Eftir Braga Ólafsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2011

 

Kæra eiginkona,

ekki láta börnin vita að ég hafi verið að lesa ljóðin eftir V. í flugvélinni til útlanda. Ekki segja þeim að pabbi þeirra hafi síðan freistast til að kaupa sér aðra bók eftir sama höfund þegar hann var kominn inn í borgina, í þetta sinn skáldsögu. Segðu þeim bara að hann, pabbinn, sé á ferðalagi vegna einhverra áhrifa sem hann varð fyrir þegar hann var ungur maður – notaðu einmitt slíkt orðalag: einhverra áhrifa – þegar hann var ungur og vitlaus, og fullkomlega grunlaus um hvað þessi áhrif myndu kosta hann síðar.

Þú mátt alveg láta fylgja sögunni – þau gætu haft gaman af því – að þegar pabbi þeirra kom inn á hótelið hafi tvö lítil börn staðið hlið við hlið í móttökunni, eins og einhver hefði skilið þau eftir, eins og þau hefðu verið dæmd til að búa á hótelinu það sem eftir var. Mér fannst ég greina í augum þessara barna eitthvert vonleysi sem ég hef aldrei orðið var við í augum barnanna okkar – segðu þeim það.

Svo máttu bæta við að pabbi þeirra hafi látið senda eftir hótelstarfsmanni þegar í ljós kom að ekki var hægt að slökkva á útvarpstækinu í herberginu. Og þegar ég opnaði fyrir honum hafi hann verið með stóra talstöð í höndunum sem hann notaði til að hafa samband við annan starfsmann á hótelinu; mér heyrðist hann vera að biðja um aðstoð við að slökkva á útvarpstækinu, líkt og hann hefði sjálfur ekki hugmynd um hvernig fara ætti að því, ekki frekar en ég. Og hann hafi ekki bara verið með þessa stóru talstöð og talað í hana, heldur gleymdi hann henni á náttborðinu þegar hann fór út; þegar honum hafði loks tekist að slökkva á útvarpstækinu. Þegar hann kom síðan aftur til að ná í talstöðina – segðu þeim það – hafi ég hrópað inn í eyrað á honum að þetta mætti aldrei endurtaka sig. Aldrei nokkurntíma, gerði hann sér grein fyrir því? Að minnsta kosti ekki á meðan nafnið mitt væri skráð í gestabók hótelsins.

Þú hefðir átt að sjá skelfingarsvipinn á aumingja manninum! Það var engu líkara en hann hefði verið dæmdur til ævilangrar dvalar með mér í herberginu. En slíkar áhyggjur voru auðvitað ástæðulausar, því þótt ég stæði þarna fyrir framan þennan svarta mann – því hann var svartur, að minnsta kosti í samanburði við mig – hafði ég í raun tékkað mig inn annars staðar. Og jafnvel þótt sá nýi dvalarstaður sé mun rúmbetri en hótelherbergið er ekki pláss fyrir neinn annan þar inni. Reyndar er ekki rétt að tala um „inni“ í því sambandi, því þar, í þeirri opnu víðáttu, er hvorki pláss fyrir hann, svarta manninn með talstöðina, eða þig eða börnin; á þeim slóðum næst ekkert samband gegnum talstöð – þar er ekkert náttborð til að leggja frá sér talstöð.

Og þar er ekkert anddyri. Engin móttaka.

Bestu kveðjur,
eiginmaðurinn.

Bragi Ólafsson

Bragi Ólafsson / Mynd: Hákon Bragason


 
 

Ljósmynd af stefnumóti Benedikts páfa og Forseta Íslands í Vatikaninu

 

Hægri helmingur myndar, með gulu veggfóðri og opnum dyrum 

Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur verið lokað tímabundið vegna breytinga á innréttingum. Hinir áfengu drykkir munu vísa þér veginn inn í hinn ölvaða alheim. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft. Það er á þriðju hæðinni; á þriðju hæðinni geturðu gleymt stund og stað – þar er hinn ölvaði alheimur. Á meðan Kína eykur hermátt sinn dag frá degi ríkir rómantískt andrúmsloft á þriðju hæð á Youngsun-bar. En þar er lokað tímabundið. Þar er lokað vegna breytinga á innréttingum. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft; hinir áfengu drykkir munu opna þér dyrnar að ölvuðum alheiminum. En hvar er vor heimur staddur á sínu hringsóli? Var manneskjunum ætlað að veita hver annarri liðsinni í þrautum sínum? Eru opnar dyr tákn fyrir eitthvað annað en það sem þær eru?

 

Vinstri helmingur myndar, með hvítum gluggatjöldum og forseta og páfa

Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur tímabundið verið lokað vegna breytinga á innréttingum. Ég er forseti Íslands. En ekki beint karakter í það starf. Svo ég er ekki forseti Íslands. Það er annar. Ég vex eins og blóm upp úr iittala-vasanum. Ég elti froskinn niður af borðbrúninni, ef við hefðum froska á Íslandi. Ég er sjálfur páfinn. Ef við hefðum páfa. Þannig að það er ekki. Ég fæ mér drykk á Youngsun-bar. Við höfum svoleiðis. Eitthvað mjög svipað. Eitthvað alveg eins. Á Youngsun-bar er lokað tímabundið, vegna breytinga á innréttingum. Vegna breytinga á tímanum. Það er verið að skipta um andrúmsloft; það er verið að sveigja það meira inn á línu hinnar sívölu mýktar, það er verið að gera það meira suave.