Einar Kárason. Skáld.

Mál og menning, 2012, 235 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2013.

I

Með útgáfu á Skáldi, síðustu bókinni í þríleiknum um Sturlungaöldina, bindur Einar Kárason endahnút á verk sem teygir anga sína út fyrir heim skáldskaparins og inn á svið íslenskra fræða þar sem Einar endurvekur hina sígildu spurningu um hver sé höfundur Njálu. Sjálfur hefur hann svar á reiðum höndum og telur að það sé „hafið yfir allan vafa“ [1] og „nánast óhrekjandi“ [2] að Sturla Þórðarson sé þessi höfundur sem manna lengst hefur verið eftirlýstur á sviði íslenskra bókmennta. Auk skáldsagnanna Óvinafagnaðar (2001), Ofsa (2008) og Skálds (2012) hefur Einar Kárason skrifað greinarkorn í Tímariti Máls og menningar (3. hefti 2010) og lengri grein í Skírni (haust 2012) sem miða að því að renna stoðum undir þessa skoðun. Þá hefur hann og viðrað þessar hugmyndir sínar í fjölda viðtala í blöðum, útvarpi og sjónvarpi og nú síðast á leiksviði í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem hann bregður sér sjálfur í hlutverk Sturlu Þórðarsonar af mikilli kúnst að sögn þeirra sem séð hafa og á boðskapinn hlýtt. [3]

Skáld

Skáld (2012)

Í leiksýningunni segir Sturla frá ævi sinni og ritstörfum og upplýsir að hann hafi meðal annarra verka skrifað Grettis sögu, Fóstbræðra sögu og Brennu-Njáls sögu, eins og einnig er haldið fram í Skáldi. Það er naumast annað hægt en dást að öllu þessu prógrammi Einars Kárasonar sem sett er saman og framreitt af augljósri ástríðu fyrir efninu og vissu um að höfundur Njálu sé loksins fundinn. Sjálfsagt er þó að minna á að Einar Kárason er ekki sá fyrsti sem nefnir Sturlu Þórðarson til sögunnar í leitinni að höfundi Njálu og þiggur hann og ýmis rök þar að lútandi frá öðrum, ekki síst Matthíasi Johannessen, eins og hann tíundar ágætlega í Skírnisgrein sinni. Viðbætur Einars við þá kenningu snúa kannski einna helst að því að benda á líkindi, bæði hvað varða efnivið og byggingu, með Njálu og verki því sem vitað er að Sturla Þórðarson setti saman, Íslendinga sögu.

Kenning Einars um að Sturla Þórðarson hafi sett saman Brennu-Njáls sögu á síðustu æviárum sínum út í Fagurey á Breiðafirði er prýðilega undirbyggð og hefur vakið áhuga ýmissa fræðimanna. Til að mynda skrifar Jón Karl Helgson bókmenntafræðingur á heimasíðu sína að hann verði „að viðurkenna að umfjöllun Einars um Sturlu og Njálu [hafi] vakið upp nýjan áhuga hjá [sér] á efninu.“ Jón Karl telur að málflutningur Einars sé „að ýmsu leyti sannfærandi og skynsamlegur og [eigi] vafalítið eftir að vekja úr dvala þann stóra hóp Njálu- og Sturlungulesenda sem áhuga hafa á efninu.“ [4] Jón Karl Helgason gaf sjálfur út bókina Höfundar Njálu árið 2001 þar sem hann heldur á lofti þeirri hugmynd að hægt sé að tala um marga höfunda að verki eins og Njálu sem hefur komið út í alls kyns endurritunum, þýðingum og túlkunum, auk þess að vera – að öllum líkindum – upphaflega sprottið upp af sambræðingi af sögulegum atburðum, munnmælum og öðrum textum.

Hugmyndin um einn tiltekinn og nafngreindan höfund Njálu byggir að sjálfsögðu á því að um „höfundarverk“ sé að ræða en margir fræðimenn hallast hins vegar að því að höfundarhugtak nútímans eigi varla við þegar rætt sé um fornbókmenntir. Og þá fylgir sú skoðun að slíkur hafi að líkindum verið skilningur þeirra sem „settu“ verkin „saman“ á sínum tíma og þess vegna ekki hvarflað að þeim að skrá nöfn sín á bókfellið enda bækurnar, samkvæmt þessum skilningi, einhvers konar samvinna manna sem störfuðu saman í ritsmiðju. Í greininni í Skírni hendir Einar Kárason gaman að slíkum skilningi og kallar það kenningu um „að það hafi verið sjálf þjóðin sem hafi smám saman náð slíkri leikni í sagnaritun að frá henni hafi farið að streyma snilldarverk“. [5]

Í Skáldi rís Einar Kárason einnig af miklu kappi gegn slíkum skilningi á vinnu þeirra sem rituðu bókmenntir á Íslandi á miðöldum, hann skoðar miðaldaskáldið með augum nútímamanna og kannski sérstaklega með augum kollega; hann umgengst Sturlu Þórðarson eins og samtímamann – enda er sá yfirlýstur tilgangur hans „með þessum skrifum“. [6] Reyndar má alveg halda því fram að mynd Einars af skáldinu Sturlu sé frekar í ætt við rómantík nítjándu aldar en samtímann; til að mynda er lögð mikil áhersla á snilligáfu skáldsins. Ég gæti trúað að þessi rómantíska sýn Einars á skáldið fari fyrir brjóstið á ýmsum þeim sem stunda fræðilegar rannsóknir á íslenskum miðaldabókmenntum og ekki eru tilbúnir til að fallast á kenningarnar um höfund Njálu og ýmissa fleiri Íslendingasagna sem settar eru fram í þessu lokabindi Sturlunga sögu Kárasonar.

II

Í Skáldi segir frá utanför Sturlu Þórðarsonar árið 1276 en hann hafði verið kallaður á konungsfund til Noregs, mjög í mót sínum vilja. Skip hans brotnar við Færeyjar þar sem hann er nauðbeygður til að dvelja vetrarlangt ásamt fylgdarmönnum sínum þremur, Þorvarði Þórarinssonar Austfjarðagoða, Hrafni Oddssyni lækni og Þórði Narfasyni aðstoðarmanni skáldsins og lærlingi í ritlist. Í Færeyjum leggst Sturla upp á gestgjafa sína í Kirkjubæ í Færeyjum í fylleríi og þunglyndi og á hann sækja svartagalls hugsanir um hina blóði drifnu vargöld sem hann hefur lifað á Íslandi. Skáldið er að því komið að drekka sig í hel en nær áttum þegar það fer að blaða í skinnhandritum sínum, lesa úr Heimskringlu fyrir Færeyinga og fær aðstöðu til að vinna að sagnaritun.

Sturla hefst handa við að rita Færeyinga sögu og lýkur verkinu á fáum vikum í híbýlum Gríms, konungsbónda í Kirkjubæ. Að því loknu heldur hann til Þórshafnar og heldur áfram að semja þá bók sem hann var að skrifa þegar boðin um utanför bárust frá Noregskóngi; Íslendinga bók. Skipreikaveturinn reynist skáldinu því drjúgur og næsta vor kemst Sturla til Noregs þar sem hann dvelur annan vetur við að rita sögu Magnúsar konungs lagabætis og nýtur mikillar hylli í konungsgarði. Þegar Sturla kemst loks heim aftur til Íslands úr hinni nauðugu utanför tekur hann enn til við ritstörf og fær hugmyndina að sínu mesta verki; Brennu-Njáls sögu skrifar hann á sínum efri árum í Fagurey þar sem hann að sögulokum andast árið 1284 sjötugur að aldri. Fleiri sögur eignar Einar Kárason Sturlu Þórðarsyni í Skáldi, Grettis sögu og Fóstbræðra sögu, auk þess sem hann eignar bróður Sturlu, Ólafi hvítaskáldi, Laxdæla sögu.

Líkt og í Óvinafagnaði og Ofsa byggir Einar Kárason frásögn sína upp með fjölda stuttra kafla þar sem sjónarhornið flakkar á milli persóna og tímaskeiða og við fáum huglæga frásögn í fyrstu persónu þar sem einstaklingar túlka atburði og lýsa tilfinningum sínum og skoðunum beint. Þessi aðferð gengur að sjálfsögðu gegn hinum hlutlæga frásagnarstíl íslenskra fornsagna en á móti kemur að hún auðveldar lesendum að tengjast persónum því hún skapar meiri nálægð en hinn forni texti. En ólíkt fyrri bókunum í þríleiknum er í Skáldi líka alvitur sögumaður sem hefur orðið nokkuð stóran hluta frásagnarinnar og hverfur Einar þar aftur til frásagnaraðferðar bókanna, Þar sem djöflaeyjan rís og Gulleyjan, þar sem alvitur höfundur heldur um alla þræði.

Þetta atriði gerir grundvallarmun á Skáldi annars vegar og Óvinafagnaði og Ofsa hins vegar. Nokkur spenna skapast á milli þessa tveggja ólíku frásagnarhátta í Skáldi sem veldur því að lestur bókarinnar verður ekki eins flæðandi og í fyrri bókunum. Þar kemur líka til sú staðreynd að í köflunum þar sem alvitur sögumaður ræðum ríkjum er höfundur annars vegar að endursegja efni úr Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar og öðrum heimildum um Sturlungaöldina og hins vegar að koma á framfæri hugmyndum sínum um starf miðaldahöfundarins. Og eins og áður segir hefur Einar mjög rómantíska sýn á ritstörf skáldsins sem yfirskyggir þá dramatísku og húmorísku sýn sem annars ræður ríkjum í texta þessa bóka.

Að mínu mati hefur hver hinna þriggja skáldsagna sem mynda saman Sturlungaþríleikinn sinn eigin karakter. Óvinafagnaður er kannski sú skemmtilegasta í stílnum, sprellfjörug og í bland írónísk mynd af stríðsbrölti karlmanna sem eru reknir áfram (oftar en ekki í bandbrjáluðu veðri) af hefndarskyldu og hugmyndum um heiður og æru sem taka út yfir allan þjófabálk í baksýnisspegli nútímalesanda. Afbygging Einars á þeirri hetjuímynd sem lengst af hefur búið í þjóðarsálinni af íslenskum fornköppum er geysilega vel lukkuð og minnir á aðferð Halldórs Laxness í Gerplu og Thors Vilhjálmssonar í Morgunþulu í stráum.

Í Ofsa er dekkri og dýpri tónn enda fjallað um hvernig von um sættir og frið fá blóðugan endi með hinni hörmulegu Flugumýrarbrennu árið 1253. Með því að leggja frásögnina aukapersónum í munn fremur en aðalpersónum nær Einar oft fram óvæntu og athyglisverðu sjónarhorni á þá atburði sem sagan segir frá. Frásögn þriðju bókarinnar skarast víða við frásagnir hinna fyrri tveggja enda er Sturla Þórðarson sífellt að hugsa um og skrifa um þá atburði sem þær lýsa.

Eins og í fyrri bókunum tveimur flakkar sjónarhornið á milli persóna sem hver býður upp á sína túlkun á atburðum. En hér eru líka kaflar þar sem alvitur sögumaður segir frá uppvaxtarárum Sturlu og rifjar um leið upp fyrir lesendum helstu atburði Sturlungaaldarinnar eins og þeim er lýst í Íslendinga sögu. En sá tónn sem sterkastur hljómar í Skáldi er sá sem áður er á minnst og tengist rómantískri og upphafinni mynd af skáldinu. Þetta er að mínu mati sá þráður sem gildastur er í bókinni. Aðal áherslan er á frásögnina að því hvernig skáldið Sturla verður til og hvernig hann lifir og hrærist í sagnaritun sinni og hvílíkur snillingur hann hafi verið.

III

Þegar ramminn hefur verið settur um frásögnina, það er að segja lýsingin á tildrögum þess að Sturla verður innlyksa í Færeyjum, hefst frásögn af æskuárum hans þar sem tónninn er strax sleginn: „Það var ekki síður amma Sturlu, Guðný Böðvarsdóttir, en Snorri Sturluson sem kenndi honum að verða skáld“ (36). Hér efnir Einar Kárason í kunnuglega goðsögn um hina sögufróðu ömmu sem er nauðsyn hverju íslensku skáldi að hafa átt og var „náma af sögum af forfeðrum þeirra og fleirum sem uppi voru forðum daga, og af henni lærði strákurinn að það er mikilvægt að muna eftirminnilega menn og meitluð tilsvör“ (40).

Það er með Guðnýju ömmu sem Sturla kemur í Reykholt til frænda síns Snorra og þar sækist barnið eftir því að fá að vera í „ritstofunni“ þar sem menn iðja við að setja saman bækur: „[…] börnum var auðvitað ekki ætlað að vera að snuddast þar og ef hann hefði farið að ærslast eða vera með gassagang hefði honum verið ýtt út fyrir dyrnar, svo drengurinn lét fara lítið fyrir sér, fylgdist stóreygur og fullur undrunar með samtölum hinna fullorðnu og braut heilann um undarleg orð og merkilega menn sem urðu í þeirra tali (40). Það er athyglisvert að sjá að slík goðsagnasmíð í kringum tilurð skálds virðist tímalaus og má í því sambandi minna bæði á Halldór Laxness (í eigin túlkun og annarra) og Hallgrím Pétursson (í túlkun Steinunnar Jóhannesdóttur í skáldsögunni Heimanfylgja (2010).

Á eftir kaflanum um æskuár Sturlu kemur einn lengsti kafli bókarinnar sem ber yfirskriftina „Reykholt á æskudögum skáldsins“ (39–49) og honum fylgir kaflinn „Ritstörf“ (50–52) þar sem lýst er ritsmiðjunni þar sem Sturla lærir af meistaranum. Hæfileikar drengsins koma fljótt í ljós, eins og faðir hans orðar það: „Drengurinn hann Sturla, hann ekki bara man allt. Heldur kann hann líka að segja frá því; hann er eins og Snorri bróðir með það!“ (40). Síðar fær Sturla sinn eigin lærling og aðstoðarmann sér við hlið og það er einna helst af sjónarhóli hans, Þórðar Narfasonar, sem aðdáun og upphafningu á skáldinu er komið til skila. Þórður þráir að verða skáld og „hélt að þetta væri hin einfalda leið til að verða stórskáld og snillingur eins og frændurnir Snorri og Sturla; að vera í meistaralæri – það gæti ekki brugðist, og ef hann sýndi nógu mikið úthald og vinnusemi gæti ekkert afstýrt því að senn yrði hann sjálfur dáður fyrir list sína og orðkynngi eins og þeir frændur“ (50). En Þórður Narfason hefur ekki til að bera snilligáfu þeirra frænda: „[…] sama hvað [hann] átti eftir að reyna og hversu margt og mikið hann átti eftir að bauka við að skrifa um ævina, þá varð fæst frá hans hendi þannig að hann sæi ekki sjálfur að það stóðst engan samanburð við jafnvel hin smæstu og hversdagslegustu tilskrif meistaranna Sturlu og Snorra …“ (51). Hér hnykkir Einar Kárason á þeirri skoðun sinni að það þurfi snilligáfu til að skrifa snilldarverk á borð við Njálu.

Sums staðar þykir lesanda þó nóg um upphafninguna á skáldinu, eins og til að mynda þegar Ingilborg Eiríksdóttir Noregsdrottning dáist að talanda og frásagnarleikni skáldsins: „Það er hreinn ólíkindamaður íslenska skáldið Sturla og ég vona að hann verði hér sem lengst. Hann talar allt öðruvísi en annað fólk, hann talar eins og þar sé leikið á gígjur, það er eins og fegursti söngur; hann hefur allt aðra aðferð en aðrir menn“ (213). Grímur konungsbóndi í Kirkjubæ líkir Sturlu við Frelsarann þegar hann hefur ritað Færeyinga sögu á heimili hans: „[Honum] þótti mikil tíðindi hafa gerst í sínum híbýlum; að hann hefði notið náðar næstum á borð við það ef Frelsarinn hefði verið endurborinn í hans eigin fjárhúsum“ (128). Og lærlingurinn, Þórður Narfason, líkir ritsmiðju Sturlu við himnaríki: „Ég var af og til úti í eyju hjá meistaranum næstu sex árin, það var mikill skóli og sumpart einsog að fá að koma í annan heim, til himna liggur mér við að segja – allt varð upphafið frá því augnabliki sem lagt var frá landi og út á Breiðafjörðinn, hvort sem var róið eða siglt, og svo að koma þangað, Sturla í heimi skáldskaparins þar sem er gott að lifa, mér fannst sem þarna væri staðurinn þar sem hugmyndir fæðast, […]“ (227). Áður hefur Þórður lýst því hvernig birtir yfir öllu þegar hann fær að taka til starfa með Sturlu í Færeyjum, það var sem „helg birta á langri jólanótt“ (159).

Það ætti því að vera hafið yfir allan vafa að samkvæmt hugmyndum Einars Kárasonar er snilld skáldsins af guðlegum toga og það er aðeins snillingurinn sem ræður yfir hinum fáheyrðu göldrum skáldskaparins, enn vitnar Þórður Narfason: „En Sturla skáld vissi auðvitað, sagði hann mér síðar, að galdrarnir sem því tengdust að geta skrifað svona mannlýsingar komu bara af því að það kunna þeir sem lengi hafa helgað sig hinni göfugu frásagnarlist. Þeir geta gert svona, aðrir ekki“ (125). Það virðist vera að þetta sé sá boðskapur sem Einari Kárasyni liggur mest á hjarta í þessari síðustu bók Sturlungaþríleiksins. Ekki veit ég hvort almennir lesendur deili sýn hans á skáldið eða fallist á að hann hafi fundið höfund Njálu. En víst er að með Óvinafagnaði, Ofsa og Skáldi hefur Einar Kárason bætt mikilvægum verkum við það stóra safn sem er að verða til í íslenskum bókmenntum og falla undir það sem Jón Karl Helgason kallar „endurritun“ á íslenskum fornbókmenntum. Og með þríleiknum hefur hann greitt leiðina fyrir nýja lesendur að þessum bókmenntaarfi og fyrir það ber að þakka.

Soffía Auður Birgisdóttir

 

Tilvísanir

  1. Sjá Einar Kárason. „Njálssaga og Íslendingasaga Sturlu Þórðarsonar.“ Skírnir 186. ár (haust 2012), bls. 300.
  2. Sjá viðtal við Einar Kárason í Fréttablaðinu 4. september 2012: „Sturla skrifaði Njálu – það er nánast óhrekjandi.“
  3. Því miður hefur ritdómari ekki komist á sýningu Einars Kárasonar í Borgarnesi þegar þetta er skrifað en byggir umsögn sína á skrifum Gunnars Karlssonar á vef TMM. Sjá Gunnar Karlsson. „Í gervi sagnameistarans Sturlu.“ 13. janúar 2013, tmm.is
  4. Sjá Jón Karl Helgason. 7. nóvember 2012. „Skrifaði Sturla Þórðarson Skáldið eftir Einar Kárason?“ http://uni.hi.is/jkh/ (sótt 30. janúar 2013).
  5. Einar Kárason. „Njálssaga og Íslendingasaga Sturlu Þórðarsonar“, bls. 290.
  6. Sjá viðtal við Einar Kárason 8. desember 2012. „Þá finnst manni allt smámunir frá sjónarhóli eilífðarinnar.“ Smugan. Vefrit um pólitík og mannlíf.