Eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021.

 

Ljósið kemur að utan
laumar sér inn á milli gluggatjaldanna
strýkur fingri eftir rykugri hillu
gaumgæfir gyllingu á snjáðum kili

við lítum undrandi upp:
hvað ert þú að gera hér?
nægja þér ekki fagnaðarlætin úti
allir gulu og fjólubláu fánarnir
dans stiginn berum fótum í forinni
girnd skógarþrastarins?

Fíflarnir fylgja þér við hvert fótmál
vindarnir hópast að þér
vesalings trén gera sig til
glenna þrútna brumhnappa yfir kalkvistina
meira að segja ánamaðkurinn rumskar
engist klúr
einn með sjálfum sér
fyrir neðan allar hellur

en öll þessi agndofa tilbeiðsla og losti
fullnægja ekki hégómagirnd þinni.

Þú skýtur fram fagurskapaðri öxl
setur stút á mjúkar varirnar
drepur snjótittlinga
til að draga okkur á tálar

allt til einskis.

Hér inni er þér tekið með jafnaðargeði
við höfum séð til þín áður
héðan úr ríki rökkurs og værðarvoða.
Við höfum heyrt þig klingja bláklukkum, séð þig spila út þínum vetrargosum
vitum að öll þín græna slikja og dirrindí eru hvikul og flá
víkja brátt fyrir nýjum vetri.

Við sjáum þig og svörum með nokkrum kertum
síld á rúgbrauði og týndum bitum úr púsluspilinu
hekluðum dúllum
svörtum silfurgöfflum og grammófóni með bilaðri reim.

Við ætlum ekki að ryksuga,
nei, við játum okkur aldrei sigruð
andspænis vægðarlausri gleði vorsins

 

 

Sigríður Hagalín

Sigríður Hagalín Björnsdóttir