eftir Pétur Gunnarsson
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2012
það var í árdaga
kapphlaupið yfir hnöttinn var hafið
leitin að allsnægtalandinu
eilífðarlandinu
landinu þar sem aldrei væri hungur
aldrei dauði
yfir illuklif
gljúfraþil
fúafen og svörtuskóga
öræfi, ólgandi höf
allt til enda veraldar
allsstaðar voru spor eftir fót
allsstaðar ummerki um menn
utan hér
umlukin fjarskanum
eyjan
ein í firrðinni
allsnægtalandið
eilífðarlandið
kafið í gróðri
iðandi af fugli
morandi í fiski
matarkista í miðju hafinu
spúandi eldfjöll
sjóðandi hverir
háfleygir jöklar
himinbláminn