Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2023
Þórdís Helgadóttir þýddi
Mjólkurá
leyfðu mér aðeins fyrir ekki svo löngu var ég heilalaus
dró eldflugur letilega inn á milli tannanna tuggði úr þeim
hreint ljós þá var svo stór hluti af mér ekkert
að ég hefði passað í sykurmola líkami minn brann
eins og hlaða full af fjöðrum það logaði ekki í neinu
en samt var allt logandi villta mustarðsjurtin
fúnandi stóllinn á veröndinni kassi af fæðingarvottorðum að lokum
grænkar meira að segja sviðin jörð jafnvel þótt undir henni
njóti hinir dauðu enn lystisemda eigin heiftar forfaðir minn
var heilagur dervisi sagður stýra þykkri myrkri mjólkurá
undir heimabæ sínum fólkið hans var sannfært um
að hann hefði getað hlíft þeim við þurrki þau tættu hann í sundur
eins og ernir slíta í sundur snák fylltust samstundis
eftirsjá í stað þess að grafa hann grófu þau poka
af geitabeinum og lyngrós ilmurinn býr enn í hárinu á mér
augun í mér svört mjólk og tifandi snákstunga
ruglar þetta þig það er hægt að láta blekkjast á svo marga vegu
þumallinn á vigt slátrarans furðulegur blár kjóll
í baðkari nóttin sem lengist hægt ég biðst afsökunar
markmiðið var ekki einhver málsnilld ég sagði móður minni að ég myndi ekki lifa
út árið beið síðan eftir ógæfunni sat kátur
á holsteinum dregnum úr þurrkaðri tjörn skutlaði
jarðhnetum til íkorna það er ekki sagan sem hún segir hennar er full
af sælum goðsögum freyðandi stimplum og þrifalegum draugum
ætli það sé ekki satt að við lærum að elska verurnar sem við sköpum
sumar koma út með hringiðu í augasteinunum aðrar með tennur
Heimsveldið mitt
Heimsveldið mitt gerði mig
hamingjusaman því það var heimsveldi
og mitt.
Ég var of heimskur til að brjálast yfir neinu.
Börn gráta þegar þau fæðast, segir sagan,
af því að djöfullinn stingur þau til að gefa þeim forsmekk
að vitneskju.
Ég sat og strauk gyllta umgjörð mína, taldi
miska eins og tær:
hérna móðir mín, þarna hringurinn minn,
hérna kyn mitt, þarna konungur minn.
Allt á sínum stað. Bræði er þráin
til að endurgjalda allt sem þú máttir þola.
Ég kraup á myntum
frammi fyrir smáguðinum í speglinum.
Glórulaus eins og perla.
Að spámennirnir skuli hafa komið ekki til að lina þjáningar okkar
heldur upplifa þær hljómar eins og – má ég segja það?
– sóun?
Heimsveldið mitt gerði mig hamingjusaman
svo ég elskaði, fyrirhafnarlaust, borgara þess – slíkur kærleikur
er eins konar fæðing, forsmekkur að sársauka.
Allt sem ég fæ að vita reitir mig til reiði yfir að hafa fengið að vita það.
Nýju flugskeytin nema hjartslátt flugu
í húsarústum í 6000 mílna fjarlægð.
Það að fluga sé með hjarta, sem telur 104 frumur og slær.
Og vegna þessarar vitneskju:
húsarústir.
Spámennirnir komu til að taka þátt í þjáningu
eins og í tívolí, sem þýðir að
þjáning okkar er aðalskemmtiatriðið.
Í kynningarbæklingnum:
Harmur föður yfir dauða föður síns,
brotinn þyrnir í lófa.
Heimsveldið mitt gerði mig hamingjusaman
því það var heimsveldi, grimmt,
og þjáningin var ekki mín.
Kaveh Akbar er stjarna í heimi bandarískrar ljóðlistar um þessar mundir. Hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar, ásamt einróma lofi gagnrýnenda, fyrir ljóðabækur sínar, Portrait of the Alcoholic, Calling a Wolf a Wolf og Pilgrim Bell. Akbar er fæddur í Teheran í Íran og yrkisefni hans eru gjarna persnesk arfleifð hans, menning og trúarbrögð, auk þess hvernig það er að vera Bandaríkjamaður af persneskum uppruna. Einnig er hann berorður um eigin glímu við alkóhólisma og fíkn.
Skáldskapur hans er persónulegur, innblásinn, margræður og umfram allt sprottinn af lotningu fyrir því sem skáldið sér sem hið heilaga í mannssálinni og heiminum, án þess að veigra sér við því að takast á við það allra ljótasta og grimmasta. Akbar kennir við Iowa-háskóla og víðar í Bandaríkjunum, er ljóðaritstjóri hjá The Nation og með fastan dálk í Paris Review. Ljóð hans hafa m.a. birst í The New Yorker, The New York Times, Paris Review og Best American Poetry. Þá hefur hann haft frumkvæði að því að breiða út ljóðlist almennt, sérstaklega meðal yngra fólks gegnum samfélagsmiðla og á vefriti sínu Divedapper.
Kaveh Akbar heimsækir Reykjavík í september 2023 í boði Svikaskálda og Reykjavíkur, bókmenntaborgar Unesco.