mann er að finna í hópi skálda. Hann er í vandræðum með listatrú sína og veruleika bókmenntanna. Kannski er hér að finna eina ástæðuna fyrir því að hrifning hans er mun meiri þegar talið berst að tónlist og myndlist en þegar skáldskapur er á vörum hans? Í orðlausum listum er færra að trufla hann við að lyfta sér á flug í þeirri „draumleiðslu í miðjum veruleikanum“ (HKL 9) sem Halldór Laxness taldi lýsa best lífi hans.

Þetta er merkilegt – og hefur þegar á bók Jóns Karls er litið þau undarlegu áhrif að það er sem fögnuðurinn yfir Nóbelsverðlaununum gufi upp úr henni. Það sem upp úr stendur er það sem Ragnari finnst að Halldóri Laxness og verkum hans. Á þá beiskju falla áherslurnar. Það er engin Nóbelshátíð. Enda hefst hún ekki fyrr en að búið er að setja punkt aftan við þessa bók. Það er þá sem Ragnar í Smára tekur gleði sína, við hátíðahöldin er hann „barmafullur af lifandi sólskini“ því honum finnst að nú skynji allur heimur að Ísland og Íslendingar eru „merkilegt land og merkilegt fólk“ (JKH 229).

Heimildir á flakki

Það er líka fleira sem dregur úr þýðingu þess að draga lífshlaup Ragnars í Smára saman í nokkurra daga „timelapse“ rétt fyrir Nóbelshátíðina. Ég á við þá aðferð sem fyrr var nefnd, að búa til samtöl og eintöl úr heimildum, einkum bréfum, sem notaðar eru eins og höfundur segir sjálfur „í allt öðru samhengi en þær urðu til í“ (333).

Þessi aðferð hefur sína kosti. Það hníga veigamikil reynslurök að því ofurraunsæi að leyfa manni að upplifa alla sína ævi á skammri stundu þegar mikil tíðindi verða. Það er einatt skemmtileg nánd í þeim „ekta“ tilsvörum sem úr bréfunum fást. En það er margt að varast. Tengingarnar sem hafðar eru til að réttlæta samklippið, montasjið, eru stundum skemmtilegar en of oft þvingaðar og langsóttar. Aðferðin gerir ráð fyrir að hlaupið sé fram og aftur um æviár Ragnars í Smára, sem hlýtur að gera það erfitt fyrir marga lesendur að ná áttum, nema þá að lesarinn viti tölvert fyrirfram um fólkið sem við sögu kemur. Í sögum af Ragnari verða eyður og gloppur umfram það sem hefðbundnari ævisaga mundi bjóða upp á.

Einna mest truflaði það þó þennan lesanda hér að einatt er setningum troðið inn í tilbúin samtöl með afar ótrúverðugum hætti. Eins og þegar Sigurður Nordal er í svefnrofunum látinn heimsækja Þóru Vigfúsdóttur, konu Kristins E . Andréssonar, og heyra af hennar vörum umkvörtun um að Halldór Laxness hafi gengið á mála hjá þeim arma kapítalista Ragnari í Smára (234) – en þessa umkvörtun hafði Þóra falið dagbók sinni að geyma og hefði síst borið undir Sigurð Nordal. Eða þegar pólitískar játningar Ragnars í einkalegu bréfi til Bjarna Benediktssonar, sem fyrr var á minnst, eru teknar úr sínu samhengi og Ragnar látinn lesa þær yfir Helga Briem sendiherra sem honum er afar hvimleiður að því er best verður séð (308, 321).

En ekki skal nú lengur kvarta yfir þessum hlutum. Það er fengur að mjög mörgu í þessari bók um Ragnar í Smára. Þar má finna mörg ágæt umhugsunarefni. Og bæði skemmtilegar og merkar upplýsingar um litríkan mann, róttækan og um leið íhaldssaman, mann sem er í senn haldinn vissum fortíðarsöknuði eftir einföldu og fátæku lífi og er útópisti sem dreymir stóra drauma um ríkmannlegt líf í list. Listfíkil sem getur tekið upp á því að skrifa listakonu sem hann hefur mætur á: „Fagrir eru litir þínir … en lífið sjálft, í sinni frumstæðu nekt, á það til að töfra fram þann skáldskap sem er æðri allri myndlist, orðlist og tónlist“ (312). Mann sem svo sannarlega verður ekki gleyptur í einum bita.

 

Árni Bergmann

 

Heimildir

Innan sviga eru blaðsíðutöl úr bók Jóns Karls Helgasonar.
HKL – Halldór Laxness: „Minníng um Ragnar Jónsson“. Og árin líða, 1984.
EIM – „Trúin og listin – haldreipi og lífsfylling nútímafólks“. Viðtal við Ragnar Jónsson í Smára. Eimreiðin 1975.
MJ – Matthías Johannessen: Í kompaníi við Þórberg, 1989.
Ummæli Þórðar Sigtryggssonar voru látin falla í samtali við Ragnar og greinarhöfund.
Ívitnun í Lev Tolstoj er úr 59 kafla fyrri hluta skáldsögunnar Upprisan.
JKH – Jón Karl Helgason: Hetjan og höfundurinn, 1998. Í þessari bók birtir höfundur óstytta alla ferðarollu Ragnars í bréfi til Sigríðar Jónsdóttur, sem hann notar annars óspart í „Mynd af Ragnari“ í frásögn af öllu sem gerðist áður en sjálf Nóbelsveislan hófst.