Eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2022
Ducoados negro, hvítur draugur líður
upp í rjáfur á markaðnum, þrír, fjórir
karlar, þegja við barinn, reykja,
reykja, einmanalegt skóhljóð
milli yfirbreiddra bása
á lítið skylt við skellina áður, hlátrasköllin, hávaðann,
dynkina sem hljómuðu og bárust
milli veggja og upp í loft, hátt, hátt upp í loft
og niður aftur, margfaldaðir, margraddaðir,
blandaðir hrópum og köllum og nöfnum á ávöxtum
og grænmeti og hversu mörg kíló og hversu mörg grömm
og hvaða part af svíninu, lambinu, túnfiskinum, þorskinum
ferskjur, tómatar, kirsiber, sítrónur, möndlur, avokadó
og heill her af kjöti og kröbbum og kræklingum
litlum fiskum og stórum og óleyfilegum sílum
í allavega litum, allt undirleikur við dæmisögu
sem sögð er
af manni
á markaðsbarnum
skálar í rauðvíni,
umkringdur lærlingum
eins og helgur maður hafi stungið sér niður
í tíma og rúmi
flæða út úr munni hans orð
innbyrt, melt á japönsku
íslensku, spænsku, frönsku, ensku
orð
yfir gjá