Þórður Sigtryggsson. Mennt er máttur: Tilraunir með dramb og hroka. Kaflar úr endurminningum. Vélritað hefur Elías Mar.
Omdúrman, 2011.
Þorsteinn Antonsson. Þórðargleði: Þættir úr höfundarsögu Elíasar Mar.
Sagnasmiðjan, 2011.
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2012
Tvær bækur eru til skoðunar sem báðar komu út án þess fyrir þeim væru barðar bumbur og kannski ekki við öðru að búast – þær skjóta kolli upp úr því beði í grasagarði mannlífsins sem lengst hefur verið þagað um vel og rækilega: í þeim reit spretta hommarnir, þeir samkynhneigðu. Og þær eru nátengdar. Elías Mar tók sumarið 1961 að skrá minningabrot, hugleiðingar og yfirlýsingar vinar síns og kennara í orgelslætti lífsins, Þórðar Sigtryggssonar, sem Þórður gaf það nafn sem nú er orðið bókarheiti: Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka. Elías vélritaði handskrifuð blöð sem Þórður færði honum og fjölfaldaði um leið með kalkipappír svo til urðu fjögur eintök eða fimm: þetta var íslensk neðanjarðarútgáfa, að nokkru leyti hliðstæð við Samizdat í Sovétríkjunum.
Af þessu handriti fóru margar sögur sem lifðu góðu lífi á litlu kveri eftir Elías sem Ragnar í Smára, frændi Þórðar, gaf út á sjötugsafmæli hans árið 1960 og hét Saman lagt spott og speki. En þar er að finna margt það helsta sem síðan er útfært í Mennt er máttur með ítarlegri, afdráttarlausari og háskalegri hætti: fagnaðarerindi nautnastefnu sem sameinar kynlífsfíkn (sjálfur kallaði Þórður sig stundum erótóman) nautnalífi í bókmenntum og tónlist – í bland við grimmt háð og níð um guð og menn, einkum nafngreinda íslenska menntamenn og skáld. Eins og Hjálmar Sveinsson, sem bókina gefur út, segir í greinargóðum eftirmála, þá þótti bæði Elíasi og fleirum texti þessi svo „bersögull“ (220) að enginn átti von á því að hann kæmi fyrir almenningssjónir í bráð.
Það sama má segja um margt í bók Þorsteins Antonssonar Þórðargleði. Þorsteinn tekur sér fyrir hendur að „leita mannsins“ Elíasar Mar, skoða hvernig hann varð til, en þó segist hann einkum hafa sett sér það markmið að leita „svara við spurningum um höfundarferil hans sem margsinnis hafa verið bornar upp en ósvarað hefur verið til þessa dags svo viðunandi hafi þótt“ (7). Þorsteinn á við það, að margir menn hafa, hátt og í hljóði, spurt að því, hvernig á því stóð að Elías Mar, sem fæddur var 1925, hafi frá tvítugu til þrjátíu og fimm ára aldurs verið atkvæðamikill rithöfundur sem samdi m.a. fjórar skáldsögur, en síðan lagt frá sér pennann um 1960 og fátt eitt skrifað síðan. Nema þá smásöguna sem er byggð upp sem samtal saklauss sögumanns við Þórð Sigtryggsson og fyrr var nefnd og þrjár ljóðabækur sem út komu áður en ævi hans lauk árið 2007. En eins og nefnt var heitir bókin Þórðargleði – eftir því sem á líður frásögn Þorsteins verður sá tilraunamaður með dramb og hroka æ fyrirferðarmeiri sem örlagavaldur í lífi Elíasar og eru samskipti þeirra rakin, ekki síst með ítarlegum tilvísunum í bréf sem fóru þeirra í milli. Þar er að finna „bersögli“ ekki minni en í Mennt er máttur og því hefði bók Þorsteins til skamms tíma verið svotil jafn ólíkleg á „jólamarkaði í ár“ og endurminningar Þórðar.
Ekki saklaus lesandi
Nú er að játa það, að sá sem fjallar hér í TMM um þessar bækur tvær er ekki saklaus lesandi. Ég þekkti allvel tilefni og innihald þeirra beggja. Eins og ég get um í kafla sem fjallar um Þórð Sigtryggsson í bók okkar Lenu Bergmann, Blátt og rautt, þá kynntist ég karli þegar ég var unglingur í Keflavík. Það var á heimili góðs vinar okkar beggja, Kristjáns Helgasonar píanóleikara og konu hans Elínar. Þórður mat Kristján, sem hann hafði tekið að sér átta ára gamlan og kennt músík, umfram alla aðra menn. Samband þeirra var svo undarlegt og hlýlegt (einkum ef haft er í huga þvílíkan strigakjaft Þórður brúkaði um flesta aðra menn) að enn í dag á ég erfitt með að viðurkenna í verki þá staðreynd sem þó við blasir: nú væri það samband sem Þórður átti fyrr á árum við Kristján sem tíu til sextán ára dreng hiklaust kallaður glæpur gegn barni.
En hvað um það: ekki hafði ég oft hitt Þórð á heimili Kristjáns og Elínar í kjallara Sjálfstæðishússins í Keflavík þegar alkóhólisminn varð Kristjáni að bana aðeins 37 ára gömlum árið 1954. Það sumar dvaldi Þórður hjá ekkju hans, sem var nær óhuggandi, og sýndi þá vel sínar skástu hliðar. Ég sat oft hjá þeim á kvöldin, eða gekk með Þórði um Keflavík, hlustandi eins og drengurinn í „Saman lagt spott og speki“ á glæsilega eða hrikalega sleggjudóma hans um heimsmenninguna og íslenska menntamenn. Þegar ég fór um haustið til náms í Moskvu hafði ég með mér nokkur heilræði Þórðar um listina að lifa og svo beiðni hans um að leita uppi fyrir hann ýmislega fágæta músík á nótum og plötum. [1] Næstu átta árin áttum við í ágætu bréfasambandi sem bæði tengdist músíkóskum hans sem mér fannst sjálfsagt að bregðast vel við og svo grimmum eða lofsamlegum orðsendingum hans um menn og málefni sem síðar gengu aftur í Mennt er máttur.
Þegar Elías fór svo að skrá „tilraunir með dramb og hroka“ var ég einn þeirra sem „teljandi voru á fingrum annarrar handar“ eins og Hjálmar Sveinsson segir í eftirmála sínum (220) sem fengu kaflana senda jafnóðum og Elías hafði gengið frá þeim. Elías hafði oft borið á góma á kvöldvökum hjá Kristjáni – og þá varð ég með ýmsum hætti var við afbrýðisemi sem flæddi á milli þessara tveggja lærisveina Þórðar. Sjálfur var ég að byrja að fylgjast með nýlegum skáldskap þegar Vögguvísu Elíasar bar fyrir mín augu, „fyrstu skáldsöguna sem var Reykjavík“ eins og Sigfús Daðason komst að orði í mín eyru. Og um hana og „fyrstu nútímasögu lýðveldsins“ eins og Hjálmar Sveinsson kallar frumraun Elíasar Eftir örstuttan leik [2] fjallaði fyrsta bókmenntaritgerð sem ég setti saman.
Elías hitti ég fyrst á ferðalagi til Búkarest á alþjóðlegt æskulýðsmót en kynntist honum betur á öðru slíku móti í Moskvu árið 1957. Þá kom í fyrsta sinn til tals að ég reyndi að þýða Vögguvísu á rússnesku og það gerðum við konan mín síðar. Okkur Lenu tókst að ljúka þýðingunni og semja um útgáfu – bókin var þegar um brotin og próförk lesin þegar útgáfufyrirtækið Inostrannaja literatúra hætti við allt saman. Við Elías fengum aldrei að vita hvernig á því stóð. En við urðum góðir vinir og um leið og ég sneri heim samstarfsmenn á Þjóðviljanum allt þar til það blað lagði upp laupana. Eins og að líkum lætur ræddum við margt, bæði um ritferil Elíasar og svo Þórð. Reyndar var haldið upp á sjötugsafmæli Þórðar og útkomu Saman lagt spott og speki í ágúst 1960 heima hjá Herði bróður mínum. Ég hafði þá skroppið heim í leyfi.
Viðstaddir þetta merkisafmæli vorum við Dóróthea mágkona mín, Elías, Ragnar í Smára og Málfríður Einarsdóttir. Þeir Elías, Ragnar og Þórður voru hver öðrum sælli með útkomu kversins og skiptu með sér upplaginu, 150 eintökum. Það var skálað í ódýru sherry og étin kaka. Ragnar kom okkur hinum á óvart í þessu gestaboði: hann hélt ræðu um að þeir frændur, Þórður og hann, væri af gyðingaættum. Enda hefðu engir nema gyðingar vit á að njóta lífsins eins og þeir! Okkur Elíasi bar saman um að þar hefði komið vel á vondan: Þórður hafði gyðinga mjög á hornum sér fyrir margt í trúarhefð þeirra sem honum fannst sér andsnúið. En eftir þessa hugvekju Ragnars brá svo við að hann dró eitthvað úr þeim munnsöfnuði, þótt Aþena með sínar grísku hommahefðir og Jerúsalem með boð og bönn um kynlífið væru sem fyrr hinar miklu andstæður sem margt í menningartúlkun Þórðar snerist um.
Tillitsleysi og æðruleysi
Ósköp eru á mér, var orðtak Hugborgar, móður Þórðar þegar hún hélt hún væri að svíkjast um – ósköp eru á mér: er ég ekki enn farinn að tala um þær bækur sem ég þykist vera að skrifa um?
Svo sannarlega er Mennt er máttur bók engri lík. Mér er mjög til efs að sá texti „falli eins og flís við rass alþjóðlegrar bókmenntahefðar og jaðarmenningar samkynhneigðra“ eins og Hjálmar Sveinsson heldur fram í eftirmála sínum (221). Vitanlega á allt sem skrifað er sér einhver fordæmi, en þessi blanda er á þann veg saman hrist að torvelt mun verða að benda á vafalausa ættingja hennar.
Bókina mætti kenna við hugleiðingar, fantasíur, stefnuskrá, jafnvel predikanir ekki síður en endurminningar – en sá þáttur er öflugastur fremst í bókinni. Þar er farið í stökkum yfir Reykjavík bernskuára Þórðar, hlaupið upp og niður virðingastiga þar sem efst tróna danskir kaupmenn og þeirra frúr, þar sem hver skal þekkja sinn stað þótt duttlungar kynlífsins, fals og snobberí valdi gjarna óreiðu í lagskiptingunni. Þessar lýsingar hafa þann annmarka, að sögumanni finnst óþarft að útskýra eitt eða neitt, það er sem Þórður geri ráð fyrir því, að þeir fáu sem kynnu að gægjast yfir öxlina á honum þegar hann stendur í þessum „prívatskrifum“ sínum, eigi fyrirfram reynsluaðgang að þessum heimi.
En þær eru bráðskemmtilegar, hraðinn mikill og ærslin og ríkar eru þær af fyndnum stórýkjum: „það var álitið mikil upphefð fyrir skáldið Einar Benediktsson að vera giftur náfrænku barnapíunnar hjá Thomsen“ (sem rétt áður er kallaður „einn voldugasti kaupmaður veraldar“ (7–8). Nokkru síðar fer gamanið að kárna. Kjaftasögusafnið sem Þórður hafði dregið saman fer að snúast um fjölskyldu biskups, einkum ramman hnút á kvennamálum biskupssonar. Um leið gerist Þórður æ óáreiðanlegri sögumaður og bregður sér síðan á gandreið í fantasíu þar sem níð og last um menn og æðri máttarvöld stíga hrikalegan dans þegar hann lætur persónur sinnar biskupssögu koma til himna og trufla með húsnæðisvandkvæðum sínum í nýrri tilveru geypilegt hómósexúelt kynsvall í hásölum Himnaríkis.
Ég tel líklegt að þessi svarta messa geymi rammasta guðlast sem sett hefur verið á blað – og minnir það í sjálfu sér á þann þátt í fari Þórðar sjálfs sem hann talar oft um og ekki án sjálfsháðs reyndar: Hann svífst einskis, ósvífnin er takmarkalaus. Hann heldur því fram snemma í bókinni að svo hafi alltaf verið: „Það verður ekki ofsögum sagt af eigingirni minni og annari skítmennsku. Ég hugsaði aldrei um aðra en sjálfan mig, átti ekki vott af tilliti til annarra, ekki vott af siðferðiskennd“ (27). Vitanlega eru þetta ýkjur eins og flest sem Þórður segir – allir taka visst tillit til annarra manna, þótt ekki væri nema til að þjóna sinni eigingirni! Og dæmið sem hann nefnir um tillitsleysi sitt þarna er fremur saklaust: hann kaupir fjórtán ára unglingur epli fyrir aleiguna og étur þau öll sjálfur – þótt hann efist um að móðir hans hafi þá átt aura fyrir brauði.
En bæði guðlastið, sem fyrr var nefnt, sem og staðhæfingar um nafnkennt fólk og einkamál þess sem dreift er um alla bók, ýta undir það að lesandinn finni ekki einungis sérkennilegt sjálfsháð að baki ítrekuðum staðhæfingum hans um það hve mikið fúlmenni og glæpamaður hann sjálfur sé. Svo mikið er víst að Þórður hefur tiltölulega snemma á lífsleiðinni ákveðið að hætta að vera rola og aumingi, eins og hann segir, og vinna sína sigra í kynlífi, listalífi og á umhverfi sem hlýtur að vera honum fjandsamlegt með því að vera reiðubúinn til að ganga fram af öllum með hrikalegum sleggudómum, afdráttarlausu lasti og miskunnarlausu níði. Stunda sínar „tilraunir með dramb og hroka“ jafnvel þótt það kunni að kosta einhvern lífið eins og hann gefur til kynna að gerst hafi í raun. Hann talar á einum stað um „svæsna tilraun sem endaði með dauða tilraunadýrsins“(71).
Lesandinn fær hinsvegar fátt að vita um það hvernig slík lífsstefna verður til. Hvernig til verður þessi íslenski Nietzscheaner sem vill lifa sterku lífi handan við gott og illt. Í ævisöguljóði eftir Elías Mar sem sá fyrst dagsljós fyrir jól er vikið að Þórði, „kaldhæðna öldungnum sem lífið hafði gert miskunnarlausan“. [3] Af því ferli fær lesand inn reyndar næsta stopular fréttir. Við fregnum af ætt Þórðar og uppruna og erum rækilega minnt á að hann er náfrændi Ragnars í Smára. Hann segir móður sína Hugborgu hafa verið fátæka og menntunarsnauða (23) og skömmu áður en bókinni lýkur segir að hún hafi borið „sorgir og þjáningar“ með „ró og stillingu“ (218).
Löngu fyrr var á það minnst að faðir hans, Sigtryggur Sigurðsson, hafi verið apótekarasveinn – hann átti auk Þórðar tvo aðra syni með Hugborgu, en kom á heimili sitt aðeins 4–5 tíma í viku og svaf alltaf í apótekinu. (29). Hvaða saga er á bak við þessar fátæklegu upplýsingar vitum við ekki – hverjar eru sorgir Hugborgar, hvers vegna vildi apótekarinn, sem var alinn upp hjá heldra fólki á Akureyri og í ætt við biskup og amtmann (22–23) ekki láta svo lítið að búa með barnsmóður sinni? (Elías Mar sagði mér að Sigtryggur hefði ekki gifst Hugborgu fyrr en á banasænginni). Lék stéttarhrokinn í bæjarkrílinu Reykjavík og kúgun kvenna lausum hala á bernskuheimili Þórðar – þótt hann svo vilji ekki halla orði á föður sinn?
Í annan stað: Ekki er að efa, að það hefur verið snúið fyrir ungan dreng nálægt aldamótunum 1900 að upgötva að hann var hommi. Á þeim árum mátti hver slíkur eiga víst að fá yfir sig níðþungt hlass fordóma, háðs, útskúfunar og grimms eineltis og var svo lengst af á nýliðinni öld. Við ræðum það síðar hvernig rekja má margt í grimmri dómhörku Þórðar til þessa hugarfars. En Þórður fjallar lítið um eigin reynslu af þessum ósköpum. Hann kvartar ekki. Öllu heldur stærir hann sig af því að hafa snemma komist í samband við unga menn sem höfðu hneigðir í sömu átt og hann sjálfur – og þar með snúið á hommahatrið með sínum hætti. En þótt við fáum jafnt og þétt lýsingar af kynlífi Þórðar er ótal margt hulduhrútslegt þegar hann segir frá eigin ferli. Hann lýsir því til dæmis af fágætri sparsemi hvernig hann árið 1912 (22 ára gamall) siglir til Danmerkur til að leita gæfunnar:
Í Kaupmannahöfn dvaldi ég í nokkrar vikur, í apríl og maí, án þess að finna gæfuna. En ég var næstum því dauður úr hungri. Það getur verið fróðlegt, þegar maður sveltur dag eftir dag, að horfa á allar kræsingarnar í sýningargluggum matarverslananna.
Dag nokkurn sá ég að blautri tvíböku var fleygt út um búðardyr, fyrir hund sem þefaði af henni án þess að éta hana. Mikið langaði mér í tvíbökuna. En stoltið varð hungrinu yfirsterkara og ég lét hana liggja.
Einn dag keypti ég karamellur fyrir tvo aura í sjálfsala og skipti þeim í margar máltíðir. Karamellurnar voru tvær og ósköp þunnar, en þær voru mér samt mikils virði (42).
En nú finnst Þórði nóg komið af harmatölum og hann hættir snarlega. Hann segist „í uppbót fyrir hungrið“ hafa fengið „að sjá heilmikið af konunglegri og keisaralegri dýrð Evrópu“ en þessa daga streymdu ættingjar dönsku konungsfjölskyldunnar til Kaupmannahafnar í tilefni útfarar Friðriks áttunda. Þarna bregður Þórður á leik í ærslablöndu af Séð og heyrt og níðangurslegum athugasemdum um þessa „heimskustu fjölskyldu Evrópu“ eins og hann kallaði jafnan frændur og afkomendur Kristjáns níunda. Svo tekur hann undir sig annað stökk og segist á leiðinni heim til Íslands í maí sama ár hafa fundið gæfuna með því að kaupa af bóksala í Edinborg „bestu bók veraldarinnar“ (43). Hann nefnir ekki bókina, en svo vill til að ég veit að þetta var frumútgáfa á samræðum Goethes við einkaritara sinn Eckerman.
Svona er Þórður. Sífellt að skipta um ham, aldrei allur þar sem hann er séður. Enginn mun átta sig á honum svo vel sé. Hann er ólíkindatól og afar óáreiðanlegur sögumaður eins og fyrr var nefnt – hvort sem hann talar um sjálfan sig eða aðra. Enginn veit hvenær hann fer með satt mál eða logið og stórýkjur eru fast einkenni hugsunarháttar hans og stíls. Í seinni hluta bókarinnar er hann til dæmis sífellt að gera hlé á dómum sínum um guð og menn til að segja frá glæsilegum uppáferðum sem hann stendur í um sama leyti og hann skrifar. Af þeim að dæma vinnur hann án afláts casanovísk afrek uppi á ungum strákum jafnt og stútungskörlum á Reykjalundi, en þar dvaldi hann síðustu átta ár ævinnar, enda gamall berklasjúklingur. Þennan tók hann þrjú hundruð sinnum, hinn enn oftar og einatt oftar en einu sinni í rykk. Kannski var Þórður „erótóman“ (eða kynóður) eins og hann sagði sjálfur – en hafi menn í huga að þegar hér var komið sögu var Þórður um og yfir sjötugt og var orðinn svo þungur á sér, mæðinn og fótfúinn að hann komst með erfiðismunum á milli húsa ef hann átti leið í bæinn.
Meira höfum við að byggja á ef við reynum að fiska upp úr textanum nokkur grundvallarviðhorf hans til lífsins. Mörg eru allrar virðingar verð, ekki skal draga úr því. Við sjáum oftar en ekki, að aðdáun hans eiga vísa manneskjur sem „þola mikið mótlæti án þess að bogna eða brotna“ (31). Síðar segir hann: „Mest af öllu dáist ég að úthaldi mannsins í baráttu hans við hörð, grimm og miskunnarlaus örlög“ og bætir við þeirri kenningu sem hann gerir að sinni að „örlögin reynast okkur vel ef við tökum þeim vel“ (81). Þetta er vissulega tilbrigði við exístensíalisma og svo Nietzsche – amor fati heitir þessi afstaða víst hjá honum.
Svipaðrar ættar eru vangaveltur Þórðar um að í grimmri lífsbaráttu hans sjálfs hafi hann alltaf „látið náttúruna ráða, en hún er hafin uppyfir það sem menn kalla gott og illt“. Handan við gott og illt, semsagt, Jenseits von Gut und Böse … Hér geta vaknað áleitnar spurningar: sá sem er handan við gott og illt setur sér reglur sjálfur og þá er fjandinn laus eða hvað? Nei – Þórður tekur kúrsinn burt frá þeirri áhyggju með því að hylla náttúruna, sem í hans meðferð er í senn náttúrulegt umhverfi okkar og þær hvatir sem ráða mennsku framferði: „Ég elska náttúruna í fegurð hennar, yndi og blíðu, en tigna hana í ógnum hennar og skelfingum. Mikið finnst mér það fólk heimskt og takmarkað sem ekki getur hrifist af dramatískum atburðum. Ég fyrirlít þessar mannskepnur sem vilja að mannlífið sé eintóm sætsúpa“ (81).
Ég skýt því að, að um þessi efni áttum við bréfavinirnir samleið sem kom fram í aðdáun á Dostojevskij. Hinar miklu og hrikalegu stundir og augnablik þegar allt hrynur, allt er glatað, sem meistarinn rússneski sífellt etur persónum skáldsagna sinna út í til að þær sýni allt sem í þeim býr, reyndust mér heillandi viðfangsefni þegar ég var við nám í rússneskum bókmenntum. Og sömu þættir urðu til þess að Þórður fyrirgaf Dostojevskij það að hann í „grimmri baráttu fyrir tilverunni“ leitaði skjóls hjá Kristi og kirkju hans. Hann sagði líka í einu bréfa sinna til mín: „Menn þurfa ekki alltaf að vera fábjánar þótt þeir séu trúhneigðir.“ [4]
Í sömu lotu talar Þórður, eins og oft fyrr og síðar, um það að hann hafi glímt við tilveruna með því að fremja „óslitna röð af glæpum“ sem hann þó ekki iðrist því „án þeirra hefði ég gefist upp og orðið að ræfli og aumingja“ (81). Hér er þó ekki öll sagan sögð. Þórður hefur fundið sér lífsviðhorf sem á að réttlæta ómælda „frekju og ófyrirleitni“ sem hann bregður fyrir sig. En hann hefði samt viljað kjósa sér annan hlut eins og þessi merka játning sem næst fer gefur nokkra hugmynd um:
En þótt ótrúlegt megi heita er útlenda orðið Resignation fegursta orð sem ég þekki og fólkið sem resigneraði í baráttunni fyrir tilverunni – en lifði og dó með hreinan skjöld, án þess að fremja glæpi – er í mínum augum vafið dýrðarljóma og algjörlega ónáanlegt fyrir mig og mína líka (82).
Það er í þessu tali viss örlagahyggja – ég er dæmdur til að vera eins og ég er og þá reyni ég ekki annað. Ég næ því aldrei að vera eins og þeir sem bera hreinan skjöld. Ég er líkast til einn þeirra sem verður að forherða sig og beita hæpnum ráðum („glæpum“) til að kikna ekki undir ógnum og hörmungum tilverunnar (sjá m.a. 104).
Fagnaðarerindi og reiðilestur
En hvað verður í hugmyndakerfi Þórðar annað en æðruleysið manneskjunni til bjargar andspænis skelfingum tilverunnar? Svarið er hans skilningur á lífsnautninni frjóu. Þar fer saman tvennt. Annarsvegar nautn sem tengist því að lifa af heilum hug í tónlist, skáldskap og myndlist sem og þeirri fegurð sem ekki er af mönnum gerð. Þessi listadýrkun gerir vart við sig í hverjum kafla og hana telur Þórður sjálfum sér meir til tekna en nokkuð annað – dramb hans finnur sér einkum réttlætingu í því hve langt hann hafi komist í að kynna sér fagrar menntir og hve ómerkilegt honum flest annað er. Og þetta er vafalaust það einkenni Þórðar sem laðaði menn og konur að hans undarlegu persónu.
En lífsnautn í listum var honum aldrei afmarkað svið og síst af öllu einhver skýjadans andans ofar holdi og jörðu. Nautn í listum og kynlífsnautn voru honum eitt og sama markmið og réttlæting á amstri hans undir sólunni, fagnaðarerindi hans. Allt var samofið í einskonar panerótík. Í hans huga voru verk eftirlætistónskálda hans eins og Mozarts og Chopins upprifjun á samförum, lofgjörð um kynlífsundrið mikla. Ave verum corpus er ekki kirkjumúsík, sagði karlinn við mig einhverju sinni, þetta er þakklæti til konu Mozarts fyrir vel heppnaða ástanótt. Í Mennt er máttur segir hann m.a. um þessa samofnu nautnahyggju sína: „Að hafa lesið Marcel Proust og kynnst Kristjáni Helgasyni eins vel og ég gerði er eitt og hið sama“ (50).
Þessi blanda listnautnar og holdsins munaðar verður svo í útfærslu Þórðar að undarlega sjálfumglöðum rétttrúnaði, sem er allt eins líklegur til að hrella menn eða særa sem annars gætu vel kunnað að meta kosti hans. Þórður er ad nauseam óspar á afdráttarlausar yfirlýsingar um það, hve langt hann sé yfir aðra menn hafinn vegna kynna sinna af snilldarverkum sem aðrir hafa enga burði eða vilja til að þekkja – né heldur hafi þeir rétt til þess! Hann er aðdáandi Halldórs Laxness en samt óspar á yfirlýsingar um að sá aumi bóndasonur úr Mosfellssveit hafi engan rétt til að lesa hámenningarhöfund eins og Marcel Proust! (51) En þar á ofan gerir hann einmitt sitt hómósexúala kynlíf að hinni sönnu nautn, æðri miklu en paufið á körlum og konum. Og þeirri upphafningu fylgja allskonar svakalegar yfirlýsingar um að það eina sem geti gefið allskonar drullusokkum (eins og íslenskum menntamönnum) tilverurétt sé það, að hommar eins og Þórður Sigtryggsson „ríði þeim vel og lengi“ (47).
Hér er komið að því sem mörgum lesanda mun vafalaust þykja hvimleiðast við hugleiðingar Þórðar Sigtryggssonar. Hann ekki aðeins boðar hátt og snjallt sitt fagnaðareindi: Chopin, Proust og aðrir útvaldir snillingar+hommakynlíf. Honum finnst að auki að hann verði að verja það með kjafti og klóm. Því ver hann miklum hluta texta síns til að ráðast að öllum sem hann telur andvígan sínum fagnaðarboðskap eða lítilsvirða hann með einhverjum hætti. Og það gerir hann af svo grimmri heift og þráhyggju að líklegt er að fleiri en einn og tveir heimfæri upp á Þórð það sem sagt var um skáldið Byron: he is mad, bad and dangerous to know.
Bókin er troðfull af níði um prestsskepnur og læknabyttur, ólæsa fábjána sem kalla sig skáld, sálarfábjána, hinumegindellufólk, passíusálmakerlingar, trúfífl og mannkynsfrelsara, skírlífisskítmenni – og flest af þessu „drulli“ tilheyrir svo einni stórri og skelfilegri þjóð sem síst á sér viðreisnar von og kallast íslenskir menntamenn. Tónninn er ágætlega gefinn upp í kafla XXIV en þar segir m.a:
Eins og allir vita hafa þessi ógeðslegu skítmenni sem leiðinlega geggjað fólk kallar mannkynsfræðara og frelsara, fyrirskipað manninum að fyrirlíta jörðina, öll hennar gæði, og skammast sín fyrir líkama sinn“. Sjálfur segist Þórður svo vera fyrsti Íslendingurinn sem hafi „hugrekki og karlmennsku“ til að „ganga í berhögg við dellu þessarra ógeðslegu skítmenna og „lifa því lífi sem náttúran bauð þeim (105).
Í framhaldi af þessu gengur hann til slátrunarverks. Einna oftast verða þeir fyrir exi hans sem svíkja það „sem náttúran bauð þeim“. Það geta verið hommar sem ekki kannast við eðli sitt – til dæmis telur hann að Jóhannes Kjarval hafi málað „skilirí fyrir stássstofur smáborgara“ og orðið í hegðun allri einskonar tilbrigði við Óla Maggadon vegna þess að hann hafi í rauninni verið hommi og ekki staðið við það (76). Þórður reynir að stugga stúlkum frá lærisveini sínum Elíasi Mar og hefur hin grimmustu orð um að Elías sé hundrað prósent hommi sem svíki lit með því að þykjast hafa áhuga á kvenfólki til að þóknast öðrum. Meira um það síðar.
Í annan stað eru þeir menn allir „skríll og illþýði“ sem „hneykslast á kynlífinu í hvaða mynd sem er“ (47 og víðar). Því fyrirlítur hann Lev Tolstoj fyrir ótta hans við kynlífið og Bernhard Shaw sem stærði sig af þvi að hafa aldrei farið upp á konuna sína [5]. Hatur á trúarbrögðum er líka mjög tengt því að í þeim (gyðingkristilegri hefð a.m.k.) er kynlífið einatt gert syndsamlegt, hómósexúalitet að glæp og skírlífi að dyggð. „Allir skírlífir menn eru skítmenni“ segir Þórður í bréfi til Halldórs Laxness sem fellt er inn í textann (186) og á þá m.a. við gamlan vin Halldórs, þann elskulega barnabókahöfund Jón Sveinsson (Nonna).
Trúarbrögðin eru í túlkun hans vesæll flótti undan þeirri köllun að menn njóti lífsins og eymd „íslenskra menntamanna“ einkum í því fólgin, að þeir geti ekki „rolast gegnum fábjánatilveru sína“ án þess að eiga von á hinumegindýrð. Hann eys sér líka yfir alþjóðlega frægðarmenn sem hafa látið undan fargi og leitað áður en lauk á náðir trúar. Oscar Wilde fær ekki stuðning sem ofsóttur félagi Þórðar í Homintern heldur megna fyrlitningu fyrir að hafa endað „í skítnum fyrir neðan krossinn“. Heinrich Heine sleppur ekki við formælingar fyrir að hafa í krankleika sínum í Parísarútlegðinni „beðið Jehóva fyrirgefningar á öllu sem hann hafði gott gert“. [6]
Nokkrir eru þeir menn sem fá á baukinn fyrir að láta eitthvað neikvætt sér um munn fara um hómósexúalisma eða jafnvel fyrir það eitt að vita lítið um það fyrirbæri. Mér dettur það helst í hug þegar ég sé hjá karli fyrirlitningartal um „eitthvað sem heitir Thor Vilhjálmsson“ (74) að þar sé um að ræða viðbrögð hans við setningu í litlum þætti í bók Thors, Andlit í spegli dropans. En þar er talað um að „þá lygi sem er kjarni kynhverfingalífsins þar sem náttúran hefur logið að sjálfri sér“.[7] Vel getur verið að lítilsvirðingar um annað skáld sömu kynslóðar, Hannes Pétursson, (52) eigi sér helst forsendu í aðdáun Hannesar á skáldinu Rilke, sem Þórður telur „ómerkilegasta gelding heimsbókmenntanna“ [8] – meira þurfti ekki til.
Hliðargrein af reiðilestri yfir þeim sem ekki lifa í merkri list og kynlífi er ómæld fyrirlitning á brennivínsdýrkun sem vitanlega hefur verið meiri en nóg hjá löndum Þórðar, menntamönnum sem öðrum. Að taka þennan „ómerkilegasta fátækradrykk veraldar“ fram yfir ágætar bækur og tónlist er höfuðsynd sem ekki er fyrirgefin. Skondin er frásögn Þórðar af því þegar einhver kunningi hans týndi öðru bindi „bestu bókar heims“ sem hann hafði lánað honum og Þórður lét hann þá borga morð fjár í skaðabætur með mánaðarlegum afborgunum. Hann bætir við: „Mikið er gaman að geta gefið íslenskum menntamönnum, skáldum og rithöfundum utan undir með því að virða eina bók hærra en eina brennivínsflösku“ (43).
Ræða Þórðar er öll já já og nei nei og hún miðast öll við viðhorf og þarfir hans sjálfs. Eins og lasti getur hann hlaðið á menn ómældu lofi ef hann þykist sjá í þeim samherja um einhverja grein síns fagnaðarerindis. Þeir menn eru óviðjafnanleg mikilmenni eins og hann jafnan kallar æskuvin sinn Erlend í Unuhúsi og bætir því við að hann „sé ekki þess verðugur að nefna nafn þessa mikla göfugmennis“ (217). Sumir fá stundum að heita snillingar en stundum eitthvað allt annað eins og Halldór Laxness. Frá öllu eru frávik: hvað sem öllu níði um trúmenn líður átti Þórður til að játa að sumir menn hafi lifað stórmerkilegu trúarlífi. Hann viðurkenndi fúslega að ungur ástvinur hans sem veslaðist upp úr holdsveiki hafi sannarlega þurft á trú á annan heim að halda: „mikið hafði maðurinn þjáðst“. [9]
Íslenskir menntamenn voru rolur og fábjánar – en þó ekki Jón prófessor Helgason eða Þorsteinn Gíslason. Af hverju Þorsteinn? – Jú, hann „sagði sálmaskáldunum að éta skít“ (93) – og var þar með orðinn bandamaður Þórðar. Af hverju lætur hann Árna Bergmann sleppa við skammir fyrir það að umgangast allskonar menntamannadrull? Vegna þess að hann var svo „fínn mannþekkjari“ að hann „var fljótur að átta sig á yfirburðum hins gáfaða og göfuga Kristjáns Helgasonar“ (204). Með öðum orðum: reyndist besta vini Þórðar vel. Vel á minnst Kristján: allir fá í texta Þórðar skarpa skömm fyrir drykkjuskap, nema einmitt Kristján, Kristján er aldrei „fyllibytta“, hann hefur barasta „mannlega bresti“ (204).
Það er vafalaust rétt sem Hjálmar Sveinsson segir í eftirmála, að þá heift sem einkennir alla málsvörn Þórðar fyrir sínu lífi má rekja til „bælingar kynhneigðarinnar sem hann fann sterkt fyrir í íslensku samfélagi“ (221). Það var eins og fyrr var nefnt ekkert gamanmál að vera hommi í litlu og fordómafullu samfélagi og rökrétt að líta svo á að reiðilestur Þórðar sé hefnd hommans fyrir ótal margt sem á hlut hans líka hefur verið gert. Ofsinn í karlinum er alloft fyndinn, einkum ef visst sjálfsháð er látið fylgja með. En fordæmingarþulan verður þegar til lengdar lætur staglsöm og um leið skelfing fyrirferðarmikil í textanum. Mér finnst allt þetta gera þá sjálfsmynd sem karlinn skilur eftir sig fátæklegri og einhæfari en efni stóðu þó til. Og oftar en ekki særir hann sárasaklausa lifendur og dauða með þeim hætti að engin ástæða er til að afsaka það. [10]
Ég vil vera með
Að vísu getur maður spurt sig að því, hvort Þórði hafi verið full alvara með þeim orðum að hann sé einungis „prívathöfundur“ sem þurfi ekki í neinu að taka tillit til þess sem almenningur gæti lesið, enda mundi texti hans aldrei koma fyrir sjónir nema örfárra útvaldra (sjá 33). Það er ekki gott að vita: kannski gerði hann í senn að langa til þess að til hans heyrðist um leið og hann gerði ráð fyrir því að af því yrði ekki, a.m.k. ekki um langan aldur. Þórður var maður hégómlegur, á því er enginn vafi, og vildi með einhverjum hætti koma sér fyrir í lífi annarra – eða bókum þeirra. Þar vildi hann eiga sitt framhaldslíf. Hann lét til dæmis að því liggja við mig að hann vildi að ég skrifaði einhverntíma um sig og það gerði ég reyndar í Blátt og rautt. Samskipti hans við Halldór Laxness skal ég einnig nefna sem mögulega skýringu á því hvað honum gekk til þegar hann beitti fyrir sig geypilegu lofi og lasti á víxl.
Þórður var gamall kunningi Halldórs úr Unuhúsi. Erlendur var mikill vinur beggja og bæði hann og Þórður lögðu sitt til persónu Organistans í Atómstöð Halldórs. Þórður kallar Halldór einatt stórskáld og mesta skáldsagnahöfund sem nú er uppi (51) og lofar hann ekki síst fyrir að vera „eini maðurinn í heiminum sem var boðlegur og samboðinn“ Erlendi (217). Bætir því við, að án Halldórs hefði líf Erlendar verið algjörlega misheppnað því „allir menn aðrir en Halldór voru honum aðeins til leiðinda og vonbrigða“ (125). En í næstu andrá (eins og sést af þeim bréfum Þórðar til Halldórs sem felld eru inn í textann) er hann meira en fús til að sýna Halldóri stráksskap allskonar. Sproksetja hann fyrir að vera sveitamann sem ætti að kæra fyrir að reyna að lesa Marcel Proust, vorkenna honum sem aumum „almenningsrithöfundi“ sem verði að sitja og standa eins og skrílnum þóknast (33, 96 og víðar).
Í einu bréfi segir: „Maður sem á ekkert bókasafn, ekkert listasafn, enga tónlist frábrugðið því sem gerist á sveitaheimilum og hjá smáborgurum í Reykjavík hefur ekkert að bjóða Þórði Sigtryggssyni annað en bílstjórahæfileika sína“ (88). Því næst býður Þórður Halldóri að hann fái að keyra sig hvert á land sem er – og þykist ætla að taka af skáldinu borgun fyrir heiðurinn sem hann sýnir honum! Síðar í bókinni segir hann: „Eins og allir vita hafði Halldór sálugi Laxness ekki vit á að þiggja hið ágæta tilboð mitt um að gerast einkabílstjóri minn. Þar með var ég fyrir fullt og allt laus við þennan hræðilega sveitamann“ (180).
Til hvers er þessi leikur allur? Kannski er þetta barasta gamansamt tilbrigði við stefið „tilraun með dramb og hroka“ og hafi þá báðir þessir vinir Erlendar í Unuhúsi komist að þegjandi samkomulagi um að skemmta sér við frekjutaktana í Þórði? En Þórður ætlar sér fleira. Ég vitna í því sambandi í tvö bréf frá honum til Halldórs sem ekki eru í bókinni en hann sendi mér á sínum tíma afrit af. Í bréfi frá 8.04.1956 segir hann kumpánlega við verðandi Nóbelsskáld: „Viðhorf okkar eru svo ólík að um samband eða samleið getur ekki verið að ræða. En reynslan hefur sýnt að ekkert getur til lengdar skyggt á gagnkvæma aðdáun okkar.“ Í bréfi sem hann skrifar 25. jan. 1961 – hálfu ári eftir sjötugsafmælið fræga, kemur hann svo enn betur upp um sig. Þar segir:
Ég get ekki lengur sætt mig við að svara „Ekkert“ þegar fólk spurði mig, hvað þú hefðir gefið mér í afmælisgjöf á sjötíu ára afmæli mínu. En nú er allt í lagi. (Þórður hafði í upphafi bréfs þakkað Halldóri fyrir að bjóða honum í Gljúfrastein um nýliðin áramót og gefa honum plötu). Mikið er ég þér þakklátur fyrir að hafa ekki skrifað um mig í blöðin við það tækifæri. Engir aðrir en hégómagjarnir borgarar sækjast eftir þessháttar. En ég skal viðurkenna að ég hefði þegið að þú hefðir tileinkað mér Paradísarheimt. – En með bók sinni Saman lagt spott og speki, merkasta riti sem út hefur komið hér í heimi síðan árið 1781 þegar Kant gaf út Kritik der reinen Vernunft – hefur Elías Mar bætt mér það upp.
Leikurinn og ólíkindalætin eru á sínum stað – en á bak allt það sér í von um að aðdáunin á stórskáldinu sé endurgoldin (gagnkvæm) og nokkur vonbrigði með að Halldór skyldi ekki spandera tileinkun á Þórð á Paradísarheimt, sem nýkomin er út. Hann vill láta muna eftir sér, hann vill í rauninni fá um sig afmælisgrein, hann vill þrengja sér inn í hug annarra og bækur þeirra eins og fyrr segir. Hann vill skipa stærri sess í sögu Nóbelsskáldsins en vera lítt þekkt fyrirmynd að Organistanum, en eins og margir vita breyttist Organistinn mjög áður en Halldór lauk við Atómstöðina og varð þá mun líkari Erlendi en Þórði. [11]
Í bréfinu sem nú var vitnað til var Halldóri undir lokin ögrað með stórbrotnu oflofi um Elías Mar fyrir að skrifa sögu um Þórð. Þar með er komið að öðrum leik með lof og last sem er sýnu alvarlegri en sá sem nú var nefndur.
Af hverju fór sem fór?
Þórðargleði heitir bókin sem Þorsteinn Antonsson hefur „ritað og saman tekið“ – og þó er bókin um persónu og feril Elíasar Mar.
Nú er því að heilsa að þetta er önnur bókin sem skrifuð er um Elías á stuttum tíma. Fyrir fjórum árum gaf Hjálmar Sveinsson út ágæta bók um skáldið sem nefnist Nýr penni í nýju lýðveldi og byggir bæði á samtölum við Elías síðustu ár ævi hans og svo athugunum Hjálmars á skáldsögum hans, sem góður fengur er að. Í þeirri bók kvarta bæði Hjálmar og Elías sjálfur yfir því, að hann sé fallinn í gleymsku. Þeir byrjuðu á að snúa því dæmi við og nú heldur Þorsteinn Antonsson áfram – ekki aðeins með Þórðargleði heldur og allmiklu safnriti sem kom einnig út fyrir jól og heitir Elíasarbók. Hún geymir sögur og annan prósa eftir Elías sem ekki hafa áður komið á prent en einnig ljóð áður óbirt. Verður mörgum vafalaust mest forvitni á að lesa langan bálk og tregafullan sem segir frá sælu vinfengi og erfiðum vinslitum skáldbræðranna Guðbergs Bergssonar og Elíasar Mar. [12]
Bækur Þorsteins og Hjálmars eru um margt ólíkar. Hjálmar byggir mikið á samtölum við Elías sjálfan. Þorsteinn hefur einnig setið á tali við okkar mann en byggir mest á minnisbókum, dagbókum og bréfum sem Elías lét eftir sig – en hann var einn þeirra manna sem fáu henti og hafði góða reglu á öllum pappírum. Báðir skoða þeir persónuna Elías, en Þorsteinn gerist mun nærgöngulli við hann eins og senn verður vikið að – árekstrar allir og harmar verða mildari í Hjálmarsbók af þeirri einföldu ástæðu að Elías dæmir þar sjálfur úr fjarlægð ellinnar menn og athafnir og hann er maður umtalsfrómur. Hjálmar leggur áherslu á stöðu Elíasar í bókmenntaheimi, á þau tíðindi sem verk hans sættu. Þorsteinn hefur hugann meir við sögu Elíasar sjálfs – sem og við það að finna svör við því hvers vegna Elías hætti að mestu að skrifa hálffertugur, eins og fyrr var vikið að.
Í fyrri hluta Þórðargleði segir frá bernsku og uppvaxtarárum Elíasar, móðurleysingja og lausaleiksbarns sem elst upp hjá ömmu sinni við gæsku og fátækt, skólagöngu sem lýkur í Kennaraskólanum, unglingaástum sem og því, hvernig Elías byrjar að fikra sig áfram á skáldabraut. Þorsteinn hefur þann sið að vitna mjög ítarlega í heimildir – mest minnisblöð ýmisleg frá Elíasi sjálfum, sem hugðist reyndar á efri árum skrifa bók um ömmu sína og hafði dregið margt til hennar. Ef til vill hefði mátt fara sparlegar með þau gögn, sem og bréf sem síðar eru mikið notuð, en þau hafa þann ótvíræðan kost að koma lesandanum í sterka nálægð við persónur og tíðaranda. Ég nefni til dæmis skondinn palladóm um Elías eftir skólabróður hans í Kennaraskólanum, þar sem við fréttum ýmislegt um ungan mann á sannleiksleitarróli einhversstaðar á milli Marx og kaþólsku kirkjunnar – allt undir yfirþyrmandi áhrifum frá Halldóri Laxness.
En fróðlegast fyrir framhald þessa ferils er upprifjun á feiminni hrifningu Elíasar af ungri stúlku, Jóhönnu Þorgilsdóttur, sem heldur fyrir honum vöku unglingsárin og reyndar fram yfir tvítugt. Bæði vegna þess að þessi óframfærna ást úr vandræðalegri fjarlægð gengur aftur í skáldsögu Elíasar Man ég þig löngum – og svo segir hún sína sögu um erfiða óvissu Elíasar um sína kynhneigð. Hann kvaðst hneigjast að báðum kynjum, vera bísexúel – lék sér reyndar stundum að orðaleiknum: to be or not to be bí… Og það er Jóhönnusagan sem staðfestir það ágætlega að hann fer með rétt mál – og verður um leið röksemd gegn þeirri ásökun Þórðar Sigtryggssonar, að Elías hafi þóst hafa áhuga á stúlkum bara til að blekkja „þann ógeðslega skríl“ sem hann umgengst (139–141).
Hitt er svo vert að muna, að bísexúalitet Elíasar er ekki einhverskonar helmingaskipti: það eru strákarnir sem hafa betur. Og hér kemur fyrr eða síðar að Þórði, sem amma Elíasar hafði fengið til að kenna drengnum á orgel. Þórður sat á strák sínum allt þar til amma Elíasar var látin og hann 17 ára en þá tóku þeir félagar upp ástarsamband sem lengi stóð. Þórður var 34 árum eldri – og sá gjarna í sambandi þeirra Elíasar gamalt grískt mynstur – samband meistara og lærisveins, sem um leið er erótískt og Þorsteinn gerir nauðsynlega grein fyrir (146–149). Þorsteinn rekur ekki tíðindi af þeirra samskiptum fyrr en komið er fram um 1950. Verður þar þá römmust lesning tilraun Þórðar til að hrekja frá Elíasi vinkonu hans með því að skrifa henni meir en nóg um kynni þeirra Elíasar. En Þórður beitti þeirri aðferð oftar en ekki þegar hann vildi „allt eða ekkert“ í sambandi við unga menn að hrekja frá þeim kærustur með sönnum eða upplognum sögum af því hve rækilega hann hefði notið strákanna. Þetta bréf sætir einna mestum tíðindum í þeim bardaga með lofi og lasti sem Þórður á í um og við Elías og þá sem hann umgengst.
Þorsteinn Antonsson kemst að þeirri niðurstöðu að þarna sé að hefjast stríð sem verði svo með ýmsum hætti helsta orsökin fyrir því að Elías hættir að skrifa. Þorsteinn veit vitanlega að margt fleira kemur til greina og getur þess eins og síðar verður vikið að. En þegar allt er saman tekið verður Þórður hjá bókarhöfundi helstur sökudólgur í þessum efnum – og þá ekki síst samstarf þeirra Elíasar um texta þann sem Elías skrifaði upp og birtur er í bókinni Mennt er máttur. Þorsteinn segir m.a. að eftir ýmsar sviptingar í einkalífi Elíasar hafi „kennari hans í erótískum málefnum“ þ.e.a.s. Þórður, náð „á honum taki sem Þórður sleppti ekki síðan meðan báðir lifðu. Á sjötta áratugnum batt Þórður Elías með ritun ævisögunnar tilfinningaböndum sem síst gátu talist gæfuleg manni með sjálfstæðan höfundarmetnað“ (120).
Ekki get ég fallist á þetta. Ritun ævisögunnar tekur ekkert frá Elíasi sem höfundi – annað en tíma, ekki svo ýkja mikinn. Elías virðist ekki hafa lagt neitt til textans sem heitið geti, ekki breytt neinu af því sem Þórður kom með til hans til skráningar. Að auki hefst ritun þess texta sem gefið var nafnið „Menn er máttur“ ekki fyrr en 1961 – á sjöunda áratugnum. Hitt má svo vel telja líklegt, að Þórður hafi með frekri afskiptasemi af högum Elíasar haft drjúg lamandi áhrif á sjálfstraust hans til ritverka. Um þetta stríð tilfærir Þorsteinn bréf sem ganga á milli meistara og lærisveins á árunum 1950–1952. Í þeim neytir Þórður allra bragða í leik sínum með heimtufrekju, lof og last. Sem fyrr segir reynir hann miskunnarlaust að rjúfa tengsli Elíasar við kvenfólk. Meira en svo: hann þreytist ekki á að útlista hve lélegir og ómerkilegir svo til allir menn séu sem Elías umgengst, svo aumir reyndar að Þórður geti varla verið þekktur fyrir að þekkja mann sem er í svo ömurlegum félagsskap. Um leið eys hann Elías lofi sem ástmann; eitt dæmi af mörgum er „þú ert í mínum augum besti, fegursti og yndislegasti elskhugi heimsins“ (144). Á hinn bóginn gerir Þórður margoft lítið úr Elíasi sjálfum – fyrir ætt og uppruna, menntunarskort, drykkjuskap, skort á hugrekki til að bjóða almenningsálitinu byrginn. Á einum stað segir karlinn: „Allt sem heitir bókmenntaleg eða listræn menning er þér óeðlilegt og fjandsamlegt“ (165). Hitt gæti verið verst, hve lítið hann gerir úr Elíasi sem rithöfundi – en hann er um þetta leyti að vinna sinn besta sigur með Vögguvísu og hefur gefið út alls fimm bækur á stuttum tíma. Þórður lætur til dæmis eins og hann geri Elíasi mikinn greiða með því að taka við bókum hans: „Ég skal þiggja einhverja af bókum þínum þegar ég hefi faðmað þig þúsund sinnum með góðum árangri“. Og í bréfi til vinar Elíasar sem hann hlaut að sjá segir Þórður: „Er nokkur sanngirni í því að ætlast til að að ég, sem svo að segja frá barnsaldri hefi notið þess besta og fullkomnasta sem til er í listum og bókmenntum, fari nú á gamalsaldri að eyða tíma í að lesa bækur óþroskaðra og lítt menntaðra unglinga?“ (133).
Stundum slær Þórður í aðra sálma, mildar dóma sína, segir t.d. að hann geri sér grein fyrir eigin frekju og yfirgangi og að hann hafi sjálfur alltaf verið í miklu betri aðstöðu en Elías til að „bjóða þjóðfélaginu byrginn og sýna almenningsálitinu fyrirlitningu“ (142). Og þegar Elías skrifar söguna frægu um hann sjálfan – þá er það vitanlega mesta snilldarbók sem, sett hefur verið saman síðan Immanúel Kant leið! En sama er: þetta er, þegar á heildina er litið, hin versta meðferð. Og hún kemur ofan í kaldar orðsendingar frá öðrum áhrifamanni í lífi Elíasar – útgefanda hans Ragnari í Smára. Ragnar hefur, eins og Þorsteinn rekur ítarlega, skrifað skjólstæðingi sínum, ungum og efnilegum rithöfundi, fýlubréf þar sem hann fer háðulegum orðum um tvær skáldsögur hans – og er önnur Vögguvísa sem Ragnar áttar sig bersýnilega ekkert á. Ragnar gengur svo langt í lítilsvirðingunni að tala um að kannski ætti Elías að koma sér í kynni við útgefanda sem ekki gefur út bækur til að selja öðrum „heldur lætur gera þær handa sjálfum sér eins og málverk sem enginn utan eigandinn fær nokkurntíma augum litið“ ( 95).
Samt er enn engan bilbug á Elíasi að finna. Hann heldur áfram ótrauður og lýkur fyrra bindi hinnar stóru skáldsögu sinnar, Sóleyjarsögu, sem út kemur 1954. Að vísu á hann í brösum við að ljúka síðara bindi og fá Ragnar til að standa við sitt – það kemur ekki út fyrr en 1958. En þá er líka að uppgjöf einskonar komið. Þorsteinn rekur það eftir góðum heimildum, að Elías verður fyrir sönnum vonbrigðum með alla útgáfuog viðtökusögu þessarar skáldsögu, sem hann lagði mikinn metnað í og vonar sjálfur að sé „einhver heiðarlegasta tilraun sem nokkur Íslendingur hefur nokkru sinni gert til að lýsa aktúel hlutum“ (110). Lýsa því sem mestu varðar í samtímanum. Hér rekur hvað annað. Samherji Elíasar í róttækni þeirra tíma, Bjarni Benediktsson frá Hofteigi, var í þann mund sem fyrri hluti Sóleyjarsögu kom út mjög í þeim ham að vilja sjá í skáldskap hvetjandi framlag til baráttunnar. Og á það fannst honum í ritdómi í Þjóðviljanum mjög vanta í verki Elíasar, þar sé alþýðufólk alls vesælt og ekki til stórræða. Ragnar stendur sig illa og auglýsir ekki. Elíasi finnst hann ekki njóta sannmælis. Hann nær að vísu einskonar sáttum við Þórð og Ragnar með útkomu Saman lagt spott og speki 1960 svo sem fyrr segir frá. En hann þagnar sem rithöfundur um langan tíma.
Mannkostir og brothætt sjálfstraust
Seint yrði greint frá öllum þeim þáttum sem hér koma saman. Elías skortir uppörvun. Í rauninni hafa bæði meistari hans Þórður, útgefandinn Ragnar og samherjinn í gagnrýnandahópi, Bjarni frá Hofteigi, brugðist honum, hver með sínum hætti. Svo er annað: hann er fátækur maður og á oft í mesta basli við brauðstrit – um 1960 ræður hann sig í fast starf sem prófarkalesari við Þjóðviljann. Bóhemalíf með brennivíni tekur sinn líka toll, þótt Elías sjálfur vilji gera sem minnst úr þeim þætti þegar hann er um spurður. [13] Afneitun er að sönnu fastur liði í tilsvörum þeirra sem eru á sveimi á hjarni alkóhólismans. Öllu þessu gerir Þorsteinn Antonsson nokkur skil. En svo er fleira.
Í fyrsta lagi: persónuleiki Elíasar sjálfs. Hann er engin rola. Hann svarar fyrir sig – til dæmis gerði hann það sem fádæmi eru: hann svaraði ritdómi Bjarna frá Hofteigi og færði rök að því, að einmitt hans lýsing á illa stöddu fólki í Sóleyjarsögu ætti sér sterkari rök í veruleika samtímans en óskhyggja gagnrýnandans um horskan verkalýð. [14] Hann svarar Ragnari í Smára og útskýrir fyrir honum í bréfi með eftirminnilegum hætti hve varnarlaus rithöfundur geti orðið. Ekki fyrst og fremst gagnvart beinum andstæðingum sínum heldur þegar hann „verður fyrir algjörri þögn; kæruleysi, afskiptaleysi, ómótíveruðum svikum“ (106). Elías krefst sanngirni. En hann er kannski of sanngjarn og hógvær maður sjálfur til að knýja hana fram? Hann er einn þeirra sem ekki verða grunaðir um græsku heldur gæsku. Hann er kurteis. Hann kennir ekki öðrum um illt gengi. [15] Hann ætlar mönnum ekki illt. Hann segir í bréfi til Ragnars í Smára: „Samkvæmt eðli mínu og uppeldi er mér ógjarnt að hugsa illa um aðra menn“ (108). Hann lætur Þórð yfir sig ganga með auðmýkt sem kannski mætti sjá í einhver sadómasókísk einkenni á sambandi þeirra. En ef til vill kemur þar fram, eins og í samskiptum við ýmsa aðra menn, einmitt hugarfar hins friðsama og velviljaða manns sem neitar að láta espa sig til reiði og hefnda. Hann svarar árásum Þórðar einkar ljúfmannlega. Sama hvernig þú lætur, segir hann í bréfi frá 1951 „þú munt aldrei heyra hnjóðsyrði um þig eftir mér“ (153). Hann segir í öðru bréfi til Þórðar frá 1951: „Í mínum augum er hver einasta lífvera mikils virði, hvort sem hún misskilur mig eða reynir að sýna mér óvirðingu“ (160). Það eru þessi viðhorf Elíasar, sem mætti bæði kalla kristileg og búddísk ef menn vilja – eða þá kenna við „heimspeki ömmunnar“ í íslenskum bókmenntum, sem mæla með honum sem persónu og vini. Og gera hann um leið sem mann og rithöfund varnarlausan í hörðum heimi frekjuhunda eins og þeirra frænda Þórðar og Ragnars, sem eru því vanastir að fara sínu fram, hvað sem hver segir.
Í öðru lagi: vera má að hans eigin sjálfsgagnrýni hafi ráðið miklu um að Elías „greip um kverkarnar á eigin söng“ eins og rússneska skáldið Majakovskij kvaðst hafa gert. Sjálfstraust má sverfa niður bæði að utan og innan. Skáld sem berst fyrir sínum stað á bókasafni heimsins er ekki í friði fyrir öðrum höfundum plássfrekum. Elías er af þeirri kynslóð höfunda sem stendur í skugga Halldórs Laxness og mikilla sigra hans. Þeir yfirburðir eru líklegir til að virka lamandi á skapandi þrótt skuggabúa. Annað er, að náinn vinur Elíasar í rithöfundastétt, Guðbergur Bergsson, tilheyrandi næstu kynslóð – hann hefur sloppið af halldórsgaleiðunni, hann fer sínu fram og nær að skrifa um „aktúel“ hluti með sérlega áleitnum hætti, eins og Elías taldi öðru nauðsynlegar [16] – og um leið að slíta sig frá skáldsöguhefð með mun róttækari hætti en Elías gerði sjálfur.
Elías lenti með skáldskap sinn milli steins og sleggju, milli kynslóða Halldórs og Guðbergs, milli raunsæishefðar og uppreisnar gegn þeirri hefð. Hann fann ekki þann tón, þann stíl, þá aðferð sem herti á „aktúaliteti“ metnaðarverks hans. Sóleyjarsögu. Svo er annað: Það er ljóst af mörgu í bók Þorsteins og öðrum gögnum að staða hommans eða hins bísexúala hefur, eins og eðlilegt er, verið miðlæg í hugsun og tilfinningalífi Elíasar. Sá eldur er heitastur brann á honum sjálfum. En hann lét ekki verða af því að gera þau mál að viðfangsefni sínu, þótt hann hefði haft hug á því í framhaldi skáldsögunnar Man ég þig löngum sem aldrei var skrifað. Þorsteinn Antonsson vitnar í minnisbók sem Elías skrifar „á gamals aldri“ m.a. þetta: „Ef vel væri þyrfti ég að skrifa mína eigin kynþroska- og kynlífssögu. En ég þori það varla“ (71). Ef til vill fannst honum að með því „hugleysi,“ eins og Þórður hefði kallað þögn hans, hefði hann brugðist sjálfum sér.
Skömmu fyrir andlát Þórðar Sigtryggssonar heimsótti ég hann á Landakotsspítala. Hann var hress í tali að vanda, sagði skrýtnar sögur, m.a. af „íslenskri skólastelpu í París“ sem þótti svo gott hold, að send var flugvél frá Englandi til að forða henni undan her Hitlers í stríðsbyrjun árið 1940. Hann vitnaði enn og aftur í vin sinn Erlend í Unuhúsi sem hafði sagt, að hann lifði meira lúxuslífi en nokkur miljónamæringur og sagði það mesta afrek sitt í lífinu að hafa lifað því án þess að lenda í fangelsi eða á Kleppi. Hann kvaðst enga virðingu bera fyrir dauðanum og ekki óttast hann. En svo bað hann mig að færa sér vatnssopa og sagði með undarlegri beiskju í röddinni:
„Mér þykir svo vænt um vatn. Þess vegna á ég engan vin.“
Þetta var ekki réttmæt kvörtun. Þórður var ekki einn vegna þess að hann tæki vatn fram yfir brennivín. Nær hefði verið að segja, að óhemjuskapur hans sjálfs hefði einangrað hann með ýmsum hætti, því flestir sem hann þekktu lærðu að halda sig í vissri fjarlægð frá honum vegna þess að aldrei vissu þeir á hverju þeir ættu von. En það verður ekki sagt um Elías. Hann var Þórði, þrátt fyrir allt, sá vinur sem varð honum að mestu liði, lífs og liðnum, sá sem aldrei fór með hnjóðsyrði um Þórð og leyfði öðrum heldur ekki að hallmæla honum í sín eyru.
Merkilegir menn voru þessir vinir tveir og mörg veður undarleg í þeirra samskiptum. Aðstæður þeirra og kjör voru vitanlega allt önnur en við nú þekkjum. Ein er sú bylting sem hefur vel tekist í okkar samfélagi, en það er gjörbreyting á stöðu samkynhneigðra sem yfir hefur gengið á fáum árum – og er svo komið að hátíð þeirra, Gay pride, er sú þjóðhátíð sem landsfólkið hlakkar mest til. Eftir er svo að skoða margt sem varðar stöðu þessa merka minnihluta á liðnum tímum. Sjálfum finnst mér ég taka mér bessaleyfi með því að fjasa um homma, sem gætu vel spurt með nokkrum þjósti: Hvað vilt þú hér upp á dekk? Ég hefi mér það til afsökunar, að ég þekkti mennina sem hér eru mættir á bókum. Einnig það, að mér hefur lengi fundist sérstaklega lærdómsríkt að skoða vel minnihlutamenn, sem eru undir meira eða minna fjandsamlegu fargi. Samkynhneigða, gyðinga, ýmsa þjóðernisminnihluta í þjóðrembuumhverfi, trúaða í guðlausu samfélagi, komma í auðvaldssamfélagi, andófsmenn í sovésku samfélagi.
Ýmiskonar tilvistarspurningar verða áleitnari við alla slíka hópa en við þá sem eru „normal“, sem almenningsálitið samþykkir. Þeir eru oftar en ekki undir þrýstingi í þá veru að þeir feli sína sérstöðu eða geri sem minnst úr henni: homminn fái sér konu, gyðingur breiði yfir nafn og númer, sá trúaði hafi hægt um sig, róttæklingurinn sé ekki meir en stofukommi, andófsmaðurinn haldi sér saman og þar fram eftir götum. Sumir kikna undan því fargi sem ef til vill skerpir vit og orku annarra, hvetur þá suma til sérkennilegs oflætis ( við erum betri en þeir!) en kennir öðrum merkilegar aðferðir í listinni að umgangast aðra menn. Einmitt minnihlutamenn verða einatt með ýmsum hætti salt mannlífsins, styrkja margbreytileika þess, skerpa liti þess, dramatísera leitina að svörum við sígildri spurningu: hver ert þú?
Árni Bergmann
Tilvísanir
- Árni Bergmann: Miðvikudagar í Moskvu. 1979, bls. 9.
- Hjálmar Sveinsson: Nýr penni í nýju lýðveldi. 2007, bls. 44.
- Elíasarbók. Sögur og ljóð Elíasar Mar. Þorsteinn Antonsson sá um útgáfuna, 2011, bls. 293.
- ÞS til ÁB 12.02.60.
- ÞS til ÁB 28.04.1957.
- Sama bréf. Blátt og rautt, bls. 231.
- Thor Vilhjálmsson, Andlit í spegli dropans, 1957, bls. 141.
- Blátt og rautt, bls 231.
- Samtal við ÞS. 1954.
- Ég á ekki síst við staðhæfingar Þórðar um að nafngreindir menn hafi stytt sér aldur vegna þess að þeir hafi í raun verið hommar.
- Sjá úttekt Peters Hallberg á handritum Atómstöðvarinnar, „Úr vinnustofu sagnaskálds“. TMM 2.–3. hefti 1953.
- Elíasarbók, bls. 229–303
- Nýr penni, bls. 122 og 132.
- Þjóðviljinn 1954, ritdómur Bjarna birtist 24. apríl, svar Elíasar þann 25. apríl.
- Nýr penni – Elías sýknar Bjarna frá Hofteigi – bls. 121 og afsakar Ragnar – bls. 142.
- Hér má hafa í huga ritdóm um skáldsöguna Brekkukotsannál sem Elías Mar skrifaði í Tímarit Máls og menningar árið 1957, en þar gerir hann það sem rithöfundar telja oft höfuðsynd gagnrýnenda: hann biður höfund, Halldór Laxness, um aðra bók en þá sem hann hafði skrifað. Allt vegna þess að Elíasi er svo mikið í mun að Halldór skrifi „nútímaskáldsögu í öllum merkingum þess orðs, aktúela túlkun þess tíma sem við lifum á, þess umhverfis sem við skynjum, þeirra viðhorfa sem nú ríkja og vandamála sem við blasa“ (bls. 181–182). Þó svo öðrum þætti slík saga „ljót“ og tæpast prenthæf!