eftir Kristján Hrafn Guðmundsson
Brot úr upphafskafla ljóðsögunnar Vöggudýrabær. Bjartur-Veröld gefur út.
ÞYNGDVELLIR
Ég man enn myndina á RÚV, sennilega sýnd 1990, um rúmensku börnin sem bönkuðu höfði í vegg á munaðarleysingjahælum, líktog þau voru kölluð.
Líklega voru börnin ekkert kölluð. Einungis númer á blaði, ef það. Ef ekki einfaldlega eyða í gögnum stjórnvalda, einsog mamma í gögnum vöggustofa Reykjavíkur fjörutíu árum fyrr og fram á þennan dag.
„Stofurnar“ mætti kannski kalla forsmekk að rúmensku hælunum. Í Reykjavík var þó valið orð sem þótti eflaust smekklegra, eða meira aðlaðandi en orðið hæli (hvað þá með fyrripartinn munaðarleysingja-).
Vagga ber í sér merkinguna líf. Von. Framtíð.
Stofa táknar heimili. Samverustað. Fjölskyldu.
Ég sat í stofunni heima með foreldrum mínum þegar RÚV sýndi þáttinn um rúmensku börnin. Vaggandi sér í rúmi, berjandi sig með vegg.
Hvað ætli reykvísku börnin hafi gert í sínu rúmi? „Vöggu“? Þegar enginn kom að vitja þeirra, þrátt fyrir þrotlausan grát.
Sem hvítvoðungur kom hún í húsið kalda, þar sem tilfinningar þóttu tabú, hlýju var vísað á dyr, alúð var afskrifuð.
Afplánun tók tvö ár. Afleiðingar stóðu ævina á enda.
Hvað gerðist þessi ár veit mamma ekki. Hvað gerðist vegna þessara ára veit mamma vel.
Það er júlí 1948.
Ekkert óvenjulegt við mánuðinn; hita, úrkomu, samfélagsmál.
Sjómenn sækja gull í greipar Ægis.
Bændur slá, heyja, huga að skepnum.
Verkamenn og -konur svitna í sigggrónum lófum með sviða í skeinum.
Mæður halda heimilum gangandi, klyfjaðar mentallódi, áratugum fyrir uppfinningu þess orðs.
Enda verða orð einatt til löngu áður en fólk orðar þau.
Á Hótel Valhöll er þrjátíu og þriggja ára maður inni í eldhúsi.
Kona litlu yngri á þönum um rýmið.
Hann: kokkur úr borginni sem sagði já við boði um sumarvertíð á söguslóðum.
Starfslýsing: matreiðsla fyrir gesti hótelsins.
Hún: leitandi fljóð úr Öxney sem lét ævintýraþrá teyma sig til Þingvalla sumarlangt.
Starfslýsing: aðstoð við matreiðslu og annað tilfallandi.
Hvort neistar flugu, hendur oft smugu innundir, niðureftir, eða einvörðungu þetta eina skipti, er ekki vitað. En einhverja nótt þarna í júlí tóku þau saman höndum og lendum, kokkurinn og eyjasprundið.
Upp reis jafnaldri, fram fóru frumur, ein vék ekki fyrir eggi, veltust í vessaböndum, ávöl fruma og ílöng. Urðu að oki.
Þegar sumri var lokið sást köttur læðast í mýri. Tengdust engum tryggðum, maðurinn og fljóðið.
Hún hafði kokkálað konu kokksins.
Samkvæmt kirkjubókum var hann bundinn hjónaböndum, ástarsorgum þurfti unga konan að drekkja þar sem því yrði komið við. Kannski í Drekkingarhyl?
Í borginni um haustið hún heimili bjó sér, í herbergi í Mjóuhlíð, Miklabraut sá um sándtrakkið.
Mjór er mikils vísir, segir máltækið. Og mjó var hún í vor, en nú þegar vetur húkti við næsta húshorn var staðan önnur á hennar ævigötu.
Í Öxará vex á vorin. Í Öxneyjarstúlkunni óx þennan vetur.
Líf í vatni. Barn í legi.
Þingvallakróginn var í hennar lögsögu.
Þingvallakokkurinn var vant við látinn. Engu líkara en hann væri látinn.
Síðar varð ljóst að hann sjálfan sig dæmdi í útlegð, frá ábyrgð á ávexti þeim sem nú óx í Mjóuhlíðarmóður.
Enn eitt dæmið um sáðmann sem leikur sér og lausum hala. Með halann að framan, er til í gaman – þar til tala ætti saman um afleiðingar og ábyrgð.
En þá lauma þeir sér margir á næsta akur. Næstu lendar.
Eða í hlýju hjónasængur kokkálaðrar konu.
Konan unga í Hlíðunum hugsaði að hún hefði ekki komist í gegnum erfið ár í Öxney og siglt yfir Atlantshaf í heimsstyrjöld miðri til ráðskonustarfa í Ameríku, til þess eins að leggja upp laupa í saggafullum kjallara.
Þótt hún stæði frammi fyrir brekku sem í svipinn líktist fjalli.
„Ég er að verða mikil um mig miðja og erfitt að ná endum saman, en ég er líka mikil í anda einsog Kristín Lavransdóttir nafna mín forðum,“ gæti hún hafa hugsað.
Þótt enginn væri kransinn.
Apríl er grimmastur mánaða, segir Eliot í upphafslínu Eyðilandsins
Kristín fæddi dóttur ellefta apríl. Dagurinn kaldur, klóraðist rétt yfir núllið í Reykjavík, vindstig fimbulfimm. Fæðingin á hádegi, ekki átakalaus enda ekki stíll móður, stúlkan stór líktog atburðirnir á Austurvelli þrettán dögum áður.
Ísland var komið í NATO, afkvæmið var komið í heiminn. Orrustan sem kölluð er líf var hafin.